Leita í fréttum mbl.is

Tilboð SP-fjármögnunar: Of lítið, of seint

SP-fjármögnun sér sæng sína út breidda og býður lækkun höfuðstóls gengistryggðra bílalána.  Lána sem fyrirtækið mátti ekki bjóða lögum samkvæmt, lán sem voru í ókennilegum sjóðseiningum sem það hafði starfsheimildir til að bjóða, lán sem það sagðist hafa veitt í gjaldeyri til viðskiptavina, þó fyrirtækið hefði ekki heimild til gjaldeyrisviðskipta.

Tökum nú viljann fyrir verkið, þá hefði ég viljað sjá í yfirlýsingu fyrirtækisins, að það bætti ÖLLUM viðskiptavinum sínum sem gengið hefur verið að og verið sviptir bílum sínum, þann skaða sem það hefur valdið þeim.  Ég ítreka ÖLLUM og það innan 14 daga, án undanbragða og án vífillengja.

Í mínum huga er SP-fjármögnun, líkt og Íslandsbanki, að kasta inn handklæðinu.  Fyrirtækin viðurkenna að lánin sem þau veittu standast ekki bókstaf laganna.  Nú á að koma með eitthvað PR stunt korteri áður en Hæstiréttur fellir dóm sinn um lögmæti gengistryggðra lána.  Vissulega getur dómur Hæstaréttar fallið á hvorn veginn sem er og ekkert er öruggt, en miðað við útspil SP-fjármögnunar, sem hefur verið mjög stíft í öllum samskiptum sinum við viðskiptavini, þá eru menn greinilega orðnir sannfærðir um það á hvorn veginn dómurinn fellur.  Það er nokkuð skondið, þar sem SP-fjármögnun vann sitt mál fyrir héraðsdómi í desember.

Á næstu dögum getum við átt von á því að önnur bílalánafyrirtæki komi fram með svipuð tilboð.  Það er gott og blessað, en furðulegt að það hafi tekið menn allan þennan tíma að komast að þessari niðurstöðu.

Annars kíkti ég á síðuna hjá SP-fjármögnun og sá hvers konar kjarnaboð þetta er hjá fyrirtækinu.  Kjósi viðskiptavinir að breyta í verðtryggt lán, þá ber það 7,95% vexti, en sé lánið óverðtryggt, þá eru vextirnir 12,65%.  Miðað við þetta veðjar fyrirtækið á 4,7% verðbólgu.  Fyrirtækið má eiga það, að það viðurkennir, að lítil sem engin breyting verður á greiðslubyrði.  Einnig má segja því til hróss, að það býður lækkunina, þó svo að lántaki greiði lánið upp.  Í þessu öllu les út nokkur atriði.  Eins og ég bendi á að ofan, þá er það spá fyrirtækisins að verðbólga næstu 12 mánuði verði innan við 5%, það er greinilega hrætt við niðurstöðu Hæstaréttar og, þó dómur Hæstaréttar falli fyrirtækinu í hag, að gengi krónunnar eigi eftir að styrkjast verulega.  Út frá þessum þáttum, þá tel ég varhugavert fyrir lántaka að taka þessu tilboði.  Ástæðurnar eru væntanlegur dómur Hæstaréttar, en þó hann falli lántökum í óhag, þá mun frumvarp félagsmálaráðherra setja undir þann leka; greiðslubyrðin er ekkert að breytast; og loks að aftur er SP-fjármögnun að láta viðskiptivini sína taka þá gengisáhættu, sem eðlilegt er að fjármálafyrirtækið taki.  Fjármálafyrirtæki hafa möguleika til að verja sig gegn gengissveiflum, en almennir lántakar geta það ekki.  Þess vegna er ólöglegt að tengja fjárskuldbindingu í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla!


mbl.is Lækka bílalán um 20-40%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

- við semjum ekki um neitt!

Látum ekki hafa okkur að féþúfu!

Flott hjá þér Marinó:o))

~ power to the people ~

Vilborg Eggertsdóttir, 25.5.2010 kl. 22:59

2 Smámynd: Óskar Guðmundsson

...eeehhh "power to the people" fór fyrir lítið er menn völdu yfirsig spillingar gegnsýrða komma með fögur loforð...

 Eins og þar segir "betur sjá augu en eyru"!

Óskar Guðmundsson, 26.5.2010 kl. 00:26

3 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Takk fyrir þetta.

Margrét Sigurðardóttir, 26.5.2010 kl. 07:56

4 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Nú var ég að skoða þessa höfuðstólslækkun vegna láns sem ég er með hjá þeim. Samkvæmt henni lækkar höfuðstóllinn um 38% og greiðslubyrði fer úr rúmum 80þús krónum niður í 53þúsund. Ég myndi halda að þetta gagnaðist mér ágætlega eða hvað heldurðu?

Egill M. Friðriksson, 26.5.2010 kl. 22:23

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Egill, ég vona innilega að það verði niðurstaðan og samgleðst þér með þetta.  Hvort valdir þú að skoða breytingu í verðtryggt lán eða óverðtryggt? 

Þar sem ég er ekki lántaki hjá SP-fjármögnun, þá er ég ekki í aðstöðu til að reikna út áhrif tilboðs fyrirtækisins.  Ég vitnaði aftur í þeirra eigin texta, þar sem þeir segja að lítil eða engin breyting verður á greiðslubyrði.  Mér finnst nú lækkunin þín vera nokkuð langt frá því.

Marinó G. Njálsson, 26.5.2010 kl. 22:33

6 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Ætli lækkunin skýrist ekki af þeirri staðreynd að lánið er eingöngu í yenum og frönkum tekið haustið 2007 þegar krónan var enn mjög sterk.  Lánstíminn er líka ekki langur eða 3 ár.

Annars skoðaði ég þetta í gegnum vefsíðuna þeirra og þeir bjóða ekki upp á útreikninga ef ég skuldbreyti í verðtryggt lán - einungis óverðtryggt. Myndi nú halda að þar sem það eru fáar afborganir eftir að þá hentaði mér betur að taka óverðtryggt.

Egill M. Friðriksson, 27.5.2010 kl. 10:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband