Leita í fréttum mbl.is

Ekki bendi á mig...

Menn draga upp alls konar skýringar og afsakanir fyrir því að bönkunum tókst í 9 ár að bjóða upp á gengistryggð lán þrátt fyrir mjög skýran bókstaf laganna um að eina verðtryggingin sem leyfð er í lánasamningum sé við vísitölu neysluverðs og hlutabréfavísitölur, innlendar eða erlendar eða sambland þeirra.  Um það er innihald 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, eins og ég benti á í athugasemd við færslu hjá mér í febrúar á síðasta ári.  Ég verð að viðurkenna, að ég var svo hissa á innihaldi greinarinnar, að ég fylgdi henni ekki eftir, enda fannst mér ég þurfa að bera þetta undir lögfræðing.  Það gerði ég loks í apríl, eða öllu heldur hann kom til mín og benti mér á að fylgja málinu eftir.  Það voru nefnilega lögfræðingar bæði innan og utan fjármálafyrirtækjanna sem höfuð efasemdir um gengistrygginguna, en já-bræðralagið kom í veg fyrir að menn riðluðu fylkingunni.

Ég er sannfærður um að fjármálafyrirtækin vissu meira en þau eru að gefa í skyn.  Málið er að þau gerðu sér leik í því að dansa á gráa svæðinu.  Það sýnir bara skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og það sýna t.d. ummæli Elínar Jónsdóttur, fyrrverandi starfsmann FME og núverandi forstjóra Bankasýslu ríkisins, í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins 8. janúar 2009, sjá hér fyrir neðan:

elin_jonsdottir_08012009.jpg

Þetta viðtal og margt annað bendir því miður til einbeitts vilja fjármálafyrirtækjanna að ganga eins langt og hægt væri, þó svo að fyrirtækin mættu vita að með því væru þau að teygja lögin og beygja langt út fyrir vilja löggjafans.  Síðan var öllum ákvörðunum áfrýjað eða þær kærðar og jafnvel niðurstöður dómstóla vefengdar, eins og er með dóma Hæstaréttar.

Þessi framkoma fjármálafyrirtækjanna fríaði FME ekkert undan því að grípa til aðgerða og þar liggur hundurinn kannski grafinn.  FME gaf eftir undan hreinum tuddaskap fjármálafyrirtækjanna.  Þau nýttu kraft sinn og stærð gegn hinni veiku eftirlitsstofnun.  En FME var veikt vegna þess að löggjafinn útvegaði FME ekki þau vopn sem stofnunin þurfti á að halda.  Svo einfalt er það.  Og líka vegna þess að FME var ekki að beyta af nægilegri hörku þeim vopnum sem stofnunin þó hafði.


mbl.is Myntkarfan týndist á gráu svæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athyglisverð skýring á þessu kom fram í viðtali sem Yngvi Hrafn átti við Yngva Örn. Þar bendir Örninn á að bankarnir hafi verið skyldugir til að halda einskonar jafnvægi milli erlendra eigna og skulda annars vegar og innlendra hins vegar.

Það er ekki ósennilegt að með því að lána "gengistryggt" hafi slík lán fallið undir erlendar eignir í skilningi gjaldeyrisjöfnuðar.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 16:11

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Á góðri íslensku kallast þetta einbeittur brotavilji. Jafnvel samsæri.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.6.2010 kl. 16:12

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, það er út í hött og ætti að vera bannað að nota almenning sem gjaldeyrisvörn fyrir fjármálafyrirtæki.  Almenningur á heldur ekki að mynda vörn vegna verðbólgu.  Fjármálafyrirtæki, sem tekur gengisáhættu, á að koma sér upp vörn á fjármálamarkaði fagfjárfesta gegn þeirri áhættu, ekki á lánamarkaði almennings.  Almenningur hefur engin úrræði til að verja sig.

Það var sett athugasemd inn hjá mér um daginn, sem ég finn ekki í augnablikinu.  Í þeirri athugasemd var bent á, að í Bretlandi getur lántaki tekið lán í pundum með LIBOR vöxtum í annarri mynt.  Það er síðan lánveitandans að tryggja sig gegn því.  Hér á landi er gallinn náttúrulega verðbólga og óstöðugleiki.  Fjármálafyrirtækin hafa snúið þessu tvennu upp í kost fyrir sig.  Málið er að þau komu sér upp góðum vörnum gegn gengisáhættu með vaxtaskiptasamningum.  Gylfi Magnússon, þá starfsmaður Háskóla Íslands, lýsir þessu vel á Vísindavefnum sem svari við spurningu um jöklabréf.

Höfum í huga, að ef gengisvarnir fjármálafyrirtækjanna hefðu bara verið það, þ.e. leið til að jafna út gengissveiflur, þá hefðu þau ekki sýnt þennan ógnarhagnað við fall krónunnar.  Gjaldeyrisjöfnuðu þeirra hefði tryggt jafnvægi milli tekna og gjalda.  Sama á við með verðtryggingarjöfnuð.  Ein skýring á hagnaðinum er stöðutaka, ekki varnir.   Önnur, sem mér finnst vanta að skoða, felst í því að skoða það Gylfi segir um jöklabréfin.  Getur verið að bankarnir hafi ekki breytt gjaldeyrisjöfnunarútreikningum sínum, þegar þeir tóku yfir skuldbindingar venga jöklabréfanna og útgefendur jöklabréfanna tóku yfir erlendar skuldbindingar bankanna?  Hafi banki tekið 100 milljónir evra að lán á LIBOR vöxtum og lánar upphæðina út líka á LIBOR vöxtum, þá verður enginn gengishagnaður eða -tap vegna breytinga á gengi krónunnar.  En svo furðulegt, sem það var, þá stórgræddu bankarnir á falli krónunnar. Það getur bara hafa gerst vegna þess að gjaldeyrisjöfnuður þeirra var ekki sá sem þeir sögðu.  Þeir vörðu sig greinilega fyrir falli krónunnar með öðrum hætti en bara útlánum til almennings og fyrirtækja hér innanlands og þess vegna áttu þeir ekki að láta almenning og fyrirtæki að taka þann skell sem þessir viðskiptavinir þeirra fengu.  Gríðarlegan gengishagnað bankanna er ekki hægt að rekja til neins annars en brota þeirra á reglum Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð.  Kannski er þetta allt bull hjá mér og líklegast fundu fjármálafyrirtækin leið til að teygja og toga reglur Seðlabankans.

Marinó G. Njálsson, 26.6.2010 kl. 16:38

4 identicon

Textinn á skuldabréfunum ber þess öll merki að menn hafi vitað af lögum 38/2001.  Hvert ómálga barn sem les þessi lög áttar sig á því að gengistrygging er bönnuð. Það lýsir einfaldlega einbeittum brotavilja fjármálafyrirtækjanna að þau skyldu reyna þetta. En nógu mikið tókst þeim að þvæla textanum á skuldabréfunum til þess að grugga vatnið. Sem betur fer þá sá Hæstiréttur í gegnum þetta.

Við hljótum að fagna því að stjórnvöld hafi áhuga á að rannsaka tilurð þessara lána. Eftir því hefur lengi verið kallað en ekkert gerðist fyrr en dómur féll gegn vilja stjórnvalda. En rannsókn á þessari lánastarfsemi hlýtur alltaf að innihalda líka, rannsókn á meðferð stjórnvalda á þessum lánasöfnum eftir hrun. Kanna þarf hvort að ráðherrar í núverandi stjórn hafi gerst sekir um vanrækslu í tengslum við þetta mál.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 16:40

5 identicon

Kannski var hægt að kalla lánin ýmist eignir í erlendum gjaldmiðlum eða innlendar eignir, eftir því hvað hentaði hverju sinni í uppgjöri bankans.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 17:11

6 identicon

Þetta er nákvæmlega málið Marínó. Mig hefur lengi grunað að þessi lán hafi ekki komið fram í gjaldeyrisjöfnuði bankana. Það gæti líka skýrt út af hverju stjórnvöld og seðlabanki hafa ekki haft neinn áhuga á að upplýsa þessi mál fram að þessu. Slíkar upplýsingar myndu skilja eftir stórt spurningamerki við allt eftirlitskerfið en jafnframt setja hugsanlega í gang mikinn málarekstur á hendur bönkunum. Það væri ekki í stíl við þann sleikjugang sem hefur tíðkast gagnvart kröfuhöfunum.

Mér skilst að á árinu 2008 hafi átt að gera upp fyrstu stóru lánin á millibankamarkaði sem fjármálafyrirtækin náðu sér í eftir að bankarnir voru einkavæddir 2003.  Árin 2005 og 2006 virðist erlendum aðilum vera orðið það ljóst að búið er að lána út þennan gjaldeyri í miklu mæli til aðila tengdum bönkunum. Þeir aðilar hafi aldrei haft annað í hyggju en greiða lítið til baka af þessum lánum, en nota þess í stað tengsl sín í bönkunum til þess að endurfjármagna lánin út í það óendanlega.

Þegar það er orðið fyrirséð að millibankamarkaður hefur ekki trú á þessum pýramída lengur þá sjá íslensku bankarnir fram á gjaldeyrisskort árið 2008 þegar lánin eru á gjaldaga.  Í framhaldi af því fara þeir að búa í haginn fyrir þessi ósköp með því að reyna að búa til gjaldeyri úr krónum (gengistrygging). Gleymum því ekki að gengistryggð lán eru seld af miklum móð af bönkunum eða eignaleigum þeim tengdum árin 2006 og 2007. Gleymum heldur ekki hversu mikla áherslu bankastjórarnir lögðu á að SÍ myndi auka hjá sér gjaldeyrisforðann. Stóra spurningin er svo hvort að stjórnvöld vissu af þessu en sáu í gegnum fingur sér með þetta í von um að geta bjargað kerfinu.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 17:21

7 identicon

Ef lögfræðingar bankanna hefðu komist að því í árdaga myntkörfulánanna að skilmálarnir væru ekki nægilegir til að breyta þessum lánum í erlend lán þá hefðu þeir gert það. Það var dæmt ólöglegt að lána í íslenskum krónum með gengistryggingu. Það er enn löglegt að veita erlend lán eða hafa milligöngu um það. Það þurfa menn að borga með gjaldeyri eða jafngildi hans í íslenskum krónum.

Það er með ólíkindum að lögfræðingar bankanna (og stjórnsýslunnar) hafi verið svona tregir. Hafi þeir hins vegar ætlað að koma lántakendum á kaldan klakann af illvilja eins og þú Marinó virðist halda og margir meðkommentarar þínir, hefði því verið einfalt að breyta þessum myntkörfulánum í óyggjandi erlend lán.

Púkinn, aka Friðrik Skúlason, vitnar í Robert Heinlein: "Never attribute to malice that which can be adequately explained by stupidity".

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 17:36

8 identicon

Ómar, nema þetta sé face volta. þeir hafi leikið tveimur skjöldum. Gagnvart Seðlabanka voru þetta eignir í gjaldeyri. Gagnvart útlendingum voru þetta innlend lán. Gagnvart matsfyrirtækjum voru þetta prime húsnæðislán. Tær snilld.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 17:44

9 identicon

Til þess að geta lánað erlenda mynt þá verður maður að eiga hana Ómar Harðason. Þessi lán gerðu bönkunum væntanlega kleift að lána út miklu meira í "erlendri" mynt en þeir áttu. Það er ekki af ástæðulausu að þessi fyrirtæki völdu að flækja lánasamningana með því að snúa sér einn hring í kringum íslenskar krónur.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 17:47

10 identicon

@Benedikt Helgason. Þetta er tæknilega einfalt: a. Hérna vinur færðu 10 þúsund evrur. b. Jæja, þarftu að fá þetta út í íslenskum krónum? Við skulum kaupa 10 þús. evrurnar á kostakjörum. Þessar sömu 10 þús. evrur geturðu þannig lánað aftur og aftur.

@Björn Jónasson. Þetta kemur fram í rannsóknarskýrslunni að þessi lán voru álitin erlendar eignir. Það er ekki tær snilld, heldur heimskulegt eins og RNA kemst raunar að. Það kemur hins vegar ekki við því sem ég var að benda á: Ástæðan fyrir því að lántakendur myntkörfulána eru í góðri stöðu í dag er heimsku bankamanna og stjörnulögfræðinga þeirra að þakka (var einhver að tala um atgervisflótta úr stjórnsýslunni?). Hefði verið gengið frá lánunum eins og um raunveruleg erlend lán væri að ræða væri staða lántakenda allt önnur og verri -- og við stæðum ekki í þessu orðaskaki.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 18:05

11 identicon

þá hafa bankarnir ofmetið hagnað sinn árið 2008?

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 18:19

12 identicon

Ómar Harðarson.

Í öllum þessum bönkum voru slíkar lánveitingar líka stundaðar, þ.e.a.s. að lána út erlendar myntir hreint og klárt. Slík skuldabréf voru væntanlega til og þekkt innan fyrirtækjanna.

En af hverju útbúa menn þá líka skuldabréf þar sem tekinn er snúningur í gegnum krónur þegar það liggur fyrir að fjármálafyrirtækin vissu af því að það mætti ekki gengistryggja (samanber athugasemdir Guðjóns Rúnarssonar við frumvarpið 2001)? Af hverju ættu fyrirtækin að taka áhættu á að útbúa slík skuldabréf ef þau voru að lána út raunverulegan gjaldeyri?

Þú vilt meina að það sé klaufaskapur lögmanna bankanna. Ég get ekki útilokað að það sé rétt en ég hef enga trú á því að sami klaufaskapurinn hafi átt sér stað hjá öllum fjármálafyrirtækjunum. Menn voru jú þrátt fyrir allt að flækja skuldabréfin umtalsvert umfram það sem nauðsynlegt var. Ég tel þetta vera vegna þess að þörfin rak menn til þess að taka þessa áhættu. "Þörfin" rak stjórnendur bankanna á þessum árum út í alls konar vitleysu. Svo mikið vitum við nú þegar.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 26.6.2010 kl. 18:32

13 Smámynd: Dingli

Skrekkur hefur verið að benda á nokkuð athyglisvert. Kaupir þú bíl, þá fer 1/3 til framleiðanda, !/3 skattar til Íslenska ríkisins og 1/3 er  álagning sölumanna.(þessar tölur eru auðvitað c.a.) Samt er allt kaupverðið lánað í erlendum gjaldeyri. Fékk ríkið skatta sína greidda í gjaldeyri, svo og bílasölurnar?

Að mínu viti, eru þarna á ferð einkennileg viðskipti, sem gaman væri að þið sem vitið allt (eða flest )gætuð gefið mér skýringu á.

Dingli, 26.6.2010 kl. 21:59

14 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Góð færsla Marinó. M

Mér verður bara meira og meira illt af því að sjá það svona svart á hvítu hverskomar brotafólk hefur höndlað með okkar fáu krónur sem hvert okkar fékk í hendur fyrir okkar daglegu störf. Þakkir fyrir að upplýsa um það sem raunverulega fór fram í peningahöllunum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 26.6.2010 kl. 23:56

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Dingli: Kjarni málsins er sá að kaupverðið á þeim lánum sem dómur hæstaréttar tekur til var aldrei greitt út í erlendum gjaldmiðli heldur krónum. Þess vegna var ólögmætt að gengistryggja þau. Lán greidd í erlendum gjaldmiðli falla ekki undir þetta og eru allt annað mál.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.6.2010 kl. 00:11

16 Smámynd: Billi bilaði

Guðmundur Ásgeirsson, þetta sem Dingli vitnar í mig með kemur að málinu á þann veg að sumir þeir sem finna hæstaréttardómunum allt til foráttu hafa notað það sem röksemd að það sé verið að lána í erlendu til að borga upp hluti í erlendu.

Það er svo annað mál hversu lögleg erlend lán séu. Eins og góður pistill sem Marínó vitnaði eitt sinn í (en ég finn ekki í augnablikinu), þá er íslenska krónan lögeyrir hér, og allir samningar á milli tveggja íslenskra aðila ættu þá að vera í íslenskum krónum. Þetta er því allt spurning um það hversu mikla frjálshyggju á að leyfa fyrir fjármálaóþokka að svína á almenningi. (Marínó man kannski eftir þessum pistli, og getur fundið hann fljótar en ég, og sett hann í fastan hlekk hér til hliðar.)

Billi bilaði, 27.6.2010 kl. 01:27

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Billi, greinin er hér: Almenningur skuldar ekki erlend lán

Höfundurinn er Gunnlaugur Kristinsson, löggiltur endurskoðandi.

Marinó G. Njálsson, 27.6.2010 kl. 01:41

18 Smámynd: Dingli

Guðmundur: Ég átta mig á þessu. Það sem stendur í mér, er að kaupverð bílsins/tækisins að utan, (FOB) hefur orðið að greiða með gjaldeyri. Skattar og söluþóknun sem eru u.þ.b. 2/3 heildarverðs, væntanlega með krónum.

Hversvegna var þá veitt/tekið gjaldeyrislán fyrir heildarverðinu og hvers vegna var verið að  borga það út í krónum, þegar 1/3 þurfti svo aftur að breyta í gjaldeyri af söluaðila í gegnum sinn banka, sem í flestum tilvikum var sá sami og veitti lánið?

Hefðir þú flutt bílinn inn sjálfur, þá borgaðir þú Fob verðið með gjaldeyri, en flutning og skatta með krónum. Slíkt hefur innflytjandi bíls, sem þú fékkst lán fyrir í bankanum, gert líka.

Í hvaða tilgangi var bankinn, að láta þig taka heildarverðið að láni í erlendri myntkörfu, greiða allt út í krónum og skipa svo 1/3 aftur í gjaldmiðil þann sem bíllinn var borgaður með erlendis?Tók bankinn  e.t.v. aldrei gjaldeyri að láni nema fyrir FOBverðinu, en lét þig kaupa af sér gjaldeyri út lánstímann? Og þá í hvaða tilgangi? Var í gangi snilldarflétta spekúlanta í gjaldeyrisbraski sem sprengdi bónusþakið?

Hver var síðan tilgangurinn með því að greiða út lán í gjaldmiðli, í þeim tilfellum þegar honum var skipt við gjaldkeraborðið í krónur.

Kannski eru þessar vangaveltur mínar tómt bull og út úr korti, en vona þó að e-h skilji hvert ég er að fara.

Dingli, 27.6.2010 kl. 02:48

19 Smámynd: Dingli

Var að hlaupa úr einu í annað og var því byrjaður á ath. fyrir ofan án þess að hafa séð ath. Billa. Var svo fyrst að klára og senda núna

Dingli, 27.6.2010 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband