Leita í fréttum mbl.is

Heimilin eiga að vera galeiðuþrælar fjármálafyrirtækja

Samkvæmt frétt á pressan.is eru uppi hugmyndir um að tekjutengja afborganir húsnæðislána í samræmi við hugmynd Þórólfs Matthíassonar, prófessors.  Ég vil eindregið vara við þessari hugmynd.  Hér er um fátæktargildru að ræða, eins og allar aðrar tekjutengingar í þessu þjóðfélagi.

Það er besta mál að notast við tekjutekningar, þegar búið er að skilgreina hvað teljast viðunandi tekjur  og hver er framfærsluþörfin.  En það hefur ekki verið gert.  Í staðinn er skorið af tekjum fólks án tillits til þess hvort tekjurnar duga fyrir framfærslu eða ekki.  Raunar er ástandið oft svo fáránlegt, að hækki einstaklingur um þúsund kalla í tekjum, þá hverfa tekjutengdar bætur upp á tugi þúsunda.

Sú hugmynd að tekjutengja afborganir lána er bara sönnun þess, að jafnaðarmenn og vinstri sósalistar á Íslandi ætla að stuðla að þjóðnýtingu eigna heimilanna og gefa þær fjármálafyrirtækjum.  Öðruvísi mér áður brá, þegar það var stefna vinstri sósíalista að þjóðnýta fyrirtæki til að gefa þau þegnunum.  Ætla Vinstri-grænir virkilega að samþykkja að rányrkja fjármálafyrirtækjanna á undanförnum árum verði staðfest og fasteignir heimilanna færðar þeim á silfurfati.  Skiptir engu hvers ólögleg og ósanngjörn aðför fjármálafyrirtækjanna var að heimilum landsmanna, ætla Vinstri-grænir virkilega að lúffa vegna þess að það gæti stefnt stjórnarsamstarfinu í voða.

Það er kjaftæði að það muni kosta ríkissjóð eitthvað af viti að koma til móts við kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna og fjölmargra annarra aðila að LEIÐRÉTTA stökkbreyttan höfuðstól lána heimilanna.  Það er gert ráð fyrir 2.800 milljörðum í bönkunum þremur í afskriftir lána.  Ekki borgar ríkissjóður það.  Það stefnir allt í að SPRON muni afskrifa 40-50% af sínum útlánum, ef ekki meira.  BYR er, ef marka á slúðrið, að ná samningi við sína kröfuhafa um ekki minni afskriftir.  Af hverju fer Íbúðalánasjóður ekki í samningaviðræður við sína kröfuhafa?

Ef ríkisstjórnin ætlar að samþykkja rányrkju fjármálafyrirtækjanna, þá mun ég láta verða af því að finna mér starf úti í heimi.  Ég ætla ekki að bjóða börnunum mínum upp á umhverfi, þar sem það þykir sjálfsagt og eðlilegt að þjóðnýta eigur fólks, svo fjármagnseignendur þurfi engu að tapa.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa varað við því frá því í febrúar, að nota eigi fasteignir heimilanna til að endurreisa bankakerfið.  Miðað við frétt Pressunnar, þá virðist ekki bara það ætla verða staðreynd, heldur á að binda alla launamenn landsins á árar bankakerfisins og drífa það áfram.  Heimilin eiga að vera galeiðuþrælar fjármálakerfisins um aldur og ævi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

..og ég spyr hvað er ASÍ og jafnvel verkalýðshreyfingin að blanda sér í þessi mál þegar verið er að ræða skuldastöðu heimilanna. Get bara ekki skilið hvað þessir aðilar komi þessu máli við og eigi eitthvað um þau mál að segja fyrir okkar hönd.

Dísa (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 12:48

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Því miður Marinó virðist þú hafa rétt fyrir þér.  Það er sorglegt að horfa upp á ríkisstjórnina og þingheim yfirleitt, það er eins og þetta blessaða fólk sé ekki í takt við raunveruleikann.

Tómas Ibsen Halldórsson, 14.9.2009 kl. 13:01

3 identicon

Já ég verð að segja að ég er að missa alla von núna um að heimilin fái einhverja leiðréttingu.  Galeiðuþrælar, það er rétta orðið yfir þá sem þræla myrkrana á milli fyrir stökkbreyttum lánum.  Og það er alveg sama hvað maður vinnur mikið, lánið hækkar um meira en mánaðarlaun þrátt fyrir stífar afborganir. 

Ég hefði aldrei trúað því að þetta gæti gerst svona.  Ég er komin á rúmlega miðjan aldur.  Ég átti heima í Bandaríkjunum í tæp 9 ár og ég verð að segja að lánakerfið þar var miklu miklu sanngjarnara og manneskjulegra.  Þeir eru reyndar ekki að glíma við örmynt eins og íslenska krónan er.  En að skattar, hækkanir á tóbaki, áfengi og hækkanir á vörum sem innihalda sykur skuli hækka lán íbúðarþrælanna um hundruðir þúsunda er hneyksli og ekki bara það heldur er þetta rán.  Við erum rænd um hábjartan dag.  Og ég hefði ALDREI trúað þessu upp á vinstri flokkana.  Að þeir sem eigi fjármagnið eigi að verða LÉNSHERRAR sem ARÐRÆNA þegnana.  Að vinstri flokkarnir skuli voga sér að koma svona fram við fólkið, unga fólkið okkar með litlu börnin, það er ótrúlegt, alveg ótrúlegt.

Það á greinilega að leggja drápsklyfjar á þá sem keyptu á síðustu fjórum til fimm árum og tóku íbúðalán í góðri trú.  Og bankarnir mæltu með gengistryggðum lánum til að fólk þyrfti ekki að búa við þessa skelfilegu verðtryggingu en í næsta herbergi voru menn að taka stöðu gegn krónunni. 

Hvers konar þjóðfélag er þetta eiginlega??? Ég verð að segja ég er alveg gáttuð og ég er reið, já virkilega reið yfir því hvernig ráðamenn hér geta ætlast til að fólk haldi bara áfram að borga. 

Eigum við svo öll að reyna að fá okkur svarta vinnu og fara á atvinnuleysisbætur til að geta borgað af lánunum?  Þvílíkt rugl.  Vinnuletjandi kerfi að vera með tekjutengdar greiðslur af húsnæðislánum.  Það verður engin sátt um þetta.  ENGIN SÁTT.

Margrét Ólafsd. (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 22:36

4 Smámynd: Karl Ólafsson

Dísa,

ASI og verkalýðshreyfingin blandar sér í þessi mál vegna þess að leiðtogar þar eru innmúraðir í (ó)stjórn líferyrissjóða okkar landsmanna.

Hluti af vandamálinu er einmitt þessi innmúrun þar sem ekki hefur mátt svo mikið sem orða afnám verðtryggingar vegna jarms sjóðanna. Og ekki má orða afskriftir eða lækkun húsnæðislána (sama hversu ónýt þau í raun eru), aftur vegna þess að það skaðar stöðu sjóðanna.

Lífeyrissjóðunum var bjargað og þeir byggðir upp af þeirri kynslóð sem búið hefur við verðtryggð lán síðustu 30 árin. Þessum lífeyrissjóðum er ætlað að greiða lífeyri þeirrar kynslóðar sem þar kom á undan, þeirrar sem fékk lífeyrislán á föstum, kannski 2% vöxtum, í tugprósenta verðbólgu. Eftir að sjóðirnir efldust og þurftu í raun ekki hafa áhyggjur af ávöxtun sjóðanna greip þá einhver græðgi (enda stjórnað af forsvarsmönnum atvinnulífs í útrásardraumaheimi, auk áðurnefndra leiðtoga verkalýðssamtakanna) og stórar fúlgur töpuðust. Nú þykir ekkert eðlilegra en að þessu tapi sé mætt með því að skrúfa upp höfuðstóla lána og sama kynslóðin og svo komandi kynslóðir eiga að fá að búa við þetta ástand um ófyrirséða framtíð.

Er þetta það Ísland sem okkur byrjaði að dreyma um í kjölfar hrunsins? Ég hallast að því að hugsa eins og Marinó og byrja að kanna jarðveginn annars staðar fyrir mig og mína. Langar þó ekki til þess; "Been there, done that!"

Karl Ólafsson, 14.9.2009 kl. 22:39

5 Smámynd: Karl Ólafsson

Fyrirgefðu átroðninginn Marinó. Þú spyrð: "Af hverju fer Íbúðalánasjóður ekki í samningaviðræður við sína kröfuhafa?"

Svo ég haldi nú áfram með lífeyrissjóðasamsæriskenningarnar sem ég kastaði fram hér á undan, er þá ekki svarið augljóslega það að ÍLS getur ekki farið í samninga við sína kröfuhafa, vegna þess að þeir eru einmitt lífeyrissjóðirnir, sem taka ekki í mál að taka á sig neinar afskriftir (aðrar en þær sem þröngvað hefur verið upp á þá í kjölfar arfavitlausrar og vanhæfrar fjárfestingarstefnu þeirra).

Ég segi enn og aftur að verðtryggingin verður að hverfa og lífeyrissjóðirnir verða að læra að ávaxta sitt fé á traustan hátt án hennar. Þeir hafa komist upp með of mikla leti og svo bíræfni í seinni tíð. Og þá er ég ekki að tala um að hverfa aftur til þess tíma að þeir voru að lána út löng lán á föstum lágu vöxtum, eins og úrtölumenn og verðtryggingarsinnar hamra gjarnan á. Ef vextir verða of háir á okkar örmarkaði, hljóta útlán að minnka hratt og neysla jafnframt að minnka hratt þ.a. þrýstingur á vaxtalækkun á að myndast hratt í slíku (eðlilegu) markaðsumhverfi, eða ?

Karl Ólafsson, 14.9.2009 kl. 22:47

6 identicon

Maður býður ekki börnum sínum upp á að búa í aumingjabæli, svikabæli og þjófabæli.  Við þurfum alls ekki og ættum alls ekki að vera hljóð og hlýðin og þegja.  Svikarar og þjófar í bönkum og ehf´um og stjórnmálaklíkuflokkum eru að fara með öll mannréttindi okkar til andskotans og valta yfir okkur með valdi og ræna allri líftóru okkar og viti.  Og ekkert verður eftir nema fara úr landi fari ekki hlutir að lagast og mannréttindi sett í forgang.

ElleE (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 12:29

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Marinó. Það er kjaftæði sú fullyrðing þín að það sé kjaftæði að það muni kosta ríkissjóð eitthvað að viti að koma til móts við Hagsmunasamtök heimilanna. Kröfur HH um niðurfellingu/leiðréttingu húsnæðislána kosta skattgreiðendur sennilega eitthvað á annað hundrað milljarða króna. Það fer eftir því hversu stór hluti þessara niðurfellinga eru kröfur, sem feru hvort eð er tapaðar. Þar erum við að tala um upphæð, sem slagar hátt í kostnað ríkisins vegna Icesave reikninganna.

Þær afskriftir á lánasöfnum gömlu bankanna við sölu þeirra til nýju bankanna eru ætlaðar til að mæta óhjákvæmilegu útlánatapi vegna skorts á greiðslugetu skuldara. Reyndar er væntanlega líka gert ráð fyrir styrkingu krónunnar á lánstíma við verðmat gengistryggðra lána.Það er ekkert, sem bendir til þess að einver afgangur verði af þessum afskriftum þegar búið verður að taka á þessum þáttum þannig að hægt sé að nota það fé í eitthvað annað eins og til dæmis niðurfærslur lána til einstaklinga, sem eru borgunarmenn fyrir sínum lánum. Slíkt mun því leiða til enn meiri affalla af þessum lánasöfnum en nemur afskriftunum á þeim við sölu milli gömlu og nýju bankanna. Það sama á við um afskriftir á lánasöfnum SPRON og Byrs.

Þessar afskriftir eru í samræmi við mat á afskrfitarþörf vegna slakrar greiðslugetu skukdara hjá tveimur erlendum endurskoðunarfyrirtækjum, sem hafa sérþekkingu á slíkum verðmati lánasafna. Hefur þú einhverjar upplýsingar eða þekkingu, sem þessar endurskoðunarskrifstofur hafa ekki, til að geta fullyrt að þarna sé um ofmat á kostnaði að ræða vegna skuldara, sem ekki geta staðið í skilum?

Staðreyndin er sú að valið stendur milli þess að lántakar greiði lán sín að fullu eða að skattgreiðendur greiði hluta af lánum þeirra fyrir þá. Hvernig væri að þið hjá HH farið að ræða þessi mál að viti og færið rök fyrir því af hverju skattgreiðendur eigi að greiða hluta lána fyrir lántaka en séuð ekki að rugla fólk í ríminu með röngum fullyrðingum um að það sé hægt að lækka höfuðstól lána þeirra án þess að skattgreiðendur, og þar með fólkið sjálft, þurfi að greiða þann kostnað? Þið eruð ekki marktækir í umræðunni fyrr en þið farið að ræða þessi mál út frá raunveruleikanum eins og hann er í stað draumaheimsins, sem þið hafið verið í hingað til.

Hvað varðar spurningu þína um það af hverju Íbúðalánasjóður fari ekki í samningaviðræður við sína kröfuhafa þá er svarið einfaldlega það að það er ríkisábyrgð á lántökum Íbúðalánasjóðs og því borin von að lántakar hans gefi krónu eftir af sínum inneignum. Slíkar samningaviðræður myndu því ekki þjóna neinum tilgangi.

Sigurður M Grétarsson, 15.9.2009 kl. 22:15

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, velkominn á vaktina.

Marinó G. Njálsson, 15.9.2009 kl. 22:24

9 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Takk fyrir það. Sömuleiðis.

Sigurður M Grétarsson, 15.9.2009 kl. 22:39

10 Smámynd: Karl Ólafsson

Sigurður, þú skautar yfir mjög mikið af röksemdafærslu HH í yfirferð þinni. Fókus þinn er á hversu mikið það muni kosta skattgreiðendur að leiðrétta lán. Hefur þú reiknað út hversu mikið það hefur kostað og hvað það muni kosta lántakendur að 'tryggja' verðgildi lánasafna ÍLS, lífeyrissjóðanna og bankanna? Nú er það svo að fasteignamarkaðurinn virkar ekki án lánastarfsemi og án lánþega er engin lánastarfsemi. Samt er klifast á ábyrgðarleysi þeirra sem tekið hafa lán til þess að eignast þak yfir höfuðið. Í kreppu eiga allar breytur efnahagslífsins að stillast af og ná einhverju jafnvægi. Laun lækka, eignir lækka í verði, verðgildi myntar rýrnar o.s.frv. Er bara allt í lagi og sjálfsagt og eðlilegt að það eina í okkar kreppuástandi sem ekki leitar jafnvægis séu skuldir okkar af því að þær megi alls ekki rýrna, því það bitni á skattgreiðendum? Frekar skuli allir sem á annað borð geta það taka á sig uppskrifaðan höfuðstól lána sinna án nokkurra takmarkana, langt fram úr verðgildi veðandlags þeirra og ef þeir voga sér að gefast upp og gera upp sín mál skulu þeir eltir fyrir eftirstöðvunum út yfir gröf og dauða. Annars gætu lífeyrissjóðirnir tapað meiri verðmætum heldur en þeim sem þeir hafa þegar sóað í glórulausu fjármálafylleríi, verðmætum sem einmitt lánþegar þeirra og iðgjaldsgreiðendur hafa byggt upp síðustu 30 árin.

Komandi kynslóðir munu því vart erfa húseignir foreldra sinna (okkar), heldur skuldir, sem þeim verður síðan gert að standa skil á til viðbótar við þeirra eigin verðtryggða skuldaklafa.  Er það framtíðin sem bíður okkar og afkomenda okkar, eða höfum við kjark til þess að hugsa hlutina upp á nýtt, án fordóma?

Karl Ólafsson, 16.9.2009 kl. 00:41

11 identicon

Og Sigurður steingleymdi að reikna með AGS og ríkisstuddu ránunum sem glæpabankarnir lögðu ofan á skuldara og ólöglegum gengislánunum.  Og óðaverðbólgu sem glæpabankarnir sjálfir ollu.

ElleE (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 21:37

12 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Karl Ólafsson. Þú ásakar mig um að „skauta yfir mjög mikið af röksemdafærslu HH, og kemur síðan með ruglingslega langloku, sem ómögulegt er að lesa úr hvað af röksemdarfærslu HH ég er að „skauta yfir“. Ég mun þó reyna að fara yfir það, sem ég get lesið úr orðum þínum. Það er alveg rétt hjá þér að ekki verður nein lánastarfsemi án lántaka. Ert þú að halda því fram að ef við látum ekki skattgreiðendur greiða hluta af lánum einstaklinga hér á landi að þá verði engir lántakar eftir í landinu? Ég vil reyndar bæta því við að það verður heldur engin lánastarfsemi án lánveitenda. Það eru því takmörk fyrir því hvað hægt er að svína á þeim og ætlast til þess að fólk geti eftir, sem áður fengið lán frá þeim á næstu árum eins og ekkert hafi í skorist. Ef við tökum ekki líka tillit til lánveitenda í þeim efnahagsaðgerðum, sem framundan eru þá munu þeir fara með sitt fé úr landi um leið og gjaldeyrishöftin eru afnumin og þá mun lítið fé vera til staðar til að veita í húsnæðislán.

 

Hvenær hef ég talað um ábyrgðarleysi þeirra, sem hafa tekið lán til að eignast þak yfir höfuðið? Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þegar verð húsnæðis var, sem hæst í húsnæðisverðbólunni var ekki til neinn almennur leigumarkaður og því vart um annað að ræða í flestum tilfellum en að kaupa. Það er þess vegna, sem ég legg til að skattgreiðendur hjálpi þeim með einhverjum hætti, sem þurftu af þessum sökum að kaupa sína fyrstu íbúð í miðri íbúðaverðbólunni en get ekki séð rök fyrir því að þeir greiði hluta af lánum annarra húsnæðiseigenda. Það kom reyndar ekki fram við athugasemd mína við þessa grein Marinós en það hefur komið fram í athugasemdum mínum við aðrar greinar hans að tillögur mínar miða við að bæta þeim skaðann, sem hafa orðið fyrir meiri hækkun á lánum sínum en nemur hækkun húsnæðisverðs frá því þeir keyptu sína fyrstu íbúð. Ég er því ekki að ætlast til að menn séu rukkaðir að fullu um „uppskrifaðan höfuðstól lána sinna án nokkurra takmarkana, langt fram úr verðgildi veðandlags þeirra“.

 

Ég er heldur ekki talsmaður þess að menn séu „eltir fyrir eftirstöðvum fram yfir gröf og dauða“. Ég er reyndar ekki hrifinn af þeirri tillögu að ekki sé hægt að innheimta af lántaka umfram verðgildi veðsins hvað húsnæðislán varðar. Ástæðan er sú að slíkt mun hafa í för með sér mjög mikla lækkun á því veðhlutfalli, sem lánveitendur verða tilbúnir til að fara og því munum við aftur sjá það að ungt fólk, sem er að kaupa sína fyrstu íbúð fái lánsveð hjá foreldrum sínum til að brúa afganginn. Ef allt fer á versta veg hjá viðkomandi og verðmæti íbúðar á nauðungarsölu nær ekki veðlánum á íbúðinni þá situr þetta fólk uppi með lánsveðin og er búið að draga foreldra sína inn í sín fjárhagsvandræði. Einnig mun þetta gera þeim, sem ekki hafa aðgang að lánsveðum erfitt fyrir að eignast sína fyrstu íbúð og jafnvel gera það að verkum að þeir muni aldrei getað eignast íbúð.

 

Ég er hrifnari að þeirri hugmynd að þegar að því kemur að eftirstöðvarnar séu að fyrnast og lánveitandi vilji endurvekja skuldina með nýjum fyrningarfresti þá sé dómara ekki heimilt að samþykkja það ef sýnt þykir að gjaldþrotið eða greiðsluvandræðin séu til komin vegna atvika, sem lántaki gat ekki ráðið við. Með öðrum orðum þá verði aðeins heimilt að endurvekja lán ef gjaldþrotið eða greiðsluvandræðin eru til komin vegna ábyrgðarleysis og/eða glæpsamlegs athæfis lántaka.

 

Hvað varðar arf komandi kynslóða þá sitja erfingjar ekki uppi með eignir umfram skuldir nema þeir séu svo heimskir að óska eftir einkaskiptum á dánarbúi með skuldir umfram eignir. Ef skuldir eru umfram eignir þá einfaldlega óska þeir ekki eftir einkaskiptum og þá fara fram opinber skipti. Þá skipar sýslumaður skiptastóra, sem auglýsir eftir kröfum í dánarbúið. Ef í ljós kemur að kröfur í dánarbúið eru meir en eignir þá gilda sömu reglur og í þrotabúum að kröfuhafar fá eignir sínar ekki að fullu greiddar. Niðurstaðan gagnvart erfingjum verður þá sú að þeir fá engan arf og eru lausir allra mála. Það er meira að segja ólíklegt að þeir þurfi að greiða fyrir jarðarförina vegna þess að sá kostnaður telst til forgangskrafna úr dánarbúinu.

 

Jú Karl. Ég er tilbúinn að hugsa hlutina upp á nýtt og án fordóma og hef gert það. Ég hef aðeins komist að annarri niðurstöðu eftir þá umhugsun en þú og HH. Ég er ekki tilbúin til að skrifa upp á hugmyndir um að skattgreiðendur greiði flatt niður lán lántakenda um á annað hundrað milljarða króna án tillits til þarfar og án tillits til þess hvort lán hafi hækkað meira en íbúðaverð síðan viðkomandi keyptu sína íbúð eða ekki.

 

Sigurður M Grétarsson, 18.9.2009 kl. 17:34

13 Smámynd: Karl Ólafsson

Sigurður, talandi um langloku :-)

....

Ég skal að vísu fúslega viðurkenna að þessi langloka þín er ekki ruglingsleg, hún er vel fram sett og nokkuð skýr. En það sem mér finnst skautað yfir er rökstuðningur HH fyrir leiðréttingarleiðinni. Í stað þess að taka fyrir rökstuðninginn lið fyrir lið er allt of oft farið út í að kasta fram þeim mótrökum að hinir og þessir eigi ekki að greiða hitt og þetta fyrir einhverja aðra hina og þessa. Þess vegna séu hugmyndir HH tómt rugl og vitleysa og alls ekki hægt að fara þeirra leið. Til þess að þetta svar verði ekki of mikil langloka ætla ég ekki að tíunda hér rök HH, enda er ég ekki einu sinni nógu sérfróður um þau. Mér hefur þótt Marinó setja þau vel fram og ég get engu bætt við hans málflutning. Það kemur hvergi fram í máli HH eða Marinós að skattgreiðendur eigi að leggja fram peninga til að greiða niður lán lántakenda, heldur þurfi að leiðrétta verðbótaþátt lána vegna forsendubrests. Áhrif á skattgreiðendur verða vissulega óbein verði farið í þessa leiðréttingu, en HH og all nokkrir hagfræðingar hafa haldið því fram að óvíst sé að þau áhrif yrðu meiri en áhrif greiðslufalls vegna fjöldagjaldþrota eða uppgjafar innan ekki svo langs tíma. Engum hefur tekist að sanna það svo ég fái séð að þessir hagfræðingar (og Marinó) hafi minna til síns máls en þeir hagfræðingar sem haldið hafa fram hinu gagnstæða, þ.e. að hugmyndir HH gangi ekki upp.

Ég gerðist vissulega sekur um að setja mál mitt fram ruglingslega því á bak við athugasemd mína liggja því miður óútskýrðar tengingar í alls konar mál sem verið hafa í umræðunni. Ég hefði náttúrulega átt að gera betur í að úskýra þær tengingar, en þá hefði þetta líka orðið hrikaleg langloka. Ef þú lest yfir gamlar bloggfærslur mínar, ca. síðasta árið eða svo sérðu hver hugur minn er til verðtryggingarinnar almennt. Langloka mín litast mjög af þeim skoðunum sem ég hef á því máli.

Ég er mjög á móti þessum málflutningi:
"skattgreiðendur greiði flatt niður lán lántakenda um á annað hundrað milljarða króna án tillits til þarfar og án tillits til þess hvort lán hafi hækkað meira en íbúðaverð síðan viðkomandi keyptu sína íbúð eða ekki"
Enginn ætlast til að skattgreiðendur pungi út peningum til þess að greiða niður nokkurt lán. Eða það er minn skilningur. Ég lít þannig á málið að forsendubrestur hafi orðið í þjóðfélaginu og því geti þær verðbótahækkanir sem orðið hafa síðustu mánuði ekki átt rétt á sér. Athugaðu að með þeim eru lántakendur í raun að bæta upp tap lánveitenda í öðrum viðskiptum þeirra. Þessar verðbætur eru beinlínis skipanir til lántakenda að þeir prenti peninga, peninga sem ekki voru til í hagkerfinu fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þeir koma úr loftinu, eru beinlínis skrifaðir inn í kerfið með vísitölunni og lántekendur eiga að greiða þá í fyllingu tímans. Þetta eru upphæðir sem færa á til baka. Skattgreiðendur eiga ekki að greiða þessar uppæðir; lánveitendur eiga ekki að fá þær! Þetta er dauður peningur og þetta er peningur sem ekki er til!

Þakka þér fyrir útskýringarnar á erfðamálum, mér var þetta ekki kunnugt. Það er þó ágætt að börnin þurfi ekki að taka á sig skuldir manns, en óneitanlega hefði verið æskilegra að geta skilið eftir sig þó ekki væri nema hlutur í íbúð þegar maður fellur frá og smá aur á bók fyrir greftrun. Þeir verða fleiri en áður sem ekki ná því markmiði næstu áratugina, því miður.

Hvað varðar ábyrgðir lántaka umfram veðandlög, þá er það nú svo að bankamenn hafa sjálfir gereyðilagt málstað sinn fyrir því að réttlæta slíkar ábyrgðir með ruglinu í kringum lán til hlutabréfakaupa. Útskýrðu fyrir mér af hverju aðrar reglur ættu að gilda um fasteignaveð en hlutabréfaveð? E.t.v. felst lausnin á þessu máli í því að lánveitendur geti gert veðköll v. fasteignalána EF markaðsvirði eignar sígur niður að hættumörkum, þannig að leysa þurfi úr slíkum málum áður en til vandræða kemur. Fyrirfram krafa um viðbótarveð, sjálfskuldarábyrgðir ættingja, belti, axlabönd, sokkabönd og alles á ekki rétt á sér í því Nýja Íslandi sem ég þrái að sjá á meðan ég lifi. Ég hef ekki eins miklar áhyggjur af því og þú að lánveitendur fari af markaði í stórum stíl og ég trúi því að það eigi að vera hægt að bjóða hér upp á eðlilega fasteignalánastarfsemi sambærilega við það sem þekkist í nágrannalöndunum (ég vitna oft til Bretlands í því sambandi, því ég kynntist kerfinu þar fyrir all nokkrum árum).

Ég ætlaði mér ekki að bendla þig við tal um ábyrgðarlausa lántakendur; það er alveg rétt hjá þér að þú minnist hvergi á slíkt, en nógu margir hafa tekið þann pólinn í hæðina til þess að ég tók þennan vinkil með inn í mál mitt, aftur án nægra útskýringa.

En ég ætlaði ekkert að fara út í einhverjar alsherjar rökræður, til þess er ég ekki fær. Ég hef bara mínar skoðanir á þessum málum og ég legg þær stundum inn í umræðurnar.

Karl Ólafsson, 19.9.2009 kl. 03:34

14 Smámynd: Karl Ólafsson

Sigurður, eitt enn. Það datt út hjá mér í editeringu ein athugasemd um það sem þú sagðir um endurnýjun krafna í kjölfar gjaldþrota. Um það mál erum við að mestu sammála sýnist mér. Það er í mínum huga fádæma klaufaskapur að ágætt frumvarp sem lagt var fram í vetur var skemmt í meðförum nefnda þ.a. þegar upp var staðið var eina breytingin sú að lánveitendur þurfa að endurnýja kröfur sínar oftar en áður. Þetta mál þarf að taka upp aftur á haustþingi og bæta úr, e.t.v. eitthvað í anda þess sem þú stingur upp á. Það getur þó reynst þrautin þyngri að sanna ábyrgðarleysi, eða að ekki hafi verið um ábyrgðarleysi að ræða, fyrir dómi. Einnig er e.t.v. ekki augljóst í upphafi á hvorn veginn sú sönnunarbyrði ætti að vera. Glæpsamlegt athæfi ætti að vera auðveldara viðfangs, því þá væri viðmiðunin sú að dómur hafi gengið í máli gegn skuldaranum. En þá vaknar mannréttindaspurningin um hvort refsa megi mönnum til æviloka með þeim hætti að elta þá v. skuldar eftir að refsingu lýkur, á meðan aðrir þegnar landsins losnuðu frá sínum skuldum í kjölfar gjaldþrots.

Karl Ólafsson, 19.9.2009 kl. 03:47

15 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Karl. Þessar skuldir eru ekki dauðir peningar meðan þær eru í samræmi við lánasaming og lánasamningurinn með þeim ákvæðum fæst ekki dæmdur ólöglegur fyrir dómstóli. Ef þær málsóknir, sem HH hafa haft milligöngu um að koma af stað vinnast að einhverju eða öllu leyti af hálfu lántaka þá leiðir það til afskrfta á grunvelli laga um forsendubrest og ætti þá að vera hægt að láta þann kostnað falla á kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna og þá án kostnaðar fyrir ríkissjóðo. Því miður held ég að við samninga um söluverð á fasteignalánum úr þrotabúum gömlu bankanna yfir í nýju bankanna hafi ekki verið fyrirvari um lyktir þeirra málshöfðanna og ef það er rétt þá mun kostnaðurinn við það lenda á nýju bönkunum og þar með eigendum þeirra.

Það er alveg rétt að í málflutningi sínum hafa Marinó og HH sagt að lítill kostnaður muni lenda á skattgreiðendum vegna þessa máls. Röki þeirra fyrir því halda hins vegar ekki vatni. Þar eru notuð sömu bullrökin og framsóknarmenn voru með fyrir kosningar að hægt sé að nota afföllin á lánasöfnunum milli gömlu og nýju bankanna til flatrar niðurfellingar lána eða leiðréttingar lána, sem HH kjósa að kalla það en er samt sami hluturinn.

Staðreyndin er hins vegar sú að þessi afföll eru í samræmi við útreikninga tveggja alþjóðlegra endurskoðunarskrifstofa með sérþekkingu í að meta verðmæti lánsafna með tilliti til þess hversu mikið er líklegt að muni innheimtast af þeim. Þarna er því um að ræða mat á því hvesu mikið þarf að verðfella skuldabréfasöfnin miðað við nafnvirði skuldsbréfanna til að kaupandinn fari út úr því á sléttu miðað við að innheimta öll skuldabréfin í topp. Þetta er því mat á því hversu mikil verða óhjákvæmilega afföll vegna skuldara, sem ekki geta staðið í skilum.

Það er því aðeins hægt að nota þessi afföll til að lækka skuldir þeirra, sem eru borgunarmenn fyrir sínum lánum ef í ljós kemur að þarna hafi verið um ofmat á afskriftaþörf að ræða vegna þeirra, sem ekki geta greitt sínar skuldir að fullu og þar með verði afgangur til annarra nota. Ég hef spurt Marinó hvort hann hafi einhverjar upplýsingar eða þekkingu, sem þessar endurskoðunarskrifstofur hafa ekki til að geta metið það svo núna að það verið það mikill afgangur af þessu að það verði hægt að lækka öll húsnæðislán um 16% yfir línuna. Hann hefur ekki enn svarað því.

Staðreyndin er sú að ef farið verður í almennar afskriftir eins og Marinó og HH ásamt Framsóknarflokknum og Borgarahreyfingin hafa talað fyrir þá mun það kosta skattgreiðendur stórfé. Hugmynd Marinós og HH mun væntanlega kosta skattgreiðendur eitthvað á annað hundrað milljarða króna. Það gerist með eftirfarandi hætti.

Ríkissjóður stendur fyrir stofnun nýrra banka, sem taka yfir íslensk innlán og taka einnig yfir skuldir einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi. Það eru teknar yfir jafn verðmætar eignir og skudlir samkvæmt verðmati áður nefndra endurkoðunarskirfstofa. Síðan bætir ríkissjóður við 12% ofan á það til að bankarnir hafi nægjanlegt eigin fé til að geta starfað og haft trúverðugleika. Ef síðan er farið í að lækka verðmæti eignanna með niðurfellingu/leiðréttingu húsnæðislána þá lækkar eigið fé bankanna niður fyrir þau mörk, sem þeir þurfa að hafa og þar með þarf að koma inn í þá enn meira eigið fé til að þeir geti starfað áfram. Það er ekki öðrum til að dreifa en ríkinu til að leggja það til.

Það sama mun gerast með sparisjóðina. Þeirra eigið fé er í flestum tilfellum nú þegar orðið of lítið þannig að það þarf aukið fé frá ríkinu og ef eignir þeirra eru verðfelldar með þessum hætti þarf að koma til enn meira eiginfjárframlag. Það er varla öðrum til að dreifa en ríkinu til að koma þar að málum þó vissulega geti verið að sveitafélögin komi þar að að einhverju leyti en þau fjármagna sig líka með sköttum.

Íbúðalánasjóður lendir líka í neikvæðri eiginfjárstöðu og þar með þarf að leggja fé á móti í hann og það lendir á skattgreiðendum.

Eignir lífeyrissjóðanna rýrna líka við þetta. Í tilfellum lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna og starfsmanna sveitefélaga þá eru ríkið og sveitefélögin ábyrg fyrri réttindum starfamanna sinna úr þeim lífeyrissjóðum og því lendir tap þeirra af þessu beint á ríki og sveitafélögum. Í tilfellum lifeyrissjóða á almenna vinnumarkaðnum þá leiðir tapið til þess að lífeyrissjóðirnir þurfa á endanum að lækka greiðoslur til sinna greiðsluþega eða að þeir verði af seinni tíma hækkunum. Þessar lægri greiðslur lífeyrissjóðanna til sinna sjóðsfélaga leiða til lægri skatta til bæði ríkis og sveitafélaga auk þess, sem það leiðir til aukisn kostnaðar ríkisins í almannatryggingakerfinu vegna tekjutengingar bóta við lífeyrissjóðstekjur.

Þessi kostnaður ríkis og sveitafélaga verður væntanlega eitthvað á annað hundrað milljarðar króna.

Þú ert klárlega aðeins að misskilja þetta með lán umfram verðmæti veðsins. Þegar peningar eru lánaðir þá eru þeir lánaðir ákveðnum aðila með ákveðna kennitölu. Síðan er tekið veð til frekari tryggingar. Það er því hægt að gagna að veðinu auk annarra eigna þess lögaðila, sem tók lánið en það er ekki hægt að ganga að öðrum lögaðilum nema þeir hafi gengist í persónulegar ábyrgðir fyrir láninu. Þegar um er að ræða hlutafélag þá er hlutafélagið sérstakur lögaðili með eigin kennitölu. Eigandi þess eða eigendur hafa aðra eða aðrar kennitölur. Það er því ekki hægt að ganga að eigandanum eða eigendunum nema þeir hafi gengist sérstaklega undir ábyrgðir á skuldum hlutafélagsins. Því er aðeins hægt að ganga að eignum hlutafélagsins sjálfs og þegar það er orðið gjaldþrota þá er allt tapað fé, sem ekki næst úr þrotabúinu og engin annar hefur gengist í persónulegar ábyrgðir fyrir.

Í tilfelli íbúðakaupanda þá kaupir hann íbúðina og tekur lánin á eigin kennitölu og er þar með persónulega ábyrgur fyrir skuldunum og er skuldin í raun óháð íbúðinni mena hvað veð í henni er tekið til frekari tryggingar ef lántakinn stendur ekki í skilum. Sama á við þegar um lánsveð er að ræða. Ef íbúðakaupandi hefði hins vegar stofnað einkahlutafélag, sem hefði keypt íbúðina og fengið til þess lán með veði í íbúðinni og án persónulegrar ábyrgðar eiganda hlutafélagsins þá gæti lánveitandi einungis gengið að íbúðinni og öðrum eignum hlutafélagsins ef einhverjar eru. Ef einhver lánveitandi væri tilbúinn til að veita slíkt lán þá væri vissulega hægt að minnka áhættu sína með því að stofna einkahlutafélag, sem myndi kaupa íbúð og fá lánað fyrir henni og leigja síðan íbúðina sjáflur af einkahlutafélaginu. Ég held hins vegar að erfitt gæti verið að finna lánveitanda, sem væri til í þetta nema þá með hærri vöxtum en af almennum húsnæðislánum.

Hneykslið í málinu er hins vegar það að þessir kaupahéðnar skula hafa fengið að kaupa hlutabréf sín út á einkahlutafaélög án persónulegra ábyrgða. Þeir munu því ekki þurfa að standa skil á lánunum nema það takist með einhverjum hætti að fá þessa gerninga dæmda ólöglega. Við skulum þó ekki útiloka að það verði hægt.

Hvað varðar óábyrga eða ábyrga hegðan einstaklinga í lánaviðskiptum þá ætti að vera hægt að setja um það almenn viðmið, sem myndu halda í flestum tilfellum. Hitt er alveg rétt hjá þér að það verður þá alltaf spurningin hver á að bera sönnunarbyrgðina. Ég held hins vegar að í þeim tilfellum, sem um mikinn tekjumissi er að ræða hjá lántaka en lánin teljist hafa verið viðráðanleg með fyrri tekjum ætti málið að liggja ljóst fyrir hvað þetta varðar. 

Sigurður M Grétarsson, 19.9.2009 kl. 10:59

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, þakka fyrir skýringu þína á því hvernig skattgreiðendur borga.  Ég sé að þú skilur hvorki upp né niður í málflutningi mínum miðað við þessa skýringu þína.  Í fyrsta lagi, þá eiga erlendu kröfuhafarnir bankana núna, ekki ríkissjóður.  Hugmyndin er að ríkissjóður kaupi nýju bankana af skilanefndunum með því að leggja þeim til nýtt eigið fé.  Bara með því að falla frá þeirri hugmynd, þá sparast meira en 100 milljarðar.  Í öðru lagi þá er gert ráð fyrir að lánasöfn gömlu bankanna sem færð verða yfir í nýju bankana verði lækkuð um 2.800 milljarða, þar af er gert ráð fyrir að verðtryggð lán heimilanna fari á milli með minnst 20% afslætti og gengistryggð með minnst 50% afslætti.  Í þriðja lagi gerum við ráð fyrir að lækkun lífeyrissjóðanna í sjóðfélaga lánum  nemi innan við 2% af heildareignum sjóðanna og það muni ekki hafa nein áhrif á afkomu þeirra sem nemur.  Í fjórða lagi, þá reiknum við með að leiðréttingin þurfi að eiga sér í allri keðjunni, þannig að lánadrottnar Íbúðalánasjóðs og sparisjóðanna þurfi einnig að gefa eftir verðbætur frá 1. janúar 2008.  Í fimmta lagi, þá teljum við að ákveðinn hluti útistandandi lána heimilanna séu þegar tapaður og meira muni tapast á næstu mánuðum og árum verði ekki gripið til almennra aðgerða.  Við teljum þennan hluta EKKI til kostnaðar vegna okkar leiðar, þetta er jú tapað fé nú þegar eða fyrirséð að það tapist.

Skýrðu nú út fyrir mér, Sigurður, hvað er það sem leggst á skattgreiðendur?  Vinsamlegast gerðu það án þess að lesa eitthvað í orð mín, sem ekki stendur þar, eins og þér hefur verið svo tamt að gera.

En fyrst að þú ert að benda á samspil lægri lífeyris og lægri skatttekna ríkisins, af hverju bendir þú þá ekki á samspil meiri neyslu og hærri neysluskatta?  Af hverju bendir þú eingöngu á að lítilleg lækkun (1,6%) eigna lífeyrissjóðanna vegna tillagna okkar lækki lífeyrisgreiðslur, en bendir ekki á að líklegast 10-20% hækkun neyslu auki skatttekjur ríkissins?

Hafi eitthvað kostað ríkissjóð pening, þá er það 700 milljarða hækkun á verðtryggðum og gengistryggðum skuldum heimilanna frá árinu 2000.  Þetta hefur ekki bara kostað ríkissjóð í formi lægri neysluskatttekna heldur einnig í formi hærri launagreiðslna og meiri kostnaðar.  Fyrirtæki í landinu hafa einnig þurft að hækka laun starfsmann og standa undir hærri útgjöldum.  Verðbætur á lán er gjörsamlega fáránlegur hlutur enda eru það bara bananalýðveldi á borð við Ísland sem nota þetta.

Marinó G. Njálsson, 19.9.2009 kl. 12:44

17 Smámynd: Karl Ólafsson

Sigurður, ég var reyndar ekki að misskilja neitt í sambandi við veðin.  Þessar útskýringar þínar eru mér vel kunnar og ég var einmitt að vísa til þessa siðleysis sem bankamenn ástunduðu, en öðrum bauðst ekki. Ekki gleyma því að innan bankanna (alla vega Kaupþings) var meira að segja samþykkt að fella niður ábyrgðir á kennitölum starfsmanna umfram verðmæti veðanna í bréfunum sem keypt voru, sem þá var komið niður í ekki neitt. Þar var því í mörgum tilfellum ekki um ehf að ræða.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra og læt hér staðar numið. Þakka þér skoðanaskiptin. Við verðum ekki sammála um afstöðu í þessum málum vegna þess að mér sýnist við ganga út frá ólíkum sjónarmiðum sem útgangspunkti.

Karl Ólafsson, 19.9.2009 kl. 16:49

18 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Marinói. Ég skil vel hvað þú ert að fara allavega nógu vel til að vita að þú hefur rangt fyrir þér.

Það er rangt hjá þér að erlendu kröfuhafarnir eigi nýju bankanna. Þeir eiga þrotabú gömlu bankanna. Ríkissjóður á nýju bankana og til stendur að þeir kaupi lánasöfn gömlu bankanna og taki einnig við jafn verðmætum skuldum þeirra og þá aðallega innlánum. Þegar það er búið standa nýju bankarnir með núll í eigið fé. Samkvæmt lögum verða bankar að vera með að minnsta kosti 8% eigið fé en það er mat þeirra, sem standa að uppbyggingu bankakerfisins að rétt sé að setja þá á stað með 12% eiginfjárhlutfall.

Það skiptir engu máli hvernig bankakerfið er sett á stað aftur. Það þarfr alltaf að leggja þeim til eigið fé upp á tiltekið hlutfall af heildar eignum bankans. Því þarf að vera eigið fé í bönkunum upp á tiltekið hlutfall af bankaviðskiptum hér á landi og því er það rangt hjá þér að það sparist eittyhvað með að hætta við að klaupa lánasöfn gömlu bankanna. Svo má heldur ekki gleyma því að þetta eru ekki útgjöld heldur er verið að stofna fyrirtæki og ef þessum fyrirtækjum gengur vel fær ríkissjóður peningana til baka og það jafnvel með góðum arði.

Mér er fullkuhnnugt um þau afföll, sem eru á skuldabréfasöfnum gömlu bankanna við sölu þeirra yfir í nýju bankana. Það, sem þér gengur hins vegar erfiðlega með að skilja að þetta eru afföll, sem metið hefur verið að þurfi til að dekka útlánatöp vegna þeirra, sem ekki geta greitt sínar skuldir að fullu. Meðan við höfum ekkert fyrir okkur með að sá kostnaður sé vanmetinn þá höfum við heldur ekkert fyrir okkur í því að hægt sé að nota þessi afföll til að framkvæma einhverjar aðrar afskriftir en þær óhjákvæmilegu afskriftir. Þar af leiðandi verða allir afslættir til lántaka, sem geta greitt sínar skuldir hreinn viðbótakostnaður við það og hann lendir á eigendum nýju baknanna.

Það er hins vegar alveg rétt hjá þér að ef við látum lækkunina ná niður alla keðjuna þá eru það þeir, sem lána bönkunum, sparisjóðunum og Íbúðalánasjóði fyrir þeirra útlánum, sem taka á sig tapið en ekki ríkissjóður. Það mun hins vegar leiða til mun meira taps lífeyrissjóðanna en þau 2%, sem slík lækkun á þeirra sjóðsfélagalánum leiðir til. Lífeyrissjóðirnir eru nefnilega aðalfjármögnunaraðilar Íbúðalánasjóðs. Þegar talað var um það síðasta haust að frysta verðtrygginguna í eitt ár þá var reiknað út að miðað við 16% verðbólgu á þeim tíma myndi það leiða til 9% eignartaps fyrir lífeyrissjóðina. Eins og þú veist ef þú kannt prósentureikning þá gerir 16% lækkun meira en að færa til baka 16% hækkun. 16% lækkun jafngildir því að taka af 19% hækkun. Því mun 16% lækkun vísitölu leiða af sér 10,5 til 11% lækkun á eignarsafni lífeyrissjóðanna og munu þeir þá þurfa að lækka greiðslur til sinna sjóðsfélaga í samræmi við það.

Það er gott að þeir, sem eiga peninga inn á bankabókum viti það að þið hjá HH viljið láta taka af þeim 16% af inneign sinni með lagaboði.

Gallinn við þessa hugmynd ykkar er sá að þessir lánveitendur bankanna, sparisjóðanna og Íbúðalánasjóðs munu fara í mál við ríkissjóð í kjölfar slíkrar lagasetningar á þeirri forsendu að slíkur gjörningur standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það eru 100% lýkur á að þeir vinni það mál. Þar með mun ríkissjóður þurfa að bæta þeim þessa 16% lækkun á eignum sínum.

Fullyrðing þín um að aðgerðir ykkar hjá HH muni leiða af sér hærri neysluskatta og að 700 milljarða hækkun lána hafi leitt af sér lægri neysluskatta heldur ekki vatni. Þú gleymir þeirri starðreynd að þeir, sem fá þesa peninga eru líka neytendur. Það að flytja peninga úr einum vasa í annan innan sama hagkerfis leiðir ekki til aukinnar neyslu í hagkerfinu.

Jafnvel þó við gefum okkur að lækkaðar tekjur lánveitenda leiði ekki til jafn mikillar neyslu hér á landi og aukning ráðstöfunartekna lántaka þá má ekki gleyma því að aukið ráðstofunarfé lántaka vegna lækkunar höfuðstóls lánanna eins og þið leggið til stafar ekki beint af lækkun höfuðstólsins heldur af lækkaðri greiðslubyri af lánunum vegna lækkunar höfuðstólsins. Lækkuð greiðslubyrði vegna lengingar í lánum gerir sama gagn hvað það varðar.

Sama á við um aðrar aðgerðir til að lækka greiðslubyrði án þess að lækka höfuðstól lánanna. Það er reyndar rétt að á endanum þurfa lántakar að greiða hærri greisðlu og það minnkar þeirra getu til neyslu. Ef hins vegar er farinn ykkar leið þá munu neytendur hér á landi þurfa að greiða hærri skatta til að fjármgana þessa lækkum lána umfram afskriftir á lánum milli nýju og gömlu bankanna og því munu áhrifin verða þau sömu.

Þau eru vandfundin þau dæmi úr Íslandssögunni þar, sem jafn margir hafa lagt trúnað á jafn ranga fullyrðingu og þá fullyrðíngu að það sé hægt að lækka húsnæðislán flatt yfir línuna án þess að það muni kosta ríkissjóð háar upphæðír. Ef gert er ráð fyrir að 50% af þessum lækkunum séu hvort eð er tapað fé þá munu skattgreiðendur þurfa að punga út rúmlega 100 milljörðum króna til að dekka kostnað ríkis og sveitafélaga af 16% lækkun lána.

Sigurður M Grétarsson, 20.9.2009 kl. 22:45

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, það eru svo margar staðreyndarvillur í málflutningi þínum að ég er hissa.

1.  Nýju bankarnir eru í eigu kröfuhafa.  Þetta hafa bæði Gylfi Magnússon og Steingrímur J. Sigfússon sagt nýlega í viðtölum og á fundum.

2.  Erlendir kröfuhafar hafa lýst yfir óánægju sinni með að nýju bankarnir ætli ekki að láta afsláttinn sem erlendu kröfuhafarnir eru að gefa af lánasöfnunum ganga til lántakenda.  Þeir hafa af þeirri ástæðu hugleitt að draga til baka tilboð sitt um afslætti.  Ef menn reikna með að verðmæti gengistryggðra lána heimilanna séu bara 50% af nafnverði, þá vilja erlendir kröfuhafar að lántakendur njóti niðurfærslunnar strax.  (Ég gæti sýnt þér tölvupóst með þessum upplýsingum, en hann er trúnaðarmál.)

3.  Frysting leiðir ekki til eignataps heldur tapaðrar ávöxtunar.  Það er tvennt ólíkt.  Verðbætur eru ávöxtun ekki eign.

4.  Stærsti hluti 700 milljarðanna rann út í hagkerfið á mun lægri sköttum en neysluskattarnir.  Sumt var aldrei skattlagt.  Stór hluti fór úr landi.

5.  Leiðrétting höfuðstóls lána lækkar fyrst og fremst ávöxtun.

6.  Lenging lánstíma lána um t.d. 10 ár veldur 10 ára skerðingu á neyslu og lækkar því neysluskatttekjur ríkissjóðs á þeim tíma.

7.  Það mun EKKI kosta ríkissjóð hærri upphæð að fara í leiðréttingu strax frekar en að opna fyrir stórfellda eignaupptöku og afskriftir síðar.

Marinó G. Njálsson, 21.9.2009 kl. 00:30

20 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Gott að hafa þetta númerað því þá er auðveldara að svara því.

1. Nú er verið að bjóða erlendu kröfuhöfunum að eignast hlut í Kaupþingi og Íslandabanka í stað þess að fá ákveðinn hlut af inneignum sínum greiddar. Umhugsunarfresturinn rennur út á mismunandi tíma eftir því um hvorn bankanna er að ræða. Kröfuhafar í Gamla Landbankann fá ekki færi á að eignast hlut í honum enda munu eignir í þrotabúi hans ekki einu sinni duga fyrir forgangskröfum og því eiga almennir kröfuhafar í hann ekki rétt á neinum greiðslum. Eitthvað er nú skrítið að bjóða kröfuhöfunum að eignast hlut í banka, sem þeir eiga nú þegar hlut í ef marka má fullyrðingar þínar um fullyrðingar Gylfa Magnússonar.

Hins vegar á þrotabú gömlu bankanna allar eignir og skulda allar skuldir þar með talið innlán, sem nýju bankarnir eru að höndla með fyrir þeirra hönd. Það segir hins vegar ekki að þrotabúin og þar með kröfuhafar í þau eigi nýju bankana.

Þetta skiprit hins vegar ekki neinum máli hvað varðar þá fullyrðingu þína að það sparist 100 milljarðar við það að hætta við að kaupa eignir úr þrotabúum gömlu bankanna. Staðreyndin er sú að það þarf að leggja fram í eigið fé nýju bankanna 12% af öllum innlánum til að stofnsetja þá. Það er því umfang innlána, sem skiptir máli en ekki hvernig að stofnun nýju bankanna er staðið. Það, sem sparar ríkissjóði eiginfjárframlag er ef hægt er að fá meðeigendur af nýju bönkunum. Því þarf ríkissjóður að leggja fram minna fé ef kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna samþykkja að eignast hlut í nýju bönkunum. Ef svo fer þá þarf ríkið að leggja minna fram til eigin fjár bankanna heldur en ef farin er sú leið, sem þú mælir með en ekki öfugt.

2. Þessu hefur þú haldið fram án þess að vitna í nein ummæli þar um. Það er alvegt á hreinu að erlendu kröfuhafarnir eru ekki að ætlast til að nýju bankarnir gefi meiri afslátt til lántaka en nemur afföllunum, sem þeir þurfa að gefa eftir með. Í þeim samningum er ekki gert ráð fyrir afsláttum til fólks, sem getur greitt sínar skuldir og þeð er því út í hött að halda því fram að erlendu kröfuhafarnir séu að ætlat til þess.

3. Það kostar lífeyrissjóðina það sama í töðuðum eignum að verða af hækkunum í framtíðinni og því að lenda í lækkunum strax. Staðreyndin er sú að ef farið verður að kröfum HH þá mun það kosta milli 10 og 11% tap á eignarsafni lífeyrissjóðanna en ekki 2% eins og þú heldur fram. Miðað við ykkar hugmyndir er það út í hött að skoða bara sjóðsfélaalán lífeyrssjóðanna en sleppa öllum öðrum verðtryggðum eignum þeirra.

4. Hvað hefur þú fyrir þér í þessu? Ert þú að segja að greiðsluþegar lífeyrissjóðanna og innlánseigendur í bönkunum greiði minni neysluskatta en lántakar?

5. Þetta er rangt. Lækkun höfuðstóls lána leiðir strax til eignartaps, sem nemur lækkun höfuðstóls lánanna.

6. Hækkaðir skattar til að fjármagna þann gífulega kostnað ríkis og sveitafélaga, sem tillögur HH kosta leiðir líka til lækkunar á neysluskattekjum ríkissjóðs. Það er því út í hött að halda því fram að það auki neysluskatttekjur ríkissjóðs að fara að tillögum HH.

7. Þetta er mesta bullið. Það að lækka höfuðstól lána þeirra, sem geta greitt sín lán leiðir ekki til fækkunar gjalþrota og þar með afkrifta lána. Stjórnvöld ætla að fara út í afskriftir skulda hjá þeim, sem ekkji geta greitt sín lán og það mun fækka gjaldþrotum. ´

Þvert á móti mun það leiða til fjölgunar gjaldþrota heimila ef orðið verður við kröfum HH. Það mun einnig leiða til fjölgunar heimila, sem ekki eiga fyrir mat eða námsgögnum fyrir börnin. Það mun líka leiða til aukins fjólksflótta. Ég er búin að skrifa útskýringar á þessu á bloggsíðu minni og má sjá það hér:

http://siggimaggi.blog.is/blog/siggimaggi/entry/952684/#comments

Sigurður M Grétarsson, 22.9.2009 kl. 19:58

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, horfðir þú á fréttir RÚV í kvöld?  Hafir þú gert það, þá sérðu að liður 1 hjá mér er hárréttur.  Kröfuhafar í Glitni hafa val á milli þess að eignast 95% í Íslandsbanka (án endurgjalds) eða ríkið eignist bankann, borgi fyrir hann með skuldabréfi og kröfuhafar fái síðan forkaupsrétt til nokkurra ára.  Staða Kaupþings er nokkurn veginn sú sama.  Af hverju ætti ríkið að borga fyrir bankann með skuldabréfi, ef ríkið á hann?  Af hverju ættu kröfuhafarnir að fá 95% bankans án endurgjald, ef ríkið á hann?

Því miður halda aðrir liðir jafnilla vatni og þessi, en ég verð að viðurkenna að ég nenni ekki að elta ólar við rangfærslurnar þínar.  Mun ég því ekki bregðast við athugasemdum þínum héðan í frá.

Marinó G. Njálsson, 22.9.2009 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 197
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband