6.10.2011 | 01:41
Steve Jobs - Goðsögn í lifandi lífi fallin frá
Tveir guttar um tvítugt byrjuðu á fikti í bílskúr heima hjá öðrum þeirra fyrir réttum 35 árum. Þeir voru með hugmynd að einmenningstölvu sem síðar var nefnd Apple. Í dag er þetta eitt af 10 verðmætustu vörumerkjum heims. Þessir hugmyndaríku guttar voru Steven Paul Jobs og Steve Wozniak en á þeim var 5 ára aldursmunur. Saman stofnuðu þeir fyrirtækið Apple ásamt þriðja manni, Ronald Wayne, árið 1976. Þá var Steve Jobs aðeins 21 árs gamall.
Langt mál væri að lýsa ferli þessa snillings. Hann ólst upp í Mountain View í Kaliforníu, skammt frá Stanford háskóla. Á lóð skólans var rannsóknarstofa Xerox rafeindafyrirtækisins (Xerox Palo Alto Researc Center, Xerox PARC) og þangað fór hann einhverju sinni í heimsókn. Það sem hann sá þar opnaði augu hans fyrir framtíðinni. Grafískt notendaviðmót tengt við mús, tölvunet, geislaprentara og ýmislegt fleira.
Þó Apple II tölvan hafi náð miklu vinsældum var hugur þeirra nafna annars staðar. Afraksturinn af þeirri vinnu var Apple Lisa. Hún kom á markað árið 1983 og man ég að við strákarnir í tölvunarfræðinni fórum í hálfgerðar pílagrímsferðir í Radíóbúðina við Skipholt þar sem Lísunni var stillt upp á 2. hæð. En Lísan virkaði illa og Jobs og Apple hættu þróun hennar til að einbeita sér að annarri vél sem fékk nafnið Macintosh. Hún var fyrst kynnt í einni eftirminnilegustu Super Bowl auglýsingu sem sýnd hefur verið. Í þeirri auglýsingu, sem sýnd var í janúar 1984, fékk heimurinn að kíkja inn í framtíðina. Með Makkanum kom AppleTalk, postscript geislaprentari og margt fleira sem var algjör nýjung. Ég man á mínum Stanford árum að menn notuðu Makkann til alls, m.a. sem console fyrir ofurtölvu skólans.
En lífið hjá Apple var ekki alltaf dans á rósum. Jobs hafði tekist árið 1983 að tæla til Apple manninn sem gerði Pepsi stórt, þ.e. John Sculley. Það eru kannski ekki margir sem vita það, en Sculley er maðurinn á bak við stórar gosdrykkjaumbúðir og hafði með því komið Pepsi á kortið. Jobs sá bæði afbragðs markaðsmann í Sculley, en ekki síður stjórnanda sem gat leyft honum að dunda sér í þróunarvinnunni. Sú ákvörðun að ráða Sculley átti samt eftir að hafa alvarleg eftirköst fyrir Jobs sem hrökklaðist frá Apple vegna deilna við Sculley. Deilurnar voru um tæknistefnu fyrirtækisins og þykir örugglega skjóta skökku við, að gosdrykkjamaðurinn hafi unnið tæknitröllið í þeirri baráttu. á þeim tíma skiptust allir notendur Apple búnaðar í tvo hópa. Þeir sem héldu með Jobs og hötuðu Sculley og hinir sem töldu Sculley í guðatölu og Jobs sem skúrkinn. Ég var í fyrrnefnda hópnum og sá mikið eftir Jobs þegar hann hrökklaðist í burtu.
Steve Jobs sagði síðar, að hafa verið rekinn frá Apple hafi verið það besta sem fyrir hann gat komið. Þetta var honum bæði vakning en ekki síður þá losnaði hann undan því álagi sem fylgdi því að vera tæknileiðtogi fyrirtækisins. Ekki leið á löngu að Jobs var kominn á fullt með nýjar hugmyndir og fæddist þá enn eitt tækniundrið NeXT vinnustöðin. Vandinn við NeXT var að vélin var langt á undan sínum tíma. Margt sem NeXT tölvan bauð upp á kom ekki fram hjá öðrum framleiðendum fyrr en áratug síðar. Á þeim árum þegar Jobs vann við þróun NeXT tölvunnar og ekki síður stýrikerfis og hugbúnaðar var ég fyrst starfsmaður Tölvutækni Hans Petersen og síðar tölvukennari við Iðnskólann í Reykjavík og tölvudálkahöfundur hjá viðskiptablaði Morgunblaðsins. Eyddi ég því löngum tíma í að lesa um Jobs og afrek hans og skráði það allt á Macintosh tölvuna sem ég keypti í Palo Alto árið 1986 um líkt leiti og Jobs keypti fyrirtæki sem síðar var nefnt Pixar og er þekkt fyrir að framleiða stóran hluta teiknimynda Disney. Kaupin á Pixar sýna hvað Jobs var framsýnn og tæknilega þenkjandi, en þau sýndu líka að hann var ekki alltaf að hugsa um praktísku hliðina á málunum, þar sem mörg ár liðu frá því að hann keypti fyrirtækið, þar til það fór að gefa af sér.
En Jobs sneri aftur til Apple árið 1996 þegar Apple keypti NeXT. Apple hafði ekki gengið nógu vel og verið í rauðum tölum í mörg ár. Fyrirtækið hafði reynt að halda sérstöðu sinni, en hún kostaði það í staðinn skrifstofumarkaðinn. Apple tölvur voru einfaldlega of dýrar fyrir hinn almenna fyrirtækjamarkað, en nær allir í grafískri hönnun og á auglýsingamarkaði notuðu Apple. Alls konar lausnir voru reyndar og ein var fyrsta dual boot vélin, þ.e. er vél sem gat bæði ræst sig upp sem DOS vél og Macintosh.
Með kaupunum á NeXT fékk Apple yfirráð yfir i-tækninni. Framleiðslulína fyrirtækisins hefur nánast síðan verið með forskeytið i á undan öllum nöfnum, iMac, iTunes, iPhone, iPod, iPad. Lögð var sífellt meiri áhersla á útlitshönnun búnaðar og einfalda notendaviðmót. Allt var þetta meira og minna úr smiðju Jobs.
Ekkert fer á milli mála að Jobs var snillingur. Hann töfraði aftur og aftur fram tækninýjungar sem fengu tækniheiminn til að halda niðri í sér andanum. Fyrirtækið var stöðugt að taka fram úr sér og marka nýja strauma og stefnur. Hin síðari ár meðan Jobs stríddi við sjúk þann, sem að lokum lagði hann að velli, þá þurfti hann oft að taka sér frí frá störfum. Þó svo að það væri ekki tilkynnt sérstaklega, þá tóku tækninördarnir eftir því, þar sem ýmsar misheppnaðar uppfærslur á búnaði litu dagsins ljós. Svo kom hann beint aftur af sjúkrabeðinu og náði að snúa öllu við á augabragði.
En nú er tæknitröllið allt. Við sem eftir stöndum höfum misst einn hugmyndaríkasta tæknimann veraldar. Mann sem hefur breytt því hvernig við notum tölvu- og fjarskiptatæknina. Manninn sem steypti tölvunni og símanum saman í eitt. Þróaði tónhlöðuna iTunes, gaf okkur iPod, iPhones og nú síðast iPad. Í dag er enginn í lagi nema hann eigi eitthvað i-tæki. Ég á bara eldgamlan iPod, þannig að ég er rétt á mörkunum, en það er sama hvert maður fer á kaffihús eða stóra fundi, út um allt eru i-græjurnar hans Steven Paul Jobs. Ætli hann hafi séð þetta fyrir þegar þeir nafnar stofnuðu Apple fyrir 35 árum?
Steve Jobs, takk fyrir allt sem þú hefur fært heiminum síðustu 35 ár! Án þín hefðum við verið mun fátækari og ekki komin eins langt í tækniþróun.
Viðbót 6.10. kl. 12:00
Ég verð að bæta við ræðu Steve Jobs sem hann hélt við útskrift hjá Stanford háskóla árið 2005. Hún er algjört meistarastykki. Fyrst ræðan eins og hún birtist okkur á YouTube
Síðan er slóð á vef Stanford háskóla, þar sem ræðan er birt í heild í rituðu máli.
Steve Jobs látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 38
- Frá upphafi: 1680019
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Fróðlegur pistill, takk
Gunnar Th. Gunnarsson, 6.10.2011 kl. 04:47
Það verður erfitt að fara í fótspor Jobs! Ég hef nú aldrei orðið svo frægur að nota neitt Apple tæki en maður hefur svo sem slefað yfir iMac og iPad;) Það verður athyglisvert að sjá hvernig Apple gengur að fóta sig að honum gengnum. Maður kemur í manns stað segir máltækið en Jobs var ekki hver sem er!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 6.10.2011 kl. 05:53
Takk fyrir greinina.
Hrannar Baldursson, 6.10.2011 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.