Leita í fréttum mbl.is

Er búinn að fá upp í kok á ruglinu

Nú er enn einu sinni verið að fjalla um Vafningsfléttuna í fjölmiðlum, landsdómsmál Geirs tröllríður öllu og Baldur Guðlaugsson ætlar að sleppa við ákæru vegna meintra innherjasvika á tæknilegum formsatriðum.  Þessu til viðbótar er verið að skuldahreinsa stóran hluta þeirra aðila sem voru helstu gerendur í hruninu, en ekki má gera það sem nauðsynlegt er fyrir heimilin í landinu.  Ég verð að viðurkenna að ég er búinn að fá gjörsamlega upp í kok af þessu bulli.

Ég tel staðreyndir þessara mála vera:

  • Baldur Guðlaugsson væri ekki að reyna að losna frá málinu á tæknilegum atriðum, ef hann gæti sannað sakleysi sitt.
  • Bjarni Benediktsson væri ekki að reyna að losa Geir undan Landsdómi nema hann óttist það sem fram myndi koma í réttarhöldunum.
  • Vafningsfléttan er dæmi um svindl og lögbrot, sama hvernig litið er á það. 
  • Nýja bankakerfið er að losa helstu hrunverjana undan skuldum sínum, því annars munu þeir draga stóran hluta stjórnenda, og hugsanlega starfsfólks, nýju bankanna með sér.
  • Vinir og félagar eru á fullu að bjarga mönnum sem settu Ísland á hausinn vegna þess að annars kemur hlutur þeirra í ljós.

Rjúfa verður þögnina

Sem betur fer er stór hópur fólks hér í þjóðfélaginu sem ekki er sátt við þá þöggun sem er í gangi.  Hallgrímur Helgason á hrós skilið fyrir sín skrif um Vafningsmálið.  Sturla Jónsson er á fullu að fletta ofan af samtryggingunni innan dómskerfisins, þar sem dómarar kveða upp hvern úrskurðinn á fætur öðrum gegn almenningi og labba svo inn á skrifstofu sína með lögmönnum fjármálafyrirtækjanna til að eiga gott spjall saman (frásögn Sturlu af málum).  Guðmundur Ásgeirsson og Ragnar Þór Ingólfsson eru að fletta ofan af lífeyrissjóðunum og verðtryggingarruglinu.  Lára Hanna Einarsdóttir er óþreytandi í að birta áhugaverðar upplýsingar um svikamyllur.  Sjálfur hef ég ruggað bátnum nokkrum sinnum.

Mörgum sinnum hefur mér verið sent efni í trúnaði, sem ég hef stundum ekki mátt nota.  Hinu hef ég reynt að koma á framfæri án þess að upplýsa hver sendandinn er.  Sumt er hreinlega ekki hægt að tala um án þess að ljóstrað sé upp um heimildarmanninn.

Allir bankarnir ógjaldfærir 2007

Eftir að hafa lesið og hlustað á óteljandi fréttir, pistla, greinar, bækur og sögur, þá er ég þess handviss að bankarnir þrír, þ.e. Landsbanki Íslands, Kaupþing banki og Glitnir voru allir orðnir ógjaldfærir frá miðju sumri 2007 og fram í nóvember. 

Ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að Glitnir hafi fyrstur orðið ógjaldfær og það í júlí eða ágúst 2007.  Lárus Welding getur betur svarað því, hvenær það gerðist nákvæmlega, en hann lagði, samkvæmt mínum heimildarmanni, fyrir stjórn Glitnis tillögu í ágúst eða september 2007 um að farið yrði í brunaútsölu á eignum.  Bankinn yrði brotinn upp og allt selt sem hægt væri að koma í verð.  Þetta væri eina leiðin til að bjarga bankanum frá yfirvofandi þroti.  Bjarni Ármannsson ætti líka að geta staðfest þetta, þar sem ráðgjöfin kom frá honum.  Stjórn Glitnis og helstu eigendur höfnuðu þessu, þar sem með því yrði aðgangur þeirra að fjármagni verulega skertur og þeir sáu fram á að tapa eignum sínum.  Í staðinn fór í gang ótrúlega flétta, sem fólst í því að safna peningum inn í peningamarkaðssjóði bankans svo hægt væri að kaupa "ástarbréf" af fyrirtækjum helstu eigenda bankans.  Hringt var gengdarlaust í fólk með innstæður á bankareikningum og nuðað í því að færa þá í peningamarkaðssjóðina.  Dæmi voru um að hringt hafi verið daglega í fólk, þar til það gafst upp á nuðinu.  Ég hef rætt við nokkra starfsmenn sem stóðu í þessu og líður engum þeirra vel með þetta.  Þeirra staða var að vinna vinnuna sína eða vera rekinn.  Ég held að samviska margra þeirra væri betri í dag, ef þeir hefðu valið síðari kostinn.

Varðandi Landsbanka Íslands, þá herma mínar heimildir að bankinn hafi verið orðinn ógjaldfær síðla hausts.  Raunar þarf engan heimildarmann til að sjá þetta út.  Um leið og krónan lækkaði haustið 2007 varð Landsbanki Íslands ógjaldfær.  Hér er um einfalt reikningsdæmi að ræða.  Bankinn safnaði háum upphæðum inn á Icesave reikningana í Bretlandi 2006 og 2007 meðan gengið var tiltölulega sterkt.  Nær undantekningarlaust fór þessi peningur beint inn á gjaldeyrismarkað og rann því sem íslenskar krónur inn á eignarhlið bankans.  Þegar krónan lækkaði haustið 2007, þá myndaðist verulegur halli á virði innstæðna í íslenskum krónum og eigna bankans til að greiða þessar innstæður.  Í staðinn fyrir að reyna að vinda ofan af þessu, þá fór LÍ sömu leið og Glitnir, þ.e. byrjaði að narra fólk til að flytja peningana sína úr öruggu skjóli, þar sem bankinn komst ekki í þá, yfir í áhættustöður, þar sem bankinn beindi þeim nær samstundis yfir til sérvalinna viðskiptavina.

Haustið 2007 var farið að sverfa verulega að lausafjárstöðu Kaupþings.  Þegar ljóst var hvert stefndi, þá sýnt að draga þurfti verulega úr útlánum og jafnvel skrúfa alveg fyrir þau.  Bankinn réð á þeirri stundu ekki við að greiða sínar eigin skuldir, að sögn heimildarmanns, og því var gripið til þessara ráða.  Þetta féll í grýttan jarðveg hjá helstu eigendum enda voru þeir allir sem einn komnir í mjög erfiða lausafjárstöðu.  Því var ákveðið að hlaupa undir bagga með elítunni, en skrúfa fyrir almenning.  Á fundi í lánadeild Kaupþings í nóvember 2007 voru gefin skýr fyrirmæli um að hætta útlánum til almennings (sjá færslu hjá Daða Rafnssyni á vefnum Economis Disaster Area).  Áfram var haldið að lána til elítunnar og fóru slíkar upphæðir út til þeirra, að líkast var sem menn byggjust ekki við að sól risi daginn eftir.  Mínir heimildarmenn segja alveg öruggt að ekki hafi verið gert ráð fyrir að þetta fé yrði endurgreitt.  Verið var að tæma bankann innan frá.

Almenningur borgar brúsann

Þessar aðgerðir sem ég lýsi að ofan voru undanfarinn að hruni krónunnar og verðbólgunnar sem gaus upp að fullu árið 2008.  Þess vegna vill almenningur að nýju kennitölur bankanna þriggja gefi eftir þá hækkun lána sem af þessu leiddi.  Starfsmenn, stjórnendur, stjórnarmenn og eigendur Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings banka höfðu á nokkrum mánuðum síðsumars og fram á haust 2007 staðið í slíkum svikum, blekkingum, prettum og lögbrotum, í þeim eina tilgangi (að því virðist) að sérvaldir viðskiptamenn gætu tæmt sjóði bankanna, að okkur hinum finnst hreinlega frekulegt að við eigum að borga brúsann.

Það fáránlega við háttsemi bankanna þriggja á seinni hluta árs 2007 er, að Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki Íslands og bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnum finnst ekkert óeðlilegt við hana.  Það virðist nefnilega vera löglegt að beita svikum, blekkingum, prettum og lögbrotum sé það gert í nafni fjármálaþjónustu.  Neytendur fjármálaþjónustu eru ekki varðir fyrir óheiðarleika og vanhæfi og þess síður svikum, blekkingum, prettum og lögbrotum fjármálafyrirtækja.  Nei, þegar viðskiptavinirnir gera þá sjálfsögðu kröfu að farið sé að lögum, þá koma ríkisstjórnir, Fjármálaeftirlit og Seðlabanki Íslands hinum brotlegu til varnar.  Já, það er gott að vera alvöru fjárglæframaður á Íslandi, þegar klappliðið er svona skipað með núverandi forsætisráðherra sem aðalklappstýru.

Viðbót kl. 21:45

Mynd um þróun nýrra lána til íbúðakaupa.

utlan_til_ibu_akaupa_1132455.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nauðsynlegt er fyrir alla sem vilja skilja ruglið betur að lesa grein Hallgríms Helgasonar og síðan grein Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar frá 26. febrúar 2008, þar sem þeir félagar vara við hruninu (að eigin sögn).

Marinó G. Njálsson, 27.1.2012 kl. 17:01

2 identicon

Heyr Heyr!

Orð í tíma töluð.

Ég er sannfærður um hreinsa þarf út af þessari ruslakistu mannlegrar reisnar(Alþingi Íslendinga) svo sannleikurin komi í ljós. Það er engin áhugi hjá þingmönnum að segja satt eða breyta rétt.

Eins má velta fyrir sér á hvaða leið Óli spes er á? Af hverju kemur ekkert frá þeirri stofnun mörgum árum eftir brotin urðu ljós? Vilji er allt sem þarf!

Þetta eru stór orð en þolimæðin er þrotinn, viljaleysi æðstu stofnana er yfirþyrmandi. Auðrónar vaða uppi sem aldrei fyrr með krumlurnar á kafi í vösum almennings, stjórnmálastéttin stendur hjá og notar blinda augað.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 17:13

3 identicon

Stóra málið á þessu landi í dag og síðustu áratugi eru gjörsamlega ónýtir dómstólar og saksóknarar. Hvort það er allt spilling eða sambland af spillingu, getuleysi og leti veit ég ekki en það er alveg klárt fyrir hvern þann sem vill lesa niðurstöður dómstóla að þær eru nánast alltaf rangar og menn hagnast gríðarlega sem dæmdir eru sekir. Heiðarlegt fólk á sér ekki viðreisnar von hér á landi.

Tryggvi Marteinsson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 17:24

4 identicon

Það eina sem vantar að rannsaka er þáttur þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu) í þessum fléttum öllum. Höfðu fjármagnseigendur s. s. tangarhald á öllum flokkum á þingi? Þorði enginn að takast á við þessa aðila (og þora ekki enn)? Læt hér fylgja lítið lag sem lýsir kannski að hluta til hvernig almenningi gæti liðið! "Hversdagsbláminn" með hljómsveitinni Lame Dudes

Hannes Birgir Hjálmarsson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 17:26

5 identicon

Hér er "Hversdagsbláminn"

http://www.youtube.com/watch?v=Lo-6IlkJpFc

Hannes Birgir Hjálmarsson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 17:28

6 identicon

2008: "Það styttist í ákærur".

2009: "Það styttist í ákærur".

2010: "Það styttist í ákærur".

2011: "Það styttist í ákærur".

2012: "Það styttist í ákærur".....

Á meðan Alþingi er troðið út úr dyrum af mútuþegum fjórflokksins breytist ekki neitt.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 18:05

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Takk Marinó

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.1.2012 kl. 18:10

8 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Marino. Takk fyrir þessi upplýsandi skrif. Það er ekki undarlegt að þú sérst kominn með upp í kok, eftir allt stritið við aftökukerfið.

Hagsmunasamtök Heimilanna, Sturla Jónsson, Guðmundur Ásgeirsson og Ragnar Þór Ingólfsson eiga heiður og þakkir skilið fyrir sína þrotlausu baráttu fyrir réttlætinu og sannleikanum.

Bankarán "siðmenntaða" Vestursins er ekkert grín, og tortímir öllu eðlilegu samfélagi ef enginn berst gegn því!!!!

Kaup(a)þing(ið), var hráasti húmor mafíunnar, við nafnagjöf á ræningjastofnunum (bönkunum).

Lífeyrissjóðs-verðtryggingar-ræningjastofnanirnar eru ekki enn komnar með svona "flott" eldskírnar-nafn!!! Heimilin, sem eru hornsteinar samfélagsins, brenna í boði lífeyrissjóðs-mafíu FALDA VALDSINS, og sundrung þjóðarinnar hjálpar mafíunni við ránin og níðingsverkin á almenningi!!!

Dómstólarnir hafa svo að sjálfsögðu aldrei fengið leyfi frá FALDA VALDINU, til að gæta réttlætis á Íslandi, frá því þær stofnanir voru gangsettar.

Almenningur getur leyst málin ef allir standa saman, og hætta að trúa því sem er augljós lygi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.1.2012 kl. 18:25

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Marínó algjörlega sammála þér.  Þetta með vantraust á vantraust í þinginu  var skiljanlegt, því málið þótti þingtækt, hitt er svo allt annað mál hvort tillaga Bjarna Ben verði samþykkt. Ég er algjörlega sammála þér með að þetta er flétta og leikur að sannleikanum og við öll almenningur erum búin að fá upp í kok af þessum skrípaleik.  Hingað og ekki lengra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2012 kl. 18:55

10 identicon

Takk fyrir þinn óbugandi kraft Marinó að afhjúpa keisarahirðina.

Við erum mörg sem komin eru með upp í kok af hinu samansúrraða kerfi ríkisvalds og stofnana þess með fjárglæpamönnum.  Þetta mun ekki og getur ekki gengið svona mikið lengur.  Meðvitund almennings er ekki lengur einhver "gut-feeling", heldur algjör fullvissa um viðbjóðslega og ógnandi aðför að hag og lífsafkomu hins óbreytta borgara þessa lands.  Þá mun fyrr en síðar eitthvað undan láta. 

Ég er þess fullviss að allt þetta sjúka kerfi, sem þjónar einungis sinni eigin siðblindu græðgi, drambi og hroka, er á fallandi fæti.  Tími heiðarlegs uppgjörs mun renna upp, miklu fyrr en síðar, því þetta helvíti gengur ekki lengur.  Þegar ríkisvaldið gengur beinlínis gegn almenningi, þá er alltaf stutt í byltingu. 

Thomas Jefferson sagði að mannkynssagan sýndi okkur það, að sama hversu gott ríkisvaldið væri hverju sinni, að fyrr en síðar breyttist það vald í "tyranní".  Við erum komin að þeim tíma í okkar sögu, að svo er komið. 

Nú er kominn tími uppgjörs, til alvöru umbyltingar á ríkisvaldinu, þannig að það sé fyrir hinn almenna borgara, en ekki fjárglæpastofnanir og kerfisvarða þjófa og stórglæpamenn.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 19:57

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mæl þú manna heilastur Pétur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.1.2012 kl. 20:14

12 identicon

Þakka þér Marínó.

Hlédís Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 20:24

13 identicon

Takk sömuleiðis Ásthildur.

