Leita í fréttum mbl.is

Úrsögn úr stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Vegna ítrekaðrar hnýsni fréttamanna í mín einkamál, sé ég mig tilneyddan til að segja af mér stjórnarmennsku í Hagsmunasamtökum heimilanna. Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans, og Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Fréttatímans, hafa ákveðið að mínar skuldir séu söluvara.  Hafa þeir ákveðið, þrátt fyrir óskir um hið gagnstæða, að birta frétt um skuldastöðu mína og konu minnar í næsta tölublaði.  Mér finnst þetta frekleg innrás í mitt einkalíf og konu minnar sem hefur það eitt sér til sakar unnið að vera gift mér. 

Ég kýs að segja mig úr stjórn HH til að freista þess að verja fjölskyldu mína fyrir frekari hnýsni af þessum toga. Ég gaf konunni minni loforð um að gera það, ef til svona hluta kæmi.  Þar sem ég er maður minna orða, þá stend ég við það.

Þeir félagar, Óskar og Jón, bera fyrir sig furðulegum rökum, m.a. um að ég sé "opinber talsmaður þrýstihóps um niðurfellingu skulda".  Bara þetta eina atriði sýnir hvað Fréttatíminn hefur lítinn skilning á baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna.  Það er himinn og haf á milli þess að berjast fyrir leiðréttingu á þeim forsendubresti sem varð vegna aðgerða innan við 100 einstaklinga í undanfara hruns íslenska hagkerfisins og biðja um niðurfellingu skulda.  Hvergi í málflutningi HH er farið fram á niðurfellingu skulda.  Auk þess er ég ekki opinber talsmaður samtakanna heldur hafa fjölmiðlar mjög oft samband við mig.  Kannski tala ég skýrar en aðrir í stjórninni eða er bara skemmtilegri, ég veit það ekki, en ég hef aldrei óskað eftir viðtölum og margoft vísað þeim á aðra stjórnarmenn fyrir utan að fjölmiðlar snúa sér líka beint til annarra stjórnarmanna. Sé einhver opinber talsmaður samtakanna, þá er það formaðurinn.  En hann er víst ekki nógu spennandi umfjöllunarefni, þar sem hann býr bara á hæð í austurbæ Reykjavíkur.

Við svona menn er ekki hægt að rökræða og mun ég ekki gera það. 

Ég hef unnið af heilindum í mínu starfi fyrir HH.  Ég mun ekkert hætta að berjast fyrir því sanngirni og réttlæti sem öll vinna mín og HH hefur snúist um. 

Hagsmunagæsla snýst mjög oft um að maður sjálfur þekki málin á eigin skinni.  Þannig eru besta baráttufólk gegn fíkniefnaváinni aðstandendur fíkla.  Ekki kannast ég við að þeirra sögur séu dregnar fram í sviðsljósið í óþökk þeirra.  Harðasta baráttufólk fyrir rétti samkynhneigðra er samkynhneigt fólk.  Það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það að þeir sem eru í hagsmunabaráttu séu m.a. að gæta sinna eigin hagsmuna.  Ég reikna t.d. með því að fjölmiðlar muni hafa skoðun á frumvarpi til fjölmiðlalaga.  Þýðir slík barátta að maður sé að skara eld að sinni köku?  Í mínu tilfelli er ekki um það að ræða.  Allar þær leiðréttingar sem ég gæti fengið miðað við ýtrustu tillögur HH er langt fyrir neðan allar meðaltalsupphæðir.  Það breytir samt ekki því að meðan lög skylda mig ekki til að bera skuldatölur mínar á torg, þá vil fá að njóta friðhelgi einkalífs míns.

Ég geri mér grein fyrir að hægt er að nálgast alls konar upplýsingar í opinberum bókum.  Tilgangurinn er að tryggja lagalegan rétt fólks til að verja sig.  Hlutverk þinglýsingabóka er að tryggja að einhvers staðar séu skráðar kvaðir á eignum.  Hlutverk þeirra er ekki að svala forvitni manna.  Ég verð að viðurkenna, að mér hefur alltaf fundist svona hnýsni aumkunnarverð og enginn munur vera á henni og því að leggjast á glugga hjá fólki.

Ég mun halda áfram að vinna með stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna að þjóðþrifamálum, auk þess sem ég mun hafa meiri tíma til að sinna viðskiptavinum ráðgjafaþjónustu minnar, sem margir hafa sýnt tímaleysi mínu mikinn skilning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er slæmt mál og mikill missir af þér Marinó. Vissulega má segja að maður komi í manns stað en það er óhætt að fullyrða að fáir munu fara í þín föt við hagsmunagæslu lánþega.

Þessar árásir eru Jóni og Óskari til skammar. Ef það þeir sem berjast fyrir rétti lánþega mega ekki skulda, má þá til dæmis fréttamaður vera formaður blaðamannafélagsins?

Ég vil þakka þér gott og óeigingjarnt starf og vona innilega að þú endurskoðir þessa ákvörðun. Að minnsta kosti að þú haldir áfram að kryfja málin hér á þessari bloggsíðu.

Gunnar Heiðarsson, 18.11.2010 kl. 16:03

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þú ert opinber talsmaður þess að skattborgarar taki á sig skuldir sem þeim ekki ber og því ekki óeðlilegt að við skattgreiðendur viljum vita um hvað málið snýst.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.11.2010 kl. 16:20

3 identicon

Þótt ég hafi nú ekki alveg verið sammála öllu sem þú hefur sagt,þá grunaði mig þetta að þú eða einhver í þessum samtökum yrði keyrður niður og gert lítið úr honum.

Málið er að stjörnvöld þora ekki að taka þessar ákvarðanir, sem bæði þið og Lilja Mósesdóttir hafa verið að benda á.  það myndu nú ekki margir íslendingar standa í svona kauplaust. Gerðu þér líka grein fyrir að þeim Jóni Kaldal og óskari er borgað fyrir að gera þetta, enda voru þeir báðir leigupennar Jóns Ásgeirs og fjölskyldu.

albert (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 16:23

4 Smámynd: Eiríkur Mörk Valsson

Þetta er vont mál. Þú ert búinn að skila góðu verki, Marinó, og rúmlega það. Trúi og vona að þú hættir samt ekki með pistlana þína, margir þeirra finnst mér ómetanlegt innlegg í baráttuna.

Eiríkur Mörk Valsson, 18.11.2010 kl. 16:25

5 identicon

Svo fór sem mig grunaði og er mikill missir af þér. Vonandi lætur þú þó ekki rödd þína þagna.

Það væri gaman að sjá skuldastöðu þeirra sjálfra og meta þá út frá þeirri fráleitu forsendu.

Ef einungis þeir sem hafa geislabaug og þurfa hvorki mat né drykk mega leggja eitthvað til málanna þá fer væntanlega að fækka í hópi mótmælenda.

Það er athyglisvert að þessum aðilum þyki svo nauðsynlegt að almenningur viti fjárhagsstöðu þína og gerðir. Ég hafði vonast til að menn yrðu dæmdir af því sem þeir segðu og gerðu. 

Vonandi verður þetta metsala á blaðinu því sá hlýtur að vera tilgangurinn .... eða hvað ? Í því árferði sem er þá óneitanlega spyr maður sig um hvort annað vaki að baki.

Hlynur Jörundsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 16:28

6 identicon

NEI Marinó, þú segir ekki af þér, biðjum þig fyrir allamuni að þú endurskoðir ákvörðun þína kyrfilega, fréttamenn sem hnýsast í einkamál eru hrægammar með annarlegar kvatir og fyrir þeim á ekki að beygja sig, né láta þá hafa áhrif á sig hverju formi sem þær nefnast.

Þetta téða blað "Fréttatíminn" mun aldrei koma í póstlúguna á okkar heimili meir, ég mun sjá til þess með öllum ráðum, og vonandi gera það fleiri. Stöndum öll saman gegn svona "fréttamensku"

Kristinn M Jónsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 16:30

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Marinó ég er sammála því að það kemur engum við fjármál þín, þetta er soralegt mál og segir manni bara í hvaða pytti við erum, þar sem ráðamenn í samfélaginu stjórna öllu bak við tjöldin, etja hundunum á saklaust fólkið sem er að reyna að leiðrétta hag fólks.

Ég vona að þú standir keikur samt sem áður, því við þurfum fólk eins og þig og Láru Hönnu og fleir ef okkur á að takast að komast upp úr þessum drullupolli, og koma þessu fólki frá.  Með baráttukveðjum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.11.2010 kl. 16:31

8 identicon

Sæll Marínó,

Að gefast upp á þessum punkti vegna þessara frétta er ekki gott. Stattu keikur svaraðu þessum árásum og haltu áfram. Það skiptir engu máli þótt þessar skuldir séu orðnar opinberar. Hver skuldar ekki í dag, og hvaða skuldir hafa ekki hækkað á síðustu tveimur árum.

Nei, þessa ákvörðun þína verður þú að endurskoða, og þá í sátt við fjöldskyldu þína. Þú kemur aðeins sterkari til baka. Opinber persóna mun alltaf liggja við höggi. Styrkurinn kemur innan frá. Þessi frétt er aðeins vindur. Þú mátt hvorki láta vind né storm velta þér við.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 16:44

9 Smámynd: Einar Guðjónsson

Heimir,

HH hafa aldrei barist fyrir því að skattborgarar greiði skuldir þeirra. Þá liggur það ljóst fyrir að skattgreiðendur munu ekki borga neinar skuldir nema þær skuldir sem bankamenn hafa stofnað til.

Einar Guðjónsson, 18.11.2010 kl. 16:54

10 identicon

Þó ég hafi ekki alltaf verið sammála þér Marinó þá stend ég með þér og þínum sjónarmiðum í þessu máli og megi Frétttíminn ævinlega skammast sín fyrir að reyna að gera kröfur okkar lántakenda totryggilegar með þessum hætti.

Hafðu miklar þakkir fyrir þína baráttu Marinó

Valsól (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 16:55

11 identicon

Og þar með fer okkar mesta og besta von um að réttlætinu verði náð. Hvet þig til þess að endurskoða þessa ákvörðun þína og er þess fullviss um að þúsundir annarra heilvita íslendinga séu sömu skoðunar.

Bjarni Vestmar Björnsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:00

12 identicon

HH eru hagsmunasamtök og því er óeðlilegt ef stjórnendur þar hafi EKKI þessara hagsmuna að gæta.

En þessir fjölmiðlar ættu að sjá sóma sinn í að draga fram í dagsljósið skulda- og eignastöðu t.d. Alþingismanna sem eiga að vera hlutlausir og ættu því ekki að eiga mikið eða skulda mikið.

En ég hef ekki alltaf verið sammála Marinó en það skiptir engu máli, hann hefur tjáð sig um svo ótal vinkla þá þessum málum  og hruninu öllu.

 Það er synd fyrir almenning og skömm fyrir fjölmiðla að svona skuli fara.

Kjartan Kjartansson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:01

13 identicon

Smá saman þagna raddir réttlætis og gegnsæis. Fjórfokkið heldur áfram að spinna og skara eld að sinni köku á kostnað landsmanna. Eins og ekkert hafi gerst.

Sýnist lítið annað eftir en að hætta að borga. Hér á ekki að breyta nokkrum sköpuðum hlut. Inngróið og gerspillt flokkakerfið mallar bara og mallar. Eins og ekkert hafi gerst.

Senda skal reikninginn fyrir hruninu á lántakendur. Sendur stökkbreyttur beinustu leið inn í framtíðina til næstu 30 til 40 ára. Eins og ekkert hafi gerst.

Takk, en nei takk.

sr (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:03

14 identicon

Þetta er slæmt fyrir HH. Ykkur vantar áberandi og málefnalegan foringja. Það hefur helst verið hægt að skilja þig Marinó af þeim sem hafa komið fram fyrir HH.

Í fyrsta sinn finnst mér þú skjóta yfir markið með blogginu þínu í dag. Finnst þessar útskýringar vera slakar.

Við vitum öll að íslensk þjóð er endalaust forvitin um náungann í næsta húsi, láttu það ekki á þig fá. Nú er um að gera að "semja" við frúnna og taka endanlega við foringjastarfi HH. Ég spái því að annars enda þessa ágætu samtök líf sitt vegna lélegrar framsetningar þeirra sem koma fram fyrir HH.

Kv. SRA

Sveinbjörn Árnason (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:03

15 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þetta er leitt að heyra Marino. Flestir skattborgarar eru skuldarar og öfugt. Þegar fólki er skipað í lið á þennan hátt þá er verið að búa til sýndarheim.

Bæði skattborgar og skuldir heimilanna eru að borga skuldir Björgólfs Thors, Heiðars Más, Weldings, Svövu Grönfelt og fleiri.

Línurnar liggja á milli fjárglæfrafólksins annars vegar og heimilanna hinsvegar sem bera bæði skatta og skuldir.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 18.11.2010 kl. 17:04

16 identicon

Sæll Marínó.

Leitt að heyra að þú ætlir að draga þig í hlé þar sem þú hefur verið ötull í að reyna upplýsa um þessi erfiðu mál.

Hinsvegar verð ég að taka undir með öðrum hér að þar sem þú setur þig í öndvegi þessarar baráttu, þá hefðir þú mátt búast við þessari 'hnýsni' fjölmiðla. 'Hnýsni' þessi mætti jafnvel útskýra sem skyldu fréttamanna um að upplýsa borgara hvort eitthvað meira búi undir málflutningi þeirra sem reyna að hafa áhrif. Það eina sem maður getur óskað, jafnvel krafist, er að það verði gert með heilindum án fyrirliggjandi niðurstöðu blaðamanns/ritstjóra/eigenda í ákveðna átt.

Þakka samt fyrir mig. Hef fylgst með þér í umræðunni og tekið undir margt sem þú hefur sagt.

kv,

Guðgeir Kristmundsson

Guðgeir Kristmundsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:16

17 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sæll Marinó þú hefur fullan stuðning minn haltu áfram á þeirri braut sem þú hefur fylgt og hafðu þakkir fyrir þína baráttu.

Sigurður Haraldsson, 18.11.2010 kl. 17:16

18 identicon

Ef talsmaður samtaka um hag fórnarlamba glæps, getur ekki sjálfur verið fórnarlamb glæpsins án þess að þurfa að þola árásir á sitt einkalíf, að þá er eitthvað mikið að.

Hvað er málið, mega stjórnarmenn HH ekki skulda neitt sjálfir án þess að það sé blásið upp??

En þessir aumkunarverðu leigupennar hafa afhjúpað sig.

Einar (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:24

19 identicon

Þessir kumpánar, Jón Kaldal og Óskar Hrafn dæma bara sjálfa sig lítilmenni.  Hvet alla til að endursenda þeim snepilinn, án þess að lesa hann!

Rannveig Haraldsdóttir (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:25

20 identicon

Marino. Nú finnst mér að þú verðir að hugsa þig betur um, hugsa um allt það fólk sem þú hefur verið að berjast fyrir. Ég trúi ekki að þú hafir einhvern tíma ímyndað þér að þefhundar slúðursins myndu ekki geta þefað upp upplýsingar um hag þinn eins og flestra annara. Ég legg til að þú og fjölskylda þín endurskoði þessa ákvörðun og hafi í huga alla þá sem eru í vandræðum eins og allflestir eru og þú reynir eftir sem áður að vinna að úrbótum sem að gagni koma fyrir þá sem eiga í erfiðleikum. Ef þú heldur að þín staða sé slæm þá líttu til þeirra sem þú ert talsmaður fyrir, þá efast ég að þú sjáir mun.

Baráttukveðja.

T.Agnars (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:26

21 identicon

Djöfull er þetta sniðugt hjá þér. Gerist píslarvottur, auglýsir málstaðinn frítt og þarft ekki að vinna eins mikið núna.

Davíð Páll Jónsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:28

22 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég skora á þig að endurskoða ákvörðun þína, Marinó. Persónulegar árásir á þá sem hafa nægan kjark, fórnfýsi og heilindi til að bera til að taka að sér erfitt verkefni eru því miður allt of algengar í þessu slúðursamfélagi. En þótt rotturnar glefsi þarf stundum að hrista þær af sér.

Þorsteinn Siglaugsson, 18.11.2010 kl. 17:32

23 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

illt er að heyra en það hlaut að koma að höggi fyrir neðan beltisstað.

Þessir menn eru leigupennar fjármagnsins og blaðamönnum til skammar.

Það er rétt afstaða sem þú tekur til loforðsins og eingöngu á færi konunnar að leysa þig undan því. 

Þú hefur unnið frábært starf og við erum öll í mikilli þakkarskuld við þig og fjölskyldu þína. Ef við reynum að sjá björtu hliðina þá er stundum gott að taka sér hlé og safna þreki. Auk þess virðist sem valdhafar taki engum rökum. Því er komið að almenningi að ákveða sig, ætlar almenningur að borga uppsett verð eða mótmæla þangað til komið verður til móts við skulduga. Almenningur getur ekki alltaf setið og beðið eftir því að menn eins og þú fórnir öllu fyrir sig.

Gangi ykkur allt í haginn og takk aftur.

Gunnar Skúli Ármannsson, 18.11.2010 kl. 17:35

24 identicon

Sæll Marinó.

Ég vona að þú endurskoðir þessa ákvörðun þína þó ég virði hana. Skilaðu miklu þakklæti til konunnar þinnar fyrir lánið og þakka þér óendanlega mikið fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir okkur óheppnu kynslóðina. Fréttatíminn lofaði góðu en þessi fréttamennska er út í hött. Fjármagnsvaldið stýrir þeim greinilega líka. Ég get engan vegin skilið hvernig skuldastaða þín kemur nokkrum við en ef þetta er það eina sem þeir finna á þig, og ég er viss um að það hefur verið leitað mikið, þá veit ég varla um heiðarlegri mann. Það er þá sannað.

Ég vona að einhver launi þér vel þá miklu vinnu sem þú hefur lagt á þig og vona að við eigum eftir að njóta visku þinnar og rökfestu áfram.

kveðja

Guðmundur Þór Pétursson

Lánþegi (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:52

25 identicon

Þú mátt ekki vera svona viðkvæmur. Allir sem gerast talsmenn fyrir einhverjum málstað mega búast við spurningum af þessu tagi. Þú skaðar alls ekki HH með því að neita að svara.

Fyrir alla muni endurskoðaðu þessa ákvörðun þína.

Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:54

26 identicon

Sæll Marino.

Ekki láta þetta stoppa þig, þetta eru bara ómerkilegir leigupennar.

Sendum póst á frettatiminn@frettatiminn.is og afþökkum frá þeim blaðið.

Kv.

Snorri Þórisson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:57

27 identicon

Ég gat nú ekki annað en hlegið þegar ég las þetta.  Mikið andskoti er samfylkingin orðin örvæntingarfull.  En það er nú ekki eins og þeir menn sem nú eru sendir á eftir þér hafi mikið orðspor að verja.

Það er verið að undirbúa farveginn fyrir "gerum ekki neitt í skuldamálunum" og svo eru menn að reyna að verja sig gegn "hættulegasta" fólkinu sem gæti hugsanlega dottið í hug að fara í framboð. Sennilega þá gerirðu stjórnmálamönnum mestan grikk með því að fara ekki í framboð, en hafa þess í stað hótunina hangandi yfir þeim.

Það sem er ekki eins hlægilegt í þessu máli er að ég þykist viss um að á mörgum heimilum sértu orðinn að síðastu voninni um að þjóðin sé ekki endanlega farin til fjandans. Það vekur því nokkurn ugg að fara eigi á eftir þér persónulega.  En þú skuldar þjóðinni ekkert, það er þjóðin sem stendur í þakkarskuld við þig.  Ég vona að þú sjáir þér fært að halda áfram baráttunni í sama stíl og hingað til. Það er víst óhætt að segja að sú yfirvegun sem ávalt hefur einkennt þinn málflutning hafi hrisst upp í kerfinu.  

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 17:57

28 Smámynd: Edda Karlsdóttir

Það er alveg ótrúlegt að lesa athugasemd eina hér fyrir ofan:

"Þú ert opinber talsmaður þess að skattborgarar taki á sig skuldir sem þeim ekki ber og því ekki óeðlilegt að við skattgreiðendur viljum vita um hvað málið snýst"

Þessi einstaklingur veit augsýnilega ekki um hvað málið snýst þrátt fyrir mjög mikla umfjöllun undanfarna mánuði. Það mætti halda að þessi einstaklingur væri í ríkisstjórn Jóhönnu!

Þúsundir landsmanna sem álpuðust til að kaupa sér fasteign á árunum 2004 -2008 urðu illilega fyrir barðinu á bankaræningjum nokkrum árum fyrir hrun og aðgerðarleysi stjórnvalda er hrópandi.

Marinó, þú hefur verið ötull talsmaður þúsunda heimila sem lentu í þeim forsendubresti sem varð vegna þeirra sem komu öllu á hvolf hér í þessu þjóðfélagi og átt miklar þakkir skilið fyrir það. Ég vona innilega að þú haldir baráttunni áfram.

Edda Karlsdóttir, 18.11.2010 kl. 17:59

29 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Þú ert flottur Marinó!

Aðalsteinn Agnarsson, 18.11.2010 kl. 18:03

30 identicon

Mér þykir það furðulegt að Fréttatíminn telji ástæðu til að taka stöðu gegn Hagsmunasamtökum heimilanna á þennan hátt og fordæmi ég það.

Ég hvet alla til að skrifa ritstjórn Fréttatímans og afþakka blaðið frá þeim.

Ómar Þorsteinsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 18:07

31 identicon

Sæll Marinó, þér verður seint þakkað ötul barátta og skýr framsetning í þínum málflutningi hér á blogginu og víða öllum lántakendum til góða hér á landi. Hlakka til að heyra áfram í þér og lesa skrif þín. Þau hafa verið ljós í myrki oft á tíðum.

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 18:08

32 identicon

Skelfilegt að heyra þetta ! Marinó þú getur verið mjög stoltur af þinni framgöngu fyrir hönd skuldara landsins ! Hvet alla að senda tölvupóst á þessa menn og mótmæla þessu rusl blaði inn um lúuna.

Sigurður Tyrfingsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 18:10

33 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tek undir athugasemd Gunnars Skúla og geri orð hans að mínum. 

En hér fáum við að sjá einu sinni enn framan í fjórða valdið svonefnt. Ekki er svipurinn frýnni en við mátti búast.

Árni Gunnarsson, 18.11.2010 kl. 18:22

34 identicon

Alls ekki segja af þér.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 18:27

35 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Ég hef afþakkað að fá þetta blað sent heim og tilkynnt þeim að ég muni ekki auglýsa hjá þeim.

Sigurður Sigurðsson, 18.11.2010 kl. 18:40

36 identicon

Þú ert flottur Marinó, þessi árás er staðfesting á því að þú hefur staðið þig vel.  Þú hefur verið málefnalegur, komið málsstaðnum skýrt fram, þorað að hafa þínar eigin skoðanir þó þær hugnist ekki valdhöfunum.  Það eru ekki margir slíkir menn að tjá sig í dag og allir eiga það sammerkt, að það er reynt að moka skít á þá alla - frá fjórflokknum og ríkjandi fjármagns-valdhöfum.

Nú ferð þú í pólitík Marinó - næsti Gnarr! :)

Fréttatíminn er andvana fætt fyrirbæri - hætti strax að auglýsa þar og tala við alla hina grósser-vini mína á næsta spilakvöldi um að gera slíkt hið sama

Grósser (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 18:54

37 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Þetta eru afleitar fréttir.

Ef þú sætir í skuldlausri eign, er næsta víst að einhverjar tungur hefðu snúið áhuga þínum og elju fyrir hagsmunasamtök heimila upp í vafasaman tilgang.

Er þó enn þeirrar skoðunar að; bankastjórar, umboðsmenn skuldara og aðrir sem eiga að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna, eru vanhæfir hafi þeir sýnt persónulegt glóruleysi í fjármálum.  

Það væri þó alveg glórulaust ef húsnæðiskaup til eigin nota á Íslandi, teldust glóruleysi í fjármálum.

Baráttukveðjur

Jenný Stefanía Jensdóttir, 18.11.2010 kl. 19:07

38 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Almenningur og heimilin hafa misst ölfugan talsmann úr fremstu víglínu. Það er ljóst að litið er á þig sem mikla ógn við ákveðin öfl í þjóðfélaginu. Það ber að þakka fórnfýsi þína og tíma í að tala máli okkar hinna. Vonandi kemstu aftur og fljótlega í framvarðasveit réttlætis.

Guðmundur St Ragnarsson, 18.11.2010 kl. 19:10

39 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Slæmt mál félagi!  Heiðarlegt fólk á ekki upp á pallborðið á Íslandi í dag:(  Vonandi heldur þú áfram þinni vinnu með og fyrir HH og eins að upplýsa okkur sveitamennina á blogginu um hvað er að ske í álfheimum á Íslandi;)

Kveðja úr sveitinni í WA;)

PS:  Gestarúmið er sennilega að losna í næsta mánuði;)

Arnór Baldvinsson, 18.11.2010 kl. 19:20

40 Smámynd: Haraldur Baldursson

Fyrir alla muni að myrða sendiboðann !

Orð þín, yfirvegun og gríðarlega sterkur röksuðningur hafa nú gert þig að þeirri hættu að þessi leikur var að verða fyrirsjáanlegur. Litlu peðin í stóru skákinni eru sett þér til höfuðs í þeirri von að þannig megi rýra málstaðinn.

Þig persónulega skil ég mæta vel, en syrgi það heilshugar að þetta sé afleiðingin.

Ég þakka hjartanlega fyrir það sem þú hefur gert fyrir okkur hin.

Megi þér og þinni fjölskyldu allt ganga í haginn og Guð og góðar vættir fylgi ykkur héðan í frá sem hingað til.

Haraldur Baldursson, 18.11.2010 kl. 19:20

41 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég þakka gríðarlegan stuðning og góð orð í minn garð.  Það skal ítrekað að ég er ekki hættur að starfa fyrir HH og alls ekki að málum tengdum skuldamálum heimilanna.  Ég hverf úr stjórn samtakanna og því líka úr sviðsljósi fjölmiðlanna a.m.k. fyrst um sinn.

Marinó G. Njálsson, 18.11.2010 kl. 19:23

42 identicon

Gaur..... þú ert ekkert að fara að hætta sko....

Þú ert búinn að berjast hatrammlega gegn óréttlæti því sem er alltofmikið stundað á Íslandi í þágu þeirra sem eru að blóðmjólka þessa þjóð og hennar auðlindir í sína eigin þágu, oft á tíðum hafa skrif þín og frammistaða veitt mér innblástur og von um að Ísland geti einhverntímann í náinni framtíð staðið með öllum sýnum þegnum frekar en fáum blóðsugum.

Án þinna skrifa og aðgerða væri lífið og framtíðin varla þess virði að hanga áfram á Íslandi vitandi það að framtíðin fæli ekki í sér samstöðu einstaklinga, ég hef ekki áhuga á að lesa um eða fræðast um einkalíf þitt eða fjölskyldu yðar og skil sjónarhorn fjölskyldu yðar, en er menn beita sér fyrir almenning gegn "auðvaldinu" þá er þetta eitthvað sem menn mega búast við. þeas. að árás sé gerð á einkalíf þeirra til að fæla þá frá að opinbera eitthvað sem er viðkvæmt fyrir þá sem andlega ofbeldinu beita.   Hvernig væri að nota krók gegn bragði og afhjúpa ofbeldismennina í staðinn, upplýsa alþjóð um hagi þeirra og tengsl ?      ALDREI GEFAST UPP !!!!!!

Árni Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 19:32

43 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir okkur almenning. Virði og skil ákvörðun þína en vona að þú látir ekki óvandað fólk valta yfir þitt einkalíf. Gangi þér vel og hafðu þökk fyrir þitt góða starf.

Gylfi Björgvinsson, 18.11.2010 kl. 19:37

44 identicon

Þú hefur staðið þig frábærlega og átt þakkir skildar.  Óska þér og þínum farsældar í framtíðinni og vona að þú látir áfram í þér heyra. Skora á fólk sem fær til sín umrætt blað að fleygja því strax, ruslafötur HAGA verslananna væri góður staður til þess.

Jóhann Jóhannsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 19:53

45 identicon

Þetta eru leiðinlegar fréttir - En þrátt fyrir allt, þá finnst mér einmitt vera í plús hjá þér að þú skulir vera skuldsettur og standa frammi fyrir erfiðleikum.

Maður spyr sig hvaða "hvatir" liggja að baki og að hverra "undirlagi" svona einelti er...

Annað sem mér dettur í hug - á meðan ég man... voru þessir blaðamenn ekki atvinnulausir og þurftu að stofna sitt eigið blað til að fá vinnu við fagið... ??

Gangi ykkur hjónunum vel og vonandi snýrðu fljótt aftur.  

Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 20:15

46 Smámynd: Gunnar Waage

Hvernig stendur á því að ekki er ráðist á alla þá sem mælt hafa fyrir tillögum um 20% lækkun á höfuðstól lána? Hvernig stendur á því að útrásarpenninn, Jón Kaldal ásamt ritstjórn amx.is ráðast eins og organdi ljón að Marínó G. Njálssyni í stjórn Hagsmunasamtaka Heimilanna?

Hvað er það í fjármálum Marínós sem þessir aðilar sjá sig knúna til að segja okkur frá fyrst Tryggvi Þór Herbertsson og Sigmundur Davíð eða Þór Saari, fá ekki sínum persónulegu fjármálum dritað í blöðin?

Ég held ég geti lofað því að ef ekki eru hreinir stríðsglæpir sem að Jón Kaldal og félagar hafa grafið upp á Marínó til að hrekja hann úr stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, þá eiga þessir menn ekki von á góðu.

Þess er skemmst að minnast að Jón þessi Kaldal réðst einnig að Evu Joly. Þegar að málin eru skoðuð þá er pólitískur fnykur af þessari ruslatunnu-blaðamennsku.

Þótt margir vilji kannski sjá annað, þá sé ég persónulega skrímslasveit Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hér að verki. Hvaða ástæðu hafa stuðningsmenn Bjarna Ben á amx.is til að ráðast að Marínó og hverjir eru sameiginlegir hagsmunir Bjarna Ben og Jóns Kaldal ritstjóra Fréttatímans?

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 20:18

47 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Æ, alltaf skal úlfahjörðin send á baráttumenn fyrir almannahagsmunum. Það er ekkert nýtt. Glæsileg frammistaða hjá Fréttatímanum að taka viðtal við Finn Ingólfsson í síðasta blaði og taka svo úr umferð einn af ötulustu baráttumönnum heimilanna í næsta blaði. Þetta er ljótur leikur ,,að fara í manninn" en ekki að ræða málin út frá málefnum og rökum. Sorglegt og soralegt innræti ritstjóra Fréttatímans. Er þetta nýja aðferðafræðin að birta skattaframtöl baráttumanna og maka þeirra í blöðunum ef mönnum líkar ekki málflutningurinn? Ég vona að þú látir þetta ekki stoppa þig í baráttunni Marinó því þetta sýnir að þér hefur tekist að koma málstaðnum í gegn.

Jón Baldur Lorange, 18.11.2010 kl. 20:24

48 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Bið þig um að endurksoða ákvörðunina verð að segja það að mér hefur fundist málflutningur þinn vera  vel rökstuddur og illa hrekjanlegur þannig að endilega haltu áfram svo að við sannfærumst ekki um að allir þeir sem rísa upp séu  skipulega kæfðir niður. Síðan er einfaldlega sá möguleiki að svara með sniðglímu á lofti og þú takir að þér að stofna og leiða stjónmálalegan arm sem stofnaður yrði út úr HH til að koma einhverjum jöfnuði á hér á landi. Við hin getum haft hemil á forvitni okkar og afþakkað snepilinn þannig að auglysingagildi hans yrði ekkert.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 18.11.2010 kl. 20:32

49 identicon

Ég styð þig 100% í þinni baráttu Marinó. Línurnar eru að skírast. Fjármagnseigendur ætla að láta skuldara (almenning) borga allt hrunið og niðurfellingar til auðmanna líka.

Almenningur sem skuldar lítið telur sig eiga samleið með þeim öflum.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 20:33

50 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég tek undir með þeim ófáu hér sem vonast til að þú endurskoðir þessa ákvörðun. Enginn sem ég veit deili á hefur sett sig betur inn í þessi flóknu mál en þú. Láttu ekki lítilmannlegar aðfinnslur setja þig út af laginu. Þessi bardagi vinnst hvorki né tapast í einni lotu.

Sigurður Hrellir, 18.11.2010 kl. 20:37

51 identicon

Elsku bróðir.  Það er alltaf reynt að skjóta þá niður sem vinna af mestu heilindum.  Ekki draga þig í hlé á þessum tímapunkti.  Frúin skilur þá ákvörðun líka!  Hamra á járnið meðan heitt er!  Þú veist að sé maður sleginn niður, þá á maður að standa upp aftur.  Það ergir andstæðinginn mest og dregur hraðast úr honum mátt.  Vertu eins og gormurinn, hann sveiflast alltaf upp aftur sama hversu oft menn slá.  Högg á gorminn verður oft að óvæntu höggi frá gorminum!  Megnið af þjóðinni stendur með þér.  Þó að allir viti hvað þú skuldar, er það ekki það versta sem getur komið fyrir mann.  Auðvitað á að láta vita þegar manni mislíkar svona sorafréttamennska.  Fréttatímann hefur þegar sett niður við svona fréttamennsku.  Þú stendur í raun sterkari eftir.  Þinn bróðir Óli.

Ólafur Sturla Njálsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 20:46

52 Smámynd: Gunnar Waage

Mér er alveg skítsama um fjármál Marínós, mér er þó ekki sama um fjármál Jóns Kaldal.

Ég hvet þig Marínó til að láta þessa kóna ekki hræða þig. Það er það sem svona menn kunna, að hræða. Við vel flest hér myndum ekki vilja að okkar fjármál yrðu gerð opinber í þessu árferði en hér spilar Jóp Kaldal ljótan leik sem mun snúast gegn honum sjálfum.

Þín persónulegu fjármál koma þessu ekkert við og það er ekki nokkur leið að fella þetta undir fjármál opinberrar persónu sem eigi erindi við almenning. Ég persónulega myndi láta setja á þá lögbann.

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 21:00

53 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Ég skil og virði þína ákvörðun Marinó , en ég styð þig líka til áframhaldandi baráttu fyrir góðum málstað og gegn græðgisöflunum, ónýtri ríkisstjórn og ég tala nú ekki um , gegn öllum þeim heimska lýð sem vill narta í hæla þína, bæði nafnlaust sem og undir nafni.

Hér á undan eru einhverjir t.d. dæmigerðir fyrir þau þaulheimsku viðhorf sem þú glímir við . 

Undirmálsfólkið sem ekkert getur skilið rétt, en stekkur á hræðsluáróður kjarklausra stjórnvalda og aftaníossa þeirra, má ekki hafa undir þann málstað sem þú hefur verið manna skeleggastur að berjast fyrir.

Það fara fáir í fötin þín hvað rökvísi og kunnáttu varðar og það hræðast þær aumu sálir sem nú siga sínum baknögurum á þig.

Auðvitað er ekkert óeðlilegt við að einn ötullasti talsmaður skuldugra heimila skuldi sjálfur. Skárra væri það nú!

Kristján H Theódórsson, 18.11.2010 kl. 21:09

54 identicon

Trúverðugleiki þinn og HH standa og falla með því að þið hafið ekkert að fela og opnið fjárhags og skuldastöðu ykkar, annars gæti þetta verið eiginhagsmunapot. Þú vilt reyna að hafa skuldastöðu þína lokaða fyrir fjölmiðlum en þá ertu bara að skaða trúverðugleika þinn. Ég hélt að HH hefði ekkert að fela? Betra væri að allir ykkar talsmenn opnuðu allt sitt, þá fyrst hefðuð þið trúverðugleika.   Ég hef nefnilega takmarkaðan áhuga að borga fyrir skuldasukk annarra sem fóru á eyðsluflipp og keyptu allan fjandann meðan fólk eins og ég hélt að sér höndum og sparaði og bjó í fábrotnum litlum híbýlum og tók strætó.

Ari (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 21:36

55 identicon

Það er ekki hægt að fá betri staðfestingu Marinó að menn eru farnir að skjálfa.

 Þegar menn komast ekki í boltann, þá er farið í manninn.

 Nú tekur þú þetta bara alla leið Marinó og stofnar stjórnmálaflokk!

Sigurður (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 21:45

56 identicon

Þetta er leitt að heyra.  Gangi þér og konu þinni allt í haginn

Haraldur Ingi Haraldsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 22:01

57 Smámynd: Gunnar Waage

Nú er greinin komin út og verður að segjast að hér er fyrst og fremst verið að monta sig af því að fréttamenn Fréttatímans hafi náð að hræða og ógna stjórnarmanni í HH.;

Marinó G. Njálsson hefur sagt af sér stjórnarmennsku í Hagsmunasamtökum heimilanna. Þetta tilkynnti hann á bloggi sínu sem og í fréttatilkynningu klukkan fjögur í gær. Ástæðan sem hann gaf fyrir afsögn sinni var „endurtekin hnýsni fjölmiðla“ í einkamál hans og yfirvofandi frétt um skuldamál hans í Fréttatímanum.


Fréttatíminn forvitnaðist um skuldamál Marinós vegna þess að hann hefur verið í forsvari fyrir Hagsmunasamtök heimilanna, samtök sem hafa barist fyrir flötum niðurskurði fasteignalána, fyrir því að höfuðstóll erlendra lána verði færður í íslenskar krónur á þeim degi sem lánið var tekið og að vextir verði endurreiknaðir, og einnig því að höfuðstóll verðtryggðra lána verði lagfærður.

Marinó vildi ekki svara fyrirspurn Fréttatímans og sagði skuldamál sín vera einkamál sem kæmi ekki öðrum við. Jafnframt tjáði hann blaðamanni að ef greint yrði frá skuldastöðu hans, myndi hann segja sig úr stjórn Hagsmunasamtakanna. Það loforð hefði hann gefið konunni sinni og hann væri maður orða sinna.

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 22:13

58 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Marínó.

Sókn er besta vörnin og þín viðbrögð eru hárrétt.  Þau skerpa átakalínurnar og eftir standa andstæðingar heimilanna sem aumara fólk.  

Þegar öllu er tjaldað til til að kæfa réttmætar kröfur almennings um að losna við kaleik Hrunskulda, þá er ljóst að andstæðingurinn örvæntir og telur baráttu sína vonlitla.  Ekki það að ég ætli stjórnarliðum svona lúaskap, en stjórnin er aðeins frontur þeirra sem ætla öðrum að borga skuldir sínar.

Og það eru þeir sem miða þessum skítabomburum.

Og þeim mun ekki takast ætlunarverk sitt.  Pistlar þínir lifa, og vonandi þú líka, þó í öðru hlutverki verði.

Gangi þér allt í haginn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.11.2010 kl. 22:13

59 identicon

@ Gunnar Waage!

Ég las þetta einmitt - ég bara spyr.... hver er tilgangurinn með þessu?

Mér er svo nákvæmlega sama hvort Marinó og frú skulda eða ekki...

Marinó hefur margsinnis sýnt fram á að hann hefur unnið af einlægni og heiðarleika í þessum stóru hagsmunamálum fyrir heimilin í landinu ..

Maður skilur ekki svona...  

Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 22:18

60 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Áhugaverð analogia, Ari, en ég get ekki samþykkt hana.  Trúverðugleiki minn og HH byggja á því að við förum með rétt mál í málflutningi okkar, að við séum rökföst og yfirveguð.  Það vita allir að húsnæðiseigendur eru skuldugir.  Það er ekkert nýtt.

Þetta skuldasukk sem þú talar um, er að mestu ævintýri.  Enginn í stjórn HH fór í skuldasukk.  Við gerðum bara ráð fyrir að þeir sem stjórnuðu fjármálakerfinu væru heiðarlegir innan viðsættanlegra marka.  Við gerðum bara ráð fyrir að ekki væri verið að ljúga að okkur í hvert sinn sem ákveðnir menn opnuðu munninn.  Við gerðum bara ráð fyrir því að hægt væri að treysta upplýsingum í ársskýrslum og árshlutauppgjörum bankanna, að greiningardeildir þeirra færu með rétt mál. Já, við vorum algjörir bláskjáir, en óreiðufólk, óráðsíufólk, skuldasukkarar eða annað í þeim dúr vorum við ekki. 

Þegar maður á stóra fjölskyldu, þá býr maður ekki í litlum hýbýlum og maður tekur ekki strætó.  Veistu hvað, Ari, minn stærsti glæpur var að eignast dóttur 2002 sem varð til þess að við sprengdum húsnæðið utan af okkur.  Já, þetta er minn glæpur.  Kannski voru mistök að selja ekki fyrr, en málið er að konan mín er með MS-sjúkdóminn og það tekur hana langan tíma að jafna sig eftir átök á borð við það að flytja.  Við ætluðum því bara að flytja einu sinni og spara henni átökin.   Já, mikið er skuldasukkið mitt.

Marinó G. Njálsson, 18.11.2010 kl. 22:21

61 Smámynd: Gunnar Waage

Ég tek undir það Anna, hvaða viðbjóður er þetta?

Hver hagnast á því að sverta HH?

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 22:21

62 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er greinilegt, Gunnar, að þeir hafa breytt um stefnu.  Samtal mitt við Óskar gekk út á aðra hluti án þess að ég fari dýpra ofan í það.

Marinó G. Njálsson, 18.11.2010 kl. 22:23

63 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Varla búinn að sleppa orðinu þegar ein sk. skuldleysingja, hálfnafnlaus,Ari  sem telja á sinn rétt gengið ef bófagengin skila ránsfeng sínum, þó ekki væri nema að hluta til þeirra rændu.

Þetta er svipað og að amast útí að lögreglan gegni skyldum sínum í þágu þeirra sem rændir eru eigum sínum. Það kostar jú okkur skattborgarana , líka þá sem ekki voru rændir. 

Skv. réttlætisvitund Ara o.fl á bara að láta kyrrt liggja ef búslóðin er hreinsuð út af heimili nágrannans. Vinna lögreglunnar í málinu er jú kostuð af skattfé og því best að láta ógert, eða hvað? Ari?

Getur þetta fólk ekki skilið að það er enginn að ganga á þess rétt? Það er ætlast til að færður sé niður upploginn höfuðstóll lána. Upploginn á forsendum svika og undirferlis þeirra sem lánuðu! 

Margoft hefur verið upplýst að á bak við þessi uppskrúfuðu lánsupphæðir standa ekki raunverðmæti sem lánuð voru. Bankastarfsemi nútímans er í raun hálfgerð svikamylla , allavega er hægt að beita henni á þann hátt augljóslega. 

Kristján H Theódórsson, 18.11.2010 kl. 22:24

64 Smámynd: Gunnar Waage

já ég held að þeim hafi svelgst á Marinó. Þeim er bara einfaldlega ekki stætt á þessu, þeir hafa áttð sig á því.

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 22:25

65 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Til "Ara"

Hver á að meta þessa stöðu?  Setjum sem svo að Marinó upplýsi alla um fjárhagsstöðu sína. 

Hvað svo?  Væri hann óhæfur ef hann skuldaði 20 milljónir?  19?  25? Eða eitthvað annað? 

Óhæfur sem hvað?  Talsmaður grasrótarsamtaka um hagsmuni íslenskra heimila? 

Hver ætti að meta þetta og hvernig? 

Hver ættu eftirmálin að verða? 

Ætti Marinó að segja af sér stjórnarsetu ef hann varð uppvís að því að kaupa sér flatskjá á afborgunum? 

Hvað má flatskjárinn vera stór? 

Eða ætti hann bara að sitja áfram? 

Ef upplýsingarnar skipta engu máli um framtíðina, hversvegna skipta þær svona miklu máli um fortíðina?

Það er vissulega sérkennilegt ástand á Íslandi þessa dagana!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 18.11.2010 kl. 22:31

66 identicon

Eru þessir aumu blaðamenn bara ekki handbendi einhverra annara, sem finnst þú orðin þeim skeinuhættur? Þetta er gróf árás á einkamál þín og ekki sýnt að það komi neinum við, hvorki alþjóð eða þeim, hvernig skuldamálum þínum er háttað.  Það er deginum ljósrara að það vakir eitthvað annað fyrir þeim en að birta skuldastöðu þína.  Mig langar að koma á framfæri þakklæti fyrir þá miklu og óeigingjörnu vinnu er þú hefur lagt á þig fyrir HH.

Sigurður R. Þórarinsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 22:31

67 Smámynd: Gunnar Waage

Segi það sama Arnór, tengslin eru bara ekki til staðar. Spurningin er þessi; Er Marinó að vinna vel fyrir HH?

Svar; já.

Þá er ekkert mál.

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 22:33

68 identicon

Tel að það skiptir engu máli hversu mikið þú skuldar. Þetta snýst bara um réttlæti. Bæði hækkun og tillögur um lækkun eru í prósentum svo það er ekki hægt að segja að sá sem skuldar meira hafi grætt neitt meira.

Ólafur (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 22:35

69 Smámynd: Gunnar Waage

Tillagan um flata niðurfellingu er byltingartillaga. Stjórnin vill hana í burtu sem og mótmælin á Austurvelli.

Hér er einn Sjálfstæðis-miðill á málinu og einn Samfylkingar-miðill. 

Liggur þetta ekki nokkuð ljóst fyrir?

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 22:38

70 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Fréttatíminn sem um er rætt er komnn á netið hér http://www.frettatiminn.is/UserFiles/File/Frettatiminn_8_tbl_LR.pdf

Hér er fréttin um Marinó http://maggib.blog.is/users/74/maggib/img/marino.gif

Segir ekkert um hans skuldamál. Bara að hann hafi ekki svarað spurningum og vitnað í þetta blogg.

Magnús Helgi Björgvinsson, 18.11.2010 kl. 22:41

71 Smámynd: Gunnar Waage

Magnús, þetta er búið að koma fram hér.

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 22:43

72 Smámynd: Gunnar Waage

En endilega tökum þetta upp í svona 500 komment.

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 22:45

73 Smámynd: Gunnar Waage

http://www.amx.is/fuglahvisl/16110/

Aðeins meira af engu

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 22:52

74 Smámynd: Gunnar Waage

http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/marino-haettur-i-stjorn-hh-fjolmidlar-hnysast-i-bokhaldid---skuldamal-min-ordin-soluvara

og hér; töluverð vinna lögð í frétt um ekkert á eðalmiðlinum pressan.is.

2 mánaða hagfræðingurinn þeirra hefði mátt vanda sig jafn vel.

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 22:55

75 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég er mest hissa á að ekki skuli hafa verið ráðist á þig og þína fjölskyldu fyrr, enda hefur þú afar góðan málstað að verja og hefur gert það vel og heiðarlega. Slíkir einstaklingar safna sér alltaf óvinum sem láta aldrei í sér heyra en nota öll hugsanleg brögð til að koma þeim óþægilega frá.

Þetta sýnir að þú hefur verið á réttri leið. Það er líka skiljanlegt að þú viljir verja konu þína og börn með þessum hætti, og skil líka vel að þú tókst þátt í stofnun HH einmitt til þess að verja fjölskyldu þína og heimili, sem og fjölmörg önnur íslensk heimili. 

Íslendingar munu vonandi skilja fórnir þínar að lokum og þá ekki alltof seint.

Kær kveðja,

Hrannar

Hrannar Baldursson, 18.11.2010 kl. 23:00

76 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Las um það áðan að Geir "blessaður"Haarde væri að rífa kjaft yfir að honum hafi ekki verið skipaður verjandi ennþá!

Má hann nokkuð berjast fyrir málum sem snerta hans eigin hag? Ætti hann ekki bara að halda kjafti?  Allavega útfrá rökfræði þeirra sem telja Marinó ekki mega berjst fyrir hagsmunum skuldara ef hann sé sjálfur með lán!

Kristján H Theódórsson, 18.11.2010 kl. 23:01

77 identicon

afsakaðu marinó, þú virðist af heilindum gerður. Ég sé að mér.

Ari (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 23:02

78 Smámynd: Gunnar Waage

Hrannar, þetta köllum við "tranza"

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 23:04

79 identicon

Marinó - þú hefur verið eina ljósið í myrkrinu undanfarin misseri, hafðu þökk fyrir og keep on going. Man ekki í svipinn eftir öðrum eins manni fólksins!

Þorsteinn (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 23:05

80 Smámynd: Jón Magnússon

Þakka þér fyrir málefnalega baráttu fyrir skuldara Marinó. Mér finnst þú ekki taka rétta ákvörðun með því að segja þig úr stjórn samtakanna og get ekki séð að umfjöllun um persónuleg fjármál þín skaði í sjálfu sér starf þeirra. Það er nú einu sinni þannig að þegar menn gerast málsvarar ákveðinna sjónarmiða og fara gegn sterkum hagsmunum að þá eru þeir einstaklingar alltaf lagðir í einelti af þeim sem vilja ekki missa tökin.  Ef ekki er hægt að sverta menn með því að láta eitthvað sem þeir gera líta illa út þá er hreinlega logið. Það þekkja flestir sem hafa tekið sér stöðu með hinum mörgu gegn sérhagsmunum hinna fáu. 

En Marinó lífið heldur áfram og þú líka og það verður að ná fram réttlæti í þessu þjóðfélagi. Við getum ekki sætt okkur við að þetta haldi áfram að vera þjóðfélag kröfuhafanna.

Jón Magnússon, 18.11.2010 kl. 23:28

81 identicon

Marinó-viljið þið hjónin ekki íhuga málið aftur. til Hagsmunar fyrir öll Heimilin á Íslandi.

Við höfum algjörlega treyst á þig og HH. 

Íslandi allt !!!

Það eru allir skuldugir á Íslandi eða lúra á illa fengnu fé.

Hver á að lúta í lægra haldi?

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 23:36

82 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

 Marínó þú hefur virkilega verið ljósið í myrkrinu á þessum erfiðu tímum!! Það er skelfilegt að heyra hvernig hefur verið komið fram við þig!! Ég bið þig um að vera sterkan og gefast ekki upp! Ég skil það vel að fjölskyldan þín sé búin að fá sig fullsaddan af skítkasti fjölmiðla! Þú hefur gert þjóð þinni ómetanlegt gagn með störfum þínum. Ég er stollt af því að vera frænka þín! Hafðu innilegar og kærar þakkir fyrir allt þitt góða starf í þágu heimilanna og bara hreinlega þjóðarinnar. Í mínum augum ertu þegar orðin þjóðhetja! Ég skora á þig að fara í framboð í næstu kosningum! Ég mundi vilja sjá ykkur saman í næstu ríkisstjórn þig, Lilju Mósesdóttur og hennar fólk, Ögmund og Hreyfinguna!

Anna Margrét Bjarnadóttir, 18.11.2010 kl. 23:37

83 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég ítreka að ég mun halda áfram að starfa með HH eins og stjórnin óskar eftir mínum starfskröftum, bara ekki innan stjórnar.

Marinó G. Njálsson, 18.11.2010 kl. 23:39

84 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

°Marinó, það er engin maður hér á landi sem hefur veitt fólki meiri von um að hér megi finna sanngirni og réttlæti.  Líklega enginn sem hefur forðað fleirum frá því að gefast algerlega upp í þessari vonlausu kúgun sem sér stað.  Laun þín eru engu að síður ósanngirni og óréttlæti og það segir okkur allt um það hversu lágt stjórnvöld og hundar þeirra eru tilbúnir að leggjast í baráttunni gegn fólkinu og fyrir þjófana. Það segir okkur líka að þú ert að vinna göfugt verk.

Það er nokkuð ljóst að Féttatíminn kemur aldrei innfyrir dyr hjá mér. Ef þessu er ekki hægt að líkja við galdraofsóknir, þá veit ég ekki hvað. Hver skuldar ekki hér á landi?  Þetta er sama "réttlæti" og þegar nornum var hent í fljót til að komast að sekt. Ef þær sukku, þá var þeim "borgið" handan lífs en ef þær flutu þá voru þær brenndar. 

Ég treysti því að heimilin fái enn að njóta greindar þinnar, fórnfýsi og réttlætiskenndar.  Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir fólk eins og þig.Það hafa þessir menn nú endanlega staðfest.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2010 kl. 23:41

85 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Marínó - ég styð orð Sigrúnar Jónu hér að ofan. Viljið þið hjónin íhuga málið? Þú hefur einfaldlega verið lang sterkasti talsmaður heimilanna og þar með okkar kúguðu þjóðar. Þú ert þjóðinni gríðarlega dýrmætur um þessar mundir. Ég get ekki lofað þér fjármunum að launum, en eitt get ég lofað þér að orðspor þitt mun aldrei að eilífu deyja ;-)

Anna Margrét Bjarnadóttir, 18.11.2010 kl. 23:43

86 identicon

Nú er nó komið nú verðum við öll að rísa upp og stiðja heimilin í landinu og mæta með þér í baráttuna gegn hinum ýllu öflum græðgi og fjárkúgunar sem er sett á herðar heimilanna í gegnum stökkbreytta gengisskráningu og vísitölu sem hvergi þekkist. Spilum ekki með kröfuhöfum heldur berjumst fyrir mannréttindum. Takk fyrir allt Marinó.

Magnús E Eyjólfsson (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 23:44

87 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Marinó, vildi bara leggja það orð í belg hér að ég tel þig hafa á unnið þérmeira traust meðal almennings en nokkur annar síðan allt þetta byrjaði. Óhjákvæmilegt skítkast og níð andstæðinganna mun bara efla það traust, ekki rýra það.

Hörður Sigurðsson Diego, 18.11.2010 kl. 23:47

88 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Sem sagt...Fréttatíminn er strax orðið eitt mesta sopra rit landsins!!

Ægir Óskar Hallgrímsson, 18.11.2010 kl. 23:51

89 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Ég er búin að setja skilti með eftirfarandi orðum á útidyrahurðina mína: Við viljum ekki FréttatímannFréttablaðið inn fyrir dyr á þessu heimili!!! Hafið skömm fyrir útreið ykkar á Marínó Njálssyni!!!

Anna Margrét Bjarnadóttir, 18.11.2010 kl. 23:52

90 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Við viljum ekki FréttatímannFréttablaðið inn fyrir dyr á þessu heimili!!! Hafið skömm fyrir útreið ykkar á Marínó Njálssyni!!!

Anna Margrét Bjarnadóttir, 18.11.2010 kl. 23:53

91 identicon

Sæll Marinó,

Ég er sammála flestum hérna og tek undir mál Jóns Magnússonar. Þú mátt ekki draga þig tilbaka og ég vona að þið hjúin endurskoðið þessa ákvörðun.

Örvænting er sú sem gerir þetta mál sem það er. Það er búið að reyuna að gera allt til að sverta þennan málstað, samtökin og þig. En það má ekki gefast upp því annars erum við að gefa þjóðfélagið upp á bátinn.

Við erum að þessu fyrir okkur sjálf og fyrir framtíð barna okkar. Við viljum ekki þjóðfélagið í dag fyrir börnin okkar. Þú átt börn sjálfur og íhugaðu þetta út frá þeirra framtíð líka.

DD (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 23:54

92 Smámynd: Gunnar Waage

gott mál Anna Margrét

Gunnar Waage, 18.11.2010 kl. 23:55

93 identicon

Sæll
Ég verð að segja að mér brá aðeins í dag þegar ég las um þessa aðför.
Ég ætla ekki að nota sterk orð en það eru greinilega ákveðin öfl að bak við þessa nálgun Fréttatímans.
Hugsanlega er að draga nær tíðinindum eða uppgjöri og mig grunar að við þurfum öll að standa í lappirnar þegar þar að kemur.
Eg svaraði skoðanakönnun um daginn og sagði að ég myndi kjósa HH ef það yrði kosið í dag.
Stend 100% með þér og HH.
Okkar tími kemur..

vj (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 00:03

94 Smámynd: Hafþór Baldvinsson

Sæll Marinó! Eitt sinn vorum við að "spjalla" í athugasemdum hér og þá gafstu upp þína skuldastöðu en að sjálfsögðu ekki í smáatriðum. Mér fannst það virðingarvert og í raun stórmannlegt því þú hefðir svo auðveldlega getað sleppt því enda var ekki verið að biðja þig um það. Þess vegna kemur þessi afsögn mér á óvart hvað þetta snertir. En að sjálfsögðu sneru þær tölur aðeins að sjálfum þér. Ekki að konu þinni. Ef fólk skoðar fréttamennsku Jóns Kaldals og Óskars Hrafns og rekur viðmælendur þeirra og áherslur í gegnum tíðina þá geta menn auðveldlega rakið þessa fréttafýsn þeirra. Hún á sér rætur innan Samfylkingar og hjá 7 menningunum. Þetta voru þeirra menn og þeirra áherslur. ESB áhugi Jóns Kaldals og umhyggja hans fyrir Samfylkingunni og væntumþykja Óskar Hrafns í garð 7 menninganna hafa skinið skært hvar sem þeir hafa unnið.

Rógur, illt umtal, rætni, lygar og slíkar hvatir liggja alls staðar. Fjölmiðlar gera út á þessar hvatir og því miður virðist sem slíkum fjölmiðlum gangi einna best. En ég hef ekki enn lesið Fréttatímann. Það nægir mér að vita af Jóni Kaldal, sem ég hef engar mætur á né tel vandaðan fjölmiðlamann til að líta ekki í þetta blað þeirra.

En við þessu mátti búast Marinó. Ég þekki vel hvernig er að vera í svipaðri stöðu. Innan Samfylkingar eru til þingmenn sem hika ekki við að stinga aðra í bakið þegar þeim hentar. Má minnast þess hvernig atkvæðagreiðslan var um Landsdóm.

Ef við viljum spillinguna burt þá verðum við að vinna orrystur og já tapa sumum en stríðið verðum við að vinna. Gott og vel, ég virði þessa ákvörðun þar sem þú hefur þrátt fyrir mikla hvatningu ítrekað að þú haldir þig við hana. Gleðst yfir því að þú ætlir að halda áfram starfi fyrir samtökin. Eitt slæmt getur eyðilagt milljónir góðra verka. Verst að það hafi og geti verið fjölmiðlar sem standi í þeirri eyðileggingu.

Takk fyrir milljónir góðra verka Marinó!

Hafþór Baldvinsson, 19.11.2010 kl. 00:16

95 identicon

Þú ert merkilegur maður, Marinó - og skuldir þínar miklar. Fjölmiðill og stjórnmálaflokkar telja sig knúna til að knésetja þig. Til hamingju!

Fjölmiðill, fjölmiðlamenn og stjórnmálaflokkar sem hafa lapið lygasullið úr skuldugustu mönnum þjóðarinnar frá landnámi hafa nú fundið óvin við hæfi. Til hamingju!

Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir fólkið í landinu - þá sem ekki ganga í hús stjórnmálaflokka til að láta berja sig með réttum skoðunum dag hvern - okkur sem skuldum og þorum að viðurkenna það. Okkur hin sem látum ekki stjórnast af uppkokkuðum skoðunum matreiddum af aðkeyptum fábjánum á launum hjá auðkýfingum, þjófum og stjórnmálamönnum [og því skattborgurum].

Takk og gangi þér allt í haginn!

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 00:23

96 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Marinó.

Þú mátt ekkert hætta í þessari baráttu.

Afleiðingar þessa hruns eru miklar. Allar áætlanir allra góðra manna hafa að engu orðið. Fjárskuldbindingar sem þúsundir Íslendinga tóku á síg í góðri trú eftir mikla yfirlegu og aðstoð fjármálastofnana m.a. með greiðslumati, allt er þetta fokið út í veður og vind.

Erlend lán hækkuðu um 100% til 200%. Verðtryggð íslensk lán hafa hækkað um tæp 50% frá því lausafjárkreppan hófst í júní 2007.

Allir sem hafa fjárfest á síðustu 5 til 10 árum eru meira og minna í sömu súpunni og þú.

Og þú hefðir aldrei orðið sá fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna ef þessi vandamál brenna ekki á þínu eigin skinni.

Ég vil því leyfa mér hér á þessu bloggi að skora á stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Ég skora á þau að þau óski eftir því við þig að þú dragir þessar afsögn þína til baka.

------ o ------

Hvað þetta nýja fréttablað áhrærir þá er blaðið að gera mikil mistök.

Með einmitt svona vinnubrögðum þá eru frétta- og blaðamenn búnir að reka allt sómakært fólk út úr sviðsljósinu og út úr stjórnmálunum.

Ég held að fjölmiðlafólk þessa lands verði líka að átta sig á því að í dag er hér allt annar veruleiki en var.

Fjölmiðlafólk, gefið þessu áhugafólki sem er að koma inn á sjónarsviðið og er hvert með sínum hætti og er hvert á sínu sviði að takast á þetta mikla pólitíska og fjárhagslega hrun, gefið þessu fólki grið.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 19.11.2010 kl. 00:50

97 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég gleðst yfir þeim stuðningi sem þú færð hér Marínó, og það er einungis vegna þess að þú hefur hagað þér þannig að fólk treystir þér algjörlega, ég hef alltaf einhvernveginn haft þig með í því ferli að endurreisa Ísland.  Og þegar ég sá hvernig þetta æxlaðist, varð ég ekkert hissa, það hlaut að koma að því fyrr en seinna. 

En ég tek undir með öllum hér, ég veit að þú ætlar að halda áfram að starfa með HH, en ég ætla samt að biðja þig um að vera áfram í forsvari fyrir samtökin sem hingað til.  Og þá er komið að okkur hinum að standa með þér sem einn maður.  Við verðum líka að leggja okkar af mörkum, enginn einn getur borði þessa byrði, þegar stjórnvöld og ræningjar leggjast á eitt að níða besta talsmann almennings niður.  Það mun ekki takast. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.11.2010 kl. 00:53

98 identicon

Heill og sæll Marinó; og aðrir gestir þínir, hér á síðu !

Svo mjög; rann mér í skap, fyrir þína hönd - og fjölskyldu þinnar, að ég gat ei á mér setið, að kasta fram ritlingi, á minni síðu, þér til fulltingis, gærkveldis.

Við höfum vart; átt slíkan eljumann, til varnar Íslandi, og íslenzkum hagsmunum, síðan Jón heitinn Eiríksson Konferenzráð (1728 - 17 87) frændi minn, var á dögum uppi, unz; þú hófst flagg réttlætis og drenglyndis til lofts, innan Hagsmunasamtaka heimilanna - og síðan.

Megi þér vel farnast; um ókomna tíð, í hverjum þeim viðfangs efnum, sem þú tekur þér fyrir hendur, Marinó.

Með kveðjum góðum; vestur yfir fjallgarð - og víðar um /

Óskar Helgi

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 01:01

99 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Marinó. Þú hefur verið almenningi hliðhollur og það er sama hvað hver segir og reynir að segja um þín verk - við sem skiljum og vitum þekkjum þín góðu verk. Ég veit að þinn baráttuhugur er jafn mikill hvort sem þú ert titlaður í stjórn hagsmunafélags eða ekki - enda þurfa baráttumenn ekki að vera staðsettir sem slíkir. Það væri gaman ef þessir ágætu fréttasnápar réðust í skuldamál 40 þús einstaklinga sem voru í skilum fyrir hrun. Öðruvísi hafa þeir lítið um neitt að segja. Það þýðir ekki að taka einn og einn út bara vegna þess að hann er að gera góða hluti. Ég býð hvaða fréttasnáp sem er að taka út mín mál - fyrir og eftir hrun. Að ég sé berjandi tunnur og mælandi með fólki sem virðir réttlæti þýðir ekki það að ég sé óábyrg í fjármálum. Og megi hver sem er skoða það mér að meinalausu.

Ég styð hvert orð sem þú segir og hef sjálf lagt mitt af mörkum, enda eru ákveðin mál þegar inni á þingi vegna kröfuhörku innheimtuaðila ríkisins. Fréttasnápum er velkomið að skoða það líka.

Ég hef líka einkahagsmuna að gæta. En kannski er eðlilegast og farsælast að láta slíkt allt lönd og leið og berjast fyrir heildina.

Með fullum stuðningi,

Lísa

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 19.11.2010 kl. 01:13

100 identicon

Kæri Marinó. 

Við skorum öll á þig og eiginkonu þína að endurskoða afstöðu þína og láta aðdróttanir þessarra leigupenna sem vind um eyru þjóta.  Þeir eru ekki í jarðsambandi við fólkið í landinu, né fulltrúar þess, og njóta ekki stuðnings þess.  Síður en svo.  Þér ber engin skylda til að upplýsa þá um eitt eða neitt, sem þú hefur ekki upplýst áður, því að fólkið í landinu trúir þér og treystir.  Ég tek undir hvert orð sem hér hefur verið sagt þér til stuðnings. 

Á mörgum heimilum ertu síðasta vonin um að einhverju sé hægt að bjarga og breyta til betri vegar.  Þú skuldar þjóðinni og fjölmiðlum ekkert, það er þjóðin sem stendur í þakkarskuld við þig.  Miðað við fjölda þeirra sem hér hafa lýst skoðun sinni fer það ekkert á milli mála að þannig lítur fólkið á málið.  Málflutningur þinn einkennist af þvílíkri yfirvegun, þekkingu og fagmennsku að unun er að.  Við vonum öll að þú sjáir þér fært að halda áfram baráttunni í sama stíl og hingað til. 

Einar Kr. 

Einar Kr. (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 01:43

101 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Ég hvet alla til að láta þetta blogg lifa í heitum umræðum með því að svara stanslaust og tala um óraunhæfar lausnir ríkisstjórnar. Með því getum við mögulega haft áhrif.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 19.11.2010 kl. 02:22

102 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þegar fréttatíminn hóf göngu sína þótti mér slæmt að vera utan við þröskuld þeirra, að búseta mín olli því að ég fengi ekki þetta nýja blað inn um lúguna.

Ég hélt að þarna væri komið nýtt og betra blað, blað sem væri til mótvægis við þá miðla fyrir voru. Nú hefur komið í ljós, svo ekki verður um villst, að þetta blað er rekið af sömu hvötum og aðrir miðlar, af fjármagninu og fyrir fjármagnið!

Því tel ég mig núna heppinn að þetta sorprit kemur ekki til mín!

Ég legg til að allir þeir sem þetta blað fá til sín, óumbeðið, geri sér leið að Sætúni 8 og skilji blaðið eftir fyrir utan dyrnar hjá þeim.

Gunnar Heiðarsson, 19.11.2010 kl. 08:10

103 identicon

Sammála Gunnari Heiðars.

 Það eru mjög skýr skilaboð til blasðins ef þeir þurfa að klifra yfir staflann fyrir utan þegar þeir mæta í vinnu á morgnana.

Maronó, skelltu þér í stjórnmálin, það eru ekki margir íslendingar sem njóta meira trausts en þú í baráttunni gegn spilltu bankakerfinu.

Sigurður (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 08:35

104 identicon

Sæll Marínó

Bloggið þitt hefur verið algjört ljós í myrkrinu fyrir mig og mína fjölskyldu sem höfum dvalið erlendis í nærri 2 ár að bíða eftir einhverju réttlæti þarna heima.  Þú hefur verið ein af fáum réttsýnisröddum sem maður hefur huggað sig við á meðan allir fjölmiðlar landsins hafa lítið annað gert en að tala um okkur sem óráðsíufólk, fyrir það eitt að fjárfesta í húsnæði árið 2007.

Vona að þú haldir baráttunni áfram og getir með rökfestu og kunnáttu þinnni hrakið illkvittnisraddirnar á brott.

Lilja (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 08:59

105 identicon

Þetta þykir mér mikið miður Marinó að þeim hafi tekist að hrekja þig úr þessu starfi þínu sem þú hefur sinnt svo frábærlega.  Hef ég ítrekað bent á þig þegar fólk er að ræða skuldavanda heimilanna því rök þín eru ávallt mjög sterk.

Við búum í bananalýðveldi og það er eins og Gunnar Sigurðsson leikari sagði, Íslendingar virðast vilja búa við þetta.  Við hópumst saman á gaypride og menningarnótt, fiskidaginn á Dalvík o.fl viðburði í tugum þúsunda en þegar á að taka heimilin af okkur og skerða okkar lífskjör þá er eins og engin eining sé um það!

Mér þætti gaman að vita hvort þeir Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans, og Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Fréttatímans, hafi fengið sérstaklega greitt fyrir það að vera að berja á þér og reyna að gera þig ótrúverðugan.  Kannski greiðsla í formi niðurfellinga á skuldum??? 

Sama hvað verður sagt um þig Marinó G. Njálsson til þess að REYNA að gera þig ótrúverðugan mun aldrei hafa áhrif á mig enda fylgst vel með þinni baráttu sem er mjög heiðarleg.  Ef ekki væri fyrir menn eins og þig þá væri sennilega ekki enn byrjað að aðhafast neitt fyrir heimilin.

Takk fyrir baráttuna fyrir okkur,

Gunnar Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 09:08

106 identicon

Finnst alveg forkastanleg vinnubrögð ef á að taka skuldir eins aðila í þessu máli og upplýsa. Finnst málið líta öðruvísi út ef allir aðilar yrðu teknir fyrir, t.d mætti athuga alla alþingismenn s.s hvað þeir eiga mikið fjármagn og athuga hvaða hagsmuni þeir eru að verja, athuga þá líka alla bankastjóra til þess að athuga hvort þeir eru að verja sitt eigið rassgat eða eru þeir að verja bankann. Og ef fréttamenn ætla að fara þessa leið þá verða þeir í leiðinni að upplýsa sín eigin fjármál og skuldir til þess að við almúginn vitum hvaða hagsmuni þeir hafa að gæta.

Hjörleifur (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 09:14

107 Smámynd: Guðmundur Jónsson

 Ég hef verið fylgjandi þínum málflutnigi að mestu Marinó og þitt starf í HH hefur verið mikils virði fyrir heimilin í landinu. Ég á hinsvegar von á að þitt starf fyrir heimilin í landinu utan HH verði engu minna virði.  

Guðmundur Jónsson, 19.11.2010 kl. 09:19

108 identicon

Það er mikill missir af þér úr Hagsmunasamtökum Heimilanna, þú ert sá eini aðili í þeim samtökum sem ég hef verið að fylgjast með og ákvað þín vegna að ganga í samtökin og greiða mín félagsgjöld.

Vona að þú haldir samt áfram að vinna með þeim og blogga því að þú ert sá aðili sem stendur hvað mest upp í hárinu á stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum.

Mér skilst þó að skuldastaðan hafi ekki verið birt í fréttatímanum í dag. Ef þeir hafa ákveðið að hætta við þá skora ég á þig að draga afsögn þína til baka.

Annars hef ég aldrei lesið fréttatímann og mun aldrei gera það eftir þetta mál.

Kristján Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 09:27

109 identicon

Sæll Marínó

 Ég hvet þig til að endurskoða þessa ákvörðun þína. Það er mikill missir af þér í þessari baráttu.

 kveðja Anna Þóra

Anna Þóra (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 09:46

110 Smámynd: Úlfar Þór Birgisson Aspar

Marinó þú gerir það sem þér þykir best fyrir þig og þína,og hvort þú vinnir í stjórn eður utan,skaltu samt halda áfram að vinna þín verk.

50% heimila samkvæmt frétt nú í morgun á erfitt með að láta enda ná saman,þar með skuldum við landsmenn öll einhverjum eitthvað og ef þetta land á að rísa þurfum við alla þegna landsins og meira til.

Ég hef í langan tíma leitað mikið á þessa síðu þína Marinó,til að lesa á mannamáli peningamál og útreikninga þú hefur nefninlega fengið góða gjöf í arf að geta skrifað svo skiljist,og þú mátt engan veginn hætta því þá hefur þeim tekist ætlunarverk sitt,og slíkt yrði mjög miður.

Mbk.

Úlfar Þór Birgisson Aspar, 19.11.2010 kl. 09:51

111 Smámynd:  Birgir Viðar Halldórsson

Sæll Marinó,

Við stöndum þétt á bakvið þig! Hvet þig til að endurskoða ákvörðun þína að hætta í HH.

Birgir Viðar Halldórsson, 19.11.2010 kl. 10:12

112 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Sæll Marinó,

Þú ert því miður að gjalda þess að vera einn öflugasti og rökfastasti talsmaður heimilanna í landinu. Hvað gera lítilmenni sem eru rökþrota? Þau ráðast á persónuna.

Þú getur treyst því að þá átt virðingu og stuðning almennings í landinu. Við megum ekki láta undirmálsmenn með Baugssiðferði ráða för hér.

Einn stærsti veikleiki íslenskra stjórnvalda er að þar er ekki að finna mikið af faglegri þekkingu til að standa upp á hárinu á fjármálakerfinu þegar það heldur fram sínum skammtímahagsmunum. 

Rödd þín hefur verið mjög þörf í umræðunni. Vonandi fáum við að njóta hennar áfram með einhverjum hætti.

Ég er búinn að senda póst á Fréttatímann þar sem ég afþakka að fá blaðið sent heim.

Finnur Hrafn Jónsson, 19.11.2010 kl. 10:19

113 identicon

Eiginlega er þetta heiður Maddi minn. Þú ert orðinn hættulegur maður. Þá setur "kerfið" í gang svona herferðir. Er ekki að segja að Noregur sé neitt draumaland en fréttamennskan hér er á allt öðru plani en þarna í ruglinu á Sagaeyjunni... er búin að bjóða frúnni gistingu ef þið viljið kíkja á aðstæður :) Bestu kveðjur Inga

Inga (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 10:26

114 Smámynd: Billi bilaði

Þórðargleði fjölmiðla í þessu máli er viðurstyggileg. Jónas Kristjánsson kann sér ekki læti, og DV skemmtir sér konunglega. Aumkunarvert.

Þakka þér innilega fyrir alla baráttuna, Marinó, og vonandi er þínum afskiptum ekki með öllu lokið.

Billi bilaði, 19.11.2010 kl. 10:36

115 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Takk fyrir þín óeigingjörn störf fyrir heimilin í landinu. Takk fyrir að vera eini talsmaður hins "venjulega" íslendings. Blogg þitt hefur verið ljós í myrkrinu í barráttunni við fjármálaöflin og stjórnmála elítuna. Þú varst ástæðan fyrir því að ég reyndi eins lengi og ég gat að borga þjófunum sem stálu af mér, því þú gafst mér von um að hér myndi réttlætið sigra. Réttlætið mun hinsvegar ekki sigra í þessu landi það er því miður orðið ljóst. Þú ert algjör hetja og ástæðan sem þú gefur fyrir að hætta sem talsmaður HH sýnir en betur hvernig maður þú ert. Árásin á þig byrjaði ekki í Fréttatímanum, hún er búin að vera í gangi lengi en hefur verið að færast í aukana. Ég styð þessa ákvörðun þína og skil hana en mun sakna þess að sjá í framlínunni. Þú hefur alltaf verið málefnalegur og fært rök fyrir málstað þínum (okkar) með sannfærandi hætti og með tölum og útreikningum sem standast og eru skiljanleg. Gangi þér allt í haginn !!!

Jón Svan Sigurðsson, 19.11.2010 kl. 11:04

116 identicon

Það verður sárt að sjá á eftir þér Marinó, þú hefur staðið þig með einstakri prýði og verið landi og þjóð til sóma.  Þakka þér fyrir óeigingjörn störf í þágu heimilanna og farnist þér vel í hverju sem þú tekur þér fyrir hendur.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 11:05

117 Smámynd: Sæmundur Ágúst Óskarsson

Hver er þessi Marinó G Njálsson?

 

Jú. Þessi maður hefur staðið uppi í hárinu á bankakerfinu og sagt sína skoðun á yfirgangi þessara stofnana. Hann hefur ítrekað bent á það óréttlæti sem viðgengst í bankakerfinu og hve ríkisstjórnin hefur blygðunarlaust látið óátalið að einstaklingar séu settir í þrot og hann hefur marg oft bent á þá ótrúlegu eignaupptöku sem er að verða í þjóðfélaginu. Hann hefur bent á það óðagot sem var við stofnum nýju bankana og hvernig þeim var nánast færðar á silfurfati lánasöfnin  og eru svo að rukka þau í topp.

Er þessi maður óæskilegur? Er hans málflutningur fyrir einhverjum?

Er það tilviljun að þegar kemur fram aðili sem hefur þessar skoðanir að hann er nánast hrakinn í burtu. Af hverjum? Því miður er þetta ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist og minnir satt best að segja á stalinstíman þegar óæskilegir aðilar voru settir til hliðar.

Ég held að Marino hafi gert mun meira fyrir almenning í þessu landi með málflutningi sínum en margir þingmenn og svo ekki sé talað um stjórnvöld sem virðast vera lömuð og duglaus

Sæmundur Ágúst Óskarsson, 19.11.2010 kl. 11:09

118 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég vil ítreka það, að ég er ekki hættur trúnaðarstörfum fyrir HH.  Ég mun ganga til þeirra starfa sem stjórnin treystir mér til og óskar eftir að ég sinni hér eftir sem hingað til.  Helsta breytingin verður náttúrulega að ég verð ekki eins mikið í fjölmiðlum og áður.

Marinó G. Njálsson, 19.11.2010 kl. 11:48

119 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

VÁ! ég óska þér til hamingju með þessi viðbrögð, þau eru verðskulduð.  Það skiptir aðalmáli að þú hættir ekki afskiptum af málefnum skuldugra heimila.

Kjartan Sigurgeirsson, 19.11.2010 kl. 12:43

120 identicon

Marinó. Takk fyrir þitt óeigingjarna starf fyrir þjóðina.

Þjóðin stendur á bak við þig í þessu máli.

Það getur þessi ríkisstjórn fjárglæfrapakksinns ekki státað af um sín mál.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 13:26

121 identicon

Skora hér með á landsmenn alla að sniðganga Fréttatímann.

Þar til hann birtir alvöru úttekt á fjármálum og tengingum allra ráðherra og alþingismanna sem sitja síðan í hruni. Við allar þær fjármálastofnanir sem máli skifta, og mútugreiðslur þær sem þá tíðkuðust.

Svo og stjórnmálamenn alla sem fengið hafa niðurfellingar í fjármálakerfinu, ásamt fjölskildum og fyrirtækjum þeirra.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 13:37

122 identicon

Sæll Marinó,

Ég skil vel þína ákvörðun. En þú verður að skilja raunveruleikann í heimi fjölmiðla. Ég hef unnið á nokkrum fjölmiðlum og tel mig „skilja“ blaðamenn og ritstjóra nokkuð. Ritstjórar vinna út frá tveimur meginreglum:

1. fjalla um það sem er söluvænt on vekur athygli

2. ALLIR sem stinga hausnum út um gluggann, vekja á sér athygli eða eru í umræðunni, ALLIR eru fair game. Það er bara þannig.

Síðan þarf fólk að gera upp við sig hvort það treysti fjölmiðlum. Hér á landi er ekki til einn fjölmiðill sem er traustverður. Allir fjölmiðlar lúta valdi þeirra sem eiga þá. Hvejir sem þeir eru í hvert skipti, þá hafa þeir áhrif á umræðuna og nota sinn fjölmiðil til að stjórna henni. Það er staðreynd.

Persónulega hef ég orðið vitni að hræðilegri misnotkun fjölmiðils í þágu þeirra sem valdið hafa.

Þú hefur ákveðið að taka ekki þátt í þessum sirkús. Gott hjá þér. EN ekki láta þá buga þig eða þína. Það þarf sterk bein til að standa uppi í valdhöfunum.

Takk fyrir að tala okkar máli.

Ólafur Gunnar Guðlaugsson (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 15:16

123 Smámynd: Elle_

FRÉTTATÍMINN er ótrúverðugur með öfugmælablaðamanninum, Óskari Hrafni Þorvaldssyni.  Hann ofbauð manni strax í allra fyrsta tölublaði, 1. - 2. október sl. og það í forsíðufrétt.  Þar eignaði ´fréttamaðurinn´ Óskar Hrafn Þorvaldsson (oskar@frettatiminn.is) okkur ICESAVE Björgólfs Thors með orðunum: ICESAVE-SKULD ÞJÓÐARINNAR.  Orðrétt.

Nú ætlar væntanlega sami öfugmælapenni að nota síður sama blaðs fyrir peningaöflin og rotna pólitíkusa og níða niður Marinó.  Slæmt hvað vantar vandaða fjölmiðla í landið okkar og sem vinna ekki dag og nótt í þágu gróðaníðinga og spilltra pólitíkusa.  RUV-SPEGILLINN og -SILFUR-EGILLINN eru ekki skárri en FRÉTTABLAÐIÐ og FRÉTTATÍMINN.  

Marinó, vinnan þín fyrir hina rændu alþýðu landsins af peningaböðlum hefur verið ómetanleg og við viljum ekki missa þig, eins og kemur skýrt fram frá öllum fjöldanum að ofanverðu.  Það gladdi mig eftir sjokkið, þegar þú komst loks inn í þráðinn og sagðist ekkert vera hættur.  Elle.

Elle_, 19.11.2010 kl. 15:19

124 identicon

Ef þú lætur verða af því að hætta,þá hefur meðalmennskan unnið.
Þú hefur gert samfélaginu of mikið gagn til þess að láta svo svona labbakúta eyðileggja það,ég skora á þig að halda áfram,jafnframt þakka ég þér fyrir þín vanþakklátu störf.

Kristján Jón Blöndal (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 17:03

125 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Marínó, ég skil vel þessa ákvörðun þína. En ég vona að þú haldir áfram að vinna fyrir fólkið í landinu! "Cometh the hour, cometh the man" sagði víst enginn (þó Sir Walter hafi næstum sagt það eftir Jóhannesi), en það er engu að síður satt og rétt Marínó að stundin rann upp og þar varst þú!

Brynjólfur Þorvarðsson, 19.11.2010 kl. 20:11

126 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta, Brynjólfur.

Ég þakka enn og aftur viðbrögðin sem hafa verið langt, langt umfram það sem ég átti nokkru sinni von á.

Marinó G. Njálsson, 19.11.2010 kl. 20:36

127 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Frábært að þú sért ekki hættur Marinó, þó þú hafir ákveðið að segja þig úr stjórn HH. (Vonandi muntu endurskoða þá ákvörðun...)

En blaðið er komið út og þar eru engar persónulegar upplýsingar að finna, hvorki skuldastöðu né annað. Hvað gerðist? Hættu þeir við að birta þetta eða stóð það kannski aldrei til? Var kannski bara verið að búa til moldviðri út af engu?

Ég óska þér alls hins besta Marinó, í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. Af öllum sem talað hafa fyrir hagsmunum almúgans í þessu blessaða landi undanfarið, hefur mér þótt þú skara fram úr með vandaðan og rökréttan málflutning. Bestu kveðjur.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.11.2010 kl. 21:43

128 identicon

Sæll Marinó. Þetta er það eina rétta hjá þér og sýnir svo ekki verður um villst að þú stendur við það sem þú einsetur þér. Láttu ekki þessa buxnaskjóna hrella þig!

Ég vil svo gera athugasemd við skrif Heimis Fjeldsted, en hann áttar sig engan vegin um hvað málið snýst, en ég skal upplýsa hann um það hér með:

Skuldarar eru líka skattborgarar og skattgreiðendur.  Það er verið að gera kröfur á skuldara (skattborgara) sem þeim ber ekki að greiða.  Til þess að einfalda þetta þá er dæmið svona:

1) Skuldari (skattgreiðandi) skuldar 1 milljón fyrir hrun. T.d. "gengislán" sem aldrei var gengislán heldur var greitt út í íslenskum krónum. Lánastofnun vissi að krónan myndi hrynja og því er um svokallaða stöðutöku gegn skuldaranum að ræða.  Lánastofnun vissi t.d. að skuldarinn yrði krafinn um hugsanlega ríflega tvöföldun þeirrar fjárhæðar eftir tiltölulega skamman tíma. Þetta er staðreynd málsins! Hefur komið fram í fjölmiðlum s.s yfirlýsingar Heiðars Más um stöðutökur gegn íslensku krónunni. Ljóst er að lánastofnanir voru að "verja" sig gegn hruni krónunnar sem þeir vissu að var óumflýjanlegt.

2) Á sama tíma voru stjórnvöld að fullvissa lýðinn um að allt væri í himnalagi. Auðvitað er hér um alvarleg svik að ræða af hálfu eigenda fjármálafyrirtækjanna sem og stjórnvalda þmt seðlabanka.

3) Lánastofnunin fer síðan á höfuðið þ.e verður gjaldþrota. Um er að ræða einkafyrirtæki sem voru allar helstu fjármálastofnanir landsins.

4) Stjórnvöld stofna nýjar kennitölur og hrifsa til sín lánasamningana á hrakvirði.  Þ.e.a.s kaupir 1 milljónina sem skuldarinn (skattborgarinn) fékk lánað á segjum 500 þúsund kr eða minna.

5) Síðan gerist það að nýja kennitalan (í eigu ríkisins eða svokallaðra "kröfuhafa") rukkar meintan skuldara (skattgreiðanda) um t.d. 2 milljónir sem honum er gert að greiða með ólögmætum hætti.

6) Ofangreint þýðir að ríkið hefur grætt á þessum viðskiptum kr 1.500.000. (Kaupir kröfu á 500 þús, rukkar 2 milljónir)

7) Skuldarinn (skattgreiðandinn) hefur tapað 1 milljón. Það er verið að rukka hann um peninga sem hann tók ekki að láni.

Því er rétt að segja sem svo að þeir skattborgarar sem tóku ekkert að láni hljóta því að þurfa að láta hluta af gróðanum (ríkið er jú skattborararnir allir) sem þeir eignuðust (1,5 millj) renna til þeirra skattborgarara sem rukkaðir eru um peninga sem þeir ekki tóku að láni.

Það þýðir að skattborgarinn Heimir og þeir sem tóku aldrei lán þarf að láta af hendi hluta af þessum ólögmæta gróða, ekki satt?

Gunnlaugur Gestsson (IP-tala skráð) 19.11.2010 kl. 21:51

129 Smámynd: Elle_

Alltaf skulu koma nokkrir sem óttast mest að ÞEIR þurfi að borga ef rændir menn fá þýfið til baka sem bankar og önnur peningaöfl rændu af þeim með dyggum stuðningi spilltra pólitíkusa.  Skýringar KRISTJÁNS H. THEÓDÓRSSONAR (18.11.2010 kl. 22:24)  og GUNNLAUGS GESTSSONAR (19.11.2010 kl. 21:51) gegn þessum misskilningi, sem Marinó hefur útskýrt endalaust, voru skýrar.  

Elle_, 19.11.2010 kl. 22:37

130 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Takk fyrir að hafa staðið vaktina með þessum líka glans. Þetta voru hrikalega taktísk viðbrögð hjá þér og gjörsamlega ófyrirséð af maskínunni, sem fyrir vikið sökk í eigin skít - án þín. Þú og HH (og þar með ég) standið sterkari eftir .

Haraldur Rafn Ingvason, 20.11.2010 kl. 00:12

131 Smámynd: Elís Már Kjartansson

Haltu þínu striki Marinó! og ekki láta deigan síga. Það þarf að berjast gegn þessu af alefli og þá munu þeir brotna sem ætla að láta bankana komast upp með þennan þjófnað á þjóðinni. Þessir blaðamenn sem ætluðu að taka þig af "lífi" með því að segja frá þínum skuldum líta út eins og fávitar og eru nánast búnir að fyrirfara sér sem marktækir blaðamenn. Að þeir skuli halda það þó svo að þú skuldir peninga rétt eins og flest allir íslendingar hvernig sem það er nú skipti höfuðmáli. Þetta eru bara fáráðlingar á þessum Fréttatíma og blaðið sóun á góðum eldivið. Það er krafa um það að lán okkar verði leiðrétt jafnt verðtryggð sem og óverðtryggð þar sem bankarnir hafa svigrúm til þess þó svo að þeir neiti því nú fram í rauðan dauðan. Hversvegna voru nú þessi blessuð mótmæli er þessi ríkisstjórn alveg meðvitundar laus frá A TIL Ö.

Elís Már Kjartansson, 20.11.2010 kl. 00:53

132 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Marínó, ef þú ert hvítþveginn, því segir þú starfi þínu lausu? það er mér hulinn ráðgáta!!

Guðmundur Júlíusson, 20.11.2010 kl. 01:00

133 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur Júlíusson, ég skil ekki spurninguna.  Hver var "hvítþveginn" af hverju?  Þó þeir hafi ekki farið fram með þá frétt sem þeir gáfu í skyn að þeir væru að vinna að, þá breytir það því ekki að þeir voru að hnýsast í mín einkamál í þeim eina tilgangi að gera mig tortryggilegan.  Hafi þeir bara ætlað að fjalla um forystumenn HH almennt, af hverju var ekki haft samband við aðra stjórnarmenn.  Nei, þetta var afmörkuð "árás" á mig.

Ég kem til með að afreka alveg jafn miklu utan stjórnar og innan.  Ég verð bara ekki eins mikið í fjölmiðlum.  Nú auðvitað tek ég eftir öllum þeim áskorunum sem ég hef fengið að draga úrsögn mína til baka, en mun hugsa málið vandlega áður en ákvörðun verður tekin að sækjast aftur eftir stjórnarsetu.  Úr því sem komið er mun ég bíða fram að næsta aðalfundi, þar sem samþykktir HH leyfa ekki að menn hætti við úrsögn úr stjórn og ég er of mikill prinsippmaður til að láta einhverjar sérreglur gilda um mig.  Hjá samtökunum gilda einar reglur fyrir alla.  Nú kosturinn er að fleiri stjórnarmenn taka að sér fjölbreyttari störf fyrir samtökin og það er bara af hinu góða.  Enginn er ómissandi.  Er ekki sagt að kirkjugarðarnir séu fullir af fólki sem hélt sig vera það.

Mikilvægast er að málin stoppi ekki.  Ríkisstjórnin er búin að hafa rúmlega viku til að hugsa málin og ekkert hefur heyrst ennþá.  Vonandi rætist úr því eftir helgi.

Marinó G. Njálsson, 20.11.2010 kl. 01:22

134 identicon

Ertu að segja að með hótunum um að þeir myndu segja fréttina, látirðu undan með að segja af þér?

Þú segir: "Þó þeir hafi ekki farið fram með þá frétt sem þeir gáfu í skyn að þeir væru að vinna að, þá breytir það því ekki að þeir voru að hnýsast í mín einkamál í þeim eina tilgangi að gera mig tortryggilegan."

Þetta lítur út sem hótun í mínum kokkabókum.

Guðmundur Júlíusson (IP-tala skráð) 20.11.2010 kl. 01:48

135 Smámynd: Gunnar Waage

Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk vill hafa sitt einkalíf í friði. Ég skil það mjög vel. Það bendir á engan hátt til þess að viðkomandi hafi eitthvað að fela.

Gunnar Waage, 20.11.2010 kl. 01:56

136 identicon

En Takk samt Marinó þú er búinn að vinna mikið fyrir þjóð þína

Þú ert Góður Maður 

Kveðja

Æsir (IP-tala skráð) 20.11.2010 kl. 15:46

137 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þitt óeigingjarna starf Marinó, vona að þú haldir áfram skeleggri umfjöllun um skuldir heimila.  Það að hafa réttlætið að leiðarljósi er það sem skiptir máli.

Magnús Sigurðsson, 20.11.2010 kl. 18:53

138 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Marinó

Hef ekki verið í netsambandi. Þessi aðför að þér sýnir svo ekki verður um villst að þú hefur komið við verulega auma bletti í auðmannakvikunni. Skil þína afstöðu afar vel, en er að sama skapi hrygg og reið yfir þeim sora sem flýtur yfir allt þjóðfélagið.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.11.2010 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband