14.8.2010 | 12:37
Skildi hvorki spurninguna né minnisblaðið
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, kemur með sína skýringu á svari sínu til Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og heldur áfram að hagræða sannleikanum. Eða er hann að opinbera að hann hvorki skildi spurningu Ragnheiðar né minnisblað Sigríðar Rafnar Pétursdóttur.
Hann byrjar að skýla sér bakvið að í umræðunni "í þinginu var ýmist talað um myntkörfulán, erlend lán eða lán í erlendri mynt". Það er gott og blessað en spurning Ragnheiðar hljómaði sem hér segir:
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):Frú forseti. Í ljósi þessarar fyrirspurnar langar mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra. Svo virðist sem myntkörfulánin séu í raun hrein krónulán en með erlendu viðmiði. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti slíkra lána hafið yfir allan vafa þegar höfð eru til hliðsjónar lög nr. 38/2001, um vexti og verðbætur? Þar kemur fram að ekki megi miða lán við neitt annað en það sem þar stendur. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?
(Feitletrun mín.)
Ragnheiður var því hvorki að spyrja um "erlend lán eða lán í erlendri mynt". Hún var að spyrja um myntkörfulán sem að hennar mati virðast vera "í raun hrein krónulán en með erlendu viðmiði". Ekkert um "erlend lán eða lán í erlendri mynt". Samt svarar Gylfi henni með eftirfarandi:
Viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (U):Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt.
Hann tekur sérstaklega fram að hann ætli fyrst að víkja að fyrirspurn Ragnheiðar og segir hana snúast um "lögmæti lána í erlendri mynt". En það er bara ekki rétt. Ragnheiður spurði hvort hann teldi "lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa". Hvernig getur maðurinn sagt, að hann hafi ekki verið að afvegaleiða umræðuna, þegar hann segir í dag að svar sitt hafi snúist um "erlend lán", en kemur með inngang um að hann sé að víkja að "fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur", sem var um lögmæti myntkörfulána. Þetta segir mér að hann hafi annað hvort ekki skilið spurningu Ragnheiðar eða vísvitandi svarað henni vitlaust og þar með afvegaleitt þingið.
Nú hann virðist ekki heldur skilja minnisblað Sigríðar Rafnar Pétursdóttur, þegar hann segir í seinni hluta tilvísunar minnar:
Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt.
Aftur verðum við að hafa í huga að Ragnheiður var að spyrja um "myntkröfulán" ekki "erlend lán eða lán í erlendri mynt". Hann er því annað hvort að afvegaleiða þingið eða skilur ekki álit Sigríðar Rafnar.
Það er rétt að Sigríður Rafnar segir ekkert í lögum sem banni lánveitingar í erlendum gjaldmiðli:
Að mati undirritaðrar verður þó ekki lagður sá skilningur í ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, út frá umræddu ákvæði, að þau banni lánveitingar í erlendum gjaldmiðli og tengingu við gengi þeirra í lánssamningum með hliðsjón af gildissviði VI. kafla laganna og meginreglunni um samningsfrelsi.
En spurningin snerist ekki um "lánveitingar í erlendum gjaldmiðli" heldur myntkörfulán sem að mati Ragnheiðar "séu í raun hrein krónulán en með erlendu viðmiði". Það merkilega við álit Sigríðar Rafnar, Sigríðar Logadóttur, LEX lögmannsstofu og Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, er að öll komast að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að tengja fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Gylfi Magnússon hafði því undir höndum eða aðgang að fjórum lögfræðiálitum innan úr stjórnsýslunni eða sem stjórnsýslan hafði óskað eftir, sem öll sögðu að lánin sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði um væru með óheimila gengistryggingu. Ekkert þessara álita tók á nokkurn hátt undir að einhver vafi væri á þessu. Það sem aftur Sigríður Rafnar Pétursdóttir segir að vafi leiki á því hvaða lán teljist gengistryggð og hver ekki:
Það getur verið álitaefni hvort um ræði lánveitingu í erlendum gjaldmiðli eða lánveitingu í íslenskum krónum. Lánssamningar eru mismunandi og túlkun þeirra skiptir máli. Úr slíku álitaefni verður að skera á grundvelli þeirra samningsskilmála sem við eiga hverju sinni, með hliðsjón af atvikum við samningsgerð, stöðu samningsaðila o.s.frv. Heildarmat verður að fara fram á efni samnings, þ.m.t. samningskjörum, enda kunna atvik eða skilmálar að renna stoðum undir að lán sé í þeirri mynt sem tilgreind er eða jafnvel benda til þess að lán sé í raun í annarri mynt þrátt fyrir tiltekið orðalag.
Gylfi var ekki beðinn um að slíka greiningu, en ef ég ætti að búa til rétt svar við spurningu Ragnheiðar út frá minnisblaði Sigríðar Rafnar, þá væri það eftirfarandi:
Viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (U):Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti myntkörfulána. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að óheimilt sé samkvæmt 13. og 14. gr. vaxtalaga nr 38/2001 að tengja fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Það sem aftur leiki vafi á um sé hvaða lán teljast falla undir þetta ákvæði laganna og því sé ekki sjálfgefið að myntkörfulán séu ólögmæt. Nauðsynlegt geti að fá úrskurð dómstóla um slíkt. Þau lán sem ekki falla undir ákvæði vaxtalaganna, gætu verið lögleg að mati lögfræðings ráðuneytisins.
Þetta er rétt svar við spurningu Ragnheiðar og hefði átt að vera svar Gylfa. Með þessu væri hann ekki að segja að öll svona lán væru afdráttarlaust með ólöglega gengistryggingu og heldur ekki að segja að öll form erlendra lána væru afdráttarlaust lögleg. Málið er nefnilega að Sigríður Rafnar tekur nefnilega ekki afdráttarlausa afstöðu í hvorugu tilfelli. Bara að annað sé í einhverjum tilfellum ólögleg og í hinu að 13. og 14. gr. banni lánin ekki, en ekkert er sagt til um önnur ákvæði laga eða önnur álitaefni sem gætu tengst slíkri lánveitingu.
Ekki kappsmál að vera ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 81
- Sl. viku: 275
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Gylfi er alger þöngulhaus, ef hann skildi ekki spurningu Ragnheiðar. Hann reyndi hins vegar blekkingarleiðina, alveg frá því í fyrra og hélt því áfram allat fram á þetta sumar, en reyndist svo ofursleipur, að nú fer hann kollhnís á leið út úr ráðuneytinu.
Jón Valur Jensson, 14.8.2010 kl. 13:25
Það vissu það nánast allir sem höfðu sett sig inn í þessa umræðu að vafinn snerist um lögmæti lána veitt íslenskum einstaklingum eða lögaðilum til að kaupa bifreiðar eða fasteignir af öðrum íslenskum einstaklingum eða lögaðilum. Þar sem höfuðstóllinn var tengdur gengi erlendra gjaldmiðla og erlendar myntir skiptu aldrei um eigendur.
Enginn dró í efa lögmæti lána í beinhörðum gjaldeyri. Þess vegna var forsendan í spurningu Ragnheiðar rétt.
Nú ef Gylfi var ósammála því að myntkörfulánin væru íslensk krónulán með erlent viðmið, eða vissi betur, átti hann auðvitað að leiðrétta Ragnheiði. Það gerði hann ekki. Ef Gylfi gerði sér ekki grein fyrir þessum mun sem ég útskýri hér í upphafi var hann ekki starfinu vaxinn. Líklega vissi hann muninn, en kaus að ljúga og leyna sannleikanum.
Maðurinn er gjörsamlega flæktur í eigin lygavef og kemst hvorki lönd né strönd.
Theódór Norðkvist, 14.8.2010 kl. 14:27
Það er ljóst að Jóhanna og Steingrímur ætla ekkert að gera í málinu. Það er ekkert annað en hroki gagnvart kjósendum. Fólkið sem talaði um gegnsæi og allt uppi á borðinu. Hafi spilling verið grassandi áður þá er hún enn meiri hjá þessari siðblindu ríkisstjórn eiginhagsmuna sinna.
Björn (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 14:28
þessi maður á að segja af sér með hraði , maður er hættur að botna í hverskonar samfélagi við búum í. heiðarleikinn er enginn.
Georg (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 15:11
Marinó - þú ert á svona svipuðum þekkingar"level" og Gylfi - hvenær byrjaðir þú að gera greinarmun á láni í erlendrir mynt og það sem við þekkjum í dag sem íslensk lán með gengistryggingu eða myntkörfulán?
Og svo er rétt að halda samhenginu: Þessi orð sem þú ferð svo rækilega í gegn um féllu í umræðu um fyrirspurn Birkis Jóns Jónssonar um gjaldeyrislán - ekki myntkörfulán!
Þ.e.a.s: Birkir Jón spurði um lán í erlendum gjaldeyri (gjaldeyrislán), Gylfi svaraði og talaði um gjaldeyrislán, nokkrir þingmenn tjá sig um gjaldeyrislán og svo kemur Ragnheiður allt í einu í umræðu um gjaldeyrislán að tala um myntkörfulán (og tekur ekki fram að hún sé að tala um annan hlut) en Gylfi heldur áfram að tala um gjaldeyrislán.
Það má því auðveldlega halda því fram að það hafi verið Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem var að færa umræðuna til.
Punkturinn er sá að þó að við flest gerum okkur fulla grein fyrir muninum á gjaldeyrisláni og gengistryggðu láni í dag þá var sá greinarmunur ekki eins ljós í fyrravor.
Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 15:53
Það er ekki séns að doktor í hagfræði hafi ekki skilið spurningu Ragnheiðar.
Þórdís (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 16:34
Laukrétt hjá Þórdísi. Þeim mun skýrar hljóta menn að sjá það í ljósi þess, að fyrirspurn Ragnheiðar var borin fram skriflega 1. júlí 2009, en Gylfi svaraði ekki fyrr en 11. júlí. Ef hann skildi ekki spurninguna á 10 dögum, þá hefur öll hagfræði þurrkast út úr kollinum á honum, og þá er eðlilegt að spyrja: Í krafti hvers er hann ennþá efnahags- og viðskiptaráðherra?!
Jón Valur Jensson, 14.8.2010 kl. 17:27
Svar Gylfa var löngu tilbúin neyðarredding, ef óþægileg fyrirspurn af þessum toga bærist.
Dingli, 14.8.2010 kl. 18:07
Rétt hjá þér Jón Valur, það er með ólíkindum að ráðherrann skuli sitja sem fastast á sínum vitgranna botni. Þegar maðurinn er spurður spurninga þá á hann einfaldlega að svara því sem hann er spurður um en ekki gefa sér að spurningin hafi verið um eitthvað annað. Ótrúlegt að bera þessa hringavitleysu á borð fyrir mann. Ráðherrann á að sýna þann manndóm í sér að láta sig hverfa, hann er greinilega starfinu ekki vaxinn, frekar en þau hin en það er jú annað mál.
Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 14.8.2010 kl. 18:36
Í hvaða veröld búið þið þar sem stjórnmálamenn koma sér ekki undan óþægilegum spurningum með að svara öðru en um var spurt?
Ég neita að trúa því að einn einasti einstaklingur hér sé í rauninni hneykslaður yfir þessu. Það getur enginn fullorðinn maður lifað í svona mikilli sjálfsblekkingu.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 19:11
(ps. ég er að saka suma hér um að vera standa fyrir aumkunnarverðu lýðskrumi vegna pólitískra skoðana. Svona ef pósturinn skyldi ekki hafa verið nægilega móðgandi)
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 19:13
Þ.e. gömul brella pólitíkusa að takast á við óþægilegar spurningar með þeim hætti, að svara þeim með þeim hætti eins og um allt aðra spurningu sé að ræða.
Þeir mistúlka spurninguna sem sagt viljandi, og koma sér þannig undan að svara beint ef spyrjandi er ekki vakandi fyrir brellunni.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 19:29
Páll - sem sagt skv. þínum viðmiðunum, eru brellur og óheiðarleiki normal? Með öðrum orðum, eðlileg tæki ráðandi afla?
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 19:31
Tjah, raunveruleikinn er eins og hann er og lítið við því að gera.
Það ámælisverða hér er að menn virðast ekki hafa reynt að búa sig undir að taka á þessu vandamáli þegar þeim varð ljóst að það var fyrir hendi. En það að ráðherra hafi reynt að koma sér undan því að viðurkenna vandamálið opinberlega? Meh.
Það ber vott um ákveðna forræðishyggju og lítið traust á hinum almenna borgara (miðað við ruglið í almennri umræðu skil ég reyndar þetta litla traust á okkur) en ég sé ekki að þetta sé sérstaklega siðferðislega ámælisvert.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 20:20
Þessi umræða er farin að taka á sig mynd múgæsingar byggða á röngum forsendum. Mest áberandi í ath. víða um bloggheim, en líka hjá fólki sem nær daglega tjáir sig þar.
Þagnar og lygamúrinn er að smá hrynja, nú síðast í kvöldfréttum RUV. og þegar sést í gegn kemur í ljós, að Gylfi las bara upp úr plaggi, sem samið var af ríkisstjórninni, hluta hennar a.m.k., og/eða ráðuneytum.
Frá upphafi þessa upphlaups hef ég haldið því fram að Gylfi hafi ekki tekið það upp hjá sjálfum sér, að halda einu eða neinu leyndu fyrir neinum. Það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar! Og Skallagrímur hreinlega játaði því í dag!!
PS. Svo sagði Jóka: Af hverju var ég ekki látin vita af þessu????? GAGA GAGA GA......dongjongjog jogjnnn.
Má ekki frysta kellinguna, og fjöldaframleiða af henni litlar styttur á skrifborðin í Brussel?
Dingli, 14.8.2010 kl. 20:25
Páll og Einar koma réttu megin að þessu!
Dingli, 14.8.2010 kl. 20:28
Af hverju gilda aðrar reglur um ráðherra hér á landi en annars staðar? Þessi "vammlausi" ráðherra hreinlega laug að þjóð og þingi. Það er ekkert annað orð til yfir hans framferði. Hvar annars staðar í vestrænum heimi kemst ráðherra upp með slíkt? Ef það er eitthvað sem Gylfi er ekki að hann er ekki heimskur. Láti ekki nokkur maður detta það í hug að hann eða aðrir ráðherrar hafi ekki verið upplýstir um ólögmæti gengistryggðra lána. Ríkisstjórnin í heild ákvað að taka stöðuna með bönkunum og gegn almenningi. Þess vegna á hún öll að víkja (og reyna að skammast sín í leiðinni).
Guðmundur St Ragnarsson, 14.8.2010 kl. 20:33
Akkúrat !! Guðmundur.
Dingli, 14.8.2010 kl. 20:40
Byrjar þetta kjaftæði aftur. Rétti sá upp hönd sem virkilega er á þeirri skoðun að ríkisstjórnin vinni ekki með hagsmuni almennings í huga. Ég er ekki sammála þessari ríkisstjórn í pólitík en á engum tímapunkti dettur mér annað í hug en að hún sé öll af vilja gerð.
Hún er bara léleg.
Þegar ríkisstjórn ákveður að styðja hagsmuni banka umfram hagsmuni X fjölda heimila þá er það væntanlega gert vegna þess að umrædd ríkisstjórn telur að það valdi þjóðfélaginu meiri skaða ef bankinn fellur heldur en þessi X heimili.
Ég get verið ósammála þessu mati og talið að fall bankans valdi alls ekki jafn miklum skaða og fall þessara X heimila, en það þýðir ekki að það sé einhver djúp illgirni hér á ferð af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 20:56
Ég rétti sannarlega uppi hönd, Páll, og hef oft gert það!
Jón Valur Jensson, 14.8.2010 kl. 21:11
------------------------
Áhugaverð afstaða - einhvern veginn rennur mig í grun, að útrásarkóngarnir væru fullkomlega sammála þér, þ.e. lygi - svik og prettir, séu í lagi á meðan þú kemst upp með það.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 21:21
----------------------------
Páll - þetta er ekki einhver naive skoðun, það raunverulega gerist erlendis að ráðherrar fara frá þegar þeir eru staðnir / hankaðir á lýgi.
Auðvitað vita allir að stjv. og stjm.menn ljúga, en þ.e. dálítið sérstakt að komast upp með beinar lygar fyrir framan Alþingi þegar þú miðar við evrópsk stjm. samhengi, þegar lygin er skjalfest.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 21:26
-----------------------
Þ.e. auðvitað hugsanlega þannig - en hitt er einnig möguleg skýring að verið sé að þjóna hagsmunum aðila er stýra á bakvið tjöldin.
Munum að þ.e. ýmisleg ljótt í gangi, sbr. bílar teknir af fólki langt undir markaðsverðir, seldir til tiltekinna bílasala, sem síðan selja þá áfram á mun hærra verði - einhver hirðir gróðann af því.
Bankarnir gera svipaða hluti, þ.e. hirða eignir af fólki á langt undir sannvirði meira að segja miðað við markaðinn í dag, eign framseld til þriðja aðila er selur hana síðan á mun hærra verði, - einhverjir hirða einnig þann gróða.
Þessu er heimilað að grassera.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 21:31
Við skulum hafa það á hreinu að það er mín skoðun að Gylfi hafi alveg vitað upp á hár hvað hann sagði og að með því væri hann að komast hjá því að segja sannleikann um álit lögfræðinga SÍ og ráðuneytisins um gengistryggðu lánin. Ég er bara að nálgast málið út frá því að rífa niður öll rök sem hann eða aðrir eru að halda á lofti sem "réttlætingu" á bullinu í manninum. Mér finnst líka með ólíkindum að Steingrímur J. sé að verja manninn sem framúrhófi heiðarlegan, en það er bara vegna þess að ríkisstjórnin má ekki við því að almenningur fái að vita, að ríkisstjórnin vissi sjálf af áliti lögfræðinganna. Þetta er einfaldlega hluti af pólitískum hráskinnaleik. Lygi í nafni pólitíkur er eitthvað sem hefur alltaf fengið að viðgangast hér á landi, en núna eru vefmiðlarnir einfaldlega orðnir það sterkir að menn komast vonandi ekki upp með þetta.
Ég er sannfærður um að svör Gylfa voru vandlega undirbúin og tek því ekki trúanlega þær skýringar sem hafa komið. Minn málflutningur hefur byggt á því að láta Gylfa njóta vafans og sýna fram á að rökstuðningur hans, skýringar og afsakanir standast ekki nema eitthvað ennþá verra hafi gerst. Niðurstaða mín er að það sé í raun illskárst fyrir Gylfa að viðurkenna að hann hafi afvegaleitt þingið, heldur en að vera uppvís af vanhæfi, skilningsleysi eða þekkingarskorti.
Marinó G. Njálsson, 14.8.2010 kl. 21:31
Já Marínó - ríkisstj. skref fyrir skref, grefur undan því trausti og vonum er ríkti raunverulega til hennar í upphafi hennar starfsferils.
Ég held að enginn slái VG út í fj. svikinna kosningaloforða.
Þessi nýju svik, eru ástæðan fyrir því hve Besti Flokkurinn fékk rosalega mikið fylgi, því skynjun fólks á að vinstir flokkarnir hafi svikið okkur líka, veldur því að fólk er til í að gefa skít í alla innlenda pólitík.
Þetta er hugsanlega hættulegt ástand, en munum að Chaves komst til valda í Venesuela vegna þess, að upplifun þarlendra var að öll hin hefðbundna pólit. stétt hefði brugðist, sama átti við þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi - þannig að þ.e. raunveruleg hætta við það, að búa til þá sterku upplifun, að allir flokkar séu ónýtir.
Þá getur hvað sem er gerst, bæði gott og íllt.
-------------------------
Fólk er að leita að einhverju til að trúa og treysta á - Marínó ef þú stofnar flokk, vil ég vera með.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 21:41
Sammála þessu mati þínu, Marinó. Þú ert rökhyggjunnar maður, og væntanlega efast enginn um sannleiksást þína og umhyggju fyrir réttlætinu.
Jón Valur Jensson, 14.8.2010 kl. 21:43
Einar: Nú hljótum við að vera að tala um einhver önnur ummæli Gylfa í tengslum við þetta mál, það getur ekki verið að þú sért að halda því fram að stjórnmálamenn í nágrannalöndunum segi af sér embætti fyrir svipuð ummæli og hann lét uppi þarna í þinginu.
Ég vona að ég sé að missa af einhverjum öðrum vafasömum ummælum frá Gylfa varðandi þetta mál (sem getur vel verið tilfellið). Að öðrum kosti er best að ég drífi mig í því að henda mér fram af svölunum til að spara mér kvalafullan dauðdaga af völdum aulahrolls yfir þessari gegnsæu gervihneykslun.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 21:43
----------------------------------------
Páll - þ.e. fjölmörg dæmi um að stjm.menn segi af sér í Evrópu, og oft vegna hluta sem hér enginn myndi lyfta augabrúm yfir.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 21:46
Stóra ástæðan fyrir afstögn Gylfa að mínu mati, er þó ekki lygin heldur klúðrið í kringum sölu bankanna, að þ.e. staðfest að a.m.k. 3 álit voru til staðar í ráðuneytinu, salan fór samt fram án þess að því virðist að málið hafi verið skoðað nánar eða kröfuhafar látnir vita af óvissunni - og jamm víst, kostnaðarsöm klúður eru einmitt dæmigerð atriði er knýja ráðherra erlendis til afsagnar.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 21:48
Marinó, heiðursmagnið sem þú átt skilið fyrir aðkomu þína að þessu máli sem öðrum er ómælanleg.
Hafði alveg á tæru hvað þú varst að gera, og svo það sé líka á tæru, þá var ég ekki að sneiða að þér, en nánast öllum öðrum.
Dingli, 14.8.2010 kl. 21:51
Síðan ef einhver hefur áhuga á umræðu um Evru, þá bendi ég á mína nýjustu færslu:
Stóri vandinn við það að búa við Evruna er að vera innan sama gjaldmiðils og Þýskaland. Þýskaland er ofurhagkerfi Evrópu alveg í sérklassa út af fyrir sig!
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 21:51
Einar: Þarna kemur þú með alvöru point. Það er nóg sem hægt er áfellast þessa ríkisstjórn fyrir án þess að grípa til svona lýðskrums.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 21:56
Dingli, ég hef ekki neinar áhyggjur af því að þú sért að senda pillu til mín. Ég sá að aðrir áttu hana.
Marinó G. Njálsson, 14.8.2010 kl. 21:58
Þ.e.a.s. í 21:48. Í 21:48 ert þú í raun ekkert að segja annað en að þú sért fylgjandi því að lítil svæði séu best geymd með eigin stjórn sem hefur eigin hagsmuni að leiðarljósi, sem er svo sem sjónarmið út af fyrir sig en frekar redundant.
Sama gætu hagsmunaðilar hvar sem er sagt vegna flestra pólitískra ákvarðana. Ákvarðanir sem eru teknar með hagsmuni ólíkra hópa í huga munu alltaf koma einhverjum illa, hvort sem þær eru teknar á grundvelli ESB eða af ríkisstjórnum í einstökum löndum fyrir sig.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 22:02
Seinna kommentið átti vitanlega við 21:51.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 22:02
Fólk er að leita að einhverju til að trúa og treysta á - Marínó ef þú stofnar flokk, vil ég vera með.
Geti ég orðið til einhvers gagns t.d. að sækja fyrir ykkur bjórinn, er ég nú þegar gengin í samtök sem þið tveir stæðuð að!!
Dingli, 14.8.2010 kl. 22:03
Ugh... Jæja. Þetta átti sem sagt að vera "Þ.e.a.s. í 21:48. Í 21:51[...]". Kom þessu afskaplega illa frá mér.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 22:05
Hræbillega slapp Gylfi við gagnrýni í 10-fréttum Rúv í kvöld – mest var þar byggt á hans eigin viðbrögðum þar sem hann segir "ómaklega" hafa verið að sér veitzt! Sagt var, að ýmsir hefðu talið hann hafa logið og orðið tvísaga, en sleppt að nefna, að hann hefði orðið margsaga!
Jón Valur Jensson, 14.8.2010 kl. 22:07
Dingli, ég er ekki að fara að stofna flokk. En enginn veit sína ævi fyrr en öll er.
Marinó G. Njálsson, 14.8.2010 kl. 22:08
Páll - það hann hafi logið er ekki lýðsskrum, um það verðum við að vera ósammála ef þú leggur áherslu á þína skoðun.
-----------------
En eins og ég sagði, fyrir mér er stóra ástæðan tjón skattborgara og líklegt framtíðartjón þeirra vegna klúðursins í tengslum við sölu bankanna.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 22:35
------------------------------
Marínó þ.e. raunveruleg ástæða til að einhverjir raunverulegur lýðskrumari stofni flokk og fái umtalsvert fylgi.
Þ.s. þú hefur traust margra og sennilega umtalsvert persónufylgi og ert ekki lýðskrumari, gæti framboð á þínum vegum dregið verulega úr þeirri hættu, að raunverulegur lýðsskrumaraflokkur fái umtalsvert fylgi.
--------------
Punkturinn sem ég benti á, eru í tengslum við raunveruleg söguleg dæmi þ.s. lýðsskrumarar hafa komist til valda, og slíkir hafa valdið sínum þjóðum í tilvikum mjög verulegu tjóni - öskunni í eldinn "and then some".
----------------
Marínó þ.e. einmitt tregðan þín til þessa, sem sýnir fram á að þú getir verið rétti maðurinn, því þ.e. einmitt þ.s. okkur vantar, einhverja til valda sem ekki eru valdagráðugir þ.s. slíkum er mjög hætt við spillingu eins og sagan hefur sýnt og sannað margoft.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 22:41
Enn á ég erfitt með að koma auga á lygina, maðurinn vék sér undan spurningu sem er alltaf vafasamt en varla nokkuð sem koma ætti á óvart. Ef ráðherra getur málað eitthvað rósrautt í staðinn fyrir svart þá mun hann gera það.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 22:47
---------------------------------------
Nei - þ.e. misskilningur. Ég er að segja, að ekki sé hægt að vera innan Evrunnar nema að þú hafir hagkerfi annars vegar sem stenst samkeppni við þýska hagkerfið og hinsvegar að gæði hagstjórnar einnig séu sambærileg.
Ég tek fram, sem þú getur fundið dæmi um ef þú nennir að fletta til baka langt aftur í tímann í min blogg, að ég var áður þeirrar skoðunar að við ættum að taka upp erlendann gjaldmiðil einhliða.
Síðan, þegar erfiðleikarnir byrjuðu fyrir alvöru í S-Evrópu, og ég fór að lesa hagfræðilegar greiningar á vanda þeirra landa og orsökum þess vanda, þá runnu á mig tvær grímur, því ég sá að þau hagstjórnarmistök er þau lönd gerðu voru í tilvikum sambærileg við dæmigerð ísl. hagstjórnarmistök.
Þannig, að ég hef kúvent minni skoðun, og mín niðustaða í dag er að til að geta starfað við annan gjaldmiðil en krónu, verðum við fyrst að bæta hvorttveggja þ.e. hagstj. og samkeppnishæfni hagkerfisins.
Að mínu mati, er þetta 20 ára prógram a.m.k.
----------------------
Ég tók einnig mikið mark á orðum Stiglitz þegar hann var hér síðast og mælti með því að við höldum krónunni.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 22:48
Skv. orðum fyrrum ráðuneytisstj. þá lét hún hann hafa umdeilt álit. Hann hafði einnig að sögn lögfræðings ráðuneytisins séð álit þess lögfræðings, er var efnilega sammála hinu álitinu.
Hann hefur þverneitað að hafa séð nokkur slík álit fyrr en síðsumar 2009, sem er greinilege lygi.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 22:52
Einar: Nú þarna kemur þú með það. Ef Gylfi laug um að hafa ekki séð álit sem hann hafði séð þá er hann vissulega ekki traustsins verður.
En varðandi Evrópu og Þýskaland þá er þetta bara hagsmunamat. Samfélagið þitt tekur þátt í stærra samfélagi til að njóta þeirra hagsmuna sem því fylgja. Mínusinn varðandi ESB er að það er alls ekki víst að sú hagstjórn sem þar er við lýði passi við okkar litla samfélag á hverjum tíma.
Skellum þessu á vigtina.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 22:56
Páll - þú sást sjálfur myndirnar sem ég byrti, að samkeppnishæfni flestra annarra Evrulanda hnignaði á síðasta áratug sbr. þýskaland. Þetta hafði þær afleiðingar, að það myndaðist viðskiptahalli milli þessara landa og þýskal. er ágerðist út áratuginn.
Þú hlýtur að átta þig á, að slíkt ójafnvægi er varasamt - þó það væri ekki nema vegna skuldasöfnunarinnar sem því fylgir- og einnig því að svo mörgum löndum tóks ekki að viðhalda samkeppnishæfni sinni gagnvart þýskalandi sýni að þetta sé raunverulega erfitt í framkvæmd.
Í samanburði er mun auðveldara hagstjórnarlega að vinna áfram með krónuna.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 23:03
Skv. greiningu margra þekktra hagfræðinga er einmitt þetta "current account" ójafnvægi sem sé stóra ástæðan fyrir því að margra mati Evran sé í hættu, en megnið af skuldum innan Evrusvæðisins eru viðskiptaskuldir er urðu til einmitt út af því viðskiptaójafnvægi.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 23:05
Þýskaland er útflutningsríki, það annað stærsta heimi. Útflutningshalli Hjá einhverjum ríkjum er óhjákvæmilegur enda er annað hagfræðilega ómögulegt. Ef sum ríki er í plús í útflutningi þá hljóta önnur að vera í mínus.
Svipað og að berjast við þyngdaraflið að kvarta yfir þessu.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 23:09
Strákar, af því að þið eruð byrjaðir að ræða um Evrópu (sem á betur heima undir sér þræði), þá vil ég bara segja eitt: Vinnum eins og sá sem hefur metnað til að uppfylla skyldur ESB fyrir inngöngu og upptöku evru. Gerum okkar besta til að uppfylla skilyrðin á sem stystum tíma og tökum þá og ekki fyrr en þá ákvörðun hvort ESB og evran sé rétt fyrir okkur. Ég er ekki að taka afstöðu, þar sem ég hef ekki forsendur til þess. En það sem mér finnst vanta eru rétt vinnubrögð.
Marinó G. Njálsson, 14.8.2010 kl. 23:12
Marínó - þetta er alveg rétt. Mín afstaða er einnig að heppilegra sé að setja samningaviðræður um inngöngu á ís, meðan verið er að vinna úr verstu þrengingunum.
Þá verður væntanlega líka búið að leysa úr Icesave svo það verði ekki lengur að þvælast fyrir og trufla viðræður.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 23:14
Þetta verður að vera lokasetningin þ.s. Marínó er búinn að kvarta. Punkturinn er að ef annar aðilinn safnar bara skuldum meðan hinn safnar bara eignum, þá ertu með aðstæður sem ekki er mögulegt að láta ganga upp til lengdar. Niðurstaðan getur ekki orðið önnur en sú, að löndin er safna skuldunum detti á endanum niður í kreppu, sem getur orðið langvarandi þ.s. þau geta ekki endurhæft sig nema með verðhjöðnun þangað til þau kostnaðarlega eru aftur orðin samkeppnisfær. Skv. AGS mun t.d. Írland verða a.m.k. í ástandi verðhjöðnunar næstu 2. árin í viðbót. Öruggt er að S-Evrópu löndin eru öll á leið í það ástand.
Þetta er í reynd sama dæmið og Bandar. vs. Kína. Það dæmi er einnig með innbyggt ójafnvægi, og flestir hagfræðingar einnig sammál um að það dæmi gangi ekki upp. Muni enda með einhverskonar krassi.
---------------------------
Settu inn svar á mitt blogg.
Einar Björn Bjarnason, 14.8.2010 kl. 23:19
Nei, Marinó og Einar Björn, köstum þessari innlimunarumsókn Össurar & Co. strax á mánudagsmorgun kl. 9 í ruslakörfuna, þar sem hún á heima, enda óheimil samkvæmt stjórnarskránni og þjóðin massíft á móti því fullveldisframsali, sem yfirlýst og staðfest yrði með aðildarsamningi (accession treaty) við Evrópubandalagið.
Jón Valur Jensson, 14.8.2010 kl. 23:21
Ég er búinn að fara í heimsókn í flestar helstu stofnanir ESB og hlusta á margar fallegar ræður frá mörgum háttsettum og frábærum mönnum.
En auðvitað er það eins tilgangslaust og það getur orðið í einhverjum skilningi.
Skoðum hvað við getum fengið úr þessum viðræðum og tökum ákvörðun grundvallaða á því hvort við komum vel út úr aðild eða ekki.
Æ hvern er ég að plata, miðað við núverandi umræðu mun niðustaðan úr þessu fara eftir því hvaða pólitíkus hefur hæst. Sorglegt í rauninni.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 23:21
En rétt með lokasetninguna, hefði ekki pósta þessu hefði ég séð póstinn þinn Einar.
Páll Jónsson, 14.8.2010 kl. 23:23
Jón Valur, ég er ekki að tala um að sækja um. Þú mátt ekki misskilja mig. Við erum ekki tilbúin undir umsókn vegna þess að við erum svo fjarri því að vera inntökuhæf. Nei, ég er að tala um að taka til hjá okkur og byggja þjóðfélagið og hagkerfið upp, þannig að við uppfyllum eðlilegar kröfur sem vestræn þjóð vill gera til landsins síns og þá fyrst erum við fær og hæf til að taka ákvörðun um hvað við viljum gera næst.
En þessari umræðu verður að ljúka á þessum þræði. Þetta heitir að stela þræði og það er ekki sanngjarnt gagnvart höfundinum. Kannski skrifa ég innan tíðar um pælingar mínar varðandi ESB. Aldrei að vita.
Marinó G. Njálsson, 14.8.2010 kl. 23:28
Who's Bad.....Steingrímur eða Gylfi ? http://www.youtube.com/watch?v=bOXhvgpApfM&feature=fvsr
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 14.8.2010 kl. 23:32
Takk, Marinó, fyrir gott svar þitt, og ég mun virða umræðuval þitt.
Jón Valur Jensson, 14.8.2010 kl. 23:46
Merkilegast við þessa umræðu alla eru viðbrögðin.
Marinó bendir á þá staðreynd að ráðherra í ríkisstjórn sem hefur lofað öllu upp á borð og gagnsæi í stjórnsýslu, hafi viljandi eða óviljandi farið með ósannindi á þingi um alvarlegt mál, en afstaða hans hafði þær afleiðingar að ríkisbankarnir voru endurreistir á kolröngum forsendum, sem getur þýtt tap upp á hundruði milljarða fyrir íslensku þjóðina.
Viðbrögð ríkisstjórnar er að slík vinnubrögð séu í lagi.
Er það í lagi?
Hrannar Baldursson, 15.8.2010 kl. 07:01
Ég vil ekki búa í ríki sem byggir á þeirri siðferðiskennd sem Páll Jónsson telur eðlilega.
Billi bilaði, 15.8.2010 kl. 08:24
Gagnrýnin á Gylfa er íslensk pólitík að því lága plani sem tiðkast hefur að undanförnu. Öllu er snúið við og lagt til verri vegar. Það var ekki Gylfi sem misskildi heldur var það Ragnheiður sem ekki vissi hvað hún var að spyrja um. Legg til að þið lesið bloggið hans Marðar um þetta en þar kemur glögglega fram fáviska, illur ásetningur og pólitík á lægsta plani hjá þeim sem hæst láta í gagnrýni sinni á Gylfa.
Tómas H Sveinsson, 15.8.2010 kl. 10:05
Þetta er rangt hjá þér Tómas. Vörnin fyrir Gylfa og blogg Marðar er íslensk pólitík á lægsta plani. Tilraun Jóhönnu Sigurðardóttur og Más Guðmundssonar til breiða yfir sannleikann með Gylfa eru líka dæmi um pólitík á lægsta plani.
Tómas í fyrsta lagi sagði Gylfi Alþingi ósatt eins og Marinó bendir réttilega á. Í öðru lagi þá sagði hann ósatt varðandi það hvort og hvenær honum var kynnt lögfræðiálit Lex og yfirlögfræðings Seðlabankans. En smám saman hefur fokið ofan af yfirklórshaugnum og nú liggur fyrir að Gylfa voru kynnt þessi álit í lok júní af ráðuneytisstjóra. Þess vegna er ljóst að Gylfi hefur bæði sagt þingi og þjóð ítrekað ósatt og það pólitískt óásættanlegt.
Því miður er Mörður vinur minn að reyna að éta skítinn vegna flokkshollustu og verði honum að góðu.
Af hverju þurftu Guðmundur Árni Stefánsson og Albert Guðmundsson að segja af sér? Höfðu þeir brotið af sér með sama hætti og jafn alvarlega og Gylfi. Svarið Tómas er nei.
Þó ég sé ekki stuðningsmaður Hreyfingarinnar þá finnst mér þingmenn þeirra vera þeir einu sem standa almennilega í lappirnar í þessu máli og óásættanlegt að stjórnarandstaðan sem og heiðarlegt fólk í stjórnarflokkunum standi að vantraustinu á Gylfa með þeim. Annað væri dæmigerð íslensk pólitísk lágkúra.
Jón Magnússon, 15.8.2010 kl. 10:58
Tómas, Mörður snýr út úr eins og búast mátti við. Ég tók þátt í umræðunni hjá honum og setti inn eftirfarandi athugasemd:
Mörður, ég get alveg tekið undir að velta má fyrir sér hvort Gylfi hafi gert þetta viljandi eða ekki (eða þannig skil ég orð hans). Mér finnst þetta snúast um þrennt:
1) hvort Gylfi hafi yfirhöfuð skilið spurningu Ragnheiðar.
2) hvort hann hafi áttað sig á muninum á „myntkörfuláni“ og „erlendu láni“.
3) hvort skildi hann innihald minnisblaðs.
Ef ég byrja á þessu fyrsta, þá er mikill vafi á þessu. Ragnheiður spyr um myntkörfulán og Gylfi segist vera svara henni og tala um erlend lán. Þ.e. eitt af eftirfarandi gerðist 1) hann skildi ekki spurninguna, 2) ruglar saman myntkörfuláni og erlendu láni eða 3) snýr viljandi út úr.
Vafðist þá eitthvað fyrir Gylfa hvað er erlent lán og hvað er myntkörfulán? Ef svo var, þá erum við í vondum málum, því við þurfum að velta fyrir hvað fleira vafðist fyrir Gylfa að skilja.
Nú loks er það varðandi minnisblað Sigríðar Rafnar Péturdóttur. Í því kemur skýrt fram að í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 sé bara heimilt að verðtryggja með vísitölu neysluverðs og því sé gengistrygging óheimil. Hún segir einnig að vafi kunni að vera á því hvaða lán falla undir ákvæði greinarinnar og loks að greinin banni ekki lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum. Sigríður Rafnar segir í niðurstöðukafla minnisblaðs síns, að lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gajldmiðla, séu ekki ólögmæt, en hún leggur líka áherslu á í niðurstöðukaflanum að bara megi verðtryggja lán í íslenskum krónum með vísitölu neysluverðs. Gylfi leyndi því Alþingi helmingnum af niðurstöðu Sigríðar í undirkafla 4.1. Gerði hann það viljandi, las hann ekki lengra eða skildi hann ekki minnisblaðið. Það skal bent á að Sigríður eyddi mun meira púðri í gengistrygginguna en erlend lán.
---
Þetta sagði ég á blogginu hans Marðar, en ég vil bæta við að Tómas tekur upp málflutning Steingríms J frá því í gær þegar reynt er að færa sökina á klúðri Gylfa yfir á Ragnheiði. Það er aumkunarvert. Ég er í samskiptum við talsverðan hóp þingmanna og einn þeirra sagði mér í vikunni, að þingmenn hefðu margir áttað sig á því að Gylfi hafi snúið út úr með því að segja "erlend lán" í stað "myntkörfulán". Þeir hafi bara ekkert geta gert. Dagskrárliðurinn sé þess eðlis að ekki sé hægt að koma að athugasemd við síðustu ræðu þess sem svarar fyrirspurn. Aðrir þingmenn hafa sagt mér að aldrei fáist hreinskilin svör frá Gylfa í fyrirspurnartímum, hvorki þegar fyrirspurn er undirbúin né þegar hún sé óundirbúin. Loks hafa þingmenn sagt mér, að vilji nefndir Alþingis (þ.e. viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd) skýr, velorðuð og auðskiljanleg svör (og án fyrirsláttar), þá sé óskað eftir því að Sigríður Logadóttir, lögfræðingur Seðlabankans, komi og svari, en ekki embættismenn úr ráðuneytinu eða hagfræðingateymið sem stjórnar Seðlabankanum. Mér sýnist líka af lestri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að hún svari án undanbragða, a.m.k. eru svör hennar hreinskilin.
Marinó G. Njálsson, 15.8.2010 kl. 12:35
Hér er svo athugasemd sem ég setti inn hjá Baldri McQueen:
Ég get sagt þér að margir þingmenn úti í sal kveiktu á „mistökum“ Gylfa. Þingmenn hafa sagt mér að þeir hafi orðið alveg æfir út í ráðherrann, en þeir hafa ekki önnur úrræði til að spyrja hann beint en í gegn um svona fyrirspurnartíma. Þess vegna hefur Gylfi verið spurður líklega þrisvar til viðbótar um þetta sama málefni og alltaf hefur hann ekki svarað sannleikanum samkvæmt. Brotavilji hans hefur því miður verið mjög einbeittur. Tvisvar var hann spurður um hvort ráðuneytið hefði lögfræðiálit undir höndum. Annað skiptið veitti hann munnlegt svar en í hitt skiptið skriflegt svar. Þetta mál eftir að verða ennþá stærra áður en það byrjar að fölna.
Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna fengum veður af því í águst á síðasta ári, að til væri lögfræðiálit í viðskiptaráðuneytinu sem segði gengistryggingu lána ólöglega. Þá er ég ekki að vísa til álita talsmanns neytenda og Björns Þorra Viktorssonar, heldur að til væri utanaðkomandi álit virtrar lögfræðistofu. Okkur datt ekki í hug að auk þess álits væru tvö mjög skýrt orðuð minnisblöð og þar af annað frá Sigríði Logadóttur, aðallögfræðings Seðlabankans. Jæja, við skoruðum á nokkra þingmenn að beina fyrirspurn til Gylfa um hvort þetta álit væri til. Því miður var spurningin of þröngt orðuð og þess vegna gat Gylfi vikið sér frá því að segja að álit LEX væri til. Af þeirri ástæðu var spurt aftur og aftur vék Gylfi sér undan því að svara af heiðarleika. Í millitíðinni hafði talsmaður neytenda fengið að sjá minnisblað Sigríðar Rafnar, en ráðuenytið nýtti sér ákvæði í lögum og ákvað að trúnaður ætti að gilda um álitið, þannig að Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, gat ekki greint frá innihaldi minnisblaðsins. Ráðuneytið reyndi því allt sem það gat til að fela það fyrir almenningi, að lögfræðingur ráðuneytisins hafi komist að samhljóða niðurstöðu og ég, HH, Gísli Tryggvason og Björn Þorri og raunar fleiri aðilar, að gengistrygging væri ólögleg samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Ráðuneytið brást líka þeirri skyldu sinni að vekja athygli FME á málinu (að því virðist) og þar sem ráðuneytið var þeirrar skoðunar að lögbrot hafi verið framið, þá braut það lög með því að tilkynna ekki um lögbrotið. Það varð samsekt.
Marinó G. Njálsson, 15.8.2010 kl. 12:59
Langar að byrja á að þakka þér Marinó fyrir pisla þína frá hruni og áttu heiður skilið fyrir þína miklu vinnu í þágu þjóðarinnar,þú hefur skrifað og sett upp síðu þína að flest okkar geta lesið og skilið umræðuna.
Það er einmitt í máli Gylfa núna með svör sín í þinginu,að meinið gamla nær ekki neinni lækningu.Þessi ömurlega tilhneiging í Íslenskri pólítík að snúa útúr umræðunni og komast alltaf af með að meining hafi og sé svona og hinsegin mun bara verða okkur öllum að falli.
Spurning Ragnheiðar var ekki flókin,og málefnið verið til vandræða frá bankahruninu án lausnar og er enn þrátt fyrir dóm hæstaréttar.Gylfi og allir okkar ráðamenn verða að viðurkenna vanmátt sinn allann.
Fólkið í þessu landi bíður ekki endalaust,mokandi í botnlausann pitt fjármunum sínum og eignast aldrei neitt.Jóhanna Steingrímur né nokkur hinna hæstvirðu þingmanna okkar í stjórn eður andstöðu mun hafa getu til nokkurs vegna allra mistaka frá hruni sem gerð hafa verið.
Ég fyrir mína parta er bara dauðþreyttur orðinn af puði og púli við að rembast við að komast af með skuldbindingar mínar að eiga þak yfir höfuð mitt og minna komast til og frá vinnu og hafa í okkur og á.
Ég held að stæðasta mál stundarinnar sé að fólk er hætt að sjá að það skipti máli hvort það borgi sínar skuldir eða sleppi því bara,það breytir enda hvort maður þrauki í ár eða nokkur,ég veit með því að reikna og reikna að dæmið gengur ekki upp,þegar aðeins ein stétt á að gera upp hrunið,og það er hinn almenni launþegi sem borga skal.
Úlfar Þór Birgisson Aspar, 15.8.2010 kl. 13:13
Þetta er afskaplega ljóst og sterkt allt í þessum síðustu póstum þínum hér, Marinó, og þöggunar- feluleiks- og ósanninda-sök ráðherrans blasir við augum allra, sem kynna sér þetta. Jón Magnússon varaþingmaður er líka með upplýsandi innlegg hér. Nú er myndin enn ljósari fyrir augum mínum, hvað gerzt hefur og hvernig.
Fullyrðing Tómasar H. Sveinssonar (huldumanns á skrifstofu Samfylkingarinnar? – "engin blogg eru til fyrir þennan notanda" stendur á síðu, þegar smellt er á nafn hans), að Ragnheiður Ríkharðsdóttir alþm. hafi ekki vitað "hvað hún var að spyrja um", er fáránleg og sýnir vel, út í hvaða óravitleysu hann er teygður til að reyna að réttlæta og verja Gylfa þennan, tilvonandi fyrrverandi ráðherra.
Jón Valur Jensson, 15.8.2010 kl. 17:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.