Martin Luther King sagði, í anda frægra orða George Orwell um að ríkisvaldinu væri beitt til þess að gera suma jafnari en aðra:

"We all to often have socialism for the rich and rugged free market for the poor."

Er nema von að við spyrjum um merkingu skrípaleiks alls fjórflokksins, vinstri/miðjumoðs/hægri, eða út og suður, eða norður og niður, þegar ríkisvaldið er orðið svo sið-vanað, að það gætir einungis hagsmuna svínastíunnar, en ekki hins heilbrigða gróanda til lífs og hagsbóta fyrir allan almenning.  Hver er tilveruréttur slíks ríkisvalds????

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 20:56

14 Smámynd: hilmar  jónsson

***** þ.e. Fimm stjörnu pistill.

hilmar jónsson, 27.1.2012 kl. 20:58

15 identicon

Ég er sammála hverju orði. Þú ert ekki einn um það að vera búinn að fá upp í kok.Frábær pistill.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 21:15

16 Smámynd: Dexter Morgan

Algjörlega sammála þér Marinó og flestum sem hér rita.

Og þá stendur eftir spurninginn: "HVAÐ ÆTLUM VIÐ OKKUR AÐ GERA Í ÞESSU".

Ætlum við að vera þrælar bankanna alla okkar tíð, eða ætlum við að ná fram réttlæti, og þá hvernig, hverjir og hvenær.

Dexter Morgan, 27.1.2012 kl. 21:16

17 identicon

Sammála Hilmari Jónssyni.  Þetta er fimm stjörnu pistill.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 21:17

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég þakka góðar viðtökur. 

Tekið skal fram, að ekki er um nýjar upplýsingar að ræða heldur samantekt á áður birtum upplýsingum.

Ég reikna með að bankamenn muni neita þessu og ekkert um það að segja.  Þeir segja hvort eð er aldrei sannleikann.

Varðandi athugasemd sem kom á facebook um bankamanninn sem kom heim í febrúar og átti von á því að Glitnir lifði ekki af helgina, þá er líka  til álíka sögur frá Landsbanka Íslands frá mars 2008. Hvort þær komu fram í rannsóknaskýrslunni, en þá voru það seðlabankamenn sem stóðu með öndina í hálsinum alla helgina og bjuggust við að bankinn myndi ekki opna á mánudegi.

Marinó G. Njálsson, 27.1.2012 kl. 21:31

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Bætti við færsluna mynd sem ég fékk senda um þróun lána bankanna þriggja til íbúðakaupa.  Á henni sést skýrt og greinilega hvernig öll útlán hættu haustið 2008.

Marinó G. Njálsson, 27.1.2012 kl. 21:47

20 Smámynd: hilmar  jónsson

Dexter spyr réttmætrar spuningar.

Það er eins og allur máttur sé úr þjóðinni þrátt fyrir vitneskjuna um það hverju samtakamátturinn getur náð fram. sbr Búsáhaldabyltinguna . Af hverju er fólk ekki að grúppa sig saman til aðgerða gagnvart þessari þjóðarnauðgun ?

Hvað með margumtöluð mótmæli við bankana eða Alþingi ?

Eða erum við endanlega sest í sófann ?

hilmar jónsson, 27.1.2012 kl. 21:55

21 identicon

"Já, það er gott að vera alvöru fjárglæframaður á Íslandi, þegar klappliðið er svona skipað með núverandi forsætisráðherra sem aðalklappstýru"

Já, sjálfri Jóhönnu Sigurðardóttur sem sat ásamt Geir H. Haarde, Árna Mathiesen og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Ríkisfjármálanefnd hrunstjórnarinnar. 

Er nema von að forsætisráðherra þurfi nú að fjölga "upplýsingafulltrúum" á kostnað skattborgara til að blessa sinn heilaga spuna í stíl Vafninga og gjörninga siðspillts ríkisvaldsins og eftirlitsiðnaðar þess????

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 21:56

22 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Takk fyrir þetta Marinó. Ég er löngu tilbúin fyrir byltingu í anda Frakka.

Ragna Birgisdóttir, 27.1.2012 kl. 22:27

23 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég hef líka staðfestar upplýsingar um hegðun bankastjóra Landsbankans fyrri hluta árs og sumarið 2008. Laxveiðiferðir og veislur á kostnað bankans aðra hverja helgi með miklum lúxus. Þeir vissu alveg í hvað stefndi og voru að úthluta sjálfum sér þessum gæðum á meðan þeir gátu. Ég neita staðfastlega að bera kostnaðinn af því.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.1.2012 kl. 22:34

24 identicon

... Marinó... lágt leggstu... í dylgjum um frænda þinn BBen ...

...þú notar sömu aferðina og notuð var á þig... af sömu aðilum... og þegar þú sagðir af þér formennsku Hagsmunasamtaka Heimilanna... en hlesti munurinn að þeir höfðu þá rétt fyrir sér um skuldastöðu þína... en ekki nú um meinta saknæma aðild BBen eingöngu sem lögfræðings og umboðsmanns föður og föðurbróður BBen...




...Hallgrímur fénýtir sér nýlega umkomuleysi nafngreindar gamallar "1000°C konu"... sem bjó í bílskúr ...

... pantaða lygasögu... framleidda fyrir Frankfurt bókamessuna ... sem hann reyndi síðan að endurbreyta fyrir íslenskan markað... og draga úr íþyngjandi lygaþvælunni... fyrir afkomendur konunnar ... sem hann steikti við 1000°C ...

... Hallgímur var leigupenni hæstbjóðenda fyrir hrun... og r...uddi brautina fyrir "1000 milljarða manninn"... með því að afvegaleiða umræðuna... og benda á Davíð... á meðan auðhringur 1000 milljarða mannsins tæmdi alla banka landins ...

... nú vill Hallgrímur meina að BBen hafi gert slíkt hið sama... með hinu liðinu... og "vitað"... "rang dagsett skjöl" ofl... aftur í tímann ...

... BBen hafði engra persónulegara hagsmuna að gæta í veðsetningum föður og föðurbróður í feb 2008 vegna veðkalls Morgan Stanley NY... vegna lána til kaupa á hlutabréfum í Glitni ... BBen var eingöngu lögmaður og umboðsmaður þeirra ...

..."Vikurnar eftir 12. febrúar seldi Bjarni Benediktsson öll sín hlutabréf í Glitni, að andvirði um það bil 120 milljóna, að sögn DV. „Umrædd hlutabréf voru seld smám saman í febrúarmánuði 2008,“ sagði Bjarni við blaðið þann 2. apríl 2011.“"... skrifar Hallgrímur ...

... ef Hallgrímur þekkti til hlutabréfaviðskipta... þá ber sala BBen á glitnisbréfum með sér að BBen hefur ekki "panik-selt" Glitnisbréfin... heldur sett hátt lágmarksverð á þau... og síðan beðið eftir kaupendum... sem hafa á löngum tíma keypt... þegar dagsgengið hækkaði... upp í lágmarkið sem BBen hefur sett ...

... ekkert óeðlilegt er við sölu BBen í Glitni ...

... Hallgrími finnst sanngjarnt að draga fjármála umsvif föðurbróður BBen... fv stjórnarformanns Glitnis... inn í umræðuna um BBen...

... telur Hallgrímur menn ábyrga fyrir gerðum föðurbræðra sinna? ...

... hér fer Hallgrímur með dylgjur um ólöglegt athæfi BBen... að BBen hafi falsað dagsetningar...

... hvað hefur Hallgrímur fyrir sér í því? ...

... hvorki Rannsóknarskýrsla Alþingis... né sérstakur saksóknari telja aðkomu BBen að veðsetningum föður og föðurbróður varða við lög ...

... hvaða hefur 1000 milljarða pennin fyrir sér? ...


...

Jóhann Gunnarsson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 22:50

25 identicon

Sæll Marínó og takk fyrir greinina og greininguna sem er mjög góð.

ég man ennþá eins og það hafi gerst í gær þegar Bjarni Ben sagði blákallt

framann í myndavélina í Kastljósii : ÞAÐ ER EÐLI BANKA AÐ GRÆÐA OG TAPA.

Ómar S Hersir (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 23:06

26 identicon

Sæll veriði þarna upp á Íslandi er með ykkur í anda,, sendi hérna ljóð eftir Stephan G. Stephansson.

Þín fornöld og sögur mér búa í barm

og bermál frá dölum og hörgum,

Þín forlög og vonir um frægðir og harm

Mér fylgja á draumþingum mörgum.

Þinn svipurinn ljúfi,þitt líf og þitt mál,

í lögum þeim hljóma er kveður mín sál.

Ég óska þér blessunar, hlýlega hönd,

þó héðan þér rétt geti ei neina,-

og hvar sem ég ferðast um framandi lönd,

ég flyt með þá vonina eina:

Að allt sem þú föðurland, fréttir um mig,

sé frægð þinni að veg,-því ég elskaði þig.

 Vonna að þetta geri gott í allri barátunni.

Pálmi Þór í Köben, síðan 28,10,2008.

ekki bankamaður.

Pálmi Þór Ívarsson (IP-tala skráð) 27.1.2012 kl. 23:11

27 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Takk Marinó. Þú hefur verið fjári góður síðuta dagana og þetta er í senn gagnleg samantekt og drjúg viðbót við það.

Helgi Jóhann Hauksson, 27.1.2012 kl. 23:39

28 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hlekkur á grein Hallgríms?

Brjánn Guðjónsson, 27.1.2012 kl. 23:51

29 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Gott fólk.  Ég er búinn að eyða mörg hundruð klukkutímum í að fara "réttu leiðina" þ.e. lesa lög, skrifa bréf til míns lánveitanda, skrifa til Fjármálaeftirlitsins, hlusta á bullið í Alþingismönnum, endurtekningarnar í fréttunum af fjárglæfrum, kæra til Neytendastofu, áfrýjunarnefndar neytendamála, umboðsmanns Alþingis og nú síðast til sérstaks saksóknara sem vísaði kærunni frá "þar sem telja mætti hæpið að huglæg afstaða kærðu við og í kjölfar samningsgerðar uppfyllti ákvæði um saknæmi við meðferð refsimála og ásetning til brota" þannig að skilyrði almennra hegningarlaga væru uppfyllt til að hefja lögreglurannsókn.  Í niðurlagi bréfsins var mér bent á að ég geti kært niðurstöðu sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara.  Ég hef þegar samið þá kæru.

Nú ætla ég ekki að upphefja mína vinnu í eigin þágu umfram annarra mér þekktari manna, en mér er það dagljóst efitr mína vegferð að réttlæti í íslensku stjórn- og réttarkerfi er ekki til staðar og um frekari leiðréttingar til handa almenningi verður ekki að ræða.

Ég vil því taka undir með Dexter og spyrja:  Hvað ætlar fólk að gera í málinu?!!

Erlingur Alfreð Jónsson, 27.1.2012 kl. 23:53

30 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég tek það skýrt fram að Erlingur er einn af þessum mönnum sem rutt hefur brautina fyrir marga með vinnu sinni.  Þeir eru raunar svo margir einstaklingarnir sem lagt hafa sitt lóð á vogarskálarnar að ómögulegt er að nefna alla.  Rakel Sigurgeirsdóttir er óþreytandi í að halda opinni umræðu.  Björn Þorri Viktorsson er múrbrjótur í réttarsalnum.  Þeir Pacta menn rufu haftið vegna gengistryggðu lánanna.  Það eru sannar hetjur út um allt, en við gerum þetta ekki án stuðnings og hjálpar.  Þó við vinnum stóra sigra í okkar litla rými, þá eru þeir bara litlir í stóra samhenginu.

Hvað ætlar fólk að gera í málinu, spyrja Erlingur og Dexter.  Meðan við látum hlutina ganga yfir okkur, þá nærist skrímslið.  Við verðum að hætta að næra það.  Svelta það til bana með því að ganga gegn því, mótmæla, standa á rétti okkar.  Láta skrímslið hafa fyrir hlutunum.  Verð með færslu fljótlega, sem mun fá bankana til að svitna.  Hún snýst um að greiða ekki af lánum nema að stimplað sé á skuldabréfið.

Marinó G. Njálsson, 28.1.2012 kl. 00:05

31 identicon

Þetta er alveg einstaklega fróðlegur og góður pistill. Afhjúpar ekki bara að bankarnir voru farnir á hausinn fyrir löngu, heldur afhjúpar líka hve illa stjórnvöld standa sig nú þegar allt er komið upp á yfirborðið. Það eru mestu svikin við þjóðina að bregðast ekki við þegar glæpnum þegar hann hefur verið afhjúpaður.

Því miður er það svo að meðan fjármálakerfið og stjórnvöld geta kjaftað þjóðina til hlýðni gerist ekkert. Þess vegna er ofbeldi eina leiðin til breytinga. Það er ekki fallegt að hugsa svona eða segja þetta en svona ljótur er sannleikurinn, því miður.

Jón (IP-tala skráð) 28.1.2012 kl. 00:10

32 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyr Heyr! Mæl þú manna heilastur Marínó.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.1.2012 kl. 00:10

33 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Hversu mörg skuldabréf gengislána, hafa bankarnir selt ?

það kemur í ljós, þegar þeir fara að fylgja íslenskum lögum og stimpla greiðslur á skuldabréfin. Því byrja þeir ekki á, fyrr en löghlíðnir lántakendur gera lögbundnar kröfur á þá gjörning.

Eggert Guðmundsson, 28.1.2012 kl. 00:28

34 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þakka kommentið Marinó.

Eggert:  Gengistryggðu lánin eru alveg sérkapítuli.  Þeir sem vita betur leiðrétta mig ef ég fer rangt með en mér var sagt um daginn af mönnum sem ég tel áreiðanlega að öll gengistryggð íbúðalán væru ekki geymd á venjulegum lánahöfuðbókum bankanna eins og önnur lán heldur í einni tölvu í aðalútibúi hvers banka.  Það er víst ekki hægt að fara í gjaldkerastúku í bankaútibúi og ætla að greiða inn á slíkt lán því gjaldkerar finna þau ekki í tölvukerfum bankanna.  Nú hef ég ekki séð innheimtuseðla vegna þessara lána en mér er sagt af ótengdum aðilum að innheimtuseðlar séu ekki venjulegir greiðslu- eða gíróseðlar heldur eitt A4 blað. 

Það er eitthvað mikið gruggugt með umsýslu þessara lána og ekki öll kurl komin til grafar þar.

Erlingur Alfreð Jónsson, 28.1.2012 kl. 00:56

35 identicon

Blessaður Marino

og þakka þér góð skrif nú sem svo oft áður. EINA ljósið í ruglinu eruð þið sem haldið ótrauð áfram að blogga og skrifa greinar um málin. Til þess þarf kjark. Kjark, sem hrein ekki allir hafa.

Ég er atvinnulaus og hef undafarna mánuði farið á ýmsa fundi hjá atvinnumálastofnun og m.a., á námskeiðið Nýttu kraftinn sem Sigríður Snævarr eiginkona Kjartans Gunnarssonar heldur. Alls staðar er okkur sagt að passa vel HVAÐ við bloggum og setjum á facebook. Grímulaust talað um að við eigum ekki að vera að "tuða" opinberlega um hrunið eða stjórnmál. Vinnuveitendur geti kannski séð þetta og það geti hreinlega haft MIKIL áhrif á hvort maður fái vinnu eða ekki. Margir þora alls ekki að setja inn athugasemdir við blogg og fréttir þar sem krafist er facebook "kennitölu". Ég þekki þetta vel sjálf og það er ekkert sem þjónar þögguninni jafnvel og facebook innleggin við fréttir og blogg af þessum málum.

Hafðu ævarandi þökk fyrir þinn kjark og blogg - það er enn von á meðan við eigum fólk sem þorir og setur sig inní málin.

"Jóna Jóns" (IP-tala skráð) 28.1.2012 kl. 01:14

36 Smámynd: Andrés.si

Þú komst með alt á borð. Það er bara eitt sem vantar.  Einfalt orð,  hrýðjuverk gagnvart þeim sem borga brúsan, gagnvart þeim sem yfirgáfu land, gagnvart þeim, sem hafa veikst,  þeim sem hafa farið í skilnað, misst fyrirtæki, eignir,  og lika gagnvart þeim sem tóku sig líf og látið eftir sér börn. Það börn eru sama og munnaðarleysingar eftir stríðs árunum. 

Andrés.si, 28.1.2012 kl. 02:23

37 Smámynd: Villi Asgeirsson

Takk fyrir pistilinn, Marinó. Ef uppgjörið kemur ekki að ofan, verður það að koma frá fólkinu.

Villi Asgeirsson, 28.1.2012 kl. 08:57

38 identicon

Marinó þú ert búinn að skrifa margar góðar greinar. Takk fyrir að gefast ekki upp ! Vona að þú verðir einhversstaðar þar sem ég get kosið þig :-)

Gunnar Þórarinsson (IP-tala skráð) 28.1.2012 kl. 09:45

39 Smámynd: Óskar Aðalgeir Óskarsson

Þakka þér fyrir góðan pistil Marinó,þú hefur verið óþreytandi ásamt fleirum að koma sjónarmiðum hins venjulega Jóns á framfæri. En það mun ekkert lagast í þeim efnum fyrr en búið er að moka upp úr þessari ótrúlegu samsuðuormagryfju spillingarinnar sem ræður öllu hér.

Óskar Aðalgeir Óskarsson, 28.1.2012 kl. 10:17

40 identicon

Takk fyrir alla þína vinnu. Hvað finnst þér um útspil Arion banka í gær? Voru þeir stjórnendur búnir að heyra af því sem þú ritar hér ofar

.......... " Verð með færslu fljótlega, sem mun fá bankana til að svitna.  Hún snýst um að greiða ekki af lánum nema að stimplað sé á skuldabréfið." tilv lýkur

Tímasetning þeirra er vel valin verð ég að segja í það minnsta.

Kv að austan

(IP-tala skráð) 28.1.2012 kl. 10:30

41 identicon

Þakka þér fyrir góðan pistil. Holl og góð lesning fyrir alla landsmenn. Hef þá tilfinningu að stjórnmálamenn treysti á skammtímaminni þjóðarinnar. Þess vegna situr Bjarni Ben sem fastast ásamt fleirum þingmönnum.

Finnbogi J. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 28.1.2012 kl. 10:57

42 identicon

Mestu efnahagsmistök sem gerð hafa verið á Íslandi, eru að vísitalan hafi ekki verið tekin úr sambandi, allavega tíma bundið strax eftir Hrun, og hverjir skyldu nú hafa komið í veg fyrir það?

Það er ekki nema ein leið út úr þessu verðtryggingarrugli,

þegar þessi lán voru tekin á síðasta áratug, var verbólgumarkmið Seðlabankans 2.5-4%, og á þeim forsendum voru þessi lán tekin, af vel flestum landsmönnum.

Þannig að það væri hægt að sættast á að fara bil beggja, að verðtryggingin verði fryst í 3.25% frá 1. jan. 2008 út árið 2011 og 2.25% árið 2012, og afnumin 2013.

90% skattur lagður á 170 miljar'ða hagnað bankanna frá stofnun þeirra.

Ástæðan er afar einföld, því það varð algjör forsendubrestur fyrir útreykningi víxitölunnar við Hrunið.

Að öðrum kosti verður að lögsækja bankana fyrir að halda ólöglegum gengisbundnum lánum að landsmönnum í 10 ár, sem þeim var vel kunnugt um í 10 ár, að væru ólögleg, og búin að valda landsmönnum gríðarlegu tjóni og hörmungum.

Síðan þarf sömuleiðis að lögsækja banka og lífeyrissjóði fyrir ólöglega reiknuð verðtryggð lán,þegar lögin og skuldabréfin segja að verðtryggja skuli greiðsluna, en ekki höfuðstólinn, Auðvelt er að færa fram sannanir fyrir þessum tveim málum.

Og ef ríkisvaldið fer ekki að ná áttum í þessu máli verður að fara í að boða tímabundin alsherjarverkföll um land allt, þar til kosið verði nýtt Alþingi, og nýtt fólk kosið að stýra landinu.

Halldór Björn (IP-tala skráð) 28.1.2012 kl. 12:08

43 identicon

Það er ómetanlegt að hafa svona upplýsingaveitu eins og þig Marinó.

Hafðu þakkir fyrir.

JR (IP-tala skráð) 28.1.2012 kl. 12:51

44 identicon

 Nú þarf að fara fram með aðgerðir:

1. Krafan er að verðtrggingin frá jan 2008 hækki ekki umfram verðb.markmið SÍ. frá hruni.

2. Vertrygging lána afnumin fyrir fullt og allt strax.

3. Vextir húsnæðislána verði í samræmi við  vexti í helstu viðskipta og nágranalöndum.

4.Gengisskráningin verði færð að 30 ára meðaltali.

Þetta skeður ekki átakalaust, hausar stjórnanda munu fjúka.

Þolimæðin er þrotin, það er komin tími aðgerða, Ísland fyrir almenning!

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 28.1.2012 kl. 12:59

45 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

@ "Jóna Jóns" Alls staðar er okkur sagt að passa vel HVAÐ við bloggum og setjum á facebook. Grímulaust talað um að við eigum ekki að vera að "tuða" opinberlega um hrunið eða stjórnmál.

Ég hef sótt tvö námskeið á vegum Vinnumálastofnunar, á hvorugu þeirra var neinn heilaþvottur í gangi, á öðru þeirra fóru meira að segja fram í pásum og spjalli meðal þáttakenda opinskáar og gagnrýnar umræður um framferði stjórnvalda og fjármálafyrirtækja. Ég leyndi því ekki að ég væri starfandi með Hagsmunasamtökum Heimilanna, og fékk góðar undirtektir við því.

Ef það er hinsvegar tilfellið að á einhverjum slíkum vettvangi sé verið að stunda einhverskonar þöggun, þá vil ég einfaldlega skora á þig að stíga fram í dagsljósið og skýra frá því við fólks sem þú berð þú berð traust til og fá ráðleggingar um hvernig best sé að standa að slíku. Ef við leyfum þöggun að viðgangast þá munu þöggunaröflin einfaldlega hafa yfirhöndina. Eina leiðin til að sigrast á meðvirkni er að brjótast út úr henni, og til þess þarf vissulega ákveðið hugrekki. Vertu samt viss um að til er fjöldi fólks sem er í svipuðum sporum og myndi sýna þér samstæðu, auk þess sem það er miklu betra að stökkva en hrökkva, þegar maður hefur á annað borð stokkið einu sinni af stað.

Ég þekki fólk sem hefur átt verulega undir högg að sækja á köflum fyrir það eitt að standa móti storminum, en hefur risið á fætur eftir slíkar hviður og haldið áfram. Margt af þessu fólki er enn að berjast og eflist með hverju skrefinu sem það tekur.

Láttu engan segja þér að þú eigir að samþykkja óréttlæti. Einelti er ekki boðlegt í samfélagi siðaðra einstaklinga.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.1.2012 kl. 18:33

46 identicon

Ég mæli með því af fólk muni í næstu kosningum hver gerði hvað bæði fyrir og eftir hrun... Einnig mæli ég með því að fólk fari í gjaldþrot frekar en 110% leiðin Gjaldþrot kostar 250.000 og tekur 2 ár... 110% leiðinn tekur alla ævina og verðmiðinn er óljós., en hann hleipur örugglega á tugum milljóna fyrir hvern og einn... Kominn tími á uppreysn.. Ekkert minna!

Friðgeir Sveinsson (IP-tala skráð) 28.1.2012 kl. 19:52

47 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jóhann Gunnarsson skrifaði athugasemd sem mér yfirsást.  Hann er þar með alls konar fullyrðingar og segir mig svo fara með dylgjur!  Ein er að að ekkert sé rangt við sölu Bjarna Ben í Glitni.  Undir venjulegum kringumstæðum væri ekkert athugavert við það að sá sem á hlutabréf í banka selji.  En sé salan byggð á innherjaupplýsingum, þá er salan ekki bara óeðlileg, heldur líka brot á lögum.  Grein Bjarna og Illuga bendir til þess að þeir hafi vitað meira en gengur og gerist.

Marinó G. Njálsson, 30.1.2012 kl. 08:41

48 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta eru mjög athygliverðar upplýsingar sem þú kemur fram með um stöðu bankanna 2007, sér í lagi að þú skulir hafa ábyggilegar heimildir fyrir þessu. Ertu búinn að upplýsa sérstakan saksóknara um þessar heimildir? Hvernig hefur því verið tekið?

Þorsteinn Siglaugsson, 30.1.2012 kl. 09:07

49 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þorsteinn, í þeim tilfellum sem ég fæ ábendingar, þar sem menn vilja vera nafnlausir, þá virði ég að sjálfsögðu nafnleysi, en gefi menn samþykki sitt fyrir því að Sérstakur saksóknari sé upplýstur, þá geri ég það sem ég hef gert nokkrum sinnum.  Ég hvet fólk alltaf til að hafa samband við Sérstakan í svona tilfellum.

Marinó G. Njálsson, 30.1.2012 kl. 09:16

50 identicon

Feginn að vera b'usettur erlendis, 'otrulegt fjarmalasukk sem var i gangi meðal stjornmalamanna:(

NONNI (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband