Leita í fréttum mbl.is

Hvernig sem fer tapar þjóðin

Eftir mikla yfirlegu um Icesave samninginn, hvað Já þýðir og hvað Nei þýðir, þá er það mín niðurstaða að hvernig sem fer, þá mun þjóðin tapa.

Ég hef nokkrum sinnum reynt að kryfja inn að beini þau álitamál sem helst virðast vera uppi varðandi Icesave.  Hér ætla ég að nefna nokkur þeirra.

1.  Er ríkissjóði skylt að gangast í ábyrgðir fyrir Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta?

Þessu er svarað á skilmerkilegan hátt í tilskipun ESB 94/19/EC, þar sem segir í  næst síðustu málsgrein inngangskafla tilskipunarinnar:

Whereas this Directive may not result in the Member States' or their competent authorities' being made liable in respect of depositors if they have ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognized;

og þýtt er í íslensku útgáfu tilskipunarinnar:

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Vart er hægt að orða þetta skýrar.  Sé fyrir hendi kerfi til að ábyrgjast innlán, þá verða stjórnvöld ekki gerð ábyrg.

2.  Er fyrir hendi kerfi sem ábyrgist innlán? (Gagnrýni ESA gengur m.a. út á þetta)

Þessu svaraði ég í færslu hér í gær. Niðurstaða mín er að lög nr. 98/1999 uppfylli í öllum meginatriðum ákvæði tilskipunar 94/19/EC.  ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gerir með jöfnu millibili athugun á frammistöðu stjórnvalda í Noregi, Liechtenstein og á Íslandi varðandi innleiðingu tilskipana sem falla undir EES samninginn.  Í frétt ESA frá 23.9.2002 kemur fram að stofnunin geri athugasemd við innleiðingu Íslands og Liechtenstein á nokkrum tilskipunum.  Ein af þeim tilskipunum sem Liechtenstein er ekki talið hafa innleitt er 94/19/EC, en ekki er minnst á hana gagnvart Íslandi.  Þetta er mjög mikilvægt atriði, þar sem viku áður (16.9.2002) hafði stofnunin líka kvartað við norsk stjórnvöld um að þau hafi ekki innleitt tilskipun 94/19/EC.  Ég get ekki annað en dregið þá ályktun að það hafi verið skoðun ESA, að Ísland hafi innleitt tilskipun 94/19/EC á fullnægjandi hátt á þessum tímapunkti og því hafi stofnunin ekki sent sams konar athugasemd til íslenskra stjórnvalda og stjórnvöld hinna landanna fengu. 

3. Er fyrir hendi greiðsluskylda Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta?

Á þessu er enginn vafi.  ESA hefur lýst því yfir í Letter of formal notice frá 26.5.2010 að Tryggingasjóðurinn beri ábyrgð á því að greiða breska innstæðutryggingasjóðnum um 2,1 milljarð punda og þeim hollenska 1,35 milljarð evra.  Um þetta er ekki deilt.  Icesave samningaviðræðurnar hafa snúist um það hvernig þessi upphæð skuli greidd til baka.  Samkvæmt tilskipun 94/19/EC og lögum nr. 98/1999 þá hvílir greiðsluskylda á Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta.  Málið er að hann er fjárvana.  Bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu hins vegar að taka yfir kröfur innstæðueigenda á hendur íslenska sjóðnum og því eru innstæðueigendur í flestum tilfellum í góðum málum.  Samkvæmt upplýsingum á vef breska innstæðutryggingasjóðsins, þá var Landsbanki Íslands með viðbótartryggingar hjá sjóðnum upp að 35.000 pundum á hver reikning.  Líklegast hefur bankinn verið með sams konar tryggingar í Hollandi, þ.e. upp að 50.000 evrum á hvern reikning.  Stjórnvöld í þessum löndum ákváðu síðan einhliða að hækka þessar tölur við útborgun í 50.000 GBP og 100.000 EUR.  Upphæðir umfram 16.200 GBP og 20.887 EUR eru þó íslenska tryggingasjóðnum óviðkomandi.

4.  Var innstæðueigendum mismunað eftir þjóðerni?

Ekkert bendir til þess að innstæðueigendum hafi verið mismunað eftir þjóðerni.  Allar innstæður voru gerðar að forgangskröfum í bú Landsbanka Íslands óháð þjóðerni.

5.  Var innstæðueigendum mismunað eftir búsetu?

Á þessu leikur enginn vafi.  Það var gert.  Vissulega voru allar innstæður gerðar að forgangskröfum, en síðan skilja leiðir.  Eins og fram kemur í bréfi ESA til íslenskra stjórnvalda og ég hef margoft bent á, þá var innstæðueigendum mismunað á þann hátt að innstæðueigendur á Íslandi hafa haft aðgang að sínum fjármunum óslitið.  Icesave innstæðueigendur í Bretalandi og Hollandi þurftu að bíða í nokkra daga eftir að fá að hámarki 50.000 GBP eða 100.000 EUR eftir því í hvoru landinu þeir lögðu inn.  Umfram þetta hámark hefur ekkert verið greitt út.  Þá hafa fjölmargir aðrir Icesave innstæðueigendur ekki fengið neitt, þar sem þeir falla hvorki undir hollensku trygginguna né þá bresku.  Það fer því ekkert á milli mála að innstæðueigendum var mismunað eftir búsetu.

6.  Hvar liggur greiðsluskyldan?

Þetta er bæði flókið og einfalt.  Í einfaldleika sínum liggur greiðsluskyldan hjá þrotabúi Landsbanka Íslands.  Þangað þurfa a) Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta; b) breski tryggingasjóðurinn; c) hollenski tryggingasjóðurinn; d) aðrir tryggingasjóðir sem greitt hafa út vegna Icesave; e) innstæðueigendur sem engrar tryggingar njóta; og f) innstæðueigendur sem áttu meira en tryggingarvernd var fyrir að leita eftir greiðslu á kröfum sínum. Hver um sig af þessum aðilum hefur líklegast gert kröfu í þrotabú Landsbankans.  Þeir verða núna að bíða eftir því að byrjað verði að greiða út úr búinu. 

7.  Í hvaða röð á Landsbankinn að greiða forgangskröfuhöfum?

Um þetta hefur í mínum huga stirrinn staðið varðandi Icesave-samningana.  Mér hefur alltaf fundist eðlilegt, að hver innstæðureikningur sé meðhöndlaður sem sérstök krafa.  Síðan greiðist jafn mikið inn á hverja kröfu þar til annað tveggja gerist, að allar kröfur eru uppgreiddar eða að sjóðþurrð er orðin.  Þetta þýðir í reynd að fyrst er greitt inn á ábyrgðir Tryggingasjóðs innstæðueigenda. Hann sér síðan um að greiða öðrum tryggingasjóðum það sem þeir hafa greitt til innstæðueigenda fyrir hans hönd og til þeirra innstæðueigenda sem ekki hafa einu sinni fengið lágmarks vernd greidda út.  Næst er greitt inn á það sem eftir stendur af kröfum annarra tryggingasjóða upp að lægstu upphæð sem sjóðirnir hafa tryggt og til ótryggðra innstæðueigenda upp að sama marki.  Síðan er þetta endurtekið þar til allir tryggingasjóðir hafa fengið sitt greitt og ótryggðar innstæður fylgja með.  Síðast eru þær innstæður greiddar út sem eftir standa.

8.  Hvað gerist ef það verður sjóðþurrð?

Eigi Landsbanki Íslands ekki fyrir forgangskröfum, þá vandast málið.  Hér kemur að klúðri FME við stofnun NBI hf.  Þar á bæ hugsuðu menn dæmið greinilega ekki til enda eða voru mjög bjartsýnir varðandi endurheimtur á eignum Landsbankans.  Þetta atriði gæti leitt til ábyrgðar ríkissjóðs á fullri greiðslu Icesave-innstæðna.  FME er nefnilega á ábyrgð ríkisins og mistök FME geta valdið ríkinu skaðabótaskyldu.  Málið er að þetta kemur Icesave-samningnum ekkert við.  Sjóðþurrð getur orðið hvort heldur Icesave-lögin verða samþykkt eða ekki.  Vanti 100 milljarða upp á eignir Landsbankans dugi fyrir öllum innstæðum, þá verða þeir 100 milljarðar að koma úr ríkissjóði.  Svo einfalt er það.  Almenningur mun því þurfa að blæða fyrir mistök FME.  Almenningur mun þurfa að blæða fyrir að innstæður voru greiddar út upp í topp hér innanlands.  Nú verði ekki sjóðþurrð, þá er ríkið samt ekki sloppið.

9.  Eiga erlendir innstæðueigendur kröfu á ríkið?

Já, mér sýnist það.  Þar er ég sammála ESA sem segir að innstæðueigendum hafi verið mismunað, þegar innlendir höfðu órofinn aðgang að öllum innstæðum sínum meðan Icesave-innstæðueigendur hafa sumir ekki ennþá aðgang að sínum peningum.  Þetta atriði snýr að Icesave-samningnum, en líka að aðilum sem eru ekki aðilar að samningnum og kröfum sem eru umfram tryggingar erlendu tryggingasjóðanna.  Ég fæ ekki betur séð en allir þessir aðilar eigi réttmæta kröfu um vexti og geti þrotabú Landsbankans ekki greitt þá vexti endar krafan án efa hjá ríkissjóði.

10.  Hvað þýðir þetta allt gagnvart Icesave-samningnum og lögunum?

Í mínum huga fer ekkert á milli mála að Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta ætti að greiða vexti vegna tafa á útgreiðslu frá sjóðnum.   Á ríkissjóður að ábyrgast þá greiðslu?  Nei, afdráttarlaust ekki.  Eina ástæðan fyrir því að ríkissjóður ætti að ábyrgjast Tryggingasjóðinn væri, ef endurheimtur á eignum Landsbankans dygðu ekki fyrir kröfunum sem sjóðurinn þarf að standa undir.  Slík ábyrgð kæmi auk þess í gegn um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sem eiga aðild að Tryggingasjóðnum, þar sem það eru aðildarfyrirtækin sem eiga að borga dugi tekjur sjóðsins ekki til, skv. lögum 98/1999.  Ríkisábyrgð í samningnum er því út í hött.  Verði endurgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans í þeirri röð sem ég tilgreini í lið 7, þá verður þetta ekkert vandamál.  Það sem Hollendingar greiddu frá 20.887 EUR til 50.000 EUR er og verður aldrei vandamál Íslendingar og sama á við um greiðslu Breta á bilinu 16.200 til 35.000 GBP.  Landsbankinn var tryggður í þessum löndum af viðkomandi tryggingasjóðum.  Það sem er umfram þessar upphæðir gæti lent á ríkissjóði, en kemur samningnum ekkert við.

11.  Er öruggt að ógreiddar innstæður vegna sjóðþurrðar lendi á ríkinu?

Um þetta atriði er mesta óvissan og bréf ESA fjallar í megindráttum um það.  Grundvallarregla í EES samningnum er bann við mismunun eftir búsetu og þjóðerni.  Í þessu tilfelli væri það búsetuákvæðið sem ætti við.  Hér á landi fengu allir allt sitt, en sjóðþurrð gæti leitt til þess að einhverjir tapa hluta innstæðna sinna.  ESA mun örugglega krefjast þess að ríkissjóður bæti upp mismuninn og stjórnvöld munu bera fyrir sig neyðarrétti, þ.e. að höggið á hagkerfið hefði orðið of mikið, ef milljarða tugir eða hundruð hefðu tapast og ekki fengist bætt.  Höfum í huga að þetta atriði kemur Icesave-samningnum ekkert við.

12.  Hverju breyta dómsmál, ef lögunum verður hafnað?

Um hvað ætti slíkt dómsmál að snúast?  A)  Þarf Tryggingasjóðurinn að greiða lágmarkstrygginguna.  B) Vextina sem Tryggingasjóðurinn þarf að greiða Bretum og Hollendingum.  C)  Þarf ríkið að greiða það sem er umfram lágmarkstrygginguna.  D) Bætur til innstæðueigenda sem þurftu að bíða eftir aurunum sínum.  E) Það sem út af stendur dugi eignir Landsbankans ekki fyrir öllum innstæðum.

A.  Ég hef aldrei skilið þetta atriði.  Enginn þeirra hópa sem tekið hafa mestan þátt í umræðunni hefur eitt augnablik efast um skyldu Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að standa við lágmarksverndina.  Ég sé í fréttaskýringu RÚV að talað er um að ríkið verið dæmt til að greiða 660 milljarða kr.  Þetta getur aldrei staðist.  Ábyrgðin er Tryggingasjóðsins og hann endurkrefur Landsbankans.  Þessi upphæð er alveg sú sama, hvort heldur Icesave-lögin eru samþykkt eða ekki.  Það er ekki eins og 660 milljarðar bætist við reikninginn.  Reikningurinn verður nákvæmlega sá sami að teknu tilliti til gengisbreytinga.

B.  Mál vegna vaxta til Breta og Hollendinga tapast alveg örugglega, en einnig má bara semja um það beint að Tryggingasjóðurinn greiði umsamda vexti.  Bara án ríkisábyrgðar og aðkomu ríkissjóðs.

C.  Í fréttskýringu RÚV eru menn að velta fyrir sér hvort ríkissjóður þurfi að greiða allt sem Bretar og Hollendingar greiddu út.  Í fyrsta lagi, þá greiðir íslenski tryggingasjóðurinn (með peningum frá Landsbankanum) lágmarkstrygginguna.  Í öðru lagi, þá var Landsbankinn aðili að breska tryggingasjóðnum og líklegast þeim hollenska líka.  Það er því útilokað að íslenska ríkið greiði það sem Landsbankinn var tryggður fyrir í þessum löndum.  Til hvers var þá tryggingin?  Í þriðja lagi, þá tóku Bretar og Hollendingar upp á því hjá sjálfum sér að greiða meira út en tryggingaverndin sagði til um.  Með neyðarlögunum voru innstæður gerðar að forgangskröfum.  Þar með var innstæðueigendum gert hærra undir höfði en ella.  Ef innstæður hefðu verið almennar kröfur, þá hefðu innlendir og erlendir innstæðueigendur tapað mörg hundruð milljörðum, ef ekki hátt í eitt þúsund milljörðum hjá Landsbankanum einum.  Aðgerðir stjórnvalda bættu því stöðu Icesave-innstæðueigenda og eru ástæðan fyrir því að Bretar og Hollendingar greiddu jafn skjótt út til innstæðueigenda og hækkuðu upphæðina umfram það sem verndin hljóðaði upp á.  Ég efast stórlega að það falli dómur, sem segir að ríkissjóður þurfi að greiða ígildi forgangskröfu Breta og Hollendinga í þrotabú Landsbankans sem þessir aðilar ákváðu sjálfir að taka yfir.

D. Tilskipun 94/19/EC tekur á þessu og búast má við að ríkið þurfi að punga út einhverjum peningum.  Þetta kemur Icesave-samningnum bara ekkert við og krafan verður til staðar hvað sem samningnum líður.

E.  Hér er mesta óvissan, en dómsmál vegna þessa verður höfðað sama hvort niðurstaðan er Já eða Nei.

Niðurstaðan

Min niðurstaða úr öllu þessu, er að hvernig sem kosningin fer verða fjölmörg mál óleyst.  Önnur mál sem leysast með því að samþykkja lögin, munu líklegast kosta svipað hvort heldur lögin verða samþykkt eða þeim hafnað.  Eina óvissuatriðið í mínum huga eru vextirnir, en með því að halda kröfuröðinni, eins og ég lýsi í lið 7 að ofan, þá muni það skila sér til baka.

Lee Buchheit kom í Silfur-Egils um daginn.  Því miður sagði hann nánast ekkert sem hönd var á festandi.  Jú, það var eitt.  Hann talaði um að þetta væri áhættugreining.  Þannig er það nú.  Íslendingar eiga að setjast niður og greina áhættuna af hvorri leið fyrir sig.  Út frá þessari greiningu eiga þeir síðan að velja.  Svo vill til að áhættugreining er hluti af minni sérmenntun.  Þegar allt kemur til alls, þá sé ég áhættu í aðeins einum viðbótarþætti verði lögin felld umfram þá sem eru til staðar verði lögin samþykkt.  Vextirnir sem þarf að greiða Bretum og Hollendingum.  Hækki þeir um 2% á ári, þá gerir það 13,2 ma.kr. miðað við 660 ma.kr. skuld.  Á móti kemur að verði kröfuröðin eins og ég lýsi henni í lið 7, þá greiðist þessi upphæð til baka fyrir árslok 2012, jafnvel fyrr. Og það sem meira er, Tryggingasjóðurinn á að greiða þessa vexti.  Þeir verða því að forgangskröfu í bú Landsbankans og fást greiddir með öðrum forgangskröfum.

Mitt áhættumat á þessum lögum er að segja NEI!

Hér eru síðan tenglar á nokkrar eldri færslur:

Skyldur stjórnvalda vegna innstæðutrygginga og neyðarlögin

Icesave - Á að borga og þá hver á að borga?

Sterkustu rökin gegn Icesave

Icesave samningurinn er óefni

 

 

 


mbl.is Aukning um 13 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mjög góð og ítarleg grein hjá þér. Ég segi NEI!

Sumarliði Einar Daðason, 6.4.2011 kl. 14:34

2 Smámynd: Björn Ragnar Björnsson

Top-up trygging í Bretlandi fyrir Icesave var að GBP 50000.  Bretar endurgreiddu síðan innstæður einstaklinga að fullu, en Hollendingar að EUR 100000.

Björn Ragnar Björnsson, 6.4.2011 kl. 14:45

3 identicon

Var eitthvað einfaldara á mínu heimili:

Er skyndilega á heimili með ekkert eigið fé, skulda 100% meira en vorið 2008 og vextir hafa verið hækkaðir um 300% á láninu mínu til næstu 40 ára.

Mitt áhættumat er því; Ég hef ekki efni á að skrifa undir frekari skuldbindingar, NEI!

sr (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 14:52

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Marinó.

Takk fyrir þennan pistil.

Þú færð 10 í kladdann minn fyrir þetta framlag þitt.

Þetta er besti pistill, besta greining og besta samantekt sem ég hef lesið í netheimum um Icesave.

Einfalt, skýrt og niðurstaðan klár afleiðing staðreynda og raka.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 6.4.2011 kl. 15:10

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, Bretar hækkuðu trygginguna daginn eftir að Landsbankinn féll.  Það kemur fram hér: Deposit Limits. 

Marinó G. Njálsson, 6.4.2011 kl. 15:16

6 identicon

Takk fyrir fróðleikinn Marino

Ég segi NEI of aftur NEI

Kristinn M (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 15:43

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka góða greiningu Marinó, ég er reyndar búinn að kjósa og sagði NEI.

Ég byggði mat mitt á orðalagi samninganna, ekki mati einhvers sem ég hef takmakaða þekkingu á eða spám um gengi, sem engum hefur tekist að spá um hingað til. Ekki verður betur séð en að þessir samningar séu einhliða plagg, ekki samningar sem gerðir eru á jafnréttisgrunni.

Það voru einkum greinar 10.3 og 10.9 sem slógu mig.

Gunnar Heiðarsson, 6.4.2011 kl. 16:26

8 identicon

Takk fyrir þessa góðu greiningu Marinó.

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 16:58

9 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Góð greining og rétt niðurstaða. Nei við Icesave kröfur

Eggert Guðmundsson, 6.4.2011 kl. 17:19

10 identicon

In statistical hypothesis testing used for quality control in manufacturing, the type II error is considered worse than a type I. Here the null hypothesis indicates that the product satisfies the customer's specifications. If the null hypothesis is rejected for a batch of product, it cannot be sold to the customer. Rejecting a good batch by mistake--a type I error--is a very expensive error but not as expensive as failing to reject a bad batch of product--a type II error--and shipping it to a customer.

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 17:24

11 identicon

Takk fyrir, mjög góð grein og ekki hafa þær verið margar í því umhverfi sem við búum við í dag, en hvað finnst þér um grein Gylfa í dag um tapaðan hagvöxt ? Það kæmi hugsanlega eitthvað inná áhættugreininguna þína, þ.e.a.s. hvort við töpum bara svipuðum fjárhæðum með þeirri óvissu sem skapast og fjármögnunarörðuleikum sem líklega koma til með nei-inu ? 

Jónas Þór Jónasson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 17:33

12 identicon

Þakka greinargóða umfjöllun Marinó.

Það vildi ég að stjórnmálamenn vorir gætu greint mál á vitrænan hátt og myndað sér upplýsta afstöðu í stað þess að gjamma nær einvörðungu eftir hentigreiningu flokksforustu þeirri er þeir tilheyra.

Kveðjur að Austan

Kristján Sigurðsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 18:35

13 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þetta flókna og ómurlega mál er þannig vaxið að það er ómögulegt að vita hver endanleg niðurstaða verður fyrir íslenska þjóðarbúið, sama hvort já-ið eða nei'ið verður ofaná. Menn hafa eðlilega mismunandi skoðun á því hvoru megin áhættan er meiri. En mér heyrist sem margir ætli einfaldlega að kjósa út frá þeirri spurningu "á ég að borga skuldirnar hans Bjögga". Kannski ekki mjög vitrænt, en verður lykilatriðið hjá fjölda ljósenda.

Ketill Sigurjónsson, 6.4.2011 kl. 19:36

14 Smámynd: Þórir Kjartansson

Alveg sammála Katli.  Mikið má vera ef þetta mál sannar ekki að sum mál eiga ekki erindi í þjóðaratkvæði.   Allt of margir kjósa á einhverjum tilfinninganótum eða lita þetta með pólitík. Of fáir af yfirvegun og rökhugsun.

Þórir Kjartansson, 6.4.2011 kl. 21:59

15 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég hef tekið eftir þeim misskilningi í málflutningi beggja fylkinga, að með Nei-i, þá sé ætlunin að komast hjá því að standa við skuldbindingar Íslendinga varðandi Icesave-innlánin.  Svo er alls ekki.  Ekki fer á milli mála, eins og ég hef bent á í nokkrum færslum, að greiðsluskylda er fyrir hendi.  Sú greiðsluskylda á bara ekki að hafa ríkisábyrgð.  Hún liggur upp að lágmarkstryggingunni hjá sjálfseignarstofnun sem heitir Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta.  Eftir það er hún hjá Landsbanka Íslands.

Auk þess gæti lent ábyrgð og jafnvel skaðabótaskylda hjá ríkissjóði vegna hörmulegra mistaka FME við stofnun NBI hf.  Mistökin felast í mismunun á stöðu innlendra og erlendra innstæðueigenda um aðgengi að innstæðum og hugsanlega að sjóðþurrð verði hjá Landsbankanum áður en allar innstæður hafa verið greiddar út á Icesave reikningunum.  Þessi ábyrgð er fyrir utan þá ábyrgð sem ríkissjóður vildi taka á sig samkvæmt Icesave III samningnum og lendir á ríkissjóði óháð því hvernig kosningarnar fara.

En ég mun líka segja nei vegna þess að ég vil að greiðslur úr þrotabúi Landsbankans gangi fyrst til tryggingasjóðsins íslenska, áður en einn eyrir/cent rennur til annarra tryggingasjóða.  Það er síðan íslenska sjóðsins að greiða hinum það sem þeim ber, sem og þeim innstæðueigendum sem ekki hafa einu sinni fengið lágmarkstrygginguna sína greidda út.

Marinó G. Njálsson, 6.4.2011 kl. 22:10

16 identicon

8.  Hvað gerist ef það verður sjóðþurrð?

Á hverju byggir þú þessa röksemdarfærslu, þ.e. með FME og ábyrgð ríkisins?

Sævar (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 22:19

17 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Takk fyrir þessa ágætu samantekt Marinó.

@ Ketill

"En mér heyrist sem margir ætli einfaldlega að kjósa út frá þeirri spurningu "á ég að borga skuldirnar hans Bjögga". Kannski ekki mjög vitrænt, en verður lykilatriðið hjá fjölda ljósenda. "

Ef við orðum þetta svona

" margir ætla einfaldlega að kjósa út frá þeirri spurningu  hvort þeir telji rétt að almenningur á íslandi borgi tap alþjóðlegs einkafyrirtækis"

hljómar þetta ekki bara nokkuð gáfulega svona ?

Guðmundur Jónsson, 6.4.2011 kl. 22:39

18 identicon

  

Mér kemur í hug sá mikli andans maður Magnús Orri Schram, sem sagðist hafa hugleitt Icesave-málið í heila þrjá sólarhringa og væri þar með orðinn fróðasti maður landsins um allar hliðar þess.

 

Ég hins vegar hef bara hugsað um Icesave í 900 daga og jafnmargar nætur og er ennþá að uppgötva atriði og hliðar sem ríkisstjórnin hefur logið til um eða hún ekki haft áhuga eða rænu að rannsaka.

 

Það er samt gott að sjá að niðurstaða þín er sú sama og mín, að hafna Icesave-lögunum og segja NEI á laugardag. Raunar er ég búinn að kjósa, til þess að vera viss um að drepast ekki frá þessu stóra verkefni sem þjóðin stendur frammi fyrir.

 

Ég tel Marinó að þú sért úti að aka varðandi mörg mikilvæg atriði er Icesave-málið varða, en eigum við ekki bara að ræða þann ágreining þegar við erum búnir að senda Icesave-drauginn þangað sem Samfylkingar-liðið vill teyma Íslendinga ?

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 22:46

19 Smámynd: Elle_

Ég vissi ekki að þú hefðir skrifað þennan pistil þegar ég svaraði í pistlinum á undan, Marinó. 

Lykilatriði 1 er eins og þú segir að það er engin ríkisábyrgð.  Ríkisábyrgð er bönnuð samkvæmt lögum.  ICESAVE-skattur væri líka stjórnarskrárbrot. 

Lykilatriði 2 er að ESA var með eftirlitsskyldu og gerði enga athugasemd í heil 10 ár fyrr en EFTIR að bankinn féll.  Og það var eftiráskýring.  Hafi þeir ekki fundið neitt rangt í heilan áratug gat enginn búist við að íslensk stjórnvöld vissu það.  Þeir voru ábyrgir sem lögbundinn eftirlitsaðili fyrir utan það að eftirlitið með útibúunum í Bretlandi og Hollandi var ÞARLENDRA yfirvalda. 

Lykilatriði 3 er að þú byggir rökstuðninginn á gömlu áliti ESA sem var rangt.  Nýrra kom út 15. desember, 2010:
EFTA SURVEILLANCE AUTHORITY DECISION TO CLOSE 7 CASES AGAINST ICELAND -
l5 December 2010.

Lykilatriði 4: Landbankinn var með skyldutryggingar í FSCS í Bretlandi og í DNB í Hollandi þó það hafi verið þaggað niður.  Við í ÞJÓÐARHEIÐRI höfum oft skrifað um það og núna síðast í dag:

Ómar Geirsson:
Skírteini FSA No.207250

Og Loftur A. Þorsteinsson líka:
Málflutningur Evrópskra nýlenduvelda gegn Íslandi

ICESAVE er kúgun, lögleysa og stjórnarskrárbrot og við segjum NEI.  Og ég skil ekki niðurstöðuna þína um að við munum líka tapa þó við segjum NEI.  Við getum ekki vitað það og það yrði þá samkvæmt dómi.  Við getum lifað við það.  Við vitum hinsvegar að allir tapa ærunni af að sættast á kúgun.  

Elle_, 6.4.2011 kl. 22:51

20 Smámynd: Elle_

Marinó, ætlunin mín er ekki að verja ísl. stjórnvöld svo það sé á tæru og veit vel eins og þú hvað þau hafa fullkomlega brugðist okkur.  Í ICESAVE hinsvegar var það ESA.  Og loks bresku og hollensku ríkisstjórnirnar með dyggum stuðningi Evrópusambandsins.  Og núna síðast ICESAVE-STJÓRNIN.  Ætlaði alls ekki að koma hingað inn og skjóta þig niður og met að þú hafir komist að NEI niðurstöðu. 

Elle_, 6.4.2011 kl. 23:07

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sævar, ég skýri það nánar út í færslunni Skyldur stjórnvalda vegna innstæðutrygginga og neyðarlögin.  Þú verður bara að lesa hana.

Elle, þú ert að rugla saman tveimur málum.  Annars vegar er það bréfið sem Steingrímur hefur frestað að svara þar sem hann var að reyna að semja.  Það er bréfið sem ég er að vitna í.  Hitt er hvort það hafi verið leyfilegt að gera innstæður að forgangskröfum.  Það er málið sem þú ert að vitna í.  Ég bendi á tryggingarnar hjá FSCS og DNB

Loftur, ekki ætla ég að halda því fram að þetta sé fullnægjandi rökstuðningur.  Hann er stundum að finna í öðrum færslum eða athugasemdum.  Í einu tilfelli er hann að finna í færslu hjá þér!  Segðu mér hvaða atriði ég er úti að aka með.  Ég tel nefnilega að öll atriðin sem ég nefni séu traust.  Byggð á lögum, reglum, tilskipunum, gögnum og rökum.

Marinó G. Njálsson, 6.4.2011 kl. 23:12

22 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Frjálsar handfæraveiðar leysa byggða, fátæktar og atvinnuvanda

Íslendinga, ekki nýjar lántökur gjaldþrota þjóðar!

Aðalsteinn Agnarsson, 6.4.2011 kl. 23:36

23 identicon

Annars er samantekt  Maria Elvira Méndez Pinedo Dr. í Evrópurétti um icesave málið mjög athyglisverð. Þar segir m.a.:

The ruling of the ECJ in the only case existing in this field, the Peter Paul and Others previously mentioned, is not sufficiently clear to this effect: While, on one hand, the ECJ requests that the minimum compensation is given to depositors (to the minimum set by the Directive), the Court adds that there is no State liability for the German authorities for alleged failings in banking supervision (as per Recital 24).

Under normal economic circumstances, one could argue that Iceland should acknowledge the right for all depositors to receive a compensation from the Investors Guarantee Fund for a minimum of 20.889€ as stated in the Directive. However, the Directive does not establish the State liability of a sovereign country when the private fund or DGS goes bankrupt. The interpretation of the provisions of Directive 94/19/EC in case of systemic failure of a banking system and in exceptional economic circumstances that put a country on the abyss of financial failure is a very serious and problematic issue which is neither contemplated by the European Directive nor by the Icelandic law. To make the problem short, this Directive had never anticipated the event of complete banking failure in one country leaving depositors unprotected in another country (cross-border bankruptcy and insolvency). http://elvira.blog.is/blog/elvira/entry/1013839/

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 00:09

24 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst gæta misskilnings hjá ýmsum, sem eru fylgjandi Icesave III, varðandi vilja þeirra, sem eru á móti Icesave III, til þess annars vegar að Icesave innstæðurnar séu greiddar út og hins vegar að samið sé um greiðslunar.  Mér vitanlega vill enginn sem ég haf rætt við, að Icesave innlánin séu ekki greidd út.  Menn vilja bara að farin sé sú leið sem tilgreind er í lögum hér á landi og tilskipun ESB.  Samkvæmt því skal viðkomandi banki fyrst fá tækifæri til að greiða út innstæðurnar, þá tekur Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta við og loks þau fjármálafyrirtæki sem eru aðilar að sjóðnum dugi eignir sjóðsins ekki til.  Það er í þessu loka skrefi sem ríkissjóður, sem eigandi fjölmargra fjármálafyrirtækja gæti þurft að punga út háum upphæðum, en þó aldrei í líkingu við ábyrgðirnar sem ætlað er að setja á ríkið.

Einnig heyri ég að fólk vill semja, en þeir samningar feli ekki í sér ríkisábyrgð og tryggt sé að íslenski tryggingasjóðurinn njóti forgangs í eignir þrotabúsins umfram hina tvo. Þetta er í mínum huga eðlileg og ófrávíkjanleg krafa.  Um þetta er hægt að semja.

Ég heyri fyrir mér einhverja segja: "En hvað um vextina?"  Málið er að hægt væri að greiða 2-3% hærri vexti og koma samt betur út, ef íslenski sjóðurinn nýtur forgangs í þrotabú Landsbankans.  Ástæðan er styttri tími sem tæki að greiða lán Breta og Hollendinga.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 08:45

25 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Takk fyrir þetta, æsingalaus umfjöllun á mannamáli - loksins!

Haraldur Rafn Ingvason, 7.4.2011 kl. 09:19

26 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, ekki má gleyma Guðmundi Ólafssyni sem segir í viðtali við DV að GAMMA kunni ekki að reikna!  Mér sýnist hann snúa hlutunum á hvolf með eftirfarandi orðum:

Ég sá að eitthvert félag, sem kallar sig Gamma, taldi að áhættan af þessum samningi væri allt að 223 milljarðar króna. Þetta er hrein lygi. Þarna er því haldið fram að verðminni króna hækki skuldina þegar hið rétta er að veikar krónur verða fleiri en skuldin stendur óhögguð í evrum eða pundum.

Staðreyndir málsins eru að krafa Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) í bú Landsbankans er í krónum, en endurgreiðslukrafan frá breska tryggingasjóðnum (FSCS) og þess hollenska (DNB) er í erlendum myntum, þ.e. 2,1 ma. punda og 1,34 ma. evra.  Í dag jafngilda þessar kröfur 609 ma.kr.  Veikist gengi krónunnar um 10% fer því upphæðin í rúmlega 670 ma.kr.  Styrkist gengið um 10%, lækkar upphæðin í um 550 ma.kr.  Greiðslan frá Landsbankanum til TIF er hins vegar alltaf sú sama.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 09:22

27 Smámynd: Skúli Pálsson

Ekki er ég lögfræðingur en í klausunni sem þú vitnar til fremst tek ég eftir orðalaginu "...tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu ...". Þýðir þetta ekki að það er ekki nóg fyrir ríkið að koma á einhverju tryggingakerfi heldur að það verður að vera kerfi sem virkar.

Skúli Pálsson, 7.4.2011 kl. 10:48

28 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Skúli, ég skýri þetta alveg ágætlega út, þannig að þú þarft bara að lesa allan textann.  Síðan má benda á orð Gunnars Tómassonar:

Athyglisverðar upplýsingar um brezka innstæðutryggingar.

Þann 31. marz 2008 nam brezki innstæðutryggingarsjóðurinn £108 milljónum og jafngilti dropa í hafið af bankainnstæðum upp á £1.150 milljarða.

Alistair Darling var margspurður á BBC 8. okt. 2008 hvort ALLAR innstæður væru tryggðar líkt og Icesave. Darling fór jafn oft undan í flæmingi.

Þýðir tilskipun ESB eitt fyrir Ísland og annað fyrir Bretland

Breska ríkið ábyrgðist ekki sjóðinn, þó það hefði lánað honum pening til að greiða út vegna Northern Rock, Landsbankans og fleiri banka.  Aftur á móti fékk FSCS lánið á 0,6% vöxtum.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 11:02

29 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Það er öllum ljóst sem vilja vita það, að innistæðutryggingakerin í bankaheiminum duga ekki til að tryggja allar innistæður. Þess vegna hafa stjórnvöld sem það geta tekið þá ákvörðun að ef sjóðirnir duga ekki þá skuli skattborgar framtíðarinnar taka á sig skuldina.

Þetta er skiljanlegt og jafnvel eðlilegt ef menn vilja viðhalda því peningakerfi sem við búum við í hinum vestræna heimi.

En grundvallar forsenda þessa er sú, að fólkið sem fær reikninginn hafi notið ávaxtanna af þeim fjármálagerningum sem farið var út í.

Í tilfelli íslensku bankanna var þetta þannig að flestar fjárfestingar þeirra voru í útlöndum og því nutu erlendir skattborgarar góðs að fjárfestingum þeirra. Það voru keypt flugfélög , verslunarkeðjur og lánað fé til erlendra auðkífinga o.s.frv.

Þess vegna er eðlilegt að bretar og hollendingar greiði okkur frekar en að við förum að greiða þeim, þeir eru núna að taka þessar fjárfestingar aftur til sín á lágu verði og munu njóta arðs af þeim til langs tíma.

Þess vegna er algjörlega fjarstæðukent að við eigum að borga þeim nokkuð.

Sigurjón Jónsson, 7.4.2011 kl. 12:10

30 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég verð að bæta við umræðu sem átt hefur sér stað á facebook síðunni minni.  Ég fékk spurningu frá mínum gamla bekkjarfélaga, Snorra Bergmann, hvort ég væri sammála útreikningum í auglýsingu Áfram-hópsins á bls. 9 í Fréttablaðinu í gær.  Þar eru birtar fjórar súlur um kostnað vegna já á fyrstu súlunni og nei á hinum.  Súla 1 sýnir kostnað sem að mati samningarnefndarinnar fellur á ríkissjóð.  Súla 2 sýnir vaxtakostnað ef Ísland vinnur dómsmál og greiða þarf vexti aukalega í 5 ár.  Súla 3 er með viðbót ef Ísland er dæmt til að borga lágmarkstryggingu. Og súla 4 er loks með viðbót ef Ísland er dæmt vegna mismununar.   Hér eru svörin mín:

Varðandi súlu 2, þá er eins og gert sé ráð fyrir að ekkert sé greitt meðan beðið er dóms. Ég held að það sé óraunhæft. Eina ástæða fyrir því að ekki er byrjað að greiða út eru dómsmál sem slitastjórn LB stendur í. Gangur þeirra dómsmála er gjörsamlega óháður niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Síðan virðist mér sem í súlu 2 og 3 sé sami kostnaðurinn reiknaður tvisvar, þ.e. vegna tafa. Vextir af því sem ógreitt er, greiðast bara einu sinni. Því þarf að draga 135 ma.kr. frá viðbótinni í súlu 3. Síðan má spyrja: Um hvað snýst þetta dómsmál? Greiðsluskylduna? Hún er viðurkennd. Ekki er ætlunin að sniðganga hana svo ég viti. Hún verður bara án ríkisábyrgðar. Síðan hefur TIF forgang í þrotabú LB og innstæðurnar líka, þannig að tefjist það ekki af óþarfa að greiða út úr þrotabúinu, þá munu eignir þess standa undir lágmarkstryggingunni fyrir árslok 2012.
Varðandi súlu 3, þá stenst þetta ekki. Í fyrsta lagi, þá breytist greiðslan ekki neitt. Tryggingasjóðurinn þarf alltaf að greiða sömu upphæð. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að endurgreiðsla TIF taki jafn langan tíma í bæði skipti. Það er rangt, þar sem TIF mun njóta forgangs umfram aðra í þrotabú LB og þar með verður endurgreiðslan hraðari. Þar með lækka vextirnir en hækka ekki.

Varðandi súlu 4, þá á viðbótin vegna hennar jafnt við já og nei. Hvers vegna halda menn að mismununin hverfi við að segja já. Hún er til staðar og ég reikna með því að ríkið fái þann þátt í bakið hvernig sem allt endar. Þess vegna er fyrirsögn færslu minnar "Hvernig sem fer tapar þjóðin".

Svo bætti Snorri við einni spurningu:

En hefur þú sjálfur metið minnsta mögulega kostnað við Nei? Hann er ekki 0 eins og sumir Nei-bræður þínir halda fram.

Svarið mitt er:

Ég hef ekki metið kostnað í krónum og aurum enda hef ég engan aðgang að tölulegum upplýsingum, tíma eða hæfi til að framkvæma slíka útreikninga. Hefur þú gert það? Mér aftur sýnist sem beinn kostnaður sé svipaður, ef ekki minni, ef sagt er nei vegna vaxtanna sem sparast. Þú mátt ekki gleyma því að annar beinn kostnaður er sá sami, hvor leiðin sem er farin. Það þarf að greiða Icesave, spurningin er bara hvort það er gert með eða án ríkisábyrgðar, hverjir vextirnir verða sem augljóslega þarf að greiða, hver endurgreiðsluröðin er frá þrotabúi LB og hvaða skaðabætur ríkið þarf að greiða vegna mismununarinnar sem enginn vafi er um í mínum huga að hefur átt sér stað. Af þessum þáttum ræður endurgreiðsluröðin mestu, þar sem vextirnir eru afleidd stærð af henni. Varðandi óbeinan kostnað, þá skil ég ekki þau rök. Af hverju ætti lánshæfi ríkisins að lækka við það að það tekur ekki á sig ca. 650 ma.kr. ábyrgð? Hvergi hefur verið sagt að ekki eigi að borga, það á bara að gera það eftir annarri forskrift. Menn geta örugglega tilgreint hinn og þennan óbeina kostnað á hvorn veginn sem þetta endar. Hvað svo gerist veit enginn.

Annars sýnir auglýsingin rangfærslurnar og útúrsnúninginn sem er í umræðunni.  Gengið er út frá því að farið verið í dómsmál vegna lágmarkstryggingarinnar.  Hvers vegna ættu menn að gera það?  Dómsmál Breta og Hollendinga, ef af því verður, mun snúast um vextina og greiðslufyrirkomulagið, en ekki hvort lágmarkstryggingin verði greidd.  Um það er enginn ágreiningur.  Næsta er að menn gera ráð fyrir að engar greiðslur verði til FSCS og DNB meðan þessi dómsmál verði í gangi.  Þannig er það ekki.  Um leið og peningar losna út úr þrotabúinu mun TIF byrja að greiða FSCS og DNB. Það sem meira er, að þeim greiðslum verður líklegast lokið fyrir árslok 2012.  Í súlu 3 eru vextir síðan tvíreiknaðir.  Hver er tilgangurinn?  Skilja menn ekki tölurnar eða er verið að búa til eins svarta mynd og hægt er.  Í súlu 4 er síðan bætt kostnaði á nei-hliðina sem fellur líka til á já-hliðinni.  Ef þessum súlum væri stillt rétt upp, þá verður vissulega einhver vaxtamunur á ári á milli já og nei.  Í staðinn greiðast vextir í styttri tíma.  Síðan á TIF endurkröfurétt á LB vegna vaxtanna.  Munurinn á súlum 1 og 2 er því langt frá því að vera 103 ma.kr.  Auk þess er greinilega gert ráð fyrir bestu innheimtu í súlu 1, en lítið þarf út af að bera svo það gangi ekki eftir.  Nei-leiðin er ekki eins viðkvæm fyrir endurgreiðsluhlutfallinu, þar sem samkvæmt henni á TIF forgang fram yfir FSCS og DNB að peningum þrotabúsins.  Viðkvæmnin fyrir endurheimtuhlutfallinu kemur ekki fram fyrr en löngu eftir að TIF er búið að fá sitt.  Auk þess er gengisáhættan meiri eftir því sem greiðslur dragast á langinn.

Sjóðþurrð og bætur vegna mismununar virka eins, hvor niðurstaðan sem fæst í þjóðaratkvæðagreiðlunni.  Þetta verður fólk að átta sig á.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 12:15

31 identicon

Marinó, ég hef ekki tíma til að ræða nema í fljótheitum þína löngu og að mörgu leyti ágætu úttekt. Vil þó benda þér á villur undir lið:

 

3.Er fyrir hendi greiðsluskylda Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta?

 

Þú nefnir ekki að FSCS og DNB veittu fulla tryggingavernd, ekki bara upp að ESB-markinu, heldur GBP 50.000 í Bretlandi og EUR 100.000 í Hollandi. Sjóðirnir veittu samsíða vernd og báru sameiginlega ábyrgð upp að ESB-markinu. Sannanir fyrir þessu eru til dæmis færðar hér:

 

http://kjosum.is/frettir/2-tilkynningar/106-frettatilkynning-5-april

 

http://altice.blogcentral.is/blog/2011/4/6/malflutningur-evropskra-nylenduvelda-gegn-islandi/

 

http://kjosum.is/images/stories/greinar/blað3.pdf

 

http://kjosum.is/frettir/2-tilkynningar/94-samstada-tjodar-gegn-icesave-gagnrynir-villandi-umsogn-asi

 

  

Afskipti FSCS og DNB má útskýra á eftirfarandi hátt:

 

Innistæðu-eigendur í Bretlandi og Hollandi fengu greitt upp að trygginga-mörkum þessara ríkja af FSCS og DNB, en ekki af ríkissjóðum þessara ríkja. Þetta bar sjóðunum að gera og þar með voru kröfur ESB um lágmarksvernd uppfylltar. ESB gerir engar kröfur um að einhver ákveðin tryggingakerfi greiði þessar EUR 20.887. Þess vegna eru hótanir ESA algjör fásinna.

 

Þar sem við vitum að Landsbankinn var með fullar tryggingar í Bretlandi hjá FSCS og í Hollandi hjá DNB, eiga þeir auðvitað fyrst að gera kröfur á þrotabúið og þar munu þeir fá nær allt sitt fjármagn endurgreitt. Verði mismunur geta þessir sjóðir ekki gert neinar kröfur á aðra en starfandi banka í þessum ríkjum. Mismuninn eiga sjóðirnir því að innheimta hjá starfandi bönkum og ekki hjá almenningi á Íslandi.

 

Að FSCS og DNB fá svona ríkulegar endurgreiðslur úr þrotabúinu geta þeir þakkað Alþingi sem veitti þessum kröfum forgang í þrotabúið. Sá forgangur var einungis til að aðstoða Breta og Hollendinga, en hafði ekkert með björgun greiðslu-kerfisins á Íslandi að gera.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 14:09

32 identicon

Ég fæ aldrei skilið af hverju við förum ekki við mál við PWC og breska og hollenska fjármálaeftirlitið, þar landsbankinn er með skýrslu sem segir að ef PWC hefði ekki skrifað undir falska ársreikninga Landsbankans, hefði Iceasave fengið að fara af stað í Hollandi og Bretlandi.

Pálmi (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 14:12

33 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Loftur, FSCS og DNB veittu uppbótarvernd (top-up), þ.e. frá EUR 20.887.  Þeirra vernd náði ekki til þess var þar undir.  Það er rangt hjá þér að þeim hafi borið að greiða alla upphæðina, sjóðirnir völdu að gera það.  Það er líka rangt hjá þér að Landsbankinn hafi verið með fulla tryggingu hjá FSCS og DNB.  Hann var með uppbótartryggingu.  Það er hins vegar alveg rétt hjá þér að neyðarlögin veita FSCS og DNB meiri rétt en sjóðirnir hefðu mögulega haft annars, en þau tryggðu líka öllum innlendum innstæðueigendum aðgang að sínum peningum (nokkuð sem ég hef alltaf gagnrýnt sem klára mismunun).

Miðað við það sem ég hef lesið hjá þér, þá ert það þú sem ert að misskilja uppbótarverndina.  Þú getur lesið nánar um virkni hennar í Letter of formal notice sem ég vísa til að ofan.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 14:55

34 identicon

  

Marinó, ég legg til að þú kynnir þér gögnin og vísir ekki til áróðurs ríkisstjórnarinnar. Mótmæli þín við þeirri staðreynd, að Landsbankinn var með “fullar” innistæðu-tryggingar hjá FSCS og DNB eru haldlaus.

 

Jafnframt hefur þú ekki skilið að tilgangur Neyðarlaganna var tvíþættur. Annar þátturinn snerti greiðslukerfi Íslands og hinn einungis erlenda innistæðu-eigendur. Skoðaðu gögnin sem ég vísaði á.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 15:09

35 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Loftur, ég er búinn að skoða gögnin.  Það er tími til kominn að þú lesir þau nánar.

Varðandi hvað segir í neyðarlögunum um innstæður, þá segir í 6.gr.:

Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Þarna er enginn greinarmunur gerður á innstæðum eftir staðsetningu.  Ég fann ekkert annað í neyðarlögunum sem vísar til verndar innstæðna.  Ég fann svo sem ekki heldur neitt sem tilgreinir að allar innstæður hafi átt að vera að fullu tryggðar og hefur sú framkvæmd því ekki stuðning í lögum.

Hvað varðar það sem þú segir um greiðslukerfi Íslands og erlenda innstæðueigendur, þá fann ég ekkert.  Þú kannski hjálpar mér með það.  Hér er tengill í lög nr. 125/2008 eins og þau voru samþykkt frá Alþingi 7. október 2008.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 15:35

36 identicon

Marinó, mig langar að spyrja þig einnar spurningar:

Ef banki greiðir full iðgjöld til innistæðu-trygginga-sjóðs, eiga innistæðu-eigendur í bankanum þá að njóta fullrar trygginga-verndar hjá sjóðnum ?

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 15:36

37 identicon

Svo gleyma menn einu veigamiklu atriði, Bretar lánuðu bönkunum sínum gegn eignarhlut í þeim. Nú er breska ríkið einn stærsti hluthafinn í þessum bönkum. Spurning hvort framtíðar arðgreiðslur og/eða sala á hlutunum komi til með að dekka í raun þá fjármuni sem lagðir voru til.

Miðað við áætlaðar endurheimtur í bú Landsbankans, þá fá Bretar og Hollendingar 90% af útlögðum kostnaði til baka. Hefur einhver velt því fyrir sér hvort hlutfallið verði sambærilegt þegar kemur að því að Bretar losi um eign sína í þessum bönkum sínum? Getur verið að Landsbankinn skili á endanum hærri endurheimtum á neyðarfjármögnun bankakerfisins í Bretlandi en þarlendir bankar?

Þórhallur (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 15:41

38 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Loftur, hann greiddi ekki fullt iðgjald, heldur var tekið tillit til þess að um uppbótarvernd var að ræða.  Ómar Geirsson dekkar þetta þræl vel á blogginu sínu, meira að segja með tilvitnun í skjöld frá þér.  Á síðu FSCS kemur fram að Landsbanki Islands var með top-up cover frá því 2006.  Top-up cover er sama og uppbótarvernd og tekur við þegar vernd heimaríkis lýkur.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 15:43

39 Smámynd: Maelstrom

Framhaldsmenntun í áhættugreiningu, eh...

Finnst þér líklegt að samningurinn verði samþykktur eða felldur án þess að það hafi nokkur áhrif á íslenskt samfélag?  Þú lætur þetta hljóma eins og hægt sé að greina samninginn sjálfan í einhverju tómarúmi og kjósa svo.

Mitt áhættumat er svona:  Ef samningurinn verður felldur, hver er þá allra, allra, allra besta niðurstaða sem við getum vonast eftir?

Raunhæft mat er að ríkið mun svara gagnrýni ESA, úrskurður kemur, það verður gagnrýnt, á hvorn veginn sem úrskurðurinn fer, málið fer fyrir dómsstóla og við vinnum glæsilegan sigur og borgum ekki krónu.  Þetta mun taka 2-3 ár.  Þetta er besta niðurstaðan eftir felldan samning.

Á meðan við bíðum þessi 2-3 ár, þá verður óvissa í íslensku samfélagi.  Minni hagvöxtur, hærri vextir, erfitt að endurfjármagna, meira atvinnuleysi.  T.d. verður reynt að selja eignir hjá OR til að borga skuldir með misjöfnum árangri því erfitt reynist fyrir kaupendur að fjármagna kaupin.

Við munum því tapa einhverjum tugum milljarða vegna minni hagvaxtar, hærri vaxta til OR, Landsvirkjunar, ríkisins og fyrirtækja.  Þetta myndi ég segja að væri það allra besta sem gæti gerst við að fella samninginn, þ.e. að uppskera veikara atvinnulíf og hærri afleiddan kostnað en nokkuð sem þessi samningur gæti kostað okkur.

Við gætum síðan mögulega tapað þessum dómsmálum og þá erum við í slæmum málum svo við skulum ekki spá í það.

Maelstrom, 7.4.2011 kl. 17:21

40 Smámynd: Maelstrom

Hvað er það besta sem gæti gerst við samþykktan samning? 

Betri endurheimtur úr þrotabúinu þurrkar upp skuldina og við borgum ekki krónu.

Minni óvissa í samfélaginu minnkar fjármagnskostnað, eykur hagvöxt, minnkar atvinnuleysi, eykur skatttekjur ríkisins og eykur kaupmátt.

M.ö.o. að ef ég ætti að vera bjartsýnn, myndi ég kjósa JÁ og mögulega þurfum við ekkert að borga.

Í báðum kostunum er síðan til eitthvað "worst case".  Worst case í samningnum er að gengi íslensku krónunnar hrynji. Ef það gerist, þá skiptir þessi samningur einfaldlega engu máli.  Ef íslenska krónan hrynur þá skuldum við það mikið nú þegar að við erum hvort sem er komin á hausinn.  Það skiptir því ekki máli hvort við samþykkjum eða ekki, hrun krónu þýðir gjaldþrot hvort sem er og ætti því ekki að hafa áhrif á það hvernig við kjósum.

Maelstrom, 7.4.2011 kl. 17:27

41 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Maelstrom, ef samningurinn verður samþykktur, þá munu TIF annars vegar og FSCS og DNB hins vegar skipta með sér greiðslum úr þrotabúi LBI.  Það þýðir lengra vaxtatímabil fyrir TIF en ef samningnum er hafnað og TIF situr eitt að greiðslum úr þrotabúinu uns sjóðurinn hefur fengið upp í sínar kröfur.  Besta tilfelli er því betra, ef samningnum er hafnað heldur en ef hann er samþykktur miðað við sömu vexti.  Sama á við um versta tilfelli þegar greiðslur frá LBI er skoðaðar.  Séu vextirnir mismunandi, þá veltur að á mismuninum á þeim og hve mikið skemur tekur fyrir LBI að greiða TIF ef samningnum er hafnað.  Miðað við upplýsingar sem birtar hafa verið er gert ráð fyrir að í forsendum samningsins að greiðslum ljúki 2016 ef TIF, FSCS og DNB skipta á milli sín greiðslum frá þrotabúinu, en greiðslum til TIF ljúki fyrir árslok 2012 ef TIF hefur forgang.  Í grundvallaratriðum er enginn munur á bestu útkomu úr báðum leiðum, þar sem greiðsla vaxtanna er háð sömu lögmálum hvort sem niðurstaðan er já eða nei.

Ég geri aldrei ráð fyrir neinu öðru en að TIF greiði lágmarkstrygginguna, þannig að þessi sviðsmynd að greiða ekki krónu er ekki inni í myndinni hjá mér.  Höfuðstóllinn sem greiddur er, er því sá sami hvort sem samningurinn er samþykktur eða honum hafnað.  Það verður ekkert dómsmál (eins og ég bendi á) um það hvort TIF eigi að borga eða ekki.  Þetta er ótrúlega seigur misskilningur að nei þýði að ekki verið greidd lágmarkstrygging.  Nei þýðir að ríkið gengst ekki í ábyrgð.  (Hitt er annað mál, eins bent hefur verið á, að Bretar og Hollendingar geta ennþá samþykkt Icesave I, en þar var takmörkuð ríkisábyrgð.)

Lestu grein Jóns Gunnars Jónssonar í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.  Hann blæs á öll þessi efnahagslegu svartsýnisrök þín.  Ég geri það líka.

Þau dómsmál sem verða, eru óháð því hvort samningurinn verður samþykktur eða honum hafnað.  Það er mergur málsins, sem stjórnvöld hafa ekki viljað greina frá.  Dómsmálin munu snúast um skaðabætur (eins og ég hef ítrekað bent á) vegna þess að innstæðueigendum var mismunað og það er mitt mat að íslenska ríkið muni tapa þeim dómsmálum.  Þau munu einnig snúast um hver á að borga, ef í ljós kemur að Landsbankinn á ekki nóg upp í forgangskröfur.  Hvorugt þessara atriða er leyst í samningnum, enda utan við gildissvið hans.

Ef besta niðurstaða við já er að borga ekkert, þá er það líka besta niðurstaða við nei.  Ég efast bara stórlega um að við sleppum það billlega.  En það sem verður greitt, verður óháð hvort sagt er já eða nei.

Þú segir versta niðurstaða verði að gengið hrynji.  Þá er betra að segja nei og láta TIF njóta forgangs í eignir þrotabúsins, vegna þess að greiðslur úr þrotabúinu eru festar í krónum meðan greiðslan til FSCS og DNB eru í pundum og evrum.  LBI er sagt eiga 400 ma.kr. sem myndu renna óskiptir til TIF og þaðan inn á skuld sjóðsins við FSCS og DNB.  Þar með er um 400 ma.kr. gjaldeyrisáhætta út úr myndinni.  Sagt er að restin gæti komið fyrir árslok 2012.  Því lengri tími sem líður eykst gjaldeyrisáhættan.  Eftir stendur þó áhætta sem verður til vegna þess að eignir LBI duga ekki upp í forgangskröfur.  Sú áhætta er óháð því hvort lögin eru samþykkt eða þeim hafnað.

Búið er að binda gjaldeyrishöft til loka árs 2015.  Greinilegt er að með því átti að verja kröfu TIF í þrotabú LBI og um leið festa endurgreiðslugengið eins vel og hægt er.  Það eru engar tilviljanir í þessu.

Það er alveg sama hvernig þessi atkvæðagreiðsla fer, stærstu áhættuþættirnir verða áfram til staðar óútkljáðir.  Það er mergur málsins sem allir ættu að vita af.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 18:50

42 identicon

Ein spurning, er ekki rétt hjá mér að ef við segjum já, þá verði ÖLL ágreiningmál varðandi samninginn, leyst fyrir hollenskum gerðardómstól eftir breskum lögum? í dósmstólnum eigi sæti: einn hollendingur, einn breti og einn islendingur.

Mér finnst þetta einna verst við samininginn.

Nökkvi Johannesson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 20:13

43 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nökkvi, þetta er svo sem bæði rétt og rangt.  Það rétta við þetta er að gerðardómurinn er í Hollandi, en hann er alþjóðlegur en ekki hollenskur.  Það er síðan rétt að einn útnefndur af Íslendingum mun sitja í dómnum, síðan einn frá hinum aðilanum og loks einn sem báðir aðilar koma sér saman um.  Þannig að þetta er ekki eins slæmt og þú lýstir þessu.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 20:23

44 identicon

   

Það er gott Marinó að við höfum núna grundvöll til að ræða staðreyndir málsins. Ég teysti því að þú teljir reglugerðir FSA (Fjármálaeftirlit Bretlands) til staðreynda. Skoðum hvað Handbók FSA segir um iðgjöld banka sem koma frá öðrum EES-ríkjum. Þar stendur í grein FEES 6.1.17:

 

»Erlendir bankar frá EES-ríkjum sem veittur er réttur til aukatrygginga í samræmi við COMP14 eru fjármála-fyrirtæki sem koma frá heimaríki þar sem trygginga-kerfið veitir enga eða takmarkaða bóta-vernd, ef til þess kemur að þau lenda í greiðsluþroti. Í samræmi við FEES6.6 ber FSCS að meta hvort þessir EES-bankar eigi að fá afslátt af því trygginga-iðgjaldi sem þeir ættu annars að greiða og þannig að fá metna trygginga-verndina sem þeir njóta í heima-ríkinu. Allur afsláttur sem þannig er veittur af fullu iðgjaldi, er gjaldfærður á aðra banka í sama fyrirtækjaflokki og erlendi EES-bankinn.«.

 

Af þessari málsgrein les ég eftirfarandi:

 

1. Trygginga-vernd ESB er ekki nefnd einu orði og trygginga-kerfi heimaríkis því ekki skyldugt (frá sjónarhóli FSA) að veita þá trygginga-vernd, eða einhverja ákveðna trygginga-vernd.

2. Trygginga-vernd heimaríkisins getur verið niður í ekkert og með því er undirstrikað að alls ekki er horft til trygginga-verndar ESB.

3. FSCS er gert skyldugt að meta hvort erlendi bankinn eiga að njóta einhvers afsláttar frá fullu iðgjaldi, vegna tryggingar í heimaríkinu.

4. Afslátturinn er ekki reiknaður eftir fyrirfram ákveðinni reglu, heldur metinn á þann hátt sem FSCS vill, sem merkir að FSCS tekur ábyrgð á matinu og þarf hvorki að fara nákvæmlega eftir iðgjaldi greiddu í heimaríki eða því trygginga-marki sem þar ríkir.

4. Afslátturinn er greiddur af bönkum í sama fyrirtækjaflokki og erlendi bankinn, þannig að FSCS fær fullt iðgjald og hlýtur því að veita fulla (GBP 50.000) tryggingu.

Undir lið 4 stendur skýrt að hugsanlegur afsláttur, sem ekki liggur fyrir að Landsbankinn hafi fengið, er greiddur af öðrum bönkum í sama flokki. FSCS fekk því full iðgjöld og hvers vegna ættu innistæðu-eigendur þá ekki að hafa notið fullrar tryggingar ? Vonandi er þessi staðreynd nú ljós og við getum tekið önnur atriði til skoðunar.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 21:41

45 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

http://www.emag.org.uk/

Verð að fá að benda á hvernig bretar sjálfir taka á sínum málum. Það er eiginlega skemmtileg þversögn.

En að öðru máli. Ég þakka Marínó fyrir mjög góðan pistil. Það er þó tvennt sem mér finnst vanta í umræðuna. Skuldamál þjóðarinnar eru svolítið dómínókerfi og ef ríkið fer í ábyrgð og gefur gerðardóm til Bretlands og Hollands gætum við horft á þá taka kröfurétt í auðlindum okkar ef það verður gjaldfall. Gjaldfall er mjög nálægt raunveruleikanum þar sem þjóðin er ekki aflögufær um auknar skattahækkanir og meiri niðurskurð.

Heimilin sem eru undirstaða hagkerfisins eru svellt og neyð þeirra eykst. Ofþanin fjármálafyrirtæki taka allt til sín og án ábyrgðar.

Hér verður að koma til róttæk breyting ef allt á ekki að fara á versta veg. Bretar geta tekið gjaldþrotabú gamla Landsbankans og fjármagnað það (eins ættu þeir kannski líka að ganga frá sínum eigin málum). Það sem við þurfum að gera er að snúa okkur að eigin þjóð.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 7.4.2011 kl. 22:24

46 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Loftur, það vill svo til að FSA Handbook er skjal sem ég þekki að nokkru leiti og er með tengil inn á hana í bookmarks hjá mér.  Greinin sem þú vísar til er um þóknun, en ekki trygginguna eða eins og segir í gr. 6.1.3:

The purpose of this chapter is to set out the requirements on participant firms to pay levies imposed by the FSCS to provide funding for its functions.

Um tryggingakerfið sjálft er fjallað í kaflanum COMP, eins og sjá má í tilvitnuðum texta þínum. Í kafla COMP 1.4 er síðan fjallað um fyrirtæki af EES svæðinu. Svona hljómar greinin í heild:


COMP 1.4.1 Guidance01/11/2007
Incoming EEA firms which are conducting regulated activities in the United Kingdom under a BCD, IMD, MiFID11 or UCITS Directive passport are not required to participate in the compensation scheme in relation to those passported activities. They may apply to obtain the cover of, or 'top-up' into, the compensation scheme if there is no cover provided by the incoming EEA firm's Home State compensation scheme or if the level or scope of the cover is less than that provided by the compensation scheme. This is covered by COMP 14.23

COMP 1.4.2 Guidance01/12/2001
If an incoming EEA firm "tops-up", and then becomes insolvent, the Home State compensation scheme will pay compensation for claims up to the limit and scope of the Home State compensation scheme, with the FSCS paying compensation for the additional amount in accordance with the provisions in this sourcebook.

COMP 1.4.3 Guidance01/11/2007
1 The Deposit Guarantee Directive 1 and Investor Compensation Directive/s1 1 require the FSCS to make arrangements with the relevant Home State compensation scheme regarding the payment of compensation (COMP 14.3.1R).

Eins og þú sérð, þá segir skýrum stöfum í grein 1.4.2 að komist fyrirtæki af EES svæðinu í greiðsluþrot, þá greiði tryggingasjóður heimaríkis fyrst, eins og trygging þess segir til um, og síðan taki FSCS við og greiði það sem upp á vantar í samræmi við ákvæði handbókarinnar (sjá kafla 10.2). Kafli 14 fjallar síðan nánar um þátttöku fyrirtækja af EES svæðinu.

Marinó G. Njálsson, 7.4.2011 kl. 23:34

47 identicon

Það sem ég vil vita er hvort Landsbankinn greiddi fullt gjald þ.e.a.s. það sama og aðrir UK bankar eða hvort þeir fengu afslátt ?

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 23:49

48 identicon

Það eru tvö atriði sem vefjast fyrir mér sem ég vona að þú getir svarað.

Ég er búinn að reyna kynna mér þetta mál eins mikið og hægt er þannig að ég geti nú tekið upplýsta ákvörðun. Það sem ég hef lesið, séð í sjónvarpi þá er yfirleitt verið að segja að við séum bara að semja um lágmarkstrygginguna, þessar 20 þús evrur eða um 650 milljarða króna. Er það rétt hjá mér að við fáum 52% af þrotabúinu til að borga upp í þessa tölu og B&H taka síðan 48% af þrotabúinu í fjárhæðina sem kom umfram það þ.e.a.s. uppbótatrygginguna þeirra (top up). Var ekki uppbótartryggingin á ábyrgð B&H? Ég er ekki alveg að fatta af hverju þeir eru að fá þessi 48%.

Síðan eitt með Já leiðina, "Já sinnar" tala alltaf um minnkandi hagvöxt, stöðnun í atvinnulífi út af nei þýðir minna lánshæfimat Moody´s, ég hef lesið að mat Moody´s sé byggt á því að já leiðin fari ekki yfir 50 milljarða. Er þá ekki rétt að álykta ef þrotabúið skilar ekki inn nógu miklum pening og krónan fellur eitthvað. Mun þá ekki Moody´s ekki bara henda lánshæfimatinu í þennan rusl flokk hvort sem er? Það sem ég meina getur ekki já leiðin þá alveg komið með minnkandi hagvöxt og stöðnun?

Hrói (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 02:20

49 identicon

  

Það sem þú ert að segja Marinó, er að þú vitir betur en lögfræðingar FSA hvernig túlka beri reglugerðir um innistæðu-tryggingar í Bretlandi. Frá lögfræðingum FSA fekk ég eftirfarandi yfirlýsingu:

 

Yfirlýsing FSA frá 08. marz 2010: 

 

»Landsbanki Íslands var með rekstrarheimild í Bretlandi frá desember 2001, sem FSA veitti. Bankinn hafði starfsstöð í London og sem rekstraraðila í Bretlandi bar honum skylda að taka aukatryggingu hjá FSCS  í samræmi við kröfur sjóðsins. Þess vegna gátu viðskiptavinir bankans í Bretlandi verið vissir um hvaða innistæðu-tryggingar þeir nutu. Við getum staðfest að FSCS greiðir innistæðu-eigendum fullar bætur, óháð þeim iðgjöldum sem greidd hafa verið vegna þeirra.«

 

Þú mátt í framhaldinu útskýra hvers vegna afslátturinn sem kanna að vera veittur frá fullu iðgjaldi »er gjaldfærður á aðra banka í sama fyrirtækjaflokki og erlendi EES-bankinn«. Getur verið að þessi iðgjaldagreiðsla veiti engin réttindi ?

 

  

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 08:34

50 identicon

 

Hólmsteinn, það væri auðvitað fróðlegt að fá að vita hvaða afslátt Landsbankinn fekk, en stjórnkerfið sem segist vera í þjónustu almennings þegir sem steinninn. Hins vegar skiptir það ekki máli hvað Icesave varðar. Afslátturinn, hvort sem hann var núll eða meira, var gjaldfærður á aðra banka í sama fyrirtækjaflokki og Landsbankinn.

 

FSCS fekk því full iðgjöld fyrir Landsbankann og sjóðnum bar því að greiða fullar bætur. Höfum við ekki núna svarað spurningunni:

 

Ef innistæðu-trygginga-sjóður fær full iðgjöld vegna banka, eiga innistæðu-eigendur í bankanum þá að njóta fullrar trygginga-verndar hjá sjóðnum ?

 

Svari hver fyrir sig: eða NEI.  

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 09:28

51 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hólmsteinn, þeir hefðu átt að fá afslátt, en þær upplýsingar hafa hvergi verið birtar svo ég viti til.

Hrói, staðreyndin er sú að upphæðin sem TIF ber ábyrgð á, er hærri en það sem fellur á hina í uppbótarábyrgð.  Þess vegna á TIF hærri kröfu í þrotabú Landsbankans en hinir.  Mér sýnist sú skipting þó vera nær því að vera 56/44 en 52/48.  Um hitt atriðið ætla ég ekki að spekúlera, þar sem það er ekkert annað en ógrundaðar vangaveltur um eitthvað sem gæti hugsanlega kannski gerst í framtíðinni.  Fyrir utan að það er ekkert sem segir að kostnaður þjóðarinnar verði neitt annar af því að segja NEI en að segja JÁ.  Þá geng ég út frá því að í báðum tilfellum verði lágmarkstryggingin greidd af TIF, í báðum tilfellum dugi eignir Landsbankans fyrir kröfum allra sjóðanna, í báðum tilfellum verði ríkið dæmt fyrir mismunun og endurheimtur á eignum Landsbankans verði óháð því hver niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður.

Loftur, þetta sem þú vitnar í er eins og hlutirnir voru framkvæmdir, þ.e. allir fengu greitt út upp að þaki FSCS.  Þarna segir ekkert til um hvort gerð var endurkrafa í TIF.  Síðan er eins og þú hunsir orðin:

Bankinn hafði starfsstöð í London og sem rekstraraðila í Bretlandi bar honum skylda að taka aukatryggingu hjá FSCS  í samræmi við kröfur sjóðsins.

(Feitletrun mín)

Feitletraða orðið segir allt sem segja þarf.  Nú á síðu FSCS segir um fjármálafyrirtæki af EES svæðinu:

In the event of a failure of one of these firms, there would be a two step process as the home state scheme would have lead responsibility for claims, and would pay the first part of any compensation. The FSCS would, wherever possible, try to assist claimants in their dealings with the home state scheme (for example, by putting them in contact with the home state scheme, or helping them understand the process that the home state scheme will follow). The FSCS would then deal with any 'top up' claims.

(Feitletranir mínar.)

Getur þetta verið eitthvað skýrara?  "[T]he home state scheme would have lead responsibility for claims, and would pay the first part of any compensation" og "[t]he FSCS would then deal with any 'top up' claims."

Neðar á síðunni segir síðan:

In Iceland

  • Landsbanki Islands hf (FSA No. 207250 / approved July 2006)

  • Kaupthing Bank hf (FSA No. 222968 / approved February 2008)

Please note: Although Kaupthing Bank hf has topped up into FSCS, the bank currently operates under the full FSA authorisation status granted to Kaupthing Singer & Friedlander Limited (a UK registered company), which means its depositors are fully protected by FSCS up to £50,000.

Þú getur velt þér upp úr orðalagi í einhverju bréfi til þín (orðalagi sem ég held að þú sért að lesa of mikið í), reglur FSA og FSCS eru skýrar að mínu mati.

Svarið við spurningunni sem þú spyrð í lokin er að sjálfsögðu það, að hafi bankinn greitt fullt iðgjald, þá á hann að vera að fullu tryggður.  Hafi hann hins vegar bara greitt uppbótariðgjald (sem allt bendir til), þá nýtur hann bara uppbótarverndar.

Ég ætla síðan ekki að eyða frekari tíma í sannfæra þig um þetta efni.

Marinó G. Njálsson, 8.4.2011 kl. 11:11

52 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það má náttúrulega síðan spyrja sig hvers vegna FSCS hefur fyrir því að tiltaka bara undantekninguna með Kaupþing í textanum:

Please note: Although Kaupthing Bank hf has topped up into FSCS, the bank currently operates under the full FSA authorisation status granted to Kaupthing Singer & Friedlander Limited (a UK registered company), which means its depositors are fully protected by FSCS up to £50,000.

ef Landsbankinn hefði líka notið fullrar verndar.  Allt bendir því til þess að Landsbankinn hafi eingöngu notið uppbótarverndar, þó svo að innstæðueigendur hafi fengið allt sitt greitt út upp að GBP 50.000.

Marinó G. Njálsson, 8.4.2011 kl. 11:16

53 identicon

Þetta hér er auðskilið:

Bankinn hafði starfsstöð í London og sem rekstraraðila í Bretlandi bar honum skylda að taka aukatryggingu hjá FSCS  í samræmi við kröfur sjóðsins.

Aukatryggingin er tryggingin hjá FSCS, sem bankinn VARÐ að taka til að fá starfsleyfi. Það er ekki FSCS sem setur reglurnar um fjármálmarkaðinn heldur FSA. Ég hef áður sé rangfærslur hjá FSCS eða misskilning.

Eftir stendur að fullar iðgjaldagreiðslur leiða til fullra trygginga. Þetta getur varla verið torskilið.

Einnig leyfi ég mér að taka mark á yfirlýsingum frá lögfræðingum FSA, sem þú virðist ekki hafa mikið álit á.

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 11:23

54 identicon

Strax eftir hrunið hóf FSCS að breyta sínum vefsíðum, en slíkt er erfiðara með gögn eins og reglugerðir FSA. Sú staðreynd að FSCS vildi ekki gefa neinar gagnlegar upplýsingar, var einnig áberandi.

Þeir sem endilega vilja trúa ríkisstjórn Bretlands, leita auðvitað skýringa hjá HM Treasury. Hvað segja þeir um innistæðu-tryggingar Landsbankans ?

http://altice.blogcentral.is/

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 11:38

55 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Loftur, innstæðurnar voru fulltryggðar upp að efri mörkum FSCS.  Um það er ekki deilt.  Upp að EUR 20.887 var tryggingin hjá TIF og það sem umfram var upp að efri mörkum FSCS var hjá FSCS.

Tilvitnaður texti í bréf lögfræðings FSA segir ekki að innstæður á Icesave hafi verið full tryggðar hjá FSCS heldur að þeir hafi haft uppbótartryggingu hjá FSCS.  (Þú notar orðið "aukatryggingu".)  Hvað er "aukatrygging" í þínum huga?  Getur það talist "full trygging"?  Nei, þá hefði lögfræðingurinn sagt "full trygging" en hann/hún sagði "aukatrygging" ("top up cover").

Við gerum okkar málstað engan greiða að rökræða hér um meinta merkingu bréfs sem þú hefur bara birt þýðingu þína á einni málsgrein úr.  Nú er mál að linni og við hættum að rökræða það sem við verðum ekki sammála um miðað við þau gögn sem liggja fyrir.

Marinó G. Njálsson, 8.4.2011 kl. 11:44

56 identicon

Ég bendi á, að ákvæði FEES 6.1.17 í FSA handbókinni er frá 01/04/2008, sem merkir að því hefur ekki verið breytt eftir bankahrunið.

 

https://fsahandbook.info/FSA/print/handbook/FEES

 

Það er svo spurning hversu lengi þetta fær að standa, því að ég hef upplýst um staðreyndir málsins í Guardian. Einn af starfsmönnum HM Treasury gengur í Bloggheimum undir nafninu Bromley86 og ég mætti honum í vikunni á: http://www.guardian.co.uk/

 

Bromley86 hafði ekki hugarflug til að skilja að ég er ekki ríkisstarfsmaður eins og hann. Við eitt tækifærið datt þetta viðhorf út úr honum: “However, I will yield the floor to my esteemed colleague.”

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson (IP-tala skráð) 8.4.2011 kl. 12:24

57 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég las þessi samskipti, en ólíkt honum þá kaupi ég ekki að grein um þóknun lýsi skuldbindingu.

Marinó G. Njálsson, 8.4.2011 kl. 12:30

58 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Marínó.

Ég er ekki sammála þér að þessi umræða sé óþörf, bæði eru miklir hagsmunir í húfi, sem og hitt að það er einhver skýring á orðalagi bréfsins til Lofts.  Skynsamt fólk deilir ekki um að það passar ekki inn í hina opinbera skýringu um þessa lágmarkstryggingu.

En á því eru skýringar sem utanaðkomandi geta ekki skýrt, en getið sér til.

Og eftir þeim skýringum þarf að leita.

Eins vil ég meina að ekkert jákvætt gerist hér á landi nema ef til eru menn, með skýra hugsun sem geta tekist á um ágreining þannig að umræðan sé upplýsandi fyrir þá sem hlusta á eða lesa sér til um.

Mér finnst þú núna hafa hlutverkaskipti í umræðunni miðað við það sem áður var.  Þú ert að verja hið viðtekna með því að vitna í opinber göng sem styðja viðtekin skilning.  Fyrir nokkrum misserum varst þú afgreiddur á nákvæmlega sama hátt af kerfinu, þú varst bara maður sem barðisti við vindmyllur, vissulega út frá vissum réttlætisrökum, en samt, staðreyndirnar voru þessar, gengistryggð lán voru lögmæt, og það ylli falli bankakerfisins ef það yrði véfengt.  Samt hafðir þú rétt fyrir þér því þú gast vísað í hugsunina á bak við lögin, og  að lög sem bönnuðu aðra vísitölutengingu en lánskjaravísitöluna giltu, þó gengistryggð lán hefðu verið viðtekin venja.  Og ótal bæklingar frá kerfinu, fjármálaeftirlitinu og bönkunum sem staðfestu lögmæti þeirra, hefðu ekkert gildi þegar lögin voru annars vegar.

Ekki það að þetta eigi við núna, en skýr hugur svarar með rökum, ekki að vísa í túlkun kerfis á lögum.

Þess vegna langar mig að spyrja þig af hverju stendur "no or limited" í compinu ef þín túlkun væri rétt.  Þá stæði einfaldlega að viðbótartryggingin væri frá þessu 20.887 evra marki eins og kemur til dæmis fram í kynningu FSCS á tryggingu sinni.

Getur það verið að reglusmiðirnir vissu að hið svokallaða lágmark, var aðeins markmið, tiltekið hámark sem stefnt væri að því ekki getur tómur sjóður frá fyrsta degi veitt þessa tryggingu.  Það tekur tíma að láta iðgjöld mynda sjóð sem getur tekið á sig áföll. 

Hvað gerist á meðan???  

Svarið er allavega vafi, þess vegna túlka ég orðalagið "no or limited" sem að viðbótartryggingin taki við þegar heimatryggingin þrýtur.  Annars er gat.

Hvernig færð þú út fulla neytendavernd þegar það er gat í tryggingunni???

Þegar þú svarar þessum spurningum, sem liggur ekkert á, þá vil ég biðja þig Marínó að nota sömu hugsun og aðferðarfræði og þegar þú felldir bankamafíuna á sínum tíma, að leita að hugsuninni á bak við lögin, ekki hvernig hagsmunir kerfisins túlkar það.

Ef þér tekst það Marínó, þá er ég ekki að segja að þú sért sammála mínum skilningi, en ég, og aðrir sem kunna meta rökfærslu skýra huga, verða nær um hinar ýmsu hliðar þess ágreinings sem greinilega er til staðar milli þín og Lofts.

Ágreiningur sem byggist á rökfærslu, ekki "af því bara".

Og sanna að mannshugurinn er hreyfiafl alls.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.4.2011 kl. 15:42

59 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ómar, ég segi hvergi að umræðan sé óþörf. Varðandi bréfið hans Lofts, þá hef ég bara séð hans þýðingu á því sem hann velur að birta.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að stjórnvöld hafi gert mikil mistök við setningu neyðarlaganna, þegar allar innstæður voru færðar til í kröfuröð.  Þau áttu að setja þak á innstæður umfram ígildi EUR 20.887.  Það var ekki gert og þar sem ég hef réttlæti, jafnræði og sanngirni að mínu leiðarljósi, þá get ég ekki annað en samþykkt ábyrgð TIF á að hámarki EUR 20.887 af hverri innstæðu.  Ég neita því að ég hafi haft hlutverkaskipti.  Ég berst enn fyrir réttlæti, jafnræði og sanngirni, þó í þessu tilviki sé það fyrir aðra en mig.

Ég veit ekki hvaða samhengi þessi "no or limited"  er svo ég get ekki svarað þér um það.

Það eru ekki öll lönd með bara EUR 20.887 tryggingu.  Sum eru með mun hærri.  Þess vegna segir FSCS:

The FSCS would then deal with any 'top up' claims.

Ég hef engan möguleika á að vita hvað reglusmiðirnir voru að hugsa.

Það myndast ekki gat, ef FSCS tekur við þar sem heimalandstryggingunni sleppir.

Ágreiningur minn við Loft snýr að því hvaða tryggingasjóður ber ábyrgð á lágmarkstryggingunni og þar með hvort TIF þarf að greiða FSCS og DNB vexti af því sem þeir borguðu út eða ekki.  Rök Lofts byggja á texta sem hann þýddi og klippti út úr svari frá FSA og ég tel hann vera að misskilja. Hann túlkar orðin:

Við getum staðfest að FSCS greiðir innistæðu-eigendum fullar bætur, óháð þeim iðgjöldum sem greidd hafa verið vegna þeirra.

á allt annan hátt en ég.  Ég túlka þetta ekki sem viðurkenningu á ábyrgð heldur framkvæmd á tilteknum hlut.  FSCS greiddi trygginguna upp að sínu hámarki en var að hluta að greiða fyrir heimaríkið, Ísland.  Hann notar svo orðið "aukatrygging" eins og um tvítryggingu sé að ræða, en svo er ekki.  Uppbótartrygging (íslenska orðið fyrir "top-up") tryggir það er umfram lágmarkið, ekki alla upphæðina.

Mér finnst þessi umræða um mismunandi túlkun okkar Lofts á innihaldi bréfs sem hann fékk í hendur og hvernig hann lítur á að það gangi lengra varðandi trygginga á Icesave innstæðum, vera gengin út í öfgar.  Hún hefur samt verið góð.  Mestu máli skiptir að byrjað verði að greiða út úr þrotabúi Landsbankans til réttmætra aðila.

Annars er ég endanlega kominn á þá skoðun að TIF eigi ekki að greiða FSCS og DNB aðra vexti en sjóðirnir borga vegna lánanna sem þeir tóku til að greiða innstæðu eigendum.  Mér sýnist nefnilega þetta þref þeirra eingöngu snúast um að hagnast á vaxtamuni og gengismuni.  Hver er munurinn fyrir þessa aðila að sækja kröfur sínar beint til Landsbankans og að þeir fái greiðsluna til sín í gegn um TIF?  Vextirnir og gengisáhætta.  Ekkert annað.  FSCS og DNB fá mest allt sem kemur frá þrotabúi Landsbankans sama hvort peningurinn hefur viðkomu hjá TIF eða fer beint til þeirra.  Hvers vegna þá þetta millihopp?  Ég skil það ekki.  Og fyrir hvað?  Vextina.  Nær hefði verið að semja um vaxtagreiðsluna, en láta peninginn fara milliliðalaust til erlendu sjóðanna.  Þannig hefðum við líka losnað við þennan ágreining um forgang í þrotabúið og innborganir hefðu til að byrja með farið allar í að greiða niður hlut TIF í tryggingunni.

Marinó G. Njálsson, 8.4.2011 kl. 18:56

60 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Marínó.

"Það myndast ekki gat, ef FSCS tekur við þar sem heimalandstryggingunni sleppir. ".

Hvað get ég sagt, þú  náðir þeim punkti sem Loftur snéri mér.

Og þú viðurkennir að þú hefði ekki leitt hugann að orðalaginu sem fékk mig til að sjá ljósið, "no or limited" þýddi, bið þig aftur að hugleiða rök mín,  ég er ekki fæddur í gær. 

Ég þarf ekki á þessum rökum að halda til að vita mína vissu í ICEsave, önnur dýpri rök ráða för.  Það var engin meining á bak við kröfu mína um rannsókn, en ég vildi vekja athygli á réttmætum vafa.

Til þess að fá fólk til að hugsa.

En ég átti ekki von á að þú yrðir andstæðingur minn, ég átti von á Já manni sem ég get argast í eins og vitið leyfir, sem myndi aldrei hvarfla að mér ef þú átt í hlut.  En ég er ekki sáttur, og því er ég ekki búinn, veit að þú kannt ekki við lausa enda, og svarar ef þú getur.  Sem kemur aftur að áliti mínu á þér.

Á sínum tíma var ég bandamaður þinn gegn sama ægivaldi sem túlkaði lög sér í hag.  Í dag bendi ég þér á réttmætan vafa og þú náðir ekki hugsuninni þar að baki.  Samt viðurkennir þú allt sem ég sagði.

Bæði í því sem ég peistaði, og því að þú viðurkenndir að þú vissir ekki svarið við megin þætti minnar rökhugsunar, rökhugsunar sem lét mig snúast á sveif með Lofti.  

Hálfpartinn afgreiddir þú mig eins og ég væri illa gefinn, þú útskýrðir ágreining þinn við Loft, eins og ég þekkti hann ekki, og eins og ég hefði ekki tekið hann sjálfur.

Og þú afneitar gatinu, en samt viðurkennir það.

Það er ekkert í lögum ESB sem kveður á um að hámarkið, 20.887 evrur sé lágmarkið, og því sömdu bretar sín lög, til að aldrei yrði vafi á tryggingunni.  Ég bað þig um svar við því, ekki um þínar skoðanir.  Þú lést eins og ég þekkti þær ekki.

En Marínó, sá sem vill láta taka mark á sér, hann þekkir þig og Einar Björns,  þið dekkið næstum allt í rökhugsun sem þarf að taka afstöðu til.  Og ég hélt að þú vissir að ég vissi.

Ég bað þig um rök sem kerfið notar ekki, eða að þú myndir reyna að ímynda þér að ég væri ekki vitleysingur, sem tryði öðrum, til dæmis Lofti, án þess að vera búinn að íhuga allar hliðar frá öllum sjónarhornum.

Ef þú átt ekki svar við því sem ég spurði, alveg eins og ég átti ekki þegar Loftur lamdi mig í hausinn, þá átt þú að íhuga hina hliðina.  Þannig virkar rökhugsun okkar.

Og þess vegna gat ég mætt hingað  á sínum tíma og sagt að þú hefðir rétt fyrir þér, þó kerfið hugsaði hlutina þveröfugt.  Þá fékk ég þúsundir innlita til að styðja þig og þín sjónarmið.  

Þegar hitinn var sem mestur haustið 2010, þá toppaði ég Moggabloggið, alveg eins og núna.

Þá talaði ég ekki um Loft, heldur um þig Marínó.  Þegar ég segist meta rökhugsun þína og vit, þá er ég ekki einn af þeim sem tala út i loftið, ég fylgi því eftir, og er beittur í áróðrinum.  Og ég meina mín orð.

Og ég veit nákvæmlega hvenær menn hætta að rökstyðja og fara með fleipur.

Þú ert mjög sjaldgæf undantekning þar á, líkt og Einar Björnsson og Loftur Altice.  

Alltí lagi Marínó, þú gafst mér það svar sem þú áttir.  Og það er gott og vel.

Í dag skiptir spurning mín engu máli, persónulega vildi ég vita svarið við þessari spurningu, en allan tímann vissi ég að hún skipti engu máli, sigurinn var öruggur strax á fimmtudaginn.

En Marínó, ef menn fatta ekki þá aðferðafræði að styðja sitt fólk, þá fatta þeir ekki af hverju þeir njóta ekki stuðnings á ögurstundu.

Og ég benti þér á endinn, út frá sögunni,, þegar ég minnti þig  á örlög Watt Tylers.  Og þú trúðir þá á vilja ráðamanna til réttlátar niðurstöðu.  Og hafðir svo innilega rangt fyrir þér eins og þú sjálfur sagðir frá.

Jæja, ég var að höggva að þessum sömu öflum og þú glímdir við á sínum tíma.  

Spurning hvort við munum eftir Gallastríð Sesars, og þeirri hugsun sem lá að baki sigrum hans.

Skiptir engu máli hvað mig varðar, en þú værir varla að þessu streði nema vegna þess að þú varðst húkt á sannleikann.

Sama hvöt dreif mig áfram til að hlusta á þig.

Ég þurfti þess ekki til að móta bombu til að kasta inn í umræðuna, og fá umræðu.

En ég hefði ekkert haft á móti því að fleiri hefðu hugsað um það sjónarhorn sem ég gekk út frá, og benti þér á.

Atlaga að viðtekinni hugsun var lykillinn að sigri heimilanna í gengismálunum.

Og skortur á samkennd með öðrum í neyð var líka skýring þess að þeim sigri var ekki fylgt eftir.

Marínó, ég fékk yfir 10.000 flettingar á greinar mína um réttmætan vafa.  Þinn málstaður gæti fengið hjá einum bloggara margfalda þá tölu.

En þá þarf að stilla saman strengi.

Hvorki þú eða Loftur fatta það.  En ég ber mikla virðingu fyrir rökhugsun ykkar beggja.

Vegna þess að ég sjálfur bý yfir henni.

Og þú svaraðir ekki spurningum mínum.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 9.4.2011 kl. 03:46

61 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þú þarft að íhuga vel það sem fram kemur hjá Lofti, Marinó. 

hvað þýðir þetta ? (feitletrunin er mín )

In the event of a failure of one of these firms, there would be a two step process as the home state scheme would have lead responsibility for claims, and would pay the first part of any compensation. The FSCS would, wherever possible, try to assist claimants in their dealings with the home state scheme (for example, by putting them in contact with the home state scheme, or helping them understand the process that the home state scheme will follow). The FSCS would then deal with any 'top up' claims.

Guðmundur Jónsson, 9.4.2011 kl. 09:20

62 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, "home state scheme" er í þessu tilfelli Ísland, þar sem "home state" vísar er til landsins þar sem bankinn hefur bankaleyfið sitt.

Marinó G. Njálsson, 9.4.2011 kl. 13:27

63 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Blessaður Marínó.

Og þú viðurkennir að þú hefði ekki leitt hugann að orðalaginu sem fékk mig til að sjá ljósið, "no or limited" þýddi, bið þig aftur að hugleiða rök mín,  ég er ekki fæddur í gær. 

Ómar, ég bað þig um að segja mér hvaðan það orðalag er komið í síðasta innleggi, þar sem ég hef ekki hugmynd um það.  Hugsanlega hef ég leitt hugann að því, en þessi þrjú orð geta verið hvar sem er og marg framtekin (koma fyrir í 668 skjölum í FSA handbook).

Ég þarf ekki á þessum rökum að halda til að vita mína vissu í ICEsave, önnur dýpri rök ráða för.  Það var engin meining á bak við kröfu mína um rannsókn, en ég vildi vekja athygli á réttmætum vafa.

Þetta er það sama og ég er að segja.  Þetta atriði er ekki stóra málið.

En ég átti ekki von á að þú yrðir andstæðingur minn, ég átti von á Já manni sem ég get argast í eins og vitið leyfir, sem myndi aldrei hvarfla að mér ef þú átt í hlut.  En ég er ekki sáttur, og því er ég ekki búinn, veit að þú kannt ekki við lausa enda, og svarar ef þú getur.  Sem kemur aftur að áliti mínu á þér.

Hvernig færðu það út að ég sé andstæðingur þinn, þó við séum á öndverðri skoðun um eitt atriði.  Verðum við andstæðingar, ef mér finnst Fresca best en þér 7-up?

Á sínum tíma var ég bandamaður þinn gegn sama ægivaldi sem túlkaði lög sér í hag.  Í dag bendi ég þér á réttmætan vafa og þú náðir ekki hugsuninni þar að baki.  Samt viðurkennir þú allt sem ég sagði.

Ég næ alveg hugsuninni að baki.  Vertu ekki svona dramatískur .

Hálfpartinn afgreiddir þú mig eins og ég væri illa gefinn, þú útskýrðir ágreining þinn við Loft, eins og ég þekkti hann ekki, og eins og ég hefði ekki tekið hann sjálfur.

Ég hef aldrei afgreitt þig sem illa gefinn, enda þekki ég þig ekki persónulega, svo ég viti.  Ég svaraði hverjum atriði í innleggi þínu eins og það kom, þó ég hafi ekki svarað þeim öllum.

Og þú afneitar gatinu, en samt viðurkennir það.

Eina gatið sem ég sé verða, myndast ef eignir Landsbankans duga ekki fyrir öllum Icesave innstæðum.

Það er ekkert í lögum ESB sem kveður á um að hámarkið, 20.887 evrur sé lágmarkið, og því sömdu bretar sín lög, til að aldrei yrði vafi á tryggingunni.  Ég bað þig um svar við því, ekki um þínar skoðanir.  Þú lést eins og ég þekkti þær ekki.

Hvaða, hvaða.  Ég veit vel að þú veist þetta flest.  Ég benti á að fjölmargar þjóðir eru með hærri tryggingu.  Það var ekki mín skoðun.

Ég bað þig um rök sem kerfið notar ekki, eða að þú myndir reyna að ímynda þér að ég væri ekki vitleysingur, sem tryði öðrum, til dæmis Lofti, án þess að vera búinn að íhuga allar hliðar frá öllum sjónarhornum.

Þú hefur eitthvað misskilið mig varðandi þetta.

Ef þú átt ekki svar við því sem ég spurði, alveg eins og ég átti ekki þegar Loftur lamdi mig í hausinn, þá átt þú að íhuga hina hliðina.  Þannig virkar rökhugsun okkar.

Nú gerir þú mér upp athafnir.  Ég skoðaði það sem Loftur lagði fram, en það er bara ein málsgrein úr bréfi, þýdd af honum.  Ég les ekki sama út úr þessari málsgrein og hann.  Þar sem ég hef sjálfstæða hugsun, þá móta ég mér mína sjálfstæðu skoðun á innihaldinu.

Og þess vegna gat ég mætt hingað  á sínum tíma og sagt að þú hefðir rétt fyrir þér, þó kerfið hugsaði hlutina þveröfugt.  Þá fékk ég þúsundir innlita til að styðja þig og þín sjónarmið.  

Þurfum við alltaf að vera sammála um allt svo ekki myndist vík milli vina, eða getur gagnkvæm virðing haldist, þó okkur greini á um eitt atriði eða hugsanlega fleiri?

Þá talaði ég ekki um Loft, heldur um þig Marínó.  Þegar ég segist meta rökhugsun þína og vit, þá er ég ekki einn af þeim sem tala út i loftið, ég fylgi því eftir, og er beittur í áróðrinum.  Og ég meina mín orð.

Takk fyrir hlýorð í minn garð. 

Og ég veit nákvæmlega hvenær menn hætta að rökstyðja og fara með fleipur.

Þú ert mjög sjaldgæf undantekning þar á, líkt og Einar Björnsson og Loftur Altice.  

Þú átt líklegast við Einar Björn Bjarnason, náfrænda minn.  Mamma hans getur aldrei hætt að segja mér hvað hann er góður drengur, rökfastur og sniðugur á blogginu.

Og ég benti þér á endinn, út frá sögunni,, þegar ég minnti þig  á örlög Watt Tylers.  Og þú trúðir þá á vilja ráðamanna til réttlátar niðurstöðu.  Og hafðir svo innilega rangt fyrir þér eins og þú sjálfur sagðir frá.

Ég er þeim ósköpum gerður að trúa alltaf á hið góða í fólki, þó aðrir segi að ég muni brenna mig á því.  Mundu bara að framkoma annarra í okkar garð er oft speglun á okkur sjálfum.  Þó annar aðili taki ólíka afstöðu í máli, þá er líklegt að hann geri það af sömu hvötum og við tökum okkar.  Af innri sannfæringu, vel íhuguðu máli og stutt lagalegum tilvísunum og tölulegum gögnum.  Meðan vinnubrögð fólks er á þann veginn, þá virði ég það persónulega, þó okkur greini á um skoðanir.

Og þú svaraðir ekki spurningum mínum.

Með fullri virðingu, Ómar, þá getur þú ekki ætlast til að ég kom með svar við öllu sem kemur fram í hátt í 500 orða pósti, yfir 2.800 slög.  Það kallar á 1.000 orða andsvar og var mitt nú nógu langt.  Ég skýrði út af hverju ég gat ekki svarað tilvísun þinni í þessi þrjú orð "no or limited", þar sem ég þekkti ekki samhengið, vissi ekki hvaðan þau væru tekin.  Ég bað þig um að segja mér það sem þu gerðir ekki.  Á ég að verða móðgaður við það?  Nei, líklegast var þetta yfirsjón hjá þér eða ekki atriðið sem þér fannst mikilvægast að svara.

Þú ert afkastamikill í skrifum og átt heiður skilinn fyrir það.  Ég ber virðingu fyrir skoðunum þínum, þó ég deili ekki öllum með þér, frekar en þú deilir öllum með mér.  Látum þetta mál nú kyrrt liggja, þar til frekari upplýsingar liggja fyrir.  Það var það sem ég sagði við Loft.  Ég svo sem bað Loft ekki beinum orðum um að fá að sjá allt bréfið á ensku, en það hefði legið beinast við að hann gerið það opinbert í heild.  Eins og segir að ofan, þá túlka ég orð í bréfinu á annan hátt en hann gerir og hefur sannfært þig um.  Loks veit ég ekki hvaðan "no or limited" er komið og get því ekki tjáð mig um það.  (Þetta orðasamband kemur fyrir í 668 skjölum í FSA handbook.)

Kveðja úr Kópavogi. 

Marinó G. Njálsson, 9.4.2011 kl. 13:35

64 Smámynd: Guðmundur Jónsson

 Ég ætla að reyna aftur

In the event of a failure of one of these firms, there would be a two step process as the home state scheme would have lead responsibility for claims, and would pay the first part of any compensation. The FSCS would, wherever possible, try to assist claimants in their dealings with the home state scheme (for example, by putting them in contact with the home state scheme, or helping them understand the process that the home state scheme will follow). The FSCS would then deal with any 'top up' claims.

ANY = ALLIR eða EINHVER 

Þetta er erfitt að túlka öðruvísi en þannig að ef heimalandssjóðurinn fer í þrot og innistæðueigendur fá ekki fyrsta hlutann þaðan, þá verður gistilandssjóðurinn að bæta upp það sem upp á vantar.  Auðvitað á gistilandssjóðurinn  þá kröfu í þrotabú heimalandssjóðsins. En þetta gerir það að verkum að FSCA hafði í raun aldrei neitt val um að borga út eða ekki. Þetta skiptir miklu máli í heildar samhenginu.

Guðmundur Jónsson, 9.4.2011 kl. 17:49

65 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur, í greininni segir:

In the event of a failure of one of these firms 

Þessi "firms" eru fjármálafyrirtæki með heimaland á EES-svæðinu utan Bretlands.  Ekki tryggingasjóðurinn.  Vísað er í tryggingasjóðinn með orðunum:

home state scheme

FSCS hafði val en til að flækja ekki málið, eins og segir í ESA bréfinu, valdi að greiða upp að bresku hámarki.

"Any" = sérhverja í þessu samhengi, þ.e. "FSCS mun síðan taka á sérhverri uppbótarkröfu".

Marinó G. Njálsson, 9.4.2011 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband