28.10.2011 | 22:33
Hæstiréttur: Neyðarlögin voru almenn og framvirk; Jón Steinar: Neyðarlögin voru sértæk og afturvirk
Ég er búinn að vinna mig í gegn um dóma Hæstaréttar frá því í dag. Í mjög mörgum atriðum fer rétturinn eftir sömu línu og Hérðsdómur Reykjavíkur. Ýmislegt áhugavert er að finna í dómsorðum Hæstaréttar og langar mig að vekja athygli á þeim sem mér finnst standa upp úr.
Tjón hámarkast af kaupverði
Þegar rætt er um tjón sóknaraðila, þ.e. kröfuhafa, þá segir:
Að þessu virtu verður hafnað málsástæðu varnaraðila um að ekki sé nægilega sýnt fram á að þeir úr hópi sóknaraðila, sem eignuðust kröfur sínar fyrir setningu laga nr. 125/2008, muni vegna setningar laganna fá minna en ella hefði orðið við greiðslu upp í samþykktar kröfur á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf.
Tökum eftir þessu, að þeir sem áttu kröfurnar fyrir setningu laganna munu" fá minna en ella hefði orðið". Rétturinn vísar með þessu frá tjónskröfu þeirra sem keyptu kröfur með afslætti.
Næst er fjallað um upphæð krafna og þá tjónsins:
Áður er fram komið að hluti upphaflegra almennra kröfuhafa hefur selt kröfur sínar eftir 6. október 2008 og að þær hafi haft eitthvert fjárgildi í viðskiptum þótt óumdeilt sé að það hafi verið lágt. Um það nýtur ekki við nánari upplýsinga í málinu. Að öllu þessu virtu þykja sóknaraðilar ekki hafa rennt stoðum undir þær staðhæfingar sínar að kröfur þeirra hafi eða muni tapast að öllu leyti vegna setningar laga nr. 125/2008 þótt ókleift sé á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve mikið kunni að fást greitt af þeim þegar upp verður staðið.
Sem sagt, viðurkennt er að lítið fæst hugsanlega greitt upp í almennar kröfur, en vegna þess að sumir eignuðust kröfurnar fyrir slikk, þá rýrir það gildi kröfu þeirra fyrir dómi. Hæstiréttur ætlar ekki að gefa vogunarsjóðum óeðlilegan hagnað af þeim kröfum sem keyptar voru fyrir nokkra aura á krónuna.
Kröfuréttur viðurkenndur sem eign..
Sóknaraðilar telja að kröfur þeirra séu varðar af stjórnarskránni og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Um þetta segir:
Varðandi þetta er fallist á með sóknaraðilum að kröfuréttindi þeirra teljist vera eign í merkingu stjórnarskrár og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.
Hæstiréttur er alveg ótvíræður í þessu. Ekkert fer á milli mála að kröfur séu varða af stjórnarskrá. Ef svo er hvernig getur hann þá komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að skerða endurheimtur kröfuhafa?
..en kröfuröð er breytanleg..
Hæstiréttur vísar til þess að mörg fordæmi séu fyrir því að löggjafinn krukki í réttindaröð kröfu, raunar allt frá 1974. Þetta fordæmi sé nógu ríkt til þess að:
Þegar þetta er virt verður ekki fallist á með sóknaraðilum að þeir hafi með réttu getað skapað sér væntingar um að löggjafinn myndi ekki aðhafast að þessu leyti þeim til óhags, og á það alveg sérstaklega við um þá úr hópi sóknaraðila, sem eignuðust kröfur sínar eftir 6. október 2008, en þeim var fullljós sú áhætta sem þeir tóku.
Í fyrsta lagi voru fordæmin þess eðlis að réttindaröð hafði oft verið breytt og hitt að þeir sem eignuðust kröfur eftir setningu laganna vissu að hverju þeir gengu. Mér sýnist sem Hæstiréttur sé að setja ofan í við vogunarsjóðina, að láta sér detta í hug að þeir gætu fengið skjótfenginn gróða með því að kaupa kröfur á slikk og fá svo Hæstarétt til að tryggja þeim hærri greiðslu úr búin en þeir höfðu keypt kröfurnar á.
..og henni var breytt áður en slitameðferð hófst
Hæstiréttur hafnar að breyting á kröfuröð hafi haft afturvirk áhrif. Bankinn var ekki kominn í slitameðferð þegar lögin voru sett og því sé engin afturvirkni.
Lögin eru almenn
Hæstiréttur fjallar næst um að lög 125/2008, Neyðarlögin, hafi verið almenn lög um breyttar reglu við slit fjármálafyrirtækja. Ekki sé hægt að horfa eingöngu til endurheimta frá Landsbanka Íslands, þegar lögin væru skýrð. Vissulega væri óheppilegt að lítið fengist upp í almennar kröfur hjá LÍ, en hið sama ætti ekki við um hina bankana.
Lögin voru ekki sett til að gilda tímabundið heldur fela þau í sér nýja skipan til frambúðar. Verður samkvæmt þessu að leggja til grundvallar að með lögunum hafi verið ákveðið með almennum hætti hvernig skipað skuli réttindaröð krafna við slit fjármálafyrirtækja, sem getur raskað réttindum mjög margra kröfuhafa íslenskra fjármálafyrirtækja en ekki sóknaraðila einna.
Réttháum kröfuhöfum ekki mismunað
Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að réttháum kröfuhöfum hafi ekki verið mismunað og vísar bara í rökstuðning héraðsdóms, en í honum segir:
Hið rétta er að kröfur innstæðueigenda eru ekki sambærilegar kröfum sóknaraðila. Er þá jöfnum höndum litið til eðlis krafnanna, úrræða kröfueigenda til greiðslu þeirra, ólíkra möguleika kröfuhafa til að tryggja hagsmuni sína og síðast en ekki síst til nauðsynjar þess fyrir banka- og fjármálakerfi að innstæðueigendur geti treyst því að sparnaður þeirra sé í öruggum höndum. Alkunna er að skortur á slíku trausti getur leitt til áhlaups á banka með alvarlegum afleiðingum fyrir stöðugleika fjármálakerfisins og jafnvel efnahagshruns. Með sömu rökum stoðar ekki sóknaraðila að vísa til ákvæða 4. og 40. gr. EES-samningsins.
(Merkilegt er að Hæstiréttur vísar í héraðsdóm um rökstuðning og birtir hann svo í næstu málsgrein í sem hluta af öðrum rökstuðningi. Ég hef stundum á tilfinningunni, að Héraðsdómur Reykjavíkur ætti að kæra Hæstarétt fyrir höfundarréttarbrot svo orðrétt eru heilu setningarnar og nánast málsgreinarnar notaðar.)
Var nauðsynlegt að færa innstæður til?
Markmið neyðarlaganna var meðal annars að bankastarfsemi héldi áfram í landinu með virku greiðslukerfi. Niðurstaða Hæstaréttar er að það hefði ekki tekist nema með því að færa innstæður til í kröfuröð og gera að forgangskröfum. Sem sagt að málefnalegar ástæður hafi verið fyrir ákvæði neyðarlaganna.
Hæstiréttur telur að ekki hafi verið sýnt fram á aðra aðferð sem hefði verið eins árangurrík eða betri aðferð. Hann hafnar einnig þeirri ábendingu sóknaraðila að nóg hefði verið að breyta forgangsröðun vegna innlendra innstæðna með þeim rökum að um óleyfilega mismunun innstæðueigenda hefði þá verið að ræða.
Var nauðsynlegt að tryggja þær upp í topp?
Sóknaraðilar báru fyrir sig varakröfu um að innstæður væru þá aðeins tryggðar upp að lágmarki. Hæstiréttur notar upplýsingar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að innlendir reikningar sem voru eingöngu með innstæður undir lágmarkstryggingarmörkum (EUR 20.887) hafi einungis num 91 ma.kr. af 1.065 ma.kr. innstæðum. Að tryggja bara lágmarkið hefði því ekki komið í veg fyrir bankaáhlaup og þar með markmið laganna.
Önnur atriði
Tekið er á nokkrum öðrum atriðum í dómnum, en þau eru meira tæknilegs eðlis og hafa ekki eins afgerandi áhrif og þau sem ég hef nefnt að ofan. Sleppi ég því umfjöllun um þau.
Sérálit Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ekki þarf að koma á óvart að Jón Steinar Gunnlaugsson skili séráliti. Tölfærðin segir okkur að hann geri það oftar en nokkur annar dómari og hann hefur líka sýnt það í ýmsum dómum upp á síðkastið að hann er með aðra lögskýringu á mörgum atriðum er varða samninga- og eignarrétt en aðrir dómarar. Er hann, að mínu áliti, mjög bókstafstrúar á lögin. Þetta hefur bæði sína kosti og sína galla.
Meginþemað í rökstuðningi Jóns Steinars er að lögin hafi í reynd verið afturvirk, þ.e. að við setningu þeirra hafi verið ljóst hvert stefndi og því væri hér blekking falin í því að tala um að um framvirk lög væri að ræða. Jón Steinar hafnar þó ekki því að skerða megi eignarréttinn í ástandi eins og skapaðist hér í október 2008. Spurningin er bara hve langt megi ganga í þeirri skerðingu og hvenær sé of langt gengið. Niðurlagsorð hans eru sem hér segir:
Eignarréttur er verndaður í 72. gr. stjórnarskrár. Til efnisþátta ákvæðisins telst regla um jafnrétti, hliðstæð þeirri sem felst í 65. gr. stjórnarskrár. Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða mín að ekki fái staðist þá vernd eignarréttinda, sem tryggð er með 72. gr. stjórnarskrárinnar, að skerða kröfuréttindi sóknaraðila við slit á varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. á þann hátt að veita kröfu varnaraðilans FSCS forgangsrétt samkvæmt 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, svo sem fallist var á með hinum kærða úrskurði. Tek ég sérstaklega fram að í þessari afstöðu felst ekki að þetta lagaákvæði standist ekki sem almenn lög í landinu, þannig að innlán í bönkum njóti á grundvelli þess í framtíðinni réttarstöðu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit fjármálafyrirtækis. Í henni felst aðeins að með setningu ákvæðisins voru skert þau eignarréttindi sóknaraðila sem fólust í kröfum þeirra á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., þannig að í bága fór við nefnt ákvæði stjórnarskrárinnar. Tel ég samkvæmt þessu að taka beri til greina kröfur sóknaraðila um að hafna viðurkenningu á forgangsrétti kröfu varnaraðilans FSCS við slitin..
Niðurstaða Jóns Steinars er því að neyðarlögin hafi ekki verið almenn lög heldur sértæk lög sem til framtíðar áttu að fá almennt gildi. Þau hafi verið sett í þeim tilgangi að afla fjár frá lánveitendum til að greiða fyrir innstæður og slíkt sé ekki réttlætanlegt.
Lokaorð
Dómar Hæstaréttar (hér er notaður dómur í máli nr. 340/2011) eru um ítarlegir og skýrir. Ágreiningur milli meirihluta og minnihluta er um stöðu neyðarlaganna, þ.e. voru þau sértæk og afturvirk eða almenn og framvirk, en að öðru leiti eru menn sammála. Þessi munur er þó nægur til þess að greina á milli feigs og ófeigs.
Hafa skal í huga, að meirihluti viðurkennir að eignarréttur sé á kröfum. Allt veltur á þessu atriði hvort a) viðurkennt sé fyrir því að löggjafinn breyti kröfuröð og b) var sú breyting framvirk eða afturvirk. Búast má við að málinu verði vísað til Strassborg og er gjörsamlega ómögulegt að segja til um hver niðurstaðan verður þar. Hitt er alveg dagljóst, að ríkissjóður mun aldrei geta reitt fram 2/3 af þeim 2.700 ma.kr. sem er upphæð innstæðna sem liggur undir í þessu máli. Allar væntingar um slíkt eru út í hött.
Neyðarlögin gilda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.12.): 4
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 414
- Frá upphafi: 1680828
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 37
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Bíddu, ertu að segja að sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki fengið ráð hjá sínum sérstaka ofurlögfræðingi þegar lögin voru sett ?
Eða hvað ?
JR (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 00:03
Var hann ekki kominn inn í Hæstarétt á þessum tíma? Hann hefði því ekki mátt veita þeim ráð. Svo er hann vinur Davíðs, en ekki Geirs.
Marinó G. Njálsson, 29.10.2011 kl. 00:38
,,Hann hefði því ekki mátt veita þeim ráð."
Í spilltasta þjóðríki norðan alpafjalla, hvað heldur þú að sé gert ?
Ísland er dæmi um það ómögulega !
Hvaða þjóð , með svo kallaða félagshyggju við völd, hefði kálað öllum kjósendum sínum ?
Svona lagað gerist bara hjá spilltastu pólitísku öflunum sem til eru !!!
Það er búið að senda pólitíska samherja úr verklýðsrekendastétt út í kviksyndi og þar eru þeir enn !!!
JR (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 01:00
Þegar neyðarlögin voru sett þá var auðvitað ljóst hvert stefndi. Að breyta röð kröfuhafanna við þær aðstæður er svona svipað og að segja upp tryggingu hjá skipi sem er að fara í strand! Auðvitað er slíkur gerningur í raun afturvirkur.
Það að kröfuhafi A gefist upp á streðinu og selji kröfuhafa B sína kröfu með afföllum þýðir ekki þar með sé eignarheimild kröfuhafa B eingöngu bundinn við söluverð kröfunnar en ekkert umfram það, þ.e. að hann "eigi" ekki lengur kröfuna. Þarna held ég að Hæstiréttur sé alveg úti að aka. (þetta fer í prinsippinu nærri því sem umræðir um skuldir heimila versus nýju/gömlu bönkunum en aðeins aðrir vinklar þar í gangi.)
Aðalatriði málsins er það sem þú segir í lok færslunnar "Hitt er alveg dagljóst, að ríkissjóður mun aldrei geta reitt fram 2/3 af þeim 2.700 ma.kr. sem er upphæð innstæðna sem liggur undir í þessu máli. Allar væntingar um slíkt eru út í hött. "
Þessa málsvörn á Hæstiréttur að nota en ekki fara út í rökfræðilegt limbó með tilheyrandi vanda í öðrum málum vegna fordæmisgildis. Þetta voru jú neyðarlög
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 11:20
Sjáum hvað setur 17. nóv. Þá kemur í ljós hvort menn ætla sér að þvæla þetta öllu lengur. Kröfuhafar eiga við Breska og Hollenska ríkið að etja en ekki okkur. Best að þeir beini spjótum sínum þangað.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2011 kl. 12:18
Menn ættu að varast að draga of miklar ályktannir af dómnum. Þessi dómur er fyrst byggður á hagsmunum Íslands og lögum þar sem því verður komið við.
Réttur innlendra aðila til að kúga fé af almenningi er áfram tryggður.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 29.10.2011 kl. 12:20
Hafi þessir kröfuhafar áhuga á því að fella bankann, þá halda þeir þessu áfram. Um leið og núverandi innistæðueigendur sjá að hætta er á að þessir aðilar ætli að ná sínu fram, þá munu þeir væntanlega taka út innistæður sínar. Líf bankans veltur á þessari niðurstöðu. Ef það hyllir undir eitthvað annað, þá verður hann fyrir áhlaupi, casre closed.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.10.2011 kl. 12:32
Jón Steinar, með dómi Hæstaréttar er Landsbanki Íslands kominn í skjól. Hann verður ekki krafinn um eitt eða neitt úr þessu, nema að málið fari aftur fyrir Hæstarétt og hann snúi dómnum. Nokkuð sem er ekki útilokað en ákaflega hæpið að gerist. Kæra til Strassborgar skiptir engu máli fyrir Landsbanka Íslands, því henni væri alltaf beint gegn ríkinu vegna niðurstöðu Hæstaréttar.
Marinó G. Njálsson, 29.10.2011 kl. 13:57
Hafi þessi dómur almenna þýðingu, sem ég efast um, þá getur skuldari sagt við lánadrottinn sem vill "semja" um 110% leiðina: "Þú getur ekki búist við að fá 110% verð fyrir húsið á markaði þanni að þér að skaðlausu bíð é 80%" Það má jafnvel ganga lengra og segja að verðtryggingin sé ólögleg að sjálfvirk hækkun veðs umfram hið veðsetta standist ekki.
Þetta á reyndar við um allar kröfur sem ekki er hægt að fullnusta.
En dómurinn hefur ekki almenna þýðingu.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 29.10.2011 kl. 14:54
Kristján, ég held raunar að þetta sé ekki rétt hjá þér, en þú ert á réttum slóðum. Það sem skuldari getur sagt: "Þú keyptir kröfuna með 30% afslætti og því getur þú ekki sagst hafa orðið fyrir tjóni, þó þú fáir aðeins 70% greitt." Það er eitt mikilvægasta fordæmið fyrir almenning í þessum dómum.
Marinó G. Njálsson, 29.10.2011 kl. 15:00
Þetta eru athyglisverðar pælingar. Ef kröfuhafar kæra til Mannréttindadómstóls Evrópu skilst mér að málsmeðferð þar geti tekið allt frá tveimur til fimm ára ! Eins ef málum þar er ekki hent út strax þá eru miklar líkur á því að þeim verði snúið. Ef dómstóllinn dæmi okkur í óhag, þó dómar dómstólsins séu ekki bindandi, getur þá komið upp krafa um endurupptöku ? Það væri athyglisvert að frétta um það. Þetta er m.a. stór ástæða fyrir því að Bretar og Hollendingar vildu ríkisábyrgð !
Sjá t.d. hér og sérstaklega neðst þar sem lögfræðingur og mikill reynslubolti efast um lögmæti þess ráðhags sem innstæðutryggingarsjóðir millli landa (cross border) taka sér með tilliti til heimilda sem Winding-up Directive 2001/24 leyfir þeim að teknu tilliti til art. 1 European Convention of Human Rights:
Hüpkes has noted that the Directive 94/19 is insufficient in that it does not provide any rules on set-off and on its effect on the payment of deposit protection. Annex II of Directive 94/19, which provides for the host Member State scheme to bilaterally establish with the home Member State scheme appropriate rules and procedures for paying compensation to depositors at that branch. According to condition (c) a home Member State and the host Member State schemes will cooperate fully with each other to ensure that depositors receive compensation promptly and in the correct amounts. In particular, the involved States will agree on how the existence of a counterclaim which may give rise to set-off under either scheme will affect the compensation paid to the depositor by each scheme’. I read this possible agreement as one that is not dealing with mutual rights and obligations between two or more schemes, but as providing the two schemes with an authority to come to an agreement, which may influence depositors’ claims. Under the regime of the Winding-up Directive with regard to credit institutions art. 23 Winding-up Directive 2001/24 provides that the adoption of reorganisation measures or the opening of winding-up proceedings shall not affect the right of creditors to demand the set-off of their claims against the claims of the credit institution, where such a set-off is permitted by the law applicable to the credit institution’s claim. Art. 23 however does not seem to apply as it protects (the right to set-off) a claim of a creditor, not – as in the given case – (the right to set-off) a claim of the bank against a creditor (the depositor), who in another relationship is a debtor (according to the laws of D1) too. Moreover, it is to be seen whether depositor X possesses a claim at the moment the liquidation proceeding against the bank is opened. It seems to me that the moment that a right to set-off will exist will depend on the moment that the ‘unavailability’ of a deposit is determined an will therefore start on the day of the competent authority’s determination (CAD) or the day of the judicial authority’s ruling (JAR). This day could be a day after the opening of winding-up proceedings. Once concluded that the given case falls outside the scope of the Winding-up Directive 2001/24, it seems at least odd that involved States would be able (ultimately) to decide the extent of a financial claim, which clearly would be against art. 1 European Convention of Human Rights. Hér eru nánari upplýsingar um lögfræðinginn sem skrifaði þessa grein: http://www.bobwessels.nl/uk/index.php
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 16:31
Íslenskur skuldari sem skuldar endurreistum banka stökkbreytta (vísitala eða gengisólög) skuld, getur sagt við nýja bankann að hann þurfi ekki að væla þó þessi óréttur sé leiðréttur, einkum þar sem bankinn hafi fengið skuldina á niðursettu verði við yfirfærsluna frá gamla bankanum. Hitt er rugl sem Hæstiréttur virðist vera að gefa undir fótinn að skuldarinn eigi einhvern rétt (nema að það teljist til heildarhagsmuna) á hluta niðurfærslunnar! Ég held að þú sért á villuslóðum þar, annars ágæti Marínó ;-)
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 29.10.2011 kl. 17:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.