Leita í fréttum mbl.is

Áhugavert viðtal við Steingrím

Ég var loksins að hlusta á viðtalið við Steingrím J. Sigfússon sem tekið var við hann í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun.  Fyrst var rætt við Sigurjón M. Egilsson stjórnanda Sprengisands, en hann ræddi þetta í þættinum sínum sl. sunnudag.  Taldi Sigurjón upp alls konar atriði sem bera vott um eignabruna venjulegs fólks og var af nógu að taka.  Síðan var það Steingrímur.

Steingrímur var spurður út í þessi orð sín og gerði hann tilraun til að þykjast ekki hafa sagt þau (!), en hafi hann sagt þau þá hafi þau nú líklegast ekki verið svona meint!  Ég hristi nú hausinn yfir þessari eftiráskýringu formanns VG.  Ég held að staðreyndin hafi verið, að þau hafi verið vel valinn til að falla inn í þann hóp sem var að hlusta.  Þetta voru sams konar orð og þegar Geir H. Haarde bað sjálfstæðismenn afsökunar á hruninu en ekki þjóðina.  Þar var að slá pólitískar keilur í sínum flokki til að sýna stöðu sína í flokknum.  Hann viðurkenndi í viðtalinu að allir hefðu tapað miklu, en hvernig gat hann þá sagt að venjulegt fólk hefði síst orðið fyrir eignabruna.  Var það vegna þess að "venjulega fólkið" hafði bara tapað 30% af eignum sínum, en aðrir allt að 150% (þ.e. stendur eignalaust í mikilli skuld).

Hann var næst spurður frekari aðgerðir til handa illa stöddum heimilum.  Benti Steingrímur á að heilir 18 ma.kr. fari á þessu ári og næsta í vaxtabætur.  Sleppti hann alveg að minnast á að vaxtabætur voru lækkaðar fyrir tveimur árum úr 10 ma.kr. í 8 ma.kr. og síðan hækkaðar í 12 ma.kr., þannig að 18 ma.kr. er bara 6 ma.kr. hækkun eða 12 ma.kr. á tveimur árum.  Bara vegna hækkunar vísitölu neysluverðs á tímabilinu frá janúar til apríl á þessu ári hækka verðtryggð lán um 3% eða um 40 ma.kr.  Árlegir vextir af 40 ma.kr. eru í kringum 2 ma.kr. og þá er öll önnur vísitöluhækkun ársins eftir. Þegar gengið var á hann, þá dró hann heldur í land með mikilvægi þessara 12 ma.kr. og fann sér svo undankomuleið í því að fagna leiðréttingu gengislánanna, eins og það komi fólkinu með verðtryggðu lánin til góða!  Nú ef fólk þyrfti meira til, þá ætti það að leita í úrræði sem að mínu mati er ekkert annað en hrein og bein eignaupptaka.  Ég geri mér grein fyrir að hugmyndafræði Steingríms er fengin úr Austurvegi, en varla vill hann koma hér upp stétt öreiga í anda stefnu sovéskra kommúnista á árum Stalíns.

Á jákvæðum nótum, þá vonaðist fjármálaráðherra til þess að ekki þyrfti að hækka skatta.  Því fylgdi spyrjandi eftir með spurningu um lækkun bensínskatta.  Þá fór nú gamanið að kárna hjá ráðherranum og greinilegt að hann var ekki vel vaknaður þegar viðtalið var tekið.  Hann byrjaði strax að fara undan í flæmingi og flúði úr einni hugsanavillunni eða blekkingunni í aðra.  Hann sagði vinnuhóp vera að skoða málið og ekki væri nú mikið sem við gætum gert í að lækka heimsmarkaðsverð.  Spurður aftur út í bensínskatta, þá eyddi hann því tali með því að segja að hlutfallslega álögur hefðu lækkað og hunsaði alveg ábendingar um að í krónum talið hefðu þær hækkað.  Ítrekað var að núna færi meira í ríkiskassann, en lítrinn kostaði fyrir nokkrum árum, en allt kom fyrir ekki.  Það var eins og meira máli skipti fyrir almenning að álögunar væru ekki eins stór hluti af bensínverðinu, en ég held alveg örugglega að flestum finnist betra að krónurnar séu færri.  Svona málflutningur ráðherra er honum ekki sæmandi og raunar til minnkunar.  Áfram hélt hann að afsaka að ekki væri hægt að lækka álögur með því að nefna þegar Bretar lækkuðu skatta um 1 pens, sem hækkandi heimsmarkaðsverð hefði étið upp á tveimur vikum.  Hvers konar arfavitleysa er það, að ekki sé hægt að lækka álögur vegna þess að heimsmarkaðsverð gæti hækkað?  Hann var að enda við að segja, að heimsmarkaðsverð réðist ekki af því sem við gerum hér á landi.  Auk þess held ég að Bretar hefðu verið betur settir með 1 penný lægri skatta, þegar heimsmarkaðsverðið hækkaði, þar sem það þýddi að verðið eftir hækkun heimsmarkaðsverðs var áfram pennýinu lægra en ef álögurnar hefðu ekki lækkað.

Staðreyndin varðandi álögur á eldsneyti er að ríkið á að setja sér ákveðið mark um innheimtu og breyta álögum innan ársins eftir því.  Segjum að gert sé ráð fyrir að 10 milljón lítra seljist, þá á innkoman ekki að aukast um milljóna tugi eða hundruð vegna þess að heimsmarkaðsverð hækkar.  Nei, álögurnar eiga að lækka miðað við tekjuáætlunina.  Það er eins og Steingrímur gleymi því að fjárlög eru lög og eftir þeim á að fara.  Geri fjárlög ráð fyrir 1 ma.kr. í tekjur af bensíni, þá er verið að brjóta lög með því að innheimta 1,2 ma.kr.

Loks var hann spurður út í opinberunarskýrslu sína um endurreisn bankanna.  Ég hef ekki einu sinni geð í mér að hafa eftir honum það sem hann sagði.  Afsakanir hans snerust um að menn eigi að þakka fyrir að fá skýrsluna og ættu því að sætta sig við innihaldið.  Þáttastjórnendur slepptu honum fullauðveldlega frá þessu atriði, þó svo að Kolla hafi skotið föstum skotum, þar sem megin atriðið er hvað bankarnir eru að gera við þessa rúmlega 2.000 ma.kr. sem ekki renna til gömlu bankanna og þar með kröfuhafanna.  Einnig var hann ekki spurður út í hvers vegna kröfuhafarnir voru fyrst og fremst kröfuhafar Landsbanka Íslands og því Icesave-kröfuhafar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Niðurlag.... 

Tæplega "Icesave kröfuhafar" -  frekar  -  þeir sem keyptu kröfunar af upphaflegum Icesave kröfuhöfum -    vogunarsjóðir o.fl.....

Kristinn Pétursson, 24.5.2011 kl. 02:37

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þakka þér fyrir að rýna í rökin Marinó. Hef ekki haft tíma til þess sjálfur vegna anna, en mun taka upp keflið þegar á reynir.

Bestu kveðjur,

Hrannar

Hrannar Baldursson, 24.5.2011 kl. 07:30

3 identicon

Marino: Fanst þér viðtalið "ÁHUGAVERT" ? Kann svo sem vel að vera, en maðurinn var á hörku flótta í viðtalinu; með allt niður um sig, mér finnst það ekkert sérstaklega áhuagverð viðtöl, frekar pínleg viðtöl, en það er nú bara minn sjónar-vinkill á málinu.

Megir þú hafa miklar þakkir fyrir þitt frábæra og virðingaverða  BLOGG

Kristinn M (IP-tala skráð) 24.5.2011 kl. 08:45

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kristinn, já, mér fannst viðtalið áhugavert fyrir margra hluta sakir.  Fyrst var að Steingrímur var í bullandi vörn.  Hann viðurkennir óheppilega orðanotkun og síðan var hann í endalausum útúrsnúningi.  Þetta fannst mér allt áhugavert.

Marinó G. Njálsson, 24.5.2011 kl. 11:40

5 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

góð samantekt hjá þér. Sammála þér um að SJS var í mikilli vörn. Það sem er sorglegast er að það eru engar líkur á því að nein breyting verði á þessum málum. Bankarnir munu halda áfram að sækja sér auð frá almenningi. SJS mun sitja áfram út kjörtímabilið því ekkert afl eða hreyfing fólks virðist geta þrýst á stefnu sem dugar betur fyrir almenning.

Gunnar Skúli Ármannsson, 24.5.2011 kl. 13:08

6 identicon

Nú væri fróðlegt að vita hlutfallið í þessum lánasöfnum yfir skuldir stofnana og sveitafélaga.
Svona rétt á meðan þau í nauðvörn loka og fækka skólum og sjúkradeildum á sama tíma og fjármálakerfið innheimtir af fullri hörku með góðfúslegu leyfi Steina og Jógu...

sr (IP-tala skráð) 24.5.2011 kl. 16:35

7 identicon

Steingrímur J. hefur afar langa og mikla reynslu sem stjórnmálamaður. Þeim mun undarlegra er að hann lætur stundum frá sér fara afr fjarstæðukennd og klaufaleg ummæli. Eitt dæmi er venjulega fólkið. Annað dæmi er glæsilegi árangurinn sem fólst í Svavarssamningunum svonefndu Í bæði skiptin hugasaði ég að þetta gæti ekki verið rétt eftir haft. Svo reyndist ekki.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 24.5.2011 kl. 20:34

8 identicon

Sanngirni Landsdóms er orðið það eina sem ég sé réttlátanlegt yfir þessari ríkisstjórn.

Sem alt of stór hluti hennar, sem og fyrrum samráðherrar Jóhönnu í hrunastjórninni sluppu með svikum frá.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 24.5.2011 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 1

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband