Leita í fréttum mbl.is

Stærsti glæpur Gylfa og Seðlabankans var að hylma yfir með lögbrjótum og það er lögbrot

Ég svaraði Merði á síðunni hans í gær og vil birta það svar hér:

Mörður, ég get alveg tekið undir að velta má fyrir sér hvort Gylfi hafi gert þetta viljandi eða ekki (eða þannig skil ég orð hans). Mér finnst þetta snúast um þrennt:
1) hvort Gylfi hafi yfirhöfuð skilið spurningu Ragnheiðar.
2) hvort hann hafi áttað sig á muninum á „myntkörfuláni“ og „erlendu láni“.
3) hvort skildi hann innihald minnisblaðs.

Ef ég byrja á þessu fyrsta, þá er mikill vafi á þessu. Ragnheiður spyr um myntkörfulán og Gylfi segist vera svara henni og tala um erlend lán. Þ.e. eitt af eftirfarandi gerðist 1) hann skildi ekki spurninguna, 2) ruglar saman myntkörfuláni og erlendu láni eða 3) snýr viljandi út úr.

Vafist þá eitthvað fyrir Gylfa hvað er erlent lán og hvað er myntkörfulán? Ef svo var, þá erum við í vondum málum, því við þurfum að velta fyrir hvað fleira vafðist fyrir Gylfa að skilja.

Nú loks er það varðandi minnisblað Sigríðar Rafnar Pétursdóttur. Í því kemur skýrt fram að í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 sé bara heimilt að verðtryggja með vísitölu neysluverðs og því sé gengistrygging óheimil. Hún segir einnig að vafi kunni að vera á því hvaða lán falla undir ákvæði greinarinnar og loks að greinin banni ekki lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum. Sigríður Rafnar segir í niðurstöðukafla minnisblaðs síns, að lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, séu ekki ólögmæt, en hún leggur líka áherslu á í niðurstöðukaflanum að bara megi verðtryggja lán í íslenskum krónum með vísitölu neysluverðs. Gylfi lyndi því Alþingi helmingnum af niðurstöðu Sigríðar í undirkafla 4.1. Gerði hann það viljandi, las hann ekki lengra eða skildi hann ekki minnisblaðið. Það skal bent á að Sigríður eyddi mun meira púðri í gengistrygginguna en erlend lán.

Þetta sagði ég á blogginu hans Marðar, en ég vil bæta við að málflutningur Steingríms J frá því í gær þegar hann reynir að færa sökina á klúðri Gylfa yfir á Ragnheiði, er aumkunarverður.  Ég er í samskiptum við talsverðan hóp þingmanna og einn þeirra sagði mér í vikunni, að þingmenn hefðu margir áttað sig á því að Gylfi hafi snúið út úr með því að segja "erlend lán" í stað "myntkörfulán".  Þeir hafi bara ekkert geta gert.  Dagskrárliðurinn sé þess eðlis að ekki sé hægt að koma að athugasemd við síðustu ræðu þess sem svarar fyrirspurn.  Aðrir þingmenn hafa sagt mér að aldrei fáist hreinskilin svör frá Gylfa í fyrirspurnartímum, hvorki þegar fyrirspurn er undirbúin né þegar hún sé óundirbúin.

Einnig vil ég birta hér svar til Baldurs McQueen á Eyjunni, en hann tekur þátt í þessum leik að færa sökin yfir á þingmenn út í sal:

Ég get sagt þér að margir þingmenn úti í sal kveiktu á „mistökum“ Gylfa. Þingmenn hafa sagt mér að þeir hafi orðið alveg æfir út í ráðherrann, en þeir hafa ekki önnur úrræði til að spyrja hann beint en í gegn um svona fyrirspurnartíma. Þess vegna hefur Gylfi verið spurður líklega þrisvar til viðbótar um þetta sama málefni og alltaf hefur hann ekki svarað sannleikanum samkvæmt. Brotavilji hans hefur því miður verið mjög einbeittur. Tvisvar var hann spurður um hvort ráðuneytið hefði lögfræðiálit undir höndum. Annað skiptið veitti hann munnlegt svar en í hitt skiptið skriflegt svar. Þetta mál eftir að verða ennþá stærra áður en það byrjar að fölna.

Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna fengum veður af því í águst á síðasta ári, að til væri lögfræðiálit í viðskiptaráðuneytinu sem segði gengistryggingu lána ólöglega. Þá er ég ekki að vísa til álita talsmanns neytenda og Björns Þorra Viktorssonar, heldur að til væri utanaðkomandi álit virtrar lögfræðistofu. Okkur datt ekki í hug að auk þess álits væru tvö mjög skýrt orðuð minnisblöð og þar af annað frá Sigríði Logadóttur, aðallögfræðings Seðlabankans. Jæja, við skoruðum á nokkra þingmenn að beina fyrirspurn til Gylfa um hvort þetta álit væri til. Því miður var spurningin of þröngt orðuð og þess vegna gat Gylfi vikið sér frá því að segja að álit LEX væri til. Af þeirri ástæðu var spurt aftur og aftur vék Gylfi sér undan því að svara af heiðarleika. Í millitíðinni hafði talsmaður neytenda fengið að sjá minnisblað Sigríðar Rafnar, en ráðuneytið nýtti sér ákvæði í lögum og ákvað að trúnaður ætti að gilda um álitið, þannig að Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, gat ekki greint frá innihaldi minnisblaðsins. Ráðuneytið reyndi því allt sem það gat til að fela það fyrir almenningi, að lögfræðingur ráðuneytisins hafi komist að samhljóða niðurstöðu og ég, HH, Gísli Tryggvason og Björn Þorri og raunar fleiri aðilar, að gengistrygging væri ólögleg samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Ráðuneytið brást líka þeirri skyldu sinni að vekja athygli FME á málinu (að því virðist) og þar sem ráðuneytið var þeirrar skoðunar að lögbrot hafi verið framið, þá braut það lög með því að tilkynna ekki um lögbrotið. Það varð samsekt.

Það er þetta síðasta í svarinu til Baldurs sem ég vil gera að umræðuefni hér.  Af hverju kærðu hvorki Seðlabankinn né viðskiptaráðuneytin grunuð lögbrot fjármálafyrirtækjanna til lögreglu?  LEX lögmannsstofa, Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands, og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur viðskiptaráðuneytisins, höfðu öll komist að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólögleg verðtrygging samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Samkvæmt 18. gr. sömu laga varða brot gegn lögunum sektum.  Það felur í sér aðkomu löggæsluyfirvalda og dómstóla.  Af hverju hunsuðu þessir opinberu aðilar skyldu sína að kæra?  Ekki hefur vafist fyrir Seðlabanka og/eða FME að kæra brot á gjaldeyrislögum til lögreglu.  Eru brot gegn vaxtalögum ómerkilegri brot?  Eða var þetta hluti af samtryggingu stjórnvalda með fjármálakerfinu, sem var toppuð með tilmælum SÍ og FME 30. júní síðast liðinn.

Ég verð að segja, að það er svo margt í þessu máli öllu sem gengur engan veginn upp nema að ætla verður ríkisstjórninni, Seðlabanka og FME að þessir aðilar hafi ákveðið að verja hlut fjármálafyrirtækjanna.  Lögbrot hafa verið framin hér hægri - vinstri, en menn gera allt til að bjarga lögbrjótunum.  Kaupþing, Glitnir, Landsbanki Íslands, Icebank, BYR og hugsanlega SPRON völtuðu yfir lögin eins og þeim kæmi þau ekki við með ólögmætum viðskiptaháttum, bókhaldsfiffi, markaðsmisnotkun, blekkingum og ég veit ekki hvað.  Þessi fyrirtæki og Lýsing, SP-fjármögnun, Avant, SagaCapital, AskarCapital, VBS, Frjálsi fjárfestingabankinn og fjölmargir sparisjóðir um allt land brutu lög með því að veita lán með ólöglegri gengistryggingu.  Af hverju kærðu viðskiptaráðuneyti og Seðlabanki ekki þessi fyrirtæki til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í fyrra sumar?  Þau geta ekki borið fyrir sig, að ekki hafi verið vitað hvaða lán heyrðu undir 13. og 14. gr. og hver ekki, þar sem það er efnahagsbrotadeildarinnar og síðar saksóknara að ákveða það.  Og af hverju er ekki búið að kæra þessa aðila nú þegar?  Er það í lagi að brjóta lögin, þegar í hlut á lánafyrirtæki með marga starfsmenn, en þegar í hlut eiga fjögurra manna fyrirtæki sem stundar gjaldeyrisviðskipti, þá er það glæpur gegn þjóðinni?

Meðvirkni stjórnvalda, Seðlabanka og FME gagnvart brotum fjármálafyrirtækjanna ríður ekki einteymingi.  Ítrekað taka þessir aðilar upp hanskann fyrir fyrirtæki sem farið hafa mjög illa með þjóðina.  Er mönnum sjálfrátt í vitleysunni?  Og núna kemur í ljós að fyrir 15 mánuðum lá fyrir í Seðlabanka Íslands álit sem sagði að fjármálafyrirtæki væru að brjóta lög. Það heitir yfirhylming að greina ekki frá grun sínum um lögbrot.  Lögfræðiálit eða ekki, gruni einhvern að annar aðili brjóti lög og greinir ekki frá því, þá er sá að hylma yfir með lögbrjóti.  Það er Gylfi sekur um, það er viðskiptaráðuneytið sekt um og það er Seðlabanki Íslands sekur um.


mbl.is Fráleitt að Gylfi hafi logið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komdu sæll Marinó.

Ég hef mikið lesið undanfarið hvað þú hefur skrifað um þetta mál og önnur undanfarið. Ég tek ofan fyrir þér hvað þú setur þig vel inn í málin, hvað þú ert málefnalegur í skrifum þínum og hvað þú færir virkilega sterk rök fyrir máli þínu.

Þú átt heiður skilið.

Sigurbergur (IP-tala skráð) 15.8.2010 kl. 16:18

2 identicon

Meðvirknin virðist ekki eiga sér nein takmörk. Glæpahyskið virðist eiga eftirlitsstofnanir landsins. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu RNA. Nú blasir við að meðvirknin er ennþá á fullu. Nú blasir líka við að kröfuhafar erlendis munu ekki sætta sig við bullið, gróft ofmat á lánasöfnum liggur fyrir og undir söluna kvittuðu íslensk stjórnvöld. Manni finnst eins og það þurfi annað hrun, ekkert hefur breyst. Rosalegasta klúðrið eiga stjórnvöld með Gylfa í fararbroddi, hreinsuðu ekki út bankakerfið. Krimmarnir eru þar allir ennþá, eigna líklegast eftirlitsstofnanirnar ennþá. Erfitt er að ætla annað þegar SÍ og FME verja krimmana með kjafti og klóm í stað þess að senda lögregluna á eftir þeim.

sr (IP-tala skráð) 15.8.2010 kl. 16:25

3 identicon

Hér er komið að kjarna málsins. Lögfræðingar Seðlabankans og lögfræðingar ráðuneytisins komast að því að bankar og fjármálastofnanir eru að brjóta lög. Það liggur beint við að vísa málinu til lögreglu eða réttra aðila í réttarkerfinu. Lögbrot á að stöðva og refsa þeim sem brjóta af sér. Svo einfalt er það!! En þetta gerist ekki heldur fara álitsgerðirnar á milli stofnana án þess að gripið sé til ráðstafana.!! Hvernig er hægt að skýra þetta nema með því að verið sé að verja mikilvæga hagsmuni?

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 15.8.2010 kl. 16:40

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég er sammála þessu - þ.e. virðist flest benda til að sú meðvirkni með fjármála- og bankastofnunum sem mjög var gangrýnd í hrunskýrslunni hafi ekkert minnkað, þvert á móti sýni atburðir umliðinna 2.ára - sértaklega meðferð gengistryggrða lána, að ekkert - nákvæmlega, ekkert hefur lagast í stjórnsýslunni - í pólitíkinni.

Enn er vitandi vits verið að fremja mjög alvarleg afglöp.

Þetta skapar mikla tortryggni, því sagan hefur oft sýnt að þegar atburðarásin er undarleg innan stjórnkerfis, þ.e. aðilar virðast hegða sér gegn eigin hagsmunum sem er að vera skilvirkt stjv. þá eru þeir sennilega að þjóna einhverjum öðrum hagsmunum.

Getur verið, að leynireikningar séu til erlendis, sem stjm.menn fái aðgang að í skattaparadísum, þ.e. mútufé?

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 15.8.2010 kl. 16:40

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Tek heilshugar undir fyrstu athugasemd.  Hafðu þökk fyrir að setja málin skilmerkilega fram Marinó. 

Magnús Sigurðsson, 15.8.2010 kl. 18:23

6 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ísland í dag!  Ömurlegt en virðist því miður satt - ekkert hefur breyst.  Þakkir fyrir einarðan, rökfastan málstað og harðfylgni! 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 15.8.2010 kl. 18:43

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þú átt miklar þakkir skildar fyrir allar þínar útskýringar og miklu vinnu Marinó.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.8.2010 kl. 22:41

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Er það ekki skylda okkar allra að koma því á framfæri við þar til bær yfirvöld, ef við höfum grun um að lög í landinu hafi verið brotin. 

Að viðkomandi ráðherra geri ekki athugasemd við slíka yfirsjón eru líka undarleg vinnubrögð.

Að Seðlabankinn hafi ekki komið upplýsingum um sama grun um lögbrot til skilanefnda bankanna, eru líka afar undarleg vinnubrögð.

Að yfirmaður viðskipta í landinu sjái ekki ástæðu til að gera athugasemd við það vinnulag er líka stórundarlegt.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.8.2010 kl. 22:49

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir þessa greinagóðu bloggfærslu. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.8.2010 kl. 00:56

10 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Þúsund þakkir Marinó.

Margrét Sigurðardóttir, 16.8.2010 kl. 01:22

11 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þetta er alveg ótrúlegur lestur. Hvað veldur slíkri framkomu ráðherra - og nú gerast áleitnari spurningar um hvort fleiri ráðherrar hafi virkilega ekkert vitað neitt um þessa álitsgerð og minnisblöð.

Þar ekki að kalla saman Rannsóknarnefnd Alþingis (sama fólkið og stóð sig með prýði) til að taka þetta grafalvarlega mál út lið fyrir lið?

Svo er álitaefni hvort ekki eigi  að taka líka út meðferð Icesave málsins - lið fyrir lið - af sömu nefnd.

Kristinn Pétursson, 16.8.2010 kl. 10:46

12 identicon

Gylfi datt og liggur flatur, engin furða að kappinn sé latur/slakur. Gylfi er orðinn handbendi fjármagnseigenda og fjórflokkanna (hefur kannski verið það frá upphafi), og leiðin er svört fyrir almenning. Meirihluti á þingi er meira eða minna involveraður í hruninu og svikunum, svo í dag er staðan einfaldlega þannig að 'stjórnmálamenn' eru að bjarga eigin skinni með hjálp 'fjármagnseigenda': Milljarðar eru afskrifaðir hjá klíkufélögum/mafíunni og almenningur blæðir. Alger viðbjóður!

Það ætti einfaldlega að flytja inn 500.000 Pólverja, 500.000 Kínverja og 500.000 Suður-Ameríkubúa og smíða á landinu alvöru markað og lýðveldi. Það er hægt að setja ýmsar kröfur varðandi nýja landnema, því stjórnleysi gagnast engum. En núverandi 'glæpalýðræði' er engum til hags nema fjórflokkastofnunum og makkandi fjármagnseigendum.

Ólafur Hauksson og félagar ættu að fá leyfi til að skoða og commentera á væntanlega aðila að Þjóðstjórn.

Þjóðrembingur er local heigulsháttur og vanþekking, en hafa ber samt í huga að dyggðir og local þekking yfirleitt drukknar í skrifræði.

Af hverju er enginn ábyrgur fyrir neinu? Þetta er allt enn og sama steypan og áður, sömu leikendur og eigendur, og áhorfendum fækkar á meðan allt fer á hausinn. Öllum er sama og enginn ábyrgur. Þessi lygasaga er sönn og heldur áfram á meðan meðvirkir eru ofvirkir, en á sama tíma óvirkir.

nicejerk (IP-tala skráð) 16.8.2010 kl. 20:35

13 Smámynd: Elle_

Marinó, góður pistill og vandaður.  Held Gylfi Magnússon ætti að víkja núna strax og þó alls ekki síður Jóhanna Sig. og allur hennar gjörspilliti lygaflokkur og Steingrímur J. Sigfússon. 

Elle_, 16.8.2010 kl. 21:05

14 Smámynd: Elle_

Verð að svara Kristni, hann skrifar: Hvað veldur slíkri framkomu ráðherra - og nú gerast áleitnari spurningar um hvort fleiri ráðherrar hafi virkilega ekkert vitað neitt um þessa álitsgerð og minnisblöð.

Kristinn, hvort sem þeir vissu eða vissu ekki um það, var það skylda þeirra allra að sækjast eftir upplýsingum um það.  Þau voru ekki í neinum skugga, bæði hafði hæstaréttarlögmaðurinn sem vann málið í Hæstarétti, Björn Þorri Viktorsson, skrifað ÖLLUM Alþingismönnum um ólögmæti gengistr. lána fyrir um 15 mánuðum og Gunnar Tómasson, hagfræðingur, ekki löngu seinna.  Líka hafði HH bent þeim á líklegt ólögmætið.   

Elle_, 16.8.2010 kl. 21:15

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eldri dóttir mín er mjög fróðleiksfús og forvitin um lífið og tilveruna, og eins og gefur að spyrja þá spyr hún oft pabba sinn úti það sem henni finnst skrýtið eða skilur ekki. Það vill svo til að ég hef sjálfur þennan eiginleika líka auk þess að muna vel eftir staðreyndum. Hingað til hefur því ekki staðið á svörunum við hinum ólíklegustu surningum frá barninu, meira að segja hvers vegna himininn er blár! (eða virðist vera það)

Hún er núna orðin 9 ára og farin að komast til nógu mikils vits til að velta fyrir sér sumu sem hún heyrir í fréttum þegar kveikt er á sjónvarpinu. Í fyrsta skipti á ævinni stend ég hinsvegar algjörlega á gati þegar kemur að því að reyna að útskýra hvernig standi á því að fullorðið fólk skuli taka upp á því að hegða sér svona kjánalega eins og raun ber vitni. Hvað þá hinir háttsettu ráðherrar, sem eiga að heita útvaldir til að fara með yfirráð í mikilvægum málaflokkum.

"Pabbi, afhverju er löggan ekki búin að handtaka fjárglæpamennina?"

Ég get ekki annað en haft áhyggjur af því hvaða áhrif það kann að hafa á ungu kynslóðina þegar fram líða stundir, að hafa alist upp með það í eyrunum að hér á landi þrífist glæpastarfsemi óáreitt, og að því er virðist í skjóli stjórnvalda. Það er ekki sú ímynd af íslensku þjóðfélagi sem ég ólst upp við, og ekki til þess fallið að vekja öryggistilfinningu hjá þeim sem eru nú að taka sín fyrstu skref sem virkir þjóðfélagsþegnar. Við ráðamenn þjóðarinnar myndi ég vilja segja þetta: Skammist ykkar og hunskist upp úr sandkassanum! Meira að segja grunnskólakrakkar vita betur og eru stórhneyksluð á asnaskapnum í ykkur.

P.S. Veit einhver hvort íslensk lög leyfa borgaralegar handtökur? Þegar löggæsluyfirvöld neita að sinna starfsskyldum sínum þá stendur valið á milli tveggja möguleika: a) lögleysu og glundroða, eða b) að heiðvirt fólk bindist samtökum um að framfylgja landslögum að eigin frumkvæði. Fyrir börnin mín vil ég alls ekki sjá það fyrrnefndaverða að veruleika.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.8.2010 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 195
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 176
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband