Leita í fréttum mbl.is

Er landið í þunglyndi?

Ég brá mér frá í nokkra daga til að hlaða rafhlöðurnar.  Ótrúleg tilbreyting.  Að komast í umhverfi sem er laust við allt þetta sem hefur hvílt sem mara á þjóðlífinu síðustu 18 mánuði, ef ekki lengur.  Staðurinn skiptir kannski ekki megin málin, en ég fór til Boston.  Fór í verslanir og áttaði mig á því að tekjurnar geta dugað fyrir nauðþurftum.  Heimsótti Harvard og MIT og áttaði á mig hvað þessi háskólasamfélög eru eins og eyjur án tenginga við umheiminn.  Um leið og maður komst inn fyrir mörk háskólasvæðanna, þá var eins og eitthvað breyttist.  Þarna var ekki raunveruleikinn heldur einhver sýndarveruleiki áhyggjuleysis og akademískrar umræðu.

En það var ekki ástandið í Boston sem ég ætlaði að lýsa, heldur sjokkið við að koma aftur heim.  Ástandið hér er svakalegt.  Þá á ég við andlegt ástand þjóðarinnar.  Það er einhver drungi sem liggur yfir öllu.  Nærtækast er að líkja þessu við að fara inn í herbergi, þar sem virkilega slæm orka, loftleysi eða eitthvað þess háttar er til staðar.  Hafi maður verið inni í herberginu í langan tíma, þá finnur maður ekki fyrir þessu, en svo fer maður út og kemur til baka og skilur ekki hvernig maður gat setið þarna inni klukkutímunum saman.  Þannig er Ísland í dag.  Orkuhjúpur landsins er hlaðinn þunglyndi, vonleysi, depurð, úrræðaleysi.

Ég er ekki að furða mig á ástandinu.  Ég skil það mæta vel.  Á hverjum degi hringir í mig fólk, sem er að leita ráða eða segja mér sögu sína.  Og sögurnar versna með hverjum deginum.  Örvæntingin er að ná tökum á sífellt fleiri einstaklingum.  Harka fjármálafyrirtækjanna er sífellt að aukast.  Eingöngu þeir, sem eru svo "heppnir" að vera með öll sín viðskipti á einum stað, virðast fá úrlausn sinna mála.  Sértæk skuldaaðlögun er útfærð á mismunandi vegu hjá hverjum og einum banka og hafi beiðni um sértæka skuldaaðlögun komið frá banka A, þá virðast allir hinir líta á það sem heilaga skyldu sína að hafna þátttöku.  Fjármögnunarfyrirtækin virða að vettugi samkomulag sem gert hefur verið og hirða bíla af fólki að næturlagi, þegar fólk kemur engri vörn við.  Hvert spillingarmálið kemur upp á fætur öðru og málsvörn hinna spilltu er að einhver annar hafi borið meiri ábyrgð.  Er það nema von að þunglyndi ríði hér húsum?

Ég tilheyri fámennum hópi fólks, sem hefur reynt sitt besta til að berjast fyrir réttlæti og sanngirni.  Þá er ég að tala um stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.  Í tæpa 18 mánuði hefur kjarninn úr þessum hópi staðið vaktina og unnið baki brotnu.  Þar af síðustu 14 undir merkjum HH.  Þetta tekur alveg gríðarlega á.  Vissulega höfum við áorkað miklu, en það hefur verið á kostnað tekjuöflunar og ekki síst fjölskyldunnar.  Við höfum ekki næg fjárráð til að standa uppi í hárinu á þremur öflugum bönkum og ótal minni fjármálafyrirtækjum.  Við höfum ekki tíma til að sækja alla þá fundi þar sem nærveru okkar er óskað.  Við höfum ekki orku til að sinna öllum erindum sem okkur eru send.  Þetta er jú allt sjálfboðavinna.

Ég tek það skýrt fram, að samtökin hafa fengið mikinn stuðning og góðan hljómgrunn meðal almennings.  Hvatningarpóstar sem okkur berast eru margir alveg frábærir.  Slíkir póstar hafa oft fleytt mér yfir erfiða hjalla og ég býst við að það eigi líka við um ýmsa félaga mína í stjórn HH.  Er ég þakklátur fyrir slíkan stuðning.  Vissulega hefur líka verið hreytt í okkur ónotum, en það er sjaldgæft.  Það er samt eitt sem ég hef ekki verið nægilega sáttur við.  Það er hve hægt gengur að fjölga félagsmönnum í samtökunum.  Þegar þetta er skrifað eru félagsmenn tæplega 3.500.  Það er vissulega yfir 1% þjóðarinnar, en þegar um 30.000 heimili eru í alvarlegum vanda og þar af hátt í 10.000 í mjög alvarlegum vanda, þá hefði verið gott að sjá fleiri félagsmenn.  Setji einhver félagsgjöld fyrir sig, þá er ekki skylda að greiða þau og þau eru ekki forsenda fyrir þátttöku í starfinu.  Vil ég því hvetja alla, sem ekki eru þegar í samtökunum, að ganga í þau með því að fara inn á www.heimilin.is og styrkja þau því í baráttu sinni fyrir réttlæti og sanngirni.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Kannski ekki þunglyndi, frekar vonleysi.  Fleiri og fleiri eru að gefast upp. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.3.2010 kl. 02:08

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ekki hefur þessi óláns stjórn lagað neitt,hefur ekki mátt vera að vinna að´"ómerkilegum" málum,lá svo á að gera fjarstæðu kenndan samning,þótt 5 af þingmönnum V.G. réðu þeim  frá því.

Helga Kristjánsdóttir, 11.3.2010 kl. 03:44

3 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Gaman að þú gast tekið þér smápásu og skroppið frá:)

Ég hef oft hugsað um þetta og mér finnst það sem ég les og heyri frá Íslandi minna mig á þætti sem ég hef séð um Exxon Valdez olíuslysið í Alaska og sérstaklega eftirmála þess fyrir fólk í smábæ sem heitir Cordova og varð hvað harðast úti þar sem bæði síldar og laxastofnar, sem fiskimenn lifðu á, hurfu nánast algjörlega næstu ár.  Þessi bær var útgerðarbær með um  tvö þúsund íbúa, sem flestir hafa haldið kyrru fyrir.  18 árum eftir slysið mátu félags- og sálfræðingar ástand þessa bæjarfélags í heild eins og einstaklings sem hefur verið nauðgað.  Það var farið í mál við Exxon eftir slysið og 15 árum seinna var Exxon loks dæmt til að greiða 500 milljónir dollara í skaðabætur, 10% af því sem farið var framá.  Þá var hagnaður Exxon 160 milljónir dollara Á DAG!  Ég held að ástandið á Íslandi sé að sumu leiti svipað, e.t.v. ekki eins slæmt, en greinilega þreyta, uppgefni, vanlíðan, þunglyndi og vonleysi á talsvert háu stigi. 

Í þessu ástandi er vinna fólks eins og þín (og HH að sjálfsögðu) algjörlega ómetanleg og ég er viss um að bloggið hjá þér er mörgum hreinlega til sáluhjálpar því þú talar skýrt og skorinort og færir æsingalaust sterk og haldgóð rök fyrir máli þínu.  Fólk er þreytt á svikum og lygi sem virðist hellast yfir það úr hverju skúmaskoti og eftir því sem er grafið dýpra kemur meiri og meiri spilling og svik fram í dagsljósið.

Kveðja frá Port Angeles,

Arnór Baldvinsson, 11.3.2010 kl. 04:02

4 identicon

Sæll Marinó! Velkominn heim aftur, gott að þér tókst að komast aðeins í burtu frá Kreppulandi. Bæði þú og Hagsmunasamtök Heimilanna eiga miklar þakkir skilið fyrir það starf sem þið vinnið fyrir þjakaðan almenning sem hefur orðið fyrir barðinu á bæði stjórnvöldum og fjármálastofnunum í kjölfar hrunsins. Þessi lýsing þin á ástandinu hér á landi er ekki orðum aukin. Við erum þjóð sem hefur verið haldið niðri í einhverju drullusvaði undanfarna mánuði og á hverjum degi hellist yfir okkur meiri drulla þar sem lítið er um jákvæðar fréttir en mikið um mál sem eru að komast upp á yfirborðið og hafa átt þátt í að koma okkur á þann stað sem við erum nú.  Eftir að hafa hlustað á Silfur Egils s.l. sunnudag þá skildi ég enn betur hvers vegna við erum þjóð í djúpum vanda. Þeir einstaklingar sem eiga að leiða þjóðina áfram og inn í bjartari tíma er algjörlega vanhæf til þess verks. Meðan forystumenn stjórnarinnar sitja við völd er enginn von um bjartari framtíð. Þau eru skuggalega einstrengingsleg á eigin hugsanir.  Icesave og ESB eru þau mál sem alsráðandi eru í huga þess fólks og önnur mál vart til umræðu. Þau hafa að auki óbifandi trú á eigin hæfileikum sem er miður,  því þeir sem fylgjast með sjá að skortur á hæfileika til að stjórna landinu eru að sökkva okkur enn lengra niður í hyldýpi vonleysis og ótta fyrir komandi tíma. Þjóðin kaus um síðustu helgi og sendi að mínu mati skýr skilaboð til þeirra um að aðrir þurfi að taka við stjórn en þau skilaboð virðast fara fyrir ofan garð og neðan hjá þessum sjálfumglöðu einstaklingum. Þau eru ekki að "fatta" hvað þarf að gera og meðan skilningsleysið er algjört,  þá er ekki von um bjartari framtíð hér því miður og held ég að það skiljist ekki fyrr en tekið verður til róttækra aðgerða að hálfu þeirra sem sæta óréttlæti hér í þessu landi.

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 11.3.2010 kl. 06:10

5 identicon

Kæri Marinó, ég hef ávalt tekið undir þau ORÐ Davíðs Oddssonar í október 2008 þegar hann kvartaði undan því að stjórnvöld væru ekki að gefa samfélaginu VON - það væri enginn að blása KJARK í þjóðina.  Allir geta komist í gegnum þrengingar, en þá HJÁLPAR ef maður trúir á framtíðina, hefur TRAUST á stjórnvöldum og sér að VILJI er til staðar hjá stjörnvöldum til að AÐSTOÐA samfélagið.  Því miður er ekkert af þessu til staðar hjá ríkisstjórn Lady GaGa & SteinFREÐ.

Tek heilshugar undir orð þín, m.a.: "Orkuhjúpur landsins er hlaðinn þunglyndi, vonleysi, depurð, úrræðaleysi."  Þessu þarf að breyta hið fyrsta - aðeins með því að VIRKJA ráðgjöf frá "Heilbrigðri skynsemi" tekst okkur að rjúfa þennan vítahring þunglyndis & aðgerðaleysis.

kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 11.3.2010 kl. 07:44

6 Smámynd: Guðmundur Karl Snæbjörnsson

Sæll Marinó

þakka fyrir frábær bloggin í gegnum tíðina, átt miklar þakkir og hrós skilið fyrir baráttu þína.

Tek undir með þér varðandi þunglyndi þjóðarinnar og þetta þétta andrúmsloft sem maður upplifir við heimkomuna til Íslands. Stundum er það eins og maður sé að hlusta á gamlar upptökur þegar maður kveikir á fjömiðlunum heima, eins og maður hafi bara slökkt á útvarpinu/sjónvarpinu fyrir nokkrum mínútum í stað þess að vikur eða jafnvel mánuðir hafi liðið á milli.

Vegna starfa minna erlendis af og til þá hef ég nefnilega orðið áþreifanlega var við þetta sjálfur og það stundum nokkrum sinnum í hverjum mánuði. Maður dregst ofaní þetta ástand hérna heimafyrir nánast um leið og maður hefur stigið á þessa helgu jórð, Ísland. Nánast eins og hafa hafnað út í kviksyndi eða náttúruhamförum sem við mennirnir komum litlum sem engum vörnum við, þó við reynum að halda okkur í einstaka haldreipi eftir bestu getu og aðstæðum.

Hafðu góðar þakkir enn og aftur fyrir þína baráttu, sem er aðdáunarverð í þessum hamförum sem gengur yfir okkar þjóðfélag.

Kveðja frá Svíþjóð

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, 11.3.2010 kl. 08:36

7 Smámynd: Tryggvi Gunnar Hansen

í misþungu mæli ástand sem ég þekki áratugum saman.. jafnvel frá barnæsku... alveg frá þeim tíma er ág áttaði mig á að foreldrar mínir voru þrælar í kerfisbundnu misrétt og lýgi... en síðasti áratugur hefur verið einna þýngstur... rr ég kom heim í byrjun kreppu uuplifði ég jú kvölina og þessa neikvæðu þrúgandi orku.. en líka einskonar gleði... eða létti.. nú mátti allt í einu tjá sig um þennan hrylling allan.. áður var maður kverúlant, lúser... samsæris fábjáni... jæja en það stóð ekki lengi... svo urðu vonbryggðin mikil þegar maður varð vitni af því hvernig mótmælendur hökkuðu hver á öðrum og fóru að jafnvel nota ástandið fyrir sitt egótripp ...   og sundra þar með orkunni. Nenni ekki að taka dæmi hér..

en ég neyddist til þess að draga mig aftur til hlés

einsog þú seigir... orkan í loftinu... loftleysið... neikvæðnin og stöðnun t.d. í boði ríkisstjórnar og fjölmiðla og hugmyndasnauðra leiðtoga og ególandslags.. 

litla ljóstíran eru manneskjur sem hafa unnið mjög óeigingjarnt starf og maður finnur þarna hjarta... hönd og velvilja

Tryggvi Gunnar Hansen, 11.3.2010 kl. 08:37

8 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég hef einu sinni farið erlendis eftir hrun og ég upplifði eiginlega hinn pólinn á hæðina..... ég varð svo hissa á "hrunlausum" heimi þegar út fyrir landsteinana var komið !  Allir bara glaðir og svona.     En það má víst segja að maður finni vel muninn á andrúmsloftinu hér heima og annars staðar.

Varðandi félaga í HH..... er ekki ráð að gera Facebook átak til að fá inn fleiri félaga ?  Viltu betrumbæta þennan texta eða gera tillögu að nýjum ?

"Þykir þér vænt um heimili þitt ?  Gakktu þá í Hagsmunasamtök heimilana, www.heimilin.is   Þar vinna tugir sjálfboðaliða við að verja heimilin í landinu fyrir efnahagsárásum.  Þeirra styrkur er ekki óheft fjármagn - heldur MARGIR FÉLAGSMENN.  Ekki er skylda að greiða félagsgjöld.  Skráningin tekur eina mínútu". 

Anna Einarsdóttir, 11.3.2010 kl. 10:49

9 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ástandið er einfaldlega mun alvarlegra en fjölmiðlar og stjórn landsins láta uppi. Alltaf er reynt að nálgast tölur til að rökstiðja slíka fullyrðingar en ég held best að segja að risastór könnun hjá heimilum landsins ætti að fara fram eins fljótt og hægt er til þess að fá sálræna þáttinn og þá þætti sem ekki eru mælanlegir með tölum frá hagstofu eða seðlabankanum. Við þurfum skýrslu sem ekki er hægt horfa fram hjá, bæði fyrir heimilin og fyrir fyrir VG og Samfylkingu.

Haraldur Haraldsson, 11.3.2010 kl. 11:11

10 identicon

Gott að þú gast hlaðið batteríin.

Ég held að margir þurfi á því að halda eins og staðan er núna og hver reynir að gera það á sinn hátt.

Svar mitt við yfirskrift þíns bloggs er: já, því miður.

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 11.3.2010 kl. 11:26

11 Smámynd: Theódór Norðkvist

Velkominn heim Marinó, gott að þú gast komist aðeins í burtu og hlaðið rafhlöðurnar eftir allt erfiðið.

Það þarf að fjölga í HH, en það þarf líka að virkja fleiri úr þessum 3.500 manna hópi. Hvað eru margir virkir í samtökunum, 20-30 manns? Það er allt of lítið, innan við 1% skráðra félagsmanna.

Nú ríður á að við stöndum saman. Hversu hæfileikarík, dugleg og klár við erum, er hvert og eitt okkar bara einn maður. Einn maður getur komið takmarkað miklu í verk (og brunnið út með því að yfirkeyra sig), sumir koma meiru í verk en aðrir, en með því að standa saman í verkefnunum sem ein heild erum við margfalt öflugri.

Theódór Norðkvist, 11.3.2010 kl. 13:02

12 Smámynd: Offari

Ég er búinn að vera í lengra þunglyndi en flestir því ég missti hús mitt í  bruna um áramótin 2007-2008. Ég gerði mér þó alltaf vonir um að fá það tjón bætt en tryggingarfélagið telur sig ekki þurfa að bæta nema helming tjónsins.  Og svo loks þegar ég féllst á að sætta mig við þá stöðu komst ég að því að tryggingarfélagið þarf heldur ekki að greiða vexti ætli það sama gildi fyrir alla?

Offari, 11.3.2010 kl. 16:57

13 identicon

Stór hluti þjóðarinnar upplifir ástandið þannig að búið sé að skuldbinda þau til að róa galeiðu peningavaldsins það sem eftir er lífsins, án vonar um lausn."Frelsi" er bara orð, ekki raunveruleiki, og framtíðin ber ekkert í skauti sér nema leiða og sívaxandi depurð.

Undir slíkum kringumstæðum hlýtur maður að kikna, ef ekki fyrr þá síðar.

Vissulega þyrftum við öll að standa saman. Vandamálið er að hvergi nokkur staðar er að finna forystu sem meirihlutinn getur fylkt sér um og treystir. Í staðinn eru allir að hatast út í alla og grefur hver undan öðrum sem mest þeir mega ... og þar fer fremst í flokki fólkið sem skipar stjórn og stjórnarandstöðu þessa lands.

Mér líður eins og ég sé staddur í hringiðu sem ég hef enga stjórn á og það er alveg sama hvað ég reyni að klóra út í loftið og finna einhverja handfestu ... hún er ekki til staðar og þetta endar bara á einn veg ... í ræsinu.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 11.3.2010 kl. 20:33

14 identicon

Takk fyrir þetta Marínó.

Og samt er svo einfalt að leysa vandann. Sérhver ríkisstjórn ætti að geta það með því að...

a) Setja lög sem skylda bankana til að afskrifa skuldir heimila að einhverjum hluta og færa lánin aftur til janúar 2008 - og endurgreiða það sem tekið hefur verið af heimilunum síðan.

b) afnema verðtrygginguna sem er eins og æxli á þjóðarlíkamanum - og er einstakt fyrirbæri á Vesturlöndum. Endurgreiða heimilunum rányrkju undanfarinna ára sem rekja má til verðtryggingar.

c) Setja lög á fyrirtækin sem hafa lánað til bílakaupa - og knýja þau til að afskrifa lánin 100% sé  bifreiðunum skilað inn. Bíll fyrir lán. Annað er siðlaust. Um leið ætti ríkið að reka mál vegna tengingar lána við erlendann gjaldeyri sem skikkaði öll lánafyrirtæki til að skila aftur til fólksin fé sem þannig hefur verið haft af fjölskyldunum

d) Setja kraft í verkefni sem krefjast fjölmargra vinnandi handa. Núna!

Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 11.3.2010 kl. 22:20

15 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Velkominn heim Marinó.

Ég man þegar ég var krakki og var að horfa á mynd þar sem verið var að leiða stóra hópa af fólki í gasklefana. Ég spurði í barnaskap mínum; "hvers vegna ræðst ekki bara allt fólkið á hermennina í einu, þeir eru miklu færri og geta ekki skotið alla í einu".

Eitthvað vafðist fyir fólki að svara mér og málinu eytt með því að segja að fólkið væri svo hrætt og ef einhver byrjaði væri sá umsvifalaust skotinn.

Sennilega ert þú að upplifa móralinn "fjárhagslega" í þessum aftökugöngum, þar sem búið var að brjóta villja fólks og það gekk í móki inn í gasklefana til að fara í "sturtu". Allir vita hvernig sú "góðmennska" endaði að leyfa fólki að þrífa sig, sem er jú ein af grunnþörfum mannsins.

Ég held að besta ráðið núna sé þessi barnaskapur að "allir ráðist í einu" að böðlunum sem eru að taka fólk af lífi fjárhagslega. Þetta má gera með því að taka þátt í Greiðsluverkfallinu, fara á Austurvöll og gera landið fokhelt og byrja að innrétta aftur, ÖLL Í EINU.

Sagt hefur verið að Ísland sé í fjárhagslegu stríði við Bolla og Holla, almenningur á Íslandi er líka í stríði við kúgara sína. Í gegnum alla mannkynssöguna hefur almenningur átt eitt vopn, SAMSTÖÐU.

Ég verð að segja að ég hugsa oft þegar fólk skráir sig ekki í HH þá eigi það enga hjálp skilið, það er a.m.k. ekki að gera sér grein fyir tjóninu sem samstöðuleysið er að valda heimilum landsins.

Ég skora á þig ágæti Íslendingur að taka SAMSTÖÐUNA alvarlega og skrá þig í HH og mæta á mótmælin þegar þau eru ! ! !

Axel Pétur Axelsson, 12.3.2010 kl. 09:44

16 identicon

Sæll KÆRI BRÓÐIR

Ég undrast stöðugt hvernig þú getur haldið áfram endalaust, skrifað og skrifað og leiðbeint, gagnrýnt og bent á leiðir.  Með heimili, 4 börn og konu, vinnu þína og svo allt þetta.  Þú hlýtur að vera í beinu sambandi við orkuna úr möndulstróknum undir landinu.  

Það eru svo ótalmargir sem fylgjast með skrifum þínum og hlaða sig upp af orku út frá þeim.  Þú ert með gríðarlega stór hlutverk í verund og gildismati þjóðarinnar.  Orkan streymir úr penna þínum! 

Orð lífsins eru sterkari en öll stríð með vélum og svikum.  

Þinn bróðir Óli

Ólafur Sturla Njálsson (IP-tala skráð) 14.3.2010 kl. 01:46

17 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Víst er þetta löng og erfið leið,

og lífið stutt og margt sem út af ber.

En tigið gegnum tál og hverskyns neyð

skín takmarkið og bíður eftir þér.

Þórður Björn Sigurðsson, 18.3.2010 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 1681248

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband