Leita í fréttum mbl.is

Kannski er verið að sýna okkur..

Þessi "ég elska þig, ég elska þig ekki" snúningur á því hvort mál Íslands verði tekið fyrir hjá stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er kannski til að sýna okkur að við komumst líklegast alveg af án þeirra.  Ég get t.d. ekki séð að ástandið hafi versnað neitt verulega síðustu mánuði.  Ástandið er jafnvel ívið skárra en það var í janúar og þá var það svipað og í lok október.  Vandamálið er ekki hvort við fáum lán AGS og allra hinna, heldur hvort ríkisstjórn Íslands geti komið ýmsum hlutum í verk, sem hafa ekki komist á dagskrá.

Ég spyr bara:  Af hverju ætti AGS að taka mál Íslands á dagskrá, þegar ekkert er að gerast í innri málum landsins?  Þrátt fyrir lokalokalokafrest FME varðandi fjármögnun bankanna og útgáfu stofnefnahagsreiknings þeirra, þá er því ekki lokið.  Þrátt fyrir kvalaróp heimilanna í landinu, þá er(að því ég best veit) ekki byrjað að ræða þau mál af neinu alvöru, nema í besta falli í einhverju bakherbergjum ráðuneytanna.  Þrátt fyrir stigvaxandi og langvarandi atvinnuleysi, þá hefur ekki eitt einasta verkefni farið í gang sem gæti spornað gegn atvinnuleysi til skamms tíma.  Og þrátt fyrir ítrekuð boð lífeyrissjóðanna um að koma með fjármagn til atvinnuskapandi verkefna, þá gerist ekkert.  Hvernig væri að einhver læknir færi í heimsókn á stjórnarheimilið og athugaði með lífsmörk þeirra sem þar eru til húsa?

Ég hef nefnt það áður og vil koma því á framfæri einu sinni enn:  Af hverju hafa ekki verið í gangi vinnuhópar sérfræðinga sem einblína hver á sitt viðfangsefnið?  Þessum hópum var komið á fót í október, strax eftir hrunið, en svo gufuðu þeir upp.   6. nóvember birti ég eftirfarandi lista með hugmyndum að vinnuhópum.  Listann birti ég aftur 24. nóvember og enn einu sinni í mars.   

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands  [Þessu er lokið]
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Því miður hefur lítið sem ekkert gerst í þessum málum, a.m.k. á yfirborðinu.  Af hverju?  Þora stjórnmálamenn ekki að hleypa einhverjum sem gætu haft góðar hugmyndir að umræðuborðinu?  Eða halda menn að þeir fái einhverja pakkalausn frá AGS eða ESB?  Austfirðingar biðu í 25 ár eftir stóriðju og var lítið annað gert í atvinnuuppbyggingu á svæðinu á meðan.  Verður það sama upp á tengingunum núna, að Samfylkingin bíður og bíður í þeirri von að allt bjargist, þegar ESB björgunarsveitin mætir.  Hvernig væri nú að taka sig saman í andlitinu, fara að kljást við viðfangsefnin og koma með hugmyndir að lausnum?  Það þýðir ekki að draga sig inn í einhverja skel af því að viðfangsefnið sé stórt.  Það leystist ekki nema unnið sé að lausninni með færustu sérfræðingum og hagsmunaaðilum.  Mér liggur við að segja, að þeir einu sem mega missa sín eru stjórnmálamenn.


mbl.is Ekki á dagskrá 14. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig væri að ráðherrar skiluðu ítarlegri vinnuskráningu þar sem þeir listuðu þau verkefni sem þeir sinntu hvern dag og hversu mikinn tíma hvert verkefni tæki (svona eins og þeir væru að fylla út stimpilkort). Þeir gætu t.d. skilað þjóðinni, sem þeir vinna fyrir, vikuskýrslu svona til að byrja með.

Hverjir voru það aftur sem sögðu að nú skyldi allt vera upp á borði og gagnsætt?

Ef með þessu sæist að stjórnin væri að gera gagn á skipulegan og markvissan hátt gæti hún reynt að vinna aftur traust þjóðarinnar.

Davíð Pálsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 16:40

2 identicon

Sæll Marínó

Mjög góður verkefnalisti og verðug verkefni þarna :)

Er samt ekki viss um að peningamálastefna sé komin - eða hver er hún þá? 

Stýrivextir í skýjunum, engin ný lán og spurning með traust Seðlabankans.

P.S. Kærar þakkir fyrir jákvæð og skynsamleg innlegg í umræðuna, Marínó. Ekki veitir af. 

Þrándur (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 16:45

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er orðið deginum ljósara, að meðan þessi ríkisstjórn situr, mun heimilum, einstaklingum og fyrirtækjum blæða, hægt og rólega til fjárhagslegs ólífis. Á sama tíma mun allt púður þessara amlóða fara í að sleikja rassa í Brussel, með von um volgan stól og bitlinga í því óbermisfyrirbæri. Valdasýkin hefur tekið alger völd og ekkert virðist heilagt lengur. 

Halldór Egill Guðnason, 7.9.2009 kl. 17:58

4 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Góður listi. Ég er raunar einna áhugasamastur um atriði 12 og 13 þar sem sjálft takmarkið hlýtur að hafa mikið um það að segja hvaða áherslur menn setja sér. Hins vegar er ólíklegt að pólitíkusar sýni þessum atriðum áhuga af eigin hvötum - gæti "bundið hendur" í framtíðinni...

Haraldur Rafn Ingvason, 7.9.2009 kl. 19:33

5 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Ég held að það sé komið nóg af kjaftæði um hlutina og að setja málefni í nefnd er einungis til að fresta því sem þarf að gera ,menn verða að fara að bretta upp ermarnar og fara að framkvæma ,hvort sem þær ráðstafannir eru vinsælar eða óvinsælar ,Það þarf að fella úr gildi hluta af gjaldeyrishöftum til að hægt sé að fara að flytja inn framkvæmdarfé til þess að framkvæma .td í Helguvík þar sem einungis er beðið eftir því skrefi,skafar um 1000 manns atvinnu mjög fljótlega eftir að framkvæmdir hefjast að alvöru ásamt atvinnu við uppbyggingu virkjanna sem þarf ,Okkur veitir nú ekki af innspítingu ,menn verða bara að þora og hafa kjark.

Fella verður í burtu verðtryggingunna þar sem hún er að eyðileggja fjölskyldur vegna síhækkandi lánaafborgannir.

 Þessir svokölluðu útrásavíkingar ásamt hjálparkokkum með græðgi að vopni gengu berserksgang á kostnað þjóðarinnar svo að það er alveg ljóst að það verður líka að gera þá kröfu að menn verði látnir sæta ábyrgð á gjörðum sínum ,það er ekki réttlát að ætla almenningi að borga brúsann og þeir sem fengu borgað milljónir á mánuði fyrir ábyrgð sleppi svo,almenningur mun ekki samþykkja það

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 7.9.2009 kl. 20:32

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Marinó,

Mér finnst rangt að búta niður endurreisn íslensks efnahagslíf í svona lista. Mér finnst að með því sé verið að slíta hlutina úr samhengi hvern við annan.

Mér finnst að endurreisnarverkefnið sé svo fléttað að því verði ekki sundrað í einingar með þessum hætti og þess vegna þurfi að vinna þetta með öðrum aðferðum. Það verður að búa til heildstætt módel af því hvernig okkar samfélag getur þrifist.

Fyrsti samnefnarinn er þá t.d. sá að komast að því hvað það er sem ríkið þarf nauðsynlega að reka og hvað má hreinlega leggja niður sem ónauðsynlega starfsemi, dekur- og dellumál. Það má t.d. fleygja utanríkisþjónustunni að stórum hluta (nota fjarfundabúnað!), þjóðkirkjurekstri, menningarstarsemi fullorðinna þ.m.t. RÚV, Sinfónía, leikhús o.fl. Íþróttir fullorðinna og ótal margt fleira sem er bara orðið að hlægilegum útgjaldaliðum í þeirri stöðu sem við erum í.

Kannski verður þessi tími til þess að hægt er að leiðrétta uppsafnaðar vitleysur í rekstri samfélagsins og koma hlutum í þá veru að hér verði sinnt vel heilbrigðis-, trygginga- og mennta-, og samgöngukerfi. Að öðru leyti sé útgjöldum ríkisins bara lokað. Ríkisrekstur hefur bólgnað svo mjög í gegnum tíðina að ef ekki er tekið í taumana náum við aldrei nokkurn tíma fótfestu með eigin peningamál.

Mér sýnist staða hjá stórum hluta almennings vera með þeim hætti að knýja þurfi stjörnvöld til að setja bráðabirgðalög sem banni nauðungarsölur eins og staðan er núna. Fari nauðungarsölurnar í gang núna verður þjóðfélagði hreinlega eyðilagt svo mikið að ekki verði upp úr því staðið.

Ég get haldið endalaust áfram, svo stórt er viðfangsefnið. Ég ætla að stoppa hér.

Haukur Nikulásson, 7.9.2009 kl. 21:08

7 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Marinó,

 góð færsla eins og venjulega. Þrátt fyrir læknisfræðilega menntun mína þá er ég ekki viss um að ég hafi áhuga á endurlífgun þessarar RÍKISSTJÓRNAR. Það er að renna upp fyrir okkur landsmönnum að þessi stjórn er handónýt til allra verka. Það virðist þurfa að ræða málið út í það óendanlega áður en að þau geti hafist handa. Þetta er eins og að ræða matseðil í þaula við vannærðan þriðja heims íbúa.

Gunnar Skúli Ármannsson, 7.9.2009 kl. 21:44

8 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Takk fyrir að áminna okkur...

Þ.s. mér fannst áhugaverðast, var að heyra í honum Stiglitz.

Eins og ég skil hann, þá mælir hann með því að við höldum í krónuna,

Ef við kaupum það, þá er í raun og veri, stóra málið að losna við verðtrygginguna. Það skrímsli sem við settum sjálf yfir okkur, en vanheilagt bandalagt, verkalýðshreyfingar og lífeyrsissjóða, annars vegar, og banka, hins vegar; viðhaldi og verji.

Þarna er um mjög öfluga hagsmuni að ræða, og mjög stórfellda og einbeitta andstöðu, mjög fjölmennrar hreyfingar, mun þurfa til.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.9.2009 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband