24.8.2009 | 23:02
Furðuleg afstaða Ráðgjafastofu heimilanna
Ég hlustaði á Ástu Sigrúnu Helgadóttur, forstöðumann ráðgjafastofu heimilanna, í Kastljósi í kvöld. Ég furða mig á fjölmörgum ummælum sem þar komu fram. Ásta virtist á flestan hátt verja fjármálastofnanir og stjórnvöld í staðinn fyrir að verja hagsmuni skjólstæðinga sinna, heimilanna. Það var alveg sama hvaða atriði voru borin upp, alltaf tókst Ástu að taka þann pól í hæðina að fólk ætti að greiða fram í gjaldþrotið. Vandamálið var svo erfitt, að stjórnvöld hefðu bara ekki haft tíma til að leysa það. Samningar voru með fyrirvara um verðbólgu og gengisþróun og fólk átti að vita það.
Það er rétt að fólk skrifaði undir með fyrirvara um þróun verðbólgu og gengis, en það reiknaði ekki með því að lánveitandinn myndi kerfisbundið vinna gegn lánasamningnum eins og virðist hafa gerst. Fólk skrifaði ekki undir að slíkt myndi gerast. Fólk treysti því líka að greiningadeildir bankanna væru að greina satt og rétt frá. Miðað við það sem hefur komið fram, þá hafa greiningadeildirnar annað hvort verið skipaðar gjörsamlega vanhæfu fólki eða þær voru virkur þáttur í blekkingunni. Ég get tekið mýmörg dæmi um álit og spár greiningadeildanna, þar sem þær reynast hafa verið að fara með staflausa stafi, fleipur og vitleysur. Fólk skrifaði undir lánasamninga í trausti þess að greiningadeildirnar væru traustsins verðar. Þær voru það ekki og ég viðurkenni fúslega, að ég treysti ekki einu einasta orði sem kemur frá þeim eða fyrrum starfsmönnum þeirra í dag eða tek með miklum fyrirvara. Ég er líka tortrygginn gagnvart þeim sem skipt hafa um starfsvettvang.
Mér fannst alveg ljóst á þessu stutta viðtali við Ástu, að það er fyrst og fremst tilgangur Ráðgjafastofu heimilanna að hjálpa bönkunum að blóðmjólka viðskiptavinina. Ráðgjafastofan er ekki á nokkurn hátt að taka afstöðu með skuldurum í vanda. Nei, afstaðan er 100% tekin með þeim sem borga launin, þ.e. stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með viðbrögð Ástu, svo ekki sé meira sagt.
Það sem Sigurður G. Guðjónsson var að kynna einfaldan hlut, sem heitir deponering. Þetta er vel þekkt úrræði, þegar ágreiningur er um upphæð greiðslu. Deponering hefur í áratugi, ef ekki árhundruð, verið notuð til að leggja til hliðar pening án þess að borga skuldareiganda fulla upphæð. Áhættan af deponeringu er almennt engin, þar sem peningarnir eru lagðir inn á vaxtaberandi reikning á meðan. Það hlýtur að vera eðlilegt að gefið sé tækifæri til að útkljá álitaefni fyrir dómstólum. Tökum öll þessi atriði sem Sigurður nefndi og bætum síðan við efasemdum um lögmæti gengisbundinna lána. Af hverju svarar FME ekki fyrirspurn Hagsmunasamtaka heimilanna um lögmæti gengistryggðra lána? Annað sem hafa skal í huga. Fólk fer ekki á vanskilaskrá, ef það er lagalegur ágreiningur um skuldina. Gerist það, þá á fólk einfaldlega að hafa samband við CreditInfo og skýra mál sitt og þessi tilteknu vanskil eru tekin út af skránni.
Síðan eru það úrræðin. Ásta sagði aftur og aftur að staðan væri svo erfið og flókin. Það eina sem er erfitt og flókið í stöðunni er að fá stjórnvöld til að ræða málin. Hagsmunasamtök heimilanna hafa beðið frá því í febrúar eftir því að Jóhanna og Steingrímur kalli fulltrúa samtakanna á fund, eins og þau nefndu á sínum fyrsta blaðamannafundi. Ásta fullyrti að stjórnvöld væru að reyna að finna leiðir til að aðstoða fólk. Hvað hefur komið frá stjórnvöldum? Jú, þau hafa verið önnum kafin við að hafna öllum leiðum sem aðstoða fólk, en leita frekar leiða til að tryggja að fjármálafyrirtækin fái sem mest. Já, þessi sömu fjármálafyrirtækin sem lögðu allt í rúst. Ef stjórnvöld vilja finna leiðir til að hjálpa fólki, þá er fyrsta skrefið að ræða við FÓLK ekki fjármálafyrirtæki, stjórnmálamenn eða embættismenn. Fólkið vill lausnir sem hentar því, en ekki lausnir sem henta stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum.
Ásta talaði um að nauðsynlegt sé að styrkja greiðsluviljann og greiðslugetuna, en gefur svo í skyn að illa gæti farið fyrir Íbúðalánasjóði. Af hverju óttast menn ÍLS? Það er ekkert sem bendir til að ÍLS fari illa nema að fólki sé stefnt í þrot. ÍLS hefur lánað út um 450 milljarða til heimilanna. Ef við segjum að 20% verði afskrifað, þá er það 90 milljarðar. Það er innan við 8% af því sem varið var í að verja innistæður í bönkunum þremur. Ef þessi upphæð er afskrifuð á lánstíma lánanna, þá gerir þetta um 3 milljarða á ári í 30 ár. Ef þessi leið er ekki farin, þá þarf ÍLS að afskrifa beint um 45 milljarða vegna tapaðra veða, auk þess má búast við því að á næstu árum bætist í þetta einhverjir tugir milljarðar. Áttar fólk sig ekki á því að ákveðinn hluti útlána er þegar tapaður. Hann er sokkinn kostnaður og peningurinn kemur aldrei aftur.
Annars tiplaði Ásta Sigrún í kringum spurningarnar eins og köttur í kringum heitan graut. Hún svaraði engu beint og forðaðist að koma með skoðun á nokkrum hlut, ef hugsast gat að það styggði stjórnvöld og fjármálafyrirtæki. Það eru nærri 11 mánuðir síðan bankarnir féllu á nefið og hátt í 18 mánuðir síðan krónan hóf ferð sína niður í hyldýpið. Af hverju hefur Ráðgjafastofa heimilanna ekki kallað eftir fleiri úrræðum fyrir umbjóðendur sína allan þennan tíma? Ef það er einhver aðili sem sér hvað vandinn er mikil, þá hlýtur það að vera Ráðgjafastofa heimilanna, en nei það hafa engar opinberar tillögur komið frá þessu apparati. Engar.
Ásta Sigrún fullyrti að "við" hefðum ekki ráð á almennri skuldaniðurfellingu (ég giska í anda tillaga HH, Framsóknar og fleiri). Hvað veit hún um það? Það hefur ekki farið fram nein umræðu um lausnir. Eina sem hefur verið gert er að hafna öllum og útmála það sem ómögulegt, óframkvæmanlegt. Hún vill nýta sértæk úrræði fyrir hina allra verst settu. Málið er að þó núna séu frekar "fáir" (kannski 10 þúsund) í hópi hinna "allra verst settu", þá mun fjölga hratt í þeim hópi ef beðið verður með úrræði á línuna. Það verður að koma með víðtæk úrræði fyrst og síðan hafa öryggisnet undir fyrir þá sem ekki tekst að bjarga með víðtækum úrræðum. Ráðgjafastofa heimilanna annar ekki öllum sem þangað ættu að leita og margir forðast að leita þangað vegna þess að úrræði stofunnar eru svo takmörkuð og miðuð við að tryggja fjármálafyrirtækjunum sitt. Það hafa aðilar hringt í mig sem hafa ekki sagt farir sínar sléttar eftir að hafa haft samband við ráðgjafastofuna. Fólk hefur séð eftir að fara þangað og fundist sem það hafi verið neytt út í aðgerðir sem það telur eftir á hafa verið sér ákaflega óhagstætt. Aðrir hafa verið ánægðir með úrræðin. Síðan er hópur sem segist ekkert hafa fengið út úr samskiptum sínum við ráðgjafastofuna. Ég man sérstaklega eftir einu pari sem fékk þá tillögu að selja íbúðina sína. Ég ræddi í nærri klukkutíma við þann aðila. Viðkomandi var á barmi örvæntingar og sagðist ekki skilja þá mannvonsku sem fólst í ráðgjöfinni sem viðkomandi fékk.
Staðreyndin er sú að úrræðin vantar vegna þess að ríkisstjórnin hélt að málið myndi leysast af sjálfu sér. Það er nákvæmlega ekkert gagn í nefnd pólitískra "sérfræðinga". Kristrún Heimisdóttir er allra góðra gjalda verð, en henni var falið að finna lausn sem er ríkisstjórninni þóknanleg. Nefnd embættismanna úr ráðuneytunum. Sorry, ég treysti ekki stjórnvöldum, ég treysti ekki embættismönnum og ég treysti ekki bönkunum. Vilji Árni Páll, Jóhanna og Steingrímur finna lausn, þá er lágmark að lausnin byggi á forsendum heimilanna. Að lausnin tryggi að fólk haldi heimilum sínum. Að í lausninni felist sanngjörn og réttlát leiðrétting á því ástandi sem fjármálafyrirtækin sköpuðu hér á landi með rúllettu spili sínu með fjöregg þjóðarinnar. Vilji stjórnvöld skipa nefnd, þá þurfa að sitja í henni fulltrúar neytenda og fulltrúar heimilanna. Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, kom með tillögu að slíkri nefnd 20. maí sl., en hún var úthrópuð af þeim sem ekki áttu hugmyndina. Nefnd Gísla átti að vera skipuð tveimur frá neytendum, tveimur frá lánveitendum og oddamanni skipuðum að Hæstarétti. Hvernig væri bara að skipa þessa nefnd og senda Kristrúnu í eitthvað verkefni í tengslum við ESB? Hún hefur mun meira vit á þeim málum. Nú ef Hæstiréttur treystir henni í hlutverk oddamanns, þá mætti hún alveg taka þá stöðu. Ég get ekki séð að nefnd embættismanna, sem fá pólitískt erindisbréf, sé það sem almenningur vill sjá.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Já þetta var undarleg afstaða sem kom fram hjá forstöðukonunni. Ég velti þessu fyrir mér í dágóða stund en þá rann upp fyrir mér ljós. Jú auðvitað vill hún ekki að fólk fari í neinar aðgerðir sem geta leyst vandann án aðkomu ráðgjafarstofunnar. Þá verður stofan verkefnalaus ekki satt. Því miður held ég að þetta sé raunin. Þvergirðingsháttur bankana og nokkurra stjórnmálamanna er af sama toga. Þetta fólk er bara að verja eigin atvinnuhagsmuni, vina og vandamanna. Ísland hefur lítið skánað, er orðið að skömmtunarseðla skrifræðis samfélagi í anda gamla sovétsins.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 23:41
Fróðlegur vinkill, Marinó.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 23:52
Ætli afstaða Ráðgjafastofu heimilanna vinni ekki eftir tilskipun frá stjórninni, svona í anda skjaldborgar sem byggja átti um heimilin í landinu. Ráðgjafarstofa tjaldborgarinnar væri kannski réttnefni á fyrirbærinu.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.8.2009 kl. 00:20
Ráðgjafastofa heimilanna gefur þeim verst settu það ráð að semja við lánastofnanir um að lengja í láninu, fá það tímabundið fryst. Þetta hefur svipuð áhrif á fólkið og morfín á einstakling. Það heldur að þar tímabundið sé ekki lengur pressa á þeim til að borga, þá hverfi hún bara, gufi upp, þetta reddist. Það gerist einmitt ekki með slíku hugarfari.
Takk fyrir góðan pistil, Marinó.
Hrannar Baldursson, 25.8.2009 kl. 06:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.