Leita í fréttum mbl.is

Almenningur hafður að ginningarfíflum - Bankarnir lifa en almenningur tapar öllu

Betur og betur kemur í ljós, að stórir hópar almennra lántaka og lítilla fjárfesta voru hafðir að ginningarfíflum í undanfara gjaldeyris- og bankahrunsins.  Fólk var ginnt til að leggja peninga í peningamarkaðssjóði, logið var að því um öryggi skuldabréfa, otað var skipulega að fólki gengisbundnum lánum, lögð fram gögn byggð á uppskálduðum upplýsingum um stöðu fjármálafyrirtækja til að fá það til að taka þátt í stofnfjáraukningu sparisjóða og svona mætti halda lengi áfram.  Lygar og skáldskapur þótti eðlilegur hluti í daglegum störfum siðblindra stjórnenda og eigenda bankanna.  Ef einhver starfsmaður Fjármálaeftirlitsins var duglegur við að finna veikleika í málflutningi eða gögnum fjármálafyrirtækjanna, var sá hinn sami umsvifalaust ráðinn til einhvers fjármálafyrirtækis.

Bankarnir féllu en úr rústum þeirra risu nýir bankar sem telja sig ekki bera neina ábyrgð.  Nei, þeir fengu kröfurnar sem byggðar voru á blekkingum og markaðsmisnotkun og telja sig geta innheimt þær að fullu.  Er ekki eitthvað rangt við þetta?  Hafi upphaflega krafan verið byggð á blekkingum, þá hlýtur krafan að vera ógild.

Sparisjóður Keflavíkur gaf út nýtt stofnfé og lánaði stofnfjáreigendum gengisbundin lán.  Stofnfjáraukningin var byggð á eignarhlut sjóðsins í Kistu ehf., en félagið hélt utan um eignarhluta sparisjóðanna í Exista sem síðan var stærsti hluthafinn í Kaupþingi.  Komið hefur í ljós að virði hlutabréfa í Kaupþingi var haldið uppi með grófum hætti og þróaðist í þveröfuga átt miðað við t.d. skuldatryggingaálag bankans.  Exista tók mjög grófa stöðu gegn krónunni haustið 2007 og því hefðu stjórnendur fyrirtækisins mátt vita að virði hlutabréf Kaupþings var stórlega ofmetið.  Þar með var virði Exista stórlega ofmetið sem leiddi til sams konar ofmats á virði Kistu.  Eignarhlutur sparisjóðanna í Kistu nam því ekki milljarða tugum heldur í besta falli milljörðum ef nokkuð nema nokkur hundruð milljóna.  Ef verðmat Kaupþings hefði verið rétt, þá hefði eigið fé t.d. Sparisjóðs Keflavíkur ekki hlaupið á milljörðum heldur í besta falli 100-200 milljónir.  Þar með hefði stofnfjáraukning sjóðsins ekki orðið 1,9 milljarðar heldur nær lagi að vera 190 milljónir.

Stofnfjáreigendur sem lögðu fé í stofnfjáraukningu Sparisjóðs Keflavíkur og Sparisjóðs Svarfdæla, svo dæmi séu tekin, voru blekktir þar sem fyrir þá voru lögð gögn byggð á fölsuðum upplýsingum.  Þó svo að einhverjir þeirra sem matreiddu gögnin hafi ekki vitað hversu víðtækur blekkingarvefurinn var, þá höfðu þeir öll tök á því að kanna gildi upplýsinganna.  Raunar vil ég halda því fram að starfsmenn bæði Saga Capital og Sparisjóðs Keflavíkur hafi mátt vita að þær stofnfjáraukningar, sem þessi fyrirtæki fjármögnuðu, voru byggðar á sandi.

En þetta voru ekki einu gildrurnar sem almenningur var ginntur í.  Á undanförnum vikum hafa verið nefnd dæmi um skuldabréfasjóði, sem almenningi var talið trú um að eingöngu keyptu "örugg" bréf, en síðan kemur í ljós að undir þessi "öruggu" bréf heyrðu skuldabréf fyrirtækja í verulegum fjárhagsvanda.  Hlutabréfamarkaðurinn var náttúrulega algjör brandari, þar sem verðmat þeirra byggði á því fjármagni sem þurfti til að greiða upp skuldir fyrri eigenda, en ekki hvers virði hlutabréfin voru.  Eftir því sem skuldir eigenda hlutabréfanna jukust, þá hækkað verð hlutabréfanna.  Oftast var það síðan lánveitandinn sem fékk allt kaupverð bréfanna í hendur enda snerist fléttan um að fyrri eigandi hlutabréfanna gerði upp skuldir við lánveitandann.  Fyrir þetta liðu aðrir kaupendur hlutabréfa.  Einnig myndaðist falskur hagnaður hjá öðrum hlutabréfaeigendum, svo sem lífeyrissjóðunum.  Stærsta og markvissasta ginningin var að bjóða fólki og fyrirtækjum gengisbundin lán, stilla upp aðstæðum fyrir fjármálafyrirtækin að geta hagnast óheyrilega með því að fella gengið.  Samhliða þessu voru nytsamir sakleysingjar notaðir á lakari hlið gjaldeyrisskiptasamninga.  Lýst er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hvernig stærstu eigendur Kaupþings keyptu mjög mikið af gjaldeyri á markaði frá miðju ári 2007 og fram að áramótum.  Tóku þeir sífellt meira af gjaldeyrinum til sín en viðhéldu þó veltunni á markaðnum.  Á fyrstu mánuðum 2008 þá breyttu þeir um taktík og ryksuguðu upp allan lausan gjaldeyri.  Við það hrundi krónan.

Allt þetta var gert til að færa peninga frá almenningi, fyrirtækjum og fjárfestum sem voru utan hrings innvígðra og innmúraðra til þeirra sem voru innan hringsins.  Bankarnir voru notaðir til að soga til sína allt tiltækt fé og finna því svo farveg með sviksamlegum lánveitingum til þeirra sem voru innan hringsins.  Umfjöllun fjölmiðla á undanförnum vikum, mánuðum og árum sýnir þetta.  Lán veitt til félags A, sem keypti bréf af félagi B, huldufélags í eigu Fons eða FL Group eða annarra innan hringsins.  Bréfin urðu verðlaus (enda voru þau það), lánið afskrifað og peningurinn hvarf inn á leynireikninga einhvers staðar í heiminum, hugsanlega hér á landi.  Með þessum hætti voru fleiri þúsund milljarðar fluttir til með svikum og blekkingum og sannaði þá tilgátu að til að ræna banka er best að eiga hann.

Það grátlega í þessu, er að stjórnvöld hafa á síðustu tveimur árum eða svo ekki séð ástæðu til að taka upp hanskann fyrir þá sem ginntir voru í gildrur gömlu bankanna.  Þegar gömlu bankarnir veittu nýju bönkunum verulegan afslátt af lánasöfnum við flutning til þeirra nýju, þá stigu stjórnvöld ekki fram og kröfðust þess að lántakar fengju sama afslátt af sínum lánum.  Nei, þau hafa stutt nýju bankana í því að innheimta uppblásnar kröfur þrátt fyrir að virði þeirra hjá nýju bönkunum sé ekki nema brot af því sem reynt er að innheimta.  Þegar skuldarar sætta sig ekki við þetta, þá er sett af stað leikrit, þar sem fjármálafyrirtækin fá að ákveða hvað er skammtað í almenning.  Þau eru sögð hafa afskrifað kröfur, en í reynd þá eru stjórnvöld að styðja þau í að innheimta kröfur langt umfram bókfært virði.  Hvernig er hægt að tala um að lán sem er að bókfærðu virði 50 milljónir í nýja bankanum, stóð í 100 milljónum í gamla bankanum, hafi verið afskrifað um 30 milljónir hjá nýja bankanum við það að innheimta það sem 70 m.kr. hjá honum?  Ég fæ ekki betur séð en að lánið hafi hækkað um 20 m.kr. og ekki verið afskrifað um eitt eða neitt.  Þetta er borið á borð fyrir almenning.  Hækkun á láni um 20 m.kr. að bókfærðu virði er sagt vera afskrift.  Svo aftur á móti eru það þeir sem eru innan hringsins.  Fyrirtæki þeirra og félög fá í sumum tilfellum allar skuldir afskrifaðar.  Varla stendur króna eftir eða að búið er til falskt virði á félögin (langt undir raunvirði), lánin afskrifuð að því marki og gömlu eigendurnir fá að halda þeim.  Önnur útfærsla er að hreinsa fyrirtækin af öllum skuldum, selja þau einhverjum leppum (helst í útlöndum) sem skila þeim svo aftur í hendur fyrri eigenda.  Þriðja útfærslan er að láta gömlu eigendurna fá fyrirtækin til baka beint vegna þess að kröfuhafar krefjast þess.  Hvaða kröfuhafar eru svona gjafmildir?  Ætli það séu eigendur fyrirtækjanna sem svo skemmtilega vill til að eru líka kröfuhafar bankanna annað hvort beint eða í gegn um einhverja leppa.

Ég verð að viðurkenna, að ég treysti engum af fyrri eigendum eða stjórnendum gömlu bankanna.  Ég treysti ekki nýju bönkunum til að koma fram af réttsýni og enn síður stjórnvöldum.  Ég veit ekki hvort réttarkerfinu er heldur treystandi, a.m.k. virðist það ekki hingað til hafa þótt það nægilega merkilegt til ákæru að nær öll fjármálafyrirtæki landsins hafi boðið almenningi, fyrirtækjum og félögum upp á ólöglega afurð í mörg ár.  Hvers vegna hefur Fjármálaeftirlitið ekki svipt þessi fyrirtæki starfsleyfi eða þó ekki væri annað en sett ofan í við þau?  Hvers vegna skiptir meira máli fyrir dómstóla, stjórnvöld og Seðlabanka forsendubrestur fjármálafyrirtækja (sem þau bjuggu til með lögbrotum sínum), en forsendubrestur almennings og fyrirtækja og félaga utan hrings hinna innvígðu og innmúruðu?  Eru dómstólar, stjórnvöld og Seðlabankinn kannski innan hringsins?

Hrunadans fjármálakerfisins hefur skilið tugþúsundir fjölskyldna eftir eignalausar.  Annar eins hópur hefur tapað stórum hluta eigna sinna.  Eina sem gagnslaus stjórnvöld segja er:  "Shit happens!"  Þeim er alveg sama þó einstaklingar og fjölskyldur hafi tapað tugum milljóna á svikum, lögbrotum og prettum fjármálafyrirtækja á árunum fyrir hrun.  Þau hafa ekki frumkvæði á að rannsaka lögbrotin sem snúa að almenningi.  Nei, í staðinn er allt gert til að bæta lögbrjótunum skaðann sem þeir urðu fyrir vegna lögbrota sinna.  Vanhæfni stjórnvalda til að hlusta á almenning lýsir sér best í "úrræðunum" sem fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðirnir voru að því virtist neydd til að fallast á í desember, en voru í raun stórsigur fyrir þessa aðila, þar sem þeir fengu að halda öllum eignum almennings.  Það var ekki ein einasta króna gefin eftir sem á annað  borð var innheimtanleg hjá almenningi.  Eina sem gefið var eftir, voru tapaðar kröfur og sokkinn kostnaður.  Vá, en það örlæti.  Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem segist hafa fengið eitthvað út úr úrræðum stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða.  Og síðan lögin hans Árna Páls.  Lán hjá mér sem stóð í 2,1 m.kr. hækkar við endurútreikning í 2,3 m.kr.  Hvernig dettur nokkrum manni í hug að fasteignalán eigi að falla undir sömu vexti og lánskjör og bílalán?  Nei, enn og aftur er verið að hafa almenning að ginningarfíflum.

Ég hef líkt þessu öllu við að stjórnvöld og fjármálafyrirtækin hafi ákveðið að slátra gullgæsinni.  Það vill nefnilega svo til, að heimilin í landinu eru gullgæsir.  Þau eru uppspretta tekna fyrir atvinnulífið og stjórnvöld.  Með því að gera heimilin meira og minna eignalaus, þá hafa þau enga möguleika til fjárfestinga og nýsköpunar.  Velta fyrirtækja hefur dregist mikið saman í magni, þó vissulega haldist hún uppi í krónum talið.  Heilu geirarnir í verslun eru að þurrkast út.  Að vísu eru 3.632 fjölskyldur í landinu svo ríkar að þær kunna ekki aura sinna tal.  En þær eru ekki nógu margar til að halda uppi tímaritaútgáfu, öllum sjónvarpsstöðvunum eða dagblöðum.  Svört vinna grasserar um allt.  Það er búið að færa þjóðfélagið 30 - 40 ár aftur í tímann hvað það varðar.  Svo má ekki gleyma því að aldrei hafa fleiri verið atvinnulausir jafn lengi á hinum síðari árum, ef bara nokkru sinni.  Stjórnvöld berja sér á brjósti með að atvinnuleysið hafi ekki orðið jafn mikið og menn spáðu, en það er hluti af talnaleikfiminni.  Fjöldi á vinnandi fólks er í samræmi við spár um fækkun á vinnumarkaði.  Ástæðan fyrir því að atvinnuleysið mælist ekki meira er að um 8.000 manns á vinnualdir eru fluttir út landi og 4.000 til viðbótar búa hér á landi en eru ekki í atvinnuleit.  Alvarlegast er að á hverjum degi flytja 5 manns úr landi umfram aðflutta.  Þetta eru allt gullgæsir sem leiddar eru til slátrunar.  Gæsir sem hafa verið reittar öllum sínum fjöðrum og munu ekki gefa meira af sér.  Því miður skilja stjórnvöld þetta ekki.  Vangeta þeirra til að hjálpa almenningi er æpandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hmm, því miður stefnir í að hér verði einungis ríkir vs. fátækir með þessu áframhaldi.

Ofan í allt, virðist sem að ríkisstj. stefni að einkavæðingu Íbúðalánasjóðs.

Nýjasta skýrsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um Ísland:

„28. The authorities and staff concurred on the need for further action to strengthen non-banks (LOI ¶26). Specifically, the government will inject by end-December sufficient capital into the Housing Finance Fund (HFF) to bring its capitalization to 5 per cent of its risk-weighted assets (2¼ percent of GDP). The authorities also plan to prepare a timeline to harmonize the HFF capital requirements to those of other financial institutions, and submit legislation that will put the HFF under FME regulatory and supervisory authority...“

  • Eða hvernig ætlar ríkisstj. að fara að því að fjármagna aukningu eiginfjár ÍLS í 17% þegar það kostaði litla 33 ma.kr. að hífa það úr 2,5% í 5%?
  • Erfitt að sjá annað, en þetta inniberi stefnumörkun í átt að einkavæðingu.
  • Þá er eina félagslega lánastofnunin á húsnæðismarkaði aflögð sem slík, en orðin ein bankastofnunin á viðskiptagrunni til viðbótar.

Mér finnst Norræna Velferðarstjórnin vera að ganga til mikilla muna harðar fram gegn hagsmunum almennings, en nokkur hægri stjórn hefði líklega þorað.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 19.1.2011 kl. 15:57

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Góð grein!

Sumarliði Einar Daðason, 19.1.2011 kl. 16:29

3 identicon

Öllum má vera ljóst að stjórn meintra vinstri og jafnaðarmanna notaði skuldir heimilana sem skiptimynt í samningum við AGS.

Stökkbreyttar skuldir eru svo lagðar á almenning til 30 ára eða svo.


Á sama tíma er rekin stífur áróður um að ekki megi skuldsetja komandi kynslóðir.

Mér er spurn, hvað er 30 ára skuldafangelsi?

sr (IP-tala skráð) 19.1.2011 kl. 17:00

4 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þetta er svo skelfilega rétt hjá þér Marinó. Ég er alveg hættur að reikna með að nokkur ráðandi maður í stjórnsýslu eða réttarfari hafi manndóm í sér til að snúa þessari skelfingu til farsælli vegar. Ákæruvaldið og lögreglan eru fljót að bergðast við ef almenningur er grunaður um að hafa stígið hænufet yfir línu lögboðinnar háttsemi. Strax við hrunið voru fjölmargir bankamenn uppvísir að umtalsverðum fjölda brota á eðlilegri bankastarfsemi, og þannig valdið fjölda einstaklinga og fyrirtækja umtalsverðu fjártjóni. Þessir menn eru ekki ákærðir. Ætla stjórnvöld og ákæruvald haldi fólk svo vitlaust að það sjái ekki aumingjaskap og heigulshátt þeirra???    Ég er sannfærður um að hér dugir ekkert annað en breið samstaða fólksins í landinu, til að hreinsa út úr öllum spillingarbælum stjórnsýslu og réttarfars.  Mikið verk, sem þolir litla bið; þegar búið að bíða of lengi.

Guðbjörn Jónsson, 19.1.2011 kl. 17:43

5 identicon

Já sæll!  Þetta er svakalegur lestur en því miður allt satt og rétt.

Venjulegir launamenn sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum vegna þessara brota hafa eðli málsins samkvæmt enga burði til þess að sækja sér nokkurn rétt.

Heiðarleg stjórnvöld hefðu auðvitað tekið sér stöðu með fólkinu í landinu og aðstoðað almenning við að sækja rétt sinn gagnvart þessum aðilum. Menn virðast hins vegar hafa séð sér leik á borði og ákveðið að þjóðnýta skuldaafsláttinn til þess að endurfjármagna bankana.

Og fyrir þá sem eru svo bjartsýnir að halda að hægt verði að fá gögn úr þrotabúunum til þess að byggja málsóknir á þá má minna á nýlegan dóm sem féll gegn Vilhjálmi Bjarnasyni, sem reyndi í krafti stöðu sinnar sem hluthafi að fá upplýsingar um viðskipti Glitnis fyrir hrun.

Bananar í boði lýðveldisins.  Fáið ykkur að borða. Það er nóg til af þeim. 

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 19.1.2011 kl. 19:20

6 identicon

Marinó, fékkstu ekki memo-ið? Hin svokallaða kreppa er búin. :-)

Daði (IP-tala skráð) 19.1.2011 kl. 22:29

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Daði, nei, það gleymdist að senda mér það.  Þetta er heldur ekki nema að litlu leiti um kreppuna.  Þetta er um svikin og prettina, spillinguna og lögbrotin.  Þetta er um það sem var og það sem er.

Marinó G. Njálsson, 19.1.2011 kl. 22:56

8 identicon

Nestu þakkir fyrir frábæra færslu Marinó og öll góðu innleggin . Fyrir mer vefst alltaf eitt  og eg þrái svar ? .Hvers vegna er ekki samsstaða fólks i þessu landi til um að reyna breyta þvi sem mögulega er hægt ??  Á hverju strandar  , er fólk hrætt við að vera tekið höndum ??, hefur það enga trúa á getu samstöðunnar til einhvers eða  er almenningur bara orðin sáttur ??  þó manni heyrist það ekki beint  ?  eða hvað  er það í ósköpunum  sem veldur .Fyrir mer hefði löngu verið hægt að vera buin að snúa hlutunum við ef fólk hefði staðið saman  ÞAÐ ER ALLTAF STERKASTA VOPNIР   !!

ransý (IP-tala skráð) 19.1.2011 kl. 23:35

9 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Alltaf góðar greinar hjá þér, Marinó. Þakka þér fyrir, þetta er ömurleg staðreynd, manni verður illt!

Eyjólfur G Svavarsson, 20.1.2011 kl. 00:05

10 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

virkilega vel gerð færsla hjá þér og því miður allt of sönn.

Spurt er um samstöðu, hvers vegna safnaðist ekki almenningur að Hagsmunasamtökum heimilanna. Megin ástæðan er sú að stóru fjölmiðlarnir flytja skoðanir en kalla þær fréttir. Þeir flytja skoðanir valdstéttarinnar. Ef HH hefðu alltaf stjórnað fréttaflutningi RÚV í stað spunameistara valdsins hefði almenningur vitað mun meira.

Gunnar Skúli Ármannsson, 20.1.2011 kl. 00:24

11 identicon

Þakka þer ábendingarnar  Gunnar !,ja liklega er þetta nokkuð satt ,En þó finnst mer við almenningur hafa átt góðar raddir eins og Marinó og fl  sem hafa útskyrt  og kallað til fólksins .Er það ekki viss þrælsótti fólksins sem heldur aftur af þvi og vill ekki láta "BENDLA SIG VIÐ " eitthvað ? Öruggara að þegja á opinberum  vettvangi  , gæti kanski misst vinnuna ??   er það ekki meira eitthvað svona   ??  Þvi almenningur veit ymislegt inni eldhúsi eða við bloggrásirnar  !!

ransy (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 00:36

12 identicon

Legg til enn og aftur að Ísland verði fylki í Noregi, að þeir glæpir sem einstaklingar innan fjármálageirans hafa framið verði flokkaðir sem stríðsglæpir og rannsakaðir sem slíkir.

Að hér verði komið á afturvirkri Norskri löggjöf og allri rannsókn á glæpastarfsemi innan fjármálafyrirtækja og í opinberri stjórnsýslu verði á hendi einskonar samnorræns stríðsglæpadómstóls. 

Þeir starfsmenn sem tóku þátt í að féfletta fólk uppá hlut eru jafn sekir þeim sem fyrirskipuðu ránin.

Það eru margir enn starfandi innan bankanna sem högnuðust verulega þessum gjörningum og komu sínum hluta rásfengsins undan.  

Holmsteinn (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 00:56

13 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Algjörlega frábær spegilmynd af meinsemdinni sem við er að glíma!!!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.1.2011 kl. 01:20

14 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Flott grein. Ég vil benda á að hugmyndir að lausnum við sumum þessara meinsemda má finna hér: Icelandic Financial Reform Initiative.

Marinó: "Eru dómstólar, stjórnvöld og Seðlabankinn kannski innan hringsins?"

Þessu get ég svarað að hluta, því ég hef óstaðfestar heimildir sem ég met þó nokkuð traustar fyrir a.m.k. einu slíku tilviki. Ég vil forðast að vera með ásakanir en myndi hvetja eindregið til þess að persónuleg fjármál allra hlutaðeigandi yrðu rannsökuð ofan í kjölinn.

"Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem segist hafa fengið eitthvað út úr úrræðum stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða."

Þessu er ég nokkuð sammála. Það eina sem hefur skánað hjá mér er bílalán frá 2007 sem leiðréttist skv. dómum hæstaréttar og lækkaði nokkuð við það. Annars hefur ekkert fengist út úr neinu ennþá sem vegur upp heildartapið vegna t.d. stökkbreyttrar verðtryggingar langt umfram skynsamlegar forsendur, eða það sem hefur brunnið upp af séreignarsparnaði, farið í aukna skatta og svo framvegis.

Greiðslufall virðist verða sífellt skárri valkostur í stöðunni...

Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2011 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband