Leita í fréttum mbl.is

NBI tapar málum fyrir Hæstarétti þar sem varnaraðili mætti ekki - Hefur áhrif á skattframtalið

Þriðjudaginn 8. mars sl. féllu tveir dómar í Hæstarétti nr. 30/2011 og 31/2011 vegna gengistryggðra lánasamninga einkahlutafélaga.  NBI hf. stefndi í hvoru máli lántökum vegna gjaldfelldra mála, en byggði kröfu sína á því að um gengistryggð lán væri að ræða.  Allir útreikningar voru því miðaðir við erlendu gjaldmiðlana og gengi þeirra.  Stefndu hvorki sóttu né létu sækja fyrir þig dómþing í héraðsdómi, þ.e. það var útivist í málinu, eins og það heitir víst á lagamáli.  Þrátt fyrir það tók héraðsdómur málin fyrir og vísaði málunum frá á þeirri forsendu að kröfurnar skorti lagastoð.  Meirihluti Hæstaréttar staðfesti úrskurð héraðsdóms, en minnihlutinn vildi vísa málinu heim í hérað til efnislegrar meðferðar.  Svo vitað sé í Hæstarétt:

N hf. krafði G ehf. um greiðslu gjaldfallinna eftirstöðva samkvæmt lánssamningi þeirra í millum ásamt vöxtum og reisti kröfu sína á því að skuldbinding G ehf. hefði verið ákveðin í erlendum myntum. Útivist varð af hálfu G ehf. í héraði og var málið tekið til dóms í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið að skuldbinding G ehf. væri ákveðin í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, og skorti kröfuna því lagastoð. Krafa N hf. væri ekki reifuð með tilliti til þess að skuldbinding G ehf. væri í íslenskum krónum og var málinu því vísað frá dómi sökum vanreifunar. 

Hér er um merkileg mál að ræða, þar sem lántakar héldu ekki uppi vörnum, en sóknaraðili tapar samt málinu.  Þó er það tekið fram að NBI hf. eigi ennþá kröfu á varnaraðila, en hún sé í íslenskum krónum en ekki japönskum jenum og svissneskum frönkum.

Mér er sagt af lögmanni, að bankamenn séu í áfalli vegna þessarar niðurstöðu.  Þeir nefnilega héldu að meðan lántaki héldi ekki uppi vörnum, þá gætu fengið svona mál dæmd sér í hag.  Svo er greinilega ekki.  Fjármálafyrirtæki geta ekki gert kröfu um að fólk eða fyrirtæki greiði af gengistryggðum lánum, eins og þau séu gengistryggð bara vegna þess að fjármálafyrirtækin dettur það í hug.  Það þýðir jafnframt, eins og ég hef haldið ítrekað fram, að þau gátu ekki eftir úrskurði Hæstaréttar í málum 92/2010 og 153/2010 haldið áfram að innheimta lánin eins og þau væru gengistryggð.  Fjármálafyrirtækin mega bara byggja kröfur sínar á því að lánin hafi verið í íslenskum krónum.

Áhrif inn í skattframtölin

Þessir dómar Hæstaréttar hafa í reynd gríðarleg áhrif.  Um þessar mundir eru landsmenn að fylla út skattframtölin sín.  Það litla sem ég hef skoðað mitt framtal bendir til þess að forskráðar upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum séu rangar, þegar kemur að lánum sem upprunalega voru gengistryggð.  Lán okkar hjóna hafa öll verið færð inn eins og dómar nr. 92/2010 og 153/2010 hafi aldrei fallið.  Miðað við dóma Hæstaréttar í síðustu viku, þá er ekki lagastoð fyrir þessum kröfum fjármálafyrirtækjanna.  Fáránleikinn í þessu er líklegast að ég sem framteljandi verð að leiðrétta vitleysuna sem fjármálafyrirtækin sendu inn.

En þetta er ekki einu villurnar sem ég fann þegar ég opnaði framtalið í gær.   Ekki seinna að vænna að byrja, þar sem tíminn er knappari nú en oft áður.  Ég var spenntastur fyrir því að sjá mat fjármálafyrirtækjanna á stöðu lánanna minna.  Þegar ég skoðaði þær, þá fannst mér eitthvað meiri háttar vera að.  Í fyrsta lagi, var eins og dómar Hæstaréttar frá 16. júní 2010 hafi bara verið ómerkilegt blaður í einhverju fólki úti í bæ.  Ekkert hafði verið tekið tillit til þessara dóma.  Í öðru lagi, var eins og Alþingi hafi bara verið að grínast með setningu laga nr. 151/2010, en þar er tekið á fjölmörgum atriðum varðandi endurmat á öllum lánum sem tekin voru til fasteignakaupa og höfðu viðmið við erlenda gjaldmiðla.  Í þriðja lagi, var ótrúlegt ósamræmi á milli þess hvort lán var gefið upp af viðkomandi fjármálastofnun sem húsnæðislán eða ekki.  Í fjórða lagi, voru tölur út úr kortinu.  Mér telst til að ég hafi átt að greiða hátt í 50 m.kr. í afborganir af lánum á síðasta ári, sem er í engu samræmi við raunveruleikann.  Og í fimmta lagi, þá voru tölur um eftirstöðva lána allar mun hærri en átti að vera, þó svo að allt annað hefði verið rétt (sem var ekki).  Fyrir einhver fáránleg mistök höfðu tölur verið lagðar saman, þegar eingöngu átti að endurtaka aðra töluna.  Í það heila telst mér til að fjármálafyrirtækjunum hafi með þessu tekist að ofmeta skuldir okkar hjóna um 100-130 m.kr., ef ekki meira.  Nógar eru þær fyrir þó slembitöluframkallari sé ekki notaður til að hækka þær margfalt.

Ég setti mig í samband við Skattinn út af þessu og eftir hopp á milli starfsmanna skattsins fékk ég loks samband við manninn sem áttaði sig á því hvað var í gangi.  Ég tek fram að honum var ekki skemmt yfir þessari vitleysu, en það er mitt að leiðrétta gögnin.  (Tekið fram að ég var ekki búinn að lesa dóma Hæstaréttar.)  Það er aftur nánast ógjörningur.  Hvernig á ég að átta mig á hverjar hefðu átt að vera afborganir láns á síðasta ári, þegar lánveitandinn birtir kolvitlausar upplýsingar um höfuðstólinn.  Hann er sagður vera hátt í 50 m.kr., þegar hann er samkvæmt endurútreikningi eitthvað um 8 m.kr. auk vaxta (og verðbóta, kjósi ég þá leiðina).  Nú vilji maður leita að nánari upplýsingum um lánin á vefsvæðum fjármálafyrirtækjanna, þá grípur maður yfirleitt í tómt.  Þau eru nefnilega farin að senda upplýsingarnar beint til skattsins og þá telja þau ekki lengur nauðsynlegt að segja kúnnanum hvaða upplýsingar þau senda.  (Þetta er brot á persónuverndarlögum, ef einhver hefur áhuga.)

Jæja, eins og tíminn til að gera framtalið hafi ekki verið nógu stuttur, heldur þarf maður nú að fara í heilmikla gagnaöflun til að leiðrétta upplýsingarnar sem áttu að létta manni lífið.  Upplýsingar sem Hæstiréttur hefur komist að, að hafi átt að reikna rétt strax í júní í fyrra.  Finnst mér það helv.. hart.  Mér finnst það líka hart að svona vitleysa hafi komist í gegnum kerfið hjá Skattinum.  Villa eins og að leggja saman tölur í staðinn fyrir að taka bara aðra, á ekki að eiga sér stað.

Ég þarf að minnsta kosti ekki að óttast að fá ekki vaxtabætur 1. ágúst nk. Bara eitt lán nær í allri þessari vitleysu að vera með vaxtakostnað á síðasta ári upp á ríflega 12 m.kr.  Það er náttúrulega tær snilld að geta bætt 12 m.kr. ofan á 8 m.kr. höfuðstól.  Ég gæti skilið það, ef viðkomandi lán hefði verið í mörg ár í löginnheimtu með tilheyrandi lögfræðikostnaði, en svo er ekki.  Það einfaldlega sló eitthvað út hjá fjármálafyrirtækjunum (tvö ótengd fyrirtæki) og reiknivélarnar þeirra virka ekki rétt.  Þetta heitir afneitun og er því miður á mjög alvarlegu stigi.  Ég hef haldið því fram frá því 16/6 að fjármálafyrirtækin hafi ekki mátt halda áfram að meðhöndla lánin og innheimta eins og um gengistryggð lán væri að ræða.  Ekki í fyrsta skiptið sem Hæstiréttur staðfestir lagaskilning minn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Mér finnst þetta algjör snilld að NBI tapi málinu þegar stefndu mæta ekki einu sinni í dómshald.

Hvað varðar eftirstöðvar lánanna á skattframtali, er ekki bara málið að í stað þess að eyða tíma í gríðarlega gagnaöflun og útreikninga að gefa upp eftirstöðvar eins og þær hefðu átt að vera skv. upphaflegri greiðsluáætlun? Fjármálafyrirtækin gáfu jú hana út við samningsgerð. :-)

Erlingur Alfreð Jónsson, 15.3.2011 kl. 00:22

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þessir dómar sem lánastofnanir hafa verið að fá á sig virðast ekkert virka á þær. Þær halda áfram á sömu braut eins og ekkert hafi í skorist.

Það er eitthvað stórkostlegt að innan þessara stofnana!!

Gunnar Heiðarsson, 15.3.2011 kl. 09:45

3 identicon

Gunnar Heiðarsson segir:

"Það er eitthvað stórkostlegt að innan þessara stofnana!!"

Þetta eru nú bara fyrirsjáanlegar afleiðingar þegar það hefur alls engar afleiðingar að brjóta lögin.

Þessi fyrirtæki hafa komist upp með að bjóta nánast öll lög sem til eru um þeirra starfssemi árum saman án þess að það hafi haft nokkrar afleiðingar, þvert á móti beittu yfirvöld sér alveg sérstaklega til þess að útvega þessum glæpasamtökum skaðabætur frá viðskiptavinum sínum þegar dómstólar fóru að reyna að stöðva glæpina.

 Þetta er auðvitað alveg séríslenskt fyrirbæri að þeim brotlega séu dæmdar skaðabætur fyrir að upp komst um glæpi hans, og því ekkert óeðlilegt að hann haldi áfram að hundsa lög og dómstóla í landinu.

Hvar í vestrænu ríki annarsstaðar en á Íslandi myndi nokkur ráðherra láta sér detta það í hug að lofa þeim brotlega fyrirfram niðurstöðu í málum gegn þeim?

 Að ef Hæstiréttur kemst ekki að "réttri" niðurstöðu verði dómnum snúið með lagasetningu?

Þetta væri hvergi hægt nema hér.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 15.3.2011 kl. 14:48

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Lögmaður benti mér á, að þetta atferli fjármálafyrirtækjanna gæti varðað við 248. gr. almennra hegningalaga, en viðurlög við broti á henni getur varðað allt að 6 ára fangelsi.  Og hann hélt áfram:

Þetta er gert í skipulagðri og leyfisbundinni starfsemi, brotin beinast gegn einstaklingum og fyrirtækjum, sem eiga litla möguleika til að verja sig nema að kosta til þess stórfé. Stjórnvöld horfa aðgerðarlaus á brotin framin um hjábjartan daginn – enginn hreyfir legg né lið, enda eru þetta „bestu vinir aðal“ sem hér eru að störfum. Á sama tíma og 80 fyrirtæki voru gerð gjaldþrota í desember og 95 í janúar, segjast stjórnvöld vera að „endurreisa atvinnulífið í landinu“ bla bla bla...

Marinó G. Njálsson, 15.3.2011 kl. 15:01

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Merkilegast í þessu öllu er þögn fjölmiðlanna.  Er þeim alveg sama, en hafa þeir verið beðnir um að gefa fjármálafyrirtækjunum og stjórnvöldum grið.  Ekki einn einasti fjölmiðill (en allir vakta dóma Hæstaréttar) kveikti á dómunum frá sl. þriðjudegi.  Ekki einn einasti.  Samt er þetta ótrúlega fordæmisgefandi dómur.  Fjármálafyrirtækin hafa ekki mátt frá 16. júní í fyrra innheimta gengistryggð lán sem slík.  Samt hefur það verið gert.  Í einum banka hefur maður mátt sitja undir ámælum fyrir að hafa neitað að skrifa upp á ofurskilmála.  Sami banki hefur ítrekað sent mér tilkynningar um gjalddaga sem hafa ekki haft lagastoð og þegar ég hef mótmælt slíkum innheimtubréfum, þá hef ég bara verið stimplaður vandræðagemsi.  Nú kemur í ljós að ég hafði rétt fyrir mér allan tímann.  Ætli ég hafi líka rétt fyrir mér að Seðlabankavextirnir gilda bara frá úrskurðum Hæstaréttar 16. september sl.?

Marinó G. Njálsson, 15.3.2011 kl. 15:08

6 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ekki alveg tengt þessu, en:  Náinn fjölskyldumeðlimur fékk úrskurð frá Héraðsdómi vegna greiðsluaðlögunar.  Bankinn sendi honum leiðréttingu ásamt "leiðréttingu á dómi Héraðsdóms"  Í dag (eða gær) fékk hann svo "leiðréttan dóm" frá Héraðsdómi.  Maður spyr sig bara hvernig er þetta hægt???  Hvernig geta bankarnir leiðrétt úrskurð Héraðsdóms og Héraðsdómur bara sendir þetta stimplað til baka um að þetta sé allt í lagi?  Ráða bankarnir dómskerfinu? 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 15.3.2011 kl. 20:59

7 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Marinó,

PS:  Meðan erlendar fréttastofur taka málið ekki upp er ólíklegt að íslenskir fjölmiðlar geri mikið úr því!  GRRRR;)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 15.3.2011 kl. 21:01

8 identicon

Sýnist á öllu að ég þurfi sérfræðing með meiru til að yfirfara endurútreikning bankans svo ég geti talið rétt fram til skatts.

Veit einhver hver tekur svona að sér?

siggi (IP-tala skráð) 15.3.2011 kl. 23:23

9 identicon

Marinó, hver er afstaða þín til álits umboðsmanns skuldara frá því í dag?

"Eftir ítarlega skoðun á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er það álit umboðsmanns skuldara að aðferðafræði fjármálafyrirtækjanna við endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu sé í samræmi við gildandi lög."

Sjá http://www.ums.is/fraedsla-og-frettir/nr/302

siggi (IP-tala skráð) 15.3.2011 kl. 23:45

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Oft er það þannig að ekki er öll sagan sögð og plottið dýpra en maður ímyndar sér.  Mér er bent á, að með því að mæta ekki í réttinn, en senda inn sína greinargerð, þá hafi varnaraðili komið í veg fyrir að lögmenn NBI hf. gætu afvegaleitt málið fyrir dómi.  Málið snerist um mjög einfaldan hlut, þ.e. að krafa NBI hf. var röng, þar sem hún byggði á uppreiknuðum höfuðstól lána miðað við að gengistrygging væri enn í gildi.  Dómar Hæstaréttar frá því 16. júní 2010 kváðu úr um að slík verðtrygging ætti sér ekki stoð í lögum og þar með gæti bankinn, að mati Hæstaréttar, ekki byggt kröfu sína á slíkum útreikningum.  Engin ástæða væri til að orðlengja hlutina.

Vissulega var þetta djarfur leikur hjá varnaraðilum, en það má svo sem segja, að ekki skipti máli hvort maður er gjaldþrota vegna 100 m.kr. eða 250 m.kr. (bara tekið sem dæmi).  Rassskellurinn sem NBI hf. fékk er bankanum örugglega sár og á þeim líklegast eftir að verkja undan honum allt fram að næsta ársuppgjöri. Þá má búast við því að bæði Íslandsbanki og Arion banki þurfi að senda frá sér endurskoðuð ársuppgjör vegna 2010, þar sem ég reikna ekki með öðru en að þau sem birtust um daginn hafi haldið gengistryggingunni inni í höfuðstólum flestra sinna lána.

Siggi, varðandi skattframtalið, þá finnst mér að skattayfirvöld eigi að krefjast þess að fjármálafyrirtækin sendi inn leiðréttar tölur og veiti framteljendum því aukinn frest til að skila framtali.  Þeir bankar sem ég hef átti í samskiptum við hafa allir tekið sér meira en hálfan mánuð í að svara einföldustu fyrirspurnum um áður gengistryggð lán og ekki er hægt að búast við að almennir lántakar hafi nokkurn möguleika á að skilja hvað hefði hugsanlega átt að gjaldfalla á síðasta ári, hve vextirnir voru hátt hlutfall og hvaða tala af hverju láni telst stofn til vaxtabóta.

Varðandi álit umboðsmanns skuldara, þá vil ég benda á eftirfarandi í álitinu:

Í umsögn sinni um breytingar þær sem gerðar voru á lögunum komu fram athugasemdir umboðsmanns skuldara þar sem því var mótmælt að lögin heimiluðu hækkun eftirstöðvar höfuðstóls í kjölfar endurútreiknings sem og að skuldurum gæti verið gert að greiða bakreikning vegna efndrar skuldbindingar. Umboðsmaður skuldara lagði til að bætt yrði við frumvarpið almennri skýringarreglu þess efnis að endurútreikningur skuli aldrei leiða til viðbótarfjárútláta skuldara. Meirihluti alþingis studdi ekki þessa tillögu.

Annars vegar taldi umboðsmaður skuldara verulegar líkur á að aðferðafræðin við endurútreikning samkvæmt núgildandi lögum samræmist ekki Evróputilskipunum um neytendavernd.

Hins vegar taldi umboðsmaður skuldara að hækkun höfuðstóls og bakreikningar í kjölfar endurútreiknings feli í sér skerðingu eignarréttar og að hugsanlega felist í lögunum ólögmæt eignaupptaka.

Ég fæ ekki betur séð en að umboðsmaður telji lögin brjóta á neytendum.

Marinó G. Njálsson, 16.3.2011 kl. 00:02

11 identicon

Það er ekki rétt að fjölmiðlar hafi ekki fjallað um þetta mál. Björn Þorri Viktorsson var í viðtali við Útvarp sögu í vikunni eins og hér má sjá:

http://utvarpsaga.is/index.php?option=com_content&view=article&id=3017:milljarea-hoegg-fyrir-landsbankann&Itemid=32

Aðrir fjölmiðlar hafa ekki tekið málið upp einhverra hluta vegna.

Hólmfrídur (IP-tala skráð) 16.3.2011 kl. 15:13

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér þykir leitt að hafa misst af Útvarpi Sögu.  Ég miða við að umfjöllunin komist að í fréttatíma fjölmiðils, þegar ég vísa til þess að ekki hafi verið fjallað um þetta mál.

Annars finnst mér andvaraleysi fjölmiðla vera að færast yfir á nýtt stig.  Annað hvort hafa stjórnvöld gert einhvern samning við þá um að fjalla ekki lengur um þessi mál eða þeir hafa tekið það upp hjá sjálfum sér að fjalla ekki um mál sem snerta stóran hluta þjóðarinnar verulega.

Marinó G. Njálsson, 16.3.2011 kl. 15:25

13 Smámynd: Guðmundur K Zophoníasson

Þegar hæstaréttardómarnir um gengislán (annar um fyrirtækjalán og hinn um húsnæðislán) féllu þann 14. febrúar 2011, þá kom ekki orð um þá í Ríkissjónvarpinu.

Þegar ég skrifaði RÚV 16. febr. og benti þeim á að þetta væri ein allra stærsta frétt ársins sem snerti þúsundir fyrirtækja (500 bara hjá Frjálsa fjárfestingabankanum), þá var mér ekki svarað. 

 Ég held að þetta hafi verið dæmi hlutdrægni í fréttamennsku.

Guðmundur K Zophoníasson, 16.3.2011 kl. 18:20

14 Smámynd: Guðmundur K Zophoníasson

Þegar hæstaréttardómarnir um gengislán (annar um fyrirtækjalán og hinn um húsnæðislán) féllu þann 14. febrúar 2011, þá kom ekki orð um þá í Ríkissjónvarpinu.

Þegar ég skrifaði RÚV 16. febr. og benti þeim á að þetta væri ein allra stærsta frétt ársins sem snerti þúsundir fyrirtækja (500 bara hjá Frjálsa fjárfestingabankanum), þá var mér ekki svarað. 

 Ég held að þetta hafi verið dæmi um hlutdrægni í fréttamennsku.

Guðmundur K Zophoníasson, 16.3.2011 kl. 18:25

15 identicon

Sæll.  Afsakið að ég skuli snúa svona út úr umræðunni.  En hefur einhver frétt eitthvað af fjármögnunarleigusamningum, er í rekstri persónulega og er með slíkan samning er eitthvað að skírast með það.  Og er einhver umræða hvernig á að taka á slíku.

kveðja 

Sturla Þ. (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 22:27

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sturla, mér vitanlega er ekkert nýtt að frétta, en Hæstiréttur dæmdi að slíkir samningar væru lánasamningar, ef leigutaki eignaðist hinn leigða hlut í lok lánstímans.  Ég get ekki séð að það skipti máli hvort um er að ræða einstakling eða fyrirtæki.

Marinó G. Njálsson, 17.3.2011 kl. 22:55

17 identicon

Sæll Aftur.  Hvaða dómur var það? Því það eyna sem ég fæ að vita að það sé ekki búið að dæma í þessum málum. og að þeirra lögfræðiálit segi að þessir samningar séu löglegir.  Einnig segir á einum samning að (Lánþegi skuldbindi sig til að kaupa við lok samnings).  Svo rukka þeir extra gjald fyrir Lán á vsk en vilja svo meina að um leigu sé að ræða.   Vildi svo þakka þer fyrir gott starf.

kveðja Sturla 

Sturla (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 23:08

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sturla

Í málunum 8/3/2011 þá heimfærir Hæstiréttur dóma um bílalán einstaklinga frá 16/6/2010 á lán fyrirtækja.  Rétturinn segir að gengistryggingin sé jafn ólögleg á lánum fyrirtækja og einstaklinga.  A.m.k. annað málið frá 16/6/2010 var "leigusamningur" og Hæstiréttur sagði þann samning vera lánasamning, þar sem "leigutaki" skuldbatt sig til að kaupa hinn "leigða" bíl í lok "leigutímans".  Mér sýnist þú vera með slíkt ákvæði í þeim samningi sem þú vísar til.

Séu þeir að láta þig greiða vsk á leiguna, þá er þetta farið að verða snúið.  Mér finnst rétt að þú snúir þér til lögfræðings með þetta mál.

Marinó G. Njálsson, 17.3.2011 kl. 23:18

19 identicon

Hefur það ekki tíðkast að það sé rukkaður vsk á fjármögnunarleigusam.  Maður hefur imprað á þessu við lögfr. en það verður fátt um svör og menn tala um að það séu slík mál í gangi en ekkert þeirra hefur verið klárað svo ég viti.  Þegar lánið var tekið var spurt hvort það ætti að vsk meðhöndla, það ef já og vsk lánaður þá hét það fjarmögnunarleiga ef nei þá var það kaupleiga en það var sett í samninginn að það væri lánað fyrir vsk, eða var á fylgiskjölum, greiðsluáætlunum og rukkað sérstakt gjald fyrir.   Ertu með góðan lögfræðing á meðmælendastikunni.  

Sturla 

Sturla (IP-tala skráð) 17.3.2011 kl. 23:36

20 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég hef tvisvar verið með bíl á rekstrarleigu og í bæði skiptin var rukkaður virðisaukaskattur af hverri mánaðarlegri greiðslu.  Ég veit ekki hver munurinn er á þínum samningi og mínum, þannig að ég veit ekki hvers vegna ætti ekki að rukka vsk af þínum, en það var hárrétt framkvæmd að gera það af mínum.  Annar var frá 2001 - 2004 og hinn frá 2004 - 2007.

Marinó G. Njálsson, 18.3.2011 kl. 08:33

21 identicon

Sæll aftur.

Rekstrarleiga þá skilar maður inn bílnum eftir umsaminn tíma til umboðs (var þannig í minu tilviki 2003-6). En þá var tekin ákvörðun um að fá annan bíl en til eignar, var billinn skoðaður og kaupin fóru fram (Hélt ég) þá voru mér boðnir tveir möguleikar að borga út vsk og ákveðin hlut bilverðsins og fá afganginn lánaðan (kaupleiga).  Eða borga út hluta bilsins og fá vsk lánaðan sem síðan myndi leggjast við greiðsluna um hvern mánuð og var greitt ákveðið gjald fyrir, í lok samnings átti að greiða eina lokagreiðslu og billinn minn (bindandi).  Spurningin sem ég átti að spyrja mig var hvort ég gæti lagt út fyrir vaskinum er kaupin voru gerð og réð svar þeirrar spurningar hvor leiðin væri farin.  Eini munurinn var eins og þessi ágæti ráðgjafi sagði var (átti að vsk meðhöndla lánið) og þá varð úr í þessu tilviki hjá mér að fá fjármögnunarleigu.  Einhverskonar sambland af kaupleigu/Rekstrarleigu. Það var allt við þessi kaup eins og við kaupleigu Bílasamning ,höfuðstól, lokagreiðsla allt eins nema vsk var greiddur sem viðbót á hvern gjalddaga líkt og með Rekstrarleigu.  Síðan spyr ég er þetta lán eða leiga. Tek það fram er frekar illa að mér í lögum um lán, leigur eða skattalöggjöfina.

Kv. Sturla   

Sturla (IP-tala skráð) 18.3.2011 kl. 16:18

22 identicon

Góða kvöldið

Góð umræða hér að ofan, langar aðeins að bæta við.

Var á netflakki og rakst á þessa síðu um hvernig Arion banki er að endurreikna ólöglega gengistryggð lán hjá sér -> http://www.arionbanki.is/?PageID=6268

Fór þá að bera aðferð Arion við þá sem Lýsing beitti á bílasamninginn minn.

Hjá Arion eru þeir að vaxtareikna höfuðstól til viðmiðunardags og draga svo frá vaxtareiknaðar greiðslur á viðmiðunardegi en aðalatriðið er að þeir eru að leggja vextina við á 12 mánaða fresti og vísa í vaxtalögin "Óheimilt er að bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001."

Hjá Lýsingu þá eru þeir að annað hvort (hef séð endurútreikning á kaupleigusamningi líka)að setja mismun á nýjum vöxtum + afborgun og greiðslu á vaxtareiknaðan veltureikning eða draga reiknaða vexti frá greiðslu og leggja við/draga frá rest við/frá höfuðstól.

Sé hugsun sett í þetta þá sést að endurútreikningurinn á bílasamningnum mínum hefði verið hagstæðari ef Arion hefði framkvæmt endurútreikninginn en ekki Lýsing. Helgast það af því að Lýsing er að reikna sér hraðar til vaxtavexti en Arion banki sem reiknar sér til vaxtavexti á 12 mánaða fresti.

Svo er það aðalmálið, ef Arion er að reikna þetta rétt og löglega samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 eins þeir vísa til á heimasíðu sinni. Er þá Lýsing að brjóta lög aftur og í þetta skiptið með endurútreikningnum?

Kv. LHG

LHG (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 22:17

23 identicon

Frábær og verulega fróðleg grein.  Takk fyrir.

Hreinlega óhuggulegt að hvorki stjórnmálamenn, eftirlitsaðilar og fjölmiðlar hafi áhuga á þessum málum.

Ég held því miður að blaða- og fréttamannastéttin sé upp til hópa samsett af frekar áhugalausu fólki (lesist vitlausu), sem finnst skipta mestu hvort bBritney Spears sé í nærbrókum þennan daginn eða ekki.  Flóknari mál henta fæstum þeirra. Yfirborðsklór á helstu fréttum er það mesta sem þessi stétt ræður við - því miður.  Legg til að einhver taki sig til og sendi helstu erlendu fjölmiðlunum hvernig er verið að brjóta á almenningi hér á landi, nb., MEÐ samþykki Alþingis að því virðist vera. 

MargrétJ (IP-tala skráð) 26.3.2011 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1680033

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband