25.1.2011 | 13:56
Hálf öld að baki - Ferðalag frá fiskveiði þjóð til tæknivædds samfélags
Já, það var 25. janúar 1961 að ég kom í heiminn. Hálf öld er liðin og fátt líkt með þessum tveimur tímum. Eitt virðist vera við það sama, ég er einhvern veginn alltaf á undan tímanum. Ég átti nefnilega ekki að fæðst fyrr en þremur vikum síðar. Mamma segir að þetta hafi verið í eina skiptið sem ég hafi flýtt mér alla mína æsku
Ég hef svo sem ekki afrekað neitt stórkostlegt á þessum 50 árum fyrir utan börnin mín. Oftar en ekki endað uppi með silfurverðlaun, nema að ég varð haustmeistari með KR í 4. fl. karla árið 1973, b-lið. Ég á silfurverðlaun frá Íslandsmóti 2. fl. karla 1978 eða 1979, en það var eins og að verða meistari. Við Gróttustrákar eiginlega töpuðum titlinum frekar en að Víkingur hafi unnið hann, en mótherjarnir voru svo sem ekkert slor. Liðin sem við spiluðum gegn samanstóðu af fyrstu "strákunum okkar", þ.e. liðið sem vann B-keppnina í Frakklandi 1989, Kristján Arason, Siggi Gunn, Palli Ólafs, Hansi Guðmunds, Þorgils Óttar og svo þjálfaði Bogdan Víkingana.
Leið mín lá menntaveginn, Mýró, Való, MR, HÍ og Stanford, síðan KHÍ og loks Leiðsöguskólinn sem var líklegast skemmtilegasta námið. Fyrirtækin sem ég hef unnið hjá eru flest ekki til í þáverandi mynd, þ.e. Prjónastofan Iðunn, Skipadeild Sambandsins, Tölvutækin Hans Petersen, Iðnskólinn í Reykjavík, deCODE, VKS og síðan eigin rekstur Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta. Iðunn er farin og sama á við um Tölvutækni, skipadeildin heitir Samskip, Iðnskólinn er núna Tækniskólinn og VKS varð hluti af Kögun sem núna heitir Skýrr.
Þegar ég fæddist var vinstri umferð, ekki var hægt að aka hringinn, ekið var yfir fjallvegi til Siglufjarðar, Ólafsfjarðar, Norðfjarðar, Ísafjarðar og Súgandafjarðar. Vestfirðir einangruðust hálft árið og bundið slitlag var ekki til utan þéttbýlis. Leiðin til útlanda lá eftir hlykkjóttum vegi um Vatnsleysuströnd og farið var fram hjá hermönnum til að komast út á flugvöll. Nema að maður færi með Gullfossi með viðkomu í Edinborg á leið til Kaupmannahafnar, eins og fjölskyldan gerði 1967. Þotur voru ekki til hér á landi og heldur ekki tölvur. Sveitasíminn var Facebook þess tíma, þ.e. ef maður vildi að öll sveitin vissi eitthvað, þá talaði maður um þau efni í símann (eins og fólk notar Facebook í dag). Svo má náttúrulega ekki gleyma því að ég er eldri en Surtsey!
Ferð í Fjörðinn var heilmikið ævintýri enda farið yfir Kópavogsháls, Arnarnesháls og framhjá öllum óbyggðasvæðunum sem þarna voru. Á Íslandi bjuggu um 177.000 manns, á Seltjarnarnesi bjuggu rúmlega 1.300 manns, 6.213 í Kópavogi og Akureyri var næst stærsti bær landsins með 8.835 íbúa. Vestfirðir voru ennþá fleiri en Austfirðingar, íbúar Norðurlands Vestra og þar bjuggu líka fleiri en í næst stærsta bæjarfélaginu. Reykvíkingar ríflega 72.000. Hafnarfjarðarstrætó hökti leið sína og ef maður var heppinn, þá bilaði hann ekki áður en komið var á leiðarenda. Bara þeir allra frökkustu fóru upp að Elliðavatni og þá þótti við hæfi að gista í sumarbústað við vatnið. Það var góður dagsspölur að fara á Þingvöll og til baka. Lagt snemma af stað og komið, þegar kvöld var komið, til baka. Stórvirkjanir landsins voru Steingrímsstöð, Ljósafoss og Írafoss.
Áburðaverksmiðjan og Sementsverksmiðjan voru liggur við einu framleiðslufyrirtæki landsins sem ekki voru í eigu Sambandsins enda var ekkert álver í Straumsvík. En það gerðist margt á fyrstu 10 árum ævi minnar. Þjóðfélagið tók stakkaskiptum.
Fyrsta tölvan kom til landsins 1964 frekar en 1965, Búrfellsvirkjun reis og líka álver kennt við Ísal. Keflavíkurvegur var lagður og helstu leiðir út úr Reykjavík voru bættar. Strákagöng og Ólafsfjarðargöng voru grafin og sprengd og þar með var vetrareinangrun Siglufjarðar og Ólafsfjarðar rofin. Fyrstu stóru viðburðirnir voru þó Öskjugos, Surtseyjargosið og morðið á Kennedy. Jú, Bítlarnir komu fram á sjónarsviðið. 1966, nánar tiltekið 30. september, hófust útsendingar sjónvarpsins. Þær voru í svart-hvítu og til að byrja með tvisvar í viku. Handboltinn var spilaður í Hálogalandi, en þó eignuðumst við stjörnur á heimsmælikvarða. Jón Hjaltalín Magnússon fór meira að segja til Svíþjóðar að spila með Drott. Laugardagshöllin var tekin í notkun 1967 sama ár og Danir niðurlægðu fótboltalandsliðið 14-2. Ári síðar komu yfir 20.000 manns til að sjá Benfica spila við Val. Þetta eru einu tvö metin sem ennþá standa. KR vann sinn síðasta Íslandsmeistaratitil í yfir 30 ár um líkt leiti og síldin hvarf.
Ég var orðinn 10 ára, þegar aðrir en Sjálfsstæðisflokkur og Alþýðuflokkur komust til valda og um líkt leiti gengum við í EFTA. Nixon og Pompidou heimsóttu Ísland og Fisher og Spassky háðu einvígi aldarinnar. Tveimur dögum fyrir 12 ára afmælið hófst gos í Heimaey. Ásgeir Sigurvinsson varð atvinnumaður í knattspyrnu. Efnahagur þjóðarinnar hrundi og meðalverðbólga var 40% á ári eða svo. Fermingarpeningar brunnu upp og það gerðu líka húsnæðislán og eignir lífeyrissjóðanna. Hafi sjöundi áratugurinn verið áratugur pólitísks stöðugleika, þá var sá áttundi allt annað. Einu tölvurnar sem voru til á landinu voru í sérstökum reiknistofnunum eða skýrsluvélum og komu ýmist frá International Business Machines eða Digital Equipment Corporation. Við háðum þorskastríð við Breta og Þjóðverja, þegar við færðum landhelgina út í fyrst 50 mílur og síðan 200 mílur. Lærðum að veiða loðnu og skutum ennþá hval. Ísbjörn heimsótti Grímseyinga og ekki má gleyma að Hekla tók upp nýtt munstur, gos á 10 ára fresti. Loksins gátum við keyrt hringinn og nýr vegur kom niður Kambana og upp í Kjós meðan Sléttubúar máttu ennþá aka troðninga til að komast inn á Kópasker. Hræðilegustu lög lýðveldisins voru sett, þegar verðtrygging var leyfð.
Níundi áratugurinn rústaði efnahag heimilanna, enda ruku verðtryggðar skuldir upp úr öllu valdi. Kvótakerfið var tekið upp um líkt leiti og verðbólgan toppaði í 134%. Fjármagnseigendur og kvótaeigendur mæra hlutinn sinn, meðan við hásetarnir hörmum okkar. Jörð skalf og gaus fyrir norðan í einum mestu náttúruhamförum síðari tíma, enda gliðnaði landið um allt að 8 metra! RÚV missti einkaleyfi á rekstri ljósvakamiðla. Reagan og Grobasov heimsóttu Höfða og bundu enda á Kaldastríðið. Kommúnisminn féll í Evrópu. Einmenningstölvur flæddu inn í landið og tölvusamskipti urðu að veruleika. Upplýsingaöldin gekk í garð.
Er Ísland betra í dag en á þessum tíma? Eru vandamálin okkar stærri eða flóknari? Ég veit það ekki, en hitt veit ég að samfélagið er sífellt að verða flóknara og hættulegra. Á mínum yngri árum var framið morð á nokkurra ára fresti, núna eru þau mörg á ári. Fyrirgreiðslupólitík var landlæg, en það var visst siðgæði í vitleysunni. Fólk gat skilið húsin sín eftir ólæst um nætur og lykla í bílum. Kerrum var ekki stolið, þó hæg væru heimatökin. Þetta var tími sakleysisins, nokkuð sem við höfum glatað og kemur ekki aftur.
Það hafa verið forréttindi að lifa þennan tíma, þegar Ísland breyttist úr fiskveiðiþjóð í tæknivætt þjónustu samfélag. Að fá að taka þátt í þróuninni og byltingunni. Margt tókst vel og annað fór úrskeiðis. Hagstjórnarmistökin hafa verið fleiri en tölu verður á komið og þau hafa versnað eftir því sem á ævina hefur liðið. En við höfum öll tækifæri til að gera gott úr ástandinu, ef við bökkum aðeins og horfum til fortíðarinnar. Þetta þjóðfélag varð ekki það sem það er vegna eiginhagsmunagæslu og græðgi, þó svo að vandamál dagsins í dag séu vegna þess.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Innilegar hamingjuóskir með daginn Marinó.
Þessi dagur á sér einnig sérstakan sess í hugum okkar Ísfirðinga, bæði heimamönnum og brottfluttum. Í dag er nefnilega fyrsti dagurinn sem sólin skín í Sólgötunni á Ísafirði. Það eru vafalaust bakaðar sólarpönnukökur á flestum heimilum á Ísafirði í dag.
Sigríður Jósefsdóttir, 25.1.2011 kl. 15:07
Góð afmælisgrein - hamingjuóskir með daginn
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.1.2011 kl. 16:20
Góður og aftur til hamingju með daginn.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 25.1.2011 kl. 20:42
Til hamingju með daginn Marinó.
Gunnar Heiðarsson, 25.1.2011 kl. 21:33
Ágæti bloggfélagi. Innilegar hamingjuóskir með daginn. Þetta er skemmtileg upprifjun hjá þér og sannarlega satt og rétt sem þú segir. Margt hefur tekist vel og annað miður en framtíðarsýnin er góð og það er fyrir mestu. Gangi þér allt í haginn um ókomna tíð. kveðja Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 25.1.2011 kl. 21:59
Heill og sæll Marinó - og aðrir gestir, hér á síðu hans !
Til hamingju; og vlkominn, á sextugs aldurinn, baráttu jaxl, knái.
Betur; myndi Íslendingum farnast, með fiskveiðar og vinnzlu - í forgrunni; en menntunar dýrkun og glerhýsi, suður við Borgartún í Reykjavík, Marinó minn.
Ég; þremur árum eldri en þú, man nefnilega eftir kyrrlæti og skrum leysi 7. áratugarins, í þjóðlífinu, auk;; hóflegra framfara, á ýmsum sviðum.
Með; hinum beztu árnaðar kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.1.2011 kl. 22:50
Til hamingju með daginn.
Skemmtileg ferð um slóða endurminningana.
Sjálfur á ég enn tvo í fimmtugt og kannast því við margt af því sem þú nefnir þó mest af mínu uppeldi hafi farið fram nokkurn veginn til skiptis hjá Pósti og Síma og til sjós.
Ég tek undir með þér, við höfum öll tækifæri til að gera betur ef við berum gæfu til að læra af fortíðinni.
Þakka þér fyrir góða pistla gegnum tíðina
Hjalti T
Hjalti Tómasson, 25.1.2011 kl. 23:11
Sæll Marinó og til hamingju með áfangann!
Við erum fæddir sama árið, en ég ekki fyrr en í desember svo ég á svolítið í land;) Okkar kynslóð hefur horft á óhemju breytingar. Ég ólst upp við olíulampa og olíukyndingu, rafmagnið kom ekki í sveitina fyrr en ég var 9 ára eða svo - á svipuðum aldri og dóttir mín. Þegar ég var að alast upp voru skrifuð bréf sem fóru í umslag og samskipti við útlönd voru fjarlæg - núna rek ég fyrirtæki með viðskiptavini í um 50 löndum út um allan heim! Á Reyðarfirði var hvergi bundið slitlag á götum, það kom ekki fyrr en einhverntíma um 1975 eða svo - allt malarvegir og götur, sem gátu verið ófærar bílum svo dögum, jafnvel vikum skipti á vetrum. Man eftir ferð með hálfbróður mínum á Neskaupstað, sennilega veturinn 1974 og þá voru 18 metra djúp snjógöng sunnan megin í Oddskarðinu!
Það er gaman að horfa til baka og sjá allar þær miklu breytingar sem orðið hafa. Sumar ekki til góðs, en aðrar til mikilla framfara. Vonandi sjáum við fleiri sport til framfara en ekki á næstu áratugum:) Þakka alla góðu pistlana hjá þér og óska þér aftur til hamingju með daginn!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 26.1.2011 kl. 03:35
Sæll Marinó. Til hamingju með daginn og ekki síður áfangann. Það er einmitt þessi skil í lífinu þar sem viskan flæðir yfir menn .
Sigurður Þorsteinsson, 26.1.2011 kl. 09:43
,,Níundi áratugurinn rústaði efnahag heimilanna, enda ruku verðtryggðar skuldir upp úr öllu valdi. Kvótakerfið var tekið upp um líkt leiti og verðbólgan toppaði í 134%. Fjármagnseigendur og kvótaeigendur mæra hlutinn sinn, meðan við hásetarnir hörmum okkar."
Ansi vel að orði komist hjá þér eins og oft áður. Heill þér fimmtugum kæri baráttufélagi.
Þórður Björn Sigurðsson, 30.1.2011 kl. 03:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.