Leita í fréttum mbl.is

Umræða af Eyjunni vegna orðróms um lagasetningu

Ég má til að setja hér inn svar sem ég setti inn á frétt, þar sem ég svara spurningum Eyjunnar um þann orðróm að setja eigi lög á gengistryggð lán.  Gamall félagi minn af þessari síðu Gunnr, sem búsettur er í Noregi (að ég best veit) setti inn eftirfarandi ádeilu á mig og minn málflutning.  Fyrir neðan birti ég svo mín viðbrögð.

Gunnr:

Þetta eru furðulegar umræður eins og flest á Íslandi. Fólk er þegar búið að taka afstöðu og búið að grafa sig niður í skotgrafirnar og kastar handsprengjum yfir í hina gryfjuna. Hér virðast nánast allir elta sínu persónulega hagsmuni en horfa lítið til heildarinnar á það bæði við um fjölmiðlafólk, stjórnmálamenn og aðra. Því miður er það sem einum er veitt kemur úr vasa annars í þessu agnarsmáa hagkerfi sem er í raun má líkja við lítið fiskabúr, með ónýtan gjaldmiðil bak við gjaldeyrishömlur/múr þar sem í raun fjármálakerfið liggur í fanginu á ríkinu.
Það er augljóst að innistæður í bönkunum voru tryggðar í topp við hrun, sem undirritaður gagnrýndi á þeim tíma, og auðvitað lenti og lendir það á skattborgurum þessa lands sem raunar öll "lánaleiðrétting" sem og væntanlegt hrun á húsnæðisverði mun einnig gera. Það skiptir í raun ekki máli hvernig það er reynt að þokuleggja þetta. Það er varla nokkur sem heldur því fram að umboðsmaður Alþingis eða Hæstiréttur geti haldið uppi fjármálakerfi þjóðar þar sem velferðarkerfið er rekið upp á krít og við erum de facto búin að missa okkar efnahagslega sjálfstæði. Við erum með ráðlausa og sundurlausa stjórn, ráðlausa stjórnarandstöðu og gríðarlega óánægju í samfélaginu.

Sá mæti maður, Marínó G Njálsson er núna komin í krossferð gegn Samfylkingunni, stærsta stjórnarflokki landsins og flaggar Framsóknarflagginu. Varla er það skynsamlegt fyrir samtökin og málstaðin eða er þetta er væntanlega ákaflega líklegt að stjórnmálaþátttaka er nýr vettvangur sem Marínó ætlar inn á. Hann er talnaglöggur maður og hefur ýmislegt gott fram að færa.
Maður hefur séð þetta í gegnum árin hvernig fólk hefur komist til stjórnmálaframa í gegnum Neytendasamtökin og ekki minnast á íþróttastarfsemi. Hliðstæðan er náttúrulega við formann Framsóknarflokksins sem notaði Icesave og Indefence sem nokkurs konar stökkbretti enda er Indefence af mörgum skilgreind sem nokkurs konar flokksdeild í Framsóknarflokknum.
Kannski á að þrengja samtökin niður í "Samtök heimila með gengistryggð lán"? Því að ef samtökin eyða öllu púðrinu á að þeir með gengistryggðu lánin fái sínu framgengt verður augljóslega minna svigrúm fyrir þá með verðtryggðu lánin enda verður þetta að endingu fjármagnað úr ríkissjóði.

(1) Þessi dómur hæstaréttar eins og ég hef lesið hann og er ég ekki löglærður á einungis við um gengistryggðu lána sem sem dæmt var ólögleg en óvíst er að þann dóm má yfirfæra yfir öll gengistryggð lán enda er um hundruð ólíkra samninga að ræða. Þetta felur í sér fjölda mála og gæti tekið mörg ár í dómskerfinu.
Það hefur í raun ekki fallið dómur um fyrirtæki og gengistrygginguna og það verður stórt dæmi ef þau eru einnig ólögleg.

(2) Hitt málið er að dómurinn segir ekki neitt um að nafnvextir koma í stað gengistryggingarinnar og í raun er stjórnvöldum heimilt að setja lög varðandi það. Óvissan er slæm bæði fyrir óburðugt fjármálakerfi landsins og ekki minnst fyrir mörg heimili sem eiga í miklum erfiðleikum.

(3) Klárlega munu kröfuhafar fara í málsókn við ríkið og fara fram á himinháar skaðabætur og það er líklegt að þeir munu ná sínu fram enda virðast Íslendingar vera ótrúlegir amatörar, réttara sagt fífl.

(4) Kostnaðurinn lendir á þjóðinni það er augljóst öllum hvernig sem menn reyna að þokuleggja það.
Það. Ekki kemur fé frá himninum, réttlætisgyðjunni eða hæstarétti og ekki frá erlendum aðilum. Það er ekki gull grafið í bönkunum.
Held að það sé mikilvægt að ná sátt um skuldamálin og þá verði kostnaðurinn einnig að liggja á borðinu.
Afleiðingarnar verða:
(a) Það þarf að leggja til meira fé úr ríkissjóði sem þýðir lántöku á blóðvöxtum og það verður fjármagnað með hækkuðum sköttum og niðurskurði.
(b) Tiltrúin á þjóðinni býður enn meiri hnekki og óvissan um fjármálakerfið mun hægja enn á vexti og halda uppi háu vaxtastigi og gera enn ólíklegra að það verði hægt að komast úr gjaldeyrishömlunum. Allt þetta mun þýða rýri lífskjör og minni þjóðarköku og þá enn meiri niðurskurð og skattpíningu.

Og svo er það mitt svar:

Gunnr, mér finnst nú allt í lagi að fara með rétt mál.  Þú hefur nú bara fylgst með mínum skrifum í minnst tvö ár og ættir að vita betur en að koma með svona vitleysu.  Hvar er ég að flagga "Framsóknarflaggi" í þessari umræðu?  Ég veit ekki betur en að Framsóknarflokkurinn hafi tekið upp baráttumál Hagsmunasamtaka heimilanna um 4% árlegt þak á verðbætur.

Ég er heldur ekkert kominn í "krossferð" gegn Samfylkingunni, en mislíkar hvernig flokkurinn er að keyra allt niður í þjóðfélaginu.  Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson voru einhverjir ákvörðunarfælnustu forystumenn ríkisstjórnar frá stofnun lýðveldisins með því að ítrekað gera ekki neitt.  Jóhanna og Steingrímur er helmingi verri.  Vinur er sá sem til vamms segir.

Vangaveltur þínar um hugsanlegt framboð eru svo úr lausu lofti gripnar að þeim ætti ég ekki að svara, en bara til fróðleiks, þá hafa nokkuð margir aðilar haft samband við mig á undanförnum vikum og beðið mig um að ganga í raðir hinna og þessara fylkinga.  Svarið hefur alltaf verið að störf fyrir Hagsmunasamtök heimilanna og pólitísk þátttaka fara ekki saman.  En enginn veit sína ævi fyrr en öll er.  Ég hef líka fengið áskorun um að bjóða mig fram til forseta, en hló að þeirri uppástungu.

Mér finnst líka allt í lagi, að menn lesi þá umræðu sem er á þræðinum áður en komið er með svona bull um "Samtök heimila með gengistryggð lán".  Í fyrsta lagi, þá eiga Hagsmunasamtök heimilanna engan heiður af niðurstöðu Hæstaréttar.  Þar var dæmt eftir lögum.  Í öðru lagi, hafa Hagsmunasamtök heimilanna barist fyrir því að forsendubrestur allra lána verði leiðréttur.  Í þriðja lagi lögðu HH til allt aðra leið til að leiðrétta gengistryggð lán áður en samtökunum varð ljóst að gengistryggingin væri í mótsögn við lög.  Í fjórða lagi, þá hafa samtökin barist fyrir breytingum á lánakerfinu með það í huga að annað hvort verðtrygging yrði afnumin eða þak yrði sett á árlegar verðbætur.  Gunnr, er veðrið svona gott í Noregi að menn gleyma öllu því sem þeir hafa rætt um áður?  Við erum tveir margoft búnir að fara í gegn um þetta.  (Nema náttúrulega að það sé einhver annar sem skrifar nákvæmlega eins og Gunnr í Noregi og notar sama notendanafn.)  Þú hefur hingað til verið mjög rökfastur í málflutningi þínum og ekki farið í útúrsnúninga eða skáldskap áður.

Varðandi (1):  Dómurinn er þríþættur: 1) Leigusamningur er lánasamningur þar sem lántaki eigast bifreiðina að leigutíma loknum; 2) Samningurinn er í íslenskum krónum, þar sem höfuðstólsfjárhæð er tilgreind í íslenskum krónum; 3) Gengistrygging er ólögleg verðtrygging og er því ákvæði samningsins um tengingu höfuðstóls við breytingar á gengi dæmdur ógildur.  Fordæmisgildið nær því í fyrsta lagi til allra leigusamninga, þar sem hinn leigði munur verður eign leigutaka að leigutíma liðnum.  Í öðru lagi nær fordæmisgildið til lána með höfuðstól í íslenskum krónum, þó annað hafi verið tilgreint í erlendri mynt.  Loks felst fordæmisgildið í því að ekki má nota gengistryggingu til að verðtryggja samninga.  Fordæmisgildið nær ekki til samninga, þar sem höfuðstóll er tilgreindur í erlendri mynt, en hafi verið sótt um lán í íslenskum krónum, þó höfuðstóll sé í erlendri mynt, þá gæti atriði 2) veitt fordæmi, en dómstólar þurfa að skera úr um það.

Varðandi (2):  Dómurinn segir ekkert um vexti, þ.e. hvorki hvort þeir eigi að standa eða breytast.  Það er venja í íslenskum rétti, að það sem ekki er breytt stendur óhaggað.  Þess vegna gilda samningsvextir þar til dómstólar kveða úr um annað, framvirk lög eru sett sem breyta vöxtunum, lánveitandi nýtir sér ákvæði samninganna til að breyta vöxtunum eða samkomulag næst milli lántaka og lánveitanda um breytta vexti.  Ég vil benda á, að áríð 2005 buðu mörg bílaumboð í samstarfi við fjármögnunarfyrirtæki vaxtalaus og óverðtryggð lán.  Að lánin beri 3-9% vexti er augljóslega betra en vaxtalaus lán.  Það er mikil misskilningur í gangi um að öll bílalán hafi verið á lágum vöxtum.  Mörg þeirra eru með ótrúlega háum vöxtum.  Dæmi eru um 6-9% vaxtaálag, þannig að fyrir þá sem eru með slík lán eru vextir Seðlabankans eins og þeir eru núna hagstæðari en samningsvextir.  Svo virðast menn viljandi líta framhjá því að LIBOR vextir hafa bara verið lágir frá haustmánuðum 2008.  Fram að því voru vextir í dollurum, evrum og pundum  allt að 4,5 - 6% misjafnt eftir myntum.  Vegna 36. gr. laga nr. 7/1936, þá geta stjórnvöld ekki gripið inn í hvaða samninga sem er með lagasetningu.  Þeir lögfræðingar sem ég hef rætt við (að einum undanskyldum) telja að 36. gr. verndi neytendur fyrir því að vöxtum verði breytt umfram það sem hver samningur segir til um.

Varðandi (3):  Hvers vegna ættu kröfuhafar að fara í skaðabótamál við ríkið?  Þeir eru þegar búnir að veita fjármálafyrirtækjunum umtalsverðan afslátt, en verða vissulega af framtíðarhagnaði.  Samt ekki, þar sem fjárhagsstaða fjármálafyrirtækjanna verður heilbrigðari eftir að búið er að leiðrétta lánin á þennan hátt og því eru meiri líkur á því að lánin innheimtist á innheimtuaðgerða, fjárnáms og uppboða.  Höfum í huga að fjármálafyrirtækin eru ekki að græða á innheimtuaðgerðum, fjárnámi og uppboðum.  Það eru lögmannsstofur sem hagnast á því á kostnað þess sem annars færi til fjármálafyrirtækjanna.  Kröfuhafa höfðu lögmenn á sínum snærum.  Ekki bara erlenda heldur líka íslenska.  Ef þessi lögmenn (íslenskir og erlendir) vissu ekki af umræðunni um hugsanlegt ólögmæti gengistryggingarinnar, þá voru þeir einfaldlega fúskarar.  Þessir menn geta ekki borið fyrir sig fávisku, þó lögin séu á íslensku.  Hafi dómar Hæstaréttar komið þeim á óvart, þá finnst mér rétt að kröfuhafar fari í skaðabótamál til þá en ekki ríkið.  Þeir unnu sína heimavinnu ekki nógu vel, svo einfalt er það.

Varðandi (4):  Hvaða kostnaður lendir á ríkinu?  Skýrðu mál þitt.  Þetta eru dæmigerðar upphrópanir:  Kostnaðurinn fellur á ríkið.  Kostnaður fellur á skattgreiðendur.  Það er nákvæmlega engin innstæða fyrir þessu.  Hvaða kostnaður fellur á ríkið?  Hvernig er hann fundinn út?  Hvað veldur honum?  Hvernig hafa afslættir á lánasöfnunum áhrif á þennan kostnað til lækkunar?  Er kostnaður vegna lána heimilanna, vegna lána fyrirtækja eða beggja?  Hvernig geta rúmlega 100 milljarða lán heimilanna (samkvæmt gögnum Seðlabankans) sem voru bókfærð á allt að 273 milljarða í gömlu bönkunum valdið meiri kostnaði?  "Það þarf að leggja meiri pening.."  Hverjir segja það?  Varðhundar fjármálafyrirtækjanna innan íslenskrar stjórnsýslu.  Veistu að íslensk fyrirtæki þurfa að greiða íslenskum launamönnum tvöfalda þá tölu í laun, svo launamaðurinn geti greitt af lánunum, sem fjármálafyrirtækin ákváðu að rukka í botn, þrátt fyrir að hafa fengið allt að 47% afslátt.  Fyrirgefðu, en það er ósvífni og glæpsamlegt.  Það féll dómur fyrir nokkrum árum, þar sem rafvirki var dæmdur til að láta konu nokkra njóta þess afsláttar sem hann fékk af efniskaupum hjá heildsala.  Þetta er sambærileg staða.

Tiltrú manna erlendis á íslenska stjórnkerfinu er farin út í veður og vind.  Hvers konar fúsk er það, að leyfa ólögleg lán í 9 ár án þess að aðhafast neitt?  FÚSK er eina orðið sem til er um þetta.  Og varðandi fjármálafyrirtækin var um EINBEITTAN BROTAVILJA.  Formaður Sambands banka og verðbréfafyrirtækja sagði sjálfur í umsögn um frumvarp að lögum nr. 38/2001 að ákvæði 13. og 14. gr. bönnuðu þetta lánaform og bað um að þessu ákvæði yrði breytt.  17. og 18. gr. laganna eru með refsiákvæði, þannig að ljóst er að brotin eru refsiverð.  Þetta sýnir bara því miður annars vegar grófa vanrækslu Fjármálaeftirlits og líklegast Seðlabanka Íslands og síðan ótrúlega bíræfinn brotavilja fjármálafyrirtækjanna.  Heldur þú virkilega, Gunnr, að það séu dómarnir sem rústi tiltrúnni eða ef fyrirtækin verði fyrir frekari skakkaföllum.  Nei, héðan í frá munu útlendingar ekki trúa einni einustu lagalegri túlkun fjármálafyrirtækjanna og biðja um óháð álit í hvert skipti rætt er um lögfræðileg málefni.  Það er mesta áfallið sem dómar Hæstaréttar hafa í för með sér.  Orðspor og tiltrú á lögfræðingum bankanna varð að engu og sama gildir um lögfræðinga FME.  Hafa einhverjir velt því fyrir sér hvaða snillingar voru yfirlögfræðingar FME á þessum árum?  Og hvaða starfi ætli þeir gegni núna?  Það verður flott í CV-inu að hafa verið yfirlögfræðingur FME þegar ólögleg gengistrygging var látin átölulaus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ignito

Sæll Marinó

Til að ég taki það strax fram þá hef ég frá upphafi hruns (ég eins og flestir íslendingar höfðum ansi lítinn áhuga á fjármálum eða umræðu um þær fyrir haustið 2008) lesið pistla þína.  Ég hef nánast beðið eftir andsvörum þínum gegn ýmsum misvitrum reikningi fjármálastofnana og hins opinbera hér á þessu bloggi þínu.

Þú hefur í nánast öllum tilfellum skotið niður þeirra nálgun á málum tengt þessu málefni enda verður að segjast (frá mér séð) þá er sú nálgun sterklega tengt hagsmunum eða pólitískri lendingu.

Færsla Gunnr er fín, læsileg (þú mættir hugsanlega brjóta þína upp á stundum ) en þegar drengurinn fór að draga stjórnmálin inní þetta (þá sérstaklega Framsóknar-aðferðina sem ég veit fyrir satt að kom mun fyrr frá þér eða samtökunum...almenna niðurfellingin...ekki %) þá missti ég sjónar á hans málflutningi.  Ég er þar með ekki að skjóta hans færslu niður, svo síður sé, því hann hefur margt fram að færa sem ég finn til samhugar.

Það er reyndar þekkt hér á okkar sólbaðaða landi (þessa stundina amk.) að fólk nýti sér samtök til eigin frama.

Ég í minni einfeldni gef mér að þú sért ekki einn af þeim...þó mættir eiga þitt sæti í ráðgjöf í ákvörðunartöku misvitra "vinsældarleitandi" stjórnmálamanna ásamt því að sú ráðgjöf hefði haft einhver áhrif til góðs fyrir okkar litla hagkerfi.  Sem ég persónulega efast ekki um að hefði gert ef hlustað hefði verið á.

Ég, þú og Gunnr gætum sest niður í þægilegan sófa og rætt um hvað, hver, hvernig og hvort umræðan hefði leitt okkur í hvar, hvernig og "svona gerum við þetta" umræðan hefði endað.

En þríeykið, sem kemur fram í þessari færslu  mun ólíklega koma saman né heldur hafa eyru þeirra sem ráðin hafa til breytni á stefnu þeirri sem þegar er í gangi.

Ofangreind ritun er samt pínulítið útúr umræðu.  Að mínu viti þá er lína umræðunnar "hver borgar".

Ég persónulega finnst ömurlegt til þess að vita að niðurfelling bókfærðra eigna (lán almennings) til nýrra banka kemur ekkert til skuldara.

En ég verð að lýsa áhyggjum mínum af því að tískubúðareigendur (no pun intended, þetta er orð sem gæti verið tísku-hundaeigendur, eða öfgastærðar-grill eigendur), sem sitja í eignum sem voru undir fyrirtækjunum, þeir standa núna upp sem fórnarlömb og ætla að "fara í mál" vegna "óréttlætis" sem þeir hafa orðið  fyrir.  Fólk sem í dag hefur varla aura sinna tal og finnur ekkert fyrir þeirri minnkun kaupmáttar sem hinn almenni borgari situr undir.

Nú er svo komið að þeir sem stóðu uppi gegn "almennri leiðréttingu" sem H.H. stóðu fyrir standa nú frammi fyrir ormagryfju sem engan endi sér fyrir.  Hinir ríku, sem sáu fyrir skjótan gróða með því að taka gengislán á hliðarfyrirtækin, sjá nú gríðarlega leiðréttingu á láni sem hliðarfyrirtækið tók frá hliðarfyrirtækinu sem tók lán frá Glitni sem tók lán frá Landsbankanum.

Það sem ég er að reyna koma að er hvernig umræðan er að snúast frá drengnum sem tók bifreiðarlán á 700.000 og situr með 3 mill.kr. lán yfir í "dúddann" sem yfirtók fyrirtæki og/eða keypti tæki til að stækka sitt fyrirtæki ætlar í mál við lánafyrirtækið sem gaf lánið.

e.s.

Eitt sem ég verð að spyrja um...

"Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson voru einhverjir ákvörðunarfælnustu forystumenn ríkisstjórnar frá stofnun lýðveldisins með því að ítrekað gera ekki neitt"

...er hvaðan þetta kemur?  Þetta er þvert gegn því sem mitt mat af síðustu 2 áratugum hafa sýnt.  Og já, þ.m.t. bankahrunið

Ignito, 20.7.2010 kl. 02:55

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ignito: Óhjákvæmilega munu einhverjir hagnast á dómi hæstaréttar, sem kannski þurfa ekkert lífsnauðsynlega á því að halda. En það er þá spurningum um sanngirni, ekki réttmæti. Ef einhver hefur hagnast á réttmætan hátt, er þá eitthvað að því? Og þá geng ég út frá því að réttmætt þýði að farið sé að lögum og dómar hæstaréttar standi. Alveg sama hvort manni finnst lögin sanngjörn eða ekki þá neyðist maður víst til þess að fara eftir þeim, er það ekki? Bankarnir hafa allir skilað talsverðum hagnaði en hluti hans er afrakstur lögbrota, afhverju eiga eigendurnir að fá að halda þeim hluta?

Og þó svo að einhverjir séu að standa í málarekstri vegna þess að þeir gætu hugsanlega hagnast á því, skiptir það þá endilega máli hvort viðkomandi sé vel stæður? Er það tabú að eiga pening, og mega þeir sem eru kannski heppnari en aðrir ekki sækja rétt sinn? Stundum borgar sig að vera praktískur og það er bláköld staðreynd að málarekstur kostar peninga og alveg sama hver það er sem fjármagnar, þá er það fordæmisgildið sem kemur almenningi til góða. Vegna dóms um gengistryggingu eru um 45.000 heimili ef ég man rétt sem fá mismikið af skuldum sínum leiðrétt. Það eru þrátt fyrir allt talsvert margar fjölskyldur, sem flestar eru eflaust saklausar af því að hafa verið meðvitaðir þáttakendur í einhverju sviksamlegu.

Ég held að við sem þjóð ættum að fagna þessum áfangasigri og í stað þess að rífast um herkostnaðinn, að sækja fram á fleiri vígstöðvum og beita þeim vopnum sem gagnast hverju sinni. Fyrir gengistrygginguna vannst sigurinn í réttarsal, og einnig eru komin í gang mál vegna verðtryggingar sem er ekkert annað en afleiða af verðlagi sem hækkaði óbeint meðal annars vegna lögbrota. Ef sú leið reynis torsótt þá er e.t.v. ekkert útilokað að hægt sé að leiðrétta verðtrygginguna eftir pólitískum eða öðrum leiðum, sjá niðurlag:

Ég vil koma eftirfarandi hugmynd á flot. Það þarf ekki nema vel útfærðar breytingar á opinberri gjaldtöku á borð við skatta og tolla til að hafa slík áhrif á verðlag að við núverandi aðstæður myndi það framkalla verðhjöðnun og lækkun á verðtryggðum lánum, án þess að lagasetningu þurfi til. Þessu hafa hinsvegar núverandi stjórnvöld verið að vinna gegn með því að hækka smám saman skatta og halda uppi verðlagi, og biðja svo AGS um tillögur að enn meiri taktískum skattabreytingum (lesist=hækkunum). Sendisveit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur tekið stöðu með fjármálakerfinu (lesist=kröfuhafa, hverjir eru þeir?) og gegn almenningi, ekki bara hér heldur víðar og nú síðast í Ungverjalandi svo dæmi sé tekið. Við þurfum hinsvegar ekki nauðsynlega á meiri lánum að halda og þess vegna er líklega besta ráðið að slíta samstarfinu við AGS og senda þá úr landi. Ein möguleg leið til þess væri að fólk styðji hverja þá stjórnmálahreyfingu sem hefði þetta að stefnumáli.

Áfram Ísland !

Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2010 kl. 04:51

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Álit fólks á þingmönnum er lítið, sérstaklega hefur það minnkað síðustu misseri, eða frá hruni og er þessi starfstétt litin hornauga af mörgum. Þessu þarf að breyta.

Því verður þó sent breytt ef sá hugsanaháttur er hafður að leiðarljósi að skynsamir, rökfastir og duglegir menn megi ekki taka þátt í stjórnmálum. Gunnr telur það vera hin mesta ósvinna ef Marinó G Njálson færi inn á slíka braut og telur sig sjá merki þess. Þó hefur Marinó alla þá kosti sem góðan stjórnmálamann prýða og mætti hvaða flokkur sem er vera stoltur af slíkum manni.

Varðandi gengistryggðu lánin og dóm hæstaréttar er það eitt að segja að dómurinn staðfestir í raun að allir, lánastofnanir og stjórnvöld líka, þurfi að hlýta lögum.

Þeir seku í því máli eru fyrst og fremst lánastofnanir en stjórnkerfið ber sök á lélegu eftirliti. Á þessa aðila eiga menn að ráðast, ekki fórnarlömbin og því síður þá sem taka málstað þeirra!

Það er ekki lántakendum að kenna ef þessi dómur veldur því að lánastofnanir verða veikari, það er ekki lántakendum að kenna ef ríkið þarf að leggja þessum stofnunum til aukið fjármagn.  Það er fyrst og fremst stjórnendum lánastofnana að kenna ef þær stofnanir sem þeir stjórna þola ekki að unnið sé eftir lögum, það er fyrst og fremst stjórnvöldum að kenna ef ríkið þarf að leggja lánastofnunum til aukið fjármagn.

Þeir sem eiga erfitt með að sætta sig dóm hæstaréttar benda gjarnan á 36.grein samningalaga og vilja meina að samkvæmt henni sé hægt að breyta samningum. Hafi einverntímann átt að fara eftir þeirri grein, var það eftir hrunið. Þá hefðu verið hægt að taka upp samninga samkvæmt þeiri grein vegna forsendubrests. Það kemur skýrt fram í samningslögunum að þessi grein er einungis ætluð til varnar neytendum. Það er ákaflega hæpið að hægt sé að brjóta lög vísvitandi og geta síðan vísað í lagagrein um að forsendubrestur hafi orðið, vegna þess að upp komst um lögbrotið!!

Varðandi verðryggðu lánin, þá hafa HH alla tíð haldið því til haga að leiðrétta þurfi höfuðstól þeirra. Það mál er hinsvegar erfiðara að því leiti til, að ekki er um bein lögbrot að ræða. Það mál þarf að reyna að vinna á grundvelli skynseminnar en hugsanlega væri þó hægt að beyta 36. greininni þar. Forsendubesturinn er vissulega til staðar þar.

Hins vegar EF þessum lánastofnunum væri stjórnað af mönnum sem kunna sína vinnu og EF stjórnvöld hefðu einkverja hugmynd um hvað þau eru og ætla að gera, þá væri þetta auðvelt verk.

Það hlýtur að vera hagstæðara fyrir lánastofnanir að lækka höfuðstól lánanna um t.d. 20% og vita þá um leið að stæðsti hluti þeirra muni innheimtast, í stað þess að halda sig við óbreyttann höfuðstól og missa megnið af lánunum í gjaldþrot. Það hlýtur að vera auðveldara fyrir stjórnendur þessara stofnana að gera framtíðarplön ef þær hefðu í höndunum nokkurn veginn hversu mikið mun innheimtast. Tölur á blaði eru einskisvirði ef ekki er neitt að baki þeim.

Að sama skapi ætti að vera auðveldara fyrir stjórnvöld að gera sér grein fyrir því hvað hér þarf að gera til að koma málum í lag, ef þau hefðu einhverja hugmynd um hvernig heimilunum muni reiða af. Sá kostnaður sem af því hlýst ef um fjöldagjaldþrot heimilanna verður, er langt um meiri en ríkissjóður ræður við. Óbreitt stefna mun valda slíkum fjöldagjaldþrotum og þá um leið algjöru gjaldþroti ríkissjóðs!

Þetta er ekki svartsýnisspá, þetta er einföld skynsemi. Sá sem tók lán fyrir sinni fasteign upp á 60-80% af verði hennar og var með tekjur til að greiða af því, mun ekki vera tilbúinn að setja sig á skuldaklafa um ókomna framtíð. Sérstaklega þegar tekjur hafa lækkað, skattar hækkað, virði fasteinarinnar lækkað og höfuðstóll lánsins er komin langt umfram veð! Það er engin skynsemi í að halda áfram að borga við slíkar aðstæður!

Þær aðgerðir sem hingað til hafa verið í boði er til skammar. Í fyrsta lagi fela þær í sér yfirleitt lengingu lánanna til að halda afborgun í skefjum og í öðru lagi hefur fólk helst þurft að vera komið undir hamarinn til að fá einhverjar úrbætur. Þetta hjálpar engum, er einungis til þess ætlað að lengja í ólinni!

Við sem em bundin á klafa verðtryggðra lána, trúum og treystum því að okkar mál fái farsælan endi!

Gunnar Heiðarsson, 20.7.2010 kl. 08:56

4 identicon

Sæl Marino.

Það er engum til góðs að einstaklingar fari á hausinn og ekki heldur ef fyrirtækinn í landinu fara á hausinn (bankar þar á meðal). Hvernig getum við sem þjóð fundið sangjarna lausn á skuldamálunum. Hvað geta heimilinn borgað og hvað þurfa bankarnir? Ég er með þá tillögu að miða við launavísitölu (betra að miða við laun að frádregnum sköttum og hækkun neysluverðs) þ.a. einstaklingar ráði við greiðslur. Þetta hefur ekkert með lögmæti gengislána að gera en gæti orðið samnings og sátta grunnur í lánamálum einstaklinga.

Kristján Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 277
  • Frá upphafi: 1680565

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband