1.1.2010 | 17:48
Icesave í þjóðaratkvæði - Mætum á Bessastaði
Það var kostulegt að fylgjast með Icesave umræðunni á Alþingi. Hver þingmaður Samfylkingarinnar kom upp á fætur öðrum og viðurkenndi að nauðsynlegt væri að samþykkja frumvarpið þó það væri vissulega gert í nauð. Við ættum engan annan kost. Ég taldi þá ekki færri en fjóra sem gerðu á þennan hátt grein fyrir atkvæði sínu, en ekki einn einasti skýrði út í hverju nauðin væri fólgin. Og í allri umræðunni skýrði ekki einn einasti fylgismaður frumvarpsins út hvers vegna fallast yrði á hin og þessi ákvæði frumvarpsins með sterkari rökum en "af því bara". Jú, það var minnst á þjóðréttarlegar skuldbindingar, en rökin vantaði.
Ég er alveg til í að samþykkja alls konar hluti, ef færð eru viðhlítandi rök fyrir hlutunum. Það var aldrei gert varðandi Icesave frumvarpið hið síðara. Aldrei. Ég hef heldur aldrei fengið viðhlítandi rök fyrir því að erlendu tryggingasjóðirnir skuli fá eina krónu fyrir hverja eina krónu sem íslenski sjóðurinn fær. Þetta er sú mesta vitleysa sem ég hef nokkru sinni heyrt. Ef tveir aðilar eiga kröfu vegna Icesave, annar upp á EUR 15.000 og hinn upp á EUR 30.000, þá gætu málin axlast svoleiðis, að sá fyrri fengi fljótlega EUR 9.000 greiddar, en sá síðari EUR 18.000, bara vegna þess að sá fyrri á bara eina kröfu á hendur Landsbankanum/íslenska tryggingasjóðnum en sá síðari tvær. Hvaða lagaspekúlanti datt í hug þessi fáránlega aðferð? Það kemur íslenska tryggingasjóðnum ekkert við, að Bretar og Hollendingar ábyrgjast hærri upphæð en íslenski tryggingasjóðurinn og tilskipun ESB segir til um. Ég skil vel að menn vitni í yfirlýsingar Geirs H. Haarde um að engar innstæður tapist, en Björgólfur Thor lýsti því líka yfir og ekki erum við að ganga á hann.
Annað sem ég skil ekki, er að tvisvar var samninganefnd veitt afmarkað umboð til samninga og tvisvar fór samninganefndin út fyrir sitt umboð. Auk þess voru samningarnir gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Í sumar hafnaði Alþingi í raun fyrri Icesave samningnum. Með þær upplýsingar að vopni fór samninganefndin aftur viðsemjenda og hvað gerist? Hún kemur til baka með skottið á milli fótanna, þar sem hún ákvað að hunsa lög frá Alþingi. Hvaða heimild hafa embættismenn til að hunsa lögin? Er það eitthvað séríslenskt fyrirbrigði að hópur embættismanna geti ákveðið að lög eigi ekki að standa?
Nú er síðasta hálmstrá vitiborinna Íslendinga, að forsetinn neiti að staðfesta lögin. Því miður tel ég litlar sem engar líkur á því að hann geri það. Forsetanum er nefnilega "falið að tryggja [vilja þjóðarinnar] þótt ætíð verði að meta aðstæður og afleiðingar ákvarðana". Þetta segir mér að Ólafur Ragnar muni í ljósi aðstæðna og líklegra afleiðinga staðfesta þennan jólaglaðning til þjóðarinnar. Jólaglaðning sem er í boði Landsbankans, "banka allra landsmanna", eins og hann auglýsir gjarnan.
Já, það er þessi sami Landsbanki og mun kosta skattgreiðendur um 200 milljarða vegna endurreisnar og þessi sami Landsbanki og býður starfsmönnum kaupauka, ef þeir ná að kreista nógu mikið út úr hverjum viðskiptavini sem gerði þau herfilegu mistök að treysta "banka allra landsmanna". Já, og þetta hinn sami Landsbanki sem hefur neitað alfarið að koma á nokkurn hátt til móts við heimilin í landinu með niðurfellingu stökkbreyttra skulda, stökkbreyting sem á rætur að rekja til glannaskapar fáeinna óvita sem stjórnuðu bankanum. Já, þetta er sami Landsbanki og lánaði eigendum sínum margfalt eigið fé sitt þrátt fyrir að lög bönnuðu slíkt. Já, þetta er sami Landsbanki og hvers stjórnarformaður skilur eftir hátt í 100 milljarða ógreidda í gjaldþroti sínu. Og þessu er ekki lokið, þar sem þessi sami Landsbanki átti háar skuldir hjá Seðlabanka Íslands. Það er óhætt að segja, hvað sem glannaskap Kaupþingsmanna við kemur, að einkavæðing Landsbankans er dýrasta flopp Íslandssögunnar. Reikningurinn, sem þjóðin fær vegna þessa, er vart undir 700 milljörðum og þá er ekki meðtalið tap í formi innstæðna almennings í peningasjóðum, hlutabréfa annarra en fjárglæframannanna, skuldabréfa í eigu lífeyrissjóðanna og annað smávægilegt sem nemur kannski 3-400 milljörðum til viðbótar. Það eru því líklegast 1.000 milljarðar sem skattgreiðendur og almenningur fá í hausinn í staðinn fyrir þessa 10 milljarða sem ríkið fékk á sínum tíma. Ömurleg ávöxtun það.
Séu þetta ekki nægar ástæður fyrir forseta Íslands til að hafna nýju Icesave frumvarpi, þá munu þær aðstæður aldrei skapast að hægt verði að hafna frumvarpi. Vilji þjóðarinnar er skýr. Hún vill þjóðaratkvæðagreiðslu. Skora ég á forseta Íslands að virða vilja þjóðarinnar. Síðan skora ég á fjármálaráðherra að hefja án tafar aðgerð til að kyrrsetja allar eigur helstu eigenda, stjórnenda og stjórnarmanna Landsbankans (þess gamla) hvar sem þær er að finna í heiminum. Það tók stuttan tíma að kyrrsetja eigur Baldur Guðlaugssonar og er glæpur hans lítilfjörlegur samanborið við glæpa hinna. Hann var bara embættismaður sem taldi lögin ekki eiga við sig. Hinir voru a.m.k. eitt af eftirfarandi: heimskir, vanvitar, sofandi, einfeldningar, glannar, vanhæfir eða glæpamenn, svo fátt eitt sé talið upp.
Minni svo alla sem geta að mæta til Bessastaða kl. 11.00 í fyrramálið 2. janúar, þegar undirskriftir með áskorun til forseta Íslands verða afhentar. Hafa skal í huga, að um friðsamlega aðgerð er að ræða. Nánari upplýsingar er að finna í eftirfarandi færslu: Indefence: Mætum öll á Bessastaði á morgun
Meirihluti fyrir þjóðaratkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 276
- Frá upphafi: 1680564
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Litla trú hef ég á þingmönnum stjórnarliða og að þeir skilji allir að fullu afhverju þeir greiði atkvæði með eða á móti í öllum þeim atkvæðagreiðslum sem þeir taka þátt í.
Minni trú hef ég þó á stjórnarandstæðingum í þessu máli. Engin leið er að skilja í hverju andstaða þeirra við frumvarpinu liggur.Líklegast vita það fæstir og eru bara á móti út af því að þeir eru í stjórnarandstöðu.
Fyrsti og stærsti hópurinn er líklegast almenningur sem vill ekki borga skuldir einkafyrirtækis. Daginn sem Íslensku neyðarlögin voru sett hætti Icesave að vera vandamál einkafyrirtækis og varð að vandamáli ríkisins hvort sem að fólki líkar betur eða verr.Öll rök um að borga ekki skuldir einkafyrirtækis eru því ótæk. Fólk verður því að átta sig á því að valið stóð á milli því að hafa bankakerfi eða ekki. Að sjálfsögðu kostar það sitt að bjarga föllnu bankakerfi.
Sumir virðast í heild sinni á móti því að borga fyrir Icesave og telja lagaleg rök fyrir því að við þurfum ekki að borga Bretum og Hollendingum krónu þrátt fyrir að hafa tryggt reikninga íslenskra auðmanna upp í topp. Þetta eru líklegast mestu 2007 spekúlantarnir sem hugsa ekki um siðferði heldur bara auðvaldspot.
Svo eru menn sem telja Breta hafa valdið hruninu með því að beita hriðjuverkalögunum. Þeir telja því að ekkert þurfi að borga því að "Icelanders are not terrorists" þrátt fyrir að útrásarvíkingar hafi ferðast um nágrannalönd okkar og tæmt fyrirtæki hægri vinstri og skilið eftir sviðna jörð. Hér er algjör skortur á sjálfsgagnrýni og skilning á orsök hrunsins. Lykilatriði hér er ennig að íslenskir auðmenn fengu allt sitt borgað en erlend útibú ekkert. S.s áframhaldandi víkingasiðferði gagnvart útlendingum.
Loks eru svo menn sem samþykktu neyðarlögin og hófu samskipti um uppgjör Icesave deilunnar. Þeir viðurkenna skuldarábyrgð Íslands og munu á endanum skrifa undir samning um slíkt. Þeir telja þó að samningurinn gæti verið aðeins betri. Þeir nýta sér vísvitandi misskilning um lögmæti krafanna og almenna andstöðu við aukna skuldabyrði til þess að knekkja á pólitískum andstæðingum. Ef þeir komast svo til valda væru þeir líkleggast ekki lengi að kvitta undir sama pappír en breyta þó orðalagi til að villa um fyrir kjósendum.
Afhverju eiga Bretar og Hollendingar að gjalda fyrir það að leyfa Íslendingum að stunda viðskipti í sínu landi en Íslendingar fá allt sitt upp í topp?
Ég veit ekki hvaða hóp hver andstæðingur flokkast í eða hvort að andstæðingarnir hafi almennt rökstudda ástæðu aðra en að vilja bara ekki borga, óháð því hvort krafan sé réttmæt eða ekki. Ég veit bara að ég get ekki með hreinni samvisku sett mig í nokkurn þessarra hópa. Icesave er dýrt og það er ósanngjarnt. En það er bara kostnaðarliður í aðviðhalda bankakerfinu.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 20:50
Marinó.
Það er búið að samþyggja að greiða ICESAVE, það var gert síðastliðið sumar !
Auglýsingin er um neitun á ICESAVE !
Hvers vegna setja menn þetta mál ekki upp rétt ?
Hverjum hentar að fara með þetta mál svona ?
Ekki venjulegum íslendingi !
Hver hefur hag af því að halda þessu máli gangandi ?
JR (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 21:30
Gunnar, það er ekki spurningin um að borga eða ekki. Það er spurningin um hve mikið við erum skyldug til að borga. Neyðarlögin voru ákaflega furðuleg aðgerð, en strangt til tekið samkvæmt þeim, þá var það eina sem var gert að gera innstæður að forgangskröfum. Menn gerðu ráð fyrir að eignir væru fyrir öllum innistæðum. Að það líti út fyrir að svo sé ekki gagnvart Icesave er að hluta til breskum stjórnvöldum að kenna. Ég ætla ekki að taka hér afstöðu til réttmæti aðgerða þeirra, það eru ekki öll kurl komin til grafar, en aðgerðir þeirra urðu til þess að eignasöfn Landsbankans erlendis rýrnuðu ákaflega í verði.
Sem sagt, ekki er verið að mótmæla greiðsluskyldunni heldur eingöngu ríkisábyrgðinni. Tryggingasjóðurinn ber ábyrgð á fyrstu EUR 20.887 og á kröfu um að fá það greitt frá Landsbankanum í samræmi við íslensk lög. Það sem er umfram þá upphæð er ekki á ábyrgð íslenska ríkisins hvernig sem á það er litið. Það er á ábyrgð þrotabús Landsbankans. Vegna ákveðins misræmis sem við það myndast milli innlendra og erlendra innstæðu eigenda, þá gæti vissulega myndast krafa á NBI hf. (þ.e. nýja Landsbankann), en aldrei á íslenska tryggingasjóðinn og hvað þá íslenska ríkið og þar með íslenska skattborgara. Enn síður getur myndast vaxtakrafa á þessa aðila. Það getur vel verið að íslenski tryggingasjóðurinn þurfi að taka lán og borga vexti af því, en það lán er bara fyrir innistæðum upp að EUR 20.887.
Marinó G. Njálsson, 1.1.2010 kl. 21:43
"en Íslendingar fá allt sitt upp í topp" segir Gunnar Jóhannsson hér að ofan. Ég og börnin mín áttum nokkur hundruð þúsunda króna hlut í Kaupþingi. Það er allt tapað - eða hvar fáum við þá peninga aftur Gunnar? Þú segir að við fáum allt upp í topp. Hvar og hvenær Gunnar?
Skv. þessum Icesave-samningi á ekki að byrja að borga af þessu fyrr en eftir mörg ár. Þetta er því beinlínis refsing sem á að leggja á börnin okkar og barnabörn. Hvaða vit er í því? Ekki komu þau neitt nálægt þessu? Fyrir hvað vilja menn refsa þeim?
Fyrri Icesave samningurinn var mun skárri en gekk samt út á að Íslendingar borgi tjónið eftir Landsbankann. Það sem var betra við hann var að þar var lokadagssetning á refsigreiðslunum þannig að refsingin gangi ekki óendanleg yfir komandi kynslóðir.
Davíð Pálsson, 1.1.2010 kl. 21:45
JR, ég veit að búið er að samþykkja Icesave. Ég benti einmitt á þetta á einum af færslunum tengdri við fréttina. Málið núna snýst um viðaukann frá því í september. Hann virðist vera verri en upphaflegi samningurinn, a.m.k. eins og ég skil þetta. Þess vegna er okkur hagur af því að halda málinu gangandi. Best hefði verið að fá alveg nýjan samning, þar sem tvær samþykktir Alþingis væru virtar, þ.e. umhaflega umboðið sem Alþingi veitti og síðan það sem fólst í lögunum í haust.
Marinó G. Njálsson, 1.1.2010 kl. 21:53
Ég held að þetta byggist að nokkru leita á eftiráútskýringum hjá þér. Ef að íslenskum innistæðueigendum hefði verið gert grein fyrir því að krafa þeirra væri bara 20.000 evrur í tóman tryggingarsjóð sem að ríkið ábyrgðist í raun ekki þá hefðu bankarnir verið fljótir að tæmast.
Ef að bankarnir hefðu byrjað að tæmast þá hefði ríkið undirstrikað að þeir væru í ábyrgð. Það kom þó ekki til þess því að fólk trúði því þegar forsætisráðherra segði að allar innistæður landsmanna væru tryggar. Fólk byggði ákvörðun sína um að halda innistæðum sínum í bankanum ekki á því að eignasöfnin væru traust.
S.s líf bankakerfisins byggðist á því að Íslendingar tryðu því að allar innistæður væru tryggar í topp.
Byggist málsvörn þín á því að þetta hafi aðeins verið í orði en ekki í borði?
Þegar að LBI lokaði Icesave reikningum en hélt áfram að greiða íslenskum innlánahöfum lít ég á sem svo að bankinn hafi í raun orðið gjaldþrota vegna lausafjárskorts. Þeir peningar sem hann hefur svo greitt Íslendingum eru í raun eign tryggingasjóðsins, þar sem hann eigi forgangskröfu í bankann. Ríkið kaus að eignast bankann og skuldir hans með og er því ábyrgt fyrir því að hafa greitt sumum innistæðuhöfum eins mikið og þeir vilja af kröfum sínum en öðrum meinaður aðgangur. Þar er stórt brot á ferð og líklegt að ríkinu verði dæmt að veita öllum jafnan aðgang.
Hvað svo sem lagatæknar kjósa að kalla hvern lið í þessu máli þá er þetta kjarninn. Sumir fengu allt og aðrir ekkert í boði ríkisins. Ríkið er því ábyrgt.
Miðað við meðferð fjár innan LBI rétt fyrir hrun þá eru jafn miklar líkur á að fjármunir hafi bjargast við hriðjuverkalög og ef að banksterunum hefði verið frjálst að færa féð til Íslands og ráðstafa að vild.
Hver heldur þú að lánskjör innistæðusjóðs sem er ekki tryggður af ríkinu séu? Heldur þú að hann hefði yfir höfuð fengið lán af þessarri stærðargráðu?
Svo gerir Icesave saminingurinn ekki ráð fyrir því að við greiðum innistæðukröfurnar að fullu eins og margir virðast telja. Mér skilst að við greiðum um 660milljarða af 1100milljarða króna innistæðum.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 22:50
Davíð ef þú ert ekki að tala um innistæðu á bankareikning þá veit ég ekki alveg hvar þú sérð tenginguna við þessa umræðu.
Hlutabréf eru ekki með neina tryggingu og koma því ekkert inn í þessa umræðu. Það eru samt margar aðrar deilur um mismunun hluthafa og markaðsmisnotkun. Þá sérstaklega í Kaupþingi vegna lána með veðum í hlutabréfum. Ég vona innilega að þú og þínir fáið málsbætur vegna þess.
Umræðan hér er um bankainnistæður og mismunun á úttektarmöguleikum einstaklinga eftir því í hvaða útibúi viðskipti fóru fram.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 22:59
Gunnar, það er ýmislegt rétt og rangt í því sem þú segir.
Í fyrsta lagi, þá vissu allir sem vildu vita, að innistæðutryggingar á Íslandi voru að jafnvirði EUR 20.887. Fullt af fólki fór í bankann sinn eftir að Glitnir féll og dreifði peningum á milli bankareikninga svo upphæðin væri innan tryggingarupphæðarinnar eða tók þá út í stórum stíl. Sagan um manninn sem kom með þrjár ferðatöskur til að taka út 70 m.kr. er sönn. Þannig að það er RANGT hjá þér að fólk hafi ekki áttað sig á þessu. Það gerðu það bara ekki allir.
Í öðru lagi, þar voru bankarnir byrjaðir að tæmast og stóðu þeir mjög tæpt á föstudeginum. Þetta hefur ítrekað komið fram. Þess vegna voru öll fundarhöldin helgina áður en neyðarlögin voru sett. Þú hefur greinilega ekki séð sjónvarpsþættina Hrunið. Sem sagt annað atriði sem er byggt á röngum upplýsingum.
Í þriðja lagi, þá gaf Geir H. Haarde út yfirlýsingu í kjölfar neyðarlaganna að innistæður í bönkunum væru tryggar. Fram að því voru þær EKKI tryggar. Hér er því enn ein villan hjá þér.
Í fjórða lagi, þá er það rétt að Landsbankinn var kominn í greiðsluþrot á mánudeginum. Þess vegna sneri hann sér til FME. Ástæðan var ekki sú að hann var að borga út til innlendra innstæðueigenda. Ástæðan var að gert var áhlaup á hann í London. Þannig að þetta atriði er bæði RÉTT og RANGT.
Í fimmta lagi, þá hefur Landsbankinn aldrei gengið á eigur tryggingasjóðsins. Málunum var bjargað með því að gera innistæður að forgangskröfum og þar með fóru þær fram fyrir í kröfuröðinni. Það reyndi því aldrei á tryggingasjóðinn. Uppsetning nýju bankanna er bara bókhaldsgjörningur sem byggður er á neyðarlögunum. Þetta atriði er því RANGT hjá þér.
Í sjötta lagi, þá reiknaði ríkið með að eignir Landsbankans í útlöndum myndu duga fyrir Icesave. Aðgerðir breskrar stjórnvalda eyðilögðu það. Þannig að aftur skýtur þú framhjá. Það er aftur rétt að allir verða að standa jafnir, en það er ekki á ábyrgð tryggingasjóðsins eða ríkisins. Það er á ábyrgð Landsbankans að sjá til þess, þ.e. skilanefndar hans. Það verður bara gert á tvo vegu. Annar er að lækka upphæðina sem íslenskir innstæðueigendur fá í sinn hlut. Hinn er að innheimta öll útlán bankans í topp og láta peninginn renna til innstæðueigenda. Það er bara ekki vandamál ríkisins samkvæmt tilskipun ESB. Þegar írsk stjórnvöld buðu upp á 100% tryggingu, þá voru þau klöguð til ESB fyrir samkeppnisbrot. Ég get séð að þýða neitt annað en að ríkisábyrgð er bönnuð.
Í sjöunda lagi, þá var það rangt af stjórnvöldum að tryggja allar innistæður upp í top. Það hefði átt að setja þak á bæturnar og það hefði átt að undanþiggja vexti og verðbætur frá 1. jan. 2008.
Í áttunda lagi, þá kemur það skattborgurum ekkert við hver lánskjör tryggingasjóðsins væru. Auk þess sé ég ekki að lánskjörin sem í boði eru séu góð. Það væri mun betra að freista þess að fá lán í jenum og borga breska og hollenska lánið upp.
Það er RÉTT hjá þér að ekki er gert ráð fyrir að greiða allar Icesave innistæðurnar, enda hefur held ég enginn haldið því fram. Að upphæðin sé 660 milljarðar er aftur bara ein af mörgum tölum sem hafa verið nefndar. Icesave innistæðurnar námu eitthvað um 1.400 milljarðar við fall Landsbankans. Síðan hefur gengið lækkað um 15-20%. Hver skuldin verður þegar upp er staðið er ómögulegt að segja.
Gunnar, umræðan í færslunni minni var, eins má lesa, um allt tapið af völdum Björgólfsfeðga, þannig að Davíð hefur alveg rétt fyrir sér. Aftur á móti snýst Icesave bara um innistæður.
Marinó G. Njálsson, 1.1.2010 kl. 23:31
Minni trú hef ég þó á stjórnarandstæðingum í þessu máli. Engin leið er að skilja í hverju andstaða þeirra við frumvarpinu liggur.Líklegast vita það fæstir og eru bara á móti út af því að þeir eru í stjórnarandstöðu.
Hreyfingin og stjórnarandstaðan hafa farið með sterk rök gegn ríkisábyrgð á Icesave sem er lagalega engin og þeir sem hafa í alvöru verið að hlusta á rökin þeirra í Alþingi kæmu ekki og segðu ofanvert eins og Gunnar. Þau voru ekki bara á móti til að vera á móti. Þau voru að færa rök gegn kúgun og nauðung sem Jóhanna og Steingrímur ætla að kúga fólkið í landinu með svo Jóhanna komist ínn í EU og Steingrímur ætlar fyrst og fremst að halda völdum hvað sem það kostar okkur. Og líklega allir stjórnarliðarnir sem sögðu já við kúguninni.
Elle_, 2.1.2010 kl. 00:11
Í fyrsta og öðru lagi þegar ég talaði um innistæðutrygginguna þá átti ég við innistæðutryggingu Geirs H. Haarde upp í topp.
Í þriðja lagi þá skiptir innistæðutryggingakerfið fyrir þann tíma í raun engu máli því að það er innistæðutryggingakerfi Geirs H. sem heldur bönkunumá floti.
Eins og þú nefnir þá var fólk farið að taka peninga út úr bönkunum. Ef að skilningur fólks hefði ekki verið að ríkið tryggði innistæður í bönkum þá hefði þetta haldið áfram. Því var í raun 100% innistæðutrygging í gangi. Ef að fólk hefði áttað sig á því að þessi 100% trygging væri í raun bara sama gamla kjaftæðið með inneignarnótu í galtóman og óríkistryggðan tryggingarsjóð þá hefði áhlaupið haldið áfram.
Fólkið trúði því að þegar að forsætisráðherra segir að innistæður séu tryggar þá sé ríkið ábyrgt en ekki sjálfseignarstofnunin Tryggingarsjóður Innistæðueigenda.
Í fjórða lagi þá var ég að benda á að bankinn hafi orðið gjaldþrota vegna lausafjárskorts en samt haldið áfram að greiða út á Íslandi í krafti ríkisins.
Í fimmta lagi þá sagði ég ekki að gengið hefði verið á eignir sjóðsins en benti á að peningar LBI sem notaðir voru til að greiða íslenskum innistæðuhöfum hefðu við eðlilegt gjaldþrot orðið að eign Innistæðutryggingarsjóðs. Því er ríkið ábyrgt fyrir því að Íslendingar hafa fengið alla sína peninga en Bretar ekkert. Sama hvað bókhaldsgjörningurinn heitir þá er verið að fara framhjá innistæðutryggingarsjóð og þar með mismuna jafn réttháum einstaklingum. Þett er einnig gert í krafti ríkisins.
Í sjötta lagi þá benti ég á að ekki er ljóst að aðgerðir Breta hafi skemmt eigur í LBI í Bretlandi. Ég nefndi einmitt að líkur eru á að Bretar hafi bjargað því lausafé sem þar var frá því að fara í súginn. Þó verður líklegast aldrei úr því skorið og ómögulegt að nota sem veigamikil rök.
Í sjöunda lagi þá voru þessar innistæður tryggðar til fulls fyrir íslenska banka og því jafnt í útibúum á vestfjörðum sem og Bretlandi. Því er undarlegt að reikna með því að innistæðutrygginarsjóður þurfi aðeins að greiða 20.000 evrur til þeirra bresku.
Talað er um að innistæðutryggingarsjóður sé ábyrgur fyrir þessu og skilanefndir fyrir hinu og bankarnir ohf. fyrir öðru en ríkið sjálft sé stikkfrítt. Þetta er bara kennitöluleikur.
Ég er ekki fylgismaður þess að taka á mig óþarfar skuldbindingar. Ég, rétt eins og þú, er til í að samþykkja ýmissa hluti ef fyrir því eru rök.
Ég er hinsvegar réttlætismaður og þegar ég sé að Bretar og Hollendingar sem ekkert hafa gert okkur þurfa að gjalda fyrir það að leyfa okkur að stunda viðskipti í þeirra löndum þá veit ég að risið á landinu er ekki hátt. Eða þegar við köllum þá óvini okkar, í stað þess að leita hjá þeim hjálpar, þegar þeir neyðast vegna vanhæfni utanríkisþjónustu og fjármálaeftirlits okkar að loka á fjármagnsflutninga milli landanna.
Við höfðum val milli þess að horfa á bankaviðskipti lokast í landinu eða að tryggja innistæður að fullu. Hvoru tveggja hefði reynst dýrkeypt en ekki er hægt að svíkjast undan greiðslu. Ef að bankarnir hefðu farið í gjaldþrot þá hefðu mun hærra hlutfall fjármagns farið úr landi auk áhrifa þess að vera án virks bankakerfis.
Þó svo að umræðan hér væri um allt tap af völdum Björgólfsfeðga þá er samt augljóst að þegar ég tala um Icesave og að fá allt bætt í topp þá á ég við um innistæður.
Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 01:06
Þú ert að verða þjóðhættulegur, Maddi. Ég þekkti þig alltaf sem ábyrgðarfullan, þú varst sá ábyrgasti af okkur. Hvernig væri nú að láta af rökræðustaglinu og horfast í augu við kaldan raunveruleikann? Ég hef ekki áhuga á að lifa í einangruðu þjóðfélagi næstu árin vegna skammsýni, þrjósku og prinsippástríðu landans. Auk þess veit ég ekki betur en ríkisstjórnin hafi tryggt að fullu allar bankainnistæður Landsbankans á Íslandi. Það sama hlýtur að gildar um útibú bankans í útlöndum. Þessu verða menn að kyngja, líka þú, sama hvað það er fúlt.
ábs (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 15:53
Ágúst, skýrðu út fyrir mér hvernig það að láta lögin frá því í haust standa munu gera það að verkum að við einangrumst. Skýrðu út fyrir mér hvernig það að standa á íslenskri lögsögu verður til þess að við einangrumst. Ríkið tryggði ekki innistæðurnar heldur flutti þær til í kröfuröð. Á þessu tvennu er mikill munur. Það sem gerðist eftir setningu neyðarlaganna kemur málinu ekki við. Ef innistæður í íslenskum bönkum hefðu verið meiri en eignir bankanna, þá hefði ekki verið hægt að tryggja innistæðurnar upp í topp. Svo einfalt er það.
Ég held að ég kjósi að vera "þjóðhættulegur" áfram, því það er þannig fólk sem er að verja almenning í landinu. Ekki gera stjórnmálamenn eða bankafólk það.
Marinó G. Njálsson, 2.1.2010 kl. 17:11
Góður pistill hjá þér Marinó.
Ég er þér algjörlega sammála.
Halla Rut , 2.1.2010 kl. 19:05
Annars tek ég eftir því að fólk áttar sig ekki á einu atriði. Þegar ég segi að við eigum ekki að borga skuldir einkafyrirtækis, þá er ég að tala um það sem er umfram það sem tryggingasjóðurinn íslenski er ábyrgur fyrir. Allt upp að EUR 20.887 er tryggt af íslenska sjóðnum. Ekkert umfram það. Það eru þær skuldir einkafyrirtækis sem ég er að tala um. Bankinn átti eignir fyrir þessu við fall hans. Bresk stjórnvöld gripu til ákveðinna aðgerða, sem þau töldu vera til að verja hagsmuni sparifjáreigenda en virkuðu öfugt. Mér finnst út í hött að ég sem íslenskur skattborgari eigi að greiða fyrir klúður Breta.
Marinó G. Njálsson, 2.1.2010 kl. 21:12
Forsætisráðherra Íslands ábyrgðist allar innlendar bankainnistæður í beinni sjónvarpsútsendingu. Ég horfði á það Maddi, ég hlustaði á það og ég hlustaði á hann ítreka það, þú getur ekki breytt þeirri staðreynd með einhverjum hártogunum um kröfuröð. Icesave-reikningarnir voru á hendi útibúa Landsbankans.
Mér finnst fulltrúalýðræði vera skárra en beint lýðræði. Ef við höfum þjóðaratkvæði um öll mikilvæg mál verður til dæmis hvorki hægt að hækka skatta né skera niður ríkisútgjöld. Landið færi raunverulega til andskotans örfáum árum, þrasarar á borð við In-defence hópinn og allra handa lýðskrumarar myndu ganga frá því.
Einn röksemd í viðbót er sú að hvert einasta þjóðríki sem við eigum í samskiptum við krefst þess að við göngumst við þessari ábyrgð.
ábs (IP-tala skráð) 3.1.2010 kl. 02:05
Gústi, ég veit alveg hvað Geir sagði, en ég er ekki viss um að hann viti hvað hann sagði. Þetta var gert með því að færa innistæður til í kröfuröð. En fyrst þú ert svona harður á þessu, af hverju erum við þá ekki að borga allt til baka? Af hverju erum við bara að borga til baka það sem bresk og hollensk stjórnvöld ábyrgðust? Ef ætlunin var að tryggja allt, þá vantar um 3-400 milljarða ef ekki 6-700 milljarða upp á.
Það var einmitt þetta fulltrúalýðræði sem setti Icesave samninganefndinni ramma, en nefndin ákvað ekki einu sinni heldur tvisvar að hunsa þennan ramma. Báðir Icesave samningarnir voru undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Samningarnir voru því ekki bindandi fyrr en Alþingi hafði samþykkt þá. Alþingi samþykkti fyrirvara við fyrri samninginn. Hvað var að því að verja þá fyrirvara? Ertu að segja að þeir hafi verið bull og vitleysa? Eða er það ESB draumurinn sem er trufla dómgreindina? Málið er, að það er verið að beyta okkur fjárkúgun og þess vegna eigum við að standa föst á fyrirvörum Alþingis frá því í ágúst.
Hvaða ábyrgð krefjast aðrar þjóðir að við göngumst við? EUR 20.887, GBP 50.000, EUR 100.000 eða eitthvað allt annað? Ef Bretar hefðu ábyrgst 1.000.000 GBP hefðir þú þá viljað að við borguðum öllum sem áttu 1 m. GBP? Hvað ef upphæðin hefði verið 100 m GBP eða 1 milljarður GBP? Hver eru mörkin? Komdu með rök fyrir því að GBP 50.000 og EUR 100.000 eru réttu tölurnar og kannski fellst ég á þau. Það eru bara engin rök fyrir því. Það er málið.
Nú segir vafalaust einhver að við séum ekki að ábyrgjast það sem er umfram EUR 20.887. En við erum að því, þar sem fyrir hverja krónu sem fer til íslenska tryggingasjóðsins fer ein króna til þeirra erlendu. Samtala inistæðna undir EUR 20.887 eru nokkurn vegin sú sama og það sem er umfram EUR 20.887 en undir GBP 50.000/EUR 100.000. Þannig að náist að greiða upp EUR 20.887 til allra sem eiga að fá, þá næst líka að greiða upp GBP 50.000/EUR 100.000 til allra sem eiga að fá. Það er þetta sem mér finnst út í hött og þess vegna er ég á móti þessum samningi. Mér finnst rétt að greiða þessi EUR 20.887 og síðan þegar það er búið, þá á að greiða inn á hitt eins og eignir Landsbankans duga fyrir.
Marinó G. Njálsson, 3.1.2010 kl. 02:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.