Leita í fréttum mbl.is

Eru gengistryggð lán ólögleg? - Endurbirt færsla frá 17.4.2009

Í tilefni dóma Hæstaréttar frá 16. júní um lögmæti gengistryggingarinnar, þá má ég til að endurbirta færslu mína frá 17. apríl á síðasta ári.

Eru gengistryggð lán ólögleg?

Í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er í greinum 13 og 14 fjallað um vísitölutengingu skuldbindinga.

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]*
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

*(L. 51/2007. 1. mgr.)

Það vekur athygli í þessum greinum, sem "gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum" að "[h]eimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé .. sé grundvöllurinn verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs" eða "hlutabréfavísi[tala]..eða safn slíkra vísitalna".  Þó svo að greinin banni ekki beint aðrar tengingar, þá verður að túlka hana á þann hátt.  Það er jú verið að nefna það sem er heimilt á grundvelli reglunnar "allt er bannað sem er ekki sérstaklega leyft".  Ekki væri verið að nota orðið "heimilt", nema vegna þess að annað er bannað.

Í greinargerð með frumvarpinu (sjá http://www.althingi.is/altext/126/s/0872.html) segir um 13. og 14. gr.:

    Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbinding ar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið tak markaðrar hylli.
    Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

(Leturbreytingar: MGN)

Ég fæ ekki betur séð en að gengistryggð lán, hvort heldur hrein eða með myntkörfu í bland við íslenskar krónur, séu ólögleg! ".. ekki verður heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Verður það nokkuð skýrar?  Fjármálafyrirtækin eru búin að vera að selja ólögleg lán í fjölmörg ár.

Þar sem  þessi lán eru helsti dragbítur margra heimila og fyrirtækja, þá skiptir þetta miklu máli.  Hvernig stendur á því að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og viðskiptaráðuneytið hafa látið þetta óátalið?  Hvað segir ríkissaksóknari við þessu?  Mér finnst alveg með ólíkindum að þetta hafi verið látið óátalið í öll þessi ár, þegar reyndin er að með lögum nr. 38/2001 var löggjafinn að banna þessi lán.

Nú þýðir ekki fyrir fjármálafyrirtæki að ætla sér að snúa út úr og segja að þetta hafi verið skuldbindingar í erlendum gjaldmiðli.  Lánsumsóknir eru undantekningarlaust um fjárhæð í íslensum krónum, útborgun lánanna var í íslenskum krónum, afborganir lánanna eru/voru í íslenskum krónum og þegar upplýsingar eru gefnar um stöðu lánanna, þá eru þær gefnar í íslenskum krónum.  Auk þess er einn möguleiki að fá blandað lán, þar sem hluti þess er miðaður við verðtryggð kjör samkvæmt vísitölu neysluverðs meðan restin er miðuð við "dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Nú er spurningin hvort skjól gömlu bankanna fyrir lögsóknum muni koma í veg fyrir að lántakendur sem tóku hin ólöglegu lán geti leitað réttar síns.

----

Ég fæ ekki betur séð en að Hæstiréttur hafi alfarið tekið undir sjónarmið mín í þessari færslu og er það vel.  Næstu dagar munu leiða í ljós hve mikið fjármálafyrirtæki munu tjalda í því skjóli "að okkar lán eru öðruvísi", þegar það skiptir ekki máli.  Þau eru að vísu flest byrjuð og finnst mér að þau eigi að hætta þeirri vitleysu.  Er það virkilega það sem við þurfum núna, að fjármálafyrirtækin ætli að draga lántaka í stórum stíl fyrir dómstóla.  Ég held ekki.  Nú er tími til kominn að setjast niður (nokkuð sem hefði betur verið gert fyrir ári eða tveimur), fara yfir stöðuna og finna niðurstöðu sem allir geta lifað við.  Það hefur nefnilega aldrei, mér vitanlega, verið ætlun lántaka að fá neitt annað út úr þessu en sanngjarna og réttláta leiðréttingu á forsendubresti lána sinna.  Aldrei hefur staðið neitt annað til en að greiða upp skuldir í samræmi við upprunalega greiðsluáætlun og eðlilega þróun gengis og verðlags. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég fagna niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli.  Hann tekur af allan vafa um að fjármálafyrirtæki hafa boðið og selt ólöglega lánaskilmála árum saman!  Það var þeirra val og kostur að láta skilmála lánanna stangast á við lög.  Lánafyrirtæki geta ekki firrt sig ábyrgð á þeim gjörningi.  Að mínu mati þarf að setja niður, með lögum ef með þarf, reglur um nákvæmlega hvernig eigi að fara með þessi lán.  Það verða allir að sitja við sama borð, bæði fjármálafyrirtækin og lánþegar, þegar kemur að uppgjöri á þessu.  Þ.e. öll fjármálafyrirtæki verða að bjóða sömu kosti fyrir gengistryggð lán, annað er hrein mismunun.  Íslensk fjármálafyrirtæki hafa sýnt það skýrt og skorinort undanfarin ár að þeim er ekki treystandi til þess að fara að lögum og ég treysti þeim ekki til þess að leysa þessi mál. 

Hér er BP í vondum málum eftir olíulekann í Mexíkóflóa.  Á Íslandi hefur lekið olía í áratug.  Það þarf að taka á þessum fyrirtækjum sem hafa komist upp með að brjóta lög.  Íslendingar verða að fara að gera sér grein fyrir því að fyrirtæki sem brjóta lög stunda glæpastarfsemi.  Það er ekkert annað orð yfir það!  Þetta mál á að taka fyrir hjá Sértökum saksóknara.  Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn ættu að taka á þessu líka, sem eru og voru eftirlistaðilar, en þessar stofnanir  hafa brugðist algjörlega og maður hlýtur að velta fyrir sér tilgangi stofnana eins og FME sem virðist vera gersamlega gagnslaust og bitlaust.  Hér er um glæpsamlega starfsemi að ræða og það á að taka hart á þessu. 

Maður fær bókstaflega ógleði af að horfa upp á allt þetta rugl sem hefur viðgengist og ég held að Íslendingar upp til hópa séu orðnir svo samdauna þessu að þeir taka varla eftir þessu.  Stundum á maður bara ekki til orð!  Þú hefur verið ötull og heiðarlegur í skrifum þínum um þessi mál og það eiga þér margir þakkir skilið fyrir framgöngu þína til varnar hagsmunum heimilanna í landinu!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 18.6.2010 kl. 17:04

2 identicon

Sæll.

Vildi bara þakka þér og HH. fyrir frábæra og óeigingjarna vinnu í þessum málum.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 21:01

3 identicon

Sammála þessu öllu Arnór Baldvinsson.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 21:03

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það eru fleiri lög sem þessi fyrirtæki hafa hugsanlega brotið. Vörslusviptingar hafa oftar en ekki farið framhjá sýslumönnum, bílar og tæki einfaldlega sótt að boði lánastofnunar. Meðferð bíla og tækja eftir vörslusviptingu hefur einnig verið gagnrýniverð, mikil verðfelling á bílum sem svo voru sendir erlendis og seldir á góðum verðum. Lánastofnunin hirti mismuninn í stað þess að nota hann til að lækka eftirstöðvar lánanna. Ýmislegt fleira væri hægt að telja til, sem hugsanleg lögbrot og í öllu falli siðbrot!

Gunnar Heiðarsson, 18.6.2010 kl. 21:18

5 Smámynd: Elle_

HA, HA, HA.  Þarna komstu fram úr skúmaskotinu með allt gamla þrasið okkar við YOU KNOW WHO, Marinó.

Elle_, 18.6.2010 kl. 22:07

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, Elle, það birtist þarna gamall draugur

Gunnar, þau virðast hafa brotið fleiri lög, en það sem mér þykir líklegt er að þau muni fá á sig skaðabótakröfur.

Marinó G. Njálsson, 18.6.2010 kl. 22:33

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég verð að birta þetta álit Seðlabankans sem gefið var til efnahags- og skattanefndar í dag:

Það er mat Seðlabankans að aðeins í undantekningartilvikum myndi leiðrétting á höfuðstól lána leiða til útgreiðslu hjá fjármálafyrirtækjum. Því yrðu áhrif á lausafjárstöðu þeirra yfirleitt lítil.

Almenn lækkun á höfuðstól gengistryggðra lána myndu lækka eigið fé fyrirtækjanna, en umtalsverðar höfuðstólslækkanir hafi þegar verið áformaðar. Þá muni líklega draga úr vanskilum og þau áhrif komi á móti. Þá telur Seðlabankinn að fjármálafyrirtækin gætu þurft minna eigið fé en áður vegna þess að dregið hefur úr gjaldeyrisójafnvægi.

Seðlabankinn segir t.d. að búið hafi verið að áforma höfuðstólslækkanir!  Hitt talar fyrir sig sjálft, en bankinn telur niðurstöðu Hæstaréttar hreinlega jákvæða fyrir fjármálakerfið.

Marinó G. Njálsson, 18.6.2010 kl. 22:45

8 Smámynd: Elle_

ARNÓR SKRIFAÐI: Maður fær bókstaflega ógleði af að horfa upp á allt þetta rugl sem hefur viðgengist og ég held að Íslendingar upp til hópa séu orðnir svo samdauna þessu að þeir taka varla eftir þessu.

Já, algerlega óglatt.  Og með ólíkindum að svindlið skuli hafi verið við lýði svo lengi.  Og ég hef líka oft haldið að fólk væri samdauna okrinu og svindlinu.  Hitti þó gamla konu með innkaupapoka í strætóskýli, ekki löngu eftir að ég flutti aftur til landsins, og hún sagði:  Þetta land er algert OKURBÆLI.  Það sagði nokkuð. 

Elle_, 18.6.2010 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 2
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 277
  • Frá upphafi: 1680565

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband