22.1.2010 | 23:34
Dýr verður Landsbankinn allur
Það er alltaf að koma betur og betur í ljós, að eitthvað stórvægilegt fór úrskeiðis í rekstri Landsbanka Íslands, þ.e. "gamla" Landsbankans. Icesave reikningurinn stefnir í að vera ekki lægri en 100 milljarðar og hafa menn reiknað hann upp í 1.000 milljarða í versta falli. Til að komast hjá hinu versta verður að hafna lögum nr. 1/2010 í þjóðaratkvæðagreiðslu og sannfæra Breta og Hollendinga um að fyrirvarar í lögum nr. 96/2009 sé það lengsta sem við Íslendingar getum teygt okkur. Ég hef sagt það áður og endurtek hér, að við eigum að setja það sem ófrávíkjanlegt skilyrði, að endurgreiðslur frá Landsbankanum renni fyrst upp í ábyrgð íslenska tryggingasjóðsins áður en króna/pund/evra kemur í hlut hinna tryggingasjóðanna. Við skulum samþykkja að íslenska ríkið greiði vexti af ógreiddum hluta ábyrgðarinnar og að þeir vextir verði greiddir jafnóðum.
Samtals eru kröfurnar á íslenska tryggingasjóðinn vegna Icesave upp á um 704 milljarða króna miðað við gengi í dag (GBP 2,35 * 200 kr./GBP + EUR 1,3 * 180 kr./EUR). En þetta eru ekki einu innistæðurnar sem eignir Landsbankans þurfa að duga fyrir. Þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde ákvað að vernda allar innistæður í íslenskum bönkum (um 1.100 milljarðar króna) reyndust hátt í helmingur þeirra vera í Landsbankanum. Núna þegar rykið hefur sest, kemur í ljós að ríkið þarf að leggja bankanum til um 280 milljarðar í eiginfjárframlag. Það helgast af því að eignir Landsbankans reyndast vera ónógar til að uppfylla skilyrði um 8% eigið fé. Ef innistæður hefðu EKKI verið færðar til í kröfuröð og gerðar að forgangskröfum og jafnframt tryggðar upp í topp, þá hefði ríkið EKKI þurft að leggja bankanum til þetta eiginfjárframlag. 280 milljarðarnir eru því í reynd skattpeningar sem notaðir eru til að borga innstæðueigendum innistæður sínar að fullu. Þetta er sama tala og ríkissjóður lagði Seðlabankanum til. Hvar er nú fólkið, sem hélt því fram að það hefði ekki kostað skattgreiðendur neitt að tryggja innistæðurnar í topp? Þetta er hærri upphæð en myndi kosta að leiðrétta öll húsnæðislán landsmanna samkvæmt kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna.
Kostnaður skattgreiðenda af falli Landsbankans verður því á bilinu 380 til 1.280 milljarðar króna. Við þetta má svo bæta, að erlendir kröfuhafar munu síðan bera um 1.220 milljarða króna til viðbótar vegna innlenda hluta bankans. Hvert tap kröfuhafa er vegna erlenda hluta starfseminnar er ómögulegt að segja á þessari stundu, en það hleypur á þúsundum milljarða. Já, dýr verður Landsbankinn allur eða á ég að segja: Dýr verður Sigurjón allur.
Eðlilegt að undirbúa viðræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 52
- Frá upphafi: 1681299
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Nú er bara að hvetja alla til að mæta á austurvöll í dag kl 15.
www.nyttisland.is
Lúðvík Lúðvíksson, 23.1.2010 kl. 09:56
Ég hef reynt að halda því fram að stjórnvöld ættu að spyrja sig að því hvort sú leið sem þau hafa valið að stýra þjóðarskútunni í gegnum kreppuna, sé raunverulega fær. Það er að koma betur og betur í ljós að hún er það ekki. Hvernig á að sannfæra skuldug heimili um að kjósa með þessu Icesave samkomulagi, þegar það liggur fyrir að þau eru nú þegar að fjármagna innistæðutryggingar á Íslandi?
Og hvað var í gangi í þessu "banka"? Mér reiknast til að ef Landsbankinn hefði ekki gert neitt annað en hafa 1000 gjaldkera í vinnu, 220 daga á ári í 5 ár, við þann starfa að brenna einn 5000 kall á mínútu hver, í 8 tíma á dag, þá hefði tapið verið 2640 milljarðar, sem er svipað og afleiðingar af gjaldþroti bankans. Inn í þetta vantar reyndar laun og kveikjaragas en þetta minnir mig óneitanlega á hugmynd kunningja míns sem var orðinn þreyttur á umræðum um peningafræði og umhverfismál. Hann ætlaði að stofna fyrirtæki sem gerði ekkert neitt annað að brenna olíu á stórum skala. Svo glórulaus hefur þessi bankastarfsemi verið.
Ef það á að koma til greina á mínu heimili að styðja þetta Icesave-samkomulag þá verður að opinbera lánabók Landsbankans. Svo mikið vita Íslendingar um efnahagsmál þessi misserin að maður gefur ekki út óútfylltan tjékka svo íslenskir ráðamenn geti keypt sér syndaaflausn í útlöndum. Fólk verður að fá að meta það sjálft hvort að 88% innheimtur úr búinu, sem leiða af sér 500 milljarða skuld, sé raunhæft mat á afleiðingum samkomulagsins.
Við getum svo öll glaðst yfir því að það er búið að koma upp bónuskerfi í Landsbankanum sem umbunar fólki við að hámarka innheimtuna af skuldasafninu. Menn geta hins vegar spurt sig að því hvort það sé sanngjarnt í ljósi þeirrar lýsingar á starfseminni sem ég minnist á hér að ofan.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 10:06
Góður pistill Marinó, og ég tek undir flest af þessu. En er ekki búið að lækka bindiskylduna úr 8% niður í 2-3% í "nýja" bankakerfinu?
Menn hafa verið að leika sér með tölur um kostnað vegna IceSave, en í því gleymist oft kostnaðurinn við eiginfjárframlag ríkisins til nýja bankans ásamt gengistryggðu skuldabréfi NBI við skilanefndina sem ríkið þarf óbeint að greiða af sem eigandi bankans (afborganirnar teknar af mögulegum hagnaði á rekstri bankans sem kemur út á það sama og ef ríkið væri sjálft að borga það). Auk þess stendur til að kaupa til baka verðlausa pappíra frá Seðlabanka Luxembourg fyrir 185 milljarða (í Evrum!) til að leysa út eignir úr þrotabúi bankans sem þar er haldið í gíslingu, þessar eignir eru þó ekki metnar á nema "nokkra tugi milljarða" og verða teknar upp í IceSave kröfuna.
Ég vek sérstaklega athygli á því að þessir peningar fara úr vasa okkar skattgreiðenda, til annars vegar fjármagnseigenda sem áttu innstæður í Landsbankanum og hinsvegar til skilanefndarinnar og þaðan beint upp í IceSave kröfuna. Þannig er það í raun og veru kaupsamningurinn milli ríkisins og skilanefndarinnar sem tryggir öðru fremur það sem menn kalla "góðar endurheimtur" upp í tapaðar innstæður, en eru samt sem áður á kostnað almennings. Með slíkum bókhaldsbrellum vil ég meina að búið sé að ríkisvæða bankann að fullu, þar með talið þau vinnubrögð sem þar hafa tíðkast!
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um yfirtöku ríkisins á innlendu starfseminni hef ég áætlað kostnað íslenskra skattgreiðenda eingöngu vegna Landsbankans eftirfarandi:
Samtals gera þetta á bilinu 528 - 685 milljarða króna úr vasa skattgreiðenda og athugið að það er fyrir utan hugsanlegan kostnað við ríkisábyrgð vegna IceSave, án tillits til vaxta og gengisáhættu. Á móti kemur reyndar eign sem er innlenda starfsemi Landsbankans, en þegar bankinn var einkavæddur á sínum tíma var sú eign metin á 25 milljarða, sem er minna en skekkjan í þessari ágiskun og innan við 5% af heildarkostnaðinum miðað við neðri mörkin!
Það sem mér finnst samt einna merkilegast er að heildarkostnaður fyrir utan IceSave stefnir í að verða svipaður og áætlað var í fyrstu að IceSave myndi kosta, þannig að jafnvel þó að endurheimtist 100% upp í þá kröfu verða afleiðingarnar af hruni bankans afar dýrkeyptar.
Hér má svo rekja færslur þar sem ég hef fylgt þessu máli eftir:
Mögulegur kostnaður vegna IceSave ríkisábyrgðar er svo kafli út af fyrir sig, en ég vil ekki einu sinni reyna að giska á hann því eins og þú bendir á Marinó, þá er allt að 90% óvissa um endanlega upphæð. Einnig má geta þess að hvergi í þeim ágiskunum er reiknað með greiðslum til skilanefndarinnar, sem dragast frá eignum þrotabúsins.
P.S. Persónulega finnst mér að það hefði einfaldlega átt að láta bankann fara á hausinn, þá hefðu Íslendingar engu tapað nema þeir sem áttu innstæður og samtals er það mun lægri upphæð auk þess sem þeir einstaklingar hefðu getað gert kröfu á tryggingasjóð innstæðueigenda til jafns við IceSave reikningshafa. Neyðarlögin voru stór mistök sem ég sá fyrir strax og ég las þau, og reyndi jafnvel að koma aðvörunum á framfæri við þáverandi þingforseta gegnum persónulegt tengslanet en hann svaraði því miður ekki því símtali enda mikið álag á þinginu þann dag.
Að lokum vil ég þakka þér Marinó, fyrir gott og óeigingjarnt framlag þitt í hagsmunabaráttu heimilanna í landinu.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.1.2010 kl. 18:33
Ég átta mig ekki á þeirri tengingu sem þú gerir milli innstæðutrygginga í íslenskum útibúum bankanna, eiginfjárframlags ríkisins til bankanna svo þeir hafi nægilegt eiginfjárhlutfall og svo skuldabréf nýju bankanna inn í gömlu bankanna út af eignum umfram skuldir þegar bönkunum var skipt.
Uppgjörið vegna skiptingar bankanna er skrifað í endurreisnaráætlunina og byggir á því grundvallaratriði að mismuna ekki kröfuhöfum í erlenda hluta starfseminnar, þ.e. að ríkið sé ekki að stinga neinu undan. Þess vegna fór tvö óháð matsfyrirtæki yfir mat á því eignasafni sem flutt var úr gömlu bönkunum í þá nýju og staðan svo jöfnuð með útgáfu skuldabréfs nýju bankanna til þeirra gömlu fyrir mismuninum þannig að staða kröfuhafa væri sú sama eftir og áður. Eftir stóð nýr banki með 0% eigið fé, þ.e. eignir og skuldir stóðust á og þá skyldi ríkið bæta við eigið fé upp að 8% markinu.
Skuldabréfið milli bankanna er því ekki peningar úr vasa skattgreiðenda því verið er að jafna á móti eignum sem teknar voru úr gamla bankanum við skiptinguna.
Eiginfjárframlag inn í ríkisbankann er heldur ekki horfið fé heldur veltur það á rekstri bankans og afkomu. Vonandi ávaxtast þetta eigið fé.
Eina leiðin til að staða innistæðna íslenskra sparifjáreigenda hafi einhver áhrif á annaðhvort eiginfjárframlagið eða jöfnunina milli gömlu og nýja bankanna væri að ákveða á sínum tíma að skilja öll innlán umfram lögbundið lágmark eftir í gömlu bönkunum.
En við komumst ekki langt áfram með úrvinnslu mála í dag með vangaveltum um stöðuna miðað við að neyðarlögin hefðu ekki verið sett. Þau eru staðreynd sem vinna verður útfrá og hafa m.a. afdrifarík áhrif á stöðuna í Icesavesamningum.
Arnar (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 22:04
Arnar, innstæður eru skuldir bankans við innstæðueigendur. Til þess að eigið fé sé jákvætt, þurfa eignir að vera meiri en skuldir. Ekki satt? Eiginfjárframlag ríkisins til NBI hf (nýja Landsbankans) var því meðal annars greitt til að vega upp innistæðurnar sem bjargað var úr gamla Landsbankanum og færðar yfir í þann nýja. Fyrir hverja krónu sem ekki hefði verið bjargað, hefði ríkið getað lækkað eiginfjárframlagið. Svo einfalt er það. Skattborgarar eru því að greiða fyrir innistæður sem var bjargað. Það kemur málinu nákvæmlega ekkert við hvort þessir peningar ávaxtast í NBI eða fást endurgreiddir síðar. Ríkið er að leggja okkar skattpeninga inn í NBI og upphæðin ákvarðast m.a. af upphæð innistæðna sem runnu inn í NBI.
Ég tek það fram, að ég er ekki að gagnrýna björgun innistæðnanna, bara benda á staðreyndir. Þetta verður ekki tekið aftur. Þessu verður ekki breytt. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að það hefði verið nóg að bjarga höfuðstóli innistæðna og vöxtum og verðbótum til 1. janúar 2008. Mismuninn hefði mátt nota til að bjarga öðrum sem urðu fyrir miklu tjóni. Höfum í huga, að erlendir innstæðueigendur á KaupthingEdge reikningunum fengu bara höfuðstólinn sinn til baka, en verða að sækja vexti sem kröfu í þrotabú Kaupþings. Það urðu allir fyrir tjóni við hrun bankanna nema innistæðueigendur hverra innistæður voru fluttar yfir í nýju bankana. Hvers vegna sú leið var valin, veit ég ekki.
Varðandi Icesave, þá hafa neyðarlögin engin áhrif á ábyrgð íslenska tryggingasjóðsins. Hún var fyrir hendi áður en neyðarlögin voru sett og hélst óbreytt eftir setningu þeirra. Neyðarlögin tryggja aftur að eignir Landsbankans ganga fyrst upp í að endurgreiða lán Breta og Hollendinga til íslenska tryggingasjóðsins og draga því úr skaða tryggingasjóðsins og þar með íslenskra skattgreiðenda. Á sama hátt tryggja neyðarlögin endurgreiðslu til bresku og hollensku tryggingasjóðanna eins og eigur Landsbankans duga til. Það er því enginn akkur í því fyrir bresk og hollensk stjórnvöld að láta reyna á lögmæti neyðarlaganna. Með því væru þau eingöngu að lækka þá tölu sem kæmi í þeirra hlut. Það er því mikilvægt fyrir Breta og Hollendinga, að neyðarlögin haldi.
Marinó G. Njálsson, 23.1.2010 kl. 23:21
Sæll Marínó minn,
Minni raunar á það sem ég skrifaði á bloggið þitt við bankahrunið að þessir bankar væru engin eign þetta væri minna virði en skítaklessur klárlega hefur það komið á daginn.
Þáverandi ríkissjórn og eftirlitsaðilar á þeim tíma fóru þá leið við hrunið að borga allar innistæður hér á Íslandi 100% en klárlega hefðu þeir átt að láta þessa banka fara á hausinn og tínt upp brakið og einungis átt að borga lágmarksinnistæðutrygginguna (þe. um 21þús€) að hafa ekki gert það held ég séu dýrustu og verstu efnahagsmistök Íslandssögunnar, ég skrifaði það það á stend við það núna enda er það allt að koma á daginn.
Núna eru þeir með þessa endurreystu banka og í raun liggur megnið af eigin fé í skuldum einstaklinga sem að miklu leiti liggur í gríðarlega ofmetnu og ofurveðsettu húsnæði. Þessi íslenska húsnæðisbóla er ennþá ósprúngin enda er enginn eðliðleg verðmyndun á þeim markaði og í raun liggur kosnaðurin á endurreysn bankanna því á skuldurum sem að meginstofni virðast vera allflestir landsamanna. Skuldarar landsins eru í raun "galeyðuþrælarnir" og þeir eiga að fá minna að borða og þurfa að róa hraðar auk þess fá þeir þyngri og stærri árar.
Íslendingar eru komnir með Icesave heilkennið og veit ekki hvort þeir geti yfir höfuð komist yfir þetta mál þetta sé bara ólæknandi en kostnaður við að hafa það óleyst sé í raun óbærilegur ef hann verður hægt að reikna. Það hefði svo augljóslega átt að skera niður ríkisútgjöldin þegar við hrunið en ákvörðunarfælni hefur í raun einkennt allt á Íslandi. Svíar sögðu upp 10. hverjum ríkisstarfsmanni við hrunið en á Íslandi er niðurskurðarferlið rétt hafið og greiðslufall ríkissjóðs er í raun óumflýjanlegt á næsta ári, ég get ekki séð að þetta gangi í raun upp.
Get ekki séð að nokkur taki íslensk stjórnvöld eða íslenska ráðamenn í raun alvarlega enda eru orð og undirskriftir í raun einskis virði og varla orðum á þá eyðandi. Það eru frekar 3 Icesave samkomulag og það síðasta er í þjóðarakvæðagreiðslu. Það mun klárlega fjara undan efnahag íslensku þjóðarinnar með tilheyrandi efnahagshörmungum þar sem lánstraustið fellur með greiðslufalli og áframhaldandi hrun gjaldmiðlisins með hærri vöxtum og ennþá meiri hörmungum fyrir skuldug heimili. Þetta er ekki glæsilegt og það sem maður hefur séð virðist í raun vont breytast í verra og stöðumatið er í raun alltaf að versna.
Gunnr (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.