Leita í fréttum mbl.is

Gengistrygging höfuðstóls er ólögleg og ekki má skipta henni út fyrir aðra verðtryggingu

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í morgun upp úrskurð í máli NBI hf. (Landsbankans) gegn fyrirtækinu Þráinn ehf., þar sem gengistrygging höfuðstóls láns er dæmd óheimil með vísan til dóms héraðsdóms frá 12. febrúar sl.  Dómarinn, Jón Finnbjörnsson, fer með dóm sinn skrefinu lengra en Áslaug gerði í febrúar.  Hér er nefnilega (samkvæmt frétt mbl.is) dæmt að önnur verðtrygging komi ekki í staðinn fyrir gengistrygginguna og því standi bara eftir upprunalegi höfuðstóllinn auk vaxta eða eins og segir í fréttinni:

Miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en ekki megi reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Að þessu athuguðu verður að miða við að upphaflegur höfuðstóll skulda varnaraðila hafi verið 357.500.000 krónur og að hann hafi ekki hækkað.

Þetta er stórt skref í réttarbaráttu heimilanna og fyrirtækjanna.  Verði þessi dómur staðfestur í Hæstarétti, þá færast ÖLL gengistryggð lán niður í upphaflegan höfuðstól að viðbættum LIBOR vöxtum samkvæmt skilmálum lánsins og frádregnum afborgunum.

Það er með þennan dóm, eins og dóminn 12. febrúar, að bíða verður eftir Hæstarétti.  Niðurstaða hans er ekki sjálfgefin.  Því miður.  En þangað til:  Til hamingju Ísland.


mbl.is Ekki heimilt að gengistryggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þá bætist væntanlega krafa lánþega um niðurfellingu höfuðstóls sem nemur ofgreiddum vöxtum og afborgunum síðustu 2 ár.

Karma (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 14:03

2 Smámynd: Óskar Arnórsson

Fyrirbærið "íslensk verðtrygging" er grunnurinn í íslenskri mafíustarfsemi..það þarf enga snillinga til að skilja það.

Óskar Arnórsson, 30.4.2010 kl. 14:17

3 identicon

Frábært skref í sanngjarnri baráttu.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 14:18

4 identicon

Réttindabarátta lánþega hlýtur í framhaldi af þeim dómum sem nú eru fallnir, að taka mið af því að lánafyrirtæki fari að lögum.

Gera verður kröfu um að vafaatriði um lögmæti og túlkun lánasamninga séu ávallt lánþegum í hag, sbr. skýr ákvæði 36. gr. b. í lögum nr. 7/1936.

Lánþegar eiga því ekki undir neinum kringumstæðum að greiða af gengistryggðum lánum nema í samræmi við greiðsluáætlun.

Ég vona einnig að þessi dómur verði einnig til þess að allar kröfur um að gengistryggð lán verði færð yfir í isk og verðtryggð, verði blásnar út af borðinu.

F.h. Samtök Lánþega,

Guðmundur Andri

Guðmundur Andri Skúlason (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 14:56

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Mjög áhugaverður dómur.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 30.4.2010 kl. 15:31

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tek undir með Guðmundi Andra.

Theódór Norðkvist, 30.4.2010 kl. 16:26

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Fyrst, hér er tengill á dóminn Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2010 í máli nr. X-35/2010

Vegna orða Guðmundar Andra, þá felur dómurinn í sér að öll gengistrygging er úr sögunni.  Það þýðir að lánin eru óverðtryggð í íslenskum krónum með LIBOR vöxtum.  Upprun greiðsluáætlun er í fullu gildi og eiga lántakar að geta borið hana saman við greiðslur sínar til að finna út hvort þeir hafi greitt og mikið lítið eða of mikið á einhverjum gjalddaga og þá hver mismunurinn er.

Við skulum hafa í huga, að þessi dómur gengur lengra en dómurinn frá 12. febrúar sl., þar sem hér er tekinn af allur vafi um að höfuðstóllinn skuli ekki breytast og að LIBOR vaxtatengingin er í fullu gildi.  En kálið er ekki sopið, þó í ausuna er komið.  Leiknum er ekki lokið fyrr en flautað er af.

Marinó G. Njálsson, 30.4.2010 kl. 17:12

8 identicon

Vissulega á Hæstiréttur eftir að taka á þessum málum en ég ætla nú samt að leyfa mér að kalla þetta stór tíðindi. Hér er verið að taka fyrir fyrstu skuldabréfin frá banka og nýjir aðalleikarar í hlutverkum, verjanda, sækjanda og dómara.

Dómarinn leggur krók á leið sína til þess að koma þeirri skoðun sinni á framfæri að hann telji Lýsingardóminn vel unninn ("Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi") . Enn fremur að ekki sé hægt að fara fram á aðra gerð verðtryggingar hafi maður verið staðinn að því að verðtryggja skuldbindingar með ólögmætum hætti.

Ég held einnig upp á þessar línur í rökstuðningnum:  "Bersýnilegt er því að samið var um lán í íslenskum krónum og að tilvísun til þess að lán sé í öðrum myntum er til málamynda og að engu hafandi".

Svo langar mig að benda á afleiðingarnar fyrir það fyrirtæki sem stefnt var (án þess þó að ég þekki til starfsemi þess), en þær endurspegla væntanlega stöðu allra þeirra sem eru með svona lán.  Samkvæmt þeim tölum sem koma fram í dómnum um eignastöðu fyrirtækisins, þá fer það úr því að vera gjaldþrota án mögulegrar björgunnar yfir í þokkalegt eiginfjárhlutfall.

Eftir það sem fram hefur komið úr skýrslunni góðu, þá geta menn spurt sig að því hvers konar samfélag við endum með, ef að þau fjármálafyrirtæki sem komu landinu í þrot fá að komast upp með að svíða á undan sér allt kvikt í eftirmála hrunsins.

Við hljótum að horfa til Hæstaréttar trúandi því að hann bindi enda á siðleysið.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 20:03

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Benedikt, þér tekst i orðum þínum að draga saman í örfáar línur kjarnan í málflutningi mínum (og Hagsmunasamtaka heimilanna frá stofnun) undanfarna 20 mánuði eða svo.  Það er að stærstur hluti fyrirtækja og heimila er í góðri stöðu, ef stökkbreyting lánanna er tekin til baka.

Ég tek undir með þér að viss grundvallarmunur er á þessum dómi og þeim fyrri.  Þessi hefur meira vægi af ýmsum ástæðum.

Skýrslan "góða" er vissulega öflugt vopn í slagnum fyrir leiðréttingu, en í henni eru samt engar sannanir fyrir brotum bankamannanna.  Það eru dregnar fram alls konar tölulegar upplýsingar sem gefa vísbendingar, vissulega vísbendingar sem eru ígildi sannana, en þar sem viðkomandi bankamönnum og eigendum bankanna hefur ekki gefist færi á að andmæla eða koma sínum málflutningi á framfæri, þá getum við ekki gengið að því sem vísu að hlutirnir séu nákvæmlega eins og skýrsluhöfundar lýsa.  En að þessu sagt, þá er skýrslan gríðarlega mikilvæg til að koma í veg fyrir þá eignaupptöku sem fjármálafyrirtæki eru að reyna að koma í kring, að því virðist með blessun stjórnvalda.

Ég hef þá reglu að treysta fólki þar til það bregst, en eftir það þarf mikið til að ég treysti því aftur.  Hæstiréttur hefur ekki sýnt það, að honum sé fullkomlega treystandi.  Ég gæti tekið nokkra dóma, þar sem dómurinn eru hreinlega leyft að gengið sé freklega á rétt þess sem tapaði málinu.  Mér er til efs um að nokkur ríkisstjórn lands í Evrópu hafi tapað eins mörgum málum fyrir Mannréttindadómsstólnum og ríkisstjórnir Íslands.  Málin hefðu ekki farið til Strassburg nema af því að Hæstiréttur tók afstöðu með ríkjandi valdhöfum.  Sorry, Hæstiréttur er á listayfir þá sem glatað hafa trausti mínu og því býst við hinu versta, þó ég voni það besta.

Marinó G. Njálsson, 30.4.2010 kl. 20:26

10 identicon

Ég hef fullan skilning á viðhorfi þínu til Hæstaréttar Marínó. Ég hafði orð á því á mínu heimili í dag að hófstillt viðbrögð fjölmiðla og almennings við þessum dómi endurspegli að algjört vantraust ríkir í garð löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds í landinu. Fólk vill fá þetta skjalfest í Hæstarétti áður en það leyfir sér að vona. Það er auðvitað heilbrigð afstaða enda sigur engan veginn í höfn.

Það lá kannski alltaf fyrir að afbrotum yrði ekki lýst með berum orðum í skýrslunni vegna þess að gögn sem þar koma fram er ekki hægt að nota í sakamálum í framhaldinu. Eða eins og Tryggvi nefndarmaður orðaði það (nokkurn veginn).  Sumt af því fólki sem mikið hefur verið nefnt í samhengi við hrunið á fyrst og fremst erindi við sérstakan saksóknara en ekki nefndina.

Þá finnst mér ósk Evu Joly í kjölfar útkomu skýrslunnar um að fjölga þurfi starfsmönnum embættisins úr 39 í 80 til þess að klára starfið á 4-5 árum ekki benda til þess að menn séu að fara að rannsaka umferðalagabrot.  Sú staðreynd, að eftir einhverja mánuði verði 100 manns í þremur löndum starfandi við að rannsaka starfsemi þriggja íslenskra fyrirtækja bendir að mínu viti til þess, að menn hafi ekki útilokað þann möguleika að um skipulagt samsæri nokkurra aðila um að hagnast á hruni íslenska hagkerfisins hafi verið að ræða.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 21:02

11 identicon

Auðvitað er þetta eðlilegt að ég tel ,en ekki svindl og svínarí eins og bankarnir eru að reyna að troða og traðka á saklausu fólki  ,það verður gaman að sjá hvað hæstiréttur gerir .

Jón Reynir Svavarsson (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 21:06

12 identicon

Sæll Marínó,

Langar að spyrja hvort þú hafir skoðað þetta eitthvað?
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/04/30/verdtrygging_heimil_ef_skuldbreytt_er/

Hvaða áhrif hefur þetta? Geta fjármálafyrirtækin á einhvern hátt skýlt sér bakvið þessar nýju reglur?

Kv,
Frank

Frank M (IP-tala skráð) 30.4.2010 kl. 23:39

13 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Örugglega ekki hægt, nema lánshafi skrifi upp á.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 1.5.2010 kl. 17:41

14 identicon

"Það þýðir að lánin eru óverðtryggð í íslenskum krónum með LIBOR vöxtum"

Þeir lögfræðingar sem ég hef rætt við segja að í ljósi þeirra tveggja héraðsdóma sem nú hafa fallið og bíða úrlausnar Hæstaréttar og laga um vexti og verðtryggingu er einnig vafamál hvort að fjármálafyrirtækin geti bundið vaxtaútreikning við LIBOR vexti, heldur geta þau líklegast bara reiknað sér það fasta vaxtaálag/bankaálag sem tilgreint er í samningum, oft í kringum 2%

Alfreð (IP-tala skráð) 4.5.2010 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband