Bloggfærslur mánaðarins, september 2013
9.9.2013 | 23:54
Er Íslandi undir það búið að taka á móti 2 milljónum ferðamanna?
Nýtt gullæði er hafið á Íslandi og er það í formi ferðamanna sem sækja landið heim. Sem leiðsögumaður og áhugamaður um uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi, þá hefur mér gefist færi á að fylgjast með þessari þróun hin síðari ár. Ég tel mig þó engan sérfræðing um þessi málefni, en á móti þá þarf maður ekki að vera slíkur sérfræðingur til að sjá hvar skóinn kreppir að svo hægt sé að taka á móti auknum fjölda ferðamanna með sómasamlegum hætti.
Spá um 2 milljónir ferðamanna innan 7 ára
Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtöku ferðaþjónustunnar hefur sett fram spá um fjölgun heimsókna ferðamanna til Íslands til ársins 2020. Gerir hann þar ráð fyrir 15% fjölgun á hverju ári og kemst að þeirri niðurstöðu að árið 2020 gætu heimsóknir ferðamanna verið um 2,14 milljónir, samanborið við 635.000 á síðasta ári og um 800.000 á þessu ári. Gangi þessi spá eftir, sem ég hef engar forsendur til að dæma um, þá mun ferðaþjónusta fara langt fram úr fiskveiðum og -vinnslu sem sú atvinnugrein sem skapar þjóðinni mestar gjaldeyristekjur. Spáir Gunnar einnig til um þá þróun og að hún fari úr 238 milljörðum króna á síðasta ári í 759 milljarða árið 2020 á föstu gengi.
Í mikilli einföldun má segja að staðið sé frammi fyrir tveimur spurningum:
1. Getur Ísland, þ.e. landið, innviðir þess og þjónustu aðilar, staðið undir þetta mikilli fjölgun ferðamanna?
2. Vilja landsmenn þetta mikla fjölgun?
Ég veit ekki svarið við síðari spurningunni, en svarið við þeirri fyrri er einfalt:
Sem stendur höfum við ekki innviðina til að taka á móti 2 milljónum ferðamanna. Samgöngukerfið ræður ekki við það, skortur er á menntuðu og hæfu starfsfólki, ekki eru næg gistirými og þjónustuaðilar eru hvorki nægilega margir né nægilega öflugir, hreinlætisaðstöðu vantar og svona mætti lengi telja. Ekki misskilja mig. Hér vantar ekki metnað eða að til staðar sé fólk búið miklum hæfileikum. Okkur vantar bara fleiri góða einstaklinga sem geta skipulagt þetta starf og komið því í þann farveg sem nauðsyn er á.
Hvað þarf til?
Fyrsta sem þarf að gera og hefur verið unnið að undanfarin ár, er að gera ferðaþjónustu að heilsársatvinnugrein. Við þurfum að ná að dreifa álaginu yfir fleiri mánuði en sumartímann. Hinir miklu toppar yfir sumartímann eru það mannaflsfrekir að við eigum í stökustu vandræðum með að manna allar stöður hæfu fólki.
Ef farið er yfir ferlið frá upphafi til enda, þá er það í grófum dráttum:
- Flutningur ferðamanna til landsins: Hann fer að miklu leiti með flugvélum, en einnig eru skemmtiferðaskip drjúg. Núverandi flugfloti íslensku flugfélaganna ræður ekki við 150% aukningu. Annað sem skiptir hér máli, er aðgangur þeirra að flugvöllum erlendis. Munu þessi félög fá nauðsynlega fjölgun lendingaleyfa á flugvöllum í nágrannalöndum. Ég sé að Icelandair er að færa út kvíarnar og WOW vill hefja flug til Bandaríkjanna, en til að taka við 150% fjölgun (reikna með hlutfallslega jafnri fjölgun flugfarþega hjá öllum flugfélögum) mun krefjast 150% fjölgun (eða því sem næst) lendingaleyfa.
- Flugstöðu Leifs Eiríkssonar: 150% fjölgun lendinga er kannski engin gríðarleg ósköp í tölum, en kallar á skipulagsbreytingu. Alla landganga þarf að nýta betur og jafnvel að vélar leggi á flughlöðum án landgangs beintengdum flugstöð. S.l. laugardag ók ég líklegast um 5 km leið innan flugvallarins í Frankfurt til að komast um borð í flugvél sem var nánast út á brautarenda. Flughlöðin við gömlu flugstöðina er alveg hægt að nota og svæðið þar í kring. Spurning er aftur um afkastagetu farangurbanda og flutnings farangur til og frá flugvélum, þjónustu við flugvélar og fleira í þeim dúr. Með betri dreifingu komu og brottfara og að ég tali nú ekki um hraðari afgreiðslu flugvéla, þá ætti það ekki að vera vandamál. Ný flugvél á að geta komið að hliði á um 60-90 mínútna millibili með góðu skipulagi. Þá er það afkastageta þjónustu við farþega. Aftur kemur að dreifingu komu og brottfarar. Sé það skipulagt vel, þá er það ekki stóra málið.
- Flutningur til og frá flugstöð: Á góðum degi er þetta þegar orðinn hausverkur. Pláss vantar sérstaklega brottfararmegin. Það svæði var ekki hannað fyrir slíkan fjölda. Landrými komumegin er mun meira og hafa menn farið í framkvæmdir þar. Brottfararmegin þarf að fara í framkvæmdir, sem gætu t.d. falið í sér að bílastæði verði á tveimur hæðum og pláss fyrir langferðabíla verði á neðri hæð, en einkabíla á efri hæð. Síðan er nauðsynlegt að huga að lestarsamgöngum milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Slík lest myndi að sjálfsögðu hafa viðkomu í bæjarfélögunum á milli. Þetta er stór og dýr framkvæmd, en gæti í leiðinni gert mönnum kleift að færa innanlandsflug til Keflavíkur.
- Gisting: Einfalt svar er við þessu. Ekki er nægt gistirými á landinu til að taka við 2 milljónum ferðamönnum á einu ári nema að dreifing þeirra yrði 1/365 á hverjum degi. Þar sem slík jafndreifing stendur ekki til boða, þá vantar að byggja meira. Af þeim ferðamönnum sem koma árlega til Íslands, þá koma minnst 60 af hundraði yfir þrjá mánuði ársins og líklegast upp undir 30 af hundraði í júlí mánuði einum. Það gerir 600.000 manns miðað við 2 milljónir á ári. Þó talan væri "bara" 400.000, þá er mikil vöntun á gistirými eða að mikla innbyrðisskipulagningu þarf milli gististaða og þjónustuaðila til að láta hlutina ganga upp.
- Vegakerfið: Hvort sem ferðamenn munu nota bílaleigubíla, hópferðabíla eða einhverja sérútbúna bíla fyrir sín ferðalög, þá er vegakerfið ekki undir slíka fjölgun ferðamanna búið. Víða á landinu eru framkvæmdir í gangi til að breikka vegi, en þetta þarf að gerast allan hringveginn og síðan á helstu stofnbrautum, þar sem umferð ferðamanna er mikil, svo sem um Gullhringinn. Vegir sem ekki eru með bundnu slitlagi, eru síðan sérstakt viðfangsefni. Leita þarf leiða til að setja bundið slitlag á fleiri vegi, þó þeir séu bara opnir hluta ársins eða að minnsta kosti byggja þá betur upp. Þó ég sé ekki hrifinn af bundnu slitlagi á vegi yfir hálendið, inn að Laka og Landmannalaugum, þá gæti það verið nauðsynlegt, ef ferðamönnum fjölgar jafnmikið og spáin segir til um.
- Þjónusta á landsbyggðinni: Landsbyggðin á í vandræðum með að ráða við núverandi fjölda ferðamanna og mun því engan veginn ráða við 150% aukningu án verulegs átaks. Tökum bara eitt dæmi: Matreiðslufólk og framreiðslufólk (þjónar). Útlendingar hafa það að orði, að erfitt sé að fá góðan mat utan Reykjavíkur og Akureyrar. Samlokur, hamborgarar og pylsur eru ekki góður matur, þó í lagi sé að næla sér í slíkt sem skyndibita. Matseðlar eru einfaldir og tilbreytingasnauðir. Skyndibitinn er alls ráðandi, nema á hótelum og örfáum stöðum utan þeirra. Þetta er þegar vandamál og verður óviðráðanlegt með 2 milljónir ferðamanna, nema að við undirbúum okkur vel. Vandinn er að þessi þjónusta er að stóru leiti mönnuð skólafólki og í allt of fáum tilfellum fagfólki. Gott fagfólk er umsvifalaust keypt til stóru aðilanna í Reykjavík eða á Akureyri. Því lenda rafvirkjar, húsmæður og unglingar í því að sjá um matreiðslu, þar sem fagþekking ætti að vera nauðsynleg. Vil alls ekki gera lítið úr þekkingu þeirra og margir eru algjörir meistara kokkar, þó menntunina vanti. Algengara er þó að í boði sé matur, sem viðkomandi myndi ekki vilja borða sjálfur. Höfum í huga, að þáttur eins og matur getur haft úrslitaáhrif á upplifun ferðamanna af landinu.
- Hreinlætisaðstaða: Þetta verður að vera í lagi. Ekki er hægt að bjóða þjónustuaðilum á landsbyggðinni upp á það, að rútur fullar af fólki komi til að nota hreinlætisaðstöðu vegna þess að á stóru svæði er þetta eina salernið. Frá Höfn að Breiðdalsvík (eða Egilsstöðum sé sú leið farin) er bara hreinlætisaðstaða á Djúpavogi. Frá Skjöldólfsstöðum að Mývatni er hana að finna í Fjallakaffi og við Kröflu. Frá Hólmavík til Ísafjarðar er hana að finna á Súðavík (nema menn taki krók út á Reykjanes eða komi við hjá einhverjum ferðabónda á leiðinni). Frá Bjarkalundi og til Patreksfjarðar er hreinlætisaðstaða í Flókalundi og Brjánslæk. Sé farið út á Látrabjarg er það Örlygshöfn og Breiðavík. Alls staðar væri verið að nýta sér hreinlætisaðstöðu þjónustuaðila með takmarkaða aðstöðu og sjaldnast eru alvarleg viðskipti höfð í staðinn. Skipulagning pissustoppa í hópferðum er álíka mikilvægt atriði og matarhléa eða gistingar, vegna þess að ekki ráða allir staðir við að taka á móti 50-60 mannahópi sem er mál og þegar fólki er mál, þá er ekki víst að það telji sig þurfa að versla til að mega nota salerni.
- Umhverfi og öryggi ferðamannastaða: Því miður er staðan sú, að fleiri og fleiri staðir sem ferðamenn sækja á eru komnir að þolmörkum sínum án þess að farið verði í verulegar úrbætur. Sumir eru hreinlega hættulegir fyrir ferðalanginn, en oftast er það að náttúruperlan liggur undir skemmdum. Jafnvel hið stórgrýtta svæði við Dettifoss er farið að láta á sjá af troðningi ferðamanna sem virða ekki merkingar. Ég ætla ekki að fara hringinn og fara yfir ástand þeirra staða sem ég hef komið til undanfarin ár. Heimamenn vita manna best hver staðan er. Átaks er þörf þegar vegna þess fjölda sem núna heimsækir landið. 150% aukning er landinu ofviða án aðgerða.
Ef við viljum geta tekið við sífellt auknum fjölda ferðamanna, þá verður að eiga sé viðhorfsbreyting hjá stjórnvöldum. Byggja þarf upp innviði til að taka við þessum fjölda. Fara þarf í stórátak til að koma upp hreinlætisaðstöðu við vinsæla ferðamannastaði. Laga þarf umhverfi þeirra, þannig að þeir þoli álagið. Útbúa þarf bílastæði og gera bætur á vegum. Huga þarf að öryggi ferðamannanna. Stærsta málið er þó, að dreifa þarf ferðamönnum meira um landið. Við þurfum að selja þeim, að aðrir staðir en Gullhringurinn, Skaftafell og Mývatn séu þess virði að skoða. Einnig verðum við að auka umferð utan háannatímans. Leggja þarf meira í átakið "Ísland allt árið".
Stórtíðindi fyrir efnahagslífið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðaþjónusta | Breytt 5.12.2013 kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði