25.5.2011 | 16:59
Enn hækka verðtryggð lán - Verðtryggingin verður að fara
Á fundi um verðtrygginguna í Háskóla Reykjavíkur fyrir réttri viku, þá sagði ég að ef fram héldi sem horfði, þá gætum við búist við yfir 10% verðbólgu á árinu. Einn fundarmaður mótmælti þessari fullyrðingu minni og benti á að verðbólgan væri bara 2,8%. Bað ég hann þá vinsamlegast að skoða verðbólgu síðustu þriggja mánaða, þ.e. frá janúar til apríl. Hækkun milli mánuða þessa þrjá mánuði var nefnilega 1,2% milli janúar og febrúar, 1,0% milli febrúar og mars og 0,7% milli mars og apríl eða alls 3,0% yfir allt tímabilið. Hér fáum við svo fjóðra mánuðinn í röð sem er með háa verðbólgu, þ.e. 0,94% hækkun frá síðasta mánuði.
Hægt er að skoða verðbólgu frá ýmsum sjónarhornum. Algengast er að skoða hækkun vísitölu neysluverðs yfir tólf mánaða tímabil, en einnig er hægt að nota aðrar og styttri tímabil og yfirfæra þær mælingar yfir á eitt ár. Þannig fáum við:
12 mánaðaverðbólga er 3,38%
6 mánaðaverðbólga yfirfærð á ársverðbólgu er 6,77%
4 mánaðaverðbólga yfirfærð á ársverðbólgu er 12,35%
3 mánaðaverðbólga yfirfærð á ársverðbólgu er 11,35%
1 mánaðarverðbólga yfirfærð á ársverðbólgu er 11,88%
Tölur síðustu fjögurra mánaða segja okkur allar að verðbólgan er komin á kreik aftur. Stjórnvöldum og Seðlabanka er að skrika fótur í baráttu sinni við hinn mikla vágest. Afleiðingarnar verða m.a. hækkun á verðtryggðum höfuðstóli lána heimilanna. Þó verðbólga frá janúar 2011 til janúar 2012 verði bara eins og 12 mánaðaverðbólgan er, þá þýðir það 47 ma.kr. hækkun á höfuðstóli lánanna. Hækkunin verður um 95 ma.kr. ef ársverðbólgan verður í dúr við hækkun síðustu 6 mánaða, en allt að 173 ma.kr. haldist verðbólga síðustu fjögurra mánaða út árið. Ofan á þetta bætast svo vextir, þannig að vaxtabæturnar sem Steingrímur J. var að stæra sig af um daginn fara allar í að greiða vexti á verðbætur ársins.
Afnema verður verðtrygginguna
Í erindi mínu í Háskóla Reykjavíkur miðvikudaginn 18. maí skoðaði ég áhrif verðtryggingar síðustu 23 ára (þ.e. frá því núverandi vísitölumæling var tekin upp) á 10 m.kr. lán og bar saman við ef verðbólgan hefði verið önnur. Annars vegar tók ég 30 ára lán og hins vegar 40 ára lán. Gef ég mér að árleg verðbólga verði 4% það sem eftir er lánstímann. Útkoman er sláandi eins og sést á myndritunum hér fyrir neðan. Efra myndritið sýnir 40 ára lánið. Heildargreiðsla af því miðað við raunverulega verðbólgu, 5,1% verðtryggða vexti og 4% árlega verðbólgu það sem eftir lifir lánstímans er 81,8 m.kr. samanborið við 23,2 m.kr. væri lánið óverðtryggt með sömu vexti. Kostnaður lántakans af verðtryggingunni er því um 58,5 m.kr.
Neðra myndritið sýnir 30 ára lán. Með sömu forsendum verður heildargreiðslan af því 51,5 m.kr., án verðtryggingar væri greiðslan 19,4 m.kr. eða mismunur upp á 32,1 m.kr. Þetta er algjört bull.
Helstu rök þeirra sem vilja halda í verðtrygginguna eru:
1. Ódýrara er til lengdar að vera með verðtryggð lán: Ég er ekki sammála þessu. Málið er nefnilega, að meðan verðtrygging er á útlánum til almennings, þá þurfa lánveitendur ekki að bera neina ábyrgð á óábyrgum útlánum sínum. Þeir fá sitt með vöxtum og verðbótum. Í kostulegri skýrslu Askar Capital fyrir Gylfa Magnússon, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, er er setning sem allir ættu að kunna utanaðbókar, þó ekki væri nema til að átta sig á fáránleikans í hugsun þeirra sem ekki vilja sjá að baki verðtryggingunni:
Varðandi fjölbreytni fjárfestingarkosta þá má líta svo á að verðtryggð ríkisskuldabréf séu áhættulaus eign og að án þeirra sé enginn slíkur fjárfestingarkostur til staðar.
Einmitt, fjárfestum á, samkvæmt skýrsluhöfundum, að standa til boða áhættulausir fjárfestingakostir!
2. Ekki verður hægt að bjóða verðtryggð innlán: Þessi rök kaupi ég ekki heldur, þar sem enginn er að segja að verðtryggð útlán eigi að leggjast af, þó bannað verði að veita slík lán til almennings. Fyrirtæki og ríkið geta gefið út verðtryggð skuldabréf, ef þeim finnst það skynsamlegt, og fjármálafyrirtæki geta boðið verðtryggð lán til þeirra sem sjá hag sínum best borgið með slíkum lánum. Þessar eignir geta innlánsstofnanir notað til að vega á móti verðtryggðum innlánum.
3. Fjármálafyrirtæki munu ekki vilja veita lán til langs tíma: Íslandsbanki og Arion banki eru báðir byrjaðir að bjóða óverðtryggð húsnæðislán. Ekki þarf að fjölyrða frekar um þetta.
4. Lífeyrissjóðirnir verða að hafa verðtryggingu til að ná 3,5% raunávöxtun: Þetta er enn ein rökleysan. Á árunum 2004 - 2006 var mun stærri hluti ávöxtunar lífeyrissjóðanna frá óverðtryggðum eignum. Þó eignasöfn þeirra samanstandi um þessar mundir allt að 2/3 af verðtryggðum eignum, þá voru þessi hlutföll 35-45% í árslok 2007. Staðreyndin er sú, að lífeyrissjóðirnir þurfa ekki verðtryggingu, en hún er svakalega þægileg fyrir þá. Menn sem halda því fram að 3,5% raunávöxtunarkrafan bindi hendur lífeyrissjóðanna og þeir verði að því að eiga verðtryggðar eignir ættu þá að berjast gegn því að lífeyrissjóðirnir eigi yfirhöfuð eitthvað annan en verðtryggðar eignir. Samkvæmt þessu eru erlendar eignir lífeyrissjóðanna ógn við 3,5% raunávöxtunarkröfuna.
5. Ekki hægt að setja 4% þak á árlegar verðbætur vegna þess enginn lánveitandi tæki slíka áhættu: Tvennt við þessu að segja. Hið fyrra er að af síðustu 20 árum hefur verðbólga verið 11 sinnum undir 4% og einu sinni 4%. Hitt er að raunávöxtun lán með 5,1% vöxtum og 4% þaki hefði síðustu 20 árin að jafnaði verið.. da, da, da, da: 3,5%.
Villur í verðtryggingarumræðunni
Einhverra hluta vegna, þá halda verðtryggingarpostular því mikið á lofti að ekki sé hægt að veita óverðtryggð lán, þar sem þá sé ekki hægt að tryggja jákvæða raunávöxtun allan lánstímann. Um það hef ég þetta að segja:
Það er ávöxtun yfir lánstímann sem skiptir máli, en ekki ávöxtun einstakra ára.
Annað sem þeir halda fram og ég bendi á að ofan, þá eru menn uppteknir af 3,5% raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna. Um það hef ég þetta að segja:
Verðtrygging tryggir ekki 3,5% raunávöxtun á eignum lífeyrissjóðanna. Hún kannski auðveldar mönnum verkið, en fyrst og fremst er það góð stýring fjárfestinga sem gerir það.
Hverfi verðtryggð skuldabréf af markaðnum, þá bjóðast fjárfestum engar öruggar/áhættulausar fjárfestingar. Um það hef ég þetta að segja:
Öllum fjárfestingum eiga að fylgja áhætta sem endurspeglast í ávöxtunarkröfu fjárfestanna. Vilji menn áhættulausa fjárfestingu, þá eiga menn jafnframt að vera tilbúnir að fá nánast enga raunvexti.
Í mínum huga er rangt að almenningur taki alla áhættu vegna þróunar verðbólgu, hvort heldur á útlánahliðinni eða innlánahliðinni. Að lágmarki þarf að dreifa áhættunni. Það er mín skoðun að þak á verðbætur hvetji fjármálafyrirtæki til að viðhalda stöðugleika, þar sem veiti þau óverðtryggð lán með föstum nafnvöxtum til nokkurra ára í senn, þá vilja þau koma í veg fyrir þenslu sem étur upp ávöxtun þeirra. Ég hef síðan engar áhyggjur af því að afnám verðtryggingar á útlánum til almennings skaði lífeyrissjóðina. Ég er aftur viss um að það muni auka kröfur til þeirra aðila sem sjá um stjórnun fjárfestinga þeirra.
Vaxandi verðbólga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 38
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 346
- Frá upphafi: 1680484
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Takk fyrir góða grein.
Því miður er verið að nota verðtrygginguna til að sannfæra fólk um að réttast sé að taka upp evruna, og þarmeð ganga í ESB. Það er röng nálgun. Á meðan við höfum krónuna er mikilvægt að taka á vandamálinu strax.
Hrannar Baldursson, 25.5.2011 kl. 18:57
Sæll Marinó,
Vil bara benda á að mynd birtist ekki fyrir ofan málsgrein sem byrjar á "Neðra myndritið sýnir 30 ára lán. Með sömu forsendum verður heildargreiðslan af því ..." Það kemur bara rauður kross í vafranum hjá mér:)
Verðtrygginguna burt!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 25.5.2011 kl. 19:13
Ég tók eftir því að Stöð2 reiknaði að verðtryggð lán stæðu í tæpum 1.100 milljörðum. Mér finnst sú tala vera í lægri kantinn. Byggi ég það á því að stór hluti áður gengistryggðra húsnæðislána mun breytast í verðtryggð lán og hitt, að þessi tala er 100 ma.kr. undir þeim tölum sem "sérfræðingahópurinn" notaði til viðmiðunar. Ég miða við 1.400 ma.kr. og segi þá að a) áður gengistryggð lán verði verðtryggð; b) fleiri lán heimilanna eru verðtryggð en húsnæðislán og c) tæplega 1.100 ma.kr. sé of lágt mat á stöðu verðtryggðra lána.
Erfitt hefur verið að henda reiður á ýmsar tölur sem Seðlabankinn hefur safnað saman og er það fyrst og fremst vegna þess að sífellt er verið að endurmeta stöðu lána.
Marinó G. Njálsson, 25.5.2011 kl. 21:45
Ég má til með að segja þér frá því að ég er með 40 ára lán og er að borga 85 þús (ætti í raun að vera borga 104 þús, en þar sem lánið fór í greiðslujöfnunardæmi, þá lækkaði greiðslubyrgðin um 16%)
Upphafleg áætlun miðaði við að borga 70-80 þús á lánstímanum.
Þarna hefur afborguninn hækkað um allt að 34 þús sem er mikil hækkun fyrir mig þar sem ég hef mátt þola kjaraskerðingu upp á ríflega 110 þús kr á mánuði,
Ég var að hugsa um að lengja lánið um 30 ára(yrði 70ára lán)
til þess að lækka greiðslubyrgðina svo ég gæti veitt okkur húsaskjól(sé annars bara að við endum á götunni), bjóst við að mánaðarleg greiðslubyrgði færi í kannski 50-55 þús, en nei greiðslubyrgðin lækkar úr 85 í 75 við lengingu um 30 ár!!!
þetta er svo mikil bilun að ég veit ekki hvað ég á að gera,
erum orðinn verulega þreytt á þessu skuldaveseni.
greiðsluviljinn er alveg að verða búinn hjá mér.
Arnar Bergur Guðjónsson, 25.5.2011 kl. 23:29
Arnar, ég vara fólk alltaf við því að lengja í lánum umfram 25-30 árin. Að mínu mati ætti að banna lán sem eru lengri en 20 ár, þar sem vaxtakostnaðurinn vegna þeirra étur upp allan ávinninginn af lægri höfuðstólsgreiðslu. Haltu þig frekar við greiðslujöfnunina, það er líklega skásti kosturinn af þeim sem eru í boði.
Marinó G. Njálsson, 25.5.2011 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.