Leita í fréttum mbl.is

Ef við tökum Björgólf út úr jöfnunni, þá er Ísland í lagi - Hvern er verið að blekkja?

Seðlabanki Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að með því að taka tvö af fyrirtækjum Björgólfs Thors Björgólfssonar út úr mælingum á hagstærðum (þ.e. Actavis og Landsbanka Íslands), þá er staða Íslands bara fín.  Þetta kemur m.a. fram í skýrslu Seðlabankans um skuldastöðu þjóðarbúsins, sem kom út í gær.  Greining Arion banka fjallar um þetta í Morgunpunktum sínum.

Þetta er merkileg aðferð hjá SÍ til að koma stöðu þjóðarbúsins á réttan kjöl.  Ég skil bara ekkert í þeim að hafa ekki fattað þetta fyrr.  T.d. væri hægt að flytja Landsvirkjun úr landi og þá hyrfi góður hluti af skuldum þjóðarbúsins, látum Orkuveitu Reykjavíkur fljóta með og sjávarútveginn og þá værum við bara skuldlaus við útlönd fyrir utan skuldir ríkisins.

Þessi talnaleikfimi SÍ er að mínu mati ekki sniðug.  Við reiknum okkur ekki úr mínus í plús.  Actavis er starfandi á Íslandi og hefur mér vitanlega ekki verið afskráð sem íslenskt félag.  Skuldir þess eru því íslenskar, þar til það gerist að það verður hlutdeildarfélag í Deutshe Bank sem er ekki orðið.

En skoðum það sem visir.is hefur upp úr Morgunpunktum Greiningar Arion banka:

Án banka í slitameðferð var viðskiptajöfnuður neikvæður um 3,7% af VLF árið 2010.

Þegar búið er að gera ráð fyrir hlut erlendra kröfuhafa í gömlu bönkunum var viðskiptajöfnuðurinn hinsvegar jákvæður um 6,4% af VLF.

Þegar ennfremur er búið að taka Actavis út úr sviðsmyndinni er viðskiptaafgangurinn hvorki meira né minna en 13% af VLF sem gera um 200 milljarða kr. á ári

Ef matið í skýrslunni stenst er ljóst að afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum mun duga til að standa undir vaxta- og arðgreiðslum til erlendra aðila ásamt því að töluvert svigrúm verður til að greiða niður skuldir þjóðarbúsins.

Mér finnst þessar ályktanir Greiningar Arion banka stórhættulegar og jafnvel að eitthvað vanti upp á að menn hafi lesið skýrslu SÍ.  Þó svo að bankar í slitameðferð og hlutur erlendra kröfuhafa í gömlu bönkunum sé tekin út úr jöfnunni, þá þarf á einhverjum tíma að færa þessar eignir úr landi.  Í skýrslunni kemur t.d. fram í töflu III-2 á bls. 17 að innlendar eignir föllnu bankanna 30. júní 2010 hafi numið 1.110 milljörðum kr.  Þessa peninga þarf að flytja úr landi á einhverjum tíma til að gera upp við erlenda kröfuhafa.  Af þessum 1.110 milljörðum kr. eru 275 milljarðar kr. í innstæðum í erlendum gjaldeyri, en annað er eignir í íslenskum krónum.  Í heildina er þessi tala 5,5 sinnum útreiknaður jákvæður viðskiptajöfnuður, en fyrir utan innstæður í erlendum gjaldeyri er talan ríflega 4-faldur útreiknaður jákvæður viðskiptajöfnuður.  (Raunar tel ég að innstæður í erlendum gjaldeyri séu ekki varðveittar í erlendum gjaldeyri, heldur bara sem rafræn færsla, þannig að útvega þarf 1.110 milljarða í erlendum gjaldeyri.)  Að reikna þessa 1.110 milljarða út úr gjaldeyrisþörf er að mínu einstaklega barnaleg tilraun til blekkingar.

Icesave er ábyrgð Alþingis er ekki inni í þessari tölu SÍ.  Enginn veit hve há hún verður.  Gerum ráð fyrir að hún verði 200 milljarðar, þá vantar sem sagt 1.310 milljarða við útflæði gjaldeyris frá landinu.  Þessi tala er um 87% af vergri landsframleiðslu!

Ég tel það vera ákaflega blekkjandi að nota hreinar þjóðarskuldir sem viðmið um getu þjóðarbúsins til ráða við eftirspurn eftir gjaldeyri. Svo er bara alls ekki.  Viðskiptajöfnuður er líka villandi viðmiðun, þar sem hluti hans er ekki hreint innstreymi gjaldeyris.  Hækkun á verð erlendra eigna þjóðarbúsins veldur t.d. hækkun á viðskiptajöfnuði, en enginn gjaldeyrir kemur inn í landið.  Þó svo að lífeyrissjóðirnir, svo dæmi sé tekið, selji erlendar eignir með hagnaði, þá er ekkert sem segir að þeir muni flytja gjaldeyrinn til landsins.  Eina viðmiðið sem hér er marktækt er hreint innflæði gjaldeyris vegna vöru- og þjónustuliða og hvort það sé nægjanlegt til að standa undir hreinu útstreymi gjaldeyris vegna annarra þátta.  Ég þigg öll rök sem mæla til annars.


mbl.is Umtalsvert svigrúm til gjaldeyriskaupa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála Marinó. Það er ekki ný sannindi að það er hægt að reikna sig í bullandi hagnað í Excel en þegar kemur að raunveruleikanum þá er hann allt annar.

SÍ hefur fyrirgert því trausti sem áður ríkti t.d. með yfirlýsingum Seðlabankastjóra um að þeir hafi gefið út útþynntar spár í pólitískum tilgangi.

Jafnframt verður að gera þá kröfu að greiningardeildir bankanna (lesið sölu og markaðsdeildir) sýni faglegri vinnubrögð ef þeir ætlast til að fólk taki mark á þeim.

Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 17:35

2 identicon

Góð og skilmerkileg úttekt Marínó, á skýrslu frá Seðlabanka sem hefur fullkomlega glatað trúverðugleika sínum og stundar nú talnaleikfimi til að þóknast pólitískum stjórnendum.

Sama má segja um greiningardeildir bankana sem með kolröngum spám um þróun hagmála/peningamála voru sem olía á hrunbálið. Ég minnist viðtals við einn þeirra úr ónefndum banka sem fullyrti að Landsbankinn ætti nægar eignir í Bretlandi til að greiða tvisvar sinnum Icesave.

Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 18.2.2011 kl. 00:57

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Góðir punktar.

Ekki veit ég hvað er verið að kenna í hagfræði- og viðskiptafræðinámi í háskólum í dag, en margir sem útskrifast úr slíku námi virðast vera ótrúlega góðir í að "nudda" tölur til svo þær gefi fyrirfram ákveðna niðurstöðu til kynna.

Dæmi: Í Bandaríkjunum talar seðlabankinn um svokallaða "core inflation", sem er verðlagsvísitala ÁN eldsneytis og matarkostnaðar. Þeir tala um að þessi "core inflation" sé mjög lítil og raunar í sögulegu lágmarki. Þess vegna þurfi ekkert aðhalda í peningamálastefnuna og hægt að prenta fleiri milljarða dollara til að fjármagna hallarekstur ríkisins.

Á meðan rýkur matvæla- og eldsneytisverð upp, að hluta til því fjárfestar eru að forða nýprentuðum dollurum úr fallandi kaupmætti og inn í seljanlegan neysluvarning. 

Geir Ágústsson, 18.2.2011 kl. 10:56

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Marinó, staða mín er líka nokkuð góð ef ég tek húsnæðislánið út, eða ef ég tek orkureikninginn burtu.

Svona málfluttningur er náttúrulega hlæilegur, en þegar hann kemur frá seðlabanka einhverrar þjóðar, er hann sorglegur.

Því miður er það okkar seðlabanki sem fer fam með slíkan málfluttning. Það liggur við að maður sé farinn að skammast sín fyrir þjóðerni sitt, aldrei hélt ég þó að sú stund kæmi!

Gunnar Heiðarsson, 18.2.2011 kl. 14:38

5 identicon

Segið mér, er ekki allt þetta fólk í seðlabankanum háskólamenntað og með milljónir í laun fyrir sína þekkingu ?

Hvað segir það ykkur ?

Þurfum við ekki að fá fólk sem kann eitthvað, og er ekki útskrifað úr íslenskum háskólum því það kann ekkert eða er bar fyrir  ???

JR (IP-tala skráð) 19.2.2011 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband