Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017

Verðtrygging - böl eða blessun?

Samþykkt þessara ákvæða, þótt aðeins sé i heimildarformi, getur aðeins vakið tálvonir um úrlausnir eftir ófærum leiðum og dregið athyglina frá aðalatriðinu, að til er ein örugg leið til verðtryggingar á sparifé, sem sé að forðast það, sem verðrýrnuninni veldur, sjálfa verðbólguna. 

Umsögn bankastjóra Landsbanka Íslands til Alþingis árið 1966 um heimild til verðtryggingar lánsfjár

 

Lög nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála o.fl., almennt kölluð Ólafslög í höfuðið á Ólafi Jóhannessyni þáverandi forsætisráðherra, tóku gildi 10. apríl 1979.  Með lögunum var m.a. heimiluð verðtrygging lánsfjár.  Þar sem þetta átti að vera tímabundin lausn, hefur nokkrum sinnum komið upp sú umræða að fella niður ákvæði lagana um heimild til að verðtryggja lánsfé, en því hefur jafnan verið hafnað sem algerri fásinnu.  Ég tel það vera löngu tímabært, a.m.k. hvað neytendalán varðar.

Mikil verðbólga hafði geisað nær allan 8. áratuginn.  Meðalverðbólga frá maí 1972 fram til setningu Ólafslaga var 34,3%.  Sparifé og lífeyrissparnaður brann upp og var það því nánast fáviska að geyma pening inni á einhvers konar sparnaðarreikningum.  En stjórnvöld hefðu betur hlustað á ráð bankastjóranna frá 1966, því hafi menn ætlað að ná stjórn á verðbólgunni, þá misheppnaðist það algjörlega.

Frá maí 1979 til ársloka 1983 fór verðbólgan fyrst af alvöru á flug.  Nokkra mánuði á þessu tímabili jafngilti hækkun vísitölu milli mánaða um og yfir 100% ársverðbólgu. Toppaði í 10,4% hækkun milli febrúar og mars 1983 sem jafngildir 229,6% ársverðbólgu!  Ársverðbólgan fór hins vegar hæst í 102,8% í ágúst 1983.   Meðalverðbólga á þessu tímabili var 58,5%.  Hélst verðbólgan óásættanlega há allt fram að Þjóðarsáttarsamningum árið 1990., þannig að allt tal um að verðtryggingin hafi komið böndum á verðbólguna er því eitt stórt kjaftæði.  Það voru samningar á vinnumarkaði sem sigruðu verðbólguófreskjuna.

Líklegast átta fáir sig á því að sú útfærsla á verðtryggðum lánum, sem við þekkjum í dag, þ.e. að leggja verðbætur mánaðarlega ofan á eftirstöðvar höfuðstóls, var bara heimildarákvæði, þegar verðbólgan væri mikil, en annars ætti að greiða verðbætur eins og um vexti væri að ræða.  Form verðtryggingarinnar, eins og við þekkjum hana, var sem sagt að vera plan B, þegar illa áraði.

ver_bolga_1972-1990.jpg

Mynd 1 Verðbólga fyrir og eftir Ólafslög og fram yfir Þjóðarsáttarsamninga.  Rauða línan á sýnir þegar Ólafslög voru sett. (Heimild: Hagstofa Íslands)

Áhrif verðtryggingarinnar

Markmið Ólafslaga var að verja sparifé.  Ekki er þó ljóst hvort það hefur tekist, því almenningur átti mest lítið sparifé, þegar hún var sett á.  Hinir raunverulegu sparifjáreigendur voru hinir efnuðu.  Eins og fyrr segir bjó verðtrygging til verðbólguskrímsli í upphafi.  Það var ekki fyrr en verðtrygging launa var afnumin, að verðbólga fór að lækka og raunar er ekkert sem bendir til að verðtryggingin hafi nokkur þátt átt í að svo varð.  Verðbólgan hélt áfram að malla, þar til Þjóðarsáttarsamningarnir svo kölluðu voru gerði í febrúar 1990, um hóflegar kjarabætur á vinnumarkaði.  Það er því mun frekar hægt að tengja stöðugleika við kjarasamninga en verðtrygginguna.  Mitt álit er að verðtryggingin hafi frekar neikvæð áhrif á verðbólgu, en jákvæð, enda býr verðtryggingin til peninga, þegar verðbætur leggjast á eftirstöðvar lánanna og ekki þarf mikinn snilling í hagfræði til að þekkja tengsl aukins peningamagns við verðbólgu.

Verðtryggð lán

Ein af afurðum Ólafslaga voru verðtryggð lán.  Mikið er deilt um kosti þeirra og í staðinn fyrir að sækja rök til innlendra aðila, þá langar mig að vitna í vefsíðu hjá ísraelska húsnæðislánafyrirtækinu First Israeli Mortgages, þar sem fyrirtækið er að bera saman ýmsa kosti, m.a. verðtryggð lán.  Kaflinn sem fjallar um verðtryggð lán heitir The best loan for you (if you are a bank) og held ég að það segi allt sem þarf að segja.

Á meðfylgjandi línuriti sést þróun 40 ára verðtryggðs láns tekið í byrjun maí 1988.  Lánsfjárhæð er 10 m.kr. og það ber 4,9% verðtryggða vexti.  Fram til apríl 2016 er notuð raunveruleg verðbólga, en 2,5% eftir það.

ver_trygging_40_ara_lan_dv.jpg

Mynd 2 Þróun 10 m.kr. verðtryggðs láns til 40 ára með 4,9% vöxtum tekið 1.5.1988.  Sýnt með raunverðbólgu til apríl 2016 og 2,5% verðbólgu eftir það. (Útreikningar höfundar)

Eftirstöðvar lánsins eru byrjaðar að lækka eftir að hafa stigið samfellt í 24 ár!  Lækkunin er nokkuð skörp síðustu mánuðina, en það er bæði vegna þess að verðbólgan hefur verið undir 2,5% í talsvert langan tíma og að mánaðarlegar greiðslur eru orðnar gríðarlega háar eða ríflega fjórföld upphafsgreiðslan.  Í þessu sýnidæmi stefnir lokagreiðslan á 276.000 kr. miðað við 2,5% verðbólgu, þar sem eftir lifir lánstímann.

Á 40 árum (miðað við forsendur útreikninganna) verða heildargreiðslur 73,9 m kr. eða ríflega 7-föld lánsfjárhæðin.  Skiptist hún sem hér segir:  Höfuðstóll 10 m.kr., verðbætur á eftirstöðvar og vexti rúmar 51 m.kr., vextir tæpar 13 m.kr.

Yfirfærum þetta nú yfir á öll verðtryggð lán heimilanna.  Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands stóðu eftirstöðvar þeirra í um 1.236 milljörðum króna þann 31.12.2015, en stóðu í 444 ma.kr. í árlok 1999, sem þýðir hækkun um tæpar 792 ma.kr.  Hvað ætli stór hluti þessara 792 ma.kr. séu verðbætur?  Ég hef reiknað það gróflega út og fæ að verðbætur upp á 812 ma.kr. hafi lagst á verðtryggð lán heimilanna frá 1.1.2000 til 31.12.2015.  Sem sagt öll hækkun eftirstöðva verðtryggðra skulda heimilanna á 16 ára tímabili má rekja til verðbóta!  Á þessu tímabili greiddu heimilin gróft áætlað 475 ma.kr. í afborganir (bæði af upprunalegum höfuðstóli og verðbótum, leiðréttingin meðtalin) og líklegast ekki undir 633 ma.kr. í vexti (miðað við 4% vexti, sem örugglega eru of lágir).  Ný lántaka heimilanna hefur þá verið 455 ma.kr.  Ef lánin hefðu verið óverðtryggð og sleppum vöxtunum út úr myndinni, þá væru eftirstöðvar lánanna 424 ma.kr., þ.e. 20 ma.kr. lægri upphæð, en var í árslok 1999.

Nú er þetta kannski ekki alveg svona einfalt, því verðbættar eftirstöðvar lána hafa verið notaðar við fasteignaviðskipti og því hefði þurft að taka hærri viðbótarlán til að fjármagna húsnæðiskaup, hvort sem verðþróun húsnæðis hefði orðið sú sem hún varð, en líka þó hún hefði orðið mun hóflegri.  Einnig hefðu vextir lánanna orðið hærri. Ólíklegt er þó að húsnæðisskuldir heimilanna væru eitthvað nálægt þeim 1.236 ma.kr., sem verðtryggð lán stóðu í um síðustu áramót.  Reikna ég frekar með á bilinu 600-800 ma.kr.   Mikilvægast af öllu væri þó að eftirstöðvarnar lækkuðu með hverri greiðslu!

Dæmi um skaðsemi verðtryggingarinnar

Líklega skaðar verðtryggingin mest samkeppnishæfi þjóðarinnar.  Það er vegna þess, að hún ýtir undir þörf launafólks fyrir launahækkanir.  Þessi sjálfvirka viðbót ofan á eftirstöðvar skulda, sem verðtryggingin veldur, verður til þess að kauphækkunin, sem kom í síðasta mánuði, er kannski horfin.  Líklegt er að í óverðtryggðu umhverfi, þá héldi lánveitandi að sér höndum með vaxtabreytingar til að sjá hvort um lengri tíma breytingu á verðbólgu var að ræða eða bara stutt skot.  Einnig er líklegt að hægt væri að fá lán með föstum vöxtum til nokkurra ár og þá hefði stundarverðbólga engin áhrif á vaxtabyrði lánanna.  En í verðtryggðu lánakerfi, þá er engin miskunn, allar hreyfingar á verðlagi leggjast á eftirstöðvarnar.

Til að skilja þessa skaðsemi fyrir launagreiðendur, þá vil ég sýna næmnigreiningu á 40 ára láninu að ofan.  Miðað við 2,5% verðbólgu, þá endar lokagreiðslan í 276.000 kr.  Verði meðalverðbólgan 5%, þá fer lokagreiðslan af láninu í 373.000 kr., en „aðeins“ 204.000 kr.  væri lánið óverðtryggt frá og með deginum í dag og á sömu vöxtum.  Verðtryggingin er því að kosta lántakann háar upphæðir á mánuði.  Tökum muninn á 0% verðbólgu og 2,5%, sem gefur okkur 72.000 kr.  Sá sem er að greiða yfir 200.000 á mánuði af láni, er búinn að fullnýta persónuafsláttinn.  Til að eiga fyrir 72.000 kr. greiðslu ofan á 204.000 kr. þarf hátt í 120.000 kr. aukalega í tekjur.  Svo launagreiðandinn geti greitt 120.000 kr. aukalega í laun, þarf hann líklegast að auka tekjur sínar um 6-8 falda þá upphæð, allt eftir því hvaða álagningarprósenta er notuð, þannig að 72.000 kr. hærri greiðsla af láni verður allt í einu að 720-960 þús.kr.  tekjuþörf hjá launagreiðandanum.  Miðað við þetta er alveg ótrúlegt, að Samtök atvinnulífsins skuli ekki berjast af fullum þunga fyrir afnámi verðtryggðra neytendalána og að á Íslandi verði komið á óverðtryggðu lánakerfi, þar sem lántökum bjóðast hóflegir vextir.

(Þessi færsla var upprunalega skrifuð sem grein að ósk Eggerts Skúlasonar, þáverandi ritstjóra DV, til birtingar í blaðinu.  Átti hún að birtast í apríl eða maí 2016.)

 


Verðstöðugleiki Seðlabankans – fíkillinn þarf sífellt stærri skammt

Morgunblaðið birti meðfylgjandi grein eftir mig 29. mars. sl.  Fór alveg framhjá mér að búið væri að birta hana!

Eftir Marinó G. Njálsson: "Er Seðlabankinn að endurtaka sömu mistök og fyrir hrun? Að berjast við verðbólgu sem hefur ekkert með virðisrýrnun gjaldmiðilsins að gera."

Peningamálastefna Seðlabanka Íslands er rekin á þeim grunni að hún skuli stuðla að verðstöðugleika. En hvaða verðstöðugleika er Seðlabankinn að vernda?

Verðbólguþróun og stýrivextir fyrir hrun

Undanfarin þrjú ár hefur verðbólga verið lág á Íslandi í sögulegu samhengi. Þó ber að nefna að verðbólgan var einnig að mestu lág á árunum 1993 og fram til ársbyrjunar 2006, þótt hún sveiflaðist á köflum nokkuð. Þetta eru því ekki alveg nýir tímar. Svo merkilegt sem það nú er hélt Seðlabankinn þá, alveg eins og hann heldur núna, að háir stýrivextir væru allra meina bót. Í 2,9% verðbólgu í maí 2004 ákvað bankinn t.d. að hækka vexti sína úr 9,0% í 9,5%.

Með þessu var bankinn að reyna að draga úr hröðum útlánavexti frá bankakerfinu. En bankinn rak sig þá á þá staðreynd að þegar mikil bjartsýni ríkir og hagnaðarvonin er sterk eru stýrivextir máttlaust tól til þess að draga úr útlánavexti. Niðurstaðan var stöðugt hækkandi verðbólga og stöðugt hækkandi stýrivextir allt þar til allt hrundi. Látum eina tilraun með þessari aðferð duga og prófum eitthvað annað núna.

Hvaða verðstöðugleika er verið að verja?

Seðlabankamönnum er tíðrætt um að þeir séu með peningastefnu bankans að verja verðstöðugleikann. Ég vil spyrja: Hvaða verðstöðugleika er verið að verja? Ég vil nefnilega halda því fram að bankinn sé að rústa verðstöðugleikanum til framtíðar með skammsýnum aðgerðum sínum.

Skipta má verðbólgunni upp í fjóra þætti: innlenda eftirspurnarverðbólgu (þ.e. verðbólgu sem á sér stað vegna mikillar eftirspurnar eftir almennum vörum og þjónustu), innlenda framboðsverðbólgu (þ.e. verðbólgu uppruna vegna innlendra kostnaðarhækkana á vöru og þjónustu), innflutta verðbólgu (þ.e. verðbólgu sem verður vegna innfluttra kostnaðarhækkana á vöru og þjónustu) og húsnæðisverðbólgu. Hækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðarins hefur upp á síðkastið verið lítil eða neikvæð. Á meðan hefur húsnæðisverðbólgan verið í hæstu hæðum.

Nú myndi maður halda að Seðlabankinn reyndi að beita einhverjum ráðum til að hemja hækkunina á húsnæðisverði, því hún drífur almennt verðlag upp á við. Málið er hins vegar að bankinn hefur ekki mörg úrræði, þar sem hækkunin á húsnæðisverði er drifin áfram af skorti á húsnæði. Því hefur bankinn gripið fegins hendi að gengið hefur verið að styrkjast, sem leitt hefur til þess að hinir aðrir meginflokkar vísitölunnar hafa ýmist verið í eða nálægt verðhjöðnun. Gallinn er að á meðan húsnæðisverðið heldur áfram að hækka þarf gengið að halda áfram að styrkjast til að vega á móti húsnæðisverðbólgunni. Seðlabankinn er eins og fíkill í afneitun sem vill sífellt stærri skammt til að halda sér stöðugum. Kaldhæðnin er að verðbólga er, samkvæmt skilgreiningu, virðisrýrnun gjaldmiðilsins, en hækkun húsnæðisverðs er vegna skorts. Sá skortur hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera.

Hvað gerist nú þegar gengishækkunarskammturinn er orðinn of stór? Jú, gengið hættir að hækka. Fíkillinn mun því ekki fá þann skammt sem hann þarf til að halda sér stöðugum og hann fer í fráhvarf. Seðlabankinn er að búa til verðóstöðugleika með aðgerðum sínum því gengi krónunnar verður óstöðugt til langs tíma. Spurningin er ekki hvort verðbólgan fari af stað, heldur hve mikil verðbólgan verði. Við vitum síðan að þegar verðbólgan fer af stað mun fíkillinn reyna allt hvað hann getur til að fá gengishækkunarskammtinn sinn með því að keyra upp vextina. Kannski bankinn þurfi að læra af meðferð fíkla og best sé að fara í gegnum fráhvarfið því það er mikilvægur hluti bataferlisins.

Í hverju felst afneitun Seðlabankans?

Misskilningur Seðlabankans felst í því að hann heldur að hægt sé að hækka vexti bankans til að slá á húsnæðisverðbólguna. Eins og áður segir er hækkun húsnæðisverðs fyrst og fremst vegna skorts á húsnæði. Seðlabankinn getur ekki aukið framboð á húsnæði, hvað sem hann reynir. Það sem bankinn getur gert er að hugsa upp á nýtt hvaða verðbólgu hann er að kljást við með vöxtum sínum. Háir vextir geta ekki aukið framboð á húsnæði. Það er frekar að þeir dragi úr framkvæmdavilja þeirra sem vilja byggja húsnæði, þar sem framkvæmdaaðilar þurfa að fjármagna framkvæmdir þar til fokheldisvottorð fæst og hægt er að þinglýsa langtímalánssamningum á eignirnar. Þá er fjármagnskostnaður hátt hlutfall þess kostnaðar að byggja húsnæði og þessum háa fjármagnskostnaði velta þeir sem byggja húsnæðið yfir í verðlagið á því, alveg eins og almenn fyrirtæki velta olíuverðshækkun yfir í verðlag sinna vara. Eðlilegt er því að bankinn hunsi þá verðbólgu sem hækkun húsnæðisverðs veldur (a.m.k. í núverandi ástandi) og noti aðrar mælingar við mat á verðhækkunum við vaxtaákvarðanir sínar. Þar liggur beinast við að nota samræmda vísitölu neysluverðs og þá fyrst og fremst vegna þess að hana er hægt að nota til að bera saman verðhækkanir á milli landa.

Mér sýnist almenningur þurfa að búi sig undir hærri verðbólgu á komandi mánuðum eða enn eina harða lendingu íslensks efnahagslífs.

Höfundur er með verkfræðigráðu í aðgerðarannsóknum frá Stanford-háskóla.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband