Leita í fréttum mbl.is

Gallað regluverk?

Vissulega er það rétt hjá forsætisráðherra að regluverkið var gallað.  Mein gallað til að vera nákvæmari.  En það er ekki galli í evrópska regluverkinu sem er að setja allt úrskeiðis hér vegna Icesave.  Það eru gallar í íslenska regluverkinu, sem valda því.

Forsætisráðherra segir í ræðu sinni, regluverkið hafi ekki gert ráð fyrir kerfishruni.  Það er alveg rétt.  En Icesave skuldbindingin/krafan er ekki afleiðing af kerfishruni.  Hún er afleiðing af falli eins banka, Landsbanka Íslands.  Icesave vandinn væri alveg jafn alvarlegur þó hinir bankarnir hefðu staðið storminn af sér.  Að kenna kerfishruni um upphæð Icesaves reikningsins er afneitun af versta tagi.

En hverjir eru gallarnir í regluverkinu?  Í mínum huga eru þeir þrenns konar.  Fyrsti lítur að eftirliti með innlánsstofnunum í gistiríki (þ.e. ríki annað en þar sem megin starfsemi fer fram).  Annar lítur að ábyrgð á innistæðu aðila sem ekki er með heimilisfestu í heimaríki (þ.e. ríki þar sem megin starfsemi fer fram).  Og sá þriðji snýr að upphæð iðgjalda sem innlánsstofnanir greiða í tryggingasjóði.

Það eru ekki nema þrjú ár eða svo frá því að ákvæði  um eftirlit með fjármálafyrirtækjum með starfsstöð (útibú) utan heimaríkis færðist frá fjármálaeftirliti gistiríkis til fjármálaeftirlits heimaríkis.  Þetta var gert í þeirri trú að þannig fengist heilstæðari yfirsýn á starfsemi fyrirtækjanna og eftirlitið yrði heildstæðara og samræmt.  Með þessu yrði komið í veg fyrir að fyrirtæki með útibú í mörgum löndum þyrfti að haga starfsemi í hverju landi fyrir sig á mismunandi hátt vegna þess eins að eftirlitsstofnanir túlkuðu reglur á mismunandi máta.  Þessi hugmynd um að eftirlitsstofnun heimaríkis hafi eftirlit með útibúum í gistiríki er góðra gjaldaverð, ef eftirlitsstofnunin er nægilega öflug til að standa í slíku eftirliti.  Í tilfelli Íslands reyndist það ekki vera.  Ástæðan er einföld:  Vöxtur bankakerfisins á erlendri grund var einfaldlega of hröð til að Fjármálaeftirlitið næði að halda í við vöxtinn.  FME þurfti allt í einu að hafa eftirlit með útibúum bankanna út um allan heim.  Stofnunin hafði einfaldlega ekki burði til þess.  Annað sem skiptir líka miklu máli, er sú aðferðafræði FME að treysta um of á sjálfseftirlit fjármálafyrirtækjanna.  Sá sem hefur fylgst með vef FME undanfarin ár, hefur séð að rafrænt sjálfsmat vó sífellt þyngra í verkferlum stofnunarinnar.  Þetta var svar FME við því að kröfur til stofnunarinnar voru sífellt að aukast, þ.e. skoða þurfti stöðugt fleiri atriði hjá ört fjölgandi aðilum í hinum ýmsu löndum.  Vissulega hækkuðu fjárframlög til FME og starfsmönnum fjölgaði, en það var ekki nóg.

Varðandi innistæðutryggingarnar, þá tel ég fyrirkomulag þeirra vera helsti gallinn í regluverkinu, en ekki að kerfið geri ekki ráð fyrir kerfishruni.  Hér spila nokkur atriði inn í, en mig langar eitt.  Hér á landi er ekki sett takmörkun á heimilisfestu innistæðueigandans sem nýtur tryggingarverndar.  Það er aftur gert í Bretlandi.  Raunar kveður svo rammt við, að íbúar á Ermasundseyjunum og á eyjunni Mön, njóta ekki breskra innistæðutrygginga.  Breskur ríkisborgari sem er með lögheimili utan Bretlands getur ekki opnað reikning í breskum banka í Englandi, Wales, Skotlandi eða Norður-Írlandi!  Með þessu tryggja Bretar að eingöngu skattþegnar innan þessara landa njóti innistæðutrygginganna.  Þess vegna gátu bresk stjórnvöld veitt umframtryggingar.  Þau voru jú búin að fá fjármagnstekjuskatt af innistæðunum í mörg ár.  Það átti ekki við um Icesave innistæðurnar í útibúum Landsbankans erlendis.  Um leið sett hefði verið takmörkun á heimilisfestu, þá hefði Landsbankinn orðið að nota dótturfyrirtæki sín erlendis, þegar fólki var boðið að opna þessa vefreikninga og þar sem hefðu innistæðurnar verið tryggðar þar sem innistæðueigendur hafa heimilisfestu.  Þetta hefði breytt öllu og við værum ekki að eyða mörgum mánuðum í umræðu um Icesave.  Þetta atriði kemur því ekkert við að regluverkið gerir ekki ráð fyrir kerfishruni.

En það var samt eitt stórt atriði sem kom kerfishruni við, en samt þurfti ekki kerfishrun hér á landi til að það virkaði.  Iðgjaldið sem innlánsstofnanir þurfa að greiða í innistæðutryggingasjóðina er alls ekki nógu hátt til að sjóðirnir ráði við kerfishruni.  Raunar er það ekki nógu hátt til að ráða við fall banka, ef hlutfall innlána hjá bankanum af heildarinnlánum alls bankakerfis viðkomandi lands nær tilteknum mörkum.  Ef Landsbankinn einn hefði fallið, þá hefði innistæðutryggingasjóður ekki ráðið við það, þó hann hefði eingöngu þurft að bæta innlendur innistæður.  Það var þess vegna sem stjórnvöld gripu til þess í neyðarlögunum að færa innistæður fram fyrir í kröfuröð.  Þannig var því forðað, að innistæðutryggingasjóðurinn þyrfti að borga.  Menn bara hugsuðu málið ekki til enda og þess vegna sitjum við uppi með Icesave.


mbl.is Ekki sanngirni að við borgum, en...
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 1680018

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband