Leita í fréttum mbl.is

FME tekur ekki afstöðu til gengistryggðra lána - Tekur FME afstöðu til nokkurs?

Hagsmunasamtök heimilanna sendu Fjármálaeftirlitinu fyrirspurn um lögmæti gengistryggðra lána 18. maí 2009.  Sjö mánuðum síðar, eftir nokkrar ítrekanir kom svar.  Það er sem hér segir:

Beiðni Hagsmunasamtaka heimilanna felur í sér að Fjármálaeftirlitið veiti lagalega álitsgerð um lögmæti gengistryggðra skuldabréfa.  Fjármálaeftirlitið  bendir á í því sambandi að hlutverk þess er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.  Það samræmist ekki hlutverki Fjármálaeftirlitsins að veita lagalega álitsgerð til Hagsmunasamtaka heimilanna.  Þá er Fjármálaeftirlitinu ekki falið úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.

Þetta er heljarinnar réttlæting hjá Fjármálaeftirlitinu fyrir því að hafa staðið hjá meðan íslensk fjármálafyrirtæki hafa vaðið yfir íslensk lög á skítugum skónum.  Fyrir utan að FME fer í nokkra andstöðu við sjálft sig.  Í svarinu segir nefnilega "að hlutverk [FME] er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur og að öðru leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti".

Ég verð að viðurkenna, að allt of margt í starfsemi fjármálafyrirtækja undanfarin ár á ekkert skylt við "eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti".  Ef hagsmunasamtök, eins og Hagsmunasamtök heimilanna, geta ekki vísað til FME máli, þar sem efast er um að "starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og reglur" vegna þess að "[þ]að samræmist  ekki hlutverki Fjármálaeftirlitsins að veita lagalega álitsgerð" til samtakanna, þá skil ég ekki hverjir eiga að geta leitað til FME um álitamál.  Eru það bara fjármálafyrirtækin sem mega leita til FME?

Tökum bara bullið með SP-fjármögnun.  Fyrirtækið hefur boðið gengistryggð lán í gengissjóði!  Ég skora á fólk að lesa færslu Þórdísar Bjarkar Sigurþórsdóttur um þetta, sjá Neytendalán í gervigjaldmiðlum.  Tekur FME ekki svona mál til athugunar?  Ef ekki, hvert er þá verksvið FME?  Hver er skoðun FME á gengistryggðum lánum?  Er þögn sama og samþykki?  Það verður að segja að þögn stofnunarinnar er æpandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Viljum við stjórn fjármálaeftirlitsins burt?

Þórður Björn Sigurðsson, 26.1.2010 kl. 19:52

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk, fyrir að birta þetta! Þetta leiðir óneitanlega hugann að því sem Tryggi Gunnarsson sagði í tilefni að enn einni frestuninni á rannsóknarskýrslu Alþingis: „Maður hefur stundum verið nærri gráti og stundum afskaplega pirraður yfir því sem maður hefur séð. [...] Þegar maður hefur áttað sig á því hvar hlutir voru gerðir og sérstaklega hvar hlutir voru ekki gerðir þá verður maður sár og svekktur." (Sjá hér)

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.1.2010 kl. 20:48

3 identicon

Að taka sér 7 mánuði í að segjast ekki ætla að svara erindi er auðvitað bara stjórnsýslulegt þrekvirki. Hvar værum við stödd ef við hefðum ekki þetta afreksfólk? Síðast þegar ég vissi þá hafði SÍ heldur ekki svarað erindi löggilta endurskoðandans frá Akureyri.

Bíð spenntur eftir rannsóknarskýrslunni. Ef ég man rétt þá nefndi Tryggvi líka á fundinum að hann væri hissa á því hvað fá einkamál hefðu verið höfðuð í kjölfarið á hruninu.  Ég geri ráð fyrir að hann sé að vísa í augljósa skaðabótaskyldu banka og bankamanna.

Ef skýrslan inniheldur það sem ég held að hún innihaldi þá sé ég ekki hvernig menn ætla að stöðva reiðan múginn með hjólhýsarökum einum saman.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 21:38

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Þarfur pistill og ég spyr:  Hefur FMÍ einhvern tíma gert eitthvað?  Þeir sátu stikkfrí hjá meðan Íslandi var beinlínis stolið fyrir framan nefið á þeim.  Ef ég hefði aðgang að fjármagni þá færi ég í einkamál við FMÍ vegna getuleysis við að koma í veg fyrir að fjármagnsfyrirtæki kæmu sér upp þúsunda milljarða skulda án þess að eiga nánast krónu með gati til að borga!  

FMÍ hlýtur að bera stóra ábyrgð á því hvernig sparibaukarnir fóru með landið.  Það hefur enginn sætt ábyrgð af neinu tagi og ég held að FMÍ ætti að verða fyrst til þess að vera tekið á beinið.  Ég skil ekki af hverju fólk hefur ekki hafið löghernað á þessu spillingarliði.  Kannski er það vegna þess að Íslenskir lögfræðingar voru á kafi upp fyrir haus í þessu rugli líka:( 

FMÍ er bara einfaldlega ekki stætt á því að lýsa sig stikkfrí í þessu máli.  Þeir eiga að taka afstöðu og það á að sækja afstöðu til þeirra með góðu eða illu.  Ef þeir geta ekki tekið lagalega afstöðu með eða á móti, og þar sem það er algjörlega augljóst að þeir geta ekki með nokkru móti valdið eftirlitsskyldu sinni þá á að leggja FMÍ umsvifalaust niður.  Því hvað er þá eftir fyrir þá að leika sér að???

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 27.1.2010 kl. 01:20

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Benedikt, ertu til í að fríska upp á minni mitt og rifja upp fyrir mér hver löggilti endurskoðandinn er og hvaða fyrirspurn það var sem hann beindi til Seðalabankans.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.1.2010 kl. 01:46

6 Smámynd: Maelstrom

Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur.  Þið verðið að ítreka þessa beiðni og biðja um svar innan einhvers eðlilegs tíma.  Ef svar berst ekki innan þess tíma á að senda þetta beint til umboðsmanns Alþingis og síðan í kjölfarið til evrópskra eftirlitsstofnanna.  Það myndi fullkomna niðurlægingu og vanhæfni FME.

Er fyrirspurnin sem þið senduð til FME til einhvers staðar online?

Maelstrom, 27.1.2010 kl. 12:57

7 identicon

Afsakaðu sein svör Rakel.

Þú veist það kannski að Gunnlaugur Kristinsson löggiltur endurskoðandi gerði ítarlega úttekt á lögmæti erlendu lánanna og birti þá úttekt á Eyjunni.  Í umræðum þar á vefnum í framhaldi af því sagðist hann hafa sent SÍ fyrirspurn þessu máli tengt og fengið tilbaka loðið svar.  Hann endurtók síðan fyrirspurnina og skerpti á henni fókusinn. Hvort hann hefur fengið svar við seinni fyrirspurninni veit ég ekki.

Það var niðurstaða Gunnlaugs að lán í erlendri mynt og gengistrygging skuldabréfalána sé óheimil ef um viðskipti á milli innlendra aðila er að ræða. Viðskipti á milli innlendra aðila geti aldrei verið í annari mynt en í íslenskum krónum. Því ætti ákvæði í lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 við um erlendu lánin (bannað að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla).

Gunnlaugur minntist líka á það í umræðunni um úttektina að honum þætti líklegast að enginn í stjórnsýslunni hefði áttað sig á því að lánin væru ólögleg. M.a. þess vegna vill væntanlega engin opinber aðili snerta á þessu máli.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 27.1.2010 kl. 18:46

8 identicon

Sinnuleysi Neytendastofu og sérstaklega FME varðandi þessi lán er í raun glæpsamlegt. SP tekur að eigin sögn lán í erlendri mynt frá Landsbankanum, og skiptir því í íslenska krónu (fyrir hönd lántakandans) til að borga seljanda vörunnar söluverðið sem uppgefið

er í íslenskum krónum. Að skipta erlendum gjaldeyri í innlendan er samvæmt skilgreiningu laga um gjaldeyrismál frá 1992, gjaldeyrisviðskipti.

Samkvæmt nýjum upplýsingum sem ég hef frá FME tekur starfsleyfi SP ekki til 7. töluliðar 20.gr laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtækji sem tekur

einmitt á leyfi lánafyrirtækja til: "Viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með: b. erlendan gjaldeyri,..... Því spyr ég, hefur SP ekki þarna brotið gegn starfsleyfi sínu?

Erlingur (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 00:37

9 identicon

Hagsmunasamtökin virðast hafa fengið svar frá FME um svipað leyti og ég fékk svar við gamalli ábendingu þar sem mér var „þakkað kærlega fyrir ábendinguna." Tölvupósturinn kom kl. tæplega 17:00 á föstudaginn síðasta 23.jan. Mér hefur aldrei áður verið þakkað fyrir ábendingu sem ég hef sent til þeirra og aldrei hafa þeir svarað símtölum mínum eða skilaboðum.
Deginum áður (22.jan)  hafði ég sent t-póst til sendiherra AGS hér á landi þar sem ég spurði hann m.a. hvort að hann vissi til þess að "consumer loans" hafi verið veitt í SDR´s (gervigjaldmiðli AGS) og benti honum á að þannig hafi þetta verið hér á landi, þúsundum manna lánuð bílalán í gervigjaldmiðlum. Og eins sagði ég honum að eftirlitstofnanir hér á landi sýndu þessu máli engan áhuga. Sendifulltrúinn svaraði bréfi mínu og bað um nánari upplýsingar. Ég heyrði ekki aftur frá honum, en áðurnefnt þakkarbréf frá FME kom daginn eftir. :) og það kl. 17:00 á föstudegi.

Þórdís (IP-tala skráð) 28.1.2010 kl. 11:04

10 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Ég tel að það sé rétt að senda þetta strax til Umboðsmanns Alþingis. Hann krefur FME svara með undra fljótum hætti.

Baldvin Björgvinsson, 29.1.2010 kl. 10:02

11 Smámynd: Elle_

Fjármálafyrirtæki komast enn upp með að vaða yfir fólk í skítugum skóm.  Fyrst fengu þau að ryksuga allt út og nú vaða þau yfir fólkið sem er rukkað fyrir ryksuguverknaðinn.  EKkert gerist ef maður fer með mál til FME, ekkert heldur hjá Neytendastofu.  Og kannski ekki heldur fyrir dómstólum?  Við búum þá tæplega við nein lög er það?  Það getur ekki talist eðlilegt hvað FME víkst undan öllu, Marinó, og full ástæða til að gera veður út af. 

Elle_, 1.2.2010 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband