Eru "árásir" á ríkissjóði nokkurra Evrópulanda bara tilviljun? Var nauðgunarákæran á Dominique Strauss-Kahn (DSK) óheppilegt atvik? Er tímasetning arabískavorsins eða átaka við Íran bara eitthvað hlaut að koma að í lýðræðislega elskandi heimi? Er hækkun á heimsmarkaðsverði á gulli og silfri bara afleiðing á óstöðugleika á fjármálamarkaði?
Ekkert í heiminum er tilviljunum háð þegar kemur að alþjóðaviðskiptum eða alþjóðafjármálakerfinu. Ég, eins og fleiri, hef fylgst með því sem er að gerast úti í heima af hliðarlínunni hér á Íslandi og verið að velta fyrir mér hinu stærra samhengi. Hafandi fylgst með heimsmálunum í hartnær fjóra áratugi, þá veit ég að það er oft annað orsakasamhengi á milli hlutanna, en það sem liggur í augum uppi. Í síðasta pistli fjallaði ég um ósjálfbærni fjármála- og efnahagskerfis þjóða á Vesturlöndum. Þar benti ég á að staða BNA er í raun og veru orðin óbærileg, þ.e. skuldasöfnun alríkisstjórnarinnar er orðin meiri en nokkurt ríki gæti staðist ef leikreglurnar væru jafnar. En leikreglurnar eru ekki jafnar.
Bandaríkin (BNA) hafa undanfarin 50 ár eða svo haft eitt fram yfir aðrar þjóðir heims. Stjórnvöld þar geta prentað USD og gera það ótæpilega. Hvers vegna hefur þetta verið mikilvægt? Jú, vegna þess að USD er gjaldgengur nánast alls staðar í heiminum. Eingöngu örfá ríki hafa ekki talið USD gjaldgengan, s.s. Kúba, Norður-Kórea og síðan er Íran að færast yfir á það stig. Ætli það sé tilviljun að þetta eru taldir hættulegustu óvinir vestrænna ríkja (lesist BNA)?
Í heiminum á hverjum tíma er alls konar valdabarátta. Sú sem hefur líklegast mest áhrif þessi misserin er baráttan um hvaða mynt er alþjóðamyntin, þ.e. sú sem notuð er mest í heimsviðskiptum. Í mínum huga er vandi evrusvæðisins angi af þeirri baráttu, sama á við um arabískavorið, nauðgunarkæran á DSK, spennan milli BNA og Írans, hækkunin á heimsmarkaðsverði á góðmálmum og uppkaup Kínverja á landi og fyrirtækjum út um allan heim. Hljómar eins og ég sé gjörsamlega búinn að tapa því, en svo er ekki.
Hvað gerist ef USD fellur af stalli sem mynt alþjóðlegra viðskipta? Líklegast er að Bandaríkin verði gjaldþrota. Ástæðan er einföld. Þurfi Bandaríkjamenn að kaupa erlenda gjaldmiðla til að eiga í viðskiptum yfir landamæri, þá mun dollarinn hrynja með tilheyrandi óðaverðbólgu í landinu. Þá munu stjórnvöld í BNA ekki lengur geta prentað sig út úr fjárlagahallanum án þess að það bitni á verðbólgu innanlands. Þá munu bandarísk fyrirtæki ekki lengur geta notað peningana sem stjórnvöld prentuðu til að eiga viðskipti yfir landamæri. Því til viðbótar munu stjórnvöld ekki lengur geta selt skuldir sínar um allar jarðir, þar sem önnur lönd munu ekki lengur vilja USD sem greiðslu fyrir vöxtum og afborgunum. Þess vegna er það sem er að gerast í efnahagslífi heimsins í dag örvæntingafull tilraun BNA til að halda stöðu USD sem hinnar alþjóðlegu myntar og þegar menn líta þetta þeim augum, þá er auðveldara að tengja saman punktana.
Skoðum það sem ég nefndi að ofan:
- Ástandið á evrusvæðinu: Með því að grafa undan evrunni, þá er verið að koma í veg fyrir að evran geti komið í staðinn fyrir USD í alþjóðaviðskiptum. Evran fékk að styrkjast allt þar til að hún fór að vera of áberandi í viðskiptum landa á milli. Evrusvæðið er stærsti viðskiptamarkaður í heimi, með meiri veltu en nokkur annar. Þegar mörg lönd eru með sama gjaldmiðil, þá þurfa þau ekki að nota USD í viðskiptum sín á milli. Það dró úr mikilvægi USD og ógnaði stöðu hans. Lausnin er að reyna að brjóta upp evrusamstarfið. Skuldastaða margra evruríkja gerði það að verkum, að auðvelt var að finna fullt af "veikustu" hlekkjum. Þeir voru ekkert endilega svo veikir. T.d. eru skuldir BNA mun meiri sem hlutfall af útgjöldum ríkisins, en held ég örugglegra allra evruríkjanna, þ.e. hvers fyrir sig. En evruríkin geta ekki prentað evrur og þess vegna hafa þau ekki sömu úrræði og BNA. Þau geta ekki svindlað sér út úr vandanum, heldur verða að taka á sínum málum. Ég gæti haldið svona áfram, en ég held að fólk skilji hvað ég er að fara.
- Arabískavorið: Þetta er kannski langsótt, en samt ekki. Arabískavorið snýst á yfirborðinu um lýðræði til handa fólkinu, en trúir því einhver virkilega, að það sé málið? Í mínum huga snýst arabískavorið um yfirráð yfir auðlindunum, þ.e. olíuauðlindunum. Hvers vegna ætli mótmælendur í Sýrlandi hafi ekki náð að steypa Assad af stóli? Helsta ástæðan er að þeir fá ekki erlendan stuðning og það er líklegast vegna þess að eftir fáu er að slægjast í Sýrlandi. Uppreisnaröflin í Líbíu fengu hins vegar NATO sér til stuðnings liggur við áður en þeir báðu um nokkurn stuðning. Ástæðan er einföld: Olía. En það er líka önnur ástæða: Gaddafi var hættur að ganga í takt, þ.e. hann var farinn að selja olíu í evrum! Nú ertu alveg að missa þig í samsæriskenningum, hugsa einhverjir, en hverjir ráða öllu sem þeir vilja ráða innan NATO? Jú, Bandaríkjamenn og þeir vilja gera allt sem er í þeirra valdi til að olíuviðskipti fari fram í USD. En það var skipt um stjórnvöld í Egyptalandi. Jú, en var skipt um stjórnarfar? Sama á við um nokkur önnur lönd sem gengu í gegn um arabíska vorið. Einum einvaldi var skipt út fyrir annan. Fólk á götum Kairó er farið að efast um að nokkuð hafi breyst og þá er eðlilegt að við gerum það líka.
- Nauðgunarkæran á DSK: Þið verðið að fyrirgefa, en ég hef enga trú á að um nauðgun hafi verið að ræða heldur var spennt gildra og bráðin var DSK. Málið var að það þurfti að koma DSK frá völdum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ástæðuna má rekja til tillögu sem hann setti fram í febrúar 2011. Hún gekk út á að ríki notuðu SDR (sérstök dráttarréttindi, sem er nokkurs konar mynt AGS) í viðskiptum sín á milli. DSK hafði víst haft þetta að sérlegu áhugamáli um nokkurt skeið og setti tillöguna fram, sem sagt, í febrúar á síðasta ári. Hvað liður 3 mánuðir og þá var búið að hrekja hann frá völdum. Honum var haldið föngum í nokkrar vikur, en síðan vatnaði undan kærunni og hún loks felld niður. Markmiðinu hafði verið náð: Honum var komið frá og líklegast verður ekki minnst í bráð á að SDR verði að alþjóðlegri mynt.
- Spennan milli Íran og BNA: Aftur er þetta spurningin um í hvaða mynt olíuviðskipti eiga sér stað og hver hefur yfirráð yfir auðlindunum. Segja má að um tvö mál sé að ræða. Stærsti kaupandi olíu af Íran eru Kínverjar og BNA vilja gjarnan takmarka aðgang Kínverja að olíu. Hitt er að Íran hefur verið að selja olíu í evrum! Á þessu er síðan enn einn snúningur. Olíuútflutningsríki við Persaflóa ásamt ríkjum í Suður-Ameríku hafa velt fyrir sér að búa til sérstaka mynt (eða myntkörfu) fyrir olíuviðskipti. Menn innan OPEC hafa lengi horft til ástandsins í BNA og óttast áhrifin á stöðu landa sinna, ef USD missir stöðu sína. Fyrir nokkrum árum breyttu þeir ákvörðun verðlagningar olíu. Þannig hefur olíaverð í reynd ekki verið miðað við USD, þó það sé skráð í USD, í nokkur ár heldur er verðið miðað við evrur og síðan breytt yfir í USD þegar kemur að viðskiptum í kauphöllum. Ástæðan er hin gríðarlega prentun BNA stjórnvalda á USD og dreifing þeirra um heiminn. Er nú svo komið að offramboð af dollurum á alþjóðamarkaði er farið að mynda alþjóðlega verðbólgu á hrávörumarkaði. Líkja má þessu við að stjórnvöld einhvers ríkis auki stöðugt peningamagn í umferð án þess að raunverðmæti aukist nokkuð. Slíkt leiðir til verðhækkunar.
- Hækkun á verði góðmálma (og hrávöru): Hér er líklegast augljósasta dæmið um vantrú manna á USD sem framtíðarmyntar í alþjóðaviðskiptum. Út um allan heim eru fjárfestar að kaupa góðmálma í stórum stíl. Verð á kopar, silfri og gulli hefur hækkað upp út öllu valdi og þó eilítið bakslag hafi komið í seglin, þá má búast við að mun meiri hækkanir séu í farvatninu. Kaldhæðnin í þessu er að seðlabankar um allan heim geta mögulega bætt verulega fjárhagsstöðu sína með því sitja fast á sínu gulli og kaupa allt sem býðst á markaði. (Þannig hækka þeir verð gullforða síns!) Stærsta málið í þessu er ekki endilega hækkunin á góðmálmunum, heldur hin hliðin á peningnum, þ.e. virðisrýrnun USD gagnvart þeim. Gull er bara gull og um árhundruð var það notað sem mælieining á verðmæti. Gullfótur var notaður til að stilla af verðmæti peninga í umferð. Hafi gull hækkað um 100% í verði í USD, þá þýðir það jafnframt að USD hafi rýrnað um 50% í verðgildi. Ég er ekki að hafa endaskipti á hlutunum. Staðreyndin er sú að offramboð á USD er farið að valda virðisrýrnun hans á markaði. Það kemur fram í hækkun alls á markaði, en þegar maður festir viðmiðið við verð á hrávöru, t.d. hveiti, þá kemur í ljós nokkuð merkilegur hlutur. Aðrar hrávörur og líka góðmálmar hafa þróast á ekki ólíkan hátt, en aftur hafa pappírsgjaldmiðlar heims lækkað. Ástæðan er að sífellt fleiri peningar (og þá sérstaklega USD) eru að keppa um tiltölulega fast magn af hrávöru. Slíkt veldur verðbólgu á heimsvísu og verðbólga er ekkert annað en virðisrýrnun peninga, í þessu tilfelli USD sem síðan dregur aðra með sér, þar sem menn vilja halda ákveðnu jafnvægi, sem alveg eins má kalla ógnarjafnvægi.
- Verslunaræði Kínverja: Kínverjar eiga svo mikið af USD að þeir kunna ekki aura sinna tal. Þeir óttast það sem koma skal og sjá hvernig virði USD hefur verið að rýrna á alþjóðahrávörumörkuðum. Þess vegna eru þeir á fullu að skipta þeim í önnur verðmæti sem ekki ráðast af stöðu USD. Vissulega er ákveðin hætta fólgin í þessu, þ.e. eignabóla, en þeir virðast meta hættuna minni, en að hanga á sínum dölum. Margt bendir meira að segja til þess, að þeir telji áhættuna tengda USD eign sinni vera svo mikla, að þeir eru tilbúnir að kosta talsverðu til að koma dölunum sínum út. Stórar yfirtökur á fyrirtækjum, jarðakaup, kaup á hrávöru langt umfram þarfir, boð um að létta undir með illa stöddum Evrópuríkjum, allt eru þetta tilraunir til að losna við USD og færa eign sína yfir í aðra gjaldmiðla. Skilaboðin eru skýr: USD er óstöðugur gjaldmiðill til lengri tíma.
Vissulega eru mörg af þessu bara mín eigin túlkun á stöðunni, en annað er fengið frá aðilum sem hafa lagt fram mjög traust rök studd haldgóðum gögnum sem eru aðgengileg öllum sem þau vilja skoða. Innan Bandaríkjanna eru meira að segja ýmsir farnir að hafa áhyggjur af þessar þróun. Að S&P hafi vogað sér að lækka lánshæfismat alríkisstjórnarinnar er sterkustu skilaboðin sem send hafa verið hingað til. S&P tók það einmitt fram í umsögn sinni, að verði ekki tekið á hinni miklu skuldasöfnun bandarískra stjórnvalda, þá geti þróunin orðið sú að USD missi stöðu sína sem mynt alþjóðlegra viðskipta.
Alveg er á hreinu að BNA geta ekki haldið áfram að prenta sig út úr vandanum. Magn USD í umferð er þegar orðið svo mikið, að farið er að flæða út úr öllum skápum, kistum og kössum. Hvenær verður komið nóg? Hvenær kemur að því að þjóðir heims munu eiga svo mikið af USD að þær geta ekki tekið við meira? Ef einn gjaldmiðill er með svona yfirflæði á markaðnum, þá kemur að því, að seðlabankar heims eiga svo mikið af honum, að þeir verða að dömpa honum. Þá fer allt fjandans til.
Bandarísk stjórnvöld berjast með oddi og egg við að halda stöðu USD á alþjóðamörkuðum. Þau munu nota öll tiltæk ráð og heiðarleiki verður ekki látinn stjórna för. Gjaldfærni Bandaríkjanna er að veði. Daginn sem USD verður ekki ráðandi gjaldmiðill á alþjóðamörkuðu, munu Bandaríkin missa völd sín. Ekki vegna þess að þau hafi ekki margt fram að færa, heldur vegna þess að þá geta stjórnvöld ekki lengur hunsað vandamálin heima fyrir.
Flokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:46 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Held að þú sért að hitta naglann nákvæmlega á höfuðið þarna. Við getum tekið sem dæmi í þessu samhengi hvernig matsfyrirtækin, sem eru jú öll bandarísk, standa að því að undirbúa árásir á einstök ríki og ríkjahópa. Fyrst eru þau lækkuð í einkunn, þá koma hákarlarnir með sínar stöðutökur og framhaldið þekkja allir.
Quinteiras (IP-tala skráð) 20.1.2012 kl. 07:12
Það er víst ábyggilegt, að þræðir valdsins eru ekki tilkomnir vegna tilviljana. Það er ekkert eins vel stúderað og skipulagt eins og heimsstjórnin. Þetta sjúka valdatafl auðmanna-klúbbanna, sem eru með hæfustu sérfræðinga og menntafólk á öllum sviðum í vinnu hjá sér, við að smíða svikaflækjur og fella fólk á mannlegum veikleikum, þegar það passa mafíunni.
Þetta snýst allt um að sjá við svikavinnubrögðum falda valdsins, og það er ekki auðvelt verk. Samstaða almennings er mikilvæg, ef það á að takast.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 20.1.2012 kl. 08:43
Mjög áhugaverður pistill hjá þér Marinó. Þó maður sé að reyna að bægja frá sér samsæriskenningum af ýmsu tagi þá er þetta ekki skrifað í þeim anda og vel sé það.
Gísli Ingvarsson, 20.1.2012 kl. 09:33
Sæll Marinó,
Varðandi evruna, þá held ég að þetta sé hárétt. Hér heyrir maður sterkan áróður gegn evrunni og hér eru allir viðskiptafjölmiðlar fullir af hryllingi yfir því sem er að gerast í Evrópu. Svo koma matsfyrirtækin og skella ofan af einkunnum fleiri ríkja á einu bretti og auka þar með á glundroðann. Ekki veit ég hvort við förum á hausinn hérna, en það er ekki hægt að reka ríkið með 1500 milljarða dollara halla ár eftir ár eftir ár! Heildarskuldirnar eru nú komnar fram úr þjóðarframleiðslu. Skuldir skv. tölum núna í janúar eru 15.230 milljarðar dollara en árleg þjóðarframleiðsla til loka júní 2011 var áætluð 15.003 milljarðar. Þetta getur ekki gengið til lengdar og ég sé ekki að það verði neinskonar pólitísk samstaða um að breyta þessu til batnaðar.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 20.1.2012 kl. 20:34
Mér hefur sýnst að Kínverjar séu að losa sig við svartapétur. En það er náttúrlega vandamál þegar stokkurinn inniheldur fleiri svörtupétra en venjuleg spil.
Billi bilaði, 21.1.2012 kl. 21:25
til að taka samsæriskenninguna lengra þá eru allir usd prentaðir af einkabanka sem stjórnað er af nwo banksterum . . . sömu glæpasamtök stýra seðlabanka evrópu . . . þeir eru á kerfisbundinn hátt að koma efnahag evrópu og usa á hausinn til að koma á sínum alþjóðlega seðlabanka að og í kaupbæti fullkominn harðstjórn sem gerir þriðja ríkið að barnaheimili . . . það eru átta fjölskyldur sem stjórna heiminum, ein af þeim er Rotchild sem á yfir 500 trilljón dollar í eignir sem eru um 50% af auðæfum heimsins . . . þetta lið hefur enga þörf fyrir meiri peninga en hefur á sinni dagskrá að drepa 90% af mannkyni og koma á nwo stjórn í öllum heiminum . . .
Axel Pétur Axelsson, 22.1.2012 kl. 08:26
Axel - verst að þetta er engin "samsæriskenning" (ath - gildishlaðinn stimpill), hvorki hjá þér né Marinó.
Það eru sauðirnir sem ríghalda í sínar "tilviljunarkenningar", og geldir fjölmiðlar stýra þeim kór, samanber "íslenska efnahagsundrið" og "gjöreyðingarvopn Saddams."
Gullvagninn (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 09:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.