3.9.2009 | 19:55
Vandi heimilanna: Tilraun til greiningar - Endurbirt færsla
Þórólfur Matthíasson var í Kastljóssviðtali í kvöld. Þar kom hann með greiningu á vandanum sem heimilin í landinu eru að glíma við og fannst mér þessi greining hans heldur klén, eins og margt annað sem frá honum kemur. Langar mig því að endurbirta hér færslu frá því 10. febrúar sl., þar sem ég gerði tilraun til að greina vandann. Til að sjá athugasemdir frá því síðast, er bara að smella á fyrirsögnina hér fyrir neðan.
Vandi heimilanna: Tilraun til greiningar
Það eru alls konar vangaveltur í gangi í þjóðfélaginu um það hvernig á að leysa vanda skuldsettra heimila í kjölfar þess ástands sem skapaðist við fall krónunnar, verðbólguna sem fylgdi á eftir og síðan lánsfjárþurrðar á innlendum lánamarkaði. Þetta ástand er búið að stigmagnast frá því í byrjun síðasta árs, þó ljóst væri á síðari hluta árs 2007 hvert stefndi. Fyrsta verðbólguskotið kom í september 2007, þegar vísitala neysluverðs hækkaði um 1,32% á milli mánaða, en það jafngildir um 16% ársverðbólgu. En hvenær svo sem vandinn byrjaði skiptir ekki máli núna. Vandinn er gríðarlegur og hann þarf að leysa.
Áður en menn fara að leysa eitthvað vandamál, þá er gott að byrja á því að gera sér grein fyrir hvert vandamálið er, hver orsök þess er og hvaða lausnir koma til greina. Japanir segja að 70% vinnunnar sé lokið þegar búið er að koma sér saman um afmörkunina og kannski er bara heilmikið til í því. Hér fyrir neðan fylgir mín greining á stöðu mála:
Vandamálið: Tiltekinn hópur fólks (umfangið hefur ekki verið skilgreint) á í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum og stefnir því í vanskil, er kominn í vanskil, aðfararaðgerðir eru byrjaðar hjá viðkomandi, nauðungarsöluferli er farið af stað eða því jafnvel lokið.
Orsök: Megin ástæður fyrir vandanum, sem lýst er að ofan, eru líklegast eftirfarandi fimm atriði:
- verðbólga sem leitt hefur til hækkunar á höfuðstóli lánanna og greiðslubyrði þeirra um fram greiðslugetu,
- gengisbreytingar sem hafa haft sömu áhrif,
- háir vextir af óverðtryggðum lánum, svo sem yfirdrætti,
- tekjutap sem veldur því að greiðslugeta er skert og
- höfnun á frekari fyrirgreiðslu frá lánveitendum, svo sem vegna ónógrar greiðslugetu skuldara, skort á veði, skorti á lánsfé eða lánveitandinn eru ekki í aðstöðu til að lána.
Viðfangsefni: Að gera skuldara kleift að standa undir greiðslubyrði lána án þess að skerða lífsgæði hans og fjölskyldu (þar sem það á við) of mikið, lágmarka tap allra sem að málum koma og jafna ábyrgðinni á stöðu mála milli lántakanda og lánveitanda. (Auðvitað væri hægt að afmarka viðfangefnið öðru vísi, en ég kýs þessa nálgun.)
Mögulegar lausnir: Hér verða nefndar nokkrar tillögur að lausnum sem hafa komið fram í umræðunni. Auk þess sem ég greini frá atriðum sem mér finnst vera hverri leið helst til foráttu.
- Greiðsluaðlögun: Gerður er samningur við lánadrottna um tiltekið greiðslufyrirkomulag, þar sem greiðslum er ýmist frestað, þeim dreift eða þær felldar niður. Þetta er sértæk aðgerð fyrir hvern og einn skuldara og mun taka mjög langan tíma í framkvæmd. Frumvarp til laga um greiðsluaðlögun er til meðferðar í þingi og óljóst er hvernig það mun líta út að lokum. Frumvarpið (þ.e. ríkisstjórnarinnar) er með takmarkanir, sem varla teljast viðsættanlegir, svo sem að einstaklingar með ótakmarkaða ábyrgð í atvinnurekstri geta ekki fengið greiðsluaðlögun, ekki er sjálfgefið að allar veðskuldir séu teknar inn í greiðsluaðlögunina og lagðar eru gríðarlega stífar kröfur á einstaklinginn sem fer í greiðsluaðlögun þannig að hann má liggur við ekki misstíga sig neitt án þess að samningurinn um greiðsluaðlögun falli úr gildi. Hugmyndin er góð, en laga þarf útfærsluna.
- Útgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar: Með þessu er lögð til gríðarleg eignatilfærsla, sem mun skerða lífskjör þeirra, sem taka þennan kost, á elliárunum. Hugsanlega veldur þetta miklum útgjöldum ríkissjóðs síðar í gegnum almannatryggingakerfið. Verði þessi leið valin, þ.e. lögum breytt til að gera þetta kleift, þá þarf að varast að gera lífeyrissparnaðinn aðfararhæfan. Sem stendur er hann það ekki, en um leið og opnað verður fyrir útgreiðslu hans, þá má búast við að lánveitendur krefjist þess að skuldarar noti séreignarsparnaðinn áður en gripið er til annarra aðgerða. Síðan má spyrja hvort næst verði tappað af sameigninni. Ef það er samt vilji til að fara þessa leið, þá þarf að fjármagna útgreiðsluna. Ég nefni í síðustu færslu að hugsanlega gætu lífeyrissjóðirnir samið við handahafa jöklabréfanna og skipt á þeim og erlendum eignum lífeyrissjóðanna (sjá Stórgóð hugmynd að fá lífeyrissjóðina til að kaupa jöklabréfin). Áður en kemur að útborgun séreignarsparnaðar, þarf að skoða skattlagningu greiðslunnar og áhrif á bætur í almannatryggingakerfinu. Það verður ekki skoðað hér, en samkvæmt almannatryggingalögum, þá mun útgreiðsla séreignarsparnaðar skerða bætur fólks.
- Kúlulán: Hugmynd sem sett var fram í Morgunblaðinu á sunnudag. Hluti lána settur til hliðar og greiddur með eingreiðslu eftir X ár. Restina, sem miðast við greiðslugetu, heldur skuldari áfram að borga af. Kúlulán er borgað, t.d. þegar eign er seld, hagur vænkast, viðkomandi vinnur stóra pottinn í lottó eða tæmist arfur! Mér sýnist þessi hugmynd þurfa meiri vinnu og hún kemur ekki í veg fyrir hina miklu eignafærslu sem nefnd er í lið 2.
- Frysting eða lenging lána: Gengistryggð lán verði fryst í ákveðinn tíma, t.d. þar til krónan hefur náð einhverju tilteknu gengi. Lengt verði í öllum verð- og gengistryggðum til að létta greiðslubyrðina. Heildargreiðsla af lánunum mun hins vegar aukast, nema til komi veruleg lækkun vaxta og/eða þak á verðbreytingarfærslu.
- Skilmálabreytingar verðtryggðra og gengistryggðra lána: Gengistryggðum lánum verði breytt í verðtryggð lán. Miðað verði við upphaflegan höfuðstól og væri afturvirk til lántökudags. Skilmálum allra verðtryggðra lána verði breytt þannig að þak verði sett á verðbætur, t.d. 4%, og gildir þetta afturvirkt frá og með 1. janúar 2008. Þetta verði fyrsta skref í því að afnema verðtryggingu lána alfarið. Hér þurfa lánveitendur að taka á sig talsverðar afskriftir/niðurfærslur og er ekki víst að þeir sætti sig við það. Svigrúm lánveitenda til að taka á sig svona niðurfærslur/afskriftir eru skoðað nánar síðar í greininni.
- Niðurfærsla og afskriftir höfuðstóls gengistryggðra og verðtryggðra lána: Verðtryggður eða gengistryggður höfuðstóll lána verði færður niður þannig að miðað verði við vísitölu eða gengi frá því áður en gengi krónunnar féll í mars 2008. (Sumir vilja miða við 1. júlí.) Líkt og í lið 5, þá veldur þetta búsifjum fyrir lánveitendur.
Ég gæti vafalaust nefnt fleiri útfærslur, en læt þessar duga. Mér sýnist sem einhverjar af ofangreindum lausnum gætu unnið saman, þ.a. ein leið útilokar ekki aðra samhliða. Dæmi: Greiðsluaðlögunarleiðin gæti leitt af sér einhverjar af hinum í einni eða annarri mynd, en þá sem sértæka aðgerð fyrir hvern skuldara. Sjálfur tel ég að fara eigi leið 5 ásamt því að bjóða upp á leið 1 fyrir þá sem eru það illa staddir að leið 5 dugi ekki.
Annað sem þarf að skoða: Það er að sjálfsögðu fjölmargt annað sem þarf að skoða og hef ég listað nokkur atriði hér fyrir neðan. Vil ég sérstaklega vekja athygli á atriðum sem snúa að aðför, nauðungarsölu og lúkningu mála. Gott væri að fá ábendingar um fleiri atriði.
- Stöðvar þarf strax allar aðfarargerðir og nauðungarsölur á íbúðarhúsnæði, þar til fundin hefur verið viðunandi lausn á vanda heimilanna.
- Breyta þarf lögum um nauðungarsölur, þannig að löggiltur matsmaður kvaddur til af héraðsdómi verðmeti fasteignir, sem fara eiga á nauðungarsölu. Sýslumanni verði skylt að hafna boðum sem berast og eru undir tilteknum hundraðshluta, t.d. 70 eða 80%, af þessu verðmati. Verðmat skal ekki birta fyrr en að uppboði lokun. Þetta ákvæði gæti hvort heldur gilt til bráðabirgða eða verið sett inn sem fast ákvæði. Tilgangur þess, er að koma í veg fyrir að óeðlilega lágt verð fáist fyrir fasteign sem sett er að veði vegna þess eins að fáir aðilar mæta til uppboðsins eða til að koma í veg fyrir samantekin ráð nokkurra aðila um að bjóða óeðlilega lágt í eignir. Þetta ákvæði á líka að tryggja, að eins mikið og kostur er fáist upp í veðskuldir við uppboð á fasteign. Útfæra þarf nánar þetta atriði.
- Skoða þarf að jafna ábyrgð lántakanda og lánveitanda, þegar óeðlilegar aðstæður skapast á fjármálamarkaði eða í hagkerfinu, t.d. vegna mikilla gengisbreytinga eða verðbólgu. Athuga má að tengja kjör lána við kjör þeirra skuldbindinga lánveitandans sem eru vegna fjármögnunar lánsins.
- Koma þarf í veg fyrir að hægt sé að elta skuldara vegna veðskuldar eftir að búið er að selja eign, sem veð var tekið í, á nauðungarsölu að beiðni kröfuhafa (eins eða fleiri). Eins og lögin eru núna, þá er hægt að halda kröfu á lífi endalaust. Það voru bankarnir sem buðu 100% lán og þeir áttuðu sig alveg á áhættunni sem þér tóku. Slíkt lán á því ekki að gefa þeim "opið skotleyfi" á skuldara löngu eftir að búið er að "hirða" eignina bak við veðið af skuldaranum.
- Skoða áhrif þess á veltu í þjóðfélaginu að hluti af útgjöldum heimilanna, sem áður fóru í einkaneyslu og sköpuðu þannig veltu í samfélaginu, fara núna í auknu mæli í greiðslu skulda við lánastofnanir. Ruðningsáhrifin af minni einkaneyslu geta verið mjög mikil. Í fyrsta lagi fá fyrirtækin ekki jafnmiklar tekjur og verða því að draga saman seglin. Það leiðir til atvinnuleysis, lægri tekna, fyrirtæki hætta starfsemi eða fara í gjaldþrot. Í öðru lagi leiðir það til minni skatttekna fyrir ríkissjóð sem leiðir til þess að ríkissjóður þarf að draga enn frekar saman í ríkisútgjöldum. Samneyslan dregst saman með skertri þjónustu við þegnana eða hækkun skatta til viðhalda grunnþjónustu. Í þriðja lagi eykur það líkur á frekari vanskilum á komandi mánuðum.
- Koma þarf í veg fyrir að kröfuhafi, með lágt hlutfall krafna, geti stöðvað eða komið í veg fyrir samninga um skuldara við aðra kröfuhafa. Hafi aukinn meiri hluti kröfuhafa, t.d. 2/3, samþykkt skuldbreytingu og skilmálabreytingar, þá geti aðrir kröfuhafar ekki komið í veg fyrir slíkt samkomulag með því að neita skuldara um sambærilega samninga. Í núverandi kerfi, þá getur skuldari hafa náð samkomulagi við 99% kröfuhafa, en sá sem á 1% getur eyðilagt allt með því að fara í fjárnám eða krefjast nauðungarsölu.
Svigrúm til aðgerða: Meta þarf getu einstakra lánastofnana til að taka þátt í svona aðgerðum. Svo virðist sem skilanefndir Nýja Glitnis, Nýja Kaupþings og NBI muni gera ráð fyrir í stofnefnahagsreikningum bankanna, að verulegur hluti útistandandi skulda viðskiptavina muni fara á afskriftarreikning. Þannig má lesa það út úr gögnum frá Nýja Kaupþingi að 954 milljarðar eða 67,7% skulda muni fara á afskriftarreikning. Það veitir bankanum mjög mikið svigrúm til að koma til móts við þá kröfu að höfuðstóll húsnæðislán verði lækkaður umtalsvert. Þó ég hafi ekki séð opinberar tölur frá Nýja Glitni, þá bendir ýmislegt til að eitthvað svipað verði uppi á teningnum hjá þeim.
Þá er spurningin hver staðan er hjá öðrum lánveitendum. Um alla gildir svo sem að líklegast munu þeir ekki fá tiltekinn hluta lána sinna endurgreidd að fullu. Allir horfast þeir því í augun við verulegt tap. Það er staðreynd að tap þeirra eykst bara við það að fara í fullnustu mála. Kostnaður sem leggst á skuldara vegna aðgerða gerir ekkert annað en að lækka þá tölu sem kemur í hlut kröfuhafa. Af þeirri sök einni, er betra að fara beint í samninga sem líklega fela í sér afskriftir, en að fara í tímafrekar aðfarir og hugsanleg dómsmál. En hvert er þetta svigrúm:
- Íbúðalánasjóður (ÍLS): Staða ÍLS er líklegast veikust af öllum. Hann selur íbúðabréf á frjálsum markaði og notar þann pening til að lána til íbúðakaupa. Möguleikar hann felast í tvennu. Annars vegar framlagi úr ríkissjóði. Hins vegar að stóru bankarnir þrír gefi sjóðnum afslátt af þeim íbúðabréfum sem þeir hafa keypt af sjóðnum. Þriðji möguleikinn gæti tengst jöklabréfunum og samstarfi við þriðja aðila, t.d. lífeyrissjóðina, um það mál.
- Sparisjóðir og minni fjármálafyrirtæki: Þessum aðilum býðst að selja ÍLS húsnæðislán sín óski viðkomandi sjóður eða fjármálafyrirtæki eftir því. það verður ekki gert nema ÍLS fái afslátt af lánasafninu. Treysti viðkomandi aðili til að veita ÍLS afslátt, þá ætti hann að geta veitt skuldaranum afslátt. Annar möguleiki snýr að jöklabréfunum, en flest eiga þessi fyrirtæki erlendar eignir sem hægt væri að láta handhöfum jöklabréfa í té í skiptum fyrir jöklabréfin á hagstæðu skiptigengi. Þriðji möguleikinn snýr að því, að þessi fyrirtæki tóku lán hjá gömlu bönkunum. Samkvæmt upplýsingum í skýrslu skiptastjóra Gamla Kaupþings, þá er gert ráð fyrir að niðurfæra lán til lánastofnana um 108 milljarða. Gera má ráð fyrir að einhver hluti þessarar niðurfærslu komi þessum fyrirtækjum til góða.
- Lífeyrissjóðir: Skoðum fyrst umfang lána lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga. Samkvæmt yfirlitstöflu um stöðu lífeyrissjóðanna 30.11.2008 og er að finna á heimasíðu Landsamtaka lífeyrissjóða, var heildarupphæð sjóðfélagalána 162 milljarðar og hafði aukist um 33 milljarða á árinu. Gera má ráð fyrir að verulegur hluti þessarar aukningar stafi af verðbótaþætti lánanna eða allt að 20 milljarðar, en afgangurinn sé ný lán. Staða lífeyrissjóðanna er ekki góð eftir allt það tap sem þeir hafa mátt taka vegna falls bankanna. Og lengi getur vont versnað, þar sem styrking krónunnar ætlar líka að reynast þeim neikvæð meðan ekki er hægt að gera upp samninga við gömlu bankana um gjaldeyrisvarnir. En eins og bent hefur verið á, þá eiga lífeyrissjóðirnir annan möguleika. Hann felst í jöklabréfunum, þ.e. að skipta á jöklabréfum fyrir hluta af erlendum eignum sjóðanna. Fáist það gert á hagstæðu gengi, þá myndast svigrúm fyrir sjóðina að koma til móts við þá sem fengið hafa sjóðfélaga lán vegna fasteignakaupa. Ef miðað er við að 162 milljarðarnir sem voru í sjóðfélagalánum 30.11.2008 séu allir vegna fasteignakaupa og lækka eigi höfuðstól lánanna um jafnvirði vísitöluhækkunar ársins, þá gerir það í mesta lagi um 30 milljarða. Þetta er ekki há tala í ljósi heildareigna sjóðanna upp á rúma 1.700 milljarða eða eingöngu 1,8%. Upphæð sem ætti ekki að vera lífeyrissjóðunum um megn.
Þær aðgerðir, sem gripið verður til, verða að tryggja eins og kostur er, að fólk fái haldið húsnæði sínu, a.m.k. þar til eðlileg verðmyndun og velta er komin á fasteignamarkað, þannig að fólk fái sanngjarnt verð fyrir eigur sínar séu engin önnur úrræði. Þær verða einnig að stöðva tímabundið aðfarir, nauðungarsölur og að kostnaður hlaðist upp á skuldarann vegna óþarfa aðgerða af hálfu lánadrottna uns fundin hefur verið ásættanleg lausn á vandanum sem skilgreindur var ofar í skjalinu.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marínó.
Ef satt skal segja þá setur mann hljóðan. Ég hef á tilfinningunni að þarna sé verið að hlera hvað alþjóð segir um þessa hugmynd. Ég sé líka á hinum ýmsu bloggum að fólk er orðið ráðvillt og dofið. Það eru undarlega lítil viðbrögð fólks við flestu sem ber á góma varðandi skuldir, skatta og verðhækkanir þessa dagana. Það virðist að gjaldþrot sé bara kannski ekki versti kosturinn. Ég fullyrði samt ekkert um það því ég ásamt flestum öðrum veit ekki vel hvað það felur í sér. En þegar ekki er hægt að sjá glufu í gegnum skuldirnar um betri tíð seinna þá fer greiðsluviljinn, fólki fer að verða alveg sama, því að greiða er hvort sem er óviðráðanlegt. Baráttuþrekið fer sem sagt. Eða eins og sagt er því sem þú getur ekki breytt, reyndu ekki að breyta því. Það eru mannleg viðbrögð að draga þá bara andann léttar, sætta sig við það sem þú getur ekk breytt og taka síðan því sem að höndum ber. En varðandi þetta nýjasta útspil þá dettur manni helst í hug að þetta sé í fyrsta lagi vinnuletjandi því ef tekjur aukast borgarðu bara meira þótt þú getir varla borgað það sem fyrir er, í öðru lagi að þetta sé enn eitt báknið sem þarf að greiða fyrir vegna allrar vinnunnar við útreikninga, í þriðja lagi kemur ekki nógu skýrt fram hvort eigi að greiða afborgun fullum fetum og síðan einu sinni á ári að fá endurgreitt, í fjórða lagi sér maður fyrir sér ævilangt skuldafangelsi......
Ég renndi augum yfir áður skrifaða samantekt þína og rak þá augun í þá hugmynd að nota lífeyrissjóðina til að kaupa jöklabréfin. Af hverju er það ekki gert?
Mér er alveg fyrirmunað að skilja af hverju lífeyrissjóðirnir eru ekki notaðir til að kaupa þessi jöklabréf út og eins til að losna við Icesave fyrir fullt og allt. Það kom fram hugmynd fyrir nokkru að láta Breta og Hollendinga fá allt lánasafn Landsbankans og reiða fram til þeirra 250 milljarða í vexti strax og vera svo bara laus við þá fyrir fullt og allt. Þetta myndi létta þrýstinginn af genginu. Það verður almenningur sem þarf að blæða fyrir þetta allt hvort sem er og af hverju þá ekki að gera allt sem við getum til að ná genginu niður og vöxtum og byrja síðan á nýjan leik og greiða þá nokkru hærra til lífeyrissjóðanna en verið hefur. Það myndi vera góð ávöxtun fyrir sjóðina.
En nei eins og nú stefnir verður hálf þjóðin komin í fang ríkisins áður en við vitum af.
Svanborg (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 22:21
Þú telur upp fimm helstu ástæður fyrir vandanum en engin þeirra tengist á nokkurn hátt persónulegri ábyrgð. Ber fólk að þínu mati enga ábyrgð á því að hafa offjárfest í dýrum bílum og stórum (eða mörgum) húsum?
Hvað finnst þér um að fólk tók jafnvel 100% erlend bílalán fyrir bifreiðum sem kostuðu meira en fimm milljónir?
Hvað með fólk sem keypti húsnæði, nýjar innréttingar, fínustu tæki, nýjan bíl og utanlandsferðir. Ber það enga ábyrgð? Hvað með fólkið sem varð með milljónir á mánuði í tekjur og skuldsetti sig einnig upp í rjáfur í stað þess að leggja fyrir?
Eigum við að þínu mati ekki að gera neinn greinarmun á þeim sem skuldsettu sig mikið og þeim sem gerðu það ekki? Þeim sem keyptu sér allt nýtt eða hinum sem ákváðu frekar að spara? Þeim sem staðgreiddu bílana sína eða þeim sem tóku erlent lán fyrir dýrari bíl?
Hvar er sanngirnin í því?
Matthías Ásgeirsson, 4.9.2009 kl. 09:07
Matthías, það má örugglega bæta við fleiri atriðum, en ég er að reyna að greina á milli atriða sem hefðu hvort eð er komið fólki í vanda og eru því óháð hruni hagkerfisins og atriða sem eru afleiðingar af hruni hagkerfisins. Ég tel það ekki vera hlutverk úrræða að skera fólk niður úr snörunni sem óábyrgni kom þeim í og þó svo við komum með leiðréttingar, þá er líklegt að einhver hluti landsmanna verði áfram í vanda. Málið er að bæði greiðsluaðlögun ríkisstjórnarinnar og skuldaaðlögun Kaupþings nýtast best þeim sem tóku mesta áhættu, svo sem yfirskuldsetningu og 100% lán. (Ég er ekki að segja að þetta nýtist ekki öðrum líka.) Hinum er ætlað að bera harm sinni í hljóði.
Ekki mál heldur líta framhjá því að stór hópur fólks hafði á þeim tíma sem lánin voru tekin allar forsendur til að standa undir skuldbindingum sínum (þrátt fyrir "eyðslufyllerí"), en síðan breyttust ytri og innri aðstæður. Fólk komst í þær aðstæður sem það er í af ýmsum ástæðum. Sumt af eigin völdum og annað vegna atriða sem það hafði enga stjórn á. Ég ætla mér ekki að setjast í dómarasæti og ákveða hverjir eru verðugir þess að fá hjálp og hverjir ekki. Þess vegna tel ég svo mikilvægt að fá umræðu um þetta og helst að setja þessi mál í gerðardóm til að hraða úrlausn málsins.
Marinó G. Njálsson, 4.9.2009 kl. 09:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.