Leita í fréttum mbl.is

Niðurstöður þverpólitískrar vinnu undir stjórn HH

Hagsmunasamtök heimilanna kölluðu í febrúar til þverpólitísks samstarfs grasrótarhópa stjórnmálaflokkanna um skuldavanda heimilanna.  Niðurstöður hafa nú loksins komist í vinnuna og voru þær sendar út á fjölmiðla í morgun.  Vil ég birta þær hér.  Tekið skal fram að vinnan náði til almennra skulda heimilanna.

Tillögur til sátta um lausn á skuldavanda heimilanna

Niðurstöður úr þverpólitísku lausnamiðuðu samstarfi

Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir þverpólitískum vinnufundi um leiðir til frekari aðgerða fyrir heimilin í landinu þann 20. febrúar síðast liðinn. Þingmenn og grasrótarfólk allra flokka tók þátt í fundinum og eftirvinnslu. Markmið vinnunnar var að leita frekari leiða til að slá á þann bráða fjárhagsvanda sem steðjar að heimilum landsins. Ekki var eingöngu fjallað um beinan skuldavanda, heldur líka hvernig nauðsynlegar almennar aðgerðir til handa öllum neytendum sem hafa orðið fyrir forsendubresti og horfa upp á stökkbreyttan höfuðstól verð- og gengistryggðra lána sinna geti komið til. Skoðanir voru skiptar um útfærslur en almenn sátt og skilningur var um mikilvægi frekari aðgerða. Í ljósi stærðar vandans og áhrifa á hagkerfið í heild er vandséð að stjórnvöld geti horft framhjá almennum aðgerðum til að ná sáttum í samfélaginu til endurreisnar hagkerfisins og samfélagsins í heild.

Stjórnvöld og þingflokkar eru því hvött til að skoða alvarlega og nýta þær tillögur sem hér eru kynntar á komandi þingi. Hluti umræddra atriða samstarfsins hafa þegar komið fram í nýlega kynntum aðgerðum ríkisstjórnar.

Áhersluatriði til umfjöllunar voru:

Varnarlína; til að koma í veg fyrir frekara fjárhagstjón heimilanna

Jöfnun ábyrgðar, bætt réttargæsla neytenda og endurskoðun þrotameðferðar

Hækkun höfuðstóls lána heimilanna ‐ hvað er gerlegt?

Helstu atriði vinnuhópsins, sem beint er til frekari greiningar, umræðu, og útfærslu þings og ráðuneyta:

1. Eyða lagalegri óvissu um lögmæti gengistryggðra lána sem allra fyrst og finna leiðir til almennra úrlausna sambærilegra lána, til dæmis með gerðardómi.

2. Frestun á nauðungarsölu verði heimiluð þar til lagaóvissu lána hefur verið eytt og réttarstaða neytenda / lántaka hefur verið bætt.

3. Veð takmarkist við veðandlag í lánum neytenda.

4. Hópmálsókn. Úrræðið er hluti almennra réttinda neytenda vestrænna lýðræðisríkja. Lögleiða tafarlaust og taki gildi sem allra fyrst, í síðasta lagi áður en frestur vegna nauðungarsölu rennur út.

5. Höfuðstólsleiðrétting. Nauðsynlegt er að leiðrétta þann forsendubrest sem orðið hefur hjá lántökum frá 1. janúar 2008 vegna hruns krónunnar, verðbólgu og falls bankanna. Meta skal það svigrúm, sem myndaðist við lækkun höfuðstóls lána þegar þau voru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Meta skal áhrif sambærilegrar leiðréttingar á Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina. Jafnframt skulu metin afleidd áhrif slíkrar leiðréttingar á neyslu heimilanna, veltu fyrirtækja, atvinnuleysi, endurheimtur útlána fjármálafyrirtækja og skatttekjur. Þessari vinnu skal lokið fyrir 1. maí 2010.

6. Skýrt og fullt skattfrelsi höfuðstólsleiðréttinga.

7. Afnám lántöku
‐ stimpil og uppgreiðslugjalda.

8. Verðtrygging. Koma þarf á jafnvægi í hagkerfinu um fjárhagslega ábyrgð milli aðila, auka svigrúm og áhrif til beinnar efnahagsstjórnar og stuðla að alþjóðlega samkeppnishæfum lánskjörum. Verðtryggingin sjálf viðheldur verðbólgu, sem leiðir til mun hærri vaxta og fjármagnskostnaðar fyrir heimili, atvinnulíf og opinbera aðila, en samkeppnislönd búa við, með neikvæðum áhrifum á þróun gengis krónunnar. Verðtrygging veðskuldbindinga er ein af höfuðorsökum kerfishrunsins og afnám hennar er jafnframt eitt að lykilatriðum endurreisnar. Tryggja verður ábyrgð lánveitenda með vaxtaþaki á óverðtryggðum lánum til neytenda.

9. Þörf er á tafarlausri víðtækri endurskoðun og lagaúrbótum til að bæta réttarstöðu neytenda til jafns við það sem tíðkast á norðurlöndum og í ríkjum ESB. Auka þarf eftirlit og refsiábyrgð fyrirtækja við brotum á rétti neytenda. Gera þarf skýran mun á rétti neytenda og lögaðila í viðskiptum við fjármálafyrirtæki. Skýra þarf tilefni til forsendubrests veðsamninga hjá báðum aðilum. Tryggja þarf virkt eftirlit með virðisskráningu krafna í vanskilum og þrotaferli til Fjármálaeftirlits.

Samantekt fyrir hönd vinnuhópa allra þingflokka og Hagsmunasamtaka heimilanna

Andrea J. Ólafsdóttir, Friðrik Ó. Friðriksson og Marinó G. Njálsson ‐ Reykjavík 31. mars 2010

Þátttakendur í starfinu voru margir þingmenn Framsóknarflokks, Hreyfingarinnar, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar - Grænt framboð, auk fulltrúa frá Hagsmunasamtökum heimilanna.  Starfið fór fram í þremur vinnuhópum, þar sem voru tveir fulltrúar frá hverjum.  Við þrjú, sem eru sett undir fréttatilkynninguna, stjórnuðum hópunum og unnum úr niðurstöðunum, sem síðan voru sendar út til hvers hóps um sig til frekari umræðu og síðar samþykktar.  Erum við mjög ánægð með viðbrögð og þátttökum allra í starfinu.  Okkur er sagt að hluti þeirra hugmynda, sem komu upp í vinnunni, hafi þegar ratað inn á borð ríkisstjórnarinnar.

Hvað framhaldið varðar, þá er það von Hagsmunasamtaka heimilanna, að hóparnir eigi eftir að hittast og ræða saman frekar.  Hver og einn er þó óbundinn af hinum að koma með sína útfærslu á einstökum atriðum og munum við hjá HH koma með okkar tillögur um lausn skuldavandans á næstu dögum.  (Við höfum verið að bíða eftir niðurstöðum grasrótarvinnunnar.)

Það er von okkar, sem stóðum að þessu, að þetta verði upphafið að einhverju meiru.  Loks vil ég sjálfur þakka Ámunda Loftssyni og Andreu J. Ólafsdóttur fyrir þrautseigju þeirra við að koma þessu grasrótarstarfi á koppinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Mér líst vel á þetta. Til hamingju með að hafa komið málefnum heimilanna svona langt. Stuðningskveðjur að utan.

Hrannar Baldursson, 31.3.2010 kl. 14:36

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta eru góðar fréttir og ljóst að þarna hefur náðst verulegur árangur. Þeir sem hafa beðið eftir niðurstöðunni og eru orðnir óþreyjufullir, verða að skilja að allt svona starf tekur tíma ef það á að vera vandað og koma sem flestum að gagni.  Hins vegar skil ég óþolinmæðina mjög vel. Væntanlega fer margt fólk að geta andað örlítið léttar með vorinu. Hamingjuóskir til ykkar í HH.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 31.3.2010 kl. 16:32

3 identicon

Þetta er frábært framtak og vonandi leiðir þetta okkur á rétta braut.  En viðtalið við Lilju Mósesdóttur í Bítið á Bylgjunni í morgun gefur kannski ekki tilefni til bjartsýni. Þó að tilfinningin sé sú að það gæti verið meirihluti á þingi fyrir almennum aðgerðum, þá virðast þeir stjórnarliðar sem deila skoðunum með Lilju og minnihlutanum ekki treysta sér í annan Icesave-slag.

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég heyrði Lilju segja að fólk þyrfti að muna að Samfylkingin hefði unnið kosningasigur á síðasta ári með því að lofa að hjálpa engum nema þeim verst stöddu. Það er eitthvað svo sjúkt við það hugarfar þegar það liggur fyrir að bróðurpartinn af hruninu megi rekja til glórulausrar bankastarfsemi en þar fyrir utan að einhverju leyti til skussaskapar Samfylkingarráðherra í tíð hrunstjórnarinnar.

Í framhaldi af þessu má svo ekki gleyma að hrósa Heimi Karls og Sollu á Bylgjunni fyrir að sinna þessum málum vel. Heimir leyfir ekki stjórnaliðum að komast upp með neinn flatskjár málflutning sem hefur fengið að viðgangast í fjölmiðlum alltof lengi.

Ég bind vonir við að skýrsla rannsóknarnefndarinnar varpi skýrara ljósi á þessa atburðarrás alla og að þar með fái almenningur þau vopn í hendurnar sem þarf þess að snúa þeirri þróun við að senda 25% íslenkra heimila í þrot. 

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 31.3.2010 kl. 18:46

4 Smámynd: Haraldur Baldursson

Glæsilegt framtak, sem vonandi ber ávöxt á framkvæmdahliðinni.

Ég velti fyrir mér vaxtaþakinu á verðtryggingunni. Ég tel hæpið að mikið gagn sé í því, nema að það miðist við 3-5% hámark.

Haraldur Baldursson, 5.4.2010 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1680027

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband