13.5.2010 | 14:19
Hver er með leiksýningu? - Má nota lög um peningaþvætti?
Sigurður Einarsson og ýmsir sjálfskipaðir verjendur gerenda í hruni íslenska hagkerfisins hafa haldið því fram að aðgerðir Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, séu leikþættir. Ég get ekki annað sagt á móti:
Sé þetta leikþáttur, þá er hann viðeigandi framhald af þeim leikþáttum sem komu á undan. Það eru dæmigerð viðbrögð þeirra sem hafa slæman málstað að verja, að gera litið úr málflutningi og aðgerðum hinna. Þetta er dæmigerð smjörklípa a la Davíð Oddsson.
Við skulum búa okkur undir, að reynt verði að grafa undan öllum aðgerðum sérstaks saksóknara. Menn munu beita málþófi, útúrsnúningum, bera fyrir sig vitrænum réttlætingum og þekkingarleysi og allt sem hönd festir á í aumri tilraun til að krafsa sig upp úr kviksyndinu sem þeir óðu sjálfir út í.
Ég hvet fólk til að hafa í huga, að þessir aðilar og samverkafólk þeirra úthlutuðu sér 7.100 milljarða úr sjóðum bankanna, ef marka má skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Það gerði það ekki óvart, af gáleysi, þekkingarleysi eða vegna þess að það væri lögleg og eðlileg viðskipti. Nei, þetta var gert á skipulegan hátt með mjög markvissum aðgerðum, sem ekki standast neinar reglur og lög um fjármálafyrirtæki. Aðgerðirnar fengu meira að segja nafn, "skýstróksáætlunin"! Siðblinda þessara einstaklinga er slík að ekki einu sinni illa haldnir drykkjumenn eru í jafnmikilli afneitun.
Staðreyndir málsins eru að búið er að fletta ofan af svikamyllunni. Hún var svakalegri en nokkrum manni datt í hug, sem var utan klíkunnar. Það besta sem þessir aðilar gera í stöðunni er að leysa frá skjóðunni, viðurkenna afbrot sín og sætta sig við þá refsingu sem mun fylgja. Í mínum huga mun sú refsing alltaf verða of væg. Höfum í huga að afleiðingar aðgerða þeirra eru t.d. sundrung heimila, atvinnumissi á annan tug þúsunda einstaklinga, fjöldi heimila býr við mjög kröpp kjör og líða skort, fólk hefur svipt sig lífi vegna þessa og ég gæti haldið áfram. Allt vegna þess að nokkrir stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækja sáu ekki fótum sínum forráð í græðgikasti. Þeir urðu að ná í eina krónu í viðbót handa sér og sínum eða var það einn milljarður í viðbót.
Bullið í stöðunni er þó, að ekki er hægt að leiðrétta stöðu heimilanna. Nei, þrátt fyrir að komið hefur í ljós að áfallið, sem heimilinu urðu fyrir, var vegna skipulagðrar glæpastarfsemi (samkvæmt stefnu slitastjórnar Glitnis), þá eiga heimilin að bera tjón sitt óbætt. Mig langar að benda á, að 2% einstaklinga og 7% fyrirtækja áttu góðan helming allra peningalegra eigna á Íslandi við hrun bankanna (skv. skýrslu RNA). Hvernig væri að Alþingi setti lög, þar sem settur er himinn hár fjármagnstekjuskattur á þennan hóp og skatturinn notaður til að bæta heimilum landsins tjón sitt? Einnig skora ég á sérstakan saksóknara að nota lög um peningaþvætti til að leggja hald á allar eignir þeirra sem tóku þátt í Hrunadansinum, því samkvæmt lögunum þarf viðkomandi að færa sönnur á að peninganna hafi verið aflað með löglegum hætti. Heimilin í landinu þurfa ekki nema ca. 300 milljarða til að fá hlut sinn réttan. Er ég nokkuð viss um að þeir leynast sem illa fengið fé inni á íslenskum bankareikningum.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 38
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Spot on Marínó.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 13.5.2010 kl. 14:50
Laukrétt.
Hrannar Baldursson, 13.5.2010 kl. 15:02
Ef þetta er leikrit eins og Sigurður vill meina, hlýtur hann að vera einn af þeim sem skópu það og er um leið einn af aðalleikurunum. Það er ekki gott þegar aðalleikarar neita að koma fram á sviðið og flytja sína rullu.
Gunnar Heiðarsson, 13.5.2010 kl. 15:03
"Siðblinda þessara einstaklinga er slík að ekki einu sinni illa haldnir drykkjumenn eru í jafnmikilli afneitun." Drykkjumenn eru ekkert frekar siðblindir en annað fólk. Siðblinda og afneitun ekki sama fyrirbærið.
Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 13.5.2010 kl. 15:48
Það var nú snaggaralega brugðist við þegar ríkið setti neyðarlög til að bjarga innistæðum sem töpuðust í raun að fullu í bönkunum. Þar var fámennum hópi úthlutað um 1500 milljörðum að gjöf frá ríkinu. Þetta er nú stærsta ránið sem framið hefur verið í landinu af öðrum en þessum bankamönnum.
Jón Pétur Líndal, 13.5.2010 kl. 17:52
Arnþór, þetta var kannski ekki nægilega nákvæmlega orðað, en það þarf samt talsverðan vilja til snúa út úr þessu.
Jón Pétur, ég var búinn að fá veður af því að fáir aðilar hafi átt megnið af upphæðum umfram 20.887 EUR á reikningum einstaklinga og um 100.000 EUR á reikningum fyrirtækja, en að skiptingin væri svona rosalega ójöfn hafði mér ekki dottið í hug. Höfum í huga, að við almenningur og skattgreiðendur erum í raun að borga fyrir þessa fáeina ríkisbubba.
Marinó G. Njálsson, 13.5.2010 kl. 18:20
Á þessari blogsíðu eyddum við töluverðum tíma á síðasta ári í að rífast við stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar. Þeir höfðu tekið að sér það hlutverk að afvegaleiða umræðu um skuldamál heimilanna. Það fer lítið fyrir þessum mannskap núna enda byggðu sumir þeirra allan sinn málflutning á þeirri forsendu að íslensku bankarnir hefðu verið heiðarlega reknir og að fólk hefði farið offari þegar það tók sín lán.
Tölurnar tala sínu máli. 7100 milljarðar fóru í útrásina og tengda aðila. 8000 milljarða vantar upp á að gömlu bankarnir geti staðið við sínar skuldbindingar. Gengistryggð húsnæðislán bankanna við hrun voru ca. 200-300 milljarðar með veði í steypu og launatekjum fólks það sem eftir lifir ævinnar. Vill einhver giska á hversu mikið fæst tilbaka af lánum til útrásarinnar?
Við erum með einkennilega samsetta ríkisstjórn. Annar flokkurinn er orðinn verulega slímugur eftir að hafa eðlað sig með útrásarvíkingum og búinn að moka gömlum Landsbankamönnum inn í öll sín ráðuneyti. Hinn flokkurinn vekur fyrst og fremst ótta með fólki. Þetta er sá mannskapur sem hefur fengið í hendur það hlutskipti að leysa stærstu samfélagsverkefni sem lýðveldið hefur staðið frammi fyrir. Á þessum bæum er eins og það hafi aldrei neinn spurt sig að því hvers konar samfélag við endum með ef að sá helmingur landsmanna sem á að leggja til axlir sem undirstöður undir hið nýja bankakerfi, sjái ekki handa sinna skil vegna reiði og óréttlætis.
En eftir atburðarás undanfarinna daga og þá sérstaklega eftir útgáfu stefnunnar á hendur Glitnismönnum í Bandaríkjunum, þá er sú spurning áleitin af hverju við höfum ekkert heyrt af málefnum gamla Landsbankans? Það hlýtur liggja beinast við að skilanefnd hans stefni þeim aðilum sem báru ábyrgð á starfsemi hans fyrir dómsstólum í Hollandi og Bretlandi til þess að endurheimta fé upp í Icesave. Sú lausn á því máli hefur reyndar allan tímann blasað við, að þeir aðilar sem fóru út í þá starfsemi greiði fyrir tjónið sem af henni hlaust. Að semja um Icesave áður en þessi mál komast á hreint er eitthvað sem við skulum reyna að forðast og þá með hjálp þjóðaratkvæðageiðslu ef með þarf.
Framundan eru áhlaup á síðastu vígi almennings á Íslandi. Alþingi og ríkisstjórn lippuðust niður þegar á var blásið en dómstólar verða á næstu vikum beðnir um svar við því hvort að einhver af stofnunum ríkisins eru tilbúnar að verja hagsmuni þeirra einstaklinga sem landið byggja. Dæmi Hæstiréttur fjármálastofnunum í hag um lögmæti gengistrygginar þá er það hin endanlega staðfesting á því að samfélagið er handan mögulegrar viðgerðar. Til þess þarf rétturinn nefninlega að leggjast niður á sama plan og Páll Þorsteinsson gerði í SP málinu. Það yrði átakanlegt að horfa upp á slíkt.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 13.5.2010 kl. 19:06
Sæll Marinó,
Mér heyrist þú hafa lagst yfir stefnuna í gærkvöldi;) Þessi stefna er það sem við hérna megin köllum "sobering" Íslenskan er ryðguð föst í hausnum á mér og ég man ekki hvað við myndum kalla þetta á íslensku. Ég pældi í gegnum helminginn af henni og var svo gersamlega nóg boðið að ég hef ekki kíkt á hana í dag.
Og ég tek undir hvert orð sem þú segir, sérstaklega um að þessir hlutir urðu ekki til fyrir slysni. Það var ekkert sem skeði og menn lentu út í þetta. Þetta var skipulagt. Þaulskipulagt, ekki spurning. Þetta verður einfaldlega ekki afsakað.
Þegar ég var fimm eða sex ára þá var frændi minn í sveit hjá okkur. Hann gat verið svolítið bráður í skapi og það espaði mig upp svo ég hafði gaman af að stríða honum. Einhverju sinni kom ég hlaupandi í loftköstum inn í bæ og mamma spurði mig hvað hefði skeð og ég sagði háorgandi að frændi minn ætlaði að berja mig. Mamma spurði hvað ég hefði gert og ég svaraði með fleygum orðum: "Ekki neitt! Ég bara henti stein í hausinn á honum" Mér finnst að ég, fimm ára, hafi haft svona álíka góðan málstað að verja og þessir menn, en munurinn er sá það þeir voru ekki fimm ára! Ekki man ég hver dómur mömmu var en hann var sjálfsagt réttlátur því ég man að ég var lítið sáttur við hann og ég henti aldrei stein í hausinn á frænda mínum, eða öðrum, eftir þetta;)
Það er alveg rosalegt að lesa stefnuna frá Glitni og sennilega hefur þetta ekki verið mikið betra hjá Kaupþingi og Landsbankanum, en það á eftir að koma í ljós. Ef það verður í svipuðum dúr og annað sem hefur verið dregið upp úr gullakistu þessarra manna þá kemur eitthvað verra upp úr kistu þeirra Landsbanka og Kaupþingsmanna!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 13.5.2010 kl. 23:10
Arnór, ég er að lesa í gegn um hana þessa stundina. ég hef sagt ýmislegt um ýmsa í gegn um tíðina hér á blogginu, en um daginn hélt ég því fram að Lárusi Welding hlyti að hafa verið mútað til að veita Baugi öll lán sem fyrirtækið fékk hjá Landsbankanum í London. Stefnan gerir ekkert annað en að staðfesta það:
Hvað er þetta annað en mútur? Hefur einhver annað orð yfir þetta?
Kostulegast finnst mér þó að Lárus var bæði bankastjóri og formaður áhættunefndar (risk committee). Hvar er aðskilnaður ábyrgðahlutverka? Ég kenni stundum um áhættustjórnun og í mínum huga er það grundvallaratriði að skilja á milli áhættustjórnunar, daglegs rekstrar og innri endurskoðunar. Hvert um sig af þessu á að vera óháð hinu. Áhættustjórnun á að setja línur, daglegur rekstur að fylgja þeim og innri endurskoðun bæði að sannreyna að línurnar séu réttar og að þeim sé fylgt.
Marinó G. Njálsson, 13.5.2010 kl. 23:28
Sæll Marinó,
Nei það var ekkert annað verið að gera en að kaupa manninn, einfalt mál! Sá sem var á undan (man aldrei nöfn og er ekki með aðgang að þessu á þessari tölvu) var með 3.5 eða 3.6 milljónir dollara og hafði verið í bankanum í 10 ár. Svo er ráðinn maður með takmarkaða reynslu og honum er borgað þrisvar sinnum meira! Það eru ekkert annað en mútur, maðurinn var bara keyptur til þess að gera það sem eigendurnir ætluðust til af honum. Verðmiðinn var 10 milljónir dollara - ágætis summa svosem og sjálfsagt margir á þeim tíma reiðubúnir til að selja sálu sína fyrir þá upphæð. Eftir því sem maður les í stefnunni þá var Glitnir með að því er virðist þokkalega góða áhættustýringu. Málið var bara að það var algjörlega farið fram hjá þeim í þessum eigendalánum og oft ekki talað við þá fyrr en eftir á! Eftirlitsaðilar innan bankans, og utan, misstu öll völd og bankanum var hreinlega stolið!
Lög og reglur, bæði bankans sjálfs og Íslands (og erlendis líka!) voru þverbrotin æ ofan í æ í krafti fjármuna. Þessir menn höfðu peninga til þess hreinlega að kaupa Ísland og gerðu það að vissu leyti. Vandamálið var bara að þeir áttu enga peninga sjálfir og þeir keyptu Ísland út á krít! Hvernig í fjáranum er það hægt???!!! Þetta er fjármálasvínarí af verstu tegund - það er bara engin önnur orð hægt að hafa um þessi ósköp.
Ég hvet menn til þess að pæla í gegnum þessa stefnu. Hún segir mér meira en allt annað sem ég hef lesið um hversu gegnsýrt af spillingu þjóðfélagið í kringum bankann var. Mikið rétt, það er ekki búið að dæma í þessu máli, en þó aðeins 10% af því sem er rakið í stefnunni eigi við rök að styðjast þá væri það hálfa nóg!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 14.5.2010 kl. 01:02
Sæll Marinó. Er ekki rétt skilið hjá mér að hinir nýju bankar hafi tekið á skuldir heimila og fyrirtækja á 45-50% virði? Ef svo er þá þarf ekki að hækka fjármagnstekjuskattinn á þessa aðila (2 og 7%) svo mikið frá núverandi sköttum. Einungis þarf að taka pólitíska ákvörðun um ráðstöfun þessara skatttekna til handa heimilum. Svigrúm hinna nýju banka er mjög ríflegt gagnvart fólki og fyrirtækjum. Skilja má frá þessi 2 og 7% frá allri leiðöréttingu.
Eggert Guðmundsson, 14.5.2010 kl. 13:57
Sæll Marnó. Nú er eins og þú segir verið að fletta ofan af svikamillunni sem við gékkst í skjóli fyrrverandi stjórnvalda, Framsókn og Sjálfstæðisflokkar og Samfylkingar á síðustu metrunum.
Eins og þú segir réttilega þá er skaðinn mun stærri, pytturinn ljótari og innistæðuverndin fyrir stóreignafólkið mun stórkostlegri en nokkurn úti í samfélaginu grunaði.
Sérstakur Saksóknari og hans samstarfsfólk hefur unnið afskaplega vandaða vinnu sem sannast best á því að Hæstiréttur Íslands sá sig knúinn til að samþykkja gæsluvarðhald og að Interpol setti Sigurð Einarsson á lista yfir eftirlýsta glæpamenn.
Stjórnvöld og samfélagið allt verður að standa þétt við bakið á því embætti.
Benedikt Helgason. Ég er flokksbundin í Samfylkingunni og er eindreginn stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar. Ég kannast ekki við að hafa reynt að afvegaleiða umræðuna um skuldavanda heimilanna og hafa með einum eða öðrum hætti varið athafnir bankamanna.
Ríkisstjórnin sem nú situr er þess fyllilega umkomin að leiða okkur í gegnum þennann brimskafl og hefur reyndar gengið að mörgu leiti mun betur en ætlað var í fyrstu.
Ég hef reyndar lýst óánægju minni með aðstoðina við heimilin í landinu sem hefur verið of lítil og hefur líka tafist úr hófi fram.
Hvað einhverjir aðrir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa skrifað og sagt, en ekki á mína ábyrgð. Svo eitt að lokum, ég var ósátt við þá ákvörðun forstans að skrifa ekki undir ICESAVE lögin 5. jan sl. og er það enn í dag.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 14.5.2010 kl. 16:43
Takk fyrir þetta, Hólmfríður. Tek ég heilshugar undir það, að þú hefur ekki borið blak af Samfylkingunni í því umróti sem við höfum gengið í gegn um. Ég þykist vita hver hafi átt að fá pillu Benedikts, en læt vera að nefna þann aðila á nafn.
Marinó G. Njálsson, 14.5.2010 kl. 17:01
Ég kannast heldur ekki við að þú hafir reynt að afvegaleiða umræðuna Hólmfríður og þess vegna engin ástæða fyrir þig að taka sneiðina til þín. Þá á nafni minn Sigurðsson Samfylkingarmaður á Akueyri heiður skilin fyrir að neita að taka þátt í þessum leik. Því fer víðs fjarri að allt Samfylkingarfólk hafi tekið þátt í þessu enda var það ekki það sem ég skrifaði.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 17:22
Sæll.
Takk fyrir þennan pistil. Gæti ekki verið meira sammála. Við skulum reyna að standa í lappirnar og ekki láta grátkórinn sem nú hefur upp ramakvein villa okkur sýn. Hin íslenska þjóð var gerð gjaldþrota af örfáum gullætum (sem reyndar nú virðast vera orðnar grænmetisætur), ekkert nema sjálfsagt að við gröfum upp þeirra illa fengna fé og skilum því baka til samfélagsins. (Annars eru allir velkomnir til Noregs :))
Inga (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 20:30
Sæl Inga, kannski er það lausnin að flytja til Noregs. Eyjafjallajökull er a.m.k. að gera sitt besta til að svæla okkur í burt. Nei, ætli maður þrauki ekki og láti þig um Noreg
Marinó G. Njálsson, 14.5.2010 kl. 21:07
Sæll
Það er skrítið með sumt fólk að það sjái ekki það sem blasir við þeim, þ.e.að vera blindur á raunveruleikann. Ég tel þig mikinn baráttumann og um leið afar kurteisan. Það sem Hólmfríður er að segja hér að ofan er að mínu mati dæmi um blindu. Þessi ríkisstjórn er að keyra Íslenskt samfélag niður til uppgjafar. Hún er að setja fleiri "öfuga" gadda í skósóla þjóðarinnar. Með úrræðaleysi í öllum þeim málum sem snúa að viðsnúningi atvinnulífs, leiðréttingu á heimilislánum, leiðréttingu á útreikningi neysluvísitölu og öllum öðrum þáttum til að örva verslun og viðskipti til heilbrigðra hátta. Hún er með mannskap sem er ósátt um alla hluti sem eru nauðsynlegir til þess að þjóðin risi á lappir aftur. Þú ert búinn að kljást við þessa ríkistjórn gagnvart hagsmunum heimilanna í næstum 2 ár. Hverju hefur verið áorkað? Það eru búið að leggja fram ótal tillögur fram hjá ykkar samtökum til úrlausna. Hver hefur hlustað?
Að mæra samstarfsflokk Sjálfstæðisflokksins og Vinstrigræna er dálítið hjákátlegt hjá mér. Að láta það detta sér í hug að þessir tveir muni koma Íslendingum út úr brimskaflanum. Hvílík blinda!!
Það er búið að vera svigrúm til leiðréttingar á húsnæðislánum íslendinga í næstum 2 ár, það eina sem á hefur vantað er vilji og skilningur núverandi Ríkisstjórnar.
Eggert Guðmundsson, 14.5.2010 kl. 21:42
Það væri umhugsunarefni að setja hagvaxtarvísitölu á núverandi Ríkisstjórn. Verkefni fyrir háskólaakademíu.
Eggert Guðmundsson, 14.5.2010 kl. 21:48
Það er íhugunarvert að blað í eigu íslenskrar útgerðar með fjármálaritsjórnarsnilling innanborðs Morgunblaðið reynir hvað mest að kasta rýrð á aðgerðir ríkissaksóknara. Bjóst frekar við að Fréttablaðið í eigu útrásarvíkinga myndi taka þennan pól í hæðina. Alltaf kemur manni á óvart hvar bandamenn leynast og margir ósýnilegir þræðir liggja enn vel faldir.
Gísli Ingvarsson, 16.5.2010 kl. 13:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.