Leita í fréttum mbl.is

Vandræðaleg uppákoma Magnúsar Orra í Kastljósi

Ég var að hlusta á Magnús Orra Schram, þingmann Samfylkingarinnar, í Kastljóssviðtali.  Með honum var Björn Þorri Viktorsson lögmaður.  Því miður voru svo margar rangfærslur í málflutningi Magnúsar Orra, að það var virkilega vandræðalegt. 

Höfum alveg á hreinu:

  • Þó tillögur félagsmálaráðherra dragi tímabundið úr greiðslubyrði lána eru áhrif þeirra til langs tima neikvæð fyrir megin þorra almennings.  Þeim er fyrst og fremst ætlað að fresta vandanum.
  • Tillögur félagsmálaráðherra eru ekki að tryggja megin þorra landsmanna leiðréttingu.
  • Það er ekki verið að bjarga þeim sem þurfa á því að halda.  Þær tillögur eru ekki fram komnar.
  • Það er engin sanngirni í tillögum félagsmálaráðherra.  Heimilin eiga að greiða allt tjónið sem fjárglæfrar fjármálafyrirtækjanna ollu.
  • Það er ekkert réttlæti í tillögum félagsmálaráðherra, þar sem þeir sem söfnuðu mestum skuldunum fá niðurfærslu skulda, en hinir sem fóru varlega eiga að borga stökkbreyttan höfuðstól lánanna.
  • Það nýtist fólki strax ef höfuðstóll lána þeirra er leiðréttur núna.

Ég vorkenni mönnum sem eru svo auðtrúa að halda að verið sé að gera eitthvað marktækt fyrir skuldara.  Vissulega lækkar mánaðarleg greiðsla tímabundið, en svo verður ástandi verra en núna.  Nei, þeir sem helst fá hugsanlega eitthvað út úr þessu, eru þeir sem skulda meira en þeir eiga og eru því tæknilega gjaldþrota.  Það á því ekki að hjálpa þeim á annan hátt en að tryggja að þeir verði ekki eltir um aldur og ævi af innheimtulögfræðingum fjármálafyrirtækjanna.  Ef hér væru eðlilegar fyrningarreglur, þá væri ekki hægt að rjúfa fyrningu og halda kröfu lifandi um aldur og ævi.  Þær eru virkilega ómerkilegar hrææturnar, sem mæta á uppboð og bjóðast til að kaupa kröfur á lágu verði í þeim eina tilgangi að elta skuldarann út í eitt.

Ef Magnús Orri Schram heldur virkilega að hann geti komið í Kastljós og sagt fólki ósatt, þá skjátlast honum.  Það ættu náttúrulega að vera viðurlög við því að menn hagræði sannleikanum eins og hann gerði.  Auðvitað er möguleikinn, að hann skilji ekki tillögur félagsmálaráðherra, en þá á hann ekki að tjá sig um þær.  Þegar þingmenn mæta í Kastljós, þá verður að gera þá kröfu til þeirra, að þeir viti um hvað þeir eru að tala.

Skoðum nokkur ummæli hans (eru ekki orðrétt, en ekkert er slitið úr samhengi):  (MOS:  Magnús Orri Schram; MGN: Marinó G. Njálsson, þ.e. mín viðbrögð við orðum hans.)

MOS:  Afláttur á lánasöfnum, sem fæst við færslu þeirra frá gömlu bönkunum til þeirra nýju, verður notaður til að aðstoða ÞORRA almennings.

MGN:  Þorri almennings fær engan afslátt af lánum sínum samkvæmt tillögum ráðherra.  Tillögurnar ganga einmitt út á að þorri almennings beri tjón sitt óbætt.  Heimilin í landinu eiga að greiða fjármagnseigendum upp í topp.

MOS: Verið er að láta afskriftir fara til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda. 

MGN:  Nei, það er verið að láta afskriftirnar fara til þeirra sem bankarnir geta ekki innheimt eitt eða neitt af.  Þeir sem þurfa mest á þeim að halda, eru þeir sem ennþá geta eða eiga að geta staðið í skilum en hafa þurft að skera umtalsvert niður í neyslu til þess að halda sér í þeirri stöðu.  Fólkið sem er á mörkum þess að lenda í verulegum vandræðum, en mun gera það verði ekkert gert.  Fólkið sem mun fara yfir mörkin, þegar skattahækkanir næsta árs skella á þeim, eins og flóðbylgja.

MOS:  Verið er að leiðrétta stöðuna í það sem hún var fyrir hrun.

MGN:  Þetta er rétt gagnvart verðtryggðum lánum, en ekki gengistryggðum.  Gengið byrjaði að lækka í júlí 2007 og fyrra hrun þess varð í mars 2008, ekki eftir 2. maí 2008.  Nær engin breyting varð á gengi krónunnar frá 2. maí til 1. september 2008.  Munurinn á þessum tveimur dagsetningum er um 5% úr 152,6 stigum í 159,8 stig (breyting á gengisvísitölu).  Valið á 2. maí er eingöngu gert til að mars og apríl fall krónunnar sé inni í greiðslubyrðinni.

MOS:  Tillögur ráðherra hafa mjög jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn... Fólk mun taka lánin með sér ... Þær hjálpa fasteignamarkaðnum að endurskipuleggja skuldir.

MGN:  Hvernig getur það hjálpað fasteignamarkaðnum að auka óvissu um hvort lán verða færð niður eða ekki?  Hvað á fólk að gera með "kreppuhalann" þegar það minnkar við sig, stækkar við sig, selur til að flytjast úr landi?  Hvernig hjálpar það ungu fólki að koma inn á húsnæðismarkaðinn, að stór hluti húsnæðis er með "kreppuhala"?

MOS:  Er ekki betra að fólk borgi í samræmi við laun?

MGN:  Þetta er skýrasta dæmið um að þingmaðurinn skilur ekki tillögurnar.  Það er enginn að fara að greiða af lánum í samræmi við launin sín.  ENGINN.  Fólk á að fara að greiða í samræmi við þróun launa í þjóðfélaginu og atvinnustig.  Ef kennarar fá 20% kauphækkun, þá hækkar mánaðarleg greiðsla lögregluþjónsins sem jafnvel lækkaði í launum vegna niðurskurðar eða breytinga á vaktafyrirkomulagi.  Greiðslujöfnunarvísitalan er ekki beintengd við laun hvers og eins.  Hún mælir breytingar hjá fjöldanum.  Og þrátt fyrir afleitt atvinnuástand og mikla kjaraskerðingu stórra hópa, þá hefur hún lækkað um rétt 4-5 stig (4-5%) á einu ári. Á sama tíma hefur atvinnuleysi farið út 3,3% í 7,7% eða aukist um 133%.

MOS: Leiðrétting á höfuðstóli nýtist ekki fólki núna.

MGN: Úps! Ég legg málið í dóm.  (Þetta voru raunar eitt það fyrsta sem hann sagði, en ég enda á þessu gullkorni.)  Ég er ekki viss um að Magnús Orri hafi skilið hvað hann var að segja.  Skoðum þetta betur:  "Leiðrétting á höfuðstóli nýtist ekki fólki núna."  Það nýtist ekki fólki að lækka töluna, sem ákvarðar mánaðarlegar greiðslur, um 20 - 50%.  Það nýtist ekki fólki til að liðka fyrir fasteignaviðskipti að lækka höfuðstól lána um 20 - 50%.  Ég gæti sagt svo margt um þessi ummæli Magnúsar Orra, en læt það ógert.  Þau dæma sig sjálf.

Ég velti því fyrir mér hvort Magnús Orri hafi skilning á tillögum félagsmálaráðherra eftir að hafa hlustað á hann í Kastljósi.  (Ég er búinn að fara vel yfir viðtalið á vefnum, svo ég sé ekki að taka neitt eftir minni.) Hann sýndi það ekki í þessu viðtali og fann ég til með Birni Þorra að þurfa að sitja undir vandræðalegum málflutningi þingmannsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maðurinn er fífl eins og allir meðlimir þingflokks Samspillingar

Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 23:33

2 identicon

Augljóst er  smápeðin skulu send út á vígvöllinn þar sem þau gera í buxurnar frammi fyrir alþjóð. Stærri númer innan Samspillingarinnar reyna að láta ekki bendla við þetta rugl. En þar liggur samt ábyrgðin.

Siggi (IP-tala skráð) 8.10.2009 kl. 23:58

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það ætti að vera öllum ljóst að lækkun höfuðstóls lækkar greiðslubyrgði lána. Það hefur einmitt verið vandinn við verðtrygginguna að höfuðstóllinn hefur hækkað og um leið greiðslubyrðin.

Fjármálastofnanir samþykkja ekki lækkum höfuðstóls nema hafa verulegan ótta af almennu greiðslufalli og stofnanirnar hafa greinilega séð sér þarna leik á borði gagnvart almenningi. Fá hann til að greiða af háum höfuðstól en lækka aðra þætti til skamms tíma.

Það er mín tilfinning að fjármálastofnanirnar geri sé vissa grein fyrir því að stjórn peningamála muni taka þeim breytingum að vaxtakostnaður lækki til lengri tíma og í því skjóli telji forsvarsmenn þeirra að sé unnt að fá hækkun höfuðstólsins til baka.

Einu gleymir þetta annars ágæta fólk og það er að stærðfræðiþekking almennings á Íslandi er almennt orðin mjög góð, auk þess sem reikniforrit sjálfra bankanna hjálpa fólki að einhverju leiti við að skoða forsendur.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 9.10.2009 kl. 00:45

4 identicon

Góð samantekt!

Samfylking þorir ekki að takast á við vandann til þess að styggja ekki við fjármagnseigendum. Upphækkaðir höfuðstólar eru bara loft. Lánveitendur verða að horfast í augu við veruleikann og láta höfuðstólana sýna raunverulegt verðmæti lánanna.

Meira: http://gulli.is/2009/09/28/skuldir-heimila-eru-bara-loft/

Guðlaugur Kr. Jörundsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 09:00

5 identicon

Þetta snýst allt um að koma nýju bönkunum á koppinn og tryggja rekstrarumhverfi þeirra. Sömuleiðis snýst þetta um fjármagnseigendur. Eigendur fasteigna og aðrir skuldarar voru í rauninni skildir eftir í skítnum löngu fyrir hrun.

Grútur (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 09:20

6 identicon

Marinó ég hef spurt þig áður, er tilviljun að þessi maður skuli vera í stikkfrí flokknum......... það er bara ein leið hjá þeim.... ganga í ESB, sem þýðir alþjóðagljaldeyrissjóðurinn og borga icesafe ..... og hvað segir AGS, bannað að lækka höfuðstól lána........ það gerist ekkert í þessu nema að við spörkum Stikkfrí flokknum út úr Íslenskri pólitík, og nú spyr ég þig Marínó ... hvert er meinið????

siguróli kristjánsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 09:59

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er ekki oft sammála Láru Hönnu, bloggara, þegar hún segir í sínum pistli um þetta mál:

"Hann ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki grænustu glóru um hvað hann var að tala. Hann heyrði ekki í Birni Þorra, skildi hann líklega ekki, og hélt bara áfram í frasafílingnum. Minnti óhugnanlega á Árna Pál."

Tek undir hvert orð þarna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.10.2009 kl. 10:01

8 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Mig langar að segja þetta.

Dressmann Orri Schram er sorglegasta og vitlausasta viðbótin við Dressmann hóp Samfylkingarinnar hann er eins og klipptur út úr 2007 glanstímariti og hrokinn eftir því. Að bjóða fólki, sem sér jafnvel fram á að missa heimili sín upp á að horfa á svona ofdekraðan smástrák bulla sig út úr umræðunni sýnir  fyrirlitningu samfylkingarforystunnar á venjulegu fólki sem er að reyna að berjast áfram og halda sér á floti.

En ég vil ekki tala svona ílla um fólk, jafnvel ekki hrokafulla jakkafatastráka. Því segi ég frekar

Takk hagsmunasamtök heimilanna og  Marinó fyrir að standa vörð um hagsmuni almennings. Tilvist og barátta HH er örugglega ein aðalástæðan fyrir undanhaldi  stjórnvalda í málinu.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 9.10.2009 kl. 10:10

9 identicon

Takk Marinó. Ég les alltaf skrif þín af miklum áhuga.

Fullyrðingar Magnúsar Orra Schrams sýna það eitt að maðurinn hefur ekki hundsvit á þvi sem hann er að tjá sig.  Og það nú ekkert smámál sem hann er að gaspra um.

Ég lýsi yfir mikilli vanþóknun minni á málflutningi þessa óhæfa og illa upplýsta þingmanns. Jafnframt lýsi ég yfir furðu minni og vonbrigðum með að fólk, stuðningsmenn Samfylkingarinnar, hafi sameinast um að tryggja slíkum kjána og gasprara sæti á Alþingi Íslendinga.

Við þurfum svo sannaralega ekki á slíku að halda núna.

Takk og kveðja

Karl

Karl (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 10:21

10 identicon

Ég er ekki alveg að skilja þessar tillögur, en ef einhver getur upplýst mig, hvað verður um höfuðstól lánsins, verður hann áfram tengdur við neysluverðsvísitöluna eða á hann að fylgja launavísitölunni og atvinnustiginu???

Linda (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 11:12

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Linda, "úrræðum" ríkisstjórnarinnar á höfuðstóllinn áfram að fylgja neysluvísitölu, það er eingöngu greiðslubyrðin sem mun breytast samkvæmt launavísitölu. Mismunurinn verður svo færður á biðreikning sem bætist við höfuðstólinn þannig að lánstíminn lengist.

Eftir að hafa kynnt mér þessar tillögur get ég ekki betur séð en að verið sé að "eitra" öll fasteignalán í landinu þar sem mikil óvissa mun áfram ríkja um endanlegar heimtur af þeim. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með frá upphafi má benda á að það voru einmitt "eitruð" fasteignaveðlán í Bandaríkjunum sem komu af stað þeirri skriðu sem leiddi til fjármálahrunsins. Með öðrum orðum þá voru það áhættusamar fjárfestingar sem orsökuðu hrunið, og nú á greinilega að ríkisvæða áhættuna.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2009 kl. 12:25

12 identicon

Sæll Marinó,

Ég legg til að þú lesir að ég held síðasta tölublað DV (tbl. þar sem sagt er að kaupa jólagjafir strax) :)

Þar er saga um uppboð þar sem mættir voru þrír af bönkunum á uppboð á 32 milljóna virði íbúð. Verktakinn var farinn á hausinn. Íbúðin var í leigi og leigjandi heima þegar uppboðið fór fram. Bankinn sem átti kröfuna á eignina bauð 5 mkr í íbúðina. Leigjandi sá hvað verða vildi og ætlaði sko að kaupa ódýra íbúð og hljóp fram að bjóða 6 mkr. En þá var honum hent öfugum út úr uppboðinu og sagt að það væri búið að ákveða verðið á eigninni fyrirfram og hann gæti bara sleppt því að taka þátt, enda myndi kröfuhafinn halda áfram að bjóða upp í andvirði kröfunnar. En nota bene, hann bauða bara 5 mkr í 32 mkr eign og fékk hana á 5 mkf.

Þetta þarf að skoða, hér hefði kröfuhafinn keypt eignina á virði kröfunnar á íbúðinni hef hann hefði haft bjóðanda á móti sér (sem nota bene mátti ekki taka þátt) og þar með hefði krafan á skuldarann orðið uppgerð, er það ekki rétt skilið hjá mér. En þess í stað var mótbjóðanda neitað aðgangur og bankinn keypit á 5 mkr sem var dregin frá kröfunni og skuldari því hundeltur fyrir restinni.

Hvers konar háttalag er þetta, hvar er réttur skuldarans. Bankinn bara býður eins lága tölu sem honum sýnist og samkeppni ekki að virka þar sem mótbjóðanda er neitaður aðgangur eða ráðið frá því?!!!

Dísa (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 12:42

13 identicon

Ég horfði á viðtalið og mér fannst Magnús koma vægast sagt vandræðilega út, hamraði stöðugt á sömu hlutunum, líklega til að sannfæra almenning um að þetta væri svaka leiðrétting og fín lausn. Ég skil ekki að fólk sjái ekki í gegnum þessar plataðgerðir og mótmæli almennilega!

Ég hef búið úti í DK í nokkur ár eða síðan bankarnir hófu sína lánastarfsemi og ég þakka svo sannarlega fyrir það að vera húsnæðiseigandi hér en ekki lengur á Íslandi. Það er ekki hægt að líkja því saman. Þegar ég útskýri fyrir hinum almenna Dana hvernig lánin, þessi venjulegu húsnæðislán virka þá bregður þeim, þetta virkar órafjarlægt raunveruleika Norænnar þjóðar. Íslendingar eru bara búnir að búa við svo ömurleg lánakjör að þeim finnst orðið eðlilegt að lánin hækka vegna verðtryggingar, svona er þetta bara og hrista hausinn...

Annars langaði mig bara að segja að lokum að ég hef fylgst vel með Hagsmunasamtökum heimilanna og sérstaklega þínu bloggi og finnst þið standa ykkur vel. Til samstöðu þá bað ég pabba að taka út sinn pening úr bankanum þar sem ég á ekkert í íslenskum banka, sem betur fer ;)

Íris (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 12:56

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Siguróli, ég veit ekki af hverju má ekki laga höfuðstólinn í samræmi við þá afslætti sem erlendir kröfuhafar hafa þegar gefið af lánasöfnunum.

Linda, höfuðstóllinn mun áfram breytast í samræmi við vísistölu neysluverðs.  Svo kroppast náttúrulega af honum eftir þvi sem greitt er.

Guðmundur, ég tek undir að við verðum með "eitraða" pappíra á markaðnum, sem munu eyðileggja fasteignamarkaðinn um langa hríð.

Dísa, takk fyrir ábendinguna.  Ég hef heyrt af svona "helmingaskiptamálum".  Ég hef lika heyrt af því að bankarnir skiptist á að vera "bad cop", þ.e. sá sem í reynd kemur í veg fyrir samninga við skuldara.  Mér finnst að þetta sé eitthvað sem samkeppniseftirlitið ætti að skoða.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2009 kl. 13:01

15 identicon

Marínó, það má ekki af því að AGS segir NEI.... við erum föst í hugmyndafræði samfó, ESB_ AGS- borga Icesafe..... þú veist hug LIlju Mósedóttur, borgarahreyfingarinnar, hluta jálfstæðisflokksins og allur þingflokkur Framsóknarmanna...... getur einhver reiknað út batann í hagkerfinu , ef við hefðum 1. febrúar minnkað höfuðstólinn um 20%?

siguróli kristjánsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 14:14

16 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Ef afborganirnar miðast við launaþróun samfélagsins (nýu vísitöluna) en ekki þróun höfuðstólsins og afskrifa á lánin þremur árum eftir núverandi lokadagsetningu þá skiptir höfuðstóllinn í raun ekki máli lengur.  Þróun hans hefur ekki áhrif á afborganirnar og ekki heldur á lánstímann.  Stærð hans hefur því eingöngu áhrif á það hversu há upphæð verður afskrifuð í lokin.

Það sem lántakandinn er að taka á sig eru greiðslur í þrjú ár til viðbótar því sem hann samdi um á sínum tíma.  Það sem lánveitandinn er að taka á sig eru afskriftirnar í lokin.

Er ég ekki að skilja þetta rétt?

Sigurður Viktor Úlfarsson, 9.10.2009 kl. 16:03

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, vissulega skiptir höfuðstóllinn máli, vegna þess að það er staða hans sem segir til um hversu hratt gengur að greiða niður lánið.  Greiðslujöfnunarvísitalan segir hve mikið er greitt hverju sinni.  Það er hugsanlega rétt, að lántakandinn sé að taka á sig greiðslur í þrjú ár í viðbót.  Ég held í ljósi reynslunnar (þar sem þetta hefur verið notað áður), þá muni lánin greiðast upp að fullu með stökkbreyttum höfuðstóli fyrir lok lánstíma hjá öllum sem eiga yfir 25 ár eftir af lánstímanum.  Þessi lán fari ekki í lengingu, en greiðslubyrði þeirra eigi eftir að verða mjög þung síðustu árin.  Þeir sem eiga 15-25 ár eftir af lánstímanum muni að einhverju leiti fá þriggja ára lengingu, en óvíst er um afskriftir.  Aðrir munu nokkuð örugglega fara í lengingu og líklegast fá afskriftir að auki.  Nú hef ég ekki nein tól til að sannreyna þetta og auglýsi eftir einhverjum sem gæti reiknað þetta út.  Niðurstaðan byggir síðan alfarið á þeim forsendum sem við gefum okkur um launaþróun, atvinnustig og verðbólgu/gengisbreytingar.

Marinó G. Njálsson, 9.10.2009 kl. 17:32

18 identicon

Ég fann líka til með Birni Þorra fyrir að þurfa að hlusta þarna á ótrúlega ruglingslegar fullyrðingar manns sem vissi ekkert um hvað hann var að tala.  Eða beinlínis skáldaði í eyðurnar.  Og kjaftaði á honum hver tuskan og Björn Þorri komst alls ekki nægilega vel að til að geta skýrt sitt sjónarmið af neinu viti. 

Erum við ekki að fara að komast endanlega að þeirri niðurstöðu að flokks-skrípið ætlar ekki að koma heiðarlega fram og bæta fólkið tjónið?  Við þurfum að fara með málið fyrir dóm.  

ElleE (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 18:19

19 identicon

Og ég gleymdi að minnast á IMF (AGS) landstjórann og handrukkara bankamanna.  IMF vill að við séum fátækir þrælar þeirra. 

ElleE (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 18:27

20 identicon

Ég fylgist af áhuga með því sem þú hefur skrifar, takk Marinó og aðrir hjá Hagsmunasamtökum Heimilana fyrir að standa vörð um hagsmuni fólksins í landnu, dropinn meitlar steinninn, við verðum að trúa því að stjórnvöld, hver sem þau eru eða verða, taki sönsum fyrr en síðar. Einar G.

Einar Gíslason (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 18:42

21 Smámynd: Fannar frá Rifi

það verður að koma lándráðarliðinu í Samfylkingu frá völdum. þennan flokk á að ákæra fyrir landráð.

Samfylkingin er óhæfur flokkur til þess að vera við völd á Íslandi. öll markmið flokksins eru að þjónka og auka mátt og meigi lénsherranna í Evrópu yfir íslandi á kostnað íslendinga og íslensks samfélags.

Fannar frá Rifi, 9.10.2009 kl. 20:00

22 identicon

Góð samantekt Marinó,

fyrir utan það að Magnús Orri vissi ekkert hvað hann var að segja að þá liggur ljóst fyrir að hann hefur engan skilning á vandamálinu og í beinu rökréttu framhaldi af því hefur hann engan skilning á því að þetta yfirklór félagsmálaráðherra skilar engu fyrir skuldara. Þetta er tilraun til lögfestingar á handveðsetningu framtíðartekna skuldara til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur og uppbyggingar eigin fjárs bankanna.  Við skulum nú samt fyrirgefa honum það sem hann var að segja því hann vissi ekki hvað hann var að tala um.

Eitt vil ég þó benda á sem hann sagði.

MOS: Það mun verða eftirspurn eftir húnsæðinu okkar.

RE:  BULL. Það er gríðarleg eftirspurn eftir húsnæðinu okkar nú þegar. Aðal ástæða frostsins eru bankarnir sjálfir. Það eru þeir sem eru að bregða fæti fyrir því að viðskipti fái að ganga í gegn. Þeirra hagur fellst í því að drekkja fólki og eignast húsnæðið. Eins og það heitir á bankamáli "Það er mat bankans að hagsmunir okkar eru betur varðir með núverandi veðsetningu í núverandi húsnæði" Með þessum rökum hafna þeir fjölda viðskipta, sem annars mundu gefa fólki líf. Í staðinn drukknar fólkið, en hagsmunir bankans voru betur varðir þannig að þeirra mati.

Ofbeldi bankanna er með þessari aumkunarverðu tillögum lögfest.

Á sama tíma dettur engum í hug að kanna hvort sá hlutabréfahagnaður sem tugir eða hundruðir bankastarfsmanna hafa talið fram og greitt af fjármagnstekjuskatt, en ríkisskattstjóri vill fá tekjuskatt af, hvernig sá hagnaður er tilkominn ! Við erum að tala um tugi milljóna pr. mann. Þessi hagnaður virðist vera tilkominn vegna markaðsmisnotkunar, sýndarviðskipta, innherja viðskipta, vafasamra reiknisskila og svikamyllu. Þessir sömu einstaklingar eru að megninu til áfram starfsmenn bankanna og eru nú í því hlutverki að stela framtíðartekjunum af lýðnum. Þeir eru jú búnir að stela því sem fólk átti og nú er gerð atlaga að framtíðaretkjunum í skjóli og með stuðningi velferðarríkisstjórn hinna vinnandi stétta.

En ég fyrigef Magnúsi Orri á sama hátt og Árna Páli. Þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.

Reynir Erlingsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 23:00

23 identicon

Mönnum er ekki stætt á að koma og bulla opinberlega, þó þeir viti ekki hvað þeir gera og valda kannski fjölda fólks stórtjóni.  Og enn verra ef þeir hafa verið að ljúga vísvitandi.  

Og hugsið ykkur það fólk sem fellur fyrir "hjálp" þeirra og verða þrælar bankanna út yfir gröf og dauða vegna svika bæði bankanna og ríkisstjórnarinnar.  Það býr grunlaust fólk í þessu landi, sem kannski skilur ekki vel hvað er að gerast og oft innflytjendur og kannski nágrannar okkar.  Og á þeim mun verða illa níðst ef við hin bendum þeim ekki á svikin.  

ElleE (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 21:45

24 identicon

Hvaða endalausa skuldaniðurfellingavæl er í gangi, tel sanngjarnt að menn standi við lánasamninga. Það er ekkert vit í því að skuldapésar sendi reikninginn fyrir íbúðar- og bílalánum sínum til skattgreiðenda. Verðtrygging og gengistrygging tryggir að lánveitandinn fái peningana sem þú fékkst að láni á því verðgildi sem þú tókst lánið á. Það er ekkert hagur lánastofnana að hafa óðaverðbólgu, en það væri hagur skuldapésa að hafa mikla verðbólgu ef lánin væru ekki verðtryggð. Hvernig líst þér á að lána einhverjum miljónir óverðtryggt? og að sá sem fær lánað frá þér þurfi einungis að borga sömu krónu tölu til baka eftir nokkur ár (þ.e.a.s. ef hann borgar þér tilbaka), ásamt e.t.v. 5% vöxtum á ári þegar verðbólga er í dag um 10%.

Man ekki eftir því að þið íbúðareigendur hafi verið að kvarta þegar fasteignaverð rauk upp á árunum 2000-2007, á sama tíma var verðbólga frekar lág. Hefði þá ekki verið eðlilegt að skattgreiðendur og sparifjáreigendur hefðu fengið 50% hlut í þeim hagnaði sem varð þegar íbúðarverð hækkaði? Eiga skattgreiðendur og sparifjáreigendur bara að borga brúsann fyrir ykkur skuldapésana þegar íbúðaverð lækkar miðað við verðlag?

Hættið síðan þessu tuði, þið eruð eins og einhverjir smákrakkar sem vilja að fullt af ókeypis nammi frá foreldrum sínum.

Gvendur (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 15:21

25 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þeir sem kaupa og selja fasteignir þurfa að borga skatt af hagnaðinum Gvendur.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.10.2009 kl. 16:09

26 identicon

Og hvað finnst pésanum Gvendi um ólöglegu gengis-lánin?  Og hvað finnst Gvendi pésa um kerfisbundnar gengisfellingar bankanna og meðfylgjandi óðaverðbólgu?  Finnst pésanum Gvendi ekkert óeðlilegt við banka-rán og sjálfsagður hlutur að bæta þýfi ofan á skuldir fólks?

ElleE (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 17:40

27 identicon

Það þarf ekki að borga skatt af hagnaði vegna fasteignaviðskipta ef þú hefur átt eignina í 2-3 ár, annars þarf að greiða 10% skatt.

Það er ekkert ólöglegt við gengis-lánin, svona lán eru í gangi út um allan heim, þetta eru mjög hagkvæm lán og draga úr áhættu fyrir þá sem eru með tekjur í þeirri mynt sem lánin eru í. Það að áhættusæknir íslenskir skuldapésar skuli taka myntkörfulán í japönskum jenum, svissneskum frönkum eða öðrum gjaldmiðlum sem þeir eru ekki með neinar tekjur í er dæmi um heimskulegar ákvarðanir, fólk sem gerði þessi herfilegu mistök saka alla aðra en sjálft sig um hvernig fór.

Það er ekki búið að sanna að bankarnir hafi stundað "kerfisbundnar gengisfellingar", vissir eigendur bankana veðjuðu hins vegar á það að gengið myndi hrynja (e.t.v. út af því að þeir vissu að þessi peningabóla frá 2003-2007 væri að springa), ég er hlynntur því að þessir íslensku landráðamenn (útrásarvíkingar o.fl.) verði settiir í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa sökkt Íslendingum í skuldafen sem mun taka nokkra tugi ára að koma okkur út úr.

Ég kalla 19% verðbólgu á árinu 2008 ekki óðaverðbólgu, þú mátt ekki gleyma að fasteignaverð hækkaði um 200% (sem sagt þrefaldaðist) á árunum 2000-2007. Það voru ekki allir að kaupa sína fyrstu eign 2007-2008, flestir voru búnir að græða fjölda miljóna eða miljónatugi á hækkun fasteignaverðs, áður en að hruni kom.

Það er ekki verið að bæta þýfi ofan á skuldir fólks, heldur er verið að verðtryggja eða gengistryggja lánin, það er ekkert ólöglegt við það, ef þú hefðir lesið lánasamninginn þegar þú tókst lánið stendur það einfaldlega þar og hver heilvita maður á að vita þetta.

Ríkið er að gera allt of mikið fyrir ykkur skuldapésa m.a. á að lækka greiðslubyrði ykkar um allt að 40%. Ég er að leigja fyrir um 150 þús. á mánuði. Spurði leigusalann nýlega hvort hægt væri að lækka leiguna, hann var ekki tilbúinn í það enda er næg eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Svokölluð kreppa er ekki komin til Íslands, hún er hins vegar komin til landa eins og Lettlands þar sem fólk bíður í röðum eftir að fá súpu þar sem það á ekki fyrir mat. Við Íslendingur höfum það nokkuð gott, það að Íslendingur skuli núna að vera betla lán út um allan heim og vælandi yfir því að lánin hafa hækkað um nokkrar krónur er auðvitað ekkert annað en aumingjaskapur.

Gvendur (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 23:05

28 identicon

Gengilánin eru ólögleg gengis-rán.  Sættu þig við það.  Velti því fyrir mér hvaða lánafyrirtæki þú ert að verja. 

ElleE (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 23:19

29 identicon

Og gengis-ránin voru ekki  hagstæð þegar þau hækkuðu um 130% á 15 mánuðum og vextir flugu upp þó stýrivextir heimalandanna væru nánast núll prósent. 

ElleE (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 1679974

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband