Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2015

Snákar og stigar nýgerðra kjarasamninga

Það kannast margir við borðspil sem almennt er kallað Snákar og stigar.  Leikmenn ferðast eftir stígi, þar sem eru á stangli snákar og stigar.  Lendi maður á stiga þá færist maður áfram (eða upp), en lendi maður á snáki þá fer maður til baka (eða niður).  Við lestur nýgerðra kjarasamninga VR, Starfsgreinasambandsins og fleiri stéttafélaga við Samtök atvinnulífsins, þá fæ ég á tilfinningunni að stéttafélögin hafi fengið að raða stigum inn í samninginn, en atvinnurekendur hafi í staðinn fengið að setja inn jafnmarga snáka. 

Samningnum er hampað sem tímamóta samningi, þar sem hann tryggi þeim tekjulægstu 300.000 kr. lágmarksmánaðarlaunum í lok samningstímans.  Rétt er það, að undir ákveðnum aðstæðum, þá er það niðurstaðan, en undantekningarnar eru margar og ekki komast allir í úrvalsflokk. Snákarnir koma nefnilega í veg fyrir það.

Svo alveg sé á hreinu, þá munu nýgerðir kjarasamningar færa öllum launþegum sem fá laun samkvæmt þeim umtalsverða kjarabót.  Vandinn er hins vegar að nánast ómögulegt er fyrir nokkurn mann að átta sig á því hvað launalægsti hópurinn ber úr bítum vegna samspils stiganna og snákanna!  (Í textanum hér fyrir neðan hef ég skáletrað stigana og feitletrað snákana.)

Almenn grunnhækkun eða hvað?

Grunnhækkun launa við gildistöku samnings þessa er 7,2% fyrir starfsmann sem er með 300.000 kr. laun eða lægri og hóf störf hjá launagreiðanda fyrir 1. febrúar 2014." .. "Frá grunnhækkun dregst önnur sú hækkun sem starfsmaður hefur fengið eftir 2. febrúar 2014. Hækkun launa og launatengdra liða samkvæmt ákvæði þessu getur aldrei verið lægri en 3,2%. (2.gr.) [Tveir stigar og tveir snákar!]

Þetta er nokkuð gott.  Í fyrsta lagi gildir þessi hækkun ekki fyrir þá sem voru ráðnir eftir 1. febrúar 2014 og í öðru lagi dregst hækkun sem komið hefur á launin eftir 1. febrúar 2014 frá þessari grunnhækkun.  Sem sagt verið er að hafa af fólki hækkun sem það hefur tekist að nurla út.  Ekki er heldur minnst á það einu orði eða undanskilið ef slíkar hækkanir hafi komið vegna eðlilegra hækkana eða starfsmaður fengið leiðréttingu af einhverri ástæðu.

Nú hefur starfsmaður hafið störf á tímabilinu 1. febrúar 2014 til loka desember 2014 og hækka þá laun hans og launatengdir liðir um 3,2% frá gildistöku þessa samnings. (líka 2.gr.) [Einn stigi og einn snákur.]

Mjög áhugavert.  VR er ekki að semja um kjarabætur fyrir nýja starfsmenn launagreiðenda!  Er þetta eitt ákvæði af nokkrum um það, að VR er ekkert hrifið af því að nýtt fólk bætist í stéttina og finnst allt í lagi að það njóti skertra kjara.

1. maí 2016 hækka laun samkvæmt kjarasamningnum, en við það ákvæði er hnýtt: 

Frá grunnhækkun dregst önnur sú hækkun sem starfsmaður hefur fengið frá 2. maí 2015 til 30. apríl 2016. (aftur 2.gr.) [Snákur dregur úr áhrifum stiga]

Aftur er ekki gerður neinn fyrirvari á því að þessar hækkanir geti verið mjög eðlilegar.  Launagreiðanda er lagt í hendur að ákveða 1. maí á næsta ári hvaða aðrar hækkanir dragast frá. Og hafi viðkomandi ekki unnið í heilt ár fram að 1. maí 2016, þá fær hann/hún bara 3,2% hækkun.

Svínað á ungmennum og unglingum

Byrjunarlaun miða við 20 ára aldur. (3.gr.) [Snákur]

Laun 18 og 19 ára eru 95% af byrjunarlaunum 20 ára. (6.gr.) [Snákur]

Það er sem sagt ekki nóg að 14-17 ára séu á skertum launum, þrátt fyrir að sinna örugglega sínum störfum af kostgæfni, alúð og dugnaði, heldur eru núna 18 og 19 ára líka sett á skert laun og bætt við skerðingu hinna.  Já, einhvern veginn varð að draga úr hækkununum og því ekki að láta minni hækkun ganga til unglinga og ungmenna!  Algjör dúndurhugmynd.

Sonur minn, 18 ára, skrifaði Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanni VR, tölvupóst, þar sem hann spurði út í þetta, enda finnst honum þetta ótrúlega fáránlegt.  Réttlætisvitund hans var virkilega misboðið.  Hann hefur unnið hjá Krónunni í Vallarkór með skóla, þykir svo góður starfskraftur að aðrar Krónuverslanir hafa beðið hann að koma til sín og síðan er hefur hann verið vaktstjóri.  Hann spurði því Ólafíu (tek fram að ég kom þarna hvergi nærri):

Sæl Ólafía

Ég er ekki alveg viss af hverju 18 og 19 ára séu ekki flokkaðir undir sama hatt og restin af félagsmönnum ykkar þótt þeir séu sjálfráða og með kosningarétt. Það væri frábært ef þú gætir útskýrt það fyrir mér eða komið mér í samband við manneskju sem getur það. Sem félagsmaður hjá VR líður mér eins og ég hafi verið svikinn af því fólki sem kemur að borðinu fyrir mína hönd en það gæti aðeins verið þröngsýni og græðgi af minnar hálfu ef það er einhver góð og gild ástæða á bak við þessa skerðingu. Virðingafyllst

Nú hann fékk svar fljótlega (mínar athugsemdir skáletraðar í sviga):

Hugsunin í þessu ákvæði er sú að hækka laun þeirra meira sem hafa náð ákveðinni starfsreynslu í vinnu og eru á aldursbilinu frá 18 – 20 ára. (En það er ekki gert.  Það er einmitt dregið úr þeim hækkunum miðað við aðra aldurshópa.)

Þetta ákvæði er útfært þannig að starfsmaður sem er 18 eða 19 ára, fer á þann taxta sem skilgreindur er fyrir þennan aldurshóp – ef hann hefur tiltölulega litla reynslu, þe minna en 6 mánuði í starfi.

Hafi hinsvegar þessi aðili, sem er 18 – 19 ára, verið að vinna eitthvað með skóla frá 16 ára aldri og þannig náð þessu 6 mánaða marki og 700 klst. í vinnu, þá fer hann á 20 ára taxta við 18 ára aldur. (Hann gerði það áður án þess að þurfa starfsreynslu.)

Þetta þýðir með öðrum orðum það að þessi aðili hafði kr. 206.200.- í laun skv. eldri samningi en fer að lágmarki á kr. 222.870.- við nýjan kjarasamning, hafi hann tiltölulega litla reynslu en fer á kr. 234.600.- nái hann 20 ára taxtanum. (Sem sagt hafður er af honum 1/3 af hækkuninni.)

Þessu til viðbótar, er trygging fyrir þá allra lægst launuðu með þeim hætti að hafi þeir náð 900 klst. í vinnu, þá kemur inn svokölluð tekjutrygging sem tryggir þeim kr. 245.000.- í dagvinnulaun á mánuði fyrir fullt starf. (Það kemur málinu ekkert við.)

Þarna er því verið að veita meiri möguleika til hækkana, hafi starfsmaðurinn náð ákveðinni starfsreynslu og verið að reyna að umbuna fyrir það. Þetta er því mun flóknara en áður, en gefur þeim sem hafa náð ákveðinni reynslu tækifæri til meiri hækkana en áður. (Vá, frábært, búa til nýtt lægra þrep svo viðkokmandi geti hækkað upp í byrjunarlaun eftir 700 tíma vinnu.)

Með vinsemd og virðingu

Ólafía B. Rafnsdóttir Formaður / President

Það er sem sagt verið að búa til möguleika til hækkana með því að hafa launin lægri.  Sorry, Ólafía, bölvað kjaftæði, sbr. athugasemdir innan sviga.  Möguleikarnir til hækkana eru alveg jafnmiklir eftir sem áður.  Bara upphæðin sem hækkað er í, er lægri.  Þetta er því leið til að skerða upprunalegu hækkunina.  18 og 19 ára starfsmaðurinn getur vissulega hækkað í byrjunarlaun 20 ára ef viðkomandi hefur unnið 700 tíma, en svo kemur þetta ákvæði í veg fyrir frekari hækkun:

Við 20 ára aldur er starfsreynsla metin að fullu við röðun í starfsaldursþrep (1800 stundir teljast ársstarf). (6.gr.)

Og af því að Ólafía sagði:

Hafi hinsvegar þessi aðili, sem er 18 – 19 ára, verið að vinna eitthvað með skóla frá 16 ára aldri og þannig náð þessu 6 mánaða marki og 700 klst. í vinnu, þá fer hann á 20 ára taxta við 18 ára aldur.

Þá mun viðkomandi vera á byrjunartaxta 20 ára, þar til hann verður 20 ára, þar sem það er ekki fyrr en við 20 ára aldur sem "starfsreynsla metin að fullu við röðun í starfsaldursþrep".

Glæsilegt hjá VR!  Hægt er að halda 18 og 19 ára ungmennum, fjárráða einstaklingum með kosningarétt og jafnvel komnum í háskóla, á byrjunarlaunum 20 ára í tvö ár!  Eina leiðin til að þessir einstaklingar geti fengið eitthvað meira, er að vera í fullu starfi.

Ég skil alveg að Samtök atvinnulífsins vilji svína á skólafólki, sem á sér ekki málssvara innan verkalýðshreyfingarinnar, en ég skil ekki að verkalýðshreyfingin skuli taka undir þetta.  Er Ísland orðið þannig, að rífi fólk ekki kjaft, þá er troðið á réttindum þess?  Mikið er þetta auvirðilegt!

Mörg af þessum ungmennum, sem verið er að svína á, eru með sjálfstæðan heimilisrekstur eða eru að leggja í heimilisreksturinn foreldrahúsum, t.d. á heimilum einstæðra forelda, öryrkja eða bara þar sem heimilisaðstæður krefjast þess.  Tekjur þeirra eru því mikilvægar fyrir heimilið.  Aðrir, eins og sonur minn, eru að safna sér í sjóð til að þurfa eins lítil námslán og mögulegt er síðar eða hvað það er annað sem nota á peningana í.

Í sjálfu sér skiptir ekki máli í hvað peningurinn verður notaður.  Nýgerður kjarasamningur er að innleiða nýja aldursmismunun í þjóðfélagið.  Þeir sem eru 18 og 19 ára eru ómerkilegra vinnuafl en þeir sem eru 20 ára og eldri.  Hér í eina tíð var maður talinn fullorðinn 16 ára, undanfarin ár hefur það verið 18 ára, en núna er 18 og 19 ára fólk með kjörgengi og kosningarétt ekki talið nógu gott vinnuafl til að fá fullt kaup.  Það er 95% vinnuafl.  Hverjum datt þessi vitleysa í hug?

Kannski þetta 95% vinnuafl ætti að taka sig saman um að vinna ekki frá fimmtudegi til sunnudags svona eins og tvær helgar í sumar og sjáum þá hvort það sé í raun og veru 95% vinnuafl.  Er hræddur um að tekjur Haga og Kaupáss myndu detta verulega niður þá daga með allt vana kassafólkið í burtu og allt "100% fólkið" í sumarfríi.

Starfsreynsla lítt metin til launa

Annars get get ég ekki annað en furðað mig á því hvað starfsreynsla og trygglyndi er lítið metið til launa.  Skýrir það kannski hvers vegna maður hefur það á tilfinninguna, þegar maður kemur í ýmsar verslanir og þar sem þjónusta er veitt, að fólk vanti hvatann til að vera lifandi í starfi sínu.  Það er kannski búið að sitja í sama stólnum í 10 ár og rétt með 12.000 kr. hærri laun, en sá sem byrjaði fyrir réttum 6 mánuðum.  Hvers vegna að sýna þeim launagreiðanda trygglyndi sem metur það lítt eða ekkert?

Í lok samningstímans á að muna skítnum 10.000 kr. (raunar tæplega) á þeim sem hefur staðið sína plikt í 5 ár og byrjanda í gestamóttöku.  Vá!  Og vinni báðir aðilar 100% starf, þá munar engu því báðir fá lágmarkstekjutrygginguna!

En í lágmarkstekjutryggingunni leynist snákur.  Hún er bara fyrir þá sem eru í fullu starfi.  Sá sem er í hálfu starfi á ekki kost á 50% lágmarkstekjutryggingarinnar.  Nei viðkomandi verður bara að sætta sig við 50% af kauptaxta, sem er fyrir 20 ára byrjanda 10% lægri upphæð. Og enn minna fyrir 18 ára byrjanda!

 


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband