8.7.2010 | 12:04
Mistök embættismanna og ráðherra kosta skattgreiðendur hugsanlega 100 milljarða - Lán heimilanna eru ekki ástæðan
Það er gott að menn kunni að reikna. Vandamálið er að það er ári of seint. Í febrúar í fyrra var fyrst byrjað að vekja athygli á því á opinberum vettvangi að gengistrygging væri hugsanlega ólöglegt form verðtryggingar. Nú er verið að hóta landsmönnum með því, að eigi túlkun neytenda um að samningsvextir gildi á lánum með ólöglegu gengistryggingunni, þá komi 100 milljarða bakreikningur á skattgreiðendur.
Komi þessi bakreikningur, sem ég hef ekki gögn til að sannreyna, þá er hann eingöngu vegna alvarlegra mistaka og vanrækslu þeirra sem stóðu í samningum fyrir hönd ríkisins við yfirfærslu á lánasöfnum gömlu bankanna til þeirra nýju. Já, ég segi mistaka og vanrækslu vegna þess að umræðan um hugsanlegt ólögmæti gengistryggingarinnar var komin á fullt í apríl í fyrra. Birtust greinar eftir og viðtöl við menn sem höfðu efasemdir um lögmæti gengistryggingarinnar í apríl og maí í fyrra og í framhaldi af því voru send bréf á alla sem máli skipti. Umræðan hélt áfram í allt fyrra sumar og í september varð mikilsvirtur hagfræðingur, Gunnar Tómasson, þátttakandi í henni. Hann sendi líka ráðamönnum og Alþingismönnum bréf þar sem hann varaði við því að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar. Þeir embættismenn og ráðherrar sem komu að samningum við kröfuhafa bankanna höfðu því öll tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir. Falli 100 milljarðar á skattgreiðendur, þá er það ekki því að kenna að fólk leitaði réttar síns. Nei, það er þeim að kenna sem tóku þátt í samningum fyrir hönd stjórnvalda við kröfuhafa.
Heyrst hefur að ástæða hræðsluáróðursins sé staða Landsbankans. Hann geti tekið á sig hluta af því höggi sem verði, ef samningsvextirnir verði staðfestir, en ríkissjóður þyrfti að leggja honum til 50 milljarða í aukið eigið fé. Restin af upphæðinni dreifist á aðra. Fyrst að því sem gæti dreifst á aðra. Þurfi ríkissjóður að leggja Arion banka, Íslandsbanka og einhverju öðrum fjármálastofnunum til aukið eigið fé, þá leiðir það óhjákvæmilega til þess að hlutur ríkisins í þessum fyrirtækjum eykst. Þessir eignarhlutar munu á einhverjum tímapunkti verða seldir og gera má ráð fyrir að ríkið endurheimti því framlag sitt, þegar að þar að kemur. Landsbankinn er verra mál, en á móti verða eignasöfn hans "innheimtanlegri", þannig að meiri líkur er á að rekstraráætlanir hans standist í framtíðinni.
En eru líkur á því að 100 milljarðar falli á skattgreiðendur? Eina leiðin til þess að það gerist er að stór hluti lána fyrirtækja falli einnig undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar. Ástæðan er ekki lán einstaklinga. Landsbankinn lýst því yfir í fréttatilkynningu frá 5. júlí að hann hafi fengið lán heimilanna með 34% afslætti frá nafnvirði lánanna, þ.e. upphaflegri höfuðstóls fjárhæð lánanna. Kannski er þessi fréttatilkynning ekki sannleikanum samkvæmt, en þar til annað kemur í ljós, þá stendur hún. Hafi bankinn fengið öll lánasöfn heimilanna með 34% afslætti frá nafnvirði, þá er frekar ólíklegt að hann ráði ekki við að samningsvextir gildi. Íslandsbanki segist hafa fengið 47% afslátt af lánasöfnum heimilanna. Það gefur bankanum umtalsvert svigrúm. Auk þess kemur fram í gögnum Seðlabanka Íslands, að verðmæti eignaleigusamninga heimilanna hjá bönkunum hafi lækkað úr 22,1 milljarði 30.9.2008 í 4,6 milljarða 31.12.2009. Það skyldi þó ekki vera að menn hafi gert ráð fyrir niðurstöðu Hæstaréttar. Svo má ekki gleyma því að öll gengistryggð lán hafa einhver endurskoðunarákvæði vaxta og að þó LIBOR vextir séu lágir í dag, þá voru þeir það ekki sumarið 2008.
