Leita í fréttum mbl.is

600 milljarðar af skuldum heimilanna við bankana vegna verðtryggingar og fleira áhugavert

Þær hrúgast inn skýrslurnar og skjölin þessa daganna, sem styðja við fullyrðingar okkar sem staðið hafa í fararbroddi í fyrir hagsmunum heimilanna eftir hrun.  Rit Seðlabanka Íslands Fjármálastöðugleiki 2011-1, sem kom út í dag, dregur þar ekkert undan og "kjaftar frá" fleiri atriðum sem bankarnir vilja ekki að við vitum.  En hvað hef ég, Hagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega, þingmenn á borð við Lilju Mósesdóttur, Eygló Harðardóttur, Þór Saari, Margréti Tryggvadóttur og fleiri óþægilegir andmælendur stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna sagt.

mynd_ii-39.jpg1. Bankarnir þrír fengu lán heimilanna með verulegum afslætti frá hrunbönkunum.  Á mynd II-39 á bls. 38 (sjá hér til hliðar) í skýrslunni sést svart á hvítu að útlán innlánsstofnana til heimilanna fóru upp í um 1.050 ma.kr. í  lok september 2008, en höfðu fallið niður í um 500 ma.kr.tveimur mánuðum síðar og standa í þeirri tölu í dag.  Kannski er ég bara svo endalaust óheppinn, en allt þar til í lok mars á þessu ári, þá héldu mínir viðskiptabankar því fram að mínar skuldir hefðu hækkað en ekki lækkað frá haustinu 2008.  Jafnvel í gögnum sem þessi fjármálafyrirtæki skiluðu inn til skattsins vegna skattskýrslu ársins, þá héldu þeir því fram að gengisdómar Hæstaréttar hefðu ekki haft nein áhrif á lánin mín, þrátt fyrir að í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna og á myndritinu á mynd II-39 sjáist glögglega að bankarnir gerðu strax ráð fyrir að lánin væru ólögleg eða í versta falli ekki innheimtanleg.  En samt héldu bankarnir áfram að innheimta þau eins og þeir hefðu greitt fullt verð fyrir þau.  Nú langar mig að vita í eitt skipti fyrir öll:  Hvort teljast útlán innlánsstofnana til heimilanna um 500 ma.kr. eða 1.000 ma.kr.?

mynd_ii-41.jpg2. Vanskil munu fara vaxandi verði ekki gripið til róttækra ráðstafana.  Mynd II-39 sýnir að hlutfall 90 daga vanskila heimilanna sem hlutfall af útlánum hafa farið út nánast engu fyrri hluta árs 2008 í um 11% hvað nemur fjárhæð, en samkvæmt mynd II-40 eru þetta 21% af heildarútlánum til heimila og hefur það haldist stöðugt síðasta árið.  Hafa skal í huga, að sé eitt lán lántaka hjá viðkomandi banka í 90 daga vanskilum, þá teljast öll lán viðkomandi hjá bankanum í vanskilum.  Þá sýnir mynd II-41 (sjá hér til hliðar) að glansmyndin sem Jóhanna og Árni Páll hafa dregið upp um að heimilum í alvarlegri stöðu hafi ekki fjölgað svo mikið (börðu sér á brjósti með þetta í eldhúsdagsumræðu á Alþingi á fyrri hluta árs 2010) er enn ein blekkingin.  Frá ársbyrjun 2009 hefur heimilum sem eru í alvarlegum vanda fjölgað um vel yfir 7.000 eða um 40%.  Þó svo að dregið hafi úr gjaldþrotum einstaklinga, þá er það mín tilfinning að þetta sé lognið á undan storminum.  Einnig má segja að úrræðin sem verið er að vísa einstaklingum í, þ.e. greiðsluaðlögun og 110% leiðin, sé ígildi gjaldþrots, þar sem fólk er gert eignalaust með öllu, þó það sé ekki formlega lýst gjaldþrota.

mynd_ii-37.jpg3. Verðtrygging ber ábyrgð á 600 af 1.400 ma.kr. af skuldum heimilanna hjá lánakerfinu.   Hún er fróðleg mynd II-37 á bls. 37 (sjá hér til hliðar).  Af um 1.400 ma.kr. útlánum lánakerfsins til heimilanna eru um 600 ma.kr. vegna verð- og gengisáhrifa eða tæp 43%. Þar sem gengisáhrif eiga að mestu að vera horfin út úr þessum útreikningum, þá má búast við því að verðtryggingin hafi hækkað höfuðstól útlána um 75%.  Ég veit ekki hvernig afslátturinn á lánasöfnunum frá hrunbönkunum hefur áhrif á verðtryggingarþáttinn.

4. Lítið hefur gengið í leiðréttingu skulda umfram það sem dómstólar hafa dæmt.  Ég hef, ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna og Samtökum lánþega, ítrekað haldið því fram að ekki  fjármálafyrirtækin hafi lítið gert annað en þau hafa verið neidd til af dómstólum og jafnvel hafa mörg þeirra þrjóskast við.  Á bls. 39 í riti Seðlabankans segir:  

Eftir fjármálaáfallið hefur verið boðið upp á nokkur úrræði fyrir heimili í greiðsluerfiðleikum. Þar má nefna aðlögun íbúðaskulda að verðmæti veðsettra eigna, svokölluð 110% leið, greiðslujöfnun fasteignaveðlána, sértæk greiðsluaðlögun og ýmis úrræði varðandi sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð. Niðurfærsla á skuldum heimilanna hefur þó líklega átt sér að mestu stað í gegnum endurútreikning á lánum sem innihéldu ólögmæta gengistryggingu.

Hér tekur Seðlabankinn alveg undir með okkur. Leiðréttingin er fyrst og fremst að skila sér fyrir tilstuðlan dómstóla!

Málefni fyrirtækja

Ég hef ekki  fjallað mikið um málefni fyrirtækja og er það einfaldlega vegna þess, að þau ættu að hafa nægan aðgang að sérfræðingum til að halda uppi vörnum fyrir sig.  Mér virðist aftur sem svo sé ekki og raunar hafi hagsmunasamtök fyrirtækja, svo sem Samtök atvinnulífsins, ákveðið að taka ekki afstöðu í skuldamálum þeirra.  Er mér það gjörsamlega óskiljanlegt, þar sem lán fyrirtækja voru líka færð frá hrunbönkunum til þeirra nýju með miklum afslætti.

mynd_ii-21.jpgÁstæðan fyrir því að ég vil taka upp málefni fyrirtækja hér eru ummæli seðlabankastjóra í  kvöldfréttum annarrar hvorrar sjónvarpsstöðvarinnar.  (Man ekki hvorri, en líklegast var það á Stöð 2.).  Þar nefndi hann að skuldir fyrirtækja væru svo og svo hátt hlutfall af landsframleiðslu (um 243% sbr. bls. 31 í riti SÍ).  Nú veit ég ekki hver sú verga landsframleiðsla er, sem Már Guðmundsson var að vísa til, eða til hvaða skulda er verið að vísa. Samkvæmt mynd II-21 á bls. 31 (sjá hér til hliðar), þá eru "útlán til innlendra og erlendra fyrirtækja" innan við 1.500 ma.kr.  (Í texta á bls. 32 er þetta sagt vera "bókfært virði".)  Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna voru lán nýju bankanna þriggja til viðskiptavina í stofnefnahagsreikningi 1.463 ma.kr., þ.e. svipuð tala og öll lán á bókfærðu virði eru í dag.  Samkvæmt upplýsingum á bls. 16 í riti Seðlabankans eru 952 ma.kr. af 1.700 ma.kr. útlánum viðskiptabankanna (að BYR undanskyldum) til fyrirtækja.  Í síðustu færslu benti é á, að hvergi hefur komið fram að við yfirfærslu lánanna hafi eitthvað verið fært á varúðarreikning hjá þeim vegna hugsanlegrar virðisrýrnunar.  Ársreikningar bankanna bera þess ekki heldur merki.  Bankarnir eru því annað hvort að færa bókhald sitt vitlaust og gefa rangar upplýsingar upp í ársreikningum sínum eða að fullyrðingar um að útlán og kröfur nemi 243% af landsrframleiðslu eru rangar.  Raunar er fáránleiki upplýsinga Seðlabankans ennþá meiri, þar sem sagt er að hæst hafi skuldirnar orðið 330% af landsframleiðslu og er þá líklegast verið að vísa til toppsins sem sést á mynd II-21, en hann nær um 6.200 ma.kr. Ekkert samræmi er á milli upplýsinga á mynd II-21 og þessara tveggja tilvísana í landsframleiðsluna.

En skoðum aðeins þessi 243% af landsframleiðslu.  Fyrst vil ég nefna að sú tala dettur nánast af himnum ofan í riti SÍ.  Ekki er skilgreint hvaða fyrirtæki eiga þessar skuldir, hvað þá hvort þetta séu sömu fyrirtæki og talað er um annars staðar í ritinu.  Ekki er hægt að draga aðra ályktun en svo sé, en samt vil ég gera fyrirvara um það hvað framhaldið varðar. 

243% af landsframleiðslu er um 3.550 ma.kr. miðað við að verg landsframleiðsla sé um 1450 ma.kr.  Á mynd II-21 sést greinilega að staðan núna er tæplega 1.500 ma.kr. eða 2.000 ma.kr. undir þessum 3.550 ma.kr.  Í svari Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, til Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Framsóknar, sem tilefni síðustu færslu, segir ráðherra að á árunum 2009 - 2010 hafi 481 ma.kr. verið afskrifaður af útlánum bankanna þriggja.  Leggjum þá tölu við og skuldir án afskrifta ættu því að vera um 4.100 ma.kr.  Þetta er því að lágmarki sú upphæð sem fjármálafyrirtæki (að stærstum hluta nýju bankarnir þrír hafa verið að innheimta af fólki og fyrirtækjum.  Þetta er áhugavert af tveimur ástæðum:  1) Samkvæmt myndum II-21 og II-39, þá hafa skuldir fyrirtækja og heimila haldist nánast óbreyttar frá nóvember 2008, þ.e. 1.500 ma.kr. annars vegar og 500 ma.kr.  Að teknu tilliti til afskriftanna sem koma fram í svari Árna Páls, en ekki í bókum bankanna, þá eru fjármálafyrirtækin að reyna að innheimta af fólki og fyrirtækjum 1.550 ma.kr. umfram bókfært virði krafna.  2)  Samkvæmt stofnefnahagsreikningi voru yfirtekið lán nýju bankanna vegna viðskiptavina gömlu bankanna 1.463 ma.kr.  Af þessu má draga þá ályktun að lán annarra innlánsstofnana til fólks og fyrirtækja hafi verið um 500 ma.kr.  Ef nýju bankarnir hafa fylgt bókhaldslögum, þá er síðan búið að afskrifa af þessum 1.463 ma.kr. um 481 ma.kr.

Hvernig sem þessar tölur eru skoðaðar, þá er ekki hægt að finna neitt samræmi milli þeirra.  Hvað eru skuldir fyrirtækja miklar?

1)  Samkvæmt stofnefnahagsreikningi nýju bankanna, þá eru þær 1.463 ma.kr. mínus skuldir heimilanna (hámark 500 ma.kr.) plús lán fyrirtækja hjá öðrum innlánsfyrirtækjum (hámark 500 ma.kr.) plús skuldir hjá öðrum lánafyrirtækjum (stóðu í 230 ma.kr. um áramót skv. hagtölum Seðlabanka Íslands) alls er þetta líklegast á bilinu 1.700 - 1.800 ma.kr.

2)  Samkvæmt svari Árna Páls var 481 ma.kr. afskrifaður af skuldum fyrirtækja hjá bönkunum þremur árin 2009 - 2010.  Líklegast eru þessar afskriftir ekki færðar á réttan hátt í bókhaldi bankanna, þar sem þær áttu í raun sér stað hjá hrunbönkunum, en gefum okkur nú að þetta hafi átt sér stað hjá nýju bönkunum, þá ættu skuldir fyrirtækja að vera að hámarki 1.800 ma.kr. - 481 ma.kr. = 1.319 ma.kr.

3)  Seðlabankinn segir aftur að skuldirnar séu 243% af vergri þjóðarframleiðslu eða um 3.550 ma.kr.  Hugsanlega er skýringin að inn í þessa tölu vantar Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og önnur fyrirtæki sem taka lán á erlendum markaði, en þá stenst ekki að 330% af vergri landsframleiðslu hafi verið um 6.200 ma.kr.

4)  Á bls. 16 í riti Seðlabankans er nefnt að bókfært virði heildarútlána viðskiptabankanna hafi í árslok 2010 numið 1.700 ma.kr. sem skiptist þannig að 56% eða 952 ma.kr. hafi verið til fyrirtækja, 25% eða 425 ma.kr. til heimila og afgangurinn til annarra.  Samkvæmt þessu eru lán fyrirtækja bókfærð á innan við 1.700 ma.kr.

Hvernig sem horft er á þessar gjörsamlega ósamanburðarhæfu tölur þriggja opinberra aðila, þá er niðurstaðan skýr.  Bókfærðar kröfur fjármálafyrirtækja á fyrirtækin í landinu eru vel innan við 2.000 ma.kr.  Bókfærðar kröfur nýju bankanna þriggja stóðu um síðustu áramót í vel innan við 950 ma.kr.  Hvernig stendurá því að hagsmunasamtök fyrirtækja láta það viðgangast að þessir 950 ma. eru innheimtir eins og þeir séu 2.000 - 2.500 ma.kr. hærri tala? Er það eitthvað lögmál, að nýju bankarnir eigi að taka yfir alla lífvænlega starfsemi í landinu, þegar gömlu hrunbankarnir afskrifuðu skuldir fyrirtækja um 60-70% áður en þær voru færðar yfir til nýju bankanna?  Eru atvinnurekendur svo linir að þeir láta nýju bankanna vaða yfir sig á skítugum skónum með kröfur sem gömlu bankarnir afskrifuðu?  Höfum eitt alveg á hreinu:  Nýju bankarnir hafa nánast ekki "afskrifað" neitt annað en það sem var þegar afskrifað í hrunbönkunum.  Samkvæmt ársreikningum þeirra voru útlán til viðskiptavina 1.559,4 ma.kr.  Samkvæmt þessum sömu ársreikningum voru afskriftir 47,9 ma.kr. árið 2010 og 44,4 ma.kr. árið 2009 eða alls 92,3 ma.kr., ekki 481 ma.kr. eins og Árni Páll segir í sínu svari til Gunnars Braga.  Eigum við þá að trúa því að mismunurinn hafi ekki verið færður til bókar í ársreikningum eða eru þessar tölur bara blekking?

Kannski sætta fyrirtækjaeigendur sig við vinnubrögð nýju bankanna!  Kannski líta þeir sem svo á málin að þeir eigi ekki annað skilið en að leggja bönkunum til eignir og hagnað næstu árin!  Ég hef a.m.k. ekki séð neina áberandi andstöðu fyrirtækja við innheimtuaðgerðir bankanna.  Hver sem ástæðan er, þá er hún hvorki að gera fyrirtækjunum gott né heimilunum.


mbl.is 25 þúsund á vanskilaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Góð samantekt. Hins vegar er hægt að ná meiri árangri með því að tala við steypuvegg en einhvern úr ríkisstjórn - hún er alveg lokuð fyrir raunveruleikanum.

Sumarliði Einar Daðason, 31.5.2011 kl. 22:48

2 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Takk fyrir ítarlega skýrslu.

Þessi segir meira á rétt um A4 síðu en tæplega 90 síðna söuglegt skáldverk Fjálgmálaráðherra um bankana.

Skuldastaða fyrirtækjanna er mun minni en ríkisbáknsins þar sem að þau hafa hagrætt í rekstri, frestað nýfjárfestingu, sagt upp fólki, dregið saman seglin og eru nú að rísa upp.

Þetta er það sem sagt var um íslenska ríkið strax eftir fall.... en í stað þess að skera niður héldu "ný" öfl áfram að belgja út kerfið meðan belgt var enn meira í áráðursvélina sem er á við það sem gerðist best hjá 3.ja ríkinu.

Eins og Sumarliði segir hér að ofan að þá er vonlaust að ná sambandi þar sem að Helferðarstjórnin er eins og eldfjall. Það skiptir engu máli um hversu miklar hörmungar verða.... ekki er hægt að fá þau til að hætta.

Óskar Guðmundsson, 31.5.2011 kl. 23:40

3 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Eitt vantar í tölu SÍ.

Gjaldþrotum einstaklinga hefur fækkað þar sem að það kostar um 500þ. að keyra í gegn gjaldþrot.

Ef Árni Páll kemur sínu í gegn þarftu að fara í greiðslumat fyrir gjaldþrot.

Það sem vantar að skoða er meðaltal skulda á einstakling m.v. framfærslu og bindingu lausfjár í eignum (nú lofti) milli þess sem var og þess sem er en þar spilar kaupmátturinn gríðarstórt hlutverk.

Óskar Guðmundsson, 31.5.2011 kl. 23:46

4 identicon

sæll , og takk fyrir þessa skýrslu, þú nefnir nokkra þingmenn þarna..... af hverju áttu svona erfitt með að nefna SDigmund Davíð, kom hann ekki með break through tillögu um 20% af öllum skuldum..... nefndi hann ekki Wyman og Deloitte skýrsluna daginn fyrir kosningar í fyrirspurn til Steingríms í sjónvarpssal, sagði hann ekki að ríkið þyrfti ekki að ausa jafn miklum peningum í bankana nýju ef við héldum rétt á spilunum gagnvart stærð og kröfuhafa? hvað hefur hann svo sagt allan tímann í Icesave??? einfaldlega langbesti þingmaðurinn á þessu kjörtímabili so far

siguróli kristjánsson (IP-tala skráð) 1.6.2011 kl. 08:32

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Seðlabankinn hefur sjálfur lýst því yfir að ekkert sé að marka samanteknar hagtölur vegna áhrifanna af þrotabúum gömlu bankanna og þeirra skuldbindinga sem þar á eftir að afskrifa. Upplýsingar þaðan verður að skoða í þessu ljósi. Svo má velta því fyrir sér hvort einhver hafi hagsmuni af að flækja og gera þetta óljóst, til þess að dylja hver raunveruleg staða er.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.6.2011 kl. 10:49

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Í morgun fór fram utandagskrárumræða þar sem Steingrímur gerði grein fyrir skýrslunni um endurreisn bankanna. Þar kom fram enn eitt talnasettið um yfirfærsluverðmætið.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/06/01/threkvirki_vid_endurreisn_banka/

Sagði Steingrímur að upphaflegt mat á verðmæti yfirfærslunnar hafi verið 2.886 milljarðar króna. Verðmat Deloitte hefði svo verið á bilinu 1.880 til 2.200 milljarðar króna. „Það sem samið var um að lokum voru 1.760 milljarðar, sem svarar um 56% af fyrra eignamati og hugmyndir um verð eignanna virðast því hafa verið hærri á síðari hluta árs 2008 en samið var um að lokum,"

Hér er samantekt fjármálaráðneytisins á innihaldi skýrslunnar:

http://www.fjarmalaraduneyti.is/media/frettir/greinargerd.pdf

Tilvitnanir úr samantektinni:

"FME, Seðlabanki og AGS töldu ákjósanlegt fyrir fjármálakerfið að gömlu bankarnir eignuðust nýju bankana."

"Niðurstaðan er því mjög hagstæð fyrir ríkissjóð hvernig sem reiknað er..."

"Viðskiptabankar munu veita einstaklingum meiri afslátt af lánum þeirra en samið var um við yfirfærsluna en aukin verðmæti fyrirtækjalána munu bera það uppi."

Guðmundur Ásgeirsson, 1.6.2011 kl. 11:41

7 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Takk Marinó fyrir framúrskarandi samantekt.

Það er augljóst að bankarnir ráða öllu í þessu þjóðfélagi okkar og því þarf að afnema völd þeirra.

Gunnar Skúli Ármannsson, 1.6.2011 kl. 23:29

8 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

Það er einföld skýring á því hvers vegna gjaldþrotum fjölgar ekki á þessum ólgutímum, kröfuhafinn þarf að borga að minnsta lagi 250.000 kr til að gera skuldarann gjaldþrota og missir um leið skuldarann úr snörunni því hann getur að öllu jöfnu risið aftur upp eftir tvö ár án þess að þurfa að hafa áhyggjur af fyrri skuldum.

En með því að enda rukkunina ekki með því að gera skuldarann gjaldþrota heldur skilja hann eftir í því lausa lofti sem skilið var eftir handa kröfuhöfum og kallast árangurlaust fjárnám þá getur kröfuhafinn sparað sér 250.000 kr og á nánast endalausan rétt á að rukka skuldarann nema skuldarinn hafi rænu á því og getu til að leggja fram þessar 250.000 kr sem þarf til að gera sjálfan sig gjaldþrota.

Í umsögn minni fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna um gjaldþrotalögin þá benti ég mjög ákveðið á þessa hættu og vildi að það yrði sami 2ja ára fyrningarfrestur á árangurslausum fjárnámum og gjaldþrotum.

Í lok apríl 2011 voru tæplega 25 þúsund einstaklingar á vanskila­ skrá og hefur sá fjöldi farið hratt vaxandi sl. mánuði eða um rúman þriðjung síðan í mars 2009. Gjaldþrotum og árangurslausum fjárnámum einstaklinga hefur einnig fjölgað verulega. Árið 2009 voru gjaldþrot einstaklinga112 á meðan árangurlaus fjárnám voru rúmlega 3.300. Árið 2010 voru gjaldþrot einstaklinga 139 en árangurlaus fjárnám um 4.300. Seðlabankinn segir svo að allt stefni í um 150 gjaldþrot einstaklinga á þessu ári á meðan þeir gera ráð fyrir að allt að 9.000 einstaklingar endi með að fá á sig árangurslaust fjárnám á árinu.

Þetta er ógnvænleg fjölgun og sérstaklega fyrir þá sem í þessu lenda og má segja að þeir sem þó verða gerðir gjaldþrota séu, eins vitlaust og það hljómar, betur settir en þeir sem sitja eftir með endalausa kröfu á sér í árangurlausu fjárnámi.

Þá má líka minnast á að samkvæmt fjármálatíðindum Seðlabanka Íslands sem flestar tölur hér er fengnar úr, hafa á fyrstu þremur mánuðum þessa árs verið gerð 1.942 árangurslaus fjárnám hjá fyrirtækjum sem er 160 % aukning frá fyrra ári og fjöldi gjaldþrota á sama tíma er 433 sem er um 67% aukning. Gögnin benda til þess að innheimtu ljúki í mörgum tilvikum með árangurslausu fjárnámi, án þess að fyrirtæki séu tekin til gjaldþrotaskipta. SÍ segir að hugsanlega sé það gert til að forðast þann kostnað sem skiptunum fylgir vegna þess að þeir segja að í mörgum tilvikum kemur lítið út úr frekari innheimtuaðgerðum en ég hef það frekar á tilfinningunni, eins og ég sagði áður, að þau skilji bæði fyrirtæki og einstaklinga eftir í árangurlausu fjárnámi til að geta sótt nánast endalaust á þau í staðinn fyrir að borga 250.00 og missa tangarhaldið á öllum eftir 2 ár.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 2.6.2011 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband