14.11.2012 | 20:14
Einelti - Sagan sem ég ætlaði aldrei að segja
Um þessar mundir er mikil umræða í þjóðfélaginu um einelti. Er það gott. Ég skrifaði þessa færslu fyrir mörgum mánuðum og hún er búin að vera lengi í smíðum. Raunar stóð ekki til að birta hana, en hér er hún.
Einelti er skelfilegur hlutur, þó vissulega gangi það misjafnlega langt. Allt of stór hluti þjóðarinnar á sögu af því að hafa lagt í einelti eða verið fórnarlamb þess. Sjálfur leið ég einelti nokkurn veginn frá því ég fór að tala og fram á fullorðins ár. Ástæðan var málhelti, gormælgi, þ.e. ég gat ekki sagt r.
Ég heiti Marinó og gat ekki sagt nafn mitt rétt fyrr en ég var 26 ára gamall. Þess vegna var ég alltaf Maddi nema þegar ég varð að gefa upp hitt nafnið, sem var þá yfirleitt Maginó. En 26 ára gamall fór ég í talkennsluna sem ég hefði átt að fara í 3 ára, 6 ára eða öll hin árin en gerði ekki. Enn þann dag í dag hugsa ég gormælt og verð oft að vanda mig áður en ég segi sum orð og sniðganga önnur.
Eineltið sem ég lenti í var bæði sárt og niðurbrjótandi, þó það hafi vafalaust verið saklaust miðað við það sem aðrir hafa þurft að ganga í gegn um. Auðveldasta leiðin til að fá mig til að þegja, var að einhver hermdi eftir mér. Það var gert í tíma og ótíma. Í tímum í skólanum, á fundum í félögum, á böllum, í frístundastarfi og nefnið það bara. Ef ekki hefði verið fyrir eineltið vegna gormælginnar hefði ég örugglega tekið þátt í ýmis konar starfi á mínum unglingsárum, sem ég tók ekki þátt í. Gefist tækifæri sem ég fékk ekki. En ég passaði mig að halda mig innan hópsins, þar sem ég taldi mig öruggan. Og í hvert sinn sem ég hætti mér út fyrir hann, þá bjó ég mig undir árásina sem ég vissi að kæmi og hún lét sjaldnast bíða lengi eftir sér. Ég held ég megi segja, að eina ókunna fólkið sem lét mér líða vel í návist sinni á þessum árum, voru nokkrir krakkar á Seyðisfirði sem ég átti kvöldstund með sumarið 1977 eða 8. Og ástæðan? Jú, á Seyðisfirði bjó maður sem var svo illa málhaltur að fólk hafði skilning á vandanum.
Erfiðasti tíminn var líklega menntaskólaárin. Þar voru fjölmargir einstaklingar, sem eru margir hverjir virtir þjóðfélagsþegnar í dag, sem töldu það heilaga skyldu sína að minna mig á það helst daglega að ég gæti ekki sagt nafnið mitt rétt. Meira að segja kennari við skólann tók þátt í þessum einkennilega leik. Þetta snerist upp í það, að eðlilegt þótti að hafa mig að skotspæni. Ekki bara út af málheltinni heldur bara öllu sem mönnum datt í hug. Menntaskólaárin voru vissulega góð ár, en þeim fylgdi samt nýtt sár á nánast hverjum degi og þó maður hafi stundum verið ónæmur fyrir stungunum, þá vissi maður aldrei nema næsta yrði verri en þær sem á undan komu. Og í hverjum mánuði datt mönnum eitthvað nýtt í hug og það þurfti ekkert að koma gormælginni við. Ég var einfaldlega samþykkt skotmark.
Ég vissi svo sem alveg hvernig ég gat snúið á suma kvalara mína. Ég vann þá í íþróttum, ræðukeppnum, kosningum um embætti í skólanum og hverju því sem var að slá þeim við. Enginn hafði mig heldur undir í rökræðum. Það sem ekki brýtur mann, styrkir mann, segir einhvers staðar. Hugsanlega, en spurningin er ekki hver styrkur þinn er í dag vegna óvæginna árása fyrri ára, heldur hver hefði styrkur manns getað orðið hefði maður nýtt þau tækifæri sem buðust en þorði ekki að nýta vegna óttans við laumulega árás lítilmenna. Svo má ekki gleyma tækifærunum sem manni buðust ekki vegna þess að ekki þótti boðlegt fyrir "elítuna" að málhaltur maðurinn væri í starfinu. Ég er alveg klár á að margt rann mér úr greipum vegna þess að ég var ekki boðlegur, þar sem ég gat ekki sagt err.
Kaldhæðin er, að það var ekki fyrr en ég fór í nám í Bandaríkjunum, sem ég áttaði mig á því að til var líf án þessa eineltis. Það var líka á milli skólaáranna í Bandaríkjunum að ég skráði mig í talkennslu og vann að mestu leiti á talgallanum. Já, það var sumarið 1987 og fólk í kringum mig minntist aldrei á það. Aldrei. Ekki einn einasti maður nefndi það við mig. Jú, einhverjir gerðu það 5 eða 6 árum síðar og þá fannst mér eins og þeir gerðu það í eftirsjá vegna þess að eineltistilefnið var horfið!
Ég vann mig út úr þessu, en finn við að skrifa þennan texta að stutt er í særindin og gremjuna. Það sem verra er, ekki er langt síðan ég hitti manneskju sem kallaði mig Maginó. Komin á fimmtugsaldur, þá var þroskinn ekki meira en þetta hjá þessari manneskju. Ég lenti oft í þessu milli þrítugs og fertugs og velti því þá fyrir mér, hvers vegna ég væri að búa í þessu þjóðfélagi. Fólki er bara ekki sjálfrátt, þegar því líður illa. Lausnin er þá að upphefja sig á kostnað annarra.
Vegna minnar reynslu passaði ég upp á að börnin mín fengju strax viðeigandi talþjálfun. Ég hef líka gefið mig á tal við gormælta einstaklinga og hvatt því til að fara í talþjálfun. Þeir hafa alltaf tekið ábendingu minni vel, en fólk í kringum þá sagt það vera óþarft. Bara svo það sé á hreinu. Það er aldrei óþarfi að fjarlægja þann þátt úr lífi einstaklings sem dregur úr sjálfstrausti viðkomandi og gefur öðrum tækifæri til að níðast á honum. Þeir sem leggja aðra manneskju í einelti, leita alltaf af veikasta blettinum hjá viðkomandi og hamast á honum, þar til eitthvað lætur undan.
Mín aðferð til að flýja eineltið var að yfirgefa svæðið, ef það var mögulegt. Slíkt er ekki alltaf hægt. En þó ég hafi aldrei verið laminn eða á annan hátt gengið í skrokk á mér, þá voru sárin mörg og djúp á sálina. Og ekki má gleyma varanlegu áhrifunum, sem eru þau, að fáir komast að mér í dag og ég umgengst nánast ekkert þá sem ég þekkti á þessum árum. Ekki endilega vegna þess að þeir væru beinir gerendur, heldur vegna þess að þeir voru annað hvort hlutlausir áhorfendur eða bara hluti af umhverfi sem mig langar ekkert að tengja mig lengur við.
Bara svo allt sé á hreinu, þá hef ég ekki áhuga á að skipta á því lífi sem ég lifi í dag og einhverju öðru sem mér hefði hugsanlega boðist. Allt hefur sinn tilgang og engin er rósin án þyrna. Ég er ekkert viss um að einhver önnur braut hefði boðið upp á færri þyrna, þeir hefðu bara verið öðruvísi. En þessi reynsla mín hefur mótað mig og mótar það hvernig ég el upp börnin mín og kem þeim til varnar, þegar mér finnst þau vera beitt órétti. Því miður hef ég ekki alltaf brugðist nógu skjótt við.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Bloggfærslur 14. nóvember 2012
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði