13.11.2009 | 17:00
Heimilin viðurkenna ekki kröfur fjármálafyrirtækja
Félags- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að gera út lið starfsmanna, sem hafa verið ráðnir án auglýsinga, til að sannfæra þjóðina um, að heimilin verði að greiða til baka að fullu allar kröfur bankanna ellegar fara í sértæka skuldaaðlögun, greiðsluaðlögun eða gjaldþrot. Yngvi Örn Kristinsson og Kristrún Heimisdóttir hafa verið sérlegir sendiboðar ráðherra. Bæði hafa þau hamrað á því að heimilin verði að borga nema kröfur séu sannanlega tapaðar. Bæði hafa haldið því fram að lækkun á sannvirði lánasafnanna, sem kom fram í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sé ekki peningur í hendi sem hægt sé að nota í færa niður skuldir heimilanna. Áhugaverðast af því, sem Yngvi Örn hefur sagt (í hádegisfréttum Bylgjunnar 40 prósent af skuldum heimilanna voru skildar eftir í gömlu bönkunum), er að 40% af skuldum heimilanna hafi verið skyldar eftir í gömlu bönkunum. Einnig er hún einkennileg þessi mantra tímabundnu starfsmannanna, að vegna þess að "staðan sé viðunandi", þá eigi fólk að sætta sig við að greiða óreiðureikning bankanna.
Það er satt, að lækkun á sannvirði lánasafna heimilanna hjá fjármálafyrirtækjum er ekki peningur í hendi, en það á líka við um lækkun á sannvirði lánasafna fyrirtækja og ekki eru neinar vöfflur á mönnum að afskrifa lán þeirra í stórum stíl án þess að þau þurfi að fara út í stórvægilega eignasölu. Ég sé ekki, af hverju önnur lögmál gilda um lánasöfn heimilanna. En gleymum ekki orðum Yngva Arnar Kristinssonar í hádegisfréttum Bylgjunnar. Ef 40% af lánasöfnum heimilanna eru ennþá í gömlu bönkunum, þá er ekki ennþá komið í ljós hvert sannvirði lána heimilanna er. Eru tölurnar í skýrslu AGS það sem á að miða við? Eða þarf að bæta við 56% af þessum 40%? Eða er það einhver önnur tala?
Annars er þrennt sem ég vil velta upp:
1. Stór hluti heimila í landinu viðurkennir ekki kröfur fjármálafyrirtækja, eins og þær koma fram á greiðsluseðlum. Þau halda vissulega flest áfram að greiða, en það er til að lenda ekki í vanskilum. Almennt viðurkenna lántakar ekki þá stöðu höfuðstóls sem fjármálafyrirtækin halda fram að lánin standi í. Nær allir lántakar með gengistryggð lán ýmist vefengja lögmæti lánanna eða réttmæti útreikninga fjármálafyrirtækjanna, nema hvoru tveggja eigi við. Mjög margir lántakar með verðtryggð lán telja að forsendur lánasamninga séu brostnar vegna mikillar hækkunar á höfuðstóli lánanna í kjölfar fjármálaóstöðugleika, óráðsíu og fjárglæfra nokkurra fjármálafyrirtækja og eigenda þeirra. Sé ekki gert ráð fyrir þessu í mati á sannvirði lánasafnanna, þá er rétt að menn fari aftur til kröfuhafa bankanna og semji upp á nýtt.
2. Það mat á sannvirði lánasafnanna, sem kemur fram í skýrslu AGS, er tilvalinn grunnur að mati komi til eignarnáms á lánunum eða hluta þeirra. Nú er tækifæri fyrir stjórnvöld að útfæra hugmyndir Gísla Tryggvasonar annars vegar og Jóhanns G. Jóhannssonar og Sigurjóns Arnar Þórðarsonar hins vegar um flutning allra húsnæðislán (og jafnvel fleiri lána) yfir í Íbúðalánasjóð eða aðra stofnun og fara í samræmda niðurfærslu lána þar. Hafa skal í huga, að þarna er bara 60% af lánasöfnum heimilanna og hin 40 prósentin geta verið með hvort hærra eða lægra hlutfallslegt sannvirði.
3. Það skal enginn segja mér, að við mat á sannvirði lánasafna heimilanna hafi verið farið ofan í stöðu hvers einasta lántaka og greiðslugeta viðkomandi metin. Heimildir Hagsmunasamtaka heimilanna segja, að byrjað hafi verið að meta öll verðtryggð lán niður um 20% og öll gengistryggð lán niður um 50%. Það gerir að jafnaði 25% niðurfærslu lánasafnanna. Síðan var gerð varúðarniðurfærsla upp á 10% til viðbótar. Meðan að ekki koma haldbærar sannanir um hið gangstæða, þá þykir mér líklegast að þetta hafi verið gert. Höfum líka í huga, að samkvæmt tölu frá skattinum (sem birtust í Tíund riti ríkisskattstjóra í dag), þá eru um 37 þúsund heimili með neikvætt eigið fé upp á 262 ma.kr. Það er breyting upp á 137 ma.kr. frá árinu áður sem jafnframt er þá aukin þörf fyrir afskriftir vegna hrunsins. En tökum alla upphæðina 262 ma.kr., þá standa um 340 ma.kr. eftir, sem er tæp 24% af því sem eftir er af framtöldum skuldum heimilanna í framtölum þessa árs, þ.e. 340/(1683 - 262). Þannig að allir geta fengið 20% leiðréttingu á verðtryggingu og allir geta fengið 50% leiðréttingu á gengistryggðum höfuðstóli.
Það hefur ítrekað komið fram í málflutningi stjórnvalda að þetta eða hitt sé ekki hægt, þegar koma á til móts við heimilin í landinu, en allt virðist hægt, þegar þyngja á álögur eða bjarga á auðmönnum (fyrrverandi) eða fyrrum háttsettum starfsmönnum bankanna. Almenningur í landinu er orðinn þreyttur á svona framkomu. Skora ég á stjórnvöld og talsmenn þeirra (sértaklega tímabundið ráðna starfsmenn félags- og tryggingamálaráðuneytis) að hætta að segja okkur að eitthvað sé ekki hægt og segja frekar (og meina það frá innstu hjartarótum) að allt sé hægt, það þurfi bara að finna færa leið og sú vinna sé í gangi.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.11.): 2
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 213
- Frá upphafi: 1679946
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 194
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Það virðist útilokað að stjórnvöld taki til hendinni og geri eitthvað róttækt í sambandi við vandamál skuldsettra heimila. Mikið rætt fram og aftur um aðgerðir en allar umræður virðast fara í stórt svarthol í kolli ráðamanna. Ekkert er gert! Eru ekki allir orðnir þreyttir á þessu? Þarf ekki að taka til róttækra aðgerða til að fá heyrnina í lag hjá ríkisstjórninni? Við getum ekki endalaust látið troða á okkur er það? Það getur ekki verið löglegt að hægt sé að hækka lán með þeim hætti sem orðið hefur hér undanfarin ár, væri hægt að fara með þetta fyrir alþjóða dómsstóla og fá úr því skorið?
Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 17:28
Edda, stjórnvöld ætla að gera eitt og annað róttækt í sambandi við vandamál skuldsettra heimila. Þau eiga að standa uppi eignalaus og með lágmarksframfærlueyri í þrjú ár. Ef þau sætta sig ekki við það, geta þau farið í gjaldþrot. Þetta eru úrræði stjórnvalda, þ.e. að viðurkenna ekki nokkurn rétt heimilanna til bóta eða leiðréttinga vegna fjárglæfra nokkurra fjármálafyrirtækja og eigenda þeirra.
Marinó G. Njálsson, 13.11.2009 kl. 17:33
Já því miður virðist þetta vera staðan. Það færi nú betur á því að reyna að kippa þessu ástandi í lag, þá gæti fasteignamarkaðurinn farið í gang aftur og fólk farið að lifa eðlilegu lífi. Ótrúleg þröngsýni og heimska hjá stjórnvöldum að sjá að þetta gengur ekki, það gagnast engum að heimilin fari í þrot. Þarf ekki að fara að berja í pönnur og potta aftur?
Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 22:35
Þakka þér fyrir að standa vaktina Marinó. Verk þessarar ríkisstjórnar og þá sérstaklega félagsmálaráðherra eru fremur ógeðfelld og lykta mjög illa.
Þór Saari, 13.11.2009 kl. 23:49
Þór, vandinn er sífellt að vaxa í formi "disinformation2 af hálfu stjórnvalda. T.d. finnst mér málflutningur Yngva Arnar virkilega vera neyðarlegur fyrir stjórnvöld, þar sem hann veit að hann er að veita rangar upplýsingar. Hann er búinn að vera innsti koppur í búri í mörg ár og er núna vísvitandi að koma með villandi upplýsingar. Þú sérð það og ég sé það. Við þurfum ekki annað en að skoða tölurnar, sem við fáum þó að sjá, til að átta okkur á ruglinu og lygunum. Ég skil vel að hinn venjulegi borgari geti ekki sett sig inn í allt talnaflóðið og áttað sig á flækjunni og blekkingunum, en hafi maður tíma, þá er auðvelt að bera saman tölur og átta sig á hlutunum. Stjórnvöld treysta á, að almenningur sé fávitar, en við erum það ekki.
Marinó G. Njálsson, 14.11.2009 kl. 01:26
Marinó, þú notaðir ljót orð yfir lygarnar og ruglið. Hefði ég gert það hefði viss maður komið að kastað mér út í ystu myrkur.
ElleE (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 12:11
Komiið og kastað mér út í ystu myrkur.
ElleE (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 12:13
Hyskið á þinginu stendur saman sem eitt um það að "Elítan" fái það sem hún á...almenningur getur bara étið skít, þetta virðist vera viðhorfið sem þingmenn nútímans hafa á almenning í landinu...like it or not.
Ægir Óskar Hallgrímsson, 14.11.2009 kl. 12:29
Blessaður, Marinó. Ég er ennþá að streytast við að borga af verðtryggðu námsláni. Hvað fæ ég mikla niðurfærslu (leiðréttingu)?
Hörður Þórðarson, 14.11.2009 kl. 16:00
Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvaða hvatir liggi þarna að baki. Við vitum að þessi "rök" stjórnvalda halda ekki.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 14.11.2009 kl. 16:38
Það er því miður talað fyrir daufum eyrum á þinginu. Það hefur sýnt sig í verki í sí og æ að þingmenn (bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandsstaða) hafa ENGAN áhuga á að leysa vanda heimilanna eða að leysa gallað lagaumhverfið sem við skuldarar búum í.
Hvernig vitum við að þessir þingmenn hafa ekki áhuga á því? Jú, með því að skoða mætingu þingsins þegar mál heimilanna og skuldara eru tekin fyrir á þingi. Aðeins um 30 þingmenn voru mættir til að greiða atkvæði fyrir eða gegn greiðslujöfnunar frumvarpinu. Og aðeins 6 þingmenn, sjáið 6 ÞINGMENN, mættu að ræða frumvarp Lilju Mósefs varðandi það að ekki eigi að vera hægt að elta skuldara umfram veð.
HALLÓ! Eigum við ekki kröfu á því að þingmenn mæti á þingið? Og eigum við ekki kröfu á því að þingmenn kjósi JÁ eða NEI! Hvaða "sitja hjá" kjaftæði er þetta!
Mér finnst að HH eigi að berja í borðið núna við þessu mætingar/skeytingarleysi þingmanna! Við erum að krefjast þess að málefni okkar verði rædd og leyst og þeir voga sér ekki einu sinni að mæta í vinnuna!
Dísa (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 20:40
ElleE. Ég geri ráð fyrir því að orð þín séu sneið til mín. Munurinn á þér og Marinó er sá að Marinó segir ljót orð og færir rök fyrir þeim en þú segir bara ljót orð.
Marinó. Þú sleppir aðalatriðinu í þínum málflutiningi og kemst þannig að kolrangri niðursöðu. Þú sleppir því atriði að þær niðurfellingar, semm nú eru færðar á lánasöfn gömlu bankanna eru til bráðabyrgða. Það á að endurskoða þetta árið 2012 en þá telja menn sig vita betur hversu mikið þarf að færa lánasöfnin niður til að mæta óhjákvæmilegum afskriftum vegna slakrar greiðslugetu skuldara og einnig lækkunum á höfuðsóli myntkörfulána vegna styrkingar krónunnar. Það er því nákvæmlega ekkert í hendi fyrir bankana og þaðan af síður að hægt sé að deila þessum peningum út til skuldara, sem geta greitt sínar skuldir.
Þessar bráðabyrðaniðurfærslur eru miðaðar við verstu hugsanlega niðursöðu varðandi mögulegar endurheimtur skuldabréfasafnanna. Verðmiðinn nú miðast því við að nærri 100% líkur séu á að innheimtur verði ekki minni en bankarnir greiða fyrir lánasöfnin núna. Síðan eiga þeir að greiða til viðbótar fyrir lánasöfnin samkvæmt mati árið 2012.
Það er ekkert ólíklegt að menn reikni þetta þannig að taka líklegar endurgreiðslur miðað við svartsýnustu spár og bæta síðan 10% við til viðbótar til að gulltryggja að ekki sé verið að greiða yfirverð fyrir lánasöfnin núna. Ef það verður niðurstaðan árið 2012 að líklega muni þessi svartsýna spá ganga nákvæmlega eftir en ekkert meira en það þá þurfa bankarnir að greiða þessi 10% til kröfuhafa gömlu bankanna árið 2012. Ef það verður niðurstaðan árið 2012 að hægt verði að innheimta meira en þessar svarsýnu spár gerður ráð fyrir þá þurfa nýju bankarnir bæði að greiða þessi 10% og munin á núverandi svarstýnu spá og þeirri spá, sem liggur fyrir árið 2012.
Á þessu sést að það er alveg kristaltært að þessar varúðarniðurfærslur mynda engan sjóð, sem hægt er að dreifa til skuldara, sem geta greitt sínar skuldir. Ef menn átta sig ekki á þessu þá er þetta útskýrt með tilbúnu dæmi á bloggsíðu minni. Það má sjá hér:
http://siggimaggi.blog.is/blog/siggimaggi/entry/980384/
Staðreyndin er nefnilega sú að meginatriðin í þessum pistli þínum er einfaldlega bull. Það sama á við um meginatriðin í málflutningi HH, sem er reyndar sá sami.
Það gildir sama regla varðandi afskriftir á skuldum fyrirtækja og heimila. Það er ekki verið að afskrifa neinar skuldir fyrirtækja, sem geta greitt sínar skuldir og stendur ekki til. Ef fyritæki, sem sækja um niðurfellingu skulda til að forðast gjaldþrot eiga eignir, sem ekki er nauðsynlegt að eiga til að halda rekstrinum áfram þá getur þú bókað að þau verða látin selja þær upp í skuldir.
Hvað varðar deiluna um réttmæti krafna fjármálafyritækja á hendur heimilum landsins þá er það lagalegt deiluatriði en ekki pólitískt. Það deilumál á því að útkljá fyrir dómstólum en ekki á Alþingi. Ef Alþingi fer að skipta sér af því þá er það bort á þeirri stjónrskipan, sem við og önnur Vesturlönd búa við, sem byggist á þrískiptingu valdsins. Það er einfaldlega Hæstaréttar en ekki Alþingis að skera úr um það mál og hvort eð er verður á endanum ekki hjá því komist að fara þá leið. Ef Alþingi ákveður að lækka lán heimila á grunvelli forsendubrests þá fara lánveitendur einfaldlega í mál við ríkið á grunvelli eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og ef Hæstitéttur samþykkir ekki rökin varðandi forsendubrest þá verður ríkissjóður skaðabótaskyldug gagnvart lánveitendum vegna niðurfærslunnar.
Sigurður M Grétarsson, 17.11.2009 kl. 19:06
Manni verður hálf óglatt af því að lesa þessa langhunda nafna míns sem ganga meira og minna út á málsvörn myrkrahöfðingans þ.e. bankanna. Frá mínum bæjardyrum lítur málið svona út. Ég var rændur og núna er yfirvaldið sem rannsakar málið að rukka mig um það sem stolið var frá mér fyrir hönd ræningjans.
Og mér er bara nákvæmlega sama hvað nafni minn segir þá get ég ekki samþykkt að ég eigi að bera þann kostnað.
Go on Marínó frábær barátta hjá þér.
sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 20:57
Give it a break Sigurður M. Grétarsson.
Jón Svan Sigurðsson, 18.11.2009 kl. 14:08
Sigurður Sigurðsson. Þú ert sem sagt að halda því fram að það að tala gegn leið, sem hyglir hinum betur settu á kostnað þeirra lakar settu og getur vart talist annað en aðför að afkomu þeirra verst settu, sé að vera "varðhundur myrkrahöfðingjans"? Það er skrítið viðhorf að mínu mati.
Ég hef fulla samúð með þér ef þú hefur verið rændur og þú átt allan minn stuðning í að ná því, sem af þér hefur verið rænt frá þeim, sem rændu því að þér. Þú átt hins vegar ekki minn stuðning í því að krefja mig og aðra skattgreiðendur um að greiða þér tjón þitt. Það er það, sem verður niðurstaðan ef farið verður að kröfu HH.
Íslensk yfirvöld standa ekki í því að rukka neitt af þér, sem stolið var af þér. Það eru bankarnir, sem eru að rukka þig. Stjórnvöld með félagsmálaráðherra í broddi fylkingar hafa reynt eins og hægt er að ná samkomulagi við fjármálastofnanir um að létta greiðslum af fólki en náðu einfaldlega ekki betri samningum en raunin varð á. Ein af ástæðunum fyrir því er sú að til að hægt væri að láta þann samning og þau lög, sem sett voru í kjölfar hans ná til allra lántakak þurfti að ná samkomulagi við alla lánveitendur um það. Því var ekki hægt að landa betri samningi en þeim, sem sá lánveitandi, sem skemmst vildi teygja sig var tilbúinn til.
Varðandi "ránið" þá ert þú væntanlega að vísa til forsendubrests. Deilan um það hvort um forsendubrest hafi verið að ræða eða ekki er lagaleg en ekki pólitísk. Það er því dómstóla að skera úr um það en ekki Alþingis samkvæmt því stjórnskipulagi, sem við og önnur Vesturlönd viðhöfum þar, sem gert er ráð fyrir þrískiptingu valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Í slíku stjórnskipulagi er ekki vel séð að ein grein þessa valds fari að skipta sér að þv´, sem tilheyrir annarri grein.
Menn komast hvort eð er ekki hjá því að láta Hæstarétt taka á þessu deilumáli. Ef Alþingi fer hina eðlilegu leið og bíður einfaldlega eftir niðurstöðu Hæstaréttar í máli, sem lántakar höfða þá setur Alþingi einfaldlega lög um framkvæmd þeirrar niðurstöðu, sem úr Hæstarétti kemur. Ef niðurstaðan er sú að um forsendubrest sé að ræða setur Alþingi einfaldlega lög í samræmi við það. Slíkt hefur enga áhættu í för með sér fyrir ríkissjóð.
Ef Alþingi hins vegar ákveður að fara að kröfu HH og færir vísitölu neysluverðs til verðtryggingar aftur til janúar 2008 og breytir myntkörfulánum í verðtryggð lán eins og þeir fara fram á þá munu lánveitendur fara í mál við ríkissjóð á grundvelli eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Ef Hæstiréttur tekur ekki að fullu undir að um hafi verið að ræða forsendubrest, sem kalli á akkúrat þessar leiðréttingar þá hefur Alþingi skapað ríkissjóði skaðabótaábyrgð gagnvart lánveitendum. Ef Hæstiréttur tekur ekki að neinu leyti undir það að um forsendubrest hafi verið að ræða nér að myntkörfulán séu ólöglega þá gæti orðið um og yfir 200 milljarða skaðabótaábyrgð ríkissjóðs að ræða.
Það væri því gersamlega óásættanleg áhætta fólgin í slíkri löggjöf frá Alþingi enda geta lántakar fengið sinn hlut réttan fyrir dómstólum án slíkrar lagasetningar ef Hæstiréttur telur að brotið hafi verið á þeim.
Jón Svan. Give what a break?
Sigurður M. Grétarsson (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 22:35
Sigurður M Grétarsson, mér finnast þetta vera heldur þunn rök hjá þér, það hvarflar ekki að mér að senda reikninginn á skattgreiðendur. Enda hefur verið bent á að lánasöfnin voru tekin yfir með afföllum. Ég er að fara fram á þessi afföll verði látin ganga áfram til lántakenda. Greiðsluaðlögunarleið félagsmálaráðherra er sorglegt klúður sem skilar þeim sem voru "rændir" ekki nokkrum sköpuðum hlut. Heldur má gera því skóna að þeir standi uppi verr settir en áður.
Síðan er þetta spurning um sanngirni, afhverju eiga fasteignaeigendur að sitja uppi með skaðan óbættan þegar okkur skattgreiðenum var sendur 200 milljarða reikningur til að bjarga þeim sem höfðu lagt í peningamarkaðsjóði.
Eignaréttur, hvað með að það hefur verið gengið freklega á eignarétt þeirra sem settu ævisparnaðinn í fasteignir. Eiga þeir ekki neinn stjórnarskrárvarinn rétt. Ég man heldur ekki til þess að hafa kvittað upp á að bankinn sem lánaði mér hefði fengið í kaupbæti frjálsan aðgang að mínum ævisparnaði og framtíðartekjum. Við gerðum með okkur samning um að hann lánaði mér fé og lofaði að greiða það til baka með vöxtum á ákveðnu tímabili að gefnum ákveðnum forsendum.
Ég skal glaður standa við það sem um samdist en ég kvitta ekki upp að bankinn geti síðan hagað sér eins og fíll í postulínsbúð og haft áhrif á þessar forsendur án þess að bera á því einhverja ábyrgð. Fjármagnseigendur verða einnig að sýna samfélagslega ábyrgð og slá af sínum kröfum hvað sem líður öllum stjórnarskrárvörðum eignaréttarákvæðum.
Mér finnst það skína í gegnum þín skrif, nafni að fjármagnseigendur eigi ekki að bera neina ábyrgð heldur í almenningur sem álpaðist til að taka lán fyrir hæfilegu húsnæði bera alla ábyrgðina og kostnaðinn
Það er klárt mál að það hefur orðið forsendubrestur og auðvitað ætti að leita með hann til dómstóla en það tekur óratíma og hættan er að greiðsluvilji almennings gufi upp á meðan.
Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.11.2009 kl. 12:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.