Leita í fréttum mbl.is

SP-fjármögnun krafsar í bakkann

Hún er furðuleg sú ályktun blaðamanns að SP-fjármögnun hafi riðið á vaðið.  Fyrirtækið stendur frammi fyrir tveimur niðurstöðum Héraðsdóms Reykjavíkur.  Annarri frá því 12. febrúar, þar sem Áslaug Björgvinsdóttir settur héraðsdómari úrskurðar að gengistrygging sé ólögleg, og hinni frá 30. apríl, þar sem Jón Finnbjörnsson héraðsdómari úrskurðar að ekki sé gengistryggingin bara ólögleg heldur skuli engin önnur verðtrygging koma í staðinn, en lánasamningurinn skuli að öðru leiti standa.  Auk þess hefur fyrirtækið hangandi yfir sér lagasetningu (en mér skilst að frumvarpið sé samið af lögfræðingum SP-fjármögnunar) sem skikkar fyrirtækið til að gera það sem það er bjóða.

Horfum til baka hálft ár og rifjum upp framburð forstjóra SP-fjármögnunar fyrir dómi.  Þar lýsir blessaður maðurinn síendurteknum brotum fyrirtækisins á starfsleyfi þess og heldur fram alls konar hlutum sem ekki hljóta stuðning í ársreikningum fyrirtækisins.  Staðreynd málsins er að SP-fjármögnun var gjörsamlega búið að mála sig út í horn (eða skíta upp á bak) og þeir eru að reyna að leika einhvern goody guy til að skora stig.  Í færslu (sjá Tilboð SP-fjármögnunar: Of lítið, of seint) við aðra frétt um þetta efni (mbl.is virðist vera mjög umhugað um þetta án þess að koma með eina einustu gagnrýni á innihaldið) frá því í gær fer ég betur yfir þetta mál.  Þar bendi ég m.a. á að enn einu sinni er verið að flytja gengisáhættuna yfir á viðskiptavininn, þrátt fyrir að það sé andstætt öllum grunnreglum um bankaviðskipti.  Þá er ekkert í tilboði SP-fjármögnunar sem vísar til þess að fórnarlömb fyrirtækisins undanfarin ár eigi rétt á leiðréttingu sinna mála.  Loks bendi ég á, að 7,95% verðtryggðir vextir eða 12,65% óverðtryggðir vextir til viðbótar við að fyrirtækið ætlar að hirða gengisstyrkinguna flokkast seint undir kosta kjör.

Bæði "tilboð" SP-fjármögnunar og frumvarp félagsmálaráðherra (miðað við það sem ráðherra hefur sjálfur sagt um það) eru ámátlegar tilraunir til að festa eignaupptökuna og forsendubrestinn.  Að mönnum skuli detta í hug að koma með svona tillögur og kalla það réttarbót fyrir neytendur er hrein ósvífni.  Ég skil heldur ekki ráðherra að þora ekki að bera frumvarpið undir aðila eins og Hagsmunasamtök heimilanna.  Nei, SP-fjármögnun var beðin um að semja frumvarpið (samkv. gorti forstjóra fyrirtækisins).  Þreytast stjórnmálamenn aldrei á því að gera vitleysur?  Er mönnum fyrirmunað að skilja, að heimilin og fyrirtækin vilja lausnir á sínum forsendum, ekki á forsendum fjármálafyrirtækjanna.  Skilja stjórnmálamenn ekki, að viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna eru búnir að fá nóg af skítnum og spillingunni sem vellur út úr fjármálakerfinu og telja að nú sé kominn tími til að fjármálakerfið fari að haga sér eftir forskrift okkar, viðskiptavina þess.


mbl.is SP ríður á vaðið með lækkun lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er eitthvað vitað hvenær þessi mál um gengistryggingu lána fara fyrir hæstarétt?

Mér finnst að það þurfi að klára að fara með þau mál þar í gegn áður en samin eru lög um niðurfellingu.

Íslendingur (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 10:10

2 identicon

Sæll Marínó. Þakka góða færslu. Fór inn á síðu SP og var að reyna afla mér upplýsinga um hvaða vxt % þeir eru að bjóða í verðtryggðu og óverðtryggðu yfirfærslunni. Það kemur ekkert fram um það! Þú virðist vera með það á hreinu hins vegar 7,95% verðtryggt og 12,65% óverðtryggt. Hvar fékkstu þessar upplýsingar?

Svavar Benediktsson (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 10:37

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Svavar, hér er hlekkurinn http://www.sp.is/category.aspx?catID=65.  Ég vona a.m.k. að þetta sé rétt síða.

Íslendingur, gengistryggðu lánin verða tekin fyrir 2. júní:  

92/2010

miðvikudagur 2. júní - kl. 9:00; [Dómsalur I] IB ÁK GG GCl MS

Óskar Sindri Atlason
(Björn Þorri Viktorsson hrl.)
gegn
SP. fjármögnun hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

153/2010

miðvikudagur 2. júní - kl. 9:00; [Dómsalur I] IB ÁK GG GCl MS

Lýsing hf.
(Sigurmar K. Albertsson hrl.)
gegn
Jóhanni Rafni Hreiðarssyni og Trausta Snæ Friðrikssyni

(Ragnar Baldursson hrl., Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.)

Eins og sést eru þau tekin fyrir bæði í einu og eru því með sömu dómarana.  Að dómarar séu 5 sýnir að málið er mikilvægt, einnig að það eru þeir fimm dómarar sem hafa lengst setið sem hæstaréttardómarar.  Ég ætla aftur ekkert að spá í hvort það eykur líkurnar á að málið falli á einn veg eða annan.

Marinó G. Njálsson, 26.5.2010 kl. 11:34

4 identicon

Eitthvað er nú bogið við þessa útreikninga á tilboði SP. Á ég að trúa því að útreikningar miði aðeins við höfuðstólinn eins og hann er akkúrat núna. Ég tók ca. tveggja milljón króna lán í júní 2006. Ég var duglegur að borga inná það og það var komið niður í ca. miljón um mitt ár 2008. Við hrunið fór það aftur uppí ca. tvær. Náði að selja bílinn s.l.haust og borgaði  hressilega inná lánið og núna stendur það í ca. 500 þús.  Höfuðstólslækkunin sem þeir bjóða mér er kr . 55 þús. Á ég að trúa því að það sé allur munurinn á fjögurra ára gömlu tveggja milljón króna myntkörfuláni og samsvarandi íslensku láni á þessum tíma? ég hlýt að vera að misskilja eitthvað.

Magnús Már Magnússon (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 1678166

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband