Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012
Ýmsir aðilar virðast vera áfjáðir um að lýsa kreppunni lokið. Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, telur í grein í DV enga ástæðu til óðagots hvað þetta varðar og tek ég undir þetta með henni.
Sem sérfræðingur og ráðgjafi á sviði öryggistjórnunar, þar sem ég fæst m.a. við gerð áætlana fyrir stjórnun rekstrarsamfellu, gerð viðbragðsáætlana og endurreisnaráætlana, þá verð ég að taka undir með Margréti um að kreppunni er langt frá því að vera lokið.
Hugsanlega eru einhverjir mælikvarðar sem hagfræðingar nota í fræðilegum vangaveltum komnir á það stig að þeir sýna jákvæða þróun, en það þýðir eingöngu að þau atvik sem hleyptu kreppunni af stað eru horfin úr umhverfinu, en kreppunni lýkur ekki fyrr en þjóðfélagið er komið í varanlegt horf. Hægt er að nota þá samlíkingu að tveir öflugir jarðskjálftar riðu yfir Ísland árið 2008. Fyrri í mars og hinn síðari í október. Þessum jarðskjálftum fylgdu óteljandi miðlungs stórir og stórir eftirskjálftar og varð þeirra vart meira og minna fram á þetta ár. Nú höfum við ekki fundið fyrir neinum skjálftum af þessari stærðargráðu í nokkra mánuði og því lýsa jarðfræðingar því yfir að þessar skjálftahrynu sé lokið. En er þýðir það þá að við séum búin að vinna okkur í gegn um tjónið sem skjálftarnir ollu? Nei, alls ekki og langt frá því.
Stjórnun rekstrarsamfellu og neyðarstjórnun
Innan við 50 fyrirtæki á Íslandi hafa innleitt stjórnkerfi eða undirbúið sig á skipulegan hátt fyrir áföll. Þetta kom berlega í ljós haustið 2008. Fjármálakerfið vissi ekkert hvernig það átti að haga sér og hafði siglt að mestu leiti sofandi að feigðarósi. Ég segi að mestu leiti, þar sem frá 2005 - 6 hafði ég veitt Landsbanka Íslands takmarkaða ráðgjöf, sem byggði á því að kanna stöðu þessara mála hjá erlendri starfsemi bankans (þ.e. útibúa og dótturfélaga), og í lok ágúst 2008 fór þessi vinna af stað aftur, en því miður allt, allt of seint. Reiknistofa bankanna hafði gengið lengra og keyrði viðbragðsáætlun um miðjan september 2008, þar sem líkt var eftir falli eins banka. Var þetta ein helsta ástæðan fyrir því hve vel tókst að færa viðskipti frá hrunbönkunum til nýju bankanna. Seðlabankinn var með neyðaráætlanir tiltækar, sem björguðu miklu. Síðan var Valitor búið að innleiða hjá sér nokkuð gott stjórnkerfi rekstrarsamfellu með viðbragðsáætlunum (undir minni handleiðslu) og varð það m.a. til þess að hér tókst að halda kortaviðskiptum með VISA kort gangandi.
En ég ætla ekki að tala um hverjir voru búnir að gera hvað, heldur hvernig þessa vinna skiptist upp í fasa. Fyrsti fasi svona vinnu er áhættumat til að auðkenna þær eignir, starfs- og þjónustuþætti sem styrkja þarf til að draga úr líkum á tjóni eða þjónusturofi. Í framhaldinu (eða samhliða) eru skilgreindir varakostir. Þetta heyrir undir stjórnun rekstrarsamfellu, sem gengur út á að halda rekstrinum (eða a.m.k. afmörkuðum þáttum hans) gangandi þó svo að áfall ríði yfir. Annar fasi er neyðarstjórnun eða viðbragðsfasi. Nú hefur áfall riðið yfir sem valdið hefur tjóni og þá þarf að vera tilbúin áætlun um hvernig eigi að bregðast við. Þessi fasi snýst um að bjarga mannslífum og verðmætum, að koma í veg fyrir frekara tjón og ná tökum á ástandinu. Meðan þessi fari er í gangi, þá er yfirlýst neyðarástand viðvarandi. Þriðji fasinn er endurreisnin. Hann varir mun lengur en annar fasinn og meðan endurreisnin er í gangi, þá hefur viðbragðsástandi ekki verið aflýst. Þriðja fasa er oftast skipt í mörg þrep, þar sem fyrst er endurreist lágmarksþjónusta, þá önnur grunnþjónusta og loks sá hluti starfseminnar sem eftir stendur. Viðbragðsfasanum er ekki aflýst fyrr en öll starfsemi er komin í endanlegt horf á varanlegum stað.
Kreppan og fasarnir þrír
Kreppunni sem dundi yfir land og þjóð árið 2008 má líkja við að neyðarástand hafi skapast, þannig að við hoppum strax inn í fasa tvö, neyðarstjórnun og viðbragðsáætlanir. Líkja ástandinu sem skapaðist við að tveir mjög öflugir jarðskjálftar hafi riðið yfir landið, annars vegar í mars 2008 og síðan í október. Eftir það hefur gengið á með öflugum eftirskjálftum og þó menn hafi náð að anda léttar í nokkra daga, vikur eða mánuð, þá hafa öflugir eftirskjálftar komið sem hafa minnt menn á að ekki eru allir hagvísar fastar stærðir.
Ég lít svo á að við séum í endurreisnarfasa ferlisins. Þó einhverjar hagtölur séu jákvæðar, þá þýðir það eingöngu að langt er síðan síðasti öflugi eftirskjálftinn reið yfir. Kröfueldar stóðu yfir með hléum í 8 ár. Goshléin fengu menn oft til að halda að eldarnir væru á enda, en svo var ekki. Einstakir jákvæðir hagvísar geta bent til þess að ekki sé von á fleiri eftirskjálftum, en þeir geta líka verið svikalogn á undan stormi. Ástandið á evrusvæðinu, og raunar í Bandaríkjunum líka, bendir til þess að enn geti komið upp atvik sem valda því að hér hriktir í stoðum.
Samkvæmt fösunum þremur er Ísland einhvers staðar í miðri endurreisn. Sumir þættir eru vissulega komnir í endanlegt og varanlegt horf, eins og menn sjá fyrir sér framtíðina, en aðrir eru langt frá því að vera komnir fyrir vind, hvað þá í varan
Bankakerfið er í miðri endurreisn, þar sem staða þess er ekki orðin endanleg, m.a. vegna þess hve illa þeim gengur að skilja dóma Hæstaréttar og síðan dóm ECJ í máli C-618/10. Íslenskt atvinnulíf er enn að stórum hluta í miðri endurreisn, þar sem fjölmörg fyrirtæki eru enn að ganga í gegn um úrvinnslu sinna mála í bankakerfinu. Heimilin eru mjög mörg enn í endurreisn af því að málum þeirra er ekki lokið hjá Umboðsmanni skuldara, bönkunum og dómstólum. Atvinnuleysi er endurreisn, þ.e. þó atvinnulausum hafi fækkað, þá eru þeir enn mun fleiri en við eigum að venjast. Efnahagslífið er í endurreisn, þar sem styrkur efnahags þjóðarinnar er langt frá því að vera sá sami og áður. Skuldir þjóðarbúsins eru í stöðu endurreisnar, þar sem þær eru langt umfram það sem ásættanlegt er. Krónan er í endurreisnarfasa og þó hún muni líklegast aldrei ná sama styrk aftur, þá telst gjaldeyriskreppunni lokið um leið og gjaldeyrishöftum verður aflétt.
Kreppunni er ekki lokið
Samkvæmt þeim ummælum sem ég hef lesið um að kreppunni sé lokið, þá ætti sumarið að vera komið ef hitastig fer úr mínus 10 gráðum í plús 2 á nokkrum vikum. Ekki er ég viss um að nokkur Íslendingur samþykki það. Kreppunni er ekki lokið þó atvinnuleysi minnki eða hagvöxtur sést í bráðabirgðatölum. Neyðarástand getur verið yfirstaðið, en kreppunni lýkur ekki fyrr en endurreisninni lýkur hjá stærstum hluta þjóðarinnar.
Hvernig getur kreppunni verið lokið, þegar við búum við gjaldeyriskreppu, skuldakreppu þjóðarbúsins, skuldakreppu ríkissjóðs, skuldakreppu sveitarfélaga, skuldakreppu heimilanna, bankarnir vita ekki upphæð krafna þeirra, atvinnuleysi er ennþá þrefalt á við það sem það var fyrir hrun, viðurskurður í velferðarkerfinu er kominn út fyrir öll þolmörk, lífeyrissjóðirnir eiga 660 ma.kr. minna en skuldbindingar þeirra hljóða upp á? Sá sem segir að kreppunni sé lokið, er greinilega lokaður inn í þröngum heimi fræðigreinar sem skilur ekki hvað er að gerast utan veggja hennar. Nei, mér er alveg sama hvaða menntun menn hafa eða hversu flotta titla þeir bera: Sá sem heldur því fram og trúir eigin orðum um að kreppunni sé lokið, hann lifir í slæmri afneitun.
Hið rétta í stöðu er að endurreisn lágmarksþjónustuþátta þjóðfélagsins gengur að mörgu leiti mjög vel. En umfram það er ástandið víða heldur dapurt og miklar fórnir verið færðar. T.d. ber 40% hækkun á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur vott um hvernig komið var í veg fyrir að fyrirtækið færi á hausinn og skrúfað væri fyrir heitt vatn og slegið út rafmagn til notenda. Næsta þjónustustigi á eftir hefur ekki verið náð, sem felst í eðlilegu viðhaldi lagna, og það þriðja sem er nýframkvæmdir á langt í land. Á Landspítalanum er búið að skera svo mikið niður að ekkert má út af bera svo ekki skapist neyðarástand. Nei, enn og aftur, kreppunni er ekki lokið nema í mesta lagi hjá takmörkuðum hluta þjóðarinnar, þ.e. þeim sem skulda ekkert, eru vellaunuðu starfi, ferðast ekki til útlanda, búa utan höfuðborgarsvæðisins og nota ekki innflutt eldsneyti. Fyrir alla aðra eimir eftir af kreppunni.
Áhættustjórnun | Breytt 6.12.2013 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.7.2012 | 02:44
Hvaða fyrirtæki eru góð fyrir Ísland?
Fyrir um mánuði birtist í Tíund Ríkisskattstjóra grein eftir Páll Kolbeins, þar sem hann fjallar um tekjubreytingar á fyrsta áratug aldarinnar. Samkvæmt upplýsingum Páls þá hækkuðu tekjur einstaklinga um 62% frá 2001 til 2007, þ.e. úr 845 ma.kr. í 1.370 ma.kr., en lækkuðu síðan um 31% frá 2007 til 2010 eða í 945 ma.kr. Þessar tölur eru á föstu verðlagi miðað við árslok 2010. Þannig er hægt að reikna út að kaupmáttaraukning hafi numið 11,2% á þessum tíma eða 1% á ári. Ekki eru allir að njóta hækkunarinnar jafnt og þannig er auðugasta 1% Íslendinga að fá meira í sinn vasa en aðrir. Taflan hér fyrir neðan sýnir mörk tekjuhópa þessi þrjú ár:
| 2001 | 2007 | 2010 |
Lægstu fjórðungsmörk | 1.998.660 | 2.414.915 | 1.905.602 |
Miðgildi | 3.841.598 | 4.580.156 | 3.687.084 |
Efstu fjórðungsmörk | >7.267.118 | >8.555.502 | >6.956.287 |
Efstu 5% | >13.735.407 | >18.004.696 | >14.064.148 |
Efsta 1% | >21.935.357 | >41.274.974 | >22.485.271 |
Á þessum tölum sést að þrír fyrstu hóparnir höfðu árið 2010 lægri tekjur á föstu verðlagi en árið 2001, meðan þessu var öfugt farið hjá efstu 5%-unum í tekjuskalanum. Vissulega eru sveiflurnar meiri hjá efstu 5%-unum, en sýnir kannski að tekjurnar byggðust meira á froðu en raunverulegum verðmætum.
Þrátt fyrir yfirþyrmandi tekjur árið 2007, þá var efst prósentið ekki að borga skatta í samræmi við það. Norræna skattamódelið hefur gengið út á að þeir tekjuhærri greiði hærra hlutfall tekna sinna í skatt, en þeir tekjulægri. Í grein Páls kemur fram að árið 2007 var meðalskattbyrðin 18,1% af tekjum. Eðlilega þá greiddi þeir sem voru með lægri tekjur minni skatta hlutfallslega, en það gerðu líka þeir tekjuhæstu! Tekjulægstu 40%-in greiddu að jafnaði 13,4% af tekjum sínum í skatta og efsta prósentið greiddi 13,8% af tekju í skatta eða nærri fjórðungi minna en meðalskattgreiðandinn. Þarna koma áhrif fjármagnstekjuskattsins vel í ljós en hann fór niður úr öllu valdi á þessum árum.
Hvaða tekjur eru bestar fyrir þjóðfélagið?
Þetta leiðir mig að meginþema færslunnar, þ.e. er ein tegund tekna betri fyrir samfélagið en önnur. Undanfarnar vikur hefur verið höfð uppi í fjölmiðlum umræða eða eigum við að segja áróður um tekjur og arð af sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég verð að viðurkenna að mér finnst út í hött að halda því fram að fyrirtæki sem skili mestum arði til eigenda sinna séu farsælustu fyrirtæki fyrir land og þjóð. Við sjáum bara hvað gerðist í undanfara hrunsins og afleiðingarnar. Er ég hræddur um að við þurfum að hugsa þetta alveg upp á nýtt.
Eins og þetta snýr við mér, þá eru þau fyrirtæki best fyrir land og þjóð, sem borga hvað hæst hlutfall af rekstrarkostnaði sínum í laun og stærstan hluta af rekstrarhagnaði í uppbyggingu starfseminnar, en bara hóflegum arð til eigenda sinna. Nú þarf ekki að fara saman að þessi fyrirtæki skili ekki góðri EBITU, en höfum í huga að EBITAn segir ekki til um hversu góð fyrirtækin eru fyrir þjóðfélagið. Hún segir til um hversu gott fyrirtækið er fyrir fjárfesta og þar með eigendurna og ef menn vilja líta svo á, hve mikla fjármuni fyrirtæki hafi til innri vaxtar. Vandinn er að menn hafa hingað til frekar litið til vaxtar í gegn um yfirtökur og hlutabréfakaup í óskyldum rekstri.
Hvort er betra fyrir þjóðfélagið, að milljarðar á milljarða ofan renna í vasa auðugra aðila eða að laun starfsmanna hækki? Ekki spurning: Betra er að laun starfsmanna séu góð og tryggi þeim rífalega það sem þeir þurfa til framfærslu. Hvað er Warren Buffet að græða á því að eiga sand af seðlum? Jú, ennþá stærri sandhrúgu af seðlum. En til hvers? Ekki notar hann seðlana alla, nei, ekki einu sinni brotabrot af þeim. Warren Buffet er meira að segja farin að átta sig á því, að hann fer ekkert með auð sinn. Þó hann fengi auðinn út í 1 milljón dollaraseðlum (ef þær væru nú til), þá kæmi hann þeim aldrei ofan í kistuna með sér.
Gleymum ekki, að peningur sem tekin er út úr fyrirtækjum í gegn um arð, fer almennt ekki inn í samneysluna og ekki heldur einkaneysluna. Hann fer oftar en ekki til fjármálafyrirtækja og annarra fjármagnseigenda. Síðast en ekki síst þá fer hann inn á bankabækur hinna ofurríku, sem koma ekki nema brotabroti af honum inn í neysluna í samfélaginu. Þar sem fyrirtæki eru í ríkari mæli rekin með arðgreiðslur til eigenda í huga, þá er í sífellt verið að taka meiri og meiri pening út úr flæðinu sem rennur frá fyrirtækjum til launþega og þaðan aftur til fyrirtækjanna. Haldi það munstur áfram, þá mun herða ennfrekar að fjárhag hins opinbera sem leiðir til meiri niðurskurðar í velferðarkerfinu.
Svo ég svari spurningunni, sem spurt er að í fyrirsögninni, þá eru þau fyrirtæki best fyrir landið sem greiða hátt hlutfall útgjalda sinna í laun og uppbyggingu fyrirtækisins, en aðeins hóflegan arð til eigenda sinna. Við eigum að koma þeim skilaboðum til fyrirtækjaeigenda/fjárfesta, að þetta séu fyrirtækin sem við viljum sjá hér á landi, þ.e. fyrirtæki sem taka stolt þátt í að viðhalda því velferðarþjóðfélagi sem hér hefur verið við líði. Þeir sem ekki vilja ganga að þessu, geta bara farið eitthvað annað.
Græðgis- og valdafíkn
Maður þarf ekki að líta langt, til að sjá að auðæfi virka eins og fíkniefni, kallað græðgi. Þau eru ávanabindandi og það sem verra er, að menn missa mjög oft dómgreind um leið og þeir auðgast. Nóg er að lesa slúðurfréttir fjölmiðla til að sjá þetta. Börn ríkafólksins er óþrjótandi uppspretta krassandi slúðurs. En minna fer fyrir fréttum að ungu efnuðu fólki sem lifir hófsömu og góðu lífi.
Fjármálakreppan hefur einmitt leitt í ljós að græðgisfíknin er ein illskeyttasta fíknin sem mannskepnan glímir við. Peningamenn um allan heim hugsuðu meira um að ná inn næstu milljóninni en hvaðan milljónin kom eða áhrifin sem hún hafði til framtíðar. Hér á landi varð til hjörð hýena sem fór með landið eins og veiðilendur og reif í sig allt sem á leið þeirra varð. Skipti þá engu máli hvort fyrir þeim urðu hinar vinnandi stéttir eða lífeyrisþegar. Virtust þeir fá mesta fullnægingu að raka seðlunum af fólkinu sem hafði unnið lengst og harðast fyrir eigum sínum, þ.e. kynslóð foreldra sinna eða jafnvel foreldra þeirra. Fólkð sem hafði búið til það velferðarsamfélag sem Ísland var og gert þeim kleift að menntast og komast í þá stöðu sem þeir voru í. Og til hvers var þessi rányrkja? Jú, til þess eins að geta sýnt hagnað og fá meiri völd, því systir græðgisfíknarinnar er valdafíknin og saman eru þær systur það hættulegasta sem mannkynið getur nokkru sinni staðið frammi fyrir að náttúrulegum ofurhamförum undanskyldum.
Breytinga þörf
Ljóst er að græðgi er ekki leið til velferðar. Búið er að reyna það. Tekið var það skref eftir hrun að breyta skattlagningu fjármagnstekna, þar með arðs, en fleiri skref þarf að taka. Eitt er að skattleggja allar tekjur á sama hátt eða því sem næst. Annað er að breyta reglum um að hægt sé að flytja tekjur úr landi til skattlagningar í hagstæðara skattaumhverfi. Þriðja er að koma í veg fyrir að fyrirtækin innan sömu fyrirtækjasamsteypunnar, tengd í gegn um eignarhald eða fyrirtækjanet, geti átt viðskipti sín á milli á óeðlilegum kjörum og þannig flutt hagnað frá einu fyrirtæki til annars sem jafnvel er staðsett í skattaskjóli.
Allar tekjur skattlagðar eins
Skoðum það fyrsta. Hvers vegna á óbreyttur launamaður að greiða allt að 45% af tekjum sínum í skatta, þegar sá sem hefur milljarða í fjármagnstekjur borgar alltaf sama auma hlutfallið? Þetta er einfaldlega út í hött. Ekki á að skipta máli fyrir einstakling hvernig tekjur hans eru til komnar, þær eiga að lúta sömu reglum. Á sama hátt eiga allar tekjur fyrirtækja að lúta sömu reglum, þ.e. ekki á að skipta máli hvernig þær eru til komnar. Í dag lúta fjármagnstekjur öðrum lögmálum en launatekjur og þó ég hafi reynt mikið til að skilja rökin bak við þetta, þá er ég ekki að ná þeim. Ekki er það vegna vaxtakjara í landinu, þar sem allir stærstu þiggjendur vaxta hér á landi eru ýmist undanþegnir fjármagnstekjuskatti eða eiga möguleika á að draga fjármagnsgjöld frá tekjunum áður en til skattlagningarinnar kemur. Þar á ég við lífeyrissjóðina, Íbúðalánasjóð og bankakerfið.
Nú mun einhver æmpta og kveina og segja að ekki gangi að einstaklingar með hundruð milljóna eða milljarða í fjármagnstekjur greiði hátekjuskatt af fjármagnstekjum yfir 704.000 kr. á mánuði, hvað þá að greiða útsvar til sveitarfélaga. En þannig eru bara reglurnar varðandi aðrar tekjur. Er eitthvað réttlæti í því að tveir einstaklingar sem eru með 704.000 kr. á mánuði borgi misháa upphæð í skatt þar sem annar getur klætt tekjur sínar í búning fjármagnstekna, en hinn er með þær að öllu sem launatekjur? Launamaðurinn borgar 39,29% skatt af tekjum sínum, en hafi hinn helming tekna sinna sem launatekjur og hitt sem fjármagnstekjur þá verður skatthlutfall hans 29,16%. Þarna munar rúmlega 71.000 kr. á því hve mikið þessir tveir einstaklingar greiða í skatta eða eigum við að segja hve mikið þeir hafa til ráðstöfunar. (Þegar búið er að taka tillits til persónuafsláttar, þá breytast prósentutölurnar, en mismunurinn er sá sami.) Svo má ekki gleyma því að þessi með lægri launatekjurnar gæti átt meiri rétt til bóta en hinn og þannig skekkt myndina enn frekar. Þessu verður að breyta, þar sem ekkert réttlæti í reglunum eins og þær eru.
Tvísköttunarsamningar
Atriði tvö er frelsi til að flytja tekjur sem arð úr landi svo hægt sé að nýta sér hagstæðara skattaumhverfi annars staðar. Tvísköttunarsamningar voru fundnir upp svo launamaður (eða lögaðili) með lögheimili í öðru landi en því sem hann hefur sínar tekjur frá þyrfti ekki að greiða skatta bæði þar sem hann fær tekjurnar og þar sem hann er með lögheimili. Markmið samninganna var ekki að viðkomandi gæti valið að greiða skattinn þar sem hann væri lægri eða sleppa alfarið við að greiða skatt.
Ég hef svo sem ekkert stúderað tvísköttunarsamninga, þannig að ég gæti verið að misskilja þá eitthvað. Þeir sem ég hef lesið (þá er að finna á vef Stjórnarráðsins) ganga þó út á að viðkomandi launamaður getur valið hvar hann greiðir skattinn. Í þessu er nákvæmlega engin lógík. Nær væri að skatturinn væri annað hvort allur greiddur, þar sem launanna er aflað, eða það sem réttlátast er, að ríkin tvö skiptu skatttekjunum á milli sín. Ef ég er með tekjur í Danmörku, hvers vegna á danska ríkið að fara á mis við skatt af þeim tekjum af því að ég er með heimilisfestu á Íslandi. (Ekki er nóg að miða við lögheimilisskráningu.) Sá tvísköttunarsamningur sem leyfir slíkt er einfaldlega rangur. Á sama hátt, er eitthvert réttlæti í því að fjölskylda sem býr á Íslandi (og ég líka) njóti alls þess sem íslenskt velferðarkerfi býður upp á án þess að fyrirvinnan greiði tekjuskatt eða útsvar til ríkissjóðs og sveitarsjóðs í því sveitarfélagi þar sem fjölskyldunni þó býr. Sé ég svo lánsamur að vinna í Dubai, þar sem engin tekjuskattur er af launum, þá ætti tvísköttunarsamningurinn samt að tryggja íslenska ríkinu og sveitarfélaginu, þar sem lögheimilið mitt er, eðlilegar tekjur til að mæta þeim kostnaði sem samfélagið hefur af búsetu minni og fjölskyldunnar í landinu.
Skattur af launatekjum er þó ekki stærsta vandamálið. Nei, það er skattur, eða ætti ég frekar að segja skattleysi, fjármagnstekna sem er vandamálið. Með því að vera með eignarhaldsfélag skráð í Luxemborg, þá losna menn við að borga skatt af arði, í öðru landi er skatturinn 15% meðan hann er 40% í því þriðja. Eins og með launatekjurnar, þá er út í hött að upprunaland teknanna fari á mis við skatt af tekjunum vegna þess að einhverjir klókir menn hafa platað stjórnmálamenn til að semja af sér. Upprunaland fjármagnstekna ætti, að mínu áliti, að eiga ótvíræðan rétt til skattlagningar á þeim fjármagnstekjum sem verða til í landinu. Tvísköttunarsamningar ættu að tryggja slíkan rétt og möguleika þess, sem fékk tekjurnar, til að draga greiddan skatt í upprunalandinu frá skattkröfu af sömu tekjum í heimalandinu. Staðreyndin er nefnilega sú að fjármagnstekjur eru mjög oft færðar á milli landa í skjóli tvísköttunarsamninga til þess eins að komast hjá skattgreiðslu. Gott og blessað, að menn vilji stunda sína starfsemi í landi þar sem skattprósentan er lág, en þá verður það land einnig að skapa tekjurnar.
Aftur held ég að tvísköttunarsamningar eigi að tryggja, að upprunaland fjármagnstekna geti skattlagt fjármagnstekjur að lágmarki upp að helmingi skattprósentu fjármarkstekjuskatts og heimaland þess sem þiggur fjármagnstekjurnar skattleggi þá til helminga á móti. Nú sé 0% fjármagnstekjuskattur í heimalandinu, þá liggur það í hlutarins eðli, að helmingur fjármagnsteknanna ber ekki fjármagnstekjuskatt.
Tekið skal fram, að hér er eingöngu verið að fjalla um þá stöðu, þar sem tekjur koma frá öðru landi en lögheimilið er. Þegar heimilisfestan er í sama landi og tekjur koma frá, þá er gilda einfaldlega reglur þess lands.
Tilfærsla hagnaðar með sýndarviðskiptum
Þriðji þátturinn í þessu varðar skrípaleikinn sem settur hefur verið allt of víða á svið til að færa skattalegar tekjur frá einum hluta fjölþjóðlegs fyrirtækis, tengdra aðila eða neti fyrirtækja til annars sem statt er í landi þar sem skattar eru lægri (og helst engir). Þannig tíðkast það, að gera fyrirtæki í háskattalandi himinnháa ráðgjafareikninga frá fyrirtæki í skattaskjóli og þannig er búinn til rekstrarkostnaður sem lækkar hagnað fyrra fyrirtækisins, en eykur rekstrartekjur þess síðara. Niðurstaðan er að komist er hjá því að greiða skatta í báðum löndunum. Flett hefur verið ofan af svona viðskiptaháttum í bananaviðskiptum, þar sem Ermasundseyjarnar eru notaðar til að skjóta gríðarlega miklum tekjum undan skatti. Enron og WorldCom málin voru bæði skólabókardæmi um svona skattaundanskot. Tekið skal fram að samkvæmt núverandi lögum í mörgum löndum heims, þá er teljast þetta löglegir viðskiptahættir, en gjörsamlega siðlausir.
Hvað þetta atriði varðar þarf að breyta skattalögum, þannig að þjónustuviðskipti milli fyrirtækja innan sömu samsteypu teljast ekki frádráttarbær frá skatti hjá því fyrirtæki sem greiðir fyrir þjónustuna eða a.m.k. að þak verði sett á hve háan hluta rekstrarkostnaðar megi rekja til þjónustuviðskipta við tengda aðila í fjarlægum löndum. Stundum eru "ráðgjafarnir" ekki einu sinni staðsettir í hinu "fjarlæga" landi, heldur falla þeir bara bókhaldslega undir það þó þeir sitji á skrifstofu hjá greiðanda reikningsins, svo aftur sé vitnað í hina furðulegu viðskiptahætti bananafyrirtækja. Vissulega er auðvelt að komast framhjá þessu með því að opna pósthólf á Guernsey og telja það óskyldan aðila, en til að koma í veg fyrir slíkt yrði greiðandi slíks reiknings að sækja sérstaklega um til skattayfirvalda að þjónustureikningarnir teldust til útgjalda sem væru skattaleg rekstrargjöld.
Einhver heldur líklegast að ég sé að leggja til óhemju þungt skriffinnsku bákn. Svo er alls ekki. Ég er að leggja til heiðarleika í viðskiptum, því skriffinnskan verður eingöngu ofan á, þegar menn reyna undanbrögðin.
Fjölþjóðafyrirtæki með kverkatak á þjóðum heims
Fjármálahrunið hefur dregið huluna af því hvernig fjölþjóðafyrirtæki, flest á sviði bankastarfsemi, vogunarsjóðir og ofurstórir fjárfestingasjóðir eru í því að koma fjármagni undan réttmætri skattheimtu ríkja heims. Lengi vel hélt ég að það væru ríki Afríku og rómönsku Ameríku sem væru að koma verst út úr þessu, en þegar dýpra er grafið, þá eru það líklegast Bandaríkin og ríki Vestur-Evrópu sem eru að koma verst út. Svindlið og spillingin er orðin svo djúpstæð að mafíósar myndu ekki einu sinni láta sér detta í hug að vera svona óheiðarlegir. Þeirra markmið hefur alla tíð verið að koma illa fengnu fé í umferð svo það yrði lögmætt, en þeir sem stjórna löglegu fyrirtækjunum, þeirra markmið er að koma öllum tekjum undan skatti. (Ótrúlegt að þetta sé lögleg starfsemi.)
Meðan skattareglur ganga út á að ívilna fjármagnstekjum umfram launatekjur, þá mun þetta ástand vara við. Meðan ofurríkir eigendur fjölþjóðlegra fyrirtækja geta flutt hagnað þeirra á milli landa til að komast hjá því að greiða skatta, þá mun þetta ekki breytast. Því miður eru horfur á breytingum ekki góðar í bili, þar sem hinir ofurríku fjármagnseigendur munu nota peningana sína til að sveigja lausnir að sínum þörfum. Þeir munu berjast hatramlega gegn öllum tilburðum ríkisstjórna heims til að gera kerfið réttlátara. Ég heldu aftur að fljótlega muni rofa til, þar sem Occupy hreyfingunni hefur tekist að vekja almenning á Vesturlöndum til meðvitundar um óréttlætið og nú hafa Sameinuðu þjóðirnar lagt til að hinir ofurríku verði skattlagðir sérstaklega.
Áður en þetta skánar munum við þó sjá fjölþjóðleg fyrirtæki reyna alls konar brögð til að ná sínu fram. Kúganir á borð við að flytja höfuðstöðvar á milli borgarhluta verða barnaleikur einn, en vonandi sjá menn að sér og leyfa breytingunum að ganga í gegn. Hinn kosturinn er að Róm brenni og keisarinn missi allt sitt.
Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2012 | 23:10
Svört atvinnustarfsemi, skattahagræði og skattaívilnanir
Viðskiptablaðið fjallar í dag um svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. Hefur nokkuð borið á þessari umræðu í fjölmiðlum að undanförnu og tengt það við gullgrafaraæðið sem virðist runnið á Íslendinga vegna fjölgun ferðamanna.
Erna Hauksdóttir nefnir að svört atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu skiptist helst í þrennt, þ.e. í þá sem hefðbundið er að finna í veitingarekstri, í tengslum við gistingu og jeppaferðir og loks þegar greitt er fyrir ferðir erlendis og greiðslan berst ekki hingað til lands. Ekki ætla ég að deila við Ernu um þessi atriði, en er þó ekki endilega viss um að greiðslur erlendis teljist svört starfsemi og skil ekki alveg hvernig menn ætla að láta hóp ferðamanna ferðast um landið án þess að ferðaþjónustuaðilar hér á landi fái greitt fyrir það. En látum það liggja á milli hluta, enda ætla ég ekki að fjalla um meinta svarta starfsemi einnar atvinnugreinar heldur að velta fyrir mér hvort svarta hagkerfið sé grófasti hluti skattsvikanna. Þess fyrir utan, þá held ég að sá hluti svarta fjármagnsins, sem aldrei kemst upp á yfirborðið, sé mun minni en menn vera láta. Svart hagkerfið tefji því frekar skattgreiðslurnar. Aftur á móti, þá held ég hin raunverulegu skattaundanskot eigi sér stað hjá fjölþjóðlegum fyrirtækjum og fyrirtækjanetum, sem hafa vafið stjórnmálamönnum um fingur sér svo áratugum skiptir í þeim eina tilgangi að komast hjá því að taka þátt í uppbyggingu þeirra samfélaga þar sem fyrirtækin starfa.
Svört starfsemi
Í grundvallaratriðum þá getur svört atvinnustarfsemi ekki átt sér stað nema með tvennu móti, þannig að hún sé órekjanleg: A. Greiðslan fari fram með seðlum. B. Um skiptivinnu sé að ræða. Þegar peningar eru lagðir inn á reikning einstaklings í stað rekstrarins og því ekki gefnir upp sem tekjur er alltaf hægt að rekja greiðslurnar, hafi Skatturinn grun um hina ólöglegu starfsemi.
Mikið hefur verið rætt um að ríkið tapi á svartri atvinnustarfsemi. Örugglega eru einhver brögð á því, en almennt er ég ekki viss um að það sé eins mikið tjón og fólk heldur. Gagnvart skiptivinnu, þá fer það eftir eðli hennar, en þar tapar ríkið tekjuskatti af launum. Efast þó um að þessar upphæðir séu háar, hlaupa kannski á örfáum milljörðum, sem er ekki neitt, neitt miðað við þær tölur sem ég fjalla um síðar.
Þá er það greiðsla með peningum. Mjög algengt er, þegar maður greiðir bæði vöru og þjónustu með peningum að greiðslan sé ekki stimpluð inn. Hef ég orðið var við þetta í öllum tegundum verslunar og þjónustu og skiptir ekki máli hvort um er að ræða lítinn eða stóran aðila. Í einhverjum tilfellum er starfsmaðurinn að stela frá fyrirtækinu meðan í öðrum er þetta hin almenna leið til að slá á hagnað fyrirtækisins og stinga peningi í vasann. En er þetta svo mikið tjón fyrir ríkið?
Skoðum dæmi: Einstaklingur kaupir vöru og borgar fyrir 50.000 kr. í peningum. Prentaður er út reikningur fyrir vörunni, en þar sem hún var greidd með peningum, þá er útbúinn kreditreikningur upp á sömu upphæð eftir að kaupandinn er farinn. Viðkomandi aðili stingur 50.000 kr. í vasann. Ríkið verður af virðisaukaskatti vegna viðskiptanna og hagnaður rekstrarins lækkar um tæpar 40.000 kr. Sé miðað við 20% skatt (til einföldunar), þá er tap ríkisins 18.000 kr. Þetta er þó ekki víst, þar sem meiri tekjur í bókhaldið hefðu getað leitt til meiri innkaupa á rekstrarvöru. Látum það þó liggja á milli hluta. Hvað gerir viðkomandi við 50.000 kr.? Jú, hann notar þær annað hvort sem sínar eigin tekjur eða til frekari svartra viðskipta fyrir reksturinn sinn. Gagnvart bókhaldi og sköttur er ekkert hagræði fólgið í því að láta svarta peninga greiða fyrir önnur svört viðskipti rekstrarins. Virðisaukaskatturinn jafnast út og sama gerist gagnvart tekjuskatti. Það er því hreinlega heimskulegt að nota svarta peninga til að borga svart fyrir aðföng, en menn gera það nú samt. Næst er að borga laun til starfsmanna (eða sín sjálfs) undir borðið. Við það fara ríki og sveitarfélög, verklýðsfélög og lífeyrissjóðir á mis við um 50% af upphæðinni, a.m.k. á þessu stigi. Starfsmaðurinn notar peningana til eigin framfærslu, þ.e. almennrar útgjalda, og er því bara með peninginn í vasanum. 50.000 kr. fara því í að borga fyrir mat og drykki, dagvöru og smávöru nema safnað sé í stærri kaup, svo sem á utanlandsferð eða dýrum tækjum. Gerum ráð fyrir hinu fyrra. Verslað er á stöðum þar sem allt er fer rétta leið. Ríkið fær þá rúmlega 10.000 kr. í virðisaukaskatt og restin fer í launakostnað og hagnað. Eina sem hefur gerst er að tafist hefur um einn hlekk í keðjunni að ríkið fái sitt.
Auðvitað er til flóknara ferli, þar sem peningar halda áfram innan svarta kerfisins, en ég efast um að svartir peningar séu líklegri til að verða svartir í næstu umferð en að peningar sem greiddir voru af skattar rati inn í svarta kerfið.
Gefum okkur nú samt að 7,5 - 8,5% viðskipta fari fram óuppgefin og finni sér leið fram hjá ríkinu, þá eru það líklegast á bilinu 25 - 30 ma.kr. og hlutur ríkisins í þeirri upphæð hefði orðið í mesta lagi 50% eða 12,5 - 15 ma.kr. (algjörlega óvísindalegar tölur). Þetta eru smámunir miðað við tekjur sem ríkið tapar vegna skattahagræðis og skattaívilnana þeirra sem telja sig fara að lögum.
Skattaívilnanir og ríkisstyrkir
Ríki og sveitarfélögum finnst ekkert mál að gera samninga við hin og þessi fyrirtæki (oftast með erlendum nöfnum) um skattaívilnanir og framkvæmdir kostaðar af skattfé eða opinberum fyrirtækjum til að fá þessi fyrirtæki til að setja upp starfsemi hér á landi. Brjálaðasta dæmið um þetta er náttúrulega álver Fjarðaráls á Reyðarfirði. Fyrirtækið borgar fyrir raforku á lægra verði en almenningur, byggð var risa virkjun fyrir fyrirtækið með tilheyrandi mannvirkjun, boruð göng á milli fjarða og útbúin höfn bara svo fátt eitt sé nefnt. Kostnaður við þetta er líklegast ekki undir 150 ma.kr. Auk þess var gerður samningur um ýmsar ívilnanir sem ég veit ekki, frekar en aðrir landsmenn, hvað inniheldur.
Fjármálamaður, sem átti stóran hluta í banka allra landsmanna, fékk ríkisstyrk, skattaívilnanir og lægra raforkuverð en almenningur, svo hann gæti sett upp gagnaver á Suðurnesjum. Þetta er vafalaust virði einhverra milljarða. Gagnaverið er auk þess í eigu erlendra lögaðila, þannig að peningar renna að hluta óskattlagðir úr landi.
Erlend fyrirtæki, sem ekki fá lengur aðgang að ódýru rafmagni í sínu heimalandi og þurfa vafalaust að greiða háa mengunarskatta þar, banka upp á hjá norðlensku sveitarfélagi og spyrjast fyrir um lóð. Gert er ráð fyrir dýrum framkvæmdum við virkjanir, höfn og vegi, auk skattaívilnana og raforku og mengunarkvóta á útsöluverði.
Staðreyndirnar tala sínu máli og ekki bara hér á landi. Fyrirtæki sem kalla sig alþjóðleg fara um alla heimsbyggðina og beita stjórnvöld þvingunum og kúgunum. Annað hvort lækki stjórnvöld álögur á fyrirtækin eða þau fari eitthvað annað. Á mannamáli heitir þetta fjárkúgun og ekkert annað. Í sumum fylki Bandaríkjanna er ástandið svo slæmt, að höfuðstöðvar hafa verið fluttar yfir fylkjamörk á einni dagstund, vegna þess að fyrra heimafylkið vildi ekki lækka álögur/fyrirtækjaskatta eða bæta í ríkisstyrki til samræmis við það sem nýja heimafylkið bauð. Nokkur dæmi eru um borgir í Bandaríkjunum sem tilheyra tveimur fylkjum og egna þá stórfyrirtækin fylkjunum gegn hvoru öðru bara til að lækka skattgreiðslur.
Íslensk stjórnvöld hafa nokkrum sinnum látið undan svona kúgunum, enda segir í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að ávinningurinn af starfsemi stóriðjuvera hér á landi sé langt frá því að vera viðunandi. Í staðinn fyrir að standa í fæturnar gagnvart þessum alþjóðlegu fyrirtækjum, þá á að leita að einyrkjunum sem hugsanlega gefa ekki allar tekjur sínar upp til skatts. Ástæðan er einföld: Stjórnvöld eru svo hrædd um að alþjóðlegu fyrirtækin pakki saman og fari.
Hvernig sem á þetta er litið, þá eru þessar kúganir fjölþjóðlegra fyrirtækja og fyrirtækjaneta ekkert annað en leið til að láta aðra greiða samneysluna, svo fyrirtækin geti skilað meiri skattfrjálsum arði til eigenda sinna.
Skattahagræði, skattaskjól og skattsvik
Hrunið hefur heldur betur lyft dulunni af því sem mann hafa skattahagræði. Það felst í því að flytja eignarhald á fyrirtækjum og höfuðstöðvar til landa þar sem skattaumhverfi er hagstætt. Þessi lönd hafa fengið það merkilega heiti "skattaskjól", en réttara væri að tala um skattfríðindi eða skattsvik.
Það er ekki bara á Íslandi sem fjármagnseigendur ráða öllu sem þeir vilja ráða. Þetta er því miður veruleikinn um nær allan heim. Stærsti lobbyista hópur í heimi er fjármagnseigendur. Á Bandaríkjaþingi er stærsta þingnefndin sú sem fjallar um fjármálakerfið. Ástæða er ekki sögð vera að það þurfi alla þessa þingmenn þar vegna flækjustigs fjármálakerfisins. Nei, ástæðan er að fjármálafyrirtækin borga bestu múturnar. Það er nefnilega alveg nauðsynlegt fyrir fjármálafyrirtækin að eiga sinn eða sína fulltrúa í nefndinni, svo ekkert óæskilegt fari nú í gegn. Hér á landi hafa fjármálafyrirtæki og fjármagnseigendur verið ákaflega dugleg við að styrkja frambjóðendur sumra flokka. Hvort að það er ástæðan fyrir því hve illa gengur að koma á úrbótum hér á landi er ekki hægt að fullyrða, en ýmislegt bendir í þá átt.
Bretar eru núna að vakna upp við þann vonda draum að fjármálaeftirlitið þeirra er handónýt stofnun. Búið er að steingelda FSA með því að svelta stofnunina á fjárlögum líkt og gert var gagnvart FME hér á landi á árunum fyrir hrun. Miðað við höfðatölu var FME þó með tvöfaldan starfsmannafjölda á við FSA í Bretlandi.
Einn grófasti þátturinn í þessu öllu er þó hvernig hver þjóðin á fætur annarri hefur látið undan þrýstingi fyrirtækja og fjármagnseigenda um frjálst flæði arðs af fjármagni á milli landa án þess að upprunaland fjármagnsins fá eðlilegar skatttekjur af arðinum. Þetta er gert í gegn um tvísköttunarsamninga eða eigum við að ekki bara að kalla þá réttu nafni, skattfrelsissamninga. Þannig getur hollenskt eignarhaldsfélag sem á fyrirtæki á Íslandi fengið skattfrjálsa arðgreiðslu frá hinu íslenska fyrirtæki, þar sem það er skattlagt í Hollandi. Þar sem slík arðgreiðsla er undanþegin hollenskum sköttum, þá greiðir eignarhaldsfélagið hvorki skatta hér á landi né í Hollandi.
Ennþá grófari aðferð er þegar alþjóðlegt fyrirtæki með fjölbreytta starfsemi býr til útgjöld hjá útibúi fyrirtækis í háskattalandinu og tekjur hjá fyrirtækinu í skattaskjólinu. Þannig er útbúinn gervireikningur af fyrirtækinu í skattaskjólinu á fyrirtækið í háskattalandinu fyrir meinta ráðgjafarvinnu. Þannig er hagnaðurinn í háskattalandinu lækkaður niður í nánast ekki neitt, en hækkaður út í hið óendanlega í skattaskjólinu. Höfum í huga, að líklegast vinnur "ráðgjafinn" á skrifstofu í háskattalandinu, en er skráður til vinnu í skattaskjólinu, þó þar sé í besta falli bara eitt pósthólf merkt fyrirtækinu.
Þetta fiff er ekkert annað en arðrán. Með þessu er verið að flytja fjármagn frá framleiðslulöndunum til eigendanna með glæpsamlegum aðferðum. En hvers vegna er þetta liðið? Jú, vegna þess að stærstu þiggjendur peninganna eru nokkur lönd Vestur-Evrópu með Bretland sem miðjuna og síðan og alls ekki síst Manhattan. Eigendurnir eru nefnilega ofurstórir fjárfestingasjóðir í eigu stærstu fjárfestingabanka heims. Staðreyndin er sú að þessi svikamylla hefur verið búin til svo hægt sé að flytja illa fengið fé, því það er náttúrulega ekkert annað, til þessara tveggja höfuðvígja fjármagnsins sem gjörsamlega hvítþegið. Þess vegna er ekki hægt að breyta kerfinu. Væri skrúfað fyrir peningaþvættislögnina fengju stóru alþjóðlegu fjármálamiðstöðvarnar, City í London og Manhattan í New York, ekki það fjármagn sem heldur þeim gangandi.
Vilji íslensk stjórnvöld ráðast að stærstu undanskotum frá skatti, þá eiga þau að setja reglur um hvaða útgjöld í formi þóknanna eða innkaupa milli skyldra aðila innan og utan landamæra landsins teljast frádráttarbær útgjöld gagnvart skatti. Hér fyrir nokkrum áratugum hækkaði súrál alveg ótrúlega í hafi frá útskipunarhöfn í Ástralíu og þar til því var dælt úr skipi í Straumsvík. Ég læt mér ekki detta í hug að þetta hafi verið einangrað tilfelli. Getur verið að ástæðan fyrir háu vöruverði hér á landi sé að reikningar fyrir vörunni komi einhvers staðar við á leiðinni hingað til lands? Er magnafslátturinn kannski ekki tilgreindur á sölureikningnum heldur lagður inn á bók í svissneskum banka eða er hann í Lúxemborg?
Svo er það sem fer í hina áttina. Varan er flutt úr landi á fáránlega lágu verði, en svo er milliliður notaður til að hækka verð vörunnar verulega.
Mestu aumingjar þessarar jarðar
Alltaf er tilgangurinn sá sami. Þ.e. að komast hjá því að taka þátt í því að greiða fyrir samneyslu viðkomandi landa.
Að mínu áliti eru mestu aumingjar þessarar jarðkringlu ofurríkt fólk, ofurstórir fjárfestingasjóðir og fjölþjóðleg fyrirtæki og fyrirtækjanet, sem telja það heilaga skyldu sína að forðast að greiða skatta. Þessir aðilar gleyma því að menntakerfi landanna þar sem fyrirtækin þeirra starfa skilar þeim hæfu vinnuafli, heilbrigðiskerfi tryggir þeim hraust og heilbrigt vinnuafl, samgöngukerfið tryggir að vinnuaflið kemst til vinnu og frá vinnu, að aðföng berist og afurðir komist á markað, fjarskiptakerfið gerir fyrirtækjunum kleift að afla upplýsinga sem þörf er á fyrir reksturinn. Nei, þeim ber, að þeirra áliti, engin skylda til að taka þátt í að kosta uppbyggingu og rekstur menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins, samgöngukerfisins eða fjarskiptakerfisins. Ef þetta er hins vegar ekki til staðar, þá dettur þeim ekki í hug að setja rekstur sinn niður þar. Kannski eru stjórnmálamennirnir, sem leyfa fyrirtækjunum að komast upp með þessa hegðun, ennþá meiri aumingjar. Eða ætti ég að segja gungur.
Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði