Leita í fréttum mbl.is

..og aldrei það kemur til baka

Annus Horribilis er líklegast það eina sem hægt er að segja um þetta ár sem er að líða.  Þrjár ríkisstjórnir hafa setið og nær engu áorkað í uppbyggingu landsins eftir hrunið.  Úrræðaleysi þeirra hefur verið algjört varðandi vanda heimilanna.  Það hefur verið algjört varðandi vanda fyrirtækjanna.  Það hefur verið algjört varðandi styrkingu hagkerfisins og þar með krónunnar.  Það eina sem gert hefur verið er að auka á vanda allra með frestun aðgerða, hækkun skatta og loks samþykkt Icesave nauðungarsamninganna, sem munu halda aftur af uppbyggingunni ennþá lengur.

Allt sem ríkisstjórnir Samfylkingar og VG hefur gert, hefur tekið óratíma.   Á fyrsta blaðamannafundi fyrri ríkisstjórnar flokkanna lofaði Jóhanna Sigurðardóttir að slegin yrði skjaldborg um heimilin í landinu.  Vissulega var ákveðið að fresta nauðungarsölum og stuðlað að frystingu lána, þá voru samþykkt lög um greiðsluaðlögun.  Málið er að ekkert af þessu leysti nokkurn skapaðan hlut fyrir yfirskuldsett heimili, sem lent höfðu í svikamyllu fjármálafyrirtækja.  Því var haldið fram fullum fetum, að ekki væri svigrúm til að gera neitt, þó svo að lesa mætti út úr gögnum frá gömlu og nýju bönkunum að gríðarlegt svigrúm væri fyrir hendi.  Við fall SPRON jókst þetta svigrúm enn frekar.  Nei, það sem átti að vera skjaldborg um heimilin varð að skjaldborg um fjármálafyrirtækin.

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð í janúar um það eitt að standa vörð um heimilin í landinu.  Því miður var nafn samtakanna helst nefnt í hátíðarræðum stjórnmálamanna.  Samráð við neytendur var talið óþarft með öllum.  Fjármálafyrirtækin, sem sett höfðu allt á annan endann, voru talin hæfust til að ákveða hvaða dúsur ætti að rétta heimilunum.  Félagsmálaráðherra hefur safnað í kringum sig fólki sem hefur engan skilning á mannlegum samskiptum frekar en hann sjálfur.  Þau álíta að mannleg samskipti felist í því að sitja á fundi með lokuð eyru.  Sorgleg staðreynd.  Það sama á við um stóru bankana þrjá.  Innandyra hjá þeim hafa skipað sér til sætis stjórnendur sem telja sig ekki þurfa að hlusta á viðskiptavini sína.  Kannski telja þeir að það sé líklegt til árangurs, en ég er hræddur um að þar skjátlist þeim illa.  HH hömruðu á öllum viðeigandi aðilum allt árið.  Strax í febrúar héldum við því fram að fasteignir viðskiptavina bankanna ætti að nota til að endurreisa þá.  Það hefur smátt og smátt verið að koma í ljós að er rétt.

Stuðningur við kröfum HH um leiðréttingu á lánum heimilanna kom úr óvæntri átt.  Stuttu eftir að Alþingi hafði samþykkt lög um greiðslujöfnun og sértæka skuldaaðlögun sendi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frá sér skýrslu, þar sem kom fram að fjármálafyrirtæki þyrftu að öllu óbreyttu að afskrifa um 600 milljarða af skuldum heimilanna.  Það sem meira var, að bankarnir þrír hafi fengið um 45% afslátt við færslu lánasafna heimilanna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Það þýðir að bankarnir geta fært niður gengistryggð lán um 50% og verðtryggð um 20% og átt samt meira en þriðjung af fjörtíu og fimm prósentunum eftir til að greiða fyrir hærri fjármögnunarkostnað.

Bankarnir reyndu svo sem að klóra í bakkann með "lausnum" sem eru flestar hálf aumar.  Vissulega létta sumar pressuna tímabundið af illa stöddum heimilum, en allt sem er gefið eftir núna er tekið til baka síðar.  HH hafa vakið athygli á þessu og vonumst við að barátta okkar muni skila varanlegum árangri.  Höfum það alveg á hreinu, að barátta samtakanna hefur skilað miklu.  Án hennar væri staða heimilanna ennþá verri.  En betur má ef duga skal og því þurfum við öll að sameinast í baráttunni á komandi ári.

Ég þakka öllum mikinn stuðning á árinu sem er að líða og hvet fólk til dáða á nýju ári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þessa samantekt Marínó. Ég bæti við þessa upprifjun hjá þér en biðst jafnframt afsökunnar á lengdinni á innlegginu.

Upphaflega þá var það innifalið í AGS planinu frá 2008 að íslenska ríkið mætti ekki taka á sig nýjar skuldbindingar fram á mitt ár 2009. Sú hugmynd var skynsamleg enda flæddu peningar stjórnlaust út úr ríkiskassanum strax eftir hrun og þann leka varð að stoppa. Hugmynd AGS virðist svo hafa gengið út á að klára skiptinguna á milli gömlu og nýju bankanna með tilheyrandi afskriftum til þess að minnka skuldaþrýstinginn og búa þannig til lífvænlegt hagkerfi.

Því miður þá féllu stjórnvöld síðan fyrir þeirri freistingu að grípa inn í ferlið og beina ábatanum af afskriftunum inn í ríkiskassann í stað þess að þeir sem skulduðu gömlu bönkunum fengju að njóta afskriftanna. Í þessu samhengi má líka minna á, hvaða afskriftir verið er að tala um.  Verðtryggðar skuldir voru fluttar á milli gömlu og nýju bankana með 20% afslætti og gengistryggðar með 50% afslætti.  Kröfuhafar gömlu bankanna eru með öðrum orðum að viðurkenna að það sé ekki forsenda fyrir því að rukka inn þær sápukúluskuldir sem mynduðust við hrunið (20% verðbólga og 50% gengisfall). Með hvaða afslætti skuldirnar (sem ríkið átti aldrei neitt í) voru fluttar úr þrotabúunum yfir í nyju bankana hafa stjórnvöld reynt að halda leyndu fyrir almenningi.

Það hefur verið sérstaklega átakanlegt að fylgjast með fólki sem maður veit að er ágætlega gáfum gefið, reyna að rökstyðja þessa eignaupptöku.  Oft hefur mér dottið orðið "þjófsnautur" í hug undanfarið ár, en ég efast svo sem ekkert um að það fólk sem reynir að verja þennan gjörning gerir það í góðri trú. Þeirri trú að þetta muni stytta okkur leið í gegnum kreppuna. En þessi leið er ekki boðleg því að hún er siðlaus.

Við höfum hvað eftir annað þurft að hlusta á ömurlegan málflutning um að staða skuldara sé þeim sjálfum að kenna. Fólk í áhrifastöðum hefur sokkið svo djúpt í réttlætingu á afstöðu stjórnvalda að grípa í hjólhýsa- og flatskjárrökin, þegar margt bendir til þess að ráðherrar úr hrunstjórninni gætu verið að enda fyrir Landsdómi fyrir að hafa ekki sinnt eftirlitsskyldum sínum.

Þá liggur einnig fyrir að eigendur gömlu bankana lánuðu sjálfum sér og félögum þeim tengdum ca. tvöfalda þá upphæð sem eru heildarskuldir íslenskra heimila. Menn geta svo velt því fyrir sér hverjar endurheimtur á skuldum eigenda bankanna verða þegar upp verður staðið. Það er hins vegar augljóslega stefnt að því að almenningur borgi að minnsta kosti til baka það sem hann tók að láni og helst meira til. Starfsemi gömlu bankanna sætir nú rannsóknum af hálfu yfirvalda í amk tveimur ríkjum. Það þarf engin að segja mér að hann trúi því ennþá að túpusjónvörp hefðu forða okkur frá þessum ósköpum.

Persónulega stend ég ágætlega og þarf ekkert að kvarta, en það er skylda allra borgara að berjast gegn órétti og berjast af hörku gegn þeim sem því beita.  Ég hvet allt hugsandi fólk til þess að leggja baráttunni gegn sjálftökuöflunum lið á næsta ári. Gerum það í gegnum HH eða á þeim vettfangi öðrum sem okkur finnst henta.

Gleðilegt nýtt ár og aldrei, aldrei, aldrei gefast upp. 

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 15:58

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

... en við losnum aldrei alveg við það heldur.

Þetta ár á eftir að verða okkur til trafala um langa tíð, kannski alla tíð. Nánast allt sem gert hefur verið á árinu fram á næst síðasta dag þess og líka allt hitt sem ekki var gert á eftir að verða okkur fjötur um fót lengi. Endalausir vinargreiðar stjórnmálamanna, nú síðast Icesave samþykktin, eiga eftir að draga allan mátt úr atvinnulífinu um langa tíð. Og að leyfa sumum hér að ganga áfram lausir en dæma á sama ári aðra og saklausa til að greiða skuldir þeirra er óskiljanleg ósvífni, óheiðarleiki og óréttlæti sem á eftir að hefna sín margoft þegar frá líður.

Jón Pétur Líndal, 31.12.2009 kl. 16:52

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Gleðilegt ár.  Þetta nýja ár verður örugglega baráttuár fyrir okkur sem eigum að borga allt sukkið.  Við sem erum með verðtryggðu húsnæðismálastjórnarlánin erum ekki öfundsverð.  Við eigum að tapa eigum okkar til þess að ákveðnir menn (einkavinir stjórnmálamannanna) geti haldið sínum eignum.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.1.2010 kl. 02:37

4 Smámynd: Offari

Gleðilegt ár. Satt er það litlu hefur verið áorkað því mesta púðrið fór í að reka Davíð, Esb og Icesave.   En ég er næsta viss um að ríkistjórnin lofi okkur að reisa skjaldborgina þegar þjóðin hefur samþykkt inngöngu í Esb. Ég hef því miður litla trú á að endurreisnin  hefjist fyrr.  Þótt svo að áramótaskaupið hafi gert mann bjartsýnann efast ég um að það bjartsýniskast endist lengi.

Ég vil þakka þér og hagsmunasamtökunum fyrir ötula baráttu fyrir flatskjáeigendur landsins. Og vona að baráttan haldi áfram því okkur vantar grunn undir endurreisnina.

Offari, 1.1.2010 kl. 12:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband