19.11.2010 | 16:08
Svartari tölur en áður hafa sést um stöðu heimilanna
Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands sýnir svartari tölur en áður hafa sést um stöðu heimilanna í landinu. Nær undantekningarlaust ástandið í ár mun verra en nokkrum sinnum fyrr. Hafa skal í huga að um úrtakskönnun er að ræða og tók 3.021 heimili þátt í könnuninni. Af þeim sökum eru skekkjumörk talsverð á einstökum liðum.
Í færslum hér og skrifum fyrir Hagsmunasamtök heimilanna hef ég margoft haldið því fram að stór hluti heimila eigi í miklu greiðsluerfið leikum. Mitt mat á fjölda hefur ætíð verið fyrir ofan opinbera útreikninga eða eigum við að segja túlkun Seðlabanka, en stjórnvöld hafa einatt byggt sín viðbrögð á tölu SÍ. Í greinargerð Hagsmunasamtaka heimilanna frá 4. júlí 2009 segir:
Miðað við ofangreindar forsendur, þá eru 46% heimila með viðráðanlega greiðslubyrði, 18% með þunga greiðslubyrði og 36% með MJÖG þunga greiðslubyrði. Meirihluti heimila, eða 54% þeirra, eru því með þunga eða mjög þunga greiðslubyrði, en ekki 23% heimila eins og Seðlabankinn heldur fram. Það er mikill munur á 23% og 54% og þetta gerir ekkert annað en að versna, nú þegar lán koma úr frystingu og tímabundnar skilmálabreytingar renna út.
Mig langar til að skoða þessa fullyrðingu mína frá því fyrir ári og bera hana saman við tölur í lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.
Í fyrra sagði Seðlabankinn að 23% heimila væri með þunga eða mjög þunga greiðslubyrði. Var sú tala fenginn út frá því að allir ættu að geta sett 40% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir lána óháð tekjum og fjölskyldugerð/stærð. Ég taldi þá og tel enn að þetta velti á þessu tvennu og því sé ekki hægt að vera með þá einföldun sem Seðlabankinn setti fram. Tölur Hagstofunnar styðja við mína túlkun. Ef skoðaðar eru upplýsingar í töflu 3 á bls. 5 kemur í ljós að fjöldi þeirra heimila sem að erfitt (erfitt/nokkuð erfitt/mjög erfitt) sé að ná endum saman hefur farið úr 30,1% árið 2008 í 49,3% í ár. Er það talsvert nær mínu mati, en mati Seðlabankans, svo ekki sé meira sagt. Þetta er líka talsvert hærri tala en kom fram í skýrslu sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um daginn, enda leit hann ekki á greiðslubyrði annarra lána en húsnæðislána.
Hér fyrir neðan er í tveimur töflum dregnar út tölur sem ég tel vera lykiltölur.
Fjölskyldugerð | Vanskil húsnæðis-lána | Þung byrði húsnæðis-lána | Vanskil annarra lána |
Alls | 10,1% | 16,5% | 13,3% |
Heimili án barna | 6,9% | 12,8% | 9,2% |
Einst.foreldrar | 23,5% | 31,5% | 27,4% |
Hjón án barna | 5,7% | 9,5% | 7,3% |
Hjón með 3+ börn | 19,2% | 24,0% | 25,3% |
Undir 30 ára | 8,7% | 18,9% | 17,8% |
30 - 39 ára | 17,0% | 22,0% | 20,4% |
40 - 49 ára | 13,6% | 19,6% | 16,9% |
Fjölskyldugerð | Þung byrði annarra lána | Erfitt að mæta óvæntum útgjöldum | Erfitt að ná endum saman |
Alls | 19,2% | 35,9% | 49,3% |
Heimili án barna | 14,5% | 34,6% | 43,0% |
Einst.foreldrar | 35,8% | 66,5% | 77,2% |
Hjón án barna | 12,0% | 20,2% | 34,4% |
Hjón með 3+ börn | 29,2% | 34,5% | 68,4% |
Undir 30 ára | 18,4% | 53,1% | 53,3% |
30 - 39 ára | 28,5% | 43,0% | 61,7% |
40 - 49 ára | 24,4% | 31,9% | 55,3% |
Skýringar: Til barna á heimili heyra allir þeir sem eru undir 18 ára að aldri og þeir sem eru 1824 ára, eru án vinnu og búa hjá að minnsta kosti öðru foreldri. Fullorðnir teljast þeir sem ekki falla undir skilgreininguna um börn. Aldur er skilgreindur sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga á heimilinu.
Ef skoðað er eftir einstökum hópum hverjir eiga erfiðast að ná endum saman, þá kemur í ljós að það er barnafólk annars vegar og hópurinn 30-39 ára. (Líklegast er að sama fólkið sé mikið til í báðum hópum.) Hópurinn 30-39 ára ekki bara oftast með börn á framfæri, heldur er líklegast að hann hafi keypt húsnæði á árunum 2004 - 2007. Högg hans er því úr tveimur áttum.