Falli 100 milljarðar á skattgreiðendur, þá er það ekki vegna þess að heimilin hafi fengið leiðréttingu sinna mála. Til þess eru gengisbundin lán heimilanna einfaldlega ekki nógu há. Samkvæmt tölu Seðlabankans námu þau um 110 milljörðum 31.12.2009. Nei, ástæðan er gengisbundin lán fyrirtækja. Þau námu 31.12.2009 um 900 milljörðum kr.
En þrátt fyrir þetta, er líklegt að 100 milljarðar falli á skattgreiðendur? Ekkert er útilokað, en sé eitthvað að marka tölur Seðlabankans, þá virðist sem bankarnir hafi borð fyrir báru. Fyrir hrun voru gengisbundin lánasöfn þeirra til einstaklinga og fyrirtækja að upphæð um 1.750 milljarðar, 31.12.2008 hafði þessi tala lækkað í 935 milljarða og 31.12.2009 stóð hún í 775 milljörðum. Vissulega er búið að afskrifa eitthvað, sérstaklega hjá fyrirtækjum, en ef við miðum við töluna frá 31.12.2008, þá er búið að gera ráð fyrir ríflega 800 milljarða niðurfærslu þessara lána. Þrátt fyrir að hafi 160 milljarðar bæst við á síðasta ári, þá skiluðu bankarnir þrír á því ári 50 milljarða hagnað eftir skatta!
Niðurstaðan er því sú, að lendi 100 milljarðar á skattgreiðendum vegna þess að gengistryggingin var dæmd ólögmæt, þá er það af tveimur ástæðum:
1. Vegna ótrúlegra mistaka og klúðurs embættismanna og ráðherra
2. Vegna þess að fyrirtæki landsins munu fá sín lán leiðrétt líka
Ástæðan er ekki að heimilin séu skráð fyrir 110 milljörðum í gengisbundnum lánum, sem bankarnir hafa auk þess verið að innheimta eins og lánin standi í rúmum 290 milljörðum.
Loks vil ég mótmæla þeirri orðanotkun að tala um "eignartilfærslu". Þetta er ekki "eignartilfærsla", vegna þess að bankarnir hafa ekki fært lánin að fullu sem eign í bókum sínum. Það sem aftur hefur verið í gangi, er að lán heimilanna sem bókfærð eru upp á 110 milljarða hafa verið innheimt eins og þau standi í rúmum 290 milljörðum og bókfærð 670-800 milljarða lán fyrirtækja hafa verið rukkuð eins og þau stand í 1.440 milljörðum. Það á engin eignatilfærsla sér stað. Það er aftur spurning hvort með þessu sé verið að koma í veg fyrir að fjármálafyrirtækin búi sér til með grófum hætti framtíðarhagnað á kostnað lántaka. Þetta er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi koma í veg fyrir þegar hann birti í októberskýrslu sinni á síðasta ári súluritin tvö sem ég ætla að birta hér fyrir neðan. AGS vildi tryggja að afslátturinn sem gömlu bankarnir veittu þeim nýju rynni til lántaka, en ekki til baka til kröfuhafa í gegn um hagnað. Efri myndin sýnir lán heimilanna, en sú neðri lán fyrirtækja. Vinstri súlan sýnir upphæð lánanna eins og þau hafa að mestu verið innheimt, hægri súlan (fyrir utan hluta Íbúðalánasjóðs) sýnir upphæð eins og lánin stóðu í bókum fjármálafyrirtækjanna.
350 milljarða tilfærsla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Það hrannast upp rökin fyrir því að, einkavæðing bankanna "hin síðari" verði rannsökuð.
Kristinn Karl Brynjarsson, 8.7.2010 kl. 15:15
Ef bankarnir eru svo veikir að þeir geti ekki leiðrétt stökkbreytingu lána (gengisbundinna og verðrtyggðra) þrátt fyrir að þeir hafi fengið þessi lánasöfn á meiri afslætti en þeirri leiðréttingu nemur, eru annaðhvort of margir bankar í landinu eða algerlega óhæfir stjórnendur í þeim.
Ef bönkunum er nauðsyn að brjóta lög til að halda lífi, eiga þeir ekki tilverurétt og ætti að láta þá fara á hausinn og stofna algerlega nýja banka með nýjum stjórnendum.
Ef stjórnendur bankanna halda að auðveldara sé að halda lífi með því að mergsjúgja svo viðskiptavinina að þeir rúlli á hausinn í stórum stíl og geti ekki staðið við sínar skuldbindingar, eru þeir gjörsamlega óhæfir stjórnendur. Það hlýtur að vera bönkum og fjármálastofnunum í hag að viðskiptavinir þeirra ráði við sínar skuldbindingar.
Ef stjórnendur bankanna og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar halda að þeir séu hafin yfir lög og rétt, skjátlast þeim illilega og ættu alvarlega að íhuga stöðu sína!!
Takk fyrir samantektina Marinó, seinni einkavæðing bankanna var sennilega ein stór mistök. Alla vega fengu engir þeirra, sem samkvæmt lögum áttu að fylgjast með og sjá til þess að stjórnsýslan gerði ekki mistök, neinar upplýsingar meðan á ferlinu stóð og enn gengur illa að fá þær.
Er þetta ekki akkúrat það sem núverandi stjórnvöld hafa gagnrýnt fyrri stjórnir mest fyrir?!
Gunnar Heiðarsson, 8.7.2010 kl. 18:54
Góð grein að vanda Marínó
Björn Þorri sendi þingmönnum einnig tölvupóst fyrir rúmu ári og gerði þeim grein fyrir á hversu vafasömum nótum gengistrygging stæði.
En er ekki smá brandari í því að lögbrjótur segi að lögbrotið sem hann framdi sé forsendubrestur því það komst upp og því eigi hann að fá það bætt með því að hækka vexti á þeim sem hann braut á???
En hversu langlíf verða bílalánafyrirtækin, er ekki nokkuð ljóst að þau eru bara innheimta núverandi samninga sem gilda kannski í 5-7 ár í viðbót og svo verða þau lögð niður, ekki eru þeir að lána ný lán núna? ég veit að ég verð allavega ekki viðskiptavinur þeirra aftur
Ingvaldur (IP-tala skráð) 8.7.2010 kl. 23:32
Heimildir eru líka fyrir því, Marinó, að lögmaður skrifaði öllum Alþingismönnum bréf um líklegt ólögmæti gengistryggðu lánanna fyrir tæpu ári síðan.
Elle_, 9.7.2010 kl. 07:35
Nú las ég að Ingvaldur sagði það sem ég var að vísa í um lögmanninn.
Elle_, 9.7.2010 kl. 07:39
Takk fyrir þetta Marínó. AUÐVITAÐ vissu fjármálafyrirtækin og stjórnvöld á þessum tíma af því að gengistryggðu lánin voru huganlega og líklega ólögmæt. Margir aðilar, innlendir sem erlendir gerðu þar til bærum yfirvöldum viðvart. "Þeirra" lögfræðingar og lögmenn eru hins vegar sagðir fullvissir um lögmæti lánanna. Það var einfaldlega tekinn sá séns að Hæstiréttur þyrði ekki að dæma þau ólögmæt vegna þess að allt annað myndi skapa svo mikið mál, mikla vinnu og "flækingi" fyrir fjármálafyrirtækin og ekki síður stjórnvöld með ónýta stjórnsýslu. Svo þegar óhagfelld niðurstaða fyrir þessa aðila liggur fyrir er enn á ný sett upp leikrit. Í leikritinu er því haldið fram að ótrúlegar fjárhæðir munu falla á skattgreiðendur (sem er s.k. smjörklípa til að draga athyglina frá risastórum mistökum embættismanna við yfirfærslu á lánasöfnum gömlu bankanna) og til að fá hluta almennings í lið með sér (einkum þá sem verja "velferðarstjórnina" og skulda ekkert eða lítið eða skulda í eingöngu verðtryggð lán) til að draga úr trúverðugleika þeirra sem tala fyrir samningsvaxtaleið gengistryggðu lánanna. Ráðherrar og stjórnarliðar tala út og suður um málið. Tilgangurinn er að rugla almenning í ríminu og ota skuldurum gegn hvor öðrum.
Guðmundur St Ragnarsson, 9.7.2010 kl. 11:16
Það má ekki ske að lántakendum verði att saman. Þeir sem eru með verðtryggð lán verða að standa að baki þeirra sem gengislán hafa og öfugt.
Sjálfur var ég svo heppinn að hafa ekki gengistryggt lán við hrunið, ég leit á það sem áfangasigur þegar gengistryggðu láninin voru (verða) leiðrétt. Verðrtyggðu lánin hljóta að verða leiðrétt næst.
Í öllu falli er það ekki til framdráttar þeim sem eru með verðrtyggð lán að fara í stríð við hina sem gengistryggðu lánin hafa. Það er von stjórnvalda að þessir tveir hópar fari í hár saman, það má ekki ske!!
Það er einnig mikilvægt að eyða orðskrípinu "skuldari" úr Íslenku, lántaki er rétta orðið!!
Gunnar Heiðarsson, 9.7.2010 kl. 21:29
Fín grein Marinó : ég er þér sammála.
Erlingur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 14:25
Sæll Marinó.
Í þessu efni deilum við skoðunum eins og svo oft áður. Bréfið sem ég reit öllum alþingismönnum og ráðherrum hinn 28. maí í fyrra og þú nefnir í færslunni, má sjá á eftirfarandi netslóð:
http://www.amx.is/skrar/7473
Ég vek sérstaka athygli á þeim varnaðarorðum sem ég viðhef í síðari hluta bréfsins, þar sem ég rek þá áhættu sem falin er í því að yfirtaka þessi "gölluðu" lán yfir í nýju ríkisbankana (ríkið átti þá alla á þessum tíma). Einhverra hluta vegna var ekki hlustað á þetta frekar en Gunnar Tómasson hagfræðing sem einnig reit bréf og benti á þetta 12. sept. í fyrra. Í dag er komin upp akkúrat sú staða sem verið var að vara við á þessum tíma! Algerlega ótrúlegt - og ráðamenn GETA ALLS EKKI borið fyrir sig að þeir hafi ekki áttað sig á þessari áhættu. Þeim átti að vera hún algerlega ljós, enda búið að tyggja þetta ofan í þá og mata með teskeið.... Ég segi því; falli króna á ríkissjóð eða almenna skattgreiðendur vegna þessa, þá er rétt að þeir ráðamenn sem ábyrgðina bera, greiði fyrst ríkissjóði og almenningi í landinu SKAÐABÆTUR vegna þessarar ótrúlegu vanrækslu. Byrjum á því.
Því miður læðist að mér mjög óþægilegur grunur um að ráðamenn séu búnir að skuldbinda ríkissjóð vegna endurreisnar bankakerfisins - með samningum sem enn eru ekki komnir fram í dagsljósið...
Björn Þorri Viktorsson (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 22:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.