28.1.2013 | 14:15
Ábyrgð ríkissjóðs á Icesave hafnað
Fagna ber niðurstöðu EFTA dómstólsins í þessu máli og er óhætt að segja að hér hafi Davíð lagt Golíat. Áhugavert er að sjá, að dómstóllinn heldur sig í rökleiðslu sinni mjög stíft við innihald tilskipunar 94/19/EB. Þar fer því að mínu viti saman lagahyggja og rökhyggja.
EFTA-dómstóllinn er mjög ákveðinn í þeirri skýringu sinni, að tilskipunin leggur enga ábyrgð á ríki um að greiða. Hvorki væri ákvæði innan tilskipunarinnar um hvað ætti að gera, ef tryggingasjóð þryti fé, né leið fyrir innstæðueiganda til að sækja á ríki um lágmarkstryggingu í slíku tilfelli. Innstæðueigandi gæti bara sótt á tryggingasjóðinn í síðara tilfellinu.
Niðurstaða sem ég gerði ráð fyrir
Ég er einn af þeim sem hef tjáð mig ítrekað um þetta mál hér á þessari síðu. Í öllum mínum pistlum um málið gerði ég ráð fyrir þessari niðurstöðu, hvort heldur var í umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave, um áminningarbréf ESA og síðast ákvörðun ESA um að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn. Skoðum þá punkta sem ég hef nefnt:
Innleiðing á tilskipuninni hér á landi. EFTA-dómstóllinn gerir ekki athugasemd við innleiðingu Íslendinga á tilskipuninni og er það í raun í samræmi við niðurstöðu ESA árið 2002. (Málaferli ESA og Icesave samningurinn eru tvö óskyld mál)
Ábyrgð ríkisins á TIF. Skýrt er tekið fram í tilskipuninni að engin ríkisábyrgð getur verið á skuldbindingum TIF:
Whereas this Directive may not result in the Member States' or their competent authorities' being made liable in respect of depositors if they have ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognized;
Vart er hægt að orða þetta skýrar. Sé fyrir hendi kerfi til að ábyrgjast innlán, þá verða stjórnvöld ekki gerð ábyrg. Nú kerfið var til staðar. (Hvernig sem fer tapar þjóðin)
Mismunun eftir þjóðerni. EFTA-dómstóllinn kemst að því að ekki var um slíka mismunun að ræða, en á annarri forsendu en flestir sem fjölluðu um þetta atriði gerðu. Hann einfaldlega segir að ekki hafi komið til mismununar, þar sem aðstæður voru ekki sambærilegar. Ég og fleiri byggðum okkar skoðun á því að allir hafi verið varðir með því að færa innstæður til í kröfuröð. Sama niðurstaða en gjörólík lagarök.
Varðandi þessa síðustu málsástæðu, þá segir þó EFTA-dómstóllinn nánast beint út, að hefðu Bretar og Hollendingar ekki takmarkað málsástæðuna við lágmarkstrygginguna, þá hefði líklegast verið ástæða til að fallast á þess mismunun. Er það í samræmi við mína skoðun á þessu atriði, þ.e. hér á landi fengu allir aðgang að öllum fjármunum, en erlendis fengu menn bara aðgang að hluta fjármuna.
Góður sigur en er málinu lokið?
Lítið fer á milli mála, að niðurstaðan í morgun er góður sigur. Við sem voru mótfallin Icesavesamningunum getum núna barið okkur á brjósti og sagt okkur hafa farið með rétt mál.
Hinir verða að bíta í það súra, að viðurkenna að þeir hafi haft rangt fyrir sér.
Í mínum huga er þessu máli þó ekki lokið. Eftir er að ljúka Icesavesamningunum, þar sem ljóst er að TIF fékk lán hjá Bretum og Hollendingum til að greiða lágmarkstrygginguna. Á TIF falla líklega háir vextir og spurningin er hvort þeim verður velt yfir á þrotabú Landsbanka Íslands. Þá er hópur innstæðueigenda, sem ekki fékk greitt út á sama tíma og aðrir. Þessi hópur gæti sótt bætur til TIF.
Kostnaðurinn sem gæti fallið á TIF er því upp á milljarða tugi. Þessir peningar verða, samkvæmt tilskipuninni, bara sóttir til fjármálafyrirtækja sem eru aðilar að TIF. Verum viss um að það mun skila sér í hærri útlánsvöxtum.
Nú er samt rétt að fagna niðurstöðunni frá því í morgun sem sigri þjóðarinnar gegn tilraun ESA, ESB, Breta og Hollendinga til að kúga okkur til undirgefni.
Ísland vann Icesave-málið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.1.2013 | 19:55
Allt tekið að láni - Endurbirt færsla
Fyrir nánast þremur árum birti ég færsluna sem hér er endurbirt í tilefni væntanlegs uppgjörs vegna skulda Skipta, móðurfélags Símans. Þeir sem rýna í fréttir um það mál, hafa komið auga á að þegar Exista keypti tæplega helmingshlut í Símanum af ríkinu, þá virðist sem Exista hafi ekki lagt krónu í kaupin. Allt var tekið að láni. Um þetta fjallaði einmitt færslan mín hér fyrir þremur árum, þ.e. ótrúlegt auraleysi meintra auðmanna. Þeir skömmtuðu sér háar upphæðir í arð frá þeim félögum sem þeim tókst að komast yfir, en áhætta þeirra við kaupin voru engin, þar sem búin voru til leppfyrirtæki með lágmarksfjárframlagi og síðan tekin lán fyrir öllum pakkanum. Tekið skal fram að þegar ég skrifaði færsluna, þá var ekki allt komið fram sem núna er vitað og var margt byggt á ágiskunum og innsæi. Því miður þá hafði ég ekki rangt fyrir mér í einu einasta tilviki. En hér er færsla sem birtist 11. febrúar 2010.
Tikk-tikk-tikk, tímasprengjan tifar, almenningur er að springa
Ég hef aldrei upplifað eins ástand og núna er í þjóðfélaginu. Hver afhjúpunin á fætur annarri um viðskipti svo kallaðra auðmanna, þar sem í ljós kemur að þeir áttu ekkert annað en nafnið, veltur yfir landsmenn. Ólafur Ólafsson átti ekki einn aur í því sem notað var til að kaupa hlutabréf í hinu eða þessu fyrirtæki. Jón Ásgeir Jóhannesson átti ekki einn aur í því sem notað til að kaupa hlutabréf í hinu eða þessu fyrirtæki. Brim keypti Icelandic Group og átti ekki einn aur af þeim peningum sem notaðir voru við kaup á félaginu. Jóhannes Jónsson býr í lúxusvillu sem hann hefur ekki lagt einn aur í. Hinir svo kölluðu auðmenn voru upp til hópa menn án peninga eða að þeir hættu aldrei sínu eigin aur í þær fjárfestingar sem þeir tóku þátt í. Veldi þeirra var loftbóla byggð á afleiðum.
Hér á landi byggðust eignir "auðmanna" á hlutabréfum sem þeir höfðu "keypt" í bönkunum. Kaupverðið hafði nánast alltaf verið að fullu tekið að láni hjá bönkunum sjálfum í gegn um eitthvað leppfélag. Peningurinn kom úr bankanum, tók tvo, þrjú hopp og skiluðu sér svo aftur inn í bankann, þar sem hlutabréfin voru oftast keypt af aðila sem notaði peninginn til að gera upp skuld við bankann. Nú hlutabréfin í bönkunum voru svo notuð sem trygging fyrir lánum sem notuð voru til að kaupa önnur hlutabréf, sem notuð voru sem trygging fyrir nýjum lánum, sem notuð voru til að kaup enn önnur hlutabréf, sem notuð voru sem trygging fyrir enn öðrum lánum, o.s.frv. Hvergi í allri keðjunni er lögð til ein króna af eigin fé. Eins og allir vita, þá er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn og fall bankanna haustið 2008 varð til þess að keðja brast. Málið er að nær öll hlutabréfaeign "auðmanna" hékk saman í svona keðju sem er að leysast upp, eins og þegar lykkjufall verður. Allir sem þekkja til prjónamennsku vita að nóg er að ein lykkja falli til að allar lykkjur fyrir ofan missa festingu sína og ef ekki er gripið í snarhasti til heklunálarinnar, þá getur flíkin eyðilagst.
"Auður" íslenskra "auðmanna" lítur núna út eins og peysa alsett lykkjuföllum. Hann er að engu orðinn. Hann var líklegast enginn allan tímann. Það var allt fengið að láni. Dapurleg staðreynd, sem margir af þessum mönnum munu þurfa að lifa við sem eftir er ævi sinnar. Þeir skreyttu sig með stolnum fjöðrum og gengu um í nýju fötum keisarans.
Þetta var hin opinbera eignahlið á "viðskiptaveldi" þeirra, en hvað með hina óopinberu hlið. Það runnu jú stórar fjárhæðir til þeirra út úr félögum "viðskiptaveldisins". Þessar fjárhæðir virðast vera týndar nema þær hafi bara horfið í hítina. Satt best að segja, þá held ég að stór hluti af þessum peningum séu löngu búnir í eyðslufylleríi "auðmannanna" og þegar sjóðirnir tæmdust, þá var eina leiðin til að tryggja meira aðgang að peningum að kaupa banka.
Ég sagði að ástandið í þjóðfélaginu væri viðkvæmt. Það er allt við að springa. Almenningur sér flett ofan af hverri svikamyllunni á fætur annarri. Við þurfum að horfa upp á bankana leysa til sín hvert fyrirtækið á fætur öðru. Fyrirtæki sem "auðmennirnir" og leppar þeirra áttu að nafninu til, en bankarnir áttu í raun og veru. "Auðmenn" og leppar sem hafa lifað hátt á okkar kostnað og við eigum að borga reikninginn. "Auðmenn" og leppar þeirra eru að fá allar sínar skuldir felldar niður vegna þess að þeir kunnu á kerfið og höfðu her lögmanna á sínum snærum, en í almenning er kastað brauðmolum. Jón Ásgeir fær meiri afskrift í einni færslu hjá einu af svo kölluðu fyrirtækjum hans, en öll heimili landsins fá af húsnæðislánum sínum! Þess vegna er almenningur að springa. Og eins og einn bankamaður komst svo snilldarlega að í dag, þá verður fólk "að sætta sig við það". Ég viðurkenni það fúslega, að það sauð á mér við þessi orð sem viðhöfð voru í hópi fólks sem er að fást við vanda almennings alla daga, hver á sinn hátt. Málið er að við þurfum ekki að sætta okkur við það og við eigum ekki að sætta okkur við það. Það verður bankinn að sætta sig við.
En það var ekki bara viðskiptaveldi "auðmannanna" sem var svikamylla. Eignasafn gömlu bankanna sem tengdist viðskiptum við "auðmennina" var ekki byggt á neinu. Viðskiptalíkan gömlu bankanna byggði á afleiðuviðskiptum, þ.e. loftbólu eða sápukúlu. Eða á ég að nota kunnuglega samlíkingu við lauk úr bíómynd. Hvað er inni í lauk? Maður flettir hverju laginu á fætur öðru af og innst er ekkert. Það er enginn kjarni í lauk og þannig var það með kröfur bankanna á "auðmennina". Það var ekkert þar að baki. Ekkert. Þrátt fyrir það mokuðu bankarnir peningum í "auðmennina", sem eru núna að fá allar sínar skuldir felldar niður vegna þess að þessir sömu bankar hjálpuðu "auðmönnunum" að komast hjá því að taka ábyrgð. Það sem meira er, verið er að aðstoða þessa sömu "auðmenn" við að eignast aftur fyrirtækin sem þeir stjórnuðu en áttu raunar aldrei neitt í. Svo virðist sem "auðmennirnir" munu "eiga" meira eftir uppgjörið, en þeir áttu nokkru sinni áður. Þess vegna er almenningur að springa.
Tikk, tikk, tikk - búmm!
HRUNIÐ | Breytt 6.12.2013 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.1.2013 | 23:42
Á ósvífnin sér engin takmörk?
Svipan birti frétt í gær laugardag undir fyrirsögninni Lánveitandinn reyndi að innheimta afborganir af skuldabréfi sem hann hafði selt. Í fréttinni er því haldið fram að a.m.k. eitt fjármálafyrirtæki og líklegast fleiri hefðu haldið áfram að innheimta lán, sem þau áttu alls ekki og höfðu því engan rétt á að innheimta. Fjármálafyrirtækin eru ekki nefnd á nafn, en sagt berum orðum að um banka sé að ræða.
Ásökunin sem sett er fram í frétt Svipunnar hljóðar upp á, að banki hafi selt lán til hollensks fjármálafyrirtækis, en þrátt fyrir það látið líta út gagnvart lántakanum að bankinn væri ennþá lögmætur kröfuhafi. Þegar lántakinn/greiðandinn óskaði eftir því að sjá frumrit skuldabréfsins, þ.e. gerði meira en óska eftir "staðfestu" afriti, þá tókst bankanum ekki að sýna fram á að hann hefði skuldabréfið í vörslu sinni. Við frekari eftirgrennslan kom í ljós að viðkomandi skuldabréf hafði verið selt til hollensks fjármálafyrirtækis fyrir talsverðum tíma og að hollenska fjármálafyrirtækið hafði strax afskrifað bréfið til að nýta þarlend lög um skattaafslátt (eða lækkunar á skattskyldum tekjum/eignum). Eftir að það komst upp greiddi íslenski svikarinn, því þetta er ekkert annað en rakin fjársvik, háar upphæðir til að þagga málið niður.
Nú veit ég ekkert hvort umrædd saga sé sönn, en verð þó að viðurkenna, að ég hef haft veður af svona löguðu, en þó bara sem kjaftasögum. Þessi ásökun er samt svo alvarleg að hana verður að rannsaka. Þar sem viðkomandi banki er ekki nafngreindur þá liggja allir undir grun. Raunar segir í fréttinni, að fleiri en einn banki eigi í hlut.
Ég ætla ekki að fara að geta mér til opinberlega hvaða bankar eiga í hlut. Ég er þó þess full viss að Svipan hefði ekki birt þessa frétt sína nema vera með áreiðanlegar heimildir fyrir henni.
Traustið endanlega farið
Reynist þessi frétt sönn, þá er einfaldlega endanlega búið að rústa öllu trausti sem bankarnir endurreistu hafa mögulega náð að byggja upp. Staða lántaka er sú, að þeir hafa enga tryggingu fyrir því, að fjármálafyrirtækið sem er að innheimta lán þeirra hafi yfirhöfuð umboð til þeirrar innheimtu. Fyrirtækin sjálf, fyrirtæki sem þau tóku yfir eða jafnvel fyrirtækin sem hrundu gætu hafa selt kröfurnar til einhverra aðila úti í heimi (eða hér á landi) sem keyptu kröfurnar í þeim eina tilgangi að nýta til skattahagræðis.
Hvers vegna er skuldara ekki tilkynnt, þegar kröfuhafaskipti verða á kröfu en kröfuhafanum er tilkynnt þegar skuldaraskipti verða? Af hverju hefur skuldari minni rétt á að vita hver er kröfuhafinn hans, en kröfuhafinn að vita hver er skuldarinn? Af hverju fékk ég ekki tilkynningu frá mínum viðskiptabanka eða sparisjóði, þegar krafan á mig var færð frá einu aðila til annars? Fóru kröfurnar þessa leið eða eru þeir aðilar sem eru að innheimta lánin bara að gera það í umboði einhverra? Af hverju veit ég yfirhöfuð ekki hver er eigandi kröfunnar á mig og veit því ekki við hvern ég á að tala til að fá niðurstöðu í málin? Ég komst t.d. fyrst að því í maí 2012 að Arion banki átti kröfu sem ég var búinn að reyna að semja við Dróma um frá því 24. ágúst 2009! Samt hafði Arion banki ítrekað neitað að semja við mig um kröfuna, þar sem Drómi átti hana!
Ég hef raunar heyrt skýringuna á því af hverju skuldari fær ekki að vita af breytingu á stöðu kröfuhafa. Það er svo flókið og síðan vilja kröfuhafar oft vera nafnlausir! Einmitt, svo hægt sé að svindla á skuldurum eins og lýst er í frétt Svipunnar?
Ótrúlega auðvelt í framkvæmd
Hvort sem þessi frétt Svipunnar er rétt eða ekki, þá er þetta greinilega möguleiki. Upprunalegur kröfuhafi (og þeir sem á eftir koma) getur hvenær sem er selt kröfuna einhverjum andlitslausum aðila en samt haldið áfram að innheimta reglulegar greiðslur af henni, þó viðkomandi hafi engan rétt til þess, í þeirri trú að hinn nýi kröfuhafi sé fyrst og fremst að kaupa kröfuna til að nýta til afskrifta í skattalegu hagræði.
Málið er að þetta er svo auðvelt í framkvæmd. Íslenski svikarinn þarf bara að koma sér í samband við erlendan svikahrapp sem er til í að taka þátt í leiknum. Lánasafn er að nafninu til selt hinum erlenda aðila á fáránlegu undirverði sem strax afskrifar safnið til að nýta sér skattareglur í viðkomandi landi. Íslenski svikarinn fær í sinn hlut 10-15% af andvirði lánasafnsins og getur haldið áfram að innheimta það upp í topp, meðan erlendi svikahrappurinn gefur upp í sínu heimalandi, að lánasafnið sé óinnheimtanlegt, færir heildarupphæð safnsins til gjalda hjá sér og nýtur skattalækkunar sem nemur 20-30% (ef ekki meira) af heildarupphæðinni. Báðir svikararnir fá eitthvað í sinn vasa. Íslenski skuldarinn er hvorki að græða né tapa, en það gera íslenskir skattgreiðendur og skattgreiðendur í heimalandi erlenda svikarans. (Svo er náttúrulega spurningin hvort greiðslur skuldarans af láninu renni inn á reikning fjármálafyrirtækisins eða einhvers annars.)
Staðfest afrit sanna ekkert
Staðfest afrit skuldabréfa hafa hingað til þótt fullnægjandi sönnun fyrir eignarhaldi þess sem leggur afritið fram á kröfunni. Sýslumenn og dómstólar hafa raunar ítrekað látið duga að fjármálafyrirtæki leggi fram slík staðfest afrit. Miðað við frétt Svipunnar, þá eru þau ekki jafnörugg sönnun og ætla þætti.
Minnsta mál er að falsa slík skjöl. Einfaldlega er tekið afrit af skuldabréfi, sem hefur verið selt samverkamanni í svikunum og það geymt í skjalahirslu fjármálafyrirtækisins í staðfrumritsins. Slíkt afrit getur verið ótrúlega nákvæm eftirgerð frumritsins, t.d. ef frumritið hefur verið skannað inn og síðan prentað út. Þegar óskað er eftir staðfestu afriti, er tekið ljósrit af afritinu og á það skráðar upplýsingar um að um staðfest afrit sé að ræða. Jafnvel fyrir fagmann er erfitt að greina hvort ljósrit af skjali sé af frumriti skjalsins eða hvort útprentun innskannaðs skjals hafi verið ljósritað. Er því raunar með ólíkindum, að sýslumenn og dómstólar skuli láta duga að leggja fram staðfest afrit nema að fulltrúi sýslumannsins eða dómstólsins hafi verið viðstaddur þegar hið staðfesta afrit var útbúið og geti vottuð um að um ósvikið skjal sé að ræða. Hér á landi virðist það aftur í verkahring skuldarans að afsanna að skjal sé ósvikið fremur en kröfuhafans að sannað að svo sé.
Sé frétt Svipunnar rétt, þá er kominn upp ótvíræður vafi um hvort staðfest afrit af frumriti staðfesti nokkurn skapaðan hlut. Eins og fram kemur í fréttinni, þá sýndi bankinn lántakanum "allskonar pappíra stimplaða og undirritaða sem staðfest afrit af skuldabréfinu". Þetta reyndist allt vera ómerkilegt skjalafals eða löngu úrelt gögn. Spurningin sem þarf að svara er: Hversu algengt er þetta?
Ósvífni sem á sér engin takmörk
Því miður, þá verð ég að viðurkenna, að ég trúi þessari frétt Svipunnar fullkomlega. Þetta er bara enn eitt dæmið um þá ósvífni sem virðist viðgangast innan íslensku fjármálafyrirtækjanna. Ég hef orðið vitni að alls konar ósvífni og þessi gengur ekki meira fram af mér en margar aðrar. Ég þori til dæmis að fullyrða, að ekki eitt einasta fjármálafyrirtæki á Íslandi fer eftir ákvæðum laga 107/2009 í skuldaúrvinnslu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Nánast alls staðar virðist gilda sú regla, að skuldi skuldari fjármálafyrirtækinu tiltölulega lága upphæði (undir 500 m.kr.) þá frýs fyrr í helvíti en að fjármálafyrirtækið gefi nokkuð eftir fyrr en búið er að strípa skuldarann af öllum eignum og eftir það er viðkomandi helst keyrður í gjaldþrot. Sé skuldin hins vegar yfir 500 m.kr., þá er eins og afskrifað sé hægri-vinstri og viðkomandi heldur öllum eignum sínum að auki. Alls staðar virðist gilda sú regla (fyrir þá sem skulda undir 500 m.kr.), að draga mál á langinn eins og hægt er og gæta þess að á þau hlaðist allur mögulegur og ómögulegur kostnaður og reyni skuldari að halda uppi mótrökum í málinu, þá eru stefnuvottar sendir með hótanir um uppboð og gjaldþrot.
Leið bankanna er allt of oft leið þvingunar frekar en leið umræðu. Því miður fyrir alla hafa bankarnir allt of oft haft rangt fyrir sér í túlkun laga, en það hefur enn ekki orðið til þess, að þeir hafi óskað eftir viðræðum við hagsmunasamtök lántaka til að fá botn í málin. Hversu mörg heimili og fjölskyldur verða svipt öllu sínu og lögð í rúst áður en bankarnir ná áttum? Hversu mörg dómsmál þurfa að falla bönkunum í óhag áður en þeir ná áttum? Hvers vegna láta stjórnvöld bankana vera einráða um svo kölluð úrræði fyrir skuldug heimili og fyrirtæki, þegar ljóst er að þetta eru úrræði fyrir fjármálafyrirtækin til að hafa sem mest af heimilunum og fyrirtækjunum en ekki úrræði í samræmi við ákvæði laga nr. 107/2009 um úrræði fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna banka- og gjaldmiðilshruns. Ég veit ekki svörin, en í mínum huga er ljóst að almenningur mun ekki ná rétti sínum nema í gegn um dómstóla.
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
4.1.2013 | 00:50
Eldfjöll á Íslandi - Allt frá hurðasprengjum upp í stærstu bombur en ekki dómsdagssprengjur
Áhættustjórnun | Breytt 6.12.2013 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.11.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 81
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 73
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði