Leita í fréttum mbl.is

Önnur uppreisn héraðsdóms - Ætli Hæstiréttur leiðrétti þetta?

Föstudaginn 12. febrúar 2010 gerðist héraðsdómari svo djarfur að dæma fjármálafyrirtæki í óhag og óbreyttum almúganum í hag.  Þessi dagur er í minnum hafður, þar sem í fyrsta skipti frá hruni eygði almenningur eitthvert réttlæti.  Rúmlega 7 mánuðum síðar var Hæstiréttur búinn að rústa þeirri von.  Nei, fjármálafyrirtækin skyldu fá sitt, þrátt fyrir að þau hefðu fótumtroðið landslög og í leiðinni lagt hagkerfið í rúst.

Aftur eru kominn föstudagur, núna 21. janúar 2011, og aftur gerist héraðsdómari svo djarfur að dæma ótýndum almúganum í hag.  Það vill svo til, að ég fjallaði um ekki ósvipað mál í færslu hér í fyrradag.  Þetta snýst um lygarnar og blekkingarnar sem hafðar voru uppi í tengslum við stofnfjáraukningu hjá nokkrum sparisjóðum (sjá dóm í máli E-2770/2010).  Nú hefur héraðsdómari komist að sömu niðurstöðu og ég hafði komist að, þ.e. beitt var blekkingum til að fá fólk til að skrifa upp á lán með meiri ábyrgðum en til stóð eða eins og segir í dómnum:

Samkvæmt framansögðu þykir í ljós leitt að stefndi hafi vegna villandi ráðgjafar samþykkt lántökuna á þeirri röngu forsendu að áhætta hans takmarkaðist við hin veðsettu stofnfjárbréf. Þá verður að telja að Glitnir banki hafi sýnt af sér alvarlegt skeytingarleysi um hagsmuni stefnda, sem hafði ekki mikla þekkingu á verðbréfaviðskiptum, með því að upplýsa hann ekki um þá áhættu sem fólst í að taka lán til kaupa á svo miklu magni stofnfjárbréfa sem raun ber vitni. Í ljósi aðstæðna stefnda og þeirrar villu sem hann var í um eðli skuldbindingarinnar þykir óvíst að hann hefði tekið lánið ef honum hefði verið veitt rétt ráðgjöf sem hefði skýrt hvaða afleiðingar það hefði ef forsendur um rekstur sparisjóðsins og væntar arðgreiðslur gengju ekki eftir og honum bent á hvaða aðra valkosti hann hefði.

Og síðar segir:

Það er óumdeilt að stefndi getur borið fyrir sig að ósanngjarnt sé að byggja á umræddum lánssamningi, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, þó að krafa samkvæmt samningnum hafi verið framseld frá Glitni banka til stefnanda. Þegar litið er til framangreindra atriða, er lúta að atvikum við samningsgerðina og stöðu aðila, efni lánssamningsins og atvika sem síðar komu til, er það niðurstaða dómsins að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera lánssamninginn fyrir sig að því leyti sem hann felur í sér rétt til að leita fullnustu á greiðsluskyldu stefnda í öðru en hinum veðsettu stofnfjárbréfum og arði af þeim. Því er rétt að breyta efni hans þannig að stefnanda sé einungis unnt að leita fullnustu í stofnfjárbréfunum og arði af þeim. Þar sem krafa stefnanda beinist að því að fá aðfararhæfan dóm um skyldu stefnda til greiðslu eftirstöðva lánsins verður hann sýknaður af kröfum stefnanda. 

Ég er með nákvæmlega eins mál á borðinu hjá mér.  þar var stofnfjáreigendum í Sparisjóði Svarfsdæla boðin lán vegna stofnfjáraukningar.  Í öllum undanfara lántökunnar átti eingöngu að tryggja lánið með veði í bréfunum sjálfum.  Svo kom að síðasta fundi og undirskrift og þá var búið að lauma inn sjálfskuldarábyrgð.  Nú vona ég innilega að Saga Capital alias Saga fjárfestingarbanki taki tillit til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur og hætti innheimtu á umræddum lánum, þar sem hún stangast á við 36. gr. laga nr. 7/1936.

Þetta mál fer örugglega fyrir Hæstarétt.  Rétturinn hefur því miður ekki haft miklar áhyggjur af samningarétti og neytendarétti, þegar almúginn hefur leitað réttlætis gagnvart svikum, lögbrotum og prettum fjármálafyrirtækjanna sem settu Ísland á hausinn.   Hér gefst honum tækifæri til að reka af sér það slyðruorð að hann sé handbendi fjármagnsins.  Vona ég innilega að hann grípi það.


mbl.is Stofnfjáreigendur sýknaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Menn eru farnir að velta því fyrir sér hvort dómurinn sé fordæmisgefandi.  Nú er skynsamlegt að ganga hægt um gleðinnar dyr, þar sem héraðsdómar geta bara haft takmarkað fordæmisgildi.  Meira að segja sumir dómar Hæstaréttar hafa takmarkað fordæmisgildi, þ.e. þegar eingöngu þrír dómarar skipa réttinn.

Marinó G. Njálsson, 21.1.2011 kl. 17:12

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þetta mál ætti að gefa þeim hunruðum fjölskyldna sem plötuð voru með sama hætti um allt land einhverja von. Fólkið var einfaldlega vélað með sviksamlegum hætti til að taka þátt í þessu.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 21.1.2011 kl. 17:46

3 identicon

"Þetta mál fer örugglega fyrir Hæstarétt. Rétturinn hefur því miður ekki haft miklar áhyggjur af samningarétti og neytendarétti, þegar almúginn hefur leitað réttlætis gagnvart svikum, lögbrotum og prettum fjármálafyrirtækjanna sem settu Ísland á hausinn. Hér gefst honum tækifæri til að reka af sér það slyðruorð að hann sé handbendi fjármagnsins. Vona ég innilega að hann grípi það."

Það hentar þér ekki með þessa kenningu að benda á að Hæstiréttur dæmdi gengistryggð krónulán fjármálafyritækjanna ólögmæt sem orsakaði marg milljarða króna tap fyrir fjármálafyrirtækin, og lækkaði höfuðstól "almúgans", um helming. Þú ert þó ekki sá eini talsmaður þess að Hæstiréttur sé handbendi fjármagnsins með gloppótt minni. Ég get ekki lesið annað úr síðustu setningu þinni, þar sem þú talar um að Hæstiréttur eigi "grípa tækifærið", að þú teljir að Hæstiréttur eigi að dæma með það í huga að bæta orðspor réttarins gagnvart almenningsáliti hverju sinni. Þá held ég að þú misskiljir hlutverk Hæstaréttar, sem er ekki að marka eigin stefnu réttlætis, heldur að leiða í ljós vilja löggjafans eins og hann birtist í gildandi rétti.

hs (IP-tala skráð) 21.1.2011 kl. 18:51

4 identicon

Þú mátt ekki láta ljúga svona að þér hs.

Fjármálafyrirtækin lánuðu út krónur og fá þær tilbaka verðbættar með vöxtum.  Þau hafa engu tapað vegna dóma Hæstaréttar. 

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 21.1.2011 kl. 19:19

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

hs, Hæstiréttur olli fjármálafyrirtækjunum engu tjóni eða tapi.  Þau gerðu það sjálf með lögbrotum sínum.  Þú ert að snúa hlutunum á haus.

Ég hef það fyrir víst, að Hæstiréttur hafi sjaldan haft eins auðvelt mál til meðferðar og þetta um lögmæti gengistryggingarinnar.  Svo augljóst var lögbrot fjármálafyrirtækjanna.

Hafi þú kynnt þér dóminn frá því í september, þá skilur þú það sem ég er að segja.  Þar leggur rétturinn sig í líma við að sneiða framhjá neytendarétti og samningsrétti.  Raunar gerir rétturinn eins og svo oft áður að hann skilur eftir ósvöruðum fjölmörgum spurningum, þannig að endalaust þarf að vísa málum til hans til frekari úrvinnslu.  T.d. segir hann ekkert um það í dómnum 16. september hvernig eigi að reikna vexti aftur í tímann.  Hann segir heldur ekkert um það hvernig eigi að fara með lán, þar sem engin vanskil hafa verið.  Lögmenn og bankamenn klóra sér í kollinn yfir því hvernig eigi að túlka hlutina og niðurstaðan er fleiri dómsmál.

Marinó G. Njálsson, 21.1.2011 kl. 20:54

6 identicon

Það vildu allir vera með :) allir vildu verða ríkir af bankabólunni.

Þetta er kannski annað mál þar sem blekkingum var beitt og sjálfsagt að leiðrétta það. En ég hef mjög takmarkaða samúð með stofnfjárbréfa bröskurum.

Einar (IP-tala skráð) 22.1.2011 kl. 11:12

7 identicon

En hvað með gengistrygginguna og ESA? Er vitað um einhverja sem ætla að láta á það reyna þar?

Séra Jón (IP-tala skráð) 22.1.2011 kl. 14:04

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Séra Jón, það eru þrjú mál í undirbúningi.  Gerð hefur verið krafa í tveimur málaferlum að leitað verði til EFTA-dómstólsins og auk þess er a.m.k. eitt einkamál á leiðinni þangað.

Marinó G. Njálsson, 22.1.2011 kl. 14:11

9 identicon

"hs, Hæstiréttur olli fjármálafyrirtækjunum engu tjóni eða tapi. Þau gerðu það sjálf með lögbrotum sínum. Þú ert að snúa hlutunum á haus."

Ef álitaefnið er það, eins og þú gefur í skyn í færslunni að ofan, að Hæstiréttur haldi skjöld yfir lögbrotum fjármálafyrirtækjanna, þá hlýtur það að þegar Hæstiréttur með dómi sínum dæmir neytendum í vil, orsakar marg milljarða tap vera vísbending um að Hæstiréttur er ekki handbendi fjármálafyritækjanna. Eða hvar liggja þá takmörkin? Hversu augljós mega lögbrotin vera til að Hæstiréttur hlutverki sínu sem handbendi fjármálafyrirtækjanna? Nægir lagalegur ágreiningur? Lögbrotið var annars ekki augljósara en svo að það þurfti tímaritsgrein frá dósent í Háskóla Íslands mörgum árum eftir að gerningarnir höfðu staðið yfir til að fólk færi að átta sig á þessu. Ég tek það fram að ég var algerlega sammála dóminum, þó að auðvitað sé samningsfrelsi meginregla á Íslandi, og frekar ósammála því að þetta skuli hafa verið bannað, en þar er við löggjafann að sakast, ekki réttinn.

"Raunar gerir rétturinn eins og svo oft áður að hann skilur eftir ósvöruðum fjölmörgum spurningum, þannig að endalaust þarf að vísa málum til hans til frekari úrvinnslu."

Hann skilur eftir ÓSPURÐAR spurningar enda var þetta einkamál og rétturinn tekur ekki afstöðu til annars en þeirra krafna sem til hans er beint. Ef þú vilt breytingu á þessu ættiru frekar að sakast við lögmennina sem fóru með málið, eða breytingu á lögum um meðferð einkamála. Enn skiluru ekki hlutverk Hæstaréttar.

hs (IP-tala skráð) 22.1.2011 kl. 14:25

10 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég veit það með vissu að margir í mínu heimahéraði fylgjast með þessum málum með öndina í hálsinum. Héraðsdómurinn er að gefa þeim ákveðna von, en ég tel öruggt að þetta mál fer til Hæstaréttar.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.1.2011 kl. 14:56

11 Smámynd: Offari

Eitt hef ég aldrei skilið. Tilhvers var bankinn að lána fyrir hlutafjárkaupum ef hlutabréfin áttu að ávaxta sig betur en lánin?

Offari, 23.1.2011 kl. 21:10

12 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Góður pistill eins og ávalt. Það er einnig annar dómur í héraði eða hæsta, sem dæmdi skuldara í vil. Það var á þeim rökum reist að lánveitandi leitaði ekki eftir greiðslugetu lántaka.

Þessi dómur sem ég hef ekki kynnt mér er nokkuð áhugaverður, ef hann leiðir til niðurstöðu um lán sem veitt voru til lántaka, lán sem ekki fór í greiðslumat hjá lánveitanda, skuli vera á ábyrgð lánveitanda sjálfs, ef greiðslugeta var ekki til staðar. 

Þetta er dómur sem ég tel að eigi að skoða hjá þér, og samtökum þeim er þú starfar við Marinó.  Lánveitendur tóku veð í eignum lántaka, án þess að gæta hagsmuna hans og hvort hann gæti yfir höfuð greitt eða ekki. 

Ég veit ekki undir hvaða "katagoríu" ég á að flokka þessi lán, en ég er nokkuð viss um að  lánveitandi var ekki að hugsa um hagsmuni lántaka.

Ég er hugsi yfir hversu mörg lán voru veitt af bönkum og sparisjóðum til einstaklinga án þess að greislugeta viðkomandi hefði verið könnuð.

Ég tel að bankar og sparisjóðir okkar lands hafi farið langt yfir strikiðí þessum efnum. 

Spurningin er , hver á að hafa vit fyrir hverjum? 

Fagmenn eða ófaglærðir.

Eggert Guðmundsson, 24.1.2011 kl. 21:26

13 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sem viðbót, þá skulum við ekki búast við neinu frá Hæstarétti Íslands. Þeir, í Hæstarétti munu verja sig og sina, og sitt Pólitíska bakland, eins og þeim er greitt fyrir.

Eggert Guðmundsson, 24.1.2011 kl. 21:32

14 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sorri. það átti að vera "sem og þeim er greitt fyrir"

Eggert Guðmundsson, 24.1.2011 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 3
  • Sl. sólarhring: 241
  • Sl. viku: 427
  • Frá upphafi: 1680813

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband