6.9.2010 | 12:16
Handvalið mál sem segir ekki of mikið
Eftir að hafa legið yfir málinu í gær til að leggja verjanda til útreikninga, þá er ég kominn á þá skoðun að þetta mál henti illa sem fordæmisgefandi mál. Fyrir því eru ýmsar ástæður en þessar eru helstar:
- Málið er handvalið af stefnanda.
- Það er uppgjörsmál og skuldari heldur ekki áfram að greiða af láninu eftir að vextir hafa verið ákveðnir.
- Lántökudagur er 20.11.2007, sem þýðir að forsendubrests fer að gæta mjög fljótlega eftir lántöku.
Ég ætla ekki að fjalla neitt meira um fyrsta liðinn enda fór ég yfir þann þátt um daginn. Varðandi atriði 2, þá verður það til þess að framtíðargreiðslur eru ekki skoðaðar og þar með ekki getið í framtíðarþróun vaxta og gengis. Héraðsdómur dæmdi Lýsingu forsendubrest eftir að gengistryggingin var dæmd ólögleg, þar sem fyrirtækið gerði ráð fyrir að höfuðstóllinn fylgdi sömu gengisþróun og fyrirtækið sagði að fjármögnun fyrirtækisins fylgdi. Nú hefur gengið styrkst mikið á síðustu vikum og reikna má með því að það styrkist ennþá frekar á næstu árum. Við styrkingu gengisins, þá gengur forsendubrestur Lýsingar til baka. Nú í annan stað, þá er staða Lýsingar mjög veik og fyrirtækið nánast í gjörgæslu lánadrottna sinna. Ekki er vitað hvort fyrirtækið muni yfir höfuð lifa þessa hræringar af og verði það gjaldþrota, þá breytist staða lántaka örugglega mjög mikið. Í þriðja lagi þá hefur Lýsing ekki lagt fram neinar sannanir fyrir því að fyrirtækið hafi fjármagnað sig með þeim hætti sem það segist gera það. Orð lögmanns þeirra eru látin duga.
Atriði 3 er annar lykilþáttur. Lántaki í því máli sem er fyrir Hæstarétti greiddi bara í stuttan tíma eðlilegar greiðslur af láninu sínu, þ.e. greiðslur sem voru nálægt því sem kom fram í greiðsluáætlun. Eftir það hækkuðu greiðslur mjög skarpt og um áður en hann fékk skilmálabreytingu á lánið, þá hafði mánaðarleg greiðsla rúmlega tvöfaldast frá greiðsluáætlun. Fyrir þennan lántaka munu því jafnvel frekar óhagstæðir vextir koma betur út en þær greiðslur sem hann hefur þegar innt af hendi. Þetta helgast af því að tímabilið þar sem upphæð greiðslu, ef notaðir eru t.d. lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabankans, er hærri, sem einhverju nemur, en sú upphæð sem hann greiddi er mjög stutt. Í þessu tilfelli 3 mánuðir. Strax í fjórðu greiðslu er lántaki að greiða hærri upphæð vegna gengisbreytinganna, en ef miðað er við lægstu óverðtryggða vexti Seðlabankans. Hafi lánið aftur verið tekið 2004 eða 2005, þá breytist dæmið allverulega. Höfuðstóll lánsins beri óhagstæðari vexti (miðað við samningsvexti) í mun lengri tíma og vangreiðslu safnist upp. Í dæmi sem ég hef reiknað kemur út að lántaki "skuldar" yfir 100% ofan á það sem hann hefur þegar greitt af láni sem hann tók um mitt ár 2006.
Málflutningur var í Hæstarétti áðan og nú er bara að bíða eftir niðurstöðunni. Talsmaður neytenda sendi réttinum bréf fyrir nokkrum dögum, þar sem hann óskaði eftir því að rétturinn leitaði eftir leiðbeinandi áliti EFTA dómstólsins. Verði Hæstiréttur við því, mun niðurstaða dómsins tefjast um 2-3 mánuði, en hafni hann beiðninni, þá er niðurstöðu að vænta innan 2 - 3 vikna. Hver sem niðurstaðan verður mun hún fara illa niður hjá einhverjum. Ég ætla ekki einu sinni að giska á niðurstöðuna, en vona að hún verði eitthvað mildari en það sem héraðsdómur lagði á borð fyrir lántaka.
Hvort þetta mál getur orðið fordæmisgefandi fyrir önnur gengistryggð lán veltur á niðurstöðunni. Verði niðurstaðan að samningsvextir eigi að gilda, þá má búast við því að fordæmisgildið verði mjög víðtækt, einfaldlega vegna þess að þá er rétturinn að segja að samningar haldi þó einn liður samningsins sé dæmdur ógildur. Verði einhver önnur niðurstaða í málinu, þá er ekki víst að fordæmisgildið verði eins víðtækt. Héraðsdómur byggði t.d. sína niðurstöðu á því hvaða lánaform stóðu lántaka til boða og valdi þá leið sem var hagstæðust fyrir lántakann. Húsnæðislántakar höfðu aðra og hagstæðari kosti en bílakaupendum buðust. Lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabankans hafa langtímum saman verið óhagstæðari en þau kjör og því er mjög ólíklegt að dómstólar dæmdu þá á húsnæðislán.
Reynt hefur verið að hræða dómstóla til að vernda fjármálakerfið með þeim rökum að samningsvextir myndu setja fjármálakerfið á hliðina. FME reiknaði út að allt að 100 milljarðar féllu á ríkissjóð, ef samningsvextir stæðu. Ég komst að þeirri niðurstöðu að í mesta lagi 12 milljarðar af þeirri upphæð væru vegna lána heimilanna. Það er mat lögfræðinga, sem ég hef rætt við, að Salómonsdómur gæti orðið sá, að samningsvextir verði látnir gilda á lánum heimilanna, en fyrirtæki og sveitarfélög taki á sig hærri vexti. Höfuðstóllinn lækkaði hjá öllum í samræmi við dóma Hæstaréttar í júni. Síðan gætu fjármálafyrirtæki nýtt sér vaxtabreytingarákvæði og ákvæði um breytingar á vaxtaálagi til að rétta sinn hlut, ef svo má segja, en á móti hefðu lántakar möguleika á að endurfjármagna sig annars staðar. Ég ætla ekki að kaupa þann málflutning, að tímabundnir lágir vextir muni raska stöðu fjármálafyrirtækja það mikið, að þau fari á hausinn í hrönnum. Bankarnir þrír, BYR og Sparisjóður Keflavíkur hafa allir fengið afslátt hjá sínum kröfuhöfum. SPRON/FF eru í slitameðferð og fara því ekki aftur á hausinn. Bílalánafyrirtækin hafa öll boðið hagstæðari kjör og þolað það, t.d. fékk ég óverðtryggt, vaxtalaust lán hjá Lýsingu í nóvember 2005 og ekki kvartaði fyrirtækið yfir forsendubresti vegna þess láns.
Mér finnst mikilvægast í þessu máli, sem öðrum málum vegna gengistryggðra lána heimilanna, að það fáist þannig niðurstaða að fólk geti haldið áfram með líf sitt án þess að hafa gjaldþrot og nauðungarsölur hangandi yfir sér eða endalausa réttaróvissu. Mikilvægt er að lán heimilanna verði viðráðanleg. Best hefði verið, ef stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hefðu haft vit á því í október eða nóvember 2008 að skipta lánunum þá þegar upp í viðráðanleg lán sem haldið var áfram að greiða af og óviðráðanleg sem sett voru á ís þar til síðar. Lagði ég fram tillögu um slíkt í september, október og nóvember 2008 og fóru hugmyndirnar inn til Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, ásamt fleiri tillögum sem Gísli Tryggvason, talmaður neytenda, safnaði saman 7. október 2008. Hugmyndir mínar eru ennþá góðar og gildar og raunar er orðið bráðnauðsynlegt að þær séu teknar til nánari skoðunar áður en nýtt efnahagshrun skellur á okkur.
Gengislán í Hæstarétti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 38
- Frá upphafi: 1680019
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll þú talar um áður en nýtt efnahagshrun skellur á það er gott að fleiri en ég sjái það sem er að gerast!
Sigurður Haraldsson, 6.9.2010 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.