Mér finnst skilaboðin til stjórnvalda vera skýr. Í fyrsta lagi verður að rétta hag einstæðra foreldra og hjóna með mörg börn. Næst er það fólk á fertugsaldri og þá þarf að skoða stöðu fólks á þrítugs- og fimmtugsaldri. Aðrir hópar en skoðaðir eru í töflunum að ofan "skora" misjafnlega í hinum ólíku flokkum og eru yfirleitt ekki með "skor" í námunda við þau sem ofangreindir hópar hafa. Á því eru undantekningar.
Yfir 10% heimila í vanskilum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 276
- Frá upphafi: 1680564
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Haltu áfram þínu ómetanlega starfi Marinó! Þú ert ljósið í myrkrinu fyrir mjög marga sem eru að reyna að berjast fyrir eigin tilveru og berjast við ógnarsterkt fjárvald. Ef einhver ætti skilið orðu fyrir sitt starf undanfarin 2 ár þá eru það Hagsmunasamtök heimilanna .
Kær kveðja,
Kristbjörg Þórisdóttir.
Kristbjörg Þórisdóttir, 19.11.2010 kl. 18:10
Flott grein að venju Marinó.
Það er nefnilega málið að það er hægt að skapa líf í steindauðu hræi með réttri framsetningu í tölfræði.
Einhver sagði að það væri til lygi, stórkostleg lygi og að lokum tölfræði, sem væri mesti lygarinn af öllu.
Íslendingar finna fyrir erfiðleikum sínum, þeir finna það harkalega og þeir sem taka trúanleg skilaboðin frá stjórnvöldum um að langflestir geti vel greitt af lánum sínum er, afsakið orðbragðið, verulega greindarskertir eða eiga hagsmuna að gæta.
Hvernig getur almenningur haft það fínt eftir að gjaldmiðill landsins hefur fallið um 50-60%, atvinnuleysi stóraukist og flest fyrirtæki á markaði farið á hausinn með viðeigandi tekjutapi fyrir almenna hluthafa ??
Ef þessi skakkaföll sem yfir þjóðina hafa dunið hafa varla gárað fjárhagslegt yfirborð landans, hvernig voru við þá fyrir hrun ??
Var allur landinn á lista Forbes, ekki einungis bjöggi jr??
Ef menn beita einungis lágmarks skynsemi þá er raunveruleikinn ekki í sömu heimsálfu og sannleikur ríkisstjórnarinnar !!!
runar (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 19:39
Fréttir í fjölmiðlum vegna Hagtíðinda hafa bent á að vanskil heimilanna hafa eru jafnhá í dag og árið 2004. En berum saman árin fyrir 2004, þar eru vanskil ekki mikið minni en í dag sjá bls. 36 hér hjá Seðlabanka http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=1425 .
Skoðum hvað gerðist 2004, jú bankar voru einkavæddir. Lánabók bankanna var í rusli við einkavæðingu, geri ráð fyrir að tiltekt hafi átt sér stað sem hefur áhrif á vanskilastöðu hlutfallslega séð.
Einnig skal hafa í huga að aukin útlánaveiting gerir lítið úr vanskilatölum, þar sem nýjar útlánaveitingar koma í heildarstöðu., enda minnst á það í þessari skýrslu frá SÍ.
Breyting á lánaflokkun hefur áhrif á vanskilatölur. Og breyting á innheimtuferli hefur áhrif á vanskilastöðu. Ef innheimtuferlið alla leið til afskriftar styttist þá verður hlutfallið í vanskilum minna. Þá er spurt, hversu oft var afskrifað í stofnunni fyrir árið 2004 og hversu oft er afskrifað í dag? Ef afskrifað er oftar í dag en árið 2004 og fyrir, þá erum við að bera saman epli og appelsínur með þvi´að bera saman þessar tvær tölur. Meina þá að vanskilatölur í dag séu vanmetnar, enda geri ég ráð fyrir að einkafyrirtæki sé betur rekið en ríkisrekið.
Þannig að þegar vanskilatölur tveggja tímabila eru borin saman þá þarf ferlið í kringum þessi lán að vera þau nákvæmlega sömu.
DD (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 22:55
Sæll Marinó,
Hjó eftir þessu: "Var sú tala fenginn út frá því að allir ættu að geta sett 40% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir lána óháð tekjum og fjölskyldugerð/stærð."
Er þetta einhver glóra að áætla 40% af ráðstöfunartekjum sem tiltækt í afborganir og vexti af lánum??? Teldir þú þetta raunhæft? Það væri ekki nokkur einasta leið fyrir okkur að setja 40% af ráðstöfunartekjum í afborganir nema við hækkuðum tekjurnar um $3-5K á mánuði. Þar sem við vinnum sjálfstætt þá held ég að við komum verr út en ef við værum að vinna hjá fyrirtæki. Eins erum við að borga um 50.000 IKR á mánuði ($450) í heilbrigðistryggingu (healt insurance, sem aldrei borgar neitt, en það er önnur saga;) og borgum $1200 í leigu.
Við erum með eitthvað af kreditkortaskuldum sem við erum að naga niður og svo skuldir af bíl sem við keyptum í fyrra (eitthvað um $20K, borgum um $300/mán. - eini nýji bíllinn sem við höfum keypt síðan fyrir 1980;) Frúin sér um bókhaldið hjá okkur svo ég er ekki með tölur á hreinu í augnablikinu en 40% væru allt of hátt hlutfall hér hjá okkur, svo mikið er víst!
Ég var einmitt að velta fyrir mér hugmynd um þak á afborganir til einhverra ára meðan fólk væri að komast út úr þessu og talan sem ég greip, svo sem úr lausu lofti, var 20% ;)
Hmm.....
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 19.11.2010 kl. 23:29
DD, erum við eitthvað bættari að ástandið 2004 var eins slæmt og núna? Höfum samt í huga að þetta er mat heimilanna á ástandinu og því um huglægt mat að ræða. Það getur valdið verulegum skekkjum, þar sem erfitt er að staðla huglægt mat.
Þessu verkefni EU-SILC (European Union Statistics on Income and Living Conditions) var hleypt af stokkunum árið 2003 og því er 2004 fyrsta árið. EU-SILC tók við af ECHP survey (European Community Household Panel survey) sem hafði var notað milli 1994 og 2001. Hægt er að nálgast upplýsingar um þetta á vef eurostat.
Marinó G. Njálsson, 19.11.2010 kl. 23:29
Arnór, mér fannst það ekki raunhæft og bjó því til skurð sem var þannig að eftir því sem tekjurnar voru minni minnkaði getan. Þannig fékk ég að um 42% væru örugglega í erfiðleikum en að þú tala gæti breyst eftir fjölskyldustærð.
Marinó G. Njálsson, 19.11.2010 kl. 23:56
Sæll Marinó hvenær ætla stjórnvöld og þeir sem reyna að reikna sig út úr gjaldþrota þjóð að viðurkenna að við erum gjaldþrota!
Allavega nær stærðfræðikunnátta mín það langt að ég get ekki með nokkru móti séð hvernig við eigum með sama áframhaldi að standa skil á þeim kostnaði sem þarf til að reka heimili.
Sigurður Haraldsson, 20.11.2010 kl. 01:11
Við fórum tveir í nafni HH á fund fjárlaganefndar í júní 2009 og bentum þeim á með tölum að Ísland væri tæknilega gjaldþrota. Nefndarmenn sukku niður í sætin sín og kröfðust þess að Seðlabankinn skilaði skýrslu. Við höfðum verið frekar svartsýnir að við héldum í okkar máli, en skýrsla Seðlabankans var kolbikasvört. Staðreyndir málsins eru að með krónuna sem gjaldeyri munum við ekki geta greitt erlendar skuldir okkar nema einhver seðlabanki hreinlega kaupi 2 - 3 þúsund milljarða af krónum (ef ekki meira) af Seðlabanka Íslands og láti evrur í staðinn. Gjaldeyrisforðinn verður aldrei nógu stór til langframa til að standa undir greiðslum erlendra lána þjóðarinnar. Eina leiðin er að taka upp gjaldmiðil sem er gjaldgengur um allan heim.
Marinó G. Njálsson, 20.11.2010 kl. 01:48
Sæll Marinó,
Hversu mikið af þessum erlendu skuldum eru skuldir sem eru ekki skyldar bönkunum og hruni þeirra? Sjálfsagt ekki auðvelt að finna út úr þeirri flækju en ég veit þú hefur pælt djúpt í þetta. Ég velti fyrir mér hvort Ísland væri í betri stöðu hvað varðar erlendar skuldir ef hrunið hefði ekki orðið? Mér hefur sýnst að skuldsetning heimila og fyrirtækja hafi verið það mikil undanfarin ár að ég velti fyrir mér hvort landið væri ekki mjög illa statt hvort sem er?
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 20.11.2010 kl. 03:14
"Staðreyndir málsins eru að með krónuna sem gjaldeyri munum við ekki geta greitt erlendar skuldir okkar nema einhver seðlabanki hreinlega kaupi 2 - 3 þúsund milljarða af krónum (ef ekki meira) af Seðlabanka Íslands og láti evrur í staðinn. Gjaldeyrisforðinn verður aldrei nógu stór til langframa til að standa undir greiðslum erlendra lána þjóðarinnar. Eina leiðin er að taka upp gjaldmiðil sem er gjaldgengur um allan heim."
Þetta er sennilega alveg rétt hjá þér, Marínó. Staðreyndin er líklega sú að áríð 2007 og nokkur ár þar á undan seldu Íslendingar í raun sjálfstæði þjóðarinnar til að fjármagna flottræfilshátt á borð við lúxusjeppa og þar fram eftir götunum. Nú erum við í þeirri ömurlegu stöðu að ver nánast neidd til "að taka upp gjaldmiðil sem er gjaldgengur um allan heim." Engin mun koma og gefa okkur þennan gjaldmiðil. Í skiptum fyrir hann fer líklega sjálfstæði þjóðarinnar.
Hörður Þórðarson, 20.11.2010 kl. 03:42
Blessaður Marínó.
Hjó eftir einu í innslögum þínum hér að ofan, að gjaldgengur gjaldmiðill væri eina leiðin til að þjóðin gæti staðið í skilum með erlend lán sín. Get ekki að því gert að mér finnst þú vera komin í mótsögn við sjálfan þig.
Í þessum pistli, og öðrum mjög svipuðum, þá hefur þú fært rök fyrir að "rekstrarafgangur" heimilanna standi ekki undir skuldsetningu þeirra. Burtséð frá sanngirnisrökum um að aflétta Hrunskuldum verð og gengistryggingar, þá er það kalt raunsæi að heimilin standi ekki undir slíkum skuldum, ekki ef forsenda reksturs þeirra sé að fólk hafi fyrir nauðsynlegum útgjöldum, geti lifað mannsæmandi lífi.
Svo maður einfaldi, þá þarf bilið milli tekna og nauðsynlegra útgjalda, að duga fyrir skuldum, annað er bein ávísun á gjaldþrot.
Ég get ekki að því gert að ég tel að sama lögmál gildi fyrir rekstur þjóðfélaga, að heildartekjur þeirra, að frádregnum nauðsynlegum kostnaði sem fellur til við verðmætasköpun og grunneyðslu nútímaþjóðfélags, sé sú tala sem þau hafi til ráðstöfunar til að greiða að lánum sínum til annarra þjóðfélaga, kallast viðskiptaeittvað.
Nú heldur þú því fram að svo sé ekki, heldur sé þetta aðeins spurning um þann gjaldmiðil sem er notaður innan viðkomandi þjóðfélags, ekki hvað þjóðfélagið hefur í afgang til að borga erlendum aðilum.
Ef þetta er rétt, þá ætti til dæmis Kaliforníuríki að vera í góðum málum, ef það tekur upp jen eða evru, þá fær það gjaldgengan alþjóðlegan gjaldmiðil, og getur greitt allar sínar skuldir með honum, eða er það ekki????
Eða er málið aðeins flóknara??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.11.2010 kl. 10:46
Ómar, ég sagði við nemendur mína í gamla daga "ef þið skiljið mig ekki, ekki misskilja mig".
Staðreyndir málsins eru að erlendar skuldi þjóðarbúsins eru á fimmta þúsund milljarðar. Afgangurinn af viðskiptum við útlönd þarf að vera a.m.k. 2-300 milljarðar til ráða við hógværa vexti af þeirri tölu, hvað þá afborganir. Þessi afgangur hefur í allra bestu árum verið að slaga í 100 milljarða. Ef við værum með alþjóðlega gjaldgengan gjaldmiðil, þá gæti seðlabankinn einfaldlega prentað peninga til þess að brúa bilið.
Þetta snýst ekki um getu þjóðfélagsins til að greiða vegna þjóðartekna, heldur aðgang að takmarkaðri auðlind, sem er gjaldeyrir. Það mun ekki duga að tæma gjaldeyrisvarasjóð landsins, nú erlendar eigur þjóðarbúsins eru í eigu annarra en skulda, þannig að semja þarf við þá um að selja. En hvernig sem fer, þá mun þetta ástand geta skapað einangrun eða a.m.k. hægt mjög mikið á uppbyggingu. Þó svo að hér komi inn erlent fjármagn í stórum stíl, þá færist það debet og kredit á þjóðhagsreikninga. Allur peningur sem kemur inn með þessum hætti myndar skuld á móti sem vill fá ávöxtun og að lokum vill fara út.
Marinó G. Njálsson, 20.11.2010 kl. 12:47
Viðbót: Fyrir utan að mjög stór hluti erlendrar fjárfestingar fer út úr landi í formi erlends kostnaðar við fjárfestinguna. Því er gríðarlega mikilvægt, að verði farið í erlenda fjárfestingu, að laun vegna þeirra framkvæmda verði eftir hér á landi. Það voru líklegast stærstu mistökin við Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði, að ekki varð nægilega stór hluti af framkvæmdakostnaðinum eftir hér á landi. Peningurinn flæddi of frjálslega úr landi.
Marinó G. Njálsson, 20.11.2010 kl. 12:51
Blessaður Marínó, held að ég hafi skilið þig alveg, og því miður er grunnforsendan, sem lætur dæmið ganga upp, röng. En ég vildi láta þig segja hana að fyrra bragði.
Það er sá sem gefur út myntina, sem prentar. Í því liggur diffinn.
Þess vegna getur Bandaríski Seðlabankinn bætt við sig skuldum, hann hefur leyfið til að þynna út silfrið, reyndar að ákveðnu marki.
Við höfum það ekki, við getum bara notað dollarann, ekki gefið hann út. Sami vandi hrjáir Kaliforníuríki, það prentar ekki dollarana, þess vegna þarf það að skera svona mikið niður, eða þá auka tekjur sínar. Þó notar það alþjóðlega viðurkennda mynt.
Ég er ekki að taka afstöðu til myntar, til lengri tíma má færa rök fyrir að það er betra að nota gjaldmiðil sem aðrir vilja, en það er engin töfralausn í dag.
Við sem þjóð borgum ekki meira en við öflum, alveg óháð þeirri mynt sem við notum. En í dag verndar krónan innlenda hluta hagkerfisins, því hún er viðskiptamynt þess.
Ef við hefðum evru, þá myndu öll viðskipti stöðvast út af peningaskorti, það færi meira út en kæmi inn.
Eða það held ég.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.11.2010 kl. 13:02
Ómar, enn misskilur þú það sem ég segi. Ég er að tala um, að væri krónan alþjóðlega viðurkenndur gjaldmiðill. Ég er ekki að tala um að við værum með evru. Rökstuðningur minn stendst því alveg.
Marinó G. Njálsson, 20.11.2010 kl. 14:20
Varla held ég það Marínó, ekki nema orðalagið sé ekki að túlka hugsun þína, "Nú erum við í þeirri ömurlegu stöðu að ver nánast neidd til "að taka upp gjaldmiðil sem er gjaldgengur um allan heim." Að taka upp gjaldmiðil er eins og raunveruleikinn er í dag, að skipta um gjaldmiðil.
Vissulega er hægt að breyta eðli krónunnar og gulltryggja hana, en það dygði skammt, kannski sem gjaldmiðil fyrir Akureyri.
Staðreyndin er sú eins og við vitum báðir, að það eru fáir gjaldmiðlar í dag sem eru "alþjóðlegir", og aðeins ein smáþjóð er með slíkan, Svisslendingar. En sú mynt er svo smá, að hún er ekki notuð í alþjóðlegum viðskiptum, hún myndi hrynja um leið, því á bak við hana er fjárhagur Svissneska ríkisins, og í alþjóðlegu samhengi þá er hann ekki stór.
Ef við viljum að krónan okkur fái sama stadus, þá þarf traustan eignagrunn, og hann er ekki tekinn upp úr hatti töframannsins, ráðdeild og alþjóðleg bankastarfsemi og áratuga uppbygging, skýrir stöðu Svissenska frankans.
Þetta er bara veikleiki hugmyndarinnar, hún er ekki raunhæf, ekki í dag.
Vegna þess að allt sem þú segir um forsendur þess að geta borgað skuldir, líka í innslögunum til mín, er rétt. Rökstuðningurinn þinn stenst alveg, nema töfralausnin, viðsnúningurinn í alþjóðlega mynt. Það eru aðeins örfáir Seðlabankar sem prenta slíkar myntir, og Seðlabanki Íslands verður seint einn af þeim.
Þú verður alltaf að afla meira en þú eyðir, ef þú ætlar að borga skuldir. Hlutur sem íslensk stjórnvöld skilja ekki, skilja ekki að sá sem bara borgar skuldir, hann veltur ekki í hagkerfinu, og þar með dregst það saman, og þar með greiðslugeta fólk vegna tekjuminnkunar og aukningar á atvinnuleysis vegna samdráttarins.
Og við þurfum líka að skilja að gjaldmiðillinn er ekkert annað en eining sem tjáir kaupmátt þjóðfélagsins. Það skiptir engu hvað við köllum hann.
Þess vegna þurfum við að læra að gera gott úr þvi sem við þó höfum, og hlaða ekki óþarfa skuldum á þjóðfélagið, það er nóg samt.
Sem skýrir andstöðu mína við AGS og ICESave, við öflum ekki tekna til að borga þessi lán, við höfum þegar skuldsett okkur upp í rjáfur, og þær skuldir þarf að semja um og reyna að greiða niður, án þess að stöðva allt í þjóðfélaginu.
Sama lógík og gildir gagnvart heimilunum, það verður að gera þeim kleyft að borga sínar skuldir án þess að allt hrynji.
Ég tel að þetta sé bara sama raunsæið Marinó. En þú mátt endilega leiðrétta mig ef orðalag þitt gaf tilefni til misskilnings, og þá hvað þú átt nákvæmlega við með alþjóðlegum gjaldmiðli, því í kjarnanum tel ég okkur vera tala um saman hlutinn.
En það er þessi útgangspunktur, hann þarf ekki alltaf að vera á sama staðnum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.11.2010 kl. 14:47
Ómar Geirsson, þú ert reyndar ekki alveg að skilja hvað það þýðir að vera í myntbandalagi annarsvegar og að taka upp gjaldmiðil einhliða annarsvegar.
Þú talar um California geti tekið upp evru svo lengi sem þeir eru með jákvæðan vöruskiptajöfnuð. Þetta er aðeins rétt að því leyti að vöruskiptajöfnuður væri alltaf jákvæður, að fólk og fyrirtæki mundi trúa að Californíuríki muni hafa aga til að ráða við þetta verkefni, og að aldrei væru kreppur.
Bankar í Californíu gætu til dæmis ekki sótt í hirslur Evrópska seðlabankans eins og bankar eru nú að gera í gríð og erg í ESB. Þannig þyrfti Californíuríki að taka lán til að lána bönkunum, ef bankarnir færu síðan á hausinn, þá sitja skattborgarar eftir með lánin. Í öðru lagi þá myndi þetta setja Californíu miklar skorður hvað varðar útþenslu og uppbyggingu(til dæmis eins og Kárahnjúkavirkjun á íslandi) þar sem þeir þyrftu í raun alltaf að eiga fyrir allri uppbyggingu sem gæti reynst slæmt þegar þarf að örva atvinnulífið í kreppu. Á krepputímum þá væri líka mjög líklegt að markaðurinn myndi missa trú á að Californíu tækist að halda velli þar sem þeir hafa engann aðgang prentvél að aðgengi að ECB, þannig gæti fólk og fyrirtæki gert áhlaup á bankanna, en þá er varasjóðurinn fljótur að tæmast og gæti endað með að bankar standa tómir eftir þegar fólk vill fá peningana sína.
Jón Gunnar Bjarkan, 20.11.2010 kl. 15:00
Marinó,
Nei við erum alls ekki bættari með það að vanskil hafi verið há um 2004. En ég er bara að benda á þetta í því samhengi að fjölmiðlar eru að bera þessi ár saman og þannig reyna að gera lítið úr núverandi ástandi. Núverandi ástand er ólíðandi óháð því hvernig hlutirnir voru áður.
Og þótt svo hlutirnir hafa alltaf verið einhvern veginn þá þýðir ekki að þeir þurfa alltaf að vera þannig áfram.
DD (IP-tala skráð) 20.11.2010 kl. 15:02
Ómar, ég geri mér grein fyrir að krónan verður aldrei alþjóðlegur gjaldmiðill. Þú getur alveg talað um veikleika og ég viðurkenni þá.
Ef við aftur tökum upp annan gjaldmiðil, þá mun aukinn hagvöxtur nýtast til að greiða niður erlendar skuldir. Hagvexti fylgir jú aukið peningamagn í umferð og þar með peningur til að greiða erlendar skuldir. Neikvæðu áhrifin eru að við getum ekki nýtt hagvaxtaraukninguna til að bæta lífskjör á meðan.
Þjóðarframleiðsla er líklegast nóg til að standa undir skuldunum. Aukning hennar um nokkur prósent á ári (á föstu gengi) mun því bæta stöðu þjóðarbúsins til að standa í skilum. En þá má framleiðslu aukningin ekki verða með tilstilli erlendrar lántöku.
Þjóðarbúið er í sömu stöðu og skuldsett heimili. Núverandi greiðslugeta (með krónuna sem mynt) er ekki nægjanleg til að standa undir greiðslubyrði lána. Það eru þrjár leiðir út úr vandanum, ein er gjaldþrot, önnur er verulegur samdráttur í neyslu og hin þriðja er meiri lántaka með von um að framtíðartekjur aukist nægjanlega til að standa undir aukinni greiðslubyrði. Mér sýnist gjaldþrot þjóðarbúsins ekki vera kostur og frekari lántaka ekki vænleg leið. Þá er þriðji kosturinn eftir, sem gæti þýtt innleiðingu innflutningshafta, en með því erum við að brjóta EES reglur. Hinn grákaldi veruleiki er því, að við verðum á næstu 5 árum að kasta krónunni og taka upp evru, dollar eða einhverja aðra alþjóðlega mynt eða, eins og ég benti á í upphafi, sannfæra einhvern seðlabanka um að kaupa 2 - 3 þúsund milljarða af krónum af okkur, svo hægt sé auka gjaldeyrisvaraforðann sem því nemur.
Marinó G. Njálsson, 20.11.2010 kl. 15:08
Ég hef sagt að krónan geri öll okkar mál verri, og að kreppan hér á íslandi sé miklu erfiðari að eiga við en sú sem stendur nú yfir í ESB. Vil ég aðeins nefna gengisfellingu sem spekingarnir hérna tala mjög um að sé svo góð fyrir efnahaginn, copy og paste frá öðrum spjallaþræði:
Nú má halda því fram að gengisfelling sé góð fyrir stórar þjóðir eins og Bandaríkin, þýskaland eða Kína. En þetta á engann veginn við þjóð eins og Ísland. Og hvers vegna segi ég það:
Nú skulum við taka dæmi. Neytendur verða alltaf neytendur, hvort sem gengið fellur eða ekki. Íslendingar fara ekki að lifa á lambi og lopa bara af því að gengið fellur.
Nú skulum við taka dæmi um Þjóðverja og Íslending, Evran fellur og Krónan fellur. Þjóðverjinn fer þá meira og meira að flytja sig yfir í "innlendar vörur". Þetta þýðir að í staðinn fyrir að kaupa Bandarískan flutningabíl, japanskan síma, Rússneska herþotu og svo framvegis, þá fer hann að kaupa Volkswagen, Siemens síma eða Eurofighter herþotu. Nú, þar sem hann er´i evrunnui, þá gæti hann þess vegna keypt Renault, Nokia og Jas Gripen. Þetta er auðvitað mjög einfalt dæmi. En íslendingar framleiða engar kaffikönnur, ostaskera, eldhúsinnréttingar, flugvélar, bíla, sígarettur eða hvað það er nú. Þessi sami íslendingur er nauðbeygður til að kaupa þessar vörur á hærra verði, í staðinn fyrir að snúa sér yfir í innlenda ódýarari framleiðslu sem skapar vinnu fyrir íslendinga.
ÞAR AÐ AUKI., þa er í smáþjóðum eins og íslandi lítil samkeppni, þannig að meira segja innlendu vörurnar fylgja ekki verðþróun. Til dæmis man ég eftir því þegar rannsókn kom út um að íslenskar landbúnaðarafurðir hefðu hækkað MEIRA heldur en innfluttar einfaldlega vegna lítillar samkeppni, hærri skulda fyrirtækja(til dæmis bænda) og hærra verðs á innfluttum vörum(traktor, spenamaskínur og fleira).
En hver er þá aðalútflutningsverðmæti íslendinga. Fiskurinn. Nú hækkar reyndar verðið á fiskinum, en útgerðirnar eru þegar ofurskludsettar í erlendum gjaldeyri. Þannig að launakostnaðurinn hjá fyrirtækijum lækka miðað við tekjur, en allar skuldir aukast. En fiskurinn er takmörkuð auðlind, þeir geta ekki einfaldlega lækkað verð til að verða samkeppnishæfari og farið að framleiða miklu meira eins og til dæmis Volkswagen. þannig skapar þessu gengislækkun enginn ný störf í sjávarútvegi þar sem veiðin er auðvitað sú sama. Þeir geta veitt það sama, fá reyndar hærra verð fyrir vöruna, en skulda líka helmingi meira. Sama með álið. Álverið hefur ákveðna framleiðslugetu á ári, og því skiptir engu máli hvort gengið lækkar eða hækkar, það er ekkert hægt að auka störfum í álverunum, því þá þarf að byggja nýja virkjun, og ef það er gert, þá gæti þess vegna krónan verið kominn í einn á móti 60 dollara aftur. Sveiflurnar eru einfaldlega svo miklar að fyrirtæki vita ekki hvort þau eiga að sitja eða standa. Erlend álfyrirtæki hirða þannig hagnaðinn af þessar gengisfellingu en það skapar enginn ný störf með þeim margfeldisáhrifum sem það hefur í för með sér. Sama með ferðaþjónustu, það er ekki hægt að auka ferðamenn um 100% á einu ári bara vegna þess að gengið lækkaði, því hvar eiga þessir ferðamenn að gista? Við gætum svo sem tekið helling af lánum og byggt fullt af hótelum, en þá gæti krónan vegna þenslu verið farin á uppferð aftur og þá er orðið offramboð á hótelum sem myndi læka verðið á þessum hótelgistingu jafnvel þótt þau fóru í uppbygginguna með því markmið að auka tekjurnar.
Bottomline is, Flest fyrirtæki í útflutningsstarfsemi á íslandi eru skuldsett í erlendum gjaldeyri og langstærstur af þessum iðnaði(fiskur, ál og ferðamannaiðnaður) hefur aðeins takmarkaða útþenslu hvað varðar tekur. Þar af leiðandi hefur fallandi gengi nánast enga búbót fyrir þessi fyrirtæki(allavega þau skuldsettustu þar sem greiðslur af erlendum lánum verður þeim ofviða vegna fallandi gengis). Jafnvel þó sum af þessum fyrirtækjum græði aðeins meira, þá er það varla að skapa nein störf þar sem afurðin sem þeir eru að selja er takmörkuð og vegna gjaldeyrishaftana, þá er mjög um það að gjaldeyrirstekjurnar eru ekki að skila sér aftur til landsins, með öðrum orðum, fyrirtækin hafa ekki trú á markaðnum.
Það væri annað ef stærstu þjóðartekjur íslendinga væru eins og í þýskalandi, iðnaðarframleiðsla frá a til ö. Þar sem ef gengið myndi minnka, nú þá myndi Siemens, Volkswagen, MAN, EADS og fleiri fyrirtæki geta lækkað verð og aukið framleiðslu um allan helming.
Fyrirtækin sem eru undanskilin þessum rökum sem ég var að telja að ofan, eru fyrirtæki eins og CCP, Marel, Össur. Þetta eru gullnámur íslendinga. Gengið lækkar, þessi fyrirtæki geta lækkað verð en aukið við störf og farið að framleiða meira. En MEIRA SEGJA ÞESSI FYRIRTÆKI eru algjörlega andstæð krónunni þar sem hún fer með ársreikninga þessara fyrirtækja í algjörar rússíbanaferðir og algjörlega ómögulegt fyrir þau að gera áætlanir í framtíðina.
Þannig að gengisfelling sem við gengum í gegnum er slæm fyrir landið í HEILD sinni. Stuðningsmönnum krónunnar hefur á snjallan hátt tekist að snúa umræðunni á hvolf með því að í cherry picking leiðangur, fara til Rúmeníu og taka þjóðarframleiðsluna þar, samdrátt í Eistlandi, fjármagnshalla í Irlandi, atvinnuleysi í Póllandi og komast að þeirri niðurstöðu að við stöndum okkur ágætlega miðað við þessar þjóðir.
En staðreyndin er sú að við erum að ganga í gengum ALLT Í SENN:
1. Mörg hundruð prósenta aukning atvinnuleysi.
2. Margra tuga prósenta hækkun á ríkisskuldum.
3. Margra tuga prósenta lækkun á kaupmætti.
4. Fimmfalda stýrivexti en á evrusvæðinu.
5. Gríðarlegan samdrátt á þjóðarframleiðslu.
6. Algjörlegan flótta alþjóðlegra fjárfesta(ekki verið minni erlend fjárfesting hér í marga áratugi).
7. Mikinn landflótta of menntuðu fólki(kemur í hausinn á okkur seinna).
8. Alveg ótrúlega aukningu á skuldabyrði heimila(merkilega reyndar í sögu sögu vesturlandaþjóða).
9. Mjög mikinn fjárlagahalla.
10. Mikla stjórmálakreppu.
Það er hægt að tína einn til 5 hluti úr þessum lista frá verst stöddu þjóðum ESB, en það má vera öllum ljóst að við erum að taka langtum verri skell en allar aðrar þjóðir, svo við tölum nú ekki um þjóðir eins og Norðurlöndin, Þýskaland, Holland, Belgía og Lúxembourg sem hafa nánast allt sitt á hreinu.
Takið til dæmis eftir að á þessum lista þá eru gríðarlegar launalækkanir, gríðarleg aukning skulda heimila(bæði vegna erlendra lána sem hækkuðu í verði, og meiri verðbólgu vegna fallandi gengis og hækkandi verðlags) og miklu hærri stýrivextir hér. Þessi þrjú atriði eiga ekki við í neinu einasta Evruríki.
Takið til dæmis eftir þegar menn fussa og sveia yfir miklu samdrætti í Eystrasaltinu. En ekki minnast þeir á að þjóðarskuldir Eistlands er ekki nema 7% af þjóðarframleiðslu, sambærilegir reiknir setja okkur yfir 100%. Þannig að þjóðarframleiðsla Íslendinga drógst aðeins minna saman en jók skuldir um marga tugi prósenta, kominn yfir 100% þar sem við vorum áður með nánast skuldlausan ríkissjóð.
Menn gætu svo bent á fjárlagahallan á Írlandi en láta vera að minnast á að inn í þeim tölum er innspýting írska ríkisins í bankakerfið. Þetta er bara spurning um aðferðafræði. Til dæmis er gjaldþrot Seðlabanka Íslands vegna taps á ástarbréfum okkar bankakreppu ekki inn í fjárlagahallanum og ég efast reyndar um að trygging okkar á tómum sjóðum bankanna og jafnvel önnur innspýting sé í fjárlagahallanum.
Svona gengur þessi cherry picking leikur út á að rugla almenning og að breiða yfir raunverulegan skaða sem krónan olli okkur.
Jón Gunnar Bjarkan, 20.11.2010 kl. 15:15
Blessaður Marínó.
Ætli við séum ekki að tala okkur saman, vissulega ert þú að tala um að taka upp nýjan gjaldmiðil.
Og þá lýtur hann þeim lögmálum sem ég held að við séum sammála um, að hann ræðst af framboði og eftirspurn. Ef eftirspurn í formi skulda er meiri en innflæði hans, þá þornar hann upp. Það er ekki flóknara.
Þá komum við að tveimur forsendum þínum.
Það gefur okkur enginn, 2.000-3.000 milljarða, en aðild að myntbandalagi Evrópu, þýðir gjaldmiðlaskipti, þar með erum við að tala um Evru og Evrópusambandsaðild. Ef skipt er á núverandi skítalífskjörum, þá eru forsendur hagvaxtar í formi ódýrs kostnaðar.
Hin forsendan er að gjaldmiðlaskipti leiði sjálfkrafa til hagvaxtar. Það er vægast sagt hæpið, sé ekki sjálfvirknina í því. Þróað, menntað smáhagkerfi getur vissulega notað sér aðgang að stærri markaði, og þar sem viðskiptahindranir í formi annars gjaldmiðils hafa alltaf í för með sér kostnað, þá er það allavega jákvætt.
En eykur aðild innflutning???? Hvað með fjármagnstilfærslur frá gjaldþrota bönkum í örugga banka, til dæmis svissneska???? Í mínum huga er það ekki spurning að fjármagn muni leita úr landi, fái það til þess minnsta tækifæri. Og það er ógrynni af bólukrónum sem langar út.
Að vanmeta þessa áhættu er bein ávísun á þjóðargjaldþrot. Munum að forsendan er að viðskiptajöfnuður aukist, ekki minnki, svo hægt sé að greiða niður skuldir.
Hvað segir sagan???'
Argentína veðjaði á eigin gjaldmiðil, og náði tæplega 10% hagvöxt 5 ár í röð. Jaðarsvæði ESB stefna í gjaldþrot þrátt fyrir Evruna. Hvað segir það okkur??
Ég skal svara því, að ekkert er eins og það sýnist, ekkert er öruggt í þessum heimi.
En gengur smámynt í hinum stóra heimi, þá er ég að meina almennt séð??? Hún er allavega mjög viðkvæm fyrir spákaupmennsku, og ef fjárflæði er frjálst, þá á hún alltaf erfitt uppdráttar.
Plúsar og mínusar, en í mínum huga í dag er það öruggt að aðeins höft halda okkur á floti, alveg þangað til að við erum tilbúin að skattleggja bólukrónuna og fjármagnsflutninga út úr landi. Það er nefnilega ekkert eðlilegt við núverandi ástand.
Hvorki hér, eða út í hinum stóra heimi.
Og eina svarið er að gera öllum kleyft að borga skuldir sínar án þrælalífs, það gildir líka um þjóðir.
Og það er pólitík.
Og pólitík mun leysa vanda okkar, ekki gjaldmiðlaskipti. Þau eru aðeins tæki, ekki lausn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.11.2010 kl. 18:07
Sæll Marinó,
Staðreyndin er sú að Ísland ER gjaldþrota og Íslendingar sitja nú í þrotabúi sem bíður eftir að allar eignir verði gerðar upptækar.
Þetta er orðinn hlutur og ekkert hægt að gera, þjóðin hefur tapað fjárræði og sjálafstæði sínu.
Axel Pétur Axelsson, 25.11.2010 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.