Leita í fréttum mbl.is

Fjármálafyrirtæki vissu árið 2001 að gengistrygging lána var óheimil

Hin grimmi slagur sem fjármögnunarleigur eru í við viðskiptavini sína er með ólíkindum.  Það er ekki bara að þau beiti lántaka miklum órétti við uppgjör á vörslusviptum bílum og bílum sem hefur verið skilað inn, heldur virðast þau þverbrjóta þær heimildir sem þau hafa til starfrækslu fyrirtækjanna.  Má þar t.d. benda á nýlegt flopp hins nýskipaða slitastjóra VBS í svari við kvörtun viðskiptavinar Avants til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

En það vellur sífellt meiri skítur undan teppum fjármálafyrirtækjanna.  Nýjasta tilfellið er umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV, undanfari Samtaka fjármálafyrirtækja) frá 24. apríl 2001 um frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu.  Þetta frumvarp varð síðan að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í umsögninni segir:

Til viðbótar við framangreind atriði telja umsagnaraðilar nauðsynlegt að gera athugasemdir við ákvæði 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins, sem gerir ráð fyrir að verðtrygging sparifjár og lánsfjár skuli miðast við vísitölu neysluverðs.  Í 2. mgr. 14. gr. er síðan tekið fram að þó sé heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, eða safn slíkra vísitalna, þegar um lánasamninga er að ræða.  Ekki verður séð hvaða rök eru fyrir því að takmarka verðtrygginguna við við þessar vísitölur.  Það gengur gegn almennu samningsfrelsi, enda getur verið fullkomlega eðlilegt að viðsemjendur fái að nota aðrar viðmiðanir sem þeir koma sér saman um.  Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur.  Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni.  Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.  Þá ýtir það undir að aðilar fari aðrar og mun áhættusamari leiðir, t.d. með því að gera afleiðusamninga sín á milli fremur en almennan lánssamning, en afleiður eru undanþegnar verðtryggingu sbr. 2. mgr. 13. gr frumvarpsins.  Tenging við vísitölur eða sérstakar viðmiðanir er eðlilegur hluti af áhættustýringu á fjármálamarkaði í dag.  Óeðlilegt er að opinber fyrirmæli hindri þann þátt starfseminnar.  Brýnna er að opinbert eftirlit vinni í samvinnu við markaðsfyrirtækin að því að tryggja að skilmálar í slíkum samningum séu skýrir og valdi engum vafa um túlkun síðar.

Þessi hluti umsagnarinnar er alveg ótrúlegur.  Tekið skal fram að hún er undirrituð af Guðjóni Rúnarssyni, framkvæmdastjóra SBV, en hann er núverandi framkvæmdastjóri SFF.

Skoðum nokkur atriði nánar:

Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur.

Þarna er það alveg kýr skýrt að fjármálafyrirtækin vissu að gengistrygging lánasamninga var og er ólögleg!  Samt ákvað stórhluti fjármálafyrirtækja að bjóða upp á afurð, sem framkvæmdastjóri samtaka þeirra hafi viðurkennt í umsögn til Alþingis að væri ólögleg.  Það hlýtur að vera sársaukafullt fyrir lögmenn, sem hafa verið að verja þessa fjármálagjörninga, að sjá þessa umsögn SBV.

Og það er haldið áfram:

Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni.  Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.

Hér er stóra málið, að lántakar fengu aldrei erlenda mynt í hendur til að skipta yfir í íslenskar krónur.  Fólk sótti um í íslenskum krónum, t.d. kr. 10 milljónir, og fékk þá upphæð að frádregnum lántökukostnaði.  Lántakar voru ekki einu sinni rukkaðir um þóknun fyrir að "skipta" úr erlendu myntinni yfir í íslenskar krónur, eins og gert er í gjaldeyrisviðskiptum.  Það fóru því aldrei nein gjaldeyrisviðskipti fram.

Þá er það ábending um það hvernig hægt væri að fara framhjá ákvæðum laganna:

Þá ýtir það undir að aðilar fari aðrar og mun áhættusamari leiðir, t.d. með því að gera afleiðusamninga sín á milli fremur en almennan lánssamning, en afleiður eru undanþegnar verðtryggingu sbr. 2. mgr. 13. gr frumvarpsins.

Nú klikkuðu mörg fjármálafyrirtæki illilega, þar sem starfsleyfi þeirra takmörkuðu heimildir þeirra til að eiga viðskipti með óskráða afleiðusamninga við viðskipti við fagfjárfesta.  Afleiðusamninga er ekki hægt að nota sem lánasamninga á neytendamarkaði.

Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þessa umsögn SBV.  Hún segir allt sem segja þarf:

Fjármálafyrirtæki vissu árið 2001 að gengistrygging lána var óheimil.


mbl.is Mótmæla innheimtuaðferðum fjármögnunarfyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég var einmitt að blogga um þessa sömu frétt, þetta virðist vera þjófnaður í skjóli stjórnvalda.  Breytinga er þörf, STRAX

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 12.3.2010 kl. 00:58

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stórmerkilegt Marinó, takk fyrir að grafa þetta upp. Ég hafði lesið lögin sjálf og greinargerð með þeim, en ekki þessa umsögn fyrr.

Mér detta nú dauðar lýs úr höfði!

Ég er alvarlega búinn að vera að velta því fyrir mér að kæra eitt af þessum fyrirtækjum einfaldlega eins og fyrir hvert annað lögbrot. Hvernig fer maður að því og hvert myndi maður snúa sér? Er kannski ekkert upp úr því að hafa annað en fjársektir?

Guðmundur Ásgeirsson, 12.3.2010 kl. 02:45

3 identicon

Mig langar að benda á ummæli sem ég setti inn á vef Samtaka lánþega . Í stuttu máli bendi ég þar á að SP hefur ekki starfsleyfi til ýmissa gjörninga sem það þó stundar, s.s. viðskipta með erlendan gjaldeyri og viðskipta með gengisbundin bréf. Ummælin í heild má sjá hér http://gandri.com/?p=854#comment-298.

Guðmundur: Þú getur snúið þér til Úrskurðarnefndar um

viðskipti við fjármálafyrirtæki. Upplýsingar um hana er að finna á vef FME sem og listi yfir úrskurði nefndarinnar. Ég bendi einnig á úrskurð nefndarinnar frá 22. desember sem gæti haft fordæmisgildi sjá hér: http://fme.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=7092 um skaðabætur vegna ofgreiddra vaxtagreiðslna til fjármálafyrirtækis sem og þessa úrskurði: http://fme.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6287 um kröfu á ógildingu samnings og þennan hér:

http://fme.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6842 um veðsetningu fasteignar og jafnvirðisákvæði í myntkörfuláni. Þetta eru athyglisverðar niðurstöður sem þarna eru framsettar og ég hvet alla til að athuga hjá FME hvaða ákvæði eru í starfsleyfum fjármögnunarfyrirtækja. Upplýsingarnar eiga vera aðgengilegar á vef FME (http://www.fme.is/?PageID=14&NewsID=127) en þessi hlekkur á starfsleyfi lánastofnana: http://www.fme.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4061 hefur ekki virkað um nokkurra mánaða skeið og FME hefur ekki gert bragarbót á þrátt fyrir ábendingar.

erlingur (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 09:46

4 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Sæll Marinó. Þetta er en ein sprengjan. Er ekki einhver möguleiki að Kastljósið, Fréttablaðið eða Mogginn vilji kynna almenning fyrir þessum glæp? Þetta myndi passa vel við fréttir Morgunblaðsins í dag um hversu mikið lán almennings voru afskrifuð áður en þau voru flutt yfir í nýju bankanna. Og svo frétt Kastljóssins í gær um skýrslu fyrrverandi bankamans sem staðfestir stöðutöku bankana gegn krónunni. Ef allar þessar fréttir einar og sér hvað þá saman kveikja ekki í fólkinu í landinu að rísa upp þá mun það aldrei gerast!!! Hér sitja stjórnvöld sem samþykja þegjandi og hljóðalaust og styðja stærstu eignaupptöku (rán) sögunar á eignum almennings í nokkru siðuðu þjóðfélagi. Innheimtufyrirtækjum og lögfræðingum og öðrum skítseiðum eru gefin frítt spil á almenning. Nú eru komin fyrirtæki í gang sem hafa það að lifibrauði sínu að vörslusvipta að næturlagi, útburð og fleira ógeðslegt. Hvað er að þessari þjóð? Af hverju látum við þetta yfir okkur ganga? Svo ætlar þetta lúða gerpi Árni Páll að koma með en eina lausn sína á skuldavanda heimilanna í næstu viku. Þessu liði er ekki viðbjargandi. Auðvitað koma stjórnvöld með einhverja brauðmola núna til að róa lýðinn. Því miður er lýðurinn svo heimskur að hann hrópar húrra og hoppar af kæti, en lætur svo taka sig í afturendann á sama tíma. Vaknið íslendingar......er þessi þjóð algjörlega dofin?

Jón Svan Sigurðsson, 12.3.2010 kl. 11:25

5 identicon

Rétt hjá þér & Jónu, íslensku bankarnir hafa verið í höndum glæpamanna með þegjandi samkomulagi stjórnvalda.  Ótrúlegt að stjórnvöld, ASÍ, SA og aðrir aðilar skuli aldrei hafa sagt orð um framferði bankanna - alveg ótrúlegt samfélag..!  Undir 20 ára stjórn RÁNfuglsins - sorry - BÓFAflokksins hefur þeim tekist með aðstoða einstaklinga sem voru "innmúraðir í FLokkinn & spillinguna" tekist að RÚSTA okkar samfélagi - nú er mál að linni.

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 13:27

6 identicon

Þú átt þakkir skilið fyrir baráttu þína, Marinó, glöggskyggni og einurð, og þessi barátta á eftir að bera árangur. Svikaöfl banka og fjármálafyrirtækja eiga eftir að þurfa að horfast í augu við sviksemi sína og gjalda fyrir og saklaust fólk á eftir að fá leiðréttingu mála sinna, því að tíminn vinnur með okkur.

Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 13:38

7 Smámynd: Gunnar Borgþór Sigfússon

Góð grein Marínó. Þetta er með ólíkindum hvernig fjármálafyritæki hafa komist upp með þetta. Skyldu þau ekki vera bótaskyld?

Gunnar Borgþór Sigfússon, 12.3.2010 kl. 14:09

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Erlingur: Þú hefur vakið forvitni mína, ég sendi því rétt í þessu fyrirspurn um starfsleyfið, bæði til FME og SP-fjármögnunar. Er að hugsa um að birta þau svör sem berast á mínu eigin bloggi.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.3.2010 kl. 14:31

9 identicon

Guðmundur: Hafðu bara í huga að FME á að svara þér innan 7 daga, annað hvort með fullnaðarsvari eða hvenær vænta megi svars. Það tók mig 37 daga að fá svar frá þeim og það kom ekki fyrr en ég vísaði í upplýsingalög. Þá kom svarið samdægurs.

erlingur (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 15:28

10 identicon

Er það furða að Ríkisstjórnin og Alþingi eru ekki að vinna að flýtimeðferð í Hæðstarétti.

Svei þessum ráðamönnum sem eru á spena hjá auðvaldinu.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 00:45

11 identicon

Arnór, það eru ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis sem ekki eru að vinna í flýtimeðferð. Minnihlutinn á Alþingi er þó a.m.k. að reyna þó við ofurefli sé að etja.

Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 09:42

12 identicon

Satt er það Sigurður. Hreyfingin stendur fyrir sínu.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 11:16

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fék strax svar frá Alþingi, þar á bæ var nýbúið að taka saman skönnuð afrit af umsögnum til efnah.- og viðsk. nefndar með frumvarpinu til Laga um vexti og verðtryggingu, og voru þau send um hæl í tölvupósti. Vil ég hrósa Kristjönu Benediktsdóttur á nefdasviði Alþingis sérstaklega fyrir fljóta og fumlausa afgreiðslu á erindi mínu.

Ekkert bólar hinsvegar enn á svörum frá FME eða SP um starfsleyfið, en ég bjóst heldur ekkert við því samdægurs svona rétt fyrir helgina.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.3.2010 kl. 15:27

14 identicon

Frábær grein Marinó, vandamálið í þessu öllu er FME. Þeir virðast engan áhuga hafa á einu né neinu, spilling eða hvað? Ég hef djöflast í þeim svo vikum skiptir og meðal annars bent þeim á afleiðuviðskiptin(sem þeir auðvitað vita af), brot á vaxtaákvæðum, vöntun á reikningum, ótrúlega myntútreikninga svo fátt eitt sé nefnt en þeir vilja ekkert gera. Þeir vísuðu frá ábendingu minni um afleiðuviðskipti Avant á forsendum svars þeirra við ábendingunni, þeir neita þó að sýna mér andsvarið sem er greinilega svo rökfast að það vegur út yfirlýsingar þeirra eigin lögmanns, Hróbjartar Jónatanssonar(sem reyndar er nýbakaður starfsmaður FME), auk fjölda gagna sem sýna svo ekki verður um deilt að um afleiðuviðskipti er að ræða. Þá eru ótalin öll hin brotin sem of langt mál er að telja upp hér.

En að bréfinu sem þú vitnar í þá höfum við ítrekað reynt að koma þessu bréfi til fjölmiðla, án árangurs, þangað til í kvöld á stöð 2. Ég sendi til dæmis kastljósinu bréfið á Helga Seljan og Sigmar fyrir tæpum 3. vikum, en enginn áhugi á því þar. Ég veit að fleiri sendu þetta út um allt.

Takið hins vegar eftir nýjasta útspili Árna Páls, sem er klárlega ætlað að bjarga fjármálafyrirtækjunum, nú þegar vitað er að þetta er allt á leiðinni til helvítis hjá þeim. Svo er þetta sett upp sem einhvers konar ölmusa.

Við þurfum ekkert annað en að eftirlitsstofnanir og dómstóla sem vinna vinnuna sína, stjórnmálamennirnir ættu kannski frekar að einbeita sér að því að róta út spillingunni og getuleysinu hjá FME.

Jón Þorvarðarson (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 23:20

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vegna umræðu um vörslusviptingar vil ég vekja athygli allra á 59. gr. laga nr. 90 um nauðungarsölu þar sem fjallað er um vörslutöku eigna, en skv. 60. gr. sömu laga ber að framvísa heimild frá sýslumanni þar að lútandi við vörslutöku eigna. Sé slík heimild ekki fyrir hendi eru hótanir um vörslutöku í raun og veru tilhæfulausar, og sé ökutæki fjarlægt undir þeim kringumstæðum er það hreinn og klár þjófnaður! Þess má geta að þetta er það eina sem er að finna í íslenskum lögum um vörslusviptingu.


Einnig skal bent á 12. gr. innheimtulaga þar sem segir um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar að hún skuli „taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist“. Á mannamáli þýðir þetta að óheimilt er með öllu að innheimta kostnað vegna tilhæfulausra innheimtuaðgerða.

Ég er til vitnis um að Vörslusvipting ehf. sendir frá sér reikninga fyrir öllum vörslusviptingarbeiðnum, burtséð frá því hvort sviptingin komi til framkvæmda. SP-Fjármögnun borgar þessa reikninga að því er virðist athugasemdalaust, og bætir þeim kostnaði á innheimtuseðla lánasamninga jafnvel nokkrum mánuðum eftir að komið var í veg fyrir vörslusviptingu. Þegar Reynir Logi Ólafsson hdl. lögmaður SP-Fjármögnunar var inntur eftir viðbrögðum sagði hann auðvitað að fyrirtækið væri í fullum rétti til vörslusviptingar og skýldi sér á bakvið sína eigin túlkun á því sem hann kallar „meginregluna í samningarétti“ en tók enga efnislega afstöðu til umræddra lagaákvæða um vörslusviptingu, þeirra einu sem til eru.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.3.2010 kl. 02:10

16 identicon

Takk fyrir þetta með vörslusviptinguna Guðmundur Ásgeirs, fæ að setja þetta á bílalángrúbbuna á Facebook.

Ertu á facebook?

kv.þórdís

Þórdís (IP-tala skráð) 15.3.2010 kl. 21:23

17 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæl Þórdís, ég er ekki á facebook því ég vildi ekki samþykkja notkunarskilmálana og persónuverndarákvæðin.

Athugaðu samt varðandi sviptinguna að þetta er mitt persónulega álit en ég er ekki löglærður og ber því enga ábyrgð í þá veru. Vitnisburðurinn um innheimtu gjalds fyrir sviptingu er hinsvegar mín eigin reynsla af samskiptum við lögfræðing SP Fjármögnunar.

Þessi lagaákvæði fjalla um vörslusviptingu að undangengnum dómsúrskurði. SP Fjármögnun heldur því hinsvegar fram að réttur þeirra til einhliða vörslusviptingar sé einkaréttarlegs eðlis vegna þess að það stendur í bílasamningnum að þeir megi það. Því myndi ég vilja fá álit sérfróðra manna á því, hvort það sé yfirhöfuð löglegt að gera einkaréttarsamninga með ákvæðum sem ganga gegn gildandi lögum?

Get ég t.d. gert samning við einhvern um að lána honum pening og ef hann borgar ekki til baka þá megi ég senda leðurklædd vöðvatröll með hafnaboltakylfu á hnéskeljarnar á honum? Ef ég yrði kærður fyrir að láta misþyrma manninum, gæti ég borið því fyrir mig í réttarsal að mér hafi verið það heimilt "á grundvelli meginreglu samningslaga sem er samningfrelsið" og að um "einkaréttarlegt viðskiptasamband" sé að ræða? Ef svo er þá er ég viss um að Fáfnismenn munu hoppa af kæti!

Guðmundur Ásgeirsson, 16.3.2010 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 211
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 192
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband