Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána

Þá eru það komið fram frumvarpið um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána heimilanna.  Hugmyndin tekur smávægilegum breytingum, sem er til bóta miðað við tillögur nefndarinnar.  Breytingin felst í því að viðmiðunartímabilið er stytt frá því að vera desember 2007 til ágúst 2010 niður í að vera bara almanaksárin 2008 og 2009.  Við breytinguna hækkar afslátturinn sem veittur er lítillega.

Umræðan um frumvörpin hefur verið nokkuð skrautleg á netinu síðasta sólarhringinn.  Ekki allt verið sannleikanum samkvæmt og étur þar hver vitleysuna upp eftir öðrum.  Annað hefur byggt á óraunhæfum væntingum eða misskilningi á kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna og að hér sé á ferð tillaga Framsóknar um 20% leiðréttingu.  Svo eins og venjulega er hópur hælbíta og nettrölla.  Finnst mér merkilegt hvað sá hópur á sér marga viðhlæjendur.

Tímabilið

Ég er alveg sammála þeirri breytingu sem gerð er á tímabilinu.  Það er jú verið að leiðrétta forsendubrest, en engum slíkum var fyrir að fara árið 2010 og erfitt að reikna út forsendubrest vegna eins mánaðar árið 2007.  Ef 2011 hefði verið tekið með, þá var hækkun vísitölu neysluverðs vissulega hærri en 4,8%, en samanlögð áhrif 2010 og 2011 eru upp á 8,5%.  Niðurstaðan er að miðað við að forsendubresturinn er allt umfram 4,8%, þá er tímabilið sem varð fyrir valinu skuldurum hagstæðast af þeim tímabilum hægt var að velja úr.

300 milljarðar

Einhverjum datt í hug að tengja saman ummæli um að 300 milljarðar gætu verið til ráðstöfunar við það að allir þessi 300 milljarðar ættu að fara í leiðréttingu skulda.  Mér vitanlega, og hef ég fylgst mjög vel með umræðunni, þá hefur það aldrei staðið til.  Það sem meira er, að slík upphæð er langt umfram það sem þarf til að leiðrétta þann forsendubrest sem barist hefur verið fyrir að sé leiðréttur.

Tillögur Hreyfingarinnar um leiðréttingu verðtryggðra lána gekk út á að allar verðbætur umfram 2,5% á ári yrðu leiðréttar frá 1.1.2008 til 31.12.2012.  Þrátt fyrir lengra tímabil og meiri leiðréttingu, þá náði upphæð leiðréttinga "bara" upp í 250 ma.kr. og að teknu tilliti til annarra úrræða (að sérstökum vaxtabótum undanteknum) endaði upphæðin í 200 ma.kr.

Hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna um leiðréttingu forsendubrests umfram 4,0% árlegar verðbætur gaf miðað við sama tímabil um 185 ma.kr. í leiðréttingu og að teknu tilliti til annarra úrræða (á sérstöku vaxtabótanna) væri upphæðin 135 ma.kr.

Það er því ljóst að aldrei hefur staðið til að 300 ma.kr. færu í þessa aðgerð.

Forsendubresturinn

Ég er ekki sammála þeirri viðmiðun sem notuð er til að mæla forsendubrestinn.  Ég hefði viljað fara niður í 4,0% árlega hækkun vísitölu, en nefnd ríkisstjórnarinnar kom með góð og gild rök fyrir sínu vali.  Við getum því deilt um hvort talan sé rétt eða röng.  Leiðrétting á 10 m.kr. láni hefði orðið um 170.000 kr. hærri við 4% mörkin, en hún er við 4,8% mörkin.  Fyrir einhverja er þetta upphæð sem munar um, en fyrir flesta, þá skiptir meira máli að fá þessa 1,5 m.kr. eða svo sem leiðréttingin veitir.

Margir vilja miða forsendubrestinn við 2,5%, eins og gert var ráð fyrir í tillögum Hreyfingarinnar.  Ég leit nú alltaf á þá tölu sem taktískt útspil til að geta endað í 4,0% í samningum um niðurstöðuna.

Upphæðir

[Uppfærð grein, þar sem ég sneri samanburði á hvolf.]

Samkvæmt athugasemd með frumvarpinu, þá segir að meðalleiðrétting að teknu tilliti til annarra úrræða sé um 1,1 m.kr.  Ég er ekki með neinar forsendur til að reikna þessa tölu út, en finnst hún full lág.  Hver og einn getur slegið á sína tölu, en sé miðað við hækkun vísitölu neysluverðs frá janúar 2008 til janúar 2010 (þ.e. 26,4% hækkun) hafi bæst á lánin en "aðeins" 4,8% fyrir hvort ár  (þ.e. 9,83%, 1,048x1,048-1) hafi átt að bætast á þau, þá þarf að leiðrétt um mismuninn.  Til að finna út hlutfalli þarna á milli þá reiknar maður 1 - 1,0983/1,264 = 0,131, þ.e. leiðréttingin er 13,1% af stöðu lánsins.  Fyrir 10 m.kr. eftirstöðvar, þá gerir þetta 1.310.886 kr. Ef miðað hefði verið við 4% í stað 4,8%, þá hefði leiðréttingin orðið 1.443.038 kr. eða mismunur upp á 132.152 kr.

Frá upphæðum þarf síðan að draga þau úrræði sem lántakar hafa nýtt sér eða fengið í gegn um sérstakar vaxtabætur.

Dreifing eftir tekjum

Mikið hefur verið gert út því að heimili með háar tekjur séu að fá drjúgan hluta leiðréttinganna.  Skoðum hvað þarf til að hafa 6, 8 eða 10 m.kr. í tekjur á ári.  Gerum ráð fyrir tveimur fyrirvinnum sem hafa sömu laun.  Miðað við 6 m.kr. tekjur, þá þýðir það að hvor aðili um sig er með 250.000 kr. mánuði, séu tekjurnar 8 m.kr. þá fær hvor um sig 333.333 kr. á mánuði og við 10 m.kr. tekjur fær hvor um sig 416.667 kr. á mánuði.  Heimili með 10 m.kr. í árstekjur og tvær fyrirvinnur er ekki einu sinni að ná miðgildi launa eins og Hagstofan mældi fyrir 2012.  (Ath. að miðgildið er það gildi þar sem 50% launþega er fyrir neðan og 50% fyrir ofan.  Meðaltal er yfirleitt hærra en miðgildi.)  Það er því alls ekkert óeðlilegt, að hópurinn með 8 m.kr. eða meira í árstekjur sé að fá 40% leiðréttingarinnar til sín.  Hann er einfaldlega ágætlega fjölmennur.

Þeir sem skulda mest fá mest

Eðli aðgerðanna er að veitt er hlutfallsleg leiðréttingin.  Því er ljóst að eftir því sem skuldin er meiri verður leiðréttingin meiri í krónum talið, en jafnframt kom hækkun verðbóta einnig mest fram í krónum talið hjá þessum hópi.  Hlutdeild þeirra sem skulda 30 m.kr. eða meira er hins vegar rétt rúmlega 20% af heildinni.  Hvort það er mikið eða lítið læt ég öðrum um að dæma.  Þar sem flest heimili skulda á bilinu 10-30 m.kr., þá kemur obbinn af leiðréttingunni hjá þeim hópi eða um 65% upphæðarinnar.  Lægri skuld leiðir af sér lægri leiðréttingu.  Heimili sem skulda 30 m.kr. geta þó átt von á því að lánin lækki um allt að 4 m.kr. að frádregnum áður fengnum úrræðum.

Fjölskyldugerð

Eigum við ekki að segja, að sem betur fer fá heimili með börnum að jafnaði meira en heimili þar sem ekki eru börn.  Höfum þó í huga, að mörg heimili sem ekki hafa börn undir 18 ára aldri, hafa ungmenni heimabúandi.  Því gæti þörf þessara heimila til að fá sömu leiðréttingu og heimili með börn verið engu að síður brýn.

Hjálpar öllum, en bjargar ekki öllum

Því er gjarnan haldið fram að ekki sé nóg gert.  Höfum í huga að þetta er almenn aðgerð.  Henni er ekki ætlað að taka á vanda þeirra verst settu.  Síðasta ríkisstjórn fullyrti ítrekað að þær aðgerðir sem hún fór út í, hafi tekið á þeim vanda.  Ég gagnrýndi hana oft fyrir að hafa ekki gengið nógu langt og met enn mikla þörf fyrir frekari aðgerðir.  Núverandi ríkisstjórn er að mínu mati að byrja á hlutunum frá réttum enda.  Þ.e. að vinna fyrst með þá sem hægt er að ná til með almennri aðgerð og síðan að fara út í aðgerðir fyrir þá sem almenn aðgerð hjálpar ekki nægilega mikið.  Almenn aðgerð hjálpar öllum, en hún bjargar ekki öllum.  Almennri aðgerð er heldur ekki ætlað að bjarga öllum.  Megin tilgangur hennar er að fækka þeim sem bjarga þarf eftir öðrum leiðum.

Hvað þarf að gera

Á sínum tíma lagði ég til eftirfarandi aðgerðir í þessari röð.  (Ath. að dugi aðgerð sem á undan er nefnd, heimili þá standa aðgerðir sem á eftir koma því ekki til boða):

  1. Almenn niðurfærsla
  2. Aðlögun skulda að eignastöðu, sbr. 110% leið
  3. Laga skuldir að greiðslugetu, sbr. sértæk skuldaaðlögun en þó í breyttri mynd
  4. Hækkun vaxtabóta/húsaleigubóta til tekjulægri hópa
  5. Hjálpa fólki að skipta um húsnæði og fara í ódýrara.  (Laga skuldastöðu að greiðslugetu.)
  6. Lyklafrumvarp
  7. Sértækar aðgerðir vegna framfærsluvanda

Vissulega má bæta við þarna greiðsluaðlögun og gjaldþrot, því stundum er staðan einfaldlega orðin óviðráðanleg.

Mikilvægasta breytingin verður þó að verða til framtíðar, en það er lækkun lánskostnaðar.  Búið er að afnema stimpilgjald (a.m.k. í bili).  Næst er afnám verðtryggingar, lækkun vaxta, auðvelda endurfjármögnun lána og fjölgun búsetuforma.  Stærsta aðgerðin er þó líklegast að lækka húsnæðiskostnað sem hlutfall af ráðstöfunartekjum.  Þetta þarf að gera þannig að fólk geti búið í húsnæði af eigin vali (með hliðsjón af fjölskyldustærð og fjárhagsgetu) án tilkomu bóta frá hinu opinbera.  Annað hvort verður fasteignamarkaðurinn að laga sig að greiðslugetu fólks eða laun og lífeyrir verða að hækka.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband