7.6.2011 | 00:54
Tilskipun frá 1798 um áritun afborgana á skuldabréf - Vaxtakvittun gildir gagnvart öllum eigendum viðskiptabréfs
Ýmislegt skemmtilegt er til í íslensku lagasafni. Sum lög eru t.d. öðrum lífseigari og þar eru lífseigust allra lög frá 1275 Kristinréttur Árna biskups Þorlákssonar. Í þjóðlendumálum hafa menn síðan gjarnan vitnað til Jónsbókar frá 1281. Um ferminguna eða "uppvaxandi upgdómsins confirmation" er getið í konungstilskipun frá 1736 og aftur í tilskipun frá 1759. Allt er þetta mismikilvægt og þannig á líka við um tilskipun frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.
Tilskipunin er frekar stutt, þannig að ég ætla bara að birta hana hér í heild:
1. gr. Eins og það er skylda lánardrottins, þegar skuldunautur borgar allan höfuðstól skuldabréfs, að skila honum aftur bréfinu með áritaðri kvittun, eins á hann, þegar nokkuð er afborgað af höfuðstólnum, að hafa við höndina frumrit skuldabréfsins, og vera skyldur til, í nærveru skuldunauts eða umboðsmanns hans, að rita bæði á bréfið sjálft það, er afborgað er, og að gefa auk þess sérstaka kvittun fyrir því.
Ef lánardrottinn skorast undan að gera þetta, þá er skuldunaut (sem vottfast býður fram afborgun þá, er greiða skyldi) heimilt að fresta afborguninni, þangað til lánardrottinn gegnir fyrrgreindri skyldu sinni; og er skuldunaut eigi skylt, meðan svo stendur, að svara vöxtum af þeim hluta höfuðstólsins, sem í gjalddaga var fallinn og boðinn var fram.
2. gr. Kvittanir á lausu blaði fyrir afborgunum af höfuðstól, er skuldabréf er fyrir, skulu, ef afborganirnar eru eigi einnig ritaðar á skuldabréfið sjálft, aðeins hafa gildi gagnvart þeim, sem gaf þær út, en eigi teljast gildar gagnvart öðrum, sem fyrir veðsetningu, framsal eða á annan löglegan hátt eru orðnir réttmætir handhafar skuldabréfsins.
3. gr. Þó má vaxtagreiðsla vera undanþegin þessum fyrirmælum, og sérstakar kvittanir fyrir vöxtum vera fullgildar, eigi aðeins gagnvart þeim, er út gaf kvittunina, heldur og gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar.
Árita skal afborgun á frumrit skuldabréfs
Tilskipunin lýsir því að árita eigi afborganir á skuldabréf til sönnunar því að afborgun hafi átt sér stað. Hafi lánardrottinn ekki gert það, þá er lántaka (skuldunaut) heimilt að fresta frekari afborgunum uns lánardrottinninn hefur orðið við þessu. Það sem meira er, óheimilt er að reikna vexti vegna hinnar gjaldföllnu en ógreiddu afborgunar meðan áritun hefur ekki farið fram.
Ansi er ég hræddur um að fá fjármálafyrirtæki uppfylli ákvæði þessarar tilskipunar. Mér er sagt að fyrir 15 árum hafi þetta verið mjög tímafrekur og mikilvægur starfsþáttur hjá útlánsfyrirtækjum, en síðan hafi þetta lagst af. Bent hefur verið á að lög nr. 131/1997 sé hugsanleg orsök fyrir því að þessi háttur var lagður af, en í 20. gr. laganna segir m.a.:
Lokafærsla verðbréfamiðstöðvar um greiðslu afborgunar og vaxta inn á reikning til eignarskráðs rétthafa hefur sama gildi gagnvart skuldara og áritun á skuldabréf
Málið er að lögin gilda bara um "rafræna útgáfu verðbréfa og skráningu eignarréttinda yfir þeim." Þau sem sagt gilda ekki um verðbréf sem gefin eru út á pappír.
Miðað við orðanna hljóðan í tilskipuninni frá 1798, þá geta lántakar (skuldunautar) núna labbað inn til síns viðskiptabanka og neitað að greiða næstu afborgun lána sinna þar til bankinn er búinn að árita hverja einustu undangengna afborgun á skuldabréfið sjálft og dugar þá ekki að gera það á eitthvert afrit, þetta skal gert á frumrit bréfsins. Sé ég fyrir mér kaosinu sem yrði í bönkunum, ef lánþegar ætla að krefjast þessa af bankanum sínum. Nú dugir ekki fyrir löggjafann að hlaupa til og breyta þessu, þar sem lög geta ekki verið afturvirk. (Asni er ég. Þegar kemur að því að bjarga fjármálafyrirtækjum úr klemmu, þá er hægt að setja afturvirk lög. En þegar bjarga á almúganum, þá er það brot á rétti ímyndaðra "erlendra kröfuhafa".)
Kvittun fyrir vöxtum telst fullgild gagnvart öllum
En þetta er nú ekki stærsta málið í þessari ágætu tilskipun. Í grein 2 og 3 segir nefnilega að kvittanir á lausum blöðum hafi ekkert gildi nema fyrir þann sem gaf þær út nema að þær séu fyrir vöxtum. Þannig "má vaxtagreiðsla vera undanþegin þessum fyrirmælum, og sérstakar kvittanir fyrir vöxtum vera fullgildar, eigi aðeins gagnvart þeim, er út gaf kvittunina, heldur og gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar".
Nú er ég ekki löglærður, en þarna sýnist mér tilskipunin segja að kvittunin sem ég fékk fyrir vöxtunum sem ég greiddi árið 2005 af þá gengistryggða láninu mínu teljist fullgild "gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar". Þ.e. bankinn með nýju kennitöluna sem fékk fyrirmæli frá Fjármálaeftirlitinu að taka við láninu mínu, hann getur ekki innheimt aðra vexti aftur í tímann en þá sem ég hef greitt, hafi ég í höndunum kvittun á lausu blaði um að greiðslan hafi átt sér stað. Eins gott að maður hafi kvittanirnar við höndina.
Krefjumst þess að fjármálafyrirtæki fari að lögum
Ég held að kominn sé tími til að fjármálafyrirtækin fari að lögum. Þau komust upp með það í 9 ár að brjóta gegn lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Í hátt í 15 ár hafa þau líklega brotið gegn tilskipuninni frá 1798 vegna þess að þau tóku að sér að túlka lög nr. 131/1997 frjálslega sér í hag. Nú ætla sum þeirra (tek fram að þau sem ekki lánuðu gengistryggt eru saklaus) að rukka stóran hluta heimila um nýja vexti þrátt fyrir að tilskipunin frá 1798 segi að kvittun sem send hafi verið af fjármálafyrirtækinu teljist fullgild þó svo að skuldabréfið hafi komist í eigu annarra eftir að vaxtagreiðslan átti sér stað.
Ég er búinn að eiga í bréfaskiptum við eina af nýju kennitölunum og bent þeim á, að vilji þeir rukka mig um vexti aftur í tímann, þá hafi ég staðið í skilum við hrunbankann og verið í skilum þegar nýja kennitalan eignaðist lánin mín. Þeir blésu náttúrulega á það eins og afmæliskerti, en svo virðist sem illa gangi að slökkva á kertinu. Líklegast svona trixkerti. En svo virðist sem tilskipunin frá 1798 komi mér til hjálpar. Kvittanirnar sem ég hef fyrir vöxtunum frá maí 2004 til október 2008 teljast fullgild (og þar með fullnaðar-) kvittun fyrir vaxtagreiðslunni. Eigandi skuldabréf getur ekki, þó ekki sé sá sami og tók við vaxtagreiðslunni, krafist þess að vextir verði greiddir aftur af sama gjalddaga.
Ættu fjármálafyrirtækin að óttast innihald tilskipunarinnar frá 9. febrúar 1798? Ja, svari nú því hver fyrir sig. Ekki fer á milli mála að 3. gr. verður mörgum þeirra þungur baggi, svo mikið er víst. En hvað myndi nú gerast, ef lánþegar (skuldunautar) krefjast þess að farið sé að 1. greininni. Í hvernig málum gætu fjármálafyrirtækin þá lent? Hvað ætli taki langan tíma að árita allar afborganir á skuldabréf til 10 ára með mánaðarlegum gjalddögum? Það eru 120 áritanir sem þurfa að vera á bréfinu. Líklegast búa þau til tölvuforrit til að sjá um þessar áritanir, en það þarf að sækja hvert einasta skuldabréf í hvert sinn sem greitt er af því og árita það. Er ég hræddur um að starfsmannafjöldinn í fjármálafyrirtækjunum mundi ekki duga, ef allir lántakar nýttu sér þetta. Ekki að ég myndi nenna því, þar sem um langan veg er að fara, 20-25 mínútur bara aðra leiðina. Síðan myndi bætast við löng bið í bankanum, þar sem líklegast hefðu fleiri fengið þessa hugmynd. En ég held að fjármálafyrirtækin ættu að óttast það, að lántakar krefjist að þau uppfylli ákvæði 1. gr. tilskipunar frá 1798.
Framkvæmd tilskipunarinnar prófspurning
Þegar ég var að leita upplýsinga fyrir þessa færslu, þá rakst ég á próf í viðskiptabréfaviðskiptum frá því 6. nóvember 2010. Í C-hluta prófsins er einmitt spurning sem snýr að þessu efni, þ.e. er kvittun fyrir vöxtum fullnaðarkvittun. Án þess að hafa svarið fyrir framan mig, þá þykist ég alveg átta mig á hvert það var. Það var nefnilega gefið upp í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. október 2007, en þar segir í dómsorðum:
Þá leiða reglur um viðskiptabréf til þess að stefnda getur borið greiðslukvittun fyrir sig gagnvart stefnanda, sbr. 2. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.
Búmm, ég heyri varnir fjármálafyrirtækjanna falla, sérstaklega ef ég bæti ákvæði 3. gr. við um vextina.
(Ég vil taka það fram að Sturla Jónsson (gjarnan kallaður Sturla bílstjóri) á heiðurinn af því að rannsaka þessa tilskipun og koma með ábendinguna.)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 87
- Sl. viku: 275
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Heill og sæll Marinó; æfinlega !
Þakka þér fyrir; þessar veigamiklu tilvitnanir.
Heyrði Sturlu; geta ákvæðisins, frá árinu 1798, á Útvarpi Sögu, í nýliðinni viku - og þókti fengur að, hans framsetningu.
Reyndar; eruð þið báðir, þú og Sturla, ómetanlegir Íslendingum, í fölskvalausri baráttunni, gegn illræðis öflum, okkar samtíma, þó ólíkar séu, aðferðir ykkar - en; haldgóðar mjög, til lengri tíma litið.
Með beztu kveðjum; sem jafnan, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.6.2011 kl. 01:19
Það ætla ég rétt að vona að banka liðið fái verðugan skell af þessu,og er þeim það mátulegt. Vona bara að lögfræðinga stóðið nái ekki að snúa neitt útúr.
Þakka þér svo kærlega fyrir óeigingjörn störf í þágu okkar öreigana.
Þórarinn Baldursson, 7.6.2011 kl. 01:44
Þakka þér fyrir mikinn og góðan fróðleik Marinó, ekki verra að vita af þessum frábæru lögum! :)
elkris (IP-tala skráð) 7.6.2011 kl. 02:25
Takk fyrir þennan fróðleik. Þetta er afar mikilvægt í baráttunni við fjármálaöflin. Ég man að árið 1985, þegar ég fór að starfa í banka, voru afborganir færðar aftan á frumrit skuldabréfs. Það var að vísu ekki gert í ásýnd greiðandans, heldur gert í lok starfsdags, eftir að búið var að loka afgreiðslunni. Þá var raðað saman öllum kvittunum fyrir afborgunum af skuldabréfum, farið með það inn í skjalageymslu, frumritið dregið fram og stimplað á það og kvittað á með fangamarki þess sem framkvæmdi. Það er því ekki mjög langt síðan þessi regla var í notkun.
En aftur kærar þakkir, til þín og Sturlu.
Guðbjörn Jónsson, 7.6.2011 kl. 08:22
Ég heyrði eina góða seögu sem á að vera dagsönn. Maður einn var með skuldabréf í banki og einmitt vísaði í þessi lög. Viðkomandi bankastarfsmaður kom af fjöllum þegar minnst var á þessa reglu og var víst mjög tregur til. Svo þegar bankastarfsmaðurinn áttaði sig á réttmætri kröfu viðskiptavinarins að þá var farið að leita af skuldabréfinu í bankanum. Maðurinn kom viku seinna og ekkert fannst. Eftir mikla leit að þá var viðskiptavininum tilkynnt að bréfið væri hvergi að finna. Síðar kemur í ljós að bréfið var komið alla leið til Hollands... og búið að afskrifa bréfið.
Samt átti að rukka manninn um stökkbreyttan höfuðstól og afborganir. Nýji bankinn var búinn að afskrifa bréfið með öllu en vildi að örðu leiti ekki semja. Þetta eru málin í hnotskurn og er þetta löngu hætt að snúast um samninga á milli fólks (kúnna og banka) og verður ekkert réttlæti fengið fram fyrr en farið verður í beinar aðgerðir gegn þessum fyrirtækjum. Ég hef heyrt af mörgum svona tilfellum þar sem bankarnir vilja ekker gera og ætla ekkert að gera. Jafnvel þó þeir brjóti lög og reglur með öllu.
Hlynur (IP-tala skráð) 7.6.2011 kl. 09:25
Ég hef orðið var við tvö svipuð tilfelli og Hlynur lýsir hér að ofan. Bæði tilfellin gerðust fyrir hrun. Ég annaðist uppgjör á skuldabréfi fyrir aðila sem ég var að aðstoða. Ég fór í bankann sem veitti lánið,til þess að greiða eftirstöðvar skuldabréfins, samkvæmt samkomulagi um uppgjör skulda, sem staðfest hafði verið af bankastjóra. Skuldabréfið fannst ekki í skjalageymslu. Ég krafðist þess að fá að sjá það með eigin augum að skjalið væri ekki á sínum stað, í þeirri númeraröð sem því bar að vara. Þar var ekkert skuldabréf og engin tilvísun um hvað hefði verið gert við skjalið. Ég greiddi samt greiðsluna og lét bankamanninn skrá á greiðslukvíttunina að leit hefði verið gerð að frumriti en það ekki fundist. Í samráði við bankastjóra staðfesti hann einnig að um lokagreiðslu og endanlegt uppgjör skuldabréfsins væri að ræða. Þremur árum síðar fékk greiðandinn skuldabréfið sent í ábyrgðarpósti, án allra skýringa eða afsökunarbeiðni.
Hitt tilfellið var álíka, nema að þar hefur skudlabréfið ekki komið fram. Reyndar er komið á annað ár síðan ég spurði síðast, en þá hafði frumritið ekki skilað sér enn.
Að lokum veit ég um eitt tilfelli þar sem greiðsluseðill var sendur út vegna skuldabréfs sem búið var að gera upp. Sá sem þarna átti í hlut hafði gætt þess að geyma frumritið og gat framvísað því. Var hann þá beðinn afsökunar, en fékk greiðsluseðil aftur mánuði síðar. Þá urraði hann á bankann og síðan hefur ekkert verið rukkað.
Það var orðið ljóst, löngu fyrir hrun, að skjalavistun bankanna var ekki í lagi. Ábendingum þar um var ævinlega stungið undir stól. Þess vegna er mikilvægt að geyma allar greiðslukvittanir, þar til búið er að fá afhent frumrit skudlabréfsins og geyma svo frumritið út fyrir alla fyrningarfresti.
Guðbjörn Jónsson, 7.6.2011 kl. 11:27
Takk fyrir gott innlegg Marínó. Eins og oft áður þá skiftir það máli sem þú segir. Sakna þess að þú sért ekki lengur í framlínunni. Sakna þess líka að ekki skuli vera 30 þús eða meir á Austurvelli að mótmæla SJS og Jóhönnu.
kveðja Egill Kolbeinsson
Egill Kolbeinsson (IP-tala skráð) 7.6.2011 kl. 18:23
Þetta er flott.
Ef þetta stenst þá eru lántakendur komnir með all svakalegt vopn í hendurnar í glímunni við fjármálafyrirtækin.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 7.6.2011 kl. 19:26
Sæll Marinó trixkerti,
mjög athyglisverð færsla.
Gunnar Skúli Ármannsson, 7.6.2011 kl. 19:42
Sæll Marinó,
Ég man eftir að hér í gamla daga þegar maður var að taka skuldabréf of víxla í búskapnum, þá fékk maður þessa pappíra stimplaða og kvittaða af bankanum þegar maður borgaði þá síðustu afborgun. Man ekki eftir að það væri ekki gert.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 8.6.2011 kl. 01:29
Er ég hræddur um að starfsmannafjöldinn í fjármálafyrirtækjunum mundi ekki duga
Er Sturla Jónsson ekki bara að hefja margumrætt atvinnusköpunarátak, nánast upp á eigin spýtur?
Dropinn holar steininn...
Guðmundur Ásgeirsson, 8.6.2011 kl. 14:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.