Leita í fréttum mbl.is

Afslættir sem bankarnir fengu á lánasöfnum heimila og fyrirtækja

Enn og aftur er komin upp umræðan um hvaða afslætti nýju bankarnir fengu af lánasöfnum sem flutt voru frá hrunbönkunum.  Í þetta sinn er tilefnið skýrsla fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, um endurreisn bankakerfisins.

Óhætt er að segja að skýrsla ráðherra hafi staðfest þann grun okkar, sem mest höfum haft okkur frammi, um hin gríðarlega afslátt sem nýju bankarnir fengu.  Raunar var það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem kjaftaði fyrstur frá í októberskýrslu sinni árið 2009 (kom reyndar út í byrjun nóvember).  Fjallaði ég um það í færslunni Tölur í skýrslu AGS tala sínu máli frá því 4.11.2009.  Í færslunni birti ég eftirfarandi ágiskaðar tölur um skuldir og afslætti varðandi skuldir heimilanna:

Skuldir heimilanna

Banki

Vergt virði

Matsvirði

Mismunur

Íslandsbanki

           287.120    

            159.674    

       127.446    

Nýja Kaupþing

          278.330    

           153.814    

       124.516    

Nýi Landsbanki

           240.243    

            127.446    

       112.797    

Alls

           805.693    

          440.934    

364.759    

 

Vergt virði er bókfært verð skuldanna í gömlu bönkunum, matvirði er það verð sem skuldir fóru á yfir í nýju bankana og mismunurinn er afslátturinn.  Eins og sjá má var afslátturinn verulegur eða á bilinu 44-47% hjá bönkunum þremur og að meðaltali 45,3%. Þetta voru fyrstu tölur sem birtust og hafa bankarnir reynst í lengstu lög að gefa ekki upp nákvæmar tölur án þess þó að neita þessum.

Í annarri færslu birti ég skuldir fyrirtækja og þær tölur voru sem hér segir:

Skuldir fyrirtækja

Banki

Vergt virði

Matsvirði

Mismunur

Íslandsbanki

              665.862 

             310.736 

          355.127   

Nýja Kaupþing

             932.207 

               310.736 

          621.471   

Nýi Landsbanki

              1.553.679  

               443.908 

          1.109.770   

Alls

           3.151.748  

            1.065.380 

          2.086.368   


Í næstu töflu skoða ég hvernig einstakir flokkar lána heimilanna breyttust á milli september og október 2008.  Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands yfir útlán fjármálafyrirtækja, þá lækkuðu skuldir heimilanna úr 1.032 ma.kr í  561 ma.kr. á milli þessara tveggja mánaða eða um 471 ma.kr.  Mismunurinn á þeirri tölu og 364,7 ma.kr. að ofan skýrist líklegast af því að fleiri lán voru færð síðar á milli sem ekki voru tekin með í útreikninga AGS.  Höfum í huga, að í 1.032 ma.kr. og 561 ma.kr. eru líka útlán annarra fjármálafyrirtækja, en bankanna þriggja.  Þegar SPRON og Frjálsi duttu út úr tölu Seðlabankans, þá lækkuðu skuldir heimilanna um 65 ma.kr.  Þau lán höfðu ekki, mér vitanlega, verið færð niður áður en fyrirtækin fóru í þrot.  Hvort þeir 55 ma.kr. sem þá standa eftir (þ.e. 561 - 441 - 65 = 55) eru þá útlán annarra fjármálafyrirtækja til heimilanna er bara ágiskun en gæti svo sem alveg staðist.

HAGTÖLUR SEÐLABANKANS

  

 

Flokkun útlána innlánsstofnana

  

 

M.kr

okt.08

sep.08

Lækkun

sept - okt 08

Heimilin alls (liðir 1-9)

561.477

1.032.026

45,6%

                þ.a. íbúðalán

285.448

606.494

53%

1   Greiddar óinnleystar ábyrgðir

2

1

-

2   Yfirdráttarlán

56.772

78.280

28,5%

3   Víxlar

453

636

28,8%

4   Óverðtryggð skuldabréf

17.720

26.724

33,7%

5   Verðtryggð skuldabréf

333.615

627.091

46,8%

                þ.a. íbúðalán

229.460

498.941

54,0%

6   Gengisbundin skuldabréf

138.535

271.950

49,1%

                þ.a. íbúðalán

55.697

107.553

48,2%

7   Eignarleigusamningar

11.033

22.136

51,2%

8   Gengisbundin yfirdráttarlán

3.346

5.207

35,7%

Heimild: Upplýsingasvið SÍ.

 

 

 

Ef aðrar fjármálastofnanir en bankarnir þrír eru teknar út úr þessum tölum og þeim dreift hlutfallslega á alla flokka, þá lítur taflan aftur svona út:

Flokkun útlána innlánsstofnana

  

 

M.kr

okt.08

sep.08

Lækkun

sept - okt 08

Heimilin alls (liðir 1-9)

451.477

840.000*

46,3%

                þ.a. íbúðalán

229.525

478.000*

52,0%

1   Greiddar óinnleystar ábyrgðir

2

1

Hækkun

2   Yfirdráttarlán

45.650

69.937

34,7%

3   Víxlar

364

568

35,9%

4   Óverðtryggð skuldabréf

14.249

23.875

40,3%

5   Verðtryggð skuldabréf

268.256

560.252

52,1%

                þ.a. íbúðalán

184.506

446.111

58,6%

6   Gengisbundin skuldabréf*

111.395

242.964

54,2%

                þ.a. íbúðalán

44.785

96.089

53,4%

7   Eignarleigusamningar

8.872

19.777

55,1%

8   Gengisbundin yfirdráttarlán

2.691

4.652

42,2%

* Hluti húsnæðislána Kaupþings fóru inn í Seðlabankann og runnu ekki inn í Arioin banka fyrr en í janúar 2010.  Hér er giskað á að þau hafi verið bókfærð á 80 ma.kr. sem er líklegast í hærri kantinn.  Gengistryggð lán heimilinna hækkuðu samkvæmt tölum Seðlabankans um 29 ma.kr. milli desember 2009 og janúar 2010 og var það allt í íbúðalánum.  Tekið er tillit til þessara lána í heildartölu en ekki undir gengistryggð lán eða verðtryggð lán, en líklegt er að hinn mikli munur sem er á verðtryggðum lánum fyrir og eftir hrun skýrist af þessum lánum sem fóru til Seðlabankans.

Hvernig sem þessum tölum er snúið, þá kemur í ljós að lán heimilanna voru færð með verulegum afslætti frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Í minni nálgun (að teknu tilliti til þeirra lána sem fóru til Seðlabankans), þá nemur lækkunin 388,5 ma.kr. Sú tala er glettilega nærri þeirri tölu sem ég las út úr gröfum í októberskýrslu AGS 2009, en þar giskaði ég á 365 ma.kr.

Í skýrslu fjármálaráðherra, þá kemur fram að alls voru eignir að bókfærðu verði 4.000 ma.kr. færðar frá gömlu bönkunum til þeirra nýju og var endurmetið verðmæti þeirra sagt vera á bilinu 1.880 - 2.204 ma.kr.  Fallist var á að meta eignirnar á 1.760 ma.kr. með möguleika á að greiddir yrðu 215 ma.kr. til viðbótar fyrir þær.  En ekki eru allar eignirnar lán.  Séu upplýsingar úr stofnefnahagsreikningum bankanna skoðaðar (sjá bls. 32 í skýrslu ráðherra), þá var verðmæti útlána til viðskiptavina 1.463 ma.kr.  Í þeirri tölu eru bæði lán heimilanna og fyrirtækja og er hún aðeins 43 ma.kr. lægri en ágiskun mín út frá upplýsingum í skýrslu AGS.  Aðrar eignir sem flokkuðust undir þessa 1.760 ma.kr. námu því 297 ma.kr. 

Þó ekki sé hægt út frá ofangreindum tölu að segja nákvæmlega hve mikinn afslátt nýju bankarnir fengu á lánsöfnum sem flutt voru frá gömlu bönkunum, þá gefa tölurnar góða vísbendingu um stærðirnar.  Skýrsla fjármálaráðherra segir líka talsvert.  Mín niðurstaða er að þessir afslættir hafi verið um 45% af lánasöfnum heimilanna og um 65% af lánasöfnum fyrirtækja með möguleikann á að ná 215 ma.kr. betri innheimtu en viðmiðunartalan segir til um.  Sé þeirri upphæð dreift hlutfallslega jafnt á milli heimila og fyrirtækja, þá þurfa nýju bankarnir að greiða 40% fyrir lán fyrirtækjanna og 60% fyrir lán heimilanna.  Nú er spurningin hve stór hluti af afslættinum verður notaður til að leiðrétta eða afskrifa lán viðskiptavina og hve stór hluti verði tekinn inn sem hagnaður á næstu árum.  Í mínum huga er ljóst, að hafi bankarnir einhvern áhuga á að viðhalda sambandinu við viðskiptavini sína, þá verða þeir að koma mun meira til móts við þá.  Svo einfalt er það.
mbl.is Tóku stöðu gegn heimilunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er HRIKALEG lesning, takk Marínó fyrir að setja þetta á mannamál og í skiljanlegt samhengi.

Með þessari skýrslu er það skjalfest hvar þessi stjórn sem kallar sig hreina vinstri stjórn stóð, stendu og mun standa Á MÓTI FÓLKINU Í LANDINU OG MEÐ FJÁRMAGNINU.

Ríkisstjórn Geirs Haarde hafði ákveðið að láta afslátt bankana á lánasöfnunum ganga til að rétta stöðu heimila og fyrirtækja með uppbyggingu í huga. Þessi núverandi þjóðfjandsamlega ríkisstjórn snéri þeim fyrirætlunum við og afhenti erlendum bröskurum og kúgurum þennan sjóð til að "friða" Icesavekröfuhafana, kúgarana. Þessi beinlausa stjórn skrifar síðan undir einn mesta glæpasamning sem nokkur ríkisstjórn hefur gert, Svavarssamninginn og framselur afkomu möguleika þjóðarinnar í ANNAÐ sinn. Sem betur fór var enn fólk í landinu sem hafði vit og þor til að stoppa þennan glæp.

Er ekki rétt að rannsókarnefnd Alþingis komi saman aftur og semji nýja skýrslu um eftirHRUNSTJÓRNINA.

Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 06:52

2 identicon

Marino. Maður er rasandi eftir skrif þín, takk fyrir þetta, en er ekki greiðsluverkfallið í fullu gildi, fólki er í sjálfsval sett hvort það tekur þátt í þessum skrípaleik með því að halda á að greiða í sukkið, ég er löngu hættur að greiða um mun ekki greiða svo mikið sem 1 kr fyrir en að hlutir hafa verið leiðréttir og bankarnir láti af þeim ósóma að vinna og innheimta fyrir einhverja klikkaðra vogunarsjóði á wallstreet og manna þar sem þurfa að redda jólabónus sínum.

Þetta er orðið með öllu ómannúðlegt. Hér er link á grein konu sem segir allt sem segja þarf í stuttu máli

http://edit.visir.is/thraelaskuldabond-naestu-aratugina/article/2011704149993

Kristinn M (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 10:10

3 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sælir ég er hættur að skipta við þessa bankamafíu og hef greitt öll mín lán! Það ættu allir sem hug hafa á að endurreisa landið að hætta að skipta við þessar stofnanir nú þegar og snúa sér að öðrum leiðum með fjármagn sitt!

Sigurður Haraldsson, 26.5.2011 kl. 12:54

4 identicon

Þvílíkt kjaftæði!

"Ríkisstjórn Geirs Haarde hafði ákveðið að láta afslátt bankana á lánasöfnunum ganga til að rétta stöðu heimila og fyrirtækja með uppbyggingu í huga."

Þetta er söguskýring sem á sér engar stoðir í raunveruleikanum.  Staðreyndin er sú að lánin voru flutt yfir í nýju bankana með afföllum þar sem ekki var talið að hægt væri að innheimta meira - það var einfaldlega búið að lána meira en íslenska þjóðin réð við að borga!

Þessi túlkun að þetta sé afsláttur sem fólk á rétt á er hreinasta kjaftæði og þeir sem halda slíku fram bera mikla ábyrgð. 

Þessi grein Marinós er því röng frá upphafi - hún fjallar um afslætti sem eru ekki til!

Staðreyndin er sú að bankarnir hafa boðið fram mjög góðar lausnir  sem hjálpa öllum þeim sem eru í venjulegum vandræðum - fólki sem keypti sér venjulegar eignir miðað við venjuleg fjárráð.

Það er hins vegar engin leið að hjálpa fólki sem fór í algjörar bólufjárfestingar, þ.e. fjárfesti fyrir mun meira en það hefði nokkurn tíma ráðið við í venjulegu ári.  Það varð t.d. allt vitlaust fyrir nokkrum mánuðum þegar það var birt saga af öryrkja sem var að missa risa einbýlishús á risalóð!

Jafnvel þó það væri hægt að bjarga þessu fólki þá er það hreinlega ekki heilbrigt!

Íslenskt hagkerfi hefur oft farið í niðursveiflu áður - og viti menn fólk hefur farið á hausinn í hrönnum, þó niðursveiflurnar hafi ekki verið eins djúpar og nú! 

Nú er verið að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að taka vondan kost.  Það má vera rétt.  En valið var á milli þess að taka vondan kost eða  ennþá verri kost!   Þeir sem studdu þá ákvarðanir sem leiddu til þeirrar stöðu ættu að hafa vit á því að þegja!

Steingrí­mur Jónsson (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 13:25

5 identicon

Ég ætla að taka fram að ég er ekki að vísa þessum lokaorðum til Marinós, langt því frá - ég veit að hann gagnrýndi mjög harkalega efnahagsstjórnina fram að hruni.

Ég er hins vegar orðinn alveg ferlega pirraður á fólki sem blammerar fólk bara til að ná höggi - alveg sama hversu innihaldslítil rökin á bakvið eru!

Steingrí­mur Jónsson (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 13:33

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Steingrímur Jónsson, segðu mér hvað er rangt í færslunni.  Ég nefnilega vitna eingöngu í opinberar tölur og túlka þær.  Eru það opinberu tölurnar sem eru rangar eða er það túlkun mín?

Færslan fjallar um hvað nýju bankarnir fengu eignasöfn á frá gömlu bönkunum og þá afslætti sem birtast í tölum Seðlabanka Íslands.  Ég læt staðreyndir tala sínu máli.

Rétt er það að niðursveiflur hafa orðið og fólk farið á hausinn, en í þetta sinn er umfangið meira en nokkru sinni fyrr.  Ég hef spurt hvort sé ódýrara fyrir þjóðfélagið og fjármálakerfið að taka á vanda fólks og fyrirtækja strax með leiðréttingu/afskriftum/niðurfærslum (mér er sama hvaða orð fólk notar) eða gera stóra hópa einstaklinga og fyrirtækja óvirka á fjárfestingamarkaði í kannski 10 ár.  Í mínum huga snýst þetta um það og síðan réttlæti.

Marinó G. Njálsson, 26.5.2011 kl. 13:41

7 identicon

Marinó - þetta er ágætist tölfræðilegt yfirlit hjá þér og eflaust ekki stafkrókur rangur í því sem slíkur - en um leið og þú kallar þetta afslátt þá ertu kominn á villugötur.   

Afsláttur felur í sér að hlutirnir séu lækkaðir í verði svona nokkuð jafnt.  Þú ferð inn í Kringlu á útsölu þar sem er 30-40% afsláttur og þá kaupir þú alla hluti 30-40% lægri en þeir eru vanalega.

Þetta var allt annars konar lækkun.  Sum lánin eru afskrifuð að fullu, önnur að hluta og svo er gert ráð fyrir að einhver lán verði greidd upp í heild sinni.  Þetta var einfaldlega reikningsdæmi með óljósum forsendum - og svo voru aðrar forsendur þegar kom að greiðslunni.  Þú ferð ágætlega yfir það.  Ef að nafnið á greininni væri "Yfirlit yfir breyttar forsendur við yfirfærslu lána milli bankastofnana" þá er hún eflaust 100% rétt. 

En að tala um þetta sem einhvern afslátt sem fólk á rétt á að sinn hluta af eins og þegar haldin er útsala í Kringlunni er hreint fáránlegt. 

Ég get tekið undir það að það borgar sig engan vegin að hafa fólk óvirkt á fasteignamarkaði í lengri tíma - og ég veit ekki betur en að það sé búið að taka á því með því að stytta gjaldþrotatíma verulega, ásamt öðrum aðgerðum sem hafa hjálpað flestum. 

En ég sé hins vegar ekki réttlætið í því að gefa fólki upp skuldir til þess að það geti haldið í offjárfestingu á meðan aðrir sem hegðuðu sér skynsamlegar þurfa að berjast við sitt!

Steinrímur Jónsson (IP-tala skráð) 26.5.2011 kl. 14:13

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Steingrímur, mér er sama hvaða orð þú vilt nota.  Ég nota afsláttur, þar sem bókfært verð í nýju bönkunum var lækkað verulega frá bókfærðu verði í gömlu bönkunum, þrátt fyrir að engar sannanir væru fyrir raunverði.  Þú þarft ekki annað en að lesa skýrsluna hans nafna þíns til að sjá að nánast var fingri stungið upp í loftið til að ákvarða verðmatið.  Afláttur, yfirfærsluverð, gangvirði, raunvirði, niðurfærsla, leiðrétting, allt eru þetta bara orð til að lýsa sömu aðgerð, þ.e. að eignasöfn sem bókfærð voru á 4.000 ma.kr. í gömlu bönkunum voru bókfærð á 1.760 ma.kr. í þeim nýju.  Veldu nú heiti á þessari aðgerð og þá getum við hætt að deila um orð.  Það er merkingin sem skiptir máli.

Hverjir offjárfestu og hverjir gerðu það ekki?  Ég veit um fullt af fólki sem hagaði sér af mikilli skynsemi og ráðdeild, en situr samt í súpunni.  Ég veit líka um fullt af fólki sem keyrði sig á kaf og sleppur mjög vel.

Varðandi styttingu gjaldþrota tímans, þá tapar sá sem fer í gjaldþrot öllum eignum sínum.  Hann kemur sem sagt slippur og snauður út úr gjaldþrotinu.  Á sínum tíma tók það mig 10 ár frá því ég útskrifaðist frá Háskóla Íslands að afla mér nægilegs eiginfjár til að kaupa 50 fm íbúð.  Tók mig líklega 15 ár að safna þessu eigin fé.  Síðan fór ég í 110 fm hæð nokkrum árum síðar og 207 fm raðhús, sem ég náði að kaupa vegna hagstæðs umhverfis á byggingamarkaði og ekki síður fasteignamarkaði.  Í bæði skiptin skipti ég um húsnæði þar sem fyrra húsnæði var of lítið fyrir fjölskylduna. 

Sá sem sleppur út úr gjaldþroti eftir 2 ár á ekki neitt.  Hann þarf því að byrja að safna eigin fé upp á nýtt.  Eins og kaupmáttur er í dag, þá sé ég ekki að mikið verði afgangs um hver mánaðarmót og því muni söfnunin ganga hægt.  Það verða því líklega 8 - 10 ár þar til viðkomandi verður virkur á fasteginamarkaði á ný.  Nú stefnir í að 40% heimila verði annað hvort gjaldþrota, eignalaus eða með verulega neikvæða eiginfjárstöðu, þegar kúfurinn er genginn yfir.  Höfum við efni á því að allt þetta fólk verði óvirkt á fjárfestingamarkaði næstu 5 - 10 ár?  Nei, við höfum það ekki.

Önnur hlið á þessu er að fjármálafyrirtækin eru að eignast fasteignir í þúsunda, ef ekki tugþúsunda tali.  Hvernig ætla þau að losna við þessar eignir?  Eina leiðin er að lækka verðið og þar með lækka bókfærðar eignir sínar.  Hvort tapar fjármálafyrirtækið meira á því að semja við núverandi eiganda um að lækka höfuðstól lánanna niður í greiðsluhæfi viðkomandi eða að hirða af honum eignina og selja einhverjum öðrum á lækkuðu verði?  Svo má ekki gleyma því að slík lækkun hefur keðjuverkun og dregur m.a. úr gæðum lánasafna viðkomandi fjármálafyrirtækis.  Þannig að út frá viðskiptasjónarmiðum, þá er betra fyrir fjármálafyrirtækið að semja við núverandi eiganda og lántaka, en að fara í gegn um hitt ferlið.  Mér sýnist raunar að reynsla undanfarinna rúmlega tveggja ára sanni að það var röng leið sem farin var.

Marinó G. Njálsson, 26.5.2011 kl. 14:41

9 Smámynd: Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir

 „Steinrímur Jónsson“ þú talar um að það sé „engin leið að hjálpa fólki sem fór í algjörar bólufjárfestingar, þ.e. fjárfesti fyrir mun meira en það hefði nokkurn tíma ráðið við í venjulegu ári Jafnvel þó það væri hægt að bjarga þessu fólki þá er það hreinlega ekki heilbrigt“  

Einnig segir þú: „En ég sé hins vegar ekki réttlætið í því að gefa fólki upp skuldir til þess að það geti haldið í offjárfestingu á meðan aðrir sem hegðuðu sér skynsamlegar þurfa að berjast við sitt“

Ég verð nú bara að vera ósammála þér, því miður sína dæmin að nánast þeir einu sem hafa fengið einhverja „hjálp“ eru þeir sem offjárfestu og það eina sem er ekki heilbrigt í þessu samhengi er að þeir sem áttu eitthvað í eignum sínum fyrir hrunið eru rændir með leyfi ríkistjórnarinnar.  Set hér fram dæmi sem ég bjó til um daginn þegar ríkisstjórnin , bankarnir og lífeyrissjóðirnir sömdu sín á milli, þegar þeir „gleymdu“ að boða skuldarana, um á hvern hátt við skuldarar ættum að borga þeim til baka þá stökkbreytingu sem þeir sjálfir bjuggu til og eru með aðstoð "velferðarríkistjórnarinnar" að græða á svikunum: Tvær fjölskyldur keyptu sér sitt hvora íbúðina í sama húsinu 2007 á 25 milljónir. Önnur fjölskyldan tók 100 % lán og skuldar í dag um 33,2 milljónir. Hin fjölskyldan átti 10 milljónir og tók því 15 milljónir að láni og skuldar í dag um 20 milljónir. Gefum okkur að íbúðirnar hafi lækkað um 20 % og kosti í dag um 20 milljónir og lánin hafi hækkað um c.a. 33 % samkvæmt verðtryggingu. Samkvæmt samkomulaginu þá fær fyrri fjölskyldan sem tók 100 % lánið afskrifað niður í 110 % af nýju fasteignamati og skuldar því 22 milljónir og hefur engu tapað þó hún skuldi 2 milljónir umfram verðmæti, jafnvel má segja að hún hafi grætt því hún skuldar núna „bara“ 22 milljónir en ekki 25 milljónir eins og hún fékk lánaðar. Hin fjölskyldan fær enga leiðréttingu, skuldar 20 milljónir og er búin að tapa þeim 10 milljónum sem hún lagði fram í upphafi þannig að hún er búin að borga fyrir leiðréttingu hins aðilans í þessu dæmi og gott betur. Þetta kostar ekkert fyrir bankana þegar verið er að færa lán í 110 % veðsetningu, veðsetningin var ónýt áður og ef þeim tekst að fá fólk til að borga af 110 % veðsetningu þá eru þeir að græða en ekki tapa því eðlilegt er að skuldari skuldi ekki meira en nemur verðmæti eignarinnar ef hann lagði eitthvað fram sjálfur í upphafi. Ef bankinn lánaði honum 100 % í upphafi þá verður bankinn sjálfur að taka tapið af því. Það er enginn akkur í því fyrir neinn að skulda umfram verðmæti húsnæðisins síns og sinnar fjölskyldu.

Vilhjálmur Bjarnason Ekki fjárfestir, 27.5.2011 kl. 14:05

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég er búinn að finna nákvæmar upplýsingar um lánasöfn Kaupþings sem veðsett voru Seðlabankanum.  Bókfært verð þeirra var 107,9 ma.kr., en sannvirði var talið 84,0 ma.kr., þ.e. 78% af bókfærðu virði.

Marinó G. Njálsson, 27.5.2011 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband