6.8.2010 | 13:32
Stórfrétt: Seðlabankinn þagði um lögfræðiálit frá 12. maí 2009
Tveir þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, sendu áðan tölvupóst til formanna viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar. Afrit var sent á nefndarmenn, fjölmiðla og auk þess sem hann var birtur á síðu Hreyfingarinnar. Því miður hafa fjölmiðlar ekki ennþá séð ástæðu til að fjalla um málið, því þar er varpað fram einhverri stærstu sprengjum sem varpað hefur verið inn í umræðuna um lögmæti gengistryggingarinnar. Hér er pósturinn og fjalla ég síðan um innihald hans fyrir neðan:
Sæl Lilja og Helgi,
við óskum eftir sameiginlegum fundi viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar vegna svara Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins til nefndanna við fyrsta tækifæri.
Í framhaldi af dómi Hæstaréttar þann 19. júní þar sem gengistrygging lána var dæmd ólögleg voru fulltrúar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins boðaðir á sameiginlegan fund efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar. Í framhaldi af þeim fundi sem haldin var 5. júlí voru stofnanirnar beðnar um svör við ákveðnum spurningum sem nú hafa borist.
Svörin eru þess eðlis að ekki er hægt að sætta sig við þau án frekari skýringa en þar kemur m.a. fram að mikið ósamræmi er í tölulegum gögnum stofnananna og að mati sérfræðings munar jafnvel hundruðum milljarða á tölulegum niðurstöðum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Alvarlegast í svörunum er þó að fram kemur að Seðlabankinn lét gera óháð lögfræðiálit á lögmæti gengistryggðra lána og að það lögfræðiálit hafi gefið til kynna að gengistryggingin kynni að vera óheimil. Í framhaldinu sendir aðallögfræðingur Seðlabankans frá sér minnisblað þar sem tekið er undir lögfræðiálitið. Óháða álitið og minnisblað aðallögfræðingsins eru dagsett 12. og 18. maí 2009. Seðlabanki Íslands hafði því ákveðna vissu fyrir því hver líkleg niðurstað málaferla yrði heilum þrettán mánuðum fyrir dóm Hæstaréttar.
Seðlabanki Íslands þarf að útskýra fyrir þingi og þjóð með hverjum hann deildi þessum upplýsingum og ef hann hélt þeim fyrir sig, þá hvers vegna. Gengistryggðu lánin voru stór hluti af uppgjörinu milli gömlu og nýju bankanna sem fram fór um haustið 2009 og lögmæti þeirra mikilvert í því ferli. Til upprifjunar skal á það minnt að stórs hluti þingmanna og almenningur hefur lengi verið kallað eftir almennum aðgerðum til leiðréttingar á skuldum heimilanna, m.a. til að eyða þeirri óvissu sem skapaðist fyrir efnahagslífið í heild til lengri tíma litið, ef ekki yrði gripið slíkra aðgerða. Með upplýsingar frá Seðlabankanum um ofangreint lögfræðiálit eru meiri líkur en minni á því að Alþingi hefði tekið af skarið og náð saman um almennar aðgerðir og þar með eytt þeirri óvissu sem og þörfinni á málaferlum sem nú valda endurreisn efnahagslífsins óþolandi og óþarfa töfum.
Það er því krafa Hreyfingarinnar að fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og Bankasýslu ríkisins verði boðaðir á sameiginlegan fund efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar til að gera frekari grein fyrir þeim svörum sem fram eru sett í áðurnefndum bréfum dagsettum 27. júlí (FME) og 30. júlí (SÍ).
Margrét Tryggvadóttir
Þór Saari
þingmenn Hreyfingarinnar
Ég veit ekki hvort fólk átti sig almennilega á þessu. Seðlabanki Íslands vissi í maí 2009, já maí 2009, að gengistrygging kynni að vera óheimil og aðallögfræðingur bankans skrifaði minnisblað 18. maí 2009, þar sem hann tekur undir þennan skilning.
Ég er eiginlega alveg kjaftstopp. Seðlabanki Íslands viðurkennir að hafa vitað frá því 12. maí 2009 að gengistrygging kynni að vera óheimil og bankinn gerði ekki neitt (að því virðist) til að bregðast við því. Ég hélt að tilmæli hans frá því 30. júní hafi einmitt verið sett fram vegna áhyggju bankans af fjármálastöðugleika og lagaskyldu um að gera allt sem hægt er til að viðhalda honum. Mér sýnist sem Seðlabankinn hafi sjálfur skapað þann "óstöðugleika" sem hann taldi sig hafa verið að bregðast við 30. júní sl. Ég spyr bara: Hvað er í gangi? Er mönnum ekki sjálfrátt í fúskinu?
Ég krefst þess að Seðlabankinn upplýsi hverja hann lét vita af álitinu og hverjum hann sendi minnisblað aðallögfræðings bankans. Ég krefst einnig að vita hvers vegna Seðlabankinn gerði ekki þetta álit opinbert, þar sem það hafði mjög mikla þýðingu við endurskipulagningu bankakerfisins. Þá vil ég fá að vita hvers vegna Seðlabankinn greip ekki inn í hina (líklega) ólöglegu starfsemi fjármálafyrirtækjanna. Bankinn sá ástæðu til þess 30. júní að grípa inn í dóm Hæstaréttar, þegar hann taldi lagaóvissu stefna fjármálakerfinu í óvissu. Hvers vegna gerði bankinn það ekki í fyrra sumar?
Tölur FME aðrar en Seðlabankans
Ég vil líka vekja athygli á því sem fjallað er um tölur FME um kostnað fjármálakerfisins vegna dóma Hæstaréttar og þess að nota mismunandi vaxtaforsendur. Ég er nefnilega þessi sérfræðingur sem vísað er til í bréfi þingmannanna og án þess að brjóta trúnað um tölurnar, þá get ég sagt að það er ekki heil brú í útreikningum FME. Slengt er fram tölum án rökstuðnings. Tölur FME eru sérstaklega áhugaverðar í ljósi yfirlýsinga minnst tveggja ráðherra, Seðlabankans og forstjóra FME um að allt að 350 milljarðar geti fallið á skattgreiðendur verði samningsvextir látnir standa á gengistryggðum lánum. Fljótt á litið er EKKERT í svari FME sem styður þá staðhæfingu. EKKERT. Staðhæfingin er svo tilhæfulaus, að ég mun í framtíðinni efast um sannleiksgildi alls sem frá Gunnari Andersen kemur.
Það er rétt að í svörtustu sviðsmyndinni reiknar FME út að áhrifin geti orðið nálægt 350 milljörðum, en það er ekkert í sem bendir til þess að eitthvað nálægt þeirri upphæð falli á skattgreiðendur, þó svartasta sviðsmyndin verði að veruleika. Ekki er tekið tillit til afsláttar sem fjármálafyrirtækin fengu frá eldri kennitölum sínum. Íslandsbanki fékk 47% afslátt af sínum lánasöfnum, Landsbankinn fékk 34% afslátt af lánasöfnum heimilanna og örugglega meira af lánsöfnum fyrirtækjanna og Arion banki fékk 24% afslátt af lánasöfnum heimilanna. Það er fáránlegt að taka ekki tillit þessa afsláttar í útreikningum FME. Hafi bankarnir ætlað að nýta sér þennan afslátt til framtíðartekna, þá er það náttúrulega ekkert annað en þjófnaður. Auk þess metur FME að tjón, sem einkafyrirtækin Lýsing, Avant og SP-fjármögnun verða fyrir vegna bílalána, lendi á skattgreiðendum. Það er náttúrulega ótrúleg þvæla.
FME segir vissulega að [h]eildarlækkun verður vegna lækkunar á höfuðstól lánasamninga, núvirts taps á framtíðargreiðsluflæði, útborgunar vegna opinna lánasamninga og uppgreiddra lánasamninga. Hér vantar sundurliðun. Hér vantar líka að tilgreina hvernig núvirt tap á framtíðargreiðsluflæði verður til. Hvaða vexti var miðað við, hvaða verðbólgu og áhrifin af því að lánin innheimtist betur eða verr eftir því hvaða leið verður farin. Ef ég á að segja eins og er, þá segja tölur FME nákvæmlega ekki neitt. Það er ómögulegt að segja til um hvort þær eru réttar eða rangar. Það er ekki á þeim byggjandi. Svo einfalt er það.
Þess fyrir utan, þá mótmæli ég því að tjón einkafyrirtækjanna Lýsingar, Avant og SP-fjármögnunar sé áhyggjuefni skattgreiðenda eða ríkisins. Okkur kemur nákvæmlega ekkert við hvort þessi fyrirtæki tapi á því að fara að lögum. Þau eru lögbrjótarnir og eigendur þeirra og kröfuhafar verða að taka á sig tapið. Þá er "tapið" sem gæti lent á ríkinu vegna heimilanna allt í einu orðið að engu. Ég mótmæli því líka að það hafi áhrif á fjármálastöðugleika, eins og SÍ og FME héldu fram, þegar stofnanirnar hvöttu fjármálafyrirtæki til lögbrota, að nokkur einkarekin fjármögnunarfyrirtæki fari á hausinn. Það er líka út í hött að Seðlabankinn sé allt í einu að verja slík fyrirtæki, þegar bankinn virðist hafa hylmt yfir með lögbrjótum í 15 mánuði. Mikið hefði bara verið gott, ef Seðlabankinn hefði sýnt væntumþykju sína um fjármálastöðugleika strax eftir að hann komst að lögbrotum fjármálafyrirtækjanna með því að gera þá strax eitthvað annað í málunum, en að breyta tölfræðisamantekt sinni. Verða það að teljast einhver aumustu viðbrögð við þeirri ógn, sem bankinn sér í lögbrotinu núna eftir að Hæstiréttur hefur tekið undir lögfræðiálit Seðlabankans. Bankinn vissi af því í 15 mánuði, að gengistryggingin kynni að vera ólögleg og það er því rétt sem ég sagði um daginn: Mistök embættismanna og ráðherra kosta skattgreiðendur hugsanlega 100 milljarða - Lán heimilanna eru ekki ástæðan. Já, það voru mistök Seðlabankans sem þarna skipta máli, ekki lán heimilanna. Mér sýnist sem það kosti fjármálafyrirtækin eitthvað að fara að lögum, en að halda því fram að lán heimilanna valdi því að allt að 350 milljarðar falli á ríkið það tilbúningur og heldur ekki vatni. Gleymum því svo ekki sem ég nefndi að ofan að Íslandsbanki fékk að jafnaði 47% afslátt af lánasöfnum sínum, Landsbankinn 34% af lánum heimilanna og Arion banki 24%. Ekki reyna eitt augnablik að telja mér trú um að afslátturinn á óverðtryggðum krónulánum og verðtryggðum krónulánum hafi verið jafnhár og af gengistryggðum lánum. Nei, afslátturinn af gengistryggðum lánum var margfalt meiri en af krónulánunum og FME getur ekki leyft sér að reikna áhrif af einhverju sem þegar hefur fengist afsláttur af, nema auðvitað að aldrei hafi staðið til að láta viðskiptavinina njóta afsláttarins. Höfum svo loks í huga, að endurskoða á (a.m.k. í sumum tilfellum) uppgjörið milli gömlu bankanna og nýju árið 2012. Þá mun gefast tækifæri til að leiðrétta afsláttinn hafi verðmæti lánasafnanna ekki verið það sem gert var ráð fyrir.
Mér finnst að þingnefndirnar tvær: efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar, eigi að kalla SÍ og FME aftur fyrir og krefjast frekari skýringa. Ekki á að sleppa þeim við þá útúrsnúninga, sem koma fram í svörum þeirra og ekki á að leyfa þeim að komast upp með FÚSK.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.11.): 4
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 215
- Frá upphafi: 1679948
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 196
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Nokkrum dögum eftir að þetta lá fyrir á borði Seðlabankastjóra í maí 2009 sendi Björn Þorri bréf á alla þingmenn og ráðherra hvar hann benti á þetta sem möguleika.
Ríkið gerði ekkert.
Í hádegisfréttum Rúv nú í dag (6. ágúst) segir Árni Tómasson að fullt tillit hafi verið tekið til þessarar hugsanlegu niðurstöðu við millifærslu á eignum úr gamla í nýja Glitni (nú Íslandsbanka)
Deka Bank segist ekki eiga krónu í íslenskum bönkum en SJS fullyrðir á Bloomberg að svo sé...
Það sem stendur upp úr er Landsbankinn og klúðrið í kring um þá yfirfærslu.
Landsbankinn á SP-fjármögnun og því lendir gjaldþrot SP á honum.
AVANT var fjármagnað í gegn um Landsbankann og því lendir gjaldþrot þess einnig þar.
ERGO => tvo af þrem "litlu" fjármögnunarfyrirtækjunum eru á ábyrgð LÍ.
Eignasafn LÍ hefur einnig verið talið það rýrasta í bankakerfinu og því er það hald manna að Landsbankinn rúlli og vegna embættisafglapa við yfirfærslu eigna úr gamla í nýja LÍ þá muni það tjón lenda á ríkinu.
Menn tóku væntanlega eftir því að þegar Samtök lánþega sendu frá sér yfirlýsingu 23 júní sl. þá kom fljótt fram svar frá bæði Arion og Íslandsbanka um að þeir stæðu vel af sér það högg sem dómur Hrd. væri, jafnvel þó öll lán féllu þar undir.
Engin slík yfirlýsing kom frá Landsbanka.
WHY ??
Guðmundur Andri (IP-tala skráð) 6.8.2010 kl. 14:09
Ríkisstjórnininni hlýtur að hafa verið fullkunnugt um þessi lögfræðiálit, enda datt það upp úr Gylfa Magnússyni, að gert hefði verið ráð fyrir því, við yfirfærslu lána frá gömlu bönkunum í þá nýju, að "gengislánin" væru ólögleg, en reiknað hefði verið með að óverðtryggðir vextir kæmu á þau í stað gegnistryggingarinnar.
Um þetta var bloggað hérna þann 24. júní s.l., en þá missti Gylfi þetta út úr sér, en eins og svo oft áður gripu fjölmiðlamenn ekki fréttapunktinn í því sem hann sagði.
Axel Jóhann Axelsson, 6.8.2010 kl. 14:20
Guðmundur, Askar Capital óskaði eftir að fara undir slitastjórn vegna þess að bankinn vissi hvaða vextir yrðu á lánum Avant. Það er því alveg óljóst hvort fell Avant falli á LÍ. Kjartan Georg Gunnarsson greindi frá því á fundi efnahags- og skattanefndar 11. júní að búið væri að endurfjármagna SP-fjármögnun og þá voru kröfur á félagið færðar niður eða aðskrifað. Tjón vegna falls SP-fjármögnunar yrði því í versta falli 11 milljarðar.
Hafa skal í huga að gengisbundin lán annarra fjármálafyrirtæki teljast bara 3 milljarðar í tölum Seðlabanka Íslands. Gengisbundin lán SP-fjármögnunar, Lýsingar og Avant eru inni í þessari tölu.
Marinó G. Njálsson, 6.8.2010 kl. 14:23
Axel Jóhann, miðað við þetta er tal ráðherra og fleiri um 350 milljarða ennþá furðulegri, þar sem talið er að óverðtryggðir vextir kosti um 140 milljarða.
Annars hringdi í mig maður áðan og sagði að hann skuldaði bankanum sínum 600 þúsund, þó hann hefði alltaf staðið í skilum, ef hann færði gengistryggða lánið sitt yfir í verðtryggt lán auk þess sem afborgunin hækki um 30 þúsund á mánuði.
Marinó G. Njálsson, 6.8.2010 kl. 14:28
Ég fæ þær tölur ekki alveg til að ganga upp miðað við að heildarupphæð gengistryggðra bílalána var um mitt ár 2009 112 milljarðar.
Ég held að það sé alveg ljóst að standi Hrd. og samningsvextirnir þá falli öll þrjú "litlu" fjármögnunarfyrirtækin og þá má spyrja, hve mikið innheimtist af þeim rúmu 100 milljörðum sem skráðir voru sem eign í þessum fyrirtækjum.
Varðandi íbúðalánin þá gleymist alltaf að þau eru í langflestum tilvikum með vaxtabreytingaákvæði sem væntanlega verður nýtt við fyrsta tækifæri.
Flest gengistryggðu íbúðalánin innihalda s.k. jafnvirðisskilmála og á þeim lánum er útilokað að breyta vaxtaákvæði afturvirkt, þannig að tilmæli FME og SÍ ná aðeins til bílasamninga og eru fullkomlega óþörf fyrir meginþorra annarra samningsforma. Sama á því við um dómsmál um vaxtaákvæði hvernig sem það fer.
Niðurstaðan er því sú, sem heyrst hefur hvísluð innan fjármálageirans, að staða Landsbankans sé það slæm að örlítiill löðrungur nægi til að fella hann. LÍ sé því sama og ógjaldfær vegna áðurnefndra afglapa SJS og Co.
Guðmundur Andri (IP-tala skráð) 6.8.2010 kl. 14:42
Gandri, ég hef líka heyrt þennan orðróm vegna Landsbanka.
Varðandi tölur SÍ um önnur fjármálafyrirtæki, þá kemur þar skýrt fram að bókfært virði gengisbundinna lána var um 40 milljarðar 31.3.2010 og þar af voru gengisbundin lán heimilanna um 3 milljarðar. Aftur á móti voru eignaleigusamningar upp á mun hærri tölu, en þeir eru ekki sagðir gengisbundnir. Í því gæti falist einhver mismunur. Á fundi efnahags- og skattanefndar 11. júní kom aftur fram að bílalánafyrirtækin voru hvert um sig með 22-25 milljarða í gengisbundnum bílalánum. Það þýðir að SP, Avant og Lýsing voru með 66 - 75 milljarða í þeim lánum. Samkvæmt tölum Seðlabankans var bókfært virði gengisbundinna bílalána í bankakerfinu (lesist hjá Íslandsbanka) um 9 milljarðar 31.12.2009, ekki 22-25 milljarðar heldur 9 milljarðar. Það sýnir að Íslandsbanki er búinn að gera ráð fyrir að gengistryggingin væri ólögleg. Hjá öðrum fjármálafyrirtækjum stóðu gengisbundin lán í 3 milljörðum 31.3.2010. Séu eignaleigusamningar með í þessum tölum, þá stóðu þeir í 58,5 milljörðum 31.3.2010 og höfðu lækkað í 45,5 milljarða 30.6. sl. Það er því sama hvernig litið er á þessar tölur, gjörsamlega ómögulegt er að ná þeim upphæðum sem FME telur aðséu áhrifin af því að samningsvextir gildi.
Marinó G. Njálsson, 6.8.2010 kl. 16:35
´Hreyfingin og HH standa sig frábærlega :-) mikil mikil fengur af báðum Hreyfingin í sínu og HH náð alverg ótrúlegum árangri á mjög stuttum tíma :-)
hef sagt áður og segi en Hagsmunasamtök Heimilana sem Umboðsmann Skuldara ! það er sennilega engum betur trystandi í það starf :-)
Gretar Eir (IP-tala skráð) 6.8.2010 kl. 17:34
Axel Jóhann Axelsson skrifar:
Ríkisstjórnininni hlýtur að hafa verið fullkunnugt um þessi lögfræðiálit, enda datt það upp úr Gylfa Magnússyni, að gert hefði verið ráð fyrir því, við yfirfærslu lána frá gömlu bönkunum í þá nýju, að "gengislánin" væru ólögleg, en reiknað hefði verið með að óverðtryggðir vextir kæmu á þau í stað gegnistryggingarinnar.
Umsögn.
Eins og fram kemur í eftirfarandi bréfi mínu til alþingismanna 12. sept. 2009 lét viðskiptaráðherra að öðru liggja í viðtali á Bylgjunni 10. sept.:
Ágætu alþingismenn.
Í Kastljósviðtali sl. þriðjudag 8. september vék ég m.a. að því broti lánastofnana á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem felst í bindingu skuldbindinga í íslenzkum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.
Í viðtali á Bylgjunni sl. fimmtudag 10. september sagði viðskiptaráðherra í upphafi máls að “það hafi verið gengið út frá því til þessa að þessi erlendu lán hafi verið lögleg.” Ef einhverjir teldu að svo væri ekki, bætti hann við, þá væri það hlutverk dómstóla að skera úr um málið.
Hér er ekki um “erlend lán” að ræða.
Öll krónulán bankanna eru fjármögnuð af tiltækum krónueignum þeirra að meðtöldum innistæðum í Seðlabanka Íslands sem verða til við sölu bankanna til seðlabanka á erlendum gjaldeyri sem þeir hafa keypt af viðskiptavinum eða tekið að láni erlendis.
Erlend lántaka felur í sér gengisáhættu, sem bankarnir hafa kosið að láta lántakendur axla með bindingu höfuðstóls krónulána við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.
Lög nr. 38/2001 banna slíka yfirfærslu gengisáhættu, sbr. athugasemd við frumvarp til laga nr. 38/2001:
“Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi."
Í uppgjörssamningum skilanefnda og kröfuhafa gömlu bankanna er gengið út frá því að yfirfærsla gengisáhættu hafi verið lögleg.
Samningarnir taka því ekki mið af skaðabótaskyldu bankanna gagnvart lántakendum gengisbundinna lána skv. 18. gr. laga nr. 38/2001.
Niðurfærsla höfuðstóls slíkra lána til jafns við fyrri uppfærslu vegna gengisbindingar myndi nema hundruðum milljarða króna.
Útfærsla uppgjörssamninganna án dómsúrskurðar um lögmæti gengisbindingar og hugsanlega skaðabótaskyldu væri glapræði.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 6.8.2010 kl. 19:13
Ég velti fyrir mér, hvaða hagsmunum stj.v. og stjórnkerfið eru að sinna.
Þ.e. hver græðir á þessarri vitleysu?
Þumalfingursreglan er sú, að ef mál eru leyst með undarlegum hætti, þá er vanalega einhver sem hefur áhrif innanbúðar, sem græðir á þeirri útkomu.
Hverjir græða á þessu - þitt mat, Marínó?
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 6.8.2010 kl. 19:